7.6.2008
Getur einhver hjálpað mér að skilja?
Það mun vera hægt að mæla greindarvísitölu - og er gert. Ég hef ekki hugmynd um hver mín greindarvísitala er, en tel víst að hún sé í sæmilegu meðallagi. En í fyrradag hlustaði ég á viðtal sem ég botnaði ekkert í, þ.e. málflutningi viðmælandans og röksemdarfærslum hans. Hvort skilningsleysið hefur eitthvað með greindarvísitölu mína að gera veit ég ekki, en leita á náðir ykkar til að hjálpa mér að skilja manninn.
En þó að þið lesið ekki allan textann eða skrifið athugasemdir með túlkun á viðtalinu bið ég ykkur að spila samt myndbandið hér neðst í pistlinum, það segir líka sögu. Svo kemur seinni hluti uprifjunarinnar bráðum, hann er í vinnslu.
Viðtal þetta var í Morgunútvarpi Rásar 1, fimmtudaginn 5. júní. Viðmælandinn var Hilmar Foss, annar þeirra sem vinna að því að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Hinn er Ólafur Egilsson sem lét út úr sér gullkornið sem ég setti inn í þessari færslu og ýmis fleiri sem komið hafa fram í viðtölum við hann.
Ég hlustaði á viðtalið og botnaði ekki neitt í neinu. Ég hlustaði aftur og svo í þriðja sinn. Eins og ég kom inn á hér hef ég betra sjónminni en heyrnar þannig að ég tók á það ráð að skrifa viðtalið niður orð fyrir orð. Er svo búin að lesa það tvisvar og enn skil ég ekki hvað maðurinn er að fara. En ég neita að gefast upp. Þetta er nú einu sinni einn þeirra sem hafa fjöregg okkar allra í höndum sér, ómetanlega náttúru Íslands. Eins og fram kemur hjá útvarpsmanninum í lokin hefur ríkisvaldið engar lagaheimildir til afskipta af þessum mönnum nema með tilmælum og eftirliti með því að farið sé að lögum. Það eitt og sér er ótrúlegur og hrikalegur veruleiki. Mér finnst því afar mikilvægt að skilja hvað þeir eru að segja.
Getur einhver hjálpað mér að túlka þetta viðtal, benda á staðreyndir sem þar koma fram (ef einhverjar) og útskýra rökfærslur? Ég setti hljóðupptöku af viðtalinu í tónspilarann efst til vinstri - þar er það merkt "Morgunvaktin á Rás 1 - Hilmar Foss - Olíuhreinsistöð". Þið getið því hlustað um leið og þið lesið.
Útvarpsmaðurinn er Haukur Már Helgason.Haukur Már - Inngangur: Ísland er nú sagður fýsilegur staður fyrir olíuhreinsunarstöð vegna legu á milli rússneskra olíulinda og bandarískra fyrirtækja og neytenda. Enn hefur ekkert verið gefið upp um hvaða fyrirtæki eiga olíuna sem unnin yrði í stöðinni, en aðeins virðist um bandarísk eða rússnesk fyrirtæki að ræða. Vitað er að olían kæmi úr sjó norðan af Rússlandi.
Í Bandaríkjunum hefur ekki verið reist ný olíuhreinsistöð í 29 ár og afköst þeirra sem fyrir eru annar engan veginn eftirspurn. Þörfin fyrir fleiri olíuhreinsunarstöðvar jókst enn við fellibylinn Katrínu sem skaðaði iðnaðinn tilfinnanlega árið 2005.
Talað hefur verið um fjárfestingu og framkvæmdir upp á um 400 milljarða króna og Hilmar Foss, framkvæmdastjóri Íslensks hátækniiðnaðar, sagði að gera mætti ráð fyrir að stöðin sjálf myndi þurfa á um 500 manns til starfa auk þess sem vinnuafls væri þörf umleikis við hafnarvinnu og slíkt. Áhrifin á atvinnulíf Vestfjarða yrðu gríðarlega mikil, áhrifin á íslenskt hagkerfi veruleg og auk þess myndi Ísland með tilkomu stöðvarinnar teljast til olíuframleiðslulanda, eins og Hilmar orðar það, sem væntanlega hefði veruleg áhrif á ímynd og sjálfsmynd Íslendinga. Skemmst er að minnast skýrslu frá nefnd forsætisráðuneytisins um ímynd Íslands, þar sem Íslendingum er meðal annars lýst sem frjálslegum náttúrubörnum og náttúra landsins talin til lykilatriða í sjálfsmynd þjóðarinnar. Hilmar segist hins vegar ekki gera ráð fyrir að nein átök séu fram undan um málið.
Hilmar Foss: Kyoto-bókunin, eins og hún er kölluð, hún er tímabil eins og við þekkjum það frá 2008 til ársloka 2012. Hvað tekur við af því veit enginn. Það getur vel verið að einhverjir hafi hugmyndir um það að við eigum að gera þetta frekar en hitt og svo framvegis. En það er eitt sem er alveg ljóst, að það sem tekur við kemur ekki til með að snerta okkur með neinum öðrum hætti heldur en aðra. Þá á ég við jafnvel þig eða mig, álverið á þessum stað eða hinum staðnum, járnblendi hér eða járnblendi þar þar. Það vill meina að það sem tekur við kemur til með að ganga yfir alla á grundvelli jafnræðis. Ég get ekki séð það að það komi til með að snerta okkur með einhverjum verri hætti heldur en aðra ef að það verður tekin ákvörðun hér til dæmis að íslensk starfsemi þurfi að kaupa losunarkvóta frá erlendum ríkjum sem í raun er þá ekkert annað en erlend skattlagning á innlenda starfsemi. Og kannski ekki til neins annars fallin heldur en að láta einhverjum kannski líða betur eða... eða... eða að... ja, ég veit ekki alveg eða hvað.
Haukur Már: Náttúruverndarsamtök Íslands og Umhverfisráðuneytið hafa bæði látið hafa eftir sér að ummæli Hilmars Foss um Kyoto-bókunina séu fráleit. Eftir árið 2012 munu reglur vera þrengri en ekki rýmri en nú er. Árni Finnsson hjá Náttúruverndarsamtökunum segir Íslendinga hafa skuldbundið sig til að hlíta næstu bókun með samþykkt frá fundi á Balí í fyrra. Hins vegar sé ljóst að aðilar að olíuhreinsunarstöð geti keypt sér losunarheimildir. Hilmar segir eðlilegt að rætt sé um mikilvæg mál.
Hilmar Foss: En það hlýtur að þurfa að gera það af skynsemi og á vitrænan hátt og ekki bara af því. Það er allt í lagi og hið besta mál ef að einhver er á móti þessu eða á móti hinu. Ég get verið á móti einhverju bara af því. Það er ekkert að því. En ég á ekki að fara að búa mér til einhver rök þegar að grunnástæðan mín er bara af því. Sjáðu til dæmis með einhvern sem að kemur og segir: "Við þurfum að hugsa til þess að keyra minna eða gera þetta eða gera hitt og svo framvegis" og þú færir aðeins og skoðaðir hans umgjörð og þú spyrðir: "Áttu örbylgjuofn?" Hann myndi segja nei. "Horfirðu á sjónvarp?" Hann segir nei. "Áttu DVD?" Hann segir nei. "Drekkurðu te eða kaffi?" Nei. Gerirðu þetta eða gerirðu hitt og svo framvegis og þú sérð það að hans lífsumgjörð er sko gjörsamlega gjörólík öllu því sem að þú þekkir. Ekki bara hvað varðar þetta að keyra bílinn heldur það er á línuna. Og það er þetta sem að þarf að huga að. Við vitum það að sértrúarsöfnuður er öðruvísi heldur en eitthvað annað. Og það er fínt, við búum við frelsi og svo framvegis... til trúmála, til skoðana og svo framvegis.
Haukur Már: En ekki má gleyma, segir Hilmar, að tilkomu fyrirtækis af þessari stærð fylgi mörg störf sem tengjast fyrirtækinu ekki beint, nýir vegir sem fólk gæti ekið án þess að koma nálægt neinu sem tengist starfsemi olíuhreinsistöðvarinnar.
Hilmar Foss: Þannig að kostirnir geta verið gríðarlega miklir fyrir afar marga af allt öðru vísi ástæðum. Við fengum malbikaðan veg til Keflavíkur af því að Ameríkaninn borgaði hann. Það var "by-product" á sínum tíma af herstöðinni. Hefði ekki komið fyrr en löngu seinna því við hefðum ekki átt fyrir því. En svo voru margir sem vildu keyra eftir veginum en voru samt á móti hernum sko... sem er allt í lagi.
Haukur Már: Hilmar lætur líka í ljósi efasemdir um að losun koltvísýrings sé beinlínis mengun.
Hilmar Foss: Hluturinn er sá að þessi losun, sem margir kalla mengun, og sú umræða sem að við höfum séð og alveg eins ég eins og þú, hún hefur beinst að koldíoxíði eða koltvísýringi, en það hefur enginn verið að horfa til sko raunverulegrar mengunar, það er það sem lætur þig hósta ef þú andar því að þér. Það eru fiskvinnslur á Norðurlandi í dag sem að setja frá sér mengun - með emmi - á við 30.000 manna bæ. Það er enginn að horfa til þess. Það er bara frá fiskvinnslu, það er allt í lagi. En það er svakaleg mengun sem að rennur út um skolprör undir bryggju hvar haldin er dorgveiðikeppni á hátíð einu sinni á sumri... sem dæmi. Þannig að það þarf að vera annað hvort samhljómur og svo framvegis.
Haukur Már: Eins og fram kom í fréttum telur Anna Kristín Ólafsdóttir, aðstoðarkona umhverfisráðherra, enn ekki ástæðu til að taka hugmyndirnar alvarlega en ef af verður segir hún ríkisvaldið ekki hafa neinar lagaheimildir til afskipta nema með tilmælum og eftirliti með því að farið sé að lögum. Jarðnæði er fundið og sveitarfélagið velviljað. Það virðist því alfarið í höndum Hilmars Foss og viðskiptafélaga hans hvort Ísland verður olíuframleiðsluland á næstu árum eða ekki.
Svo mörg voru þau orð. Skilur einhver hvað Hilmar Foss er að fara? Skilur einhver rök hans og dæmisögur? Skilur einhver viðhorf hans til mengunar?
Ég hef fjallað um Skipulags- og byggingarlögin og gagnrýnt harðlega að fámenn sveitarfélög geti tekið ákvarðanir sem bitna á nágrannasveitarfélögunum og jafnvel landsmönnum öllum. Þannig er þessu máli háttað og fullyrt er af mörgum að Grímur Atlason, fyrrverandi bæjarstjóri í Bolungarvík, hafi verið látinn fjúka vegna þess að hann var ósáttur við vinnubrögðin í kringum fyrirhugaða olíuhreinsistöð.
Misvitrir bæjar- og sveitarstjórar með örfá atkvæði á bak við sig geta tekið gríðarlega stórar ákvarðanir og landsstjórnin virðist ekki geta spornað við því. Frumvarp umhverfisráðherra um ný lög þar að lútandi fór ekki í gegn á nýliðnu þingi. Í þessum pistli kom meðal annars fram að meirihluti bæjarstjórnar Vesturbyggðar er með heil 345 atkvæði á bak við sig og sú bæjarstjórn fer með skipulagsvald í Arnarfirði þótt flestir bæjarstjórnarmenn búi á Patreksfirði. Bæjarstjórinn heitir Ragnar Jörundsson og ég botna ekkert í honum frekar en í Hilmari Foss eða Ólafi Egilssyni. Eruð þið sátt við að fjöreggið okkar sé í höndum svona manna? Treystið þið þeim?
Ég setti saman myndband í kvöld og tileinka þessum mönnum, sem og sveitarstjóranum í Ölfusi og öðrum þeim, sem hafa náttúru Íslands í hendi sér. Aðgát skal höfð í nærveru sálar... og náttúran hefur svo sannarlega sál.
Halldór Laxness sagði: "Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu."
Ísland er land þitt
Ísland er land þitt, og ávallt þú geymir
Ísland í huga þér, hvar sem þú ferð.
Ísland er landið sem ungan þig dreymir,
Ísland í vonanna birtu þú sérð,
Ísland í sumarsins algræna skrúði,
Ísland með blikandi norðljósa traf.
Ísland er feðranna afrekum hlúði,
Ísland er foldin, sem lífið þér gaf.
Íslensk er þjóðin sem arfinn þinn geymir
Íslensk er tunga þín skír eins og gull.
Íslensk sú lind, sem um æðar þér streymir.
Íslensk er vonin, af bjartsýni full.
Íslensk er vornóttin, albjört sem dagur,
Íslensk er lundin með karlmennskuþor.
Íslensk er vísan, hinn íslenski bragur.
Íslensk er trúin á frelsisins vor.
Ísland er land þitt, því aldrei skal gleyma
Íslandi helgar þú krafta og starf
Íslenska þjóð, þér er ætlað að geyma
íslenska tungu, hinn dýrasta arf.
Ísland sé blessað um aldanna raðir,
íslenska moldin, er lífið þér gaf.
Ísland sé falið þér, eilífi faðir.
Ísland sé frjálst, meðan sól gyllir haf.
Magnús Þór Sigmundsson / Margrét Jónsdóttir
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Náttúra og umhverfi, Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.6.2008 kl. 13:45 | Facebook
Athugasemdir
Getur verið að talmálið hafi ekki náð með inn á síðuna? (kannski kann ég ekki á þett)
Beturvitringur, 7.6.2008 kl. 02:30
Bæði búinn að lesa og hlusta. Er þetta örugglega ekki úr einhverjum skemmtiþætti? Laddi alias Hilmar Foss eða....? Er þessi Hilmar Foss nokkuð til?
Það er bara eitt sem maður fær að á hreint við að lesa þetta, verður ekkert skýrara eða skiljanlegra með því að hlusta - enda auðskilið: Kyoto bókunin er tímabil
Hafðu þökk fyrir að vekja athygli á þessu.
Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 7.6.2008 kl. 02:38
Vonandi er Hilmar greyið Foss útlendingur? Ekki talar hann íslensku, svo mikið er víst. Það kemur líka betur út fyrir hann, sé meiningin að enginn skilji hann, það tekst allavega.
Hlýtur allavega að vera "á einhverju" Eða þarf að virkja þennan foss.
Ég vil ekki skilja betur hvað hann er að fara. Oft er slíkt einstrengingslegt fólk í stjórnar- og/eða valdastöðum. Hvað getum við gert? Hvað MEGUM við gera? Lýðræði í mörgum málum virðist ekki til.
Beturvitringur, 7.6.2008 kl. 02:45
ég þurfti ekki að lesa langt inn í viðtalið. viðurkenni að ég las ekki allt. ég týndist gersamlega í rökstuðningi Hilmars. mér datt í hug gamli Spaugstofuskeddsinn, þegar Arnarflug var að fara á hausinn. þá lék Sigurður Sigurjónsson forstjóra Arnarflugs, hvers nafn ég ekki man. hann var að bera saman samkeppnisaðstæður Arnarflugs og Flugleiða. ég man nú ekki orðrétt hvað hann sagði en efnislega var það á þá leið að, við gætum borið saman tvo menn. annar fengi sér Kornflakes í morgunmat en hinn ætti frænku í Keflavík. rétt eins og ég, skildi spyrillinn ekki samlíkinguna.
Brjánn Guðjónsson, 7.6.2008 kl. 02:48
Sá hylur, sem Hilmar Foss fellur í, má sannlega kalla hyl sértrúnaðar. Því lengur, sem slíkur Foss fellur, því dýpri verður sértrúarhylurinn og koma verður í veg fyrir að slíkt gerist. Upplýst, íslensk þjóð, á að hafa og hefur alla burði til að beina farvegi slíkra mengaðra fallvatna útí ystu myrkur.
Ásgeir Kristinn Lárusson, 7.6.2008 kl. 08:37
H.Foss er sannarlega Íslendingur en hefur búið mikið erlendis bæði sem barn og fullorðinn.....skýrir kannski íslenskuna. Gamall vinur minn sem fer stundum fram úr sjálfum sér. En ég er sannarlega ekki sammála honum um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum.
Hólmdís Hjartardóttir, 7.6.2008 kl. 09:51
Ég segi fyrir mitt leiti og hef skráða töluvert háa IQ frá HI hér um árið að ég veit ekkert um hvað Fossin er að tala.
Óskar Þorkelsson, 7.6.2008 kl. 10:39
Ég segi eins og Brjánn, ég hélt að þetta væri djók.
Takk kærlega fyrir mig.
Jenný Anna Baldursdóttir, 7.6.2008 kl. 14:40
Elsku Lára. Ég las þetta og er engu nær en þú. Ég skil ekki þennan "rökstuðning" ef hægt er að tala um slíkan. Þakka þér fyrir myndbandið. Ég táraðist þegar ég horfði á það - enda elska ég land mitt, eins og þú, og þá ekki síst Vestfirðina þaðan sem ég á báðar ættir að rekja. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda ef í hinum stórkostlega Arnarfirði rís ófreskja á borð við þá sem þú sýndir okkur í myndbandi þínu. Ég vorkenni þessu blessuðu fólki sem tjáir sig í myndbandinu þínu og þá ekki síst Hilmari Foss.
Við verðum að berjast gegn þessum óskapnaði.
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 7.6.2008 kl. 14:48
Ég sver, sama hversu oft maður les þetta að þá er maður hreinlega engu nær.
Valgerður Sigurðardóttir, 7.6.2008 kl. 16:00
Settir inn í bíl á meðan.
http://vf.is/veftv/552/default.aspx
Jóhann (IP-tala skráð) 7.6.2008 kl. 16:47
Þegar eg var að alast upp í Reykjavík rakst eg stundum á þetta nafn: Hilmar Foss.
Sá var virtur borgari í Reykjavík, útskrifaður úr Verslunarskólanum 1938. Gott ef hann starfaði ekki sem stórkaupmaður en hann var skjala- og dómtúlkur og þóti nokkuð sleipur á því sviði. Myndin er af mun yngri manni sem gæti verið á aldrinum 40-50 ára en varla meira en um sextugt.
Um greindarvísitölu er það að segja, að hún er sem aðrar vístölur tilbúin mælingaaðferð í þessu tilfelli að leggja mælikvarða á hversu hátt eða lágt greind verði mæld meðal manna. Einhvern veginn er einhver tortryggni sem þessu hugtaki fylgir, kannski að upp rifjist aðferðir nasista þriðja ríkisins að greina milli þeirra sem minna máttu sín frá hinum sem töldust bjargálna.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 7.6.2008 kl. 17:12
Það mætti halda að maðurinn sé á einhverjum lyfjum...hefur það eitthvað verið kannað...
alva (IP-tala skráð) 7.6.2008 kl. 18:53
Heil og sæl Lára Hanna!
Nei, það er frekar lítið um kjarnyrtan rökstuðning að ræða í þessu viðtali og augljóst að þessum manni er ekki mjög tamt að tjá sitt mál upphátt. Ekki þarf að hlusta á hann til að álykta svo og ef þetta er í takt við annað sem hann lætur út úr sér. Ég ætla hins vegar ekki að öðru leiti að tjá mig um hans persónu, er ekki við hæfi þar sem fólk vill viðhafa málefnalega umræðu. Hitt er ljóst, að hrein og bein rangyndi eru ´hans máli er varðar mengun í fiskvinnslu og það í einvherjum 30000 manna bæ!? Sá bær eða byggðakvjarni er ekki til á norðurlandi svo mikið er víst og þótt hægt væri með herkjum að safna upp í þá tölu í hinum langa og margbýla Eyjafirði þá erum við að tala um hundruðir km. samtals þannig að þessi stóra samtala ætti að nást! Ekki er sú fiskvinnsla til á byggðu bóli þó slæm þætti, sem næði slíkri útbreiðslu!
En þetta ætti hvorki ég eða þú Lára mín Hanna að þurfa að segja þessum ágæta manni til uppfræðslu, það ætti nú nefndur sveitarstjórnarmaður Ragnar Jörundsson, að geta gert og það af mikilli þekkingu! Hann er nefnilega komin út frá hinum sögufræga hákarla-Jörundi, eða honum skyldur og var meira að segja um hríð sveitastjóri í Hrísey, þar sem Jörundur gerði nú út á sinni frægðartíð!
Frystihús, gott og stórt, áður kennt við ÚA, en nú við Brim og byggt af föðurafa mínum og svo elsta föðurbróður, starfar nú enn hér í bæ, en fáum sögum fer af mengun og meiri háttar hóstaköstum í þá rúmu hálfu öld sem það hefur staðið!
Hins vegar var hér í áratugi loðnu- og síldarverksmiðja í Krossanesi er hér er rétt norðan og austan við helsta byggðakjarnan. Af henni vantaði nú ekki fnykin og mengunarbræluna, sem þó hefur sem víðar í hálfkæringi verið nefnd "Peningalykt" Hún hefur að sönnu verið slæm og pirrandi er vinnsla þar stóð sem hæst og eflaust eitthvað skaðleg, en EKKI var hún hóstavaldur samt heldur svo ég muni!
En þeirri vinnslu var nú lokað fyrir nokkru svo hún telst ekki lengur með í umræðu sem þessari auk þess sem hundruðum milljóna var eytt í mengunarvarnarbúnað áður en til lokunar kom! (sem þó var nú ekki óumdeildur, en skiptir nú litlu í dag)
Þessi samanburður því léttvægur fundin og engin rök með að reisa eigi og megi olíuhreinsistöð!
En auðvitað má ræða hversu vel er staðið að málum varðandi viskvinnslur víða um land og frystihús, mengun frá þeim, litla eða mikla, það er sja´lfsagt mál!
Magnús Geir Guðmundsson, 7.6.2008 kl. 21:55
Þetta er ótrúlegt. Ég vona bara að fjölmiðlar láti herra Foss tjá sig sem mest hann má þar til hann stendur eftir fjaðralaus. Annars er aumt að hlusta á þessi rök hans og ef fólk ætlar að svara þessu þá er það svipað og að lemja dauðan hund.
Bryndís G Friðgeirsdóttir, 7.6.2008 kl. 23:24
Þegar greindarvísitalan nær klárlega ekki skónúmerinu, þá er venjan sú í mínum vinahóp að telja hana á við útrunna rækjusamloku, en það er nú bara til að móðga ekki viðkomandi.
Steingrímur Helgason, 7.6.2008 kl. 23:44
Ef ég skil hann rétt þá telur hr. Foss:
Að umhverfissinnar séu sértrúarsöfnuður. Að fólk sem vill keyra minna sé upp til hópa sérvitringar sem eiga ekki örbylgjuofn eða DVD tæki og því allt öðru vísi en við hin. Að útblástur koltvísýrings sé ekki beinlínis mengun, að það verði til mörg afleidd störf vegna olíuhreinsistöðvar og að kaup losunarheimilda séu sýndarmennska.
Sem er vissulega sjónarmið út af fyrir sig. Ekki það að ég sé sammála honum hvað olíuhreinsistöð varðar.
Svala Jónsdóttir, 8.6.2008 kl. 00:16
mjög kípí!
halkatla, 8.6.2008 kl. 00:35
hehumm krípí átti það að vera!
halkatla, 8.6.2008 kl. 00:35
Heyrðu elsku Lára Hanna, á hverju eru þessir menn eiginlega? - Í alvöru, eins og t.d. þetta ótrúlega viðtal við Hilmar Foss, ! Ég verð að segja að ef ég vissi ekki betur, þá héldi ég að þetta væri grín, - þvílík endemis vitleysa sem rennur upp úr manninum, -
En í hina röndina, er þetta bull, alveg drepfyndið, textalega séð. - Það þarf ritsnilling til að skrifa svona absúrd texta, og svona algjörlega innihaldslausan að auki. -
Þakka þér fyrir að skrifa niður orð hans, því það, að geta hlustað á vitleysuna, og lesið textann í leiðinni, skiptir sköpum fyrir konu eins og mig, sem er líka með sjónminni, og því vill oft verða svo, þegar ég heyri t.d. svona "rugl viðtal," að ég held alltaf að mér hafi misheyrst, og missi þar með úr viðtalinu, á meðan ég er að reyna að finna út, hvað maðurinn ætli sér í raun að segja. -
Ég er búinn að hlusta á/og lesa textan nokkrum sinnum, og ég hlæ bara eins og vitleysingur, og hlæ enn meir, því oftar sem ég les, þetta er svo fáránlegt bull að það nær ekki nokkurri átt. - En brjálæðislega fyndið.
Og kannski er það einmitt hugmyndin, - að bulla bara nógu mikið, - þar til allir, eru orðnir svo ruglaðir, að þeir vita ekki lengur hvað snýr upp, né hvað snýr niður, á röksemdarfærslunni. - eða hvort þú hafir óvart dottið út, akkúrat þegar þetta vitræna var sagt.
Svo endar þetta eins og með nýju fötin keisarans. - Þetta er orðið svo yfirgengilegt, að enginn þorir að segja að þetta sé bara vitleysa, af hræðslu við að vera talinn "heimskur", skilningsllaus, eða einfaldlega vitlaus. - Og vera settur út af "sakramentinu" fyrir vikið. -
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 8.6.2008 kl. 01:52
Er málið ekki bara að maðurinn opnaði munninn og út kom hellingur af engu.
Rúnar (IP-tala skráð) 8.6.2008 kl. 10:27
Hér kem ég með óvísindalega kenningu: Hilmar er einn af "steinaldarmönnunum" en er líklega óvenju slæmt tilfelli. Það kalla ég nokkuð fjölmennan samansöfnuð af körlum á ýmsum aldri sem fyrr myndu dauðir liggja en að þeir færu að flokka sorp. Ennfremur finnst þeim það fáránlegt að fullorðið fólk skuli nota reiðhjól sem samgöngutæki og svo kalla þeir umhverfissinna og náttúruverndarfólk oftast öfgasinna eða líkja þeim við sértrúarsöfnuð. Þessir karlar fullyrða flestir að hlýnun andrúmsloftsins sé af náttúrulegum orsökum og hafna því alfarið að stórir og eyðslufrekir bílar séu skattlagðir umfram hina minni og sparneytnari.
Það sem hræðir mig mest er það sem getur gerst þegar steinaldarmaðurinn Hilmar Foss mætir steinaldarmanninum Ragnari Jörundssyni, bæjarstjóra í Vesturbyggð. Þar á milli ríkir greinilega gangnkvæmur skilningur þó svo að flestir aðrir hristi hausinn skilningssljóir.
Sigurður Hrellir, 8.6.2008 kl. 17:19
Hvar staðsetur þú þá Ólaf Egilsson, í þessu kompaníi, og hans framlag Sigurður Hrellir? - Einn unglingurinn sem var að lesa þetta hjá mér í tölvunni og hlustaði um leið á Hilmar F., varð svo uppnuminn, að hann hlustaði og las allt það sem Lára Hanna hefur skrifað hér fyrir ofan. - Af lestrinum loknum andvarpaði hann stórum og sagði: Vá, Lilja þeir hljóta að vera andsetnir maður, í alvöru Lilja. - JÁ BRAGÐ ER AÐ ÞÁ BARNIÐ FINNUR !
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 8.6.2008 kl. 19:27
Blessuð Lára Hanna ég hef nú eigi komið hér inn áður en sá vísbendingu á síðu þína í skutli. Ég hef búið fyrir vestan og vill ekki eyðileggja neinn fjörð með þessum ófögnuði. nei ég er vist greindarskert, eða þannig, því ég skil ekki þetta viðtal.
takk fyrir myndbandið það er gott.
Já það er bara nokkuð hugrekki í manninum, 99,9% öruggt að stöðin komi,
hver skildi stjórna honum og öðrum álíka málgóðum mönnum
Kveðja til þín frá Húsavík.
Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 8.6.2008 kl. 21:58
Vissulega undarlegar yfirlýsingar margar hverjar.
Eitt stingur mig þó í færslu þinni Lára.
Af hverju setur þú atkvæðamagn sveitarstjórnar sem vægi við ákvarðanatöku?
Þetta er fámennt byggðarlag með sama sjálfstæði á bak við sig og almennt gildir um sveitarfélög. Ef sveitarfélag má ekki taka svona ákvörðun með vísan til þess hve kjósendur eru fáir ... stutt í það að restin af heiminum efist um gildi ákvarðana sem íslensk ríkisstjórn tekur um sína hagsmuni vegna "mannfæðar" að baki ákvörðun.
Þetta er hættuleg hugsun sem vegur að því sem "meira að segja" EB stendur vörð um : regluna um að ákvarðanir um mikilvæg málefni skuli taka sem næst fólkinu - principle of subsidiarity.
Annars góður pistill.
... ég er enginn aðdáandi svartagullsins - en þetta er það besta sem komið hefur upp lengi þarna fyrir vestan, ekki síst fyrir þær sakir að það undirstrikar ástandið.
vcd
Bragi Þór Thoroddsen, 9.6.2008 kl. 08:54
Verð aðeins. Mér finnist að allir vestfirðingar eigi að kjósa um þetta mál.
Áður en það verður sett á koppinn. Eiga sveitarfélög bara að fá að taka ákvörðun í
henti-stefnumálum án þess að íbúar séu spurðir álits?
Skil ekki alveg hr. Thoroddsen, hvað undirstrikar ástandið?
Hlýt að vera vitgrönn með afbrygðum.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 9.6.2008 kl. 09:10
Skilst það hafi staðið til að setja upp factoru á Húsó, ekki síst til þess að hressa upp á atvinnulífið.
Vestur á fjörðum, ekki síst suðurhlutanum hefur allt farið niður á við í atvinnumálum. Fólki fækkar þarna, fasteignaverð lækkar og er talsvert undir landsmeðaltali, allar vörur talsvert dýrari sem og blessað eldsneytið sem er talsvert mikilvægt fyrir dreyfbýlið sem ekki státar af neinum samgöngum sem hægt er að treysta á nema einkabifreiðar.
M.a. á að fækka ferðum Breiðafjarðarferjunnar - sennilega til að vega upp á móti klúðurs með aðra ferju ónefnda.
Hugmynd um olíuhreinsistöð, sem nánast öllum er þyrnir í augum - þrátt fyrir að ekki margir hér þekki slíkar stöðvar er barasta ágætt til áminningar um það hvað þessi hluti landsins er afskiptur með flest.
Meira að segja þingmenn og ráðherrar, sumir hverjir vinna ekki fyrir þann landshluta sem tryggði þeim setu á þingi nema síður sé.
Kalkþörungaverksmiðjan í Arnarfirði er gott dæmi um enga aðkomu pólitíkusa nema neikvæða. Ekkert mál að henda einhverju upp í Helguvík eða norðan heiða.
En allt er ómetanlegt annarsstaðar nema fólk og fasteignir, nú og bensín og nauðsynjavara.
Ég er ekkert fyrir svona verksmiðjur yfir höfðu en veit að fólk lifir ekki á að tína fjallagrös og þara.
vcd
Bragi Þór Thoroddsen, 9.6.2008 kl. 11:00
Það mun koma Álver á Húsavík. þar með er ekki sagt að ég sé glöð með það.
Enn það er skömminni skárra en Olíuhreinsistöð.
Hefur þú ferðast um landið okkar fagra?
Það er víðar slæmt ástand en á vestfjörðum og það mun vera satt hjá þér að
þingmenn kjördæmisins vinna ekki sem skildi fyrir vestfirðinga, þá er bara að kjósa þá ekki næst, kannski væri snjallt að setja í lög, ef menn vinna ekki vinnuna sína þá mætti segja þeim upp, þú veist eins og gert er við almúga.
Eitt er alveg á tæru að við lifum ekki bara á fjallagrösum, en hélt að vinur minn Steingrímur Sigfússon hefði fengið þessa setningu á sig fyrstur manna.
Svo þetta á bara við hjá okkur hér norðan heiða.
Bið þig velvirðingar á yfirgangi mínum Lára Hanna, við erum eiginlega komin útfyrir umræðuna sem lagt var upp með í byrjun.
Kveðja Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 9.6.2008 kl. 12:30
Hef ekki myndað mér skoðun á þessu viðtali. Verð líklega að hlusta aftur til þess...
....en af hverju hefur ekki verið reist olíuhreinsistöð í Bandaríkjunum í 29 ár? Er það af því að Bandaríkjamenn vilja þær ekki? Eða út af einhverju öðru?? Einhver sem veit það?
Hrönn Sigurðardóttir, 9.6.2008 kl. 14:52
Lilja, Ólafur Egilsson er löggilt gamalmenni og væntanlega á þokkalegum eftirlaunum frá ríkinu. Hann ætti að sjá sóma sinn í að setjast í helgan stein og láta yngra fólki eftir að ráðstafa náttúrunni eða vernda hana. Í stað þess hefur hann stofnað fyrirtæki undir fölsku flaggi (Íslenskur hátækniiðnaður) með þessari furðuveru sem talar samhengislaust um ýmiss heimilistæki og gefur í skyn að fólk sem er á móti byggingu olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum tilheyri einhverjum sértrúarsöfnuði. Ólafur myndi eflaust flokkast sem steinaldarmaður út frá minni skilgreiningu.
Sigurður Hrellir, 9.6.2008 kl. 15:36
Sæl verið þið, öllsömul, og takk fyrir innlit og athugasemdir.
Ég er engu nær um meiningu Hilmars Foss, þrátt fyrir heiðarlega tilraun Svölu til að túlka viðtalið og orð Hólmdísar um búsetu hans erlendis. Enda svosem ekki málfarið sem vefst fyrir mér (og öðrum greinilega líka) heldur innihaldið.
Guðjón get ég upplýst að þessi Hilmar er sonur gamla Hilmars, skalaþýðanda og dómtúlks. Hvað Hilmari eldri finnst um málið og gjörðir sonarins hef ég ekki hugmynd um.
Bragi Þór spyr af hverju ég nefni atkvæðamagn á bak við meirihluta sveitarstjórnar sem vægi við ákvarðanatöku. Það hef ég skrifað um í öðrum pistlum, t.d. í sambandi við álver í Helguvík og Bitruvirkjun, og bendi sérstaklega á þennan pistil í því sambandi. Auðvitað eiga sveitarstjórnir að hafa skipulagsvald í sínu nánasta umhverfi, en þegar um er að ræða framkvæmd sem hefur gríðarleg neikvæð áhrif á önnur sveitarfélög og jafnvel landsmenn alla á alls ekki að líða að nokkur hundruð manns geti mengað og eyðilagt fyrir tugþúsundum - jafnvel 200.000 eins og í tilfelli Bitruvirkjunar. Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum, ákveðin af örfáum manneskjum með 345 atkvæði á bak við sig gæti eyðilagt ímynd Íslands, mengað gjöful fiskimið og lagt fuglabjörgin í rúst þegar slys verður - og þar segi ég þegar en ekki ef.
Við Millu segi ég: Málefnaleg rökræða eins og þín á alltaf rétt á sér og er ævinlega velkomin hér. Túlkast aldeilis ekki sem neinn yfirgangur. Gaman að sjá þig hérna hjá mér.
Hrönn... Mér skilst að ástæða þess að ekki hefur verið reist olíuhreinsistöð í Bandaríkjunum í 29 ár sé sú, að mengunarvarnarlög þar vestra leyfi það ekki. Ég sel þá skýringu ekki dýrari en ég keypti hana, en hún rímar mjög vel við ýmislegt sem Ómar Ragnarsson og fleiri hafa sagt um löggjöfina þar og meðvitund almennings um mengun og reynslu af henni - þótt ekki komi það nú alltaf heim og saman við það sem forsetanefnan þeirra segir.
Það kom fram í einhverju viðtali sem ég heyrði í útvarpinu að langhagstæðast sé að hafa olíuhreinsistöðvar sem næst sjálfum olíulindunum svo miðað við það er staðsetning á Íslandi fáránleg og ekki til þess fallin að lækka verð á eldsneyti - sem mér heyrist nú á öllu að muni ekki gerast hvað sem tautar og raular.
Lára Hanna Einarsdóttir, 11.6.2008 kl. 10:45
Takk fyrir mig Lára Hanna mun örugglega blanda mér í umræðurnar aftur.
Kveðja Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 11.6.2008 kl. 13:29
Að Grímur blessaður drengurinn hafi verið látinn fjúka vegna andstöðu við olíuhreinsistöð er firra og leitt að sjá svona meiningar á síðunni þinni sem annars er ágætlega málefnaleg.
Nú um þessar mundir er verið að fjalla um ársreikning sveitarfélagsins í bæjarstjórn og ef þú myndir gefa þér tíma og líta á þau mál sérðu að olíuhreinsistöð kom hvergi nærri hans uppsögn. Reyndar sagði hann sjálfur upp þegar hann kaus að taka afstöðu með K lista oddvita gegn oddvita A lista með mjög svo óvægnum hætti, ópólitíski bæjarstjórinn.
Gangi þér vel
Katrín, 11.6.2008 kl. 23:51
Sæl, Katrín,
Staðreyndin er sú, að eins og ég segi í pistlinum fullyrða margir að viðhorf til olíuhreinsistöðvar hafi komið við sögu þegar Grímur hætti sem bæjarstjóri Bolungarvíkur. Þetta er ekki frá mér komið, enda er ég ekki nægilega vel heima í bæjarmálum á Bolungarvík. Engu að síður hef ég séð og heyrt þetta fullyrt grunsamlega víða - hjá Vestfirðingum. Þess vegna hafði ég orð á því.
Pólitík er skrítin tík sem ég kem ekki nálægt, enda finnst mér náttúruvernd ekki eiga að vera pólitísk - hvað þá flokkspólitísk. Ég tek afstöðu til einstakra mála út frá eigin hyggjuviti þegar ég hef kynnt mér þau nægilega vel, tala aldrei á flokkspólitískum nótum og læt eins og vind um eyrun þjóta þótt ég sé flokkuð hér eða þar í pólitík. Sjálf veit ég sannleikann og það nægir mér og minni samvisku.
En gaman að fá þig hingað í heimsókn og vertu ævinlega velkomin.
Lára Hanna Einarsdóttir, 12.6.2008 kl. 00:03
Sagt er að ef lyginn er sögð nógu oft verður hún að sannleik.
Þakka þér boðið og mun fylgjast með umræðum á síðunni enda málið afar spennandi fyrir okkur sem enn byggjum Vestfirði.
Katrín, 12.6.2008 kl. 07:35
Viðtal var við þennan Hilmar Foss og hann virðist vera mjög sannfærður um að íslensk stjórnvöld „hafi skilning“ á þessari endaleysu enda í hag allra! Hvernig getur blessaður maðurinn haldið því fram? Hagur eins er því mður mjög oft tap annarra.
Annars er ekki nema ein skýring á þessu: Sú var tíðin að útgerðin rak upp harmakvein. Þá var gengi íslensku krónunnar fellt - eftir pöntun frá LÍÚ! Nú er útgerðin ekki lengur sá þrýstihópur sem áður var. Stóriðjan hefur tekið við hlutverkinu. Ef áhugi er fyrir stóriðjunni að reisa álver eða olíuhreinsstöð þá er eins og sumir í rísistjórninni séu furðu fljótir til og mæta með skóflurnar sínar eins og gerðist á dögunum með skóflustungurnar í Helguvík.
Ef þeir olíuhreinsistöðvarmenn tilkynna um skóflustungu vestur í Arnarfirði, hvaða ráðherrar skyldu nú hlaupa til?
Það gleymist furðruoft að sumir stjórnmálamenn hyglaá óvenjulegan hátt traustum og tryggur stuningsmönnum sínum. Fyrir tæpum áratug fékk kosnngasmali Framsóknarflokksins eyðijörðina Hól til eignar fyrir örfáar milljónr, sumir nefna að verðið hafi verið formsins vegna! Hvar skyldi síðan stöðvarhúsi Fljótsdalsvirkjunar hafa verið valinn staður? Í landareign eyðijarðarinnar Hóls, - auðvitað! Framsóknarmenn vita nákvæmlega hvað þeir gera og því verður ekki unnt að fyrirgefa þeim afglöpin!
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 12.6.2008 kl. 19:37
Langar að segja svo margt um þetta.
Ég er ekki content með svör þín um sjálfsákvörðunarrétt Vesturbyggðar á kostnað annarra.
Hvað ef þetta hefði verið viðhorf alþjóðasamfélagsins í þau skipti sem við færðum út lögsögu okkar og landhelgi - á kostnað mun fjölmennari þjóða með neikvæð áhrif víða. Við lögðum niður, að heita má bæi á Norður Englandi svo eitthvað sé nefnt.
Málefnaleg umræða er alltaf af hinu góða.
Ég er umhverfisverndarsinni og unnandi - en meir þó mannvinur að ég held. Ég tel velferð og afkomu íbúa meira vægi hafa en náttúruna þegar svona er til skoðunar.
Lítt fer fyrir tali umvherfisverndarsinna um hvaða lausnir eru tækar til jafns við þessa hugmynd og tala mikið um rússana neikvætt og mafíu eitthvað.
Slíkt eru fordómar og ekki sterk eða málefnaleg rök.
Ég á margt fólk að á þessum stöðum, Bíldudal, Tálknafirði og patreksfirði. Foreldra, ömmur, frænkur og frændur, bróðir og vini. Hef unnið á öllum þessum fjörðum og dvalið um talverðan tíma. Aldrei var ég var við mikinn fjölda íslenskra ferðamanna eða velunnara Arnarfjarðar þessi ár og fann oft fordóma og "malarmanna" í garð þeirra sem þennan útnára byggðu.
Sveitarstjórnarmenn í Vesturbyggð eru án efa sama sinnis og flestir aðrir með nátturuna þarna og þykir sinn Hvestufugl fagur. Ein þiar hafa skyldum að gegna að halda úti þjónustu gagnvart ibúum og skyldu til að reyna að efla byggð. Slíkt kemur ekki af sjálfu sér.
Óraunhæfar hugmyndir margra um eitthvað til bjargar. Dofri spurði mig einhverju sinni hvort ég væri til í að flytja vestur til að vinna í þessu apparati. Staðan er raunar sú að ég er með hlutaréttindi til lögfærðistarfa og er að klára þar mastersnám. Ekki er ég í vafa um að það verði grudnvöllur fyrir talsverðri þjónustu lögmanns á svæðinu ef apparatið rís. En þetta er dæmigert viðhorf þeirra sem standa fyrir utan þetta og vita okkur öðrum fremur og betur.
Að hafa ekkert til málanna að leggja annað en að koma í veg fyrir slíka framkvæmd, aðeins með vísan til fegurðar náttúru.
Lára, ég veit þú hefur haldbetri rök en þetta. Svo sannfærðum mig um að falla eigi frá þessu - og ég geng þér á hönd.
En pistlar þínir eru alltaf lestrar virði og málefnalegir. En trekkja ýmislegt að.
vcd
Bragi Þór Thoroddsen, 13.6.2008 kl. 02:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.