Enn fjölgar á mótmælafundunum

Mótmæli 22. nóvember 2008Það mættu enn fleiri á Austurvöll í gær en síðasta laugardag. Stöðugt bætist við og alls konar hliðaruppákomur fara fram. Í gær var flottur borði hengdur niður eftir sama húsi og síðast, Alþingi var selt auk þess sem hópur kvenna klæddi Jón Sig í bleikar pjötlur. Allt í friði og spekt en sama var ekki að segja á lögreglustöðinni þangað sem hópur fólks fór eftir fundinn þótt ég efist ekki um að flestir hafi farið þangað í þeim tilgangi einum að mótmæla handtöku og fangelsun Bónusfánastráksins en ekki að vera með læti og skemma neitt. Ég hefði líklega þrammað uppeftir líka ef ég hefði haft tíma til þess og verið betur skædd, grunlaus um að lögreglan kynni ekki betri mannasiði og hefði ekki menn á sínum snærum sem væru betur að sér í annars vegar mannlegum samskiptum og hins vegar tilfinningu fyrir því hvað á við hverju sinni í hvaða ástandi. Þetta var hörmulegt í alla staði og ég held að Björn Bjarna, Halli Jó, Stefán og félagar þurfi að hysja rækilega upp um sig.

Mér finnst handtaka Bónusfánastráksins fáránleg aðgerð og tímasetningin fráleit. En, æ ég veit það ekki... kannski er ég bara orðin svona samhaldssöm á þessum síðustu og verstu, en eftir eggjakast unglinganna á Alþingishúsið og nú rúðubrot og fleira á lögreglustöðinni hef ég hugsað með mér: "Ég hef ekki efni á þessu. Hve mikið bætist nú við skuldasúpuna?" Við þurfum nefnilega að borga skemmdirnar, skattborgararnir. Ég er hlynnt því að fólk mótmæli eins og hver vill ef það a) truflar ekki mótmæli eða fundi annarra eða grefur undan þeim; b) ef það veldur ekki skemmdum á eigum almennings því það þurfum við jú öll að borga og c) slasi engan. Og nú er búið að klúðra málunum svo hressilega að ég og afkomendur mínir skuldum meira en nóg fyrir margar lífstíðir. Það er bara ekki á það bætandi. Kannski á maður ekki að hugsa svona og gefa dauðann og djöfulinn í kostnaðinn af þessu. Ég myndi alltént ekki sýta það fé sem færi í að lögsækja bankastjóra og útrásarbaróna fyrir þeirra glæpi og miðað við það eru eggjaslettur og rúða smámunir þótt ég geti ekki með nokkru móti lagt blessun mína yfir skemmdarverk af neinu tagi.

Ég gagnrýni fjölmiðla nóg til þess að muna það sem vel er gert. Stöð 2 var Mótmæli 22. nóvember 2008með beina útsendingu frá fundinum í dag, gott hjá þeim, en þeir hættu reyndar í miðju kafi og bentu á Vísi. Ég tók upp útsendingu Stöðvar 2 en fann hvergi upptöku af seinni hluta fundarins. Getur einhver bent mér á hana? Ég vona að það verði sent út beint frá borgarafundinum í Háskólabíói á mánudagskvöldið sem Ingibjörg Sólrún hlýtur að mæta á miðað við orð hennar á Samfófundinum í dag sem ég hengdi aftan við myndbandið af fréttaflutningi Stöðvar 2 um fundinn. Ég ætlaði að klippa inn fréttir RÚV líka eins og ég hef gert hingað til en RÚV fréttirnar á netinu voru hljóðlausar. Líka Spaugstofan og Gott kvöld. Ég beið í allt kvöld eftir að þetta yrði lagað en líkast til er enginn á vaktinni.

Það er nefnilega mjög athyglisvert að stúdera hvernig fréttir eru fluttar af mótmælafundunum, hvað er lögð áhersla á, hvað ekki og hvernig atburðirnir eru framreiddir. Bendi í því samhengi á færslu Salvarar. Auðvitað er auðveldast fyrir þá sem voru á staðnum að meta þetta, en hvað með alla þá sem ekki voru þarna? Hvaða mynd fá þeir af atburðum? Sanna eða stílfærða a la... hver? Mér fannst t.d. inngangurinn að fréttinni um mótmælafundinn afskaplega undarlegur - hafandi verið á staðnum og hlustað á alla ræðuna: "Mótmælendur voru hvattir til þess á Austurvelli í dag, að bera ríkisstjórn og þingmenn út úr opinberum byggingum eftir viku, hafi þá ekki verið boðað til kosninga og ríkisstjórnin farin frá." Mín fyrstu viðbrögð voru undrun. Vorum við ekki á sama fundinum, fréttamaðurinn og ég? Ekki það, að hugmyndin er fín - en var þetta uppistaða ræðunnar og það sem stóð upp úr? Ja... ekki hjá mér. En ykkur? Sagði einhver "æsifréttamennska"? Salvör kalla þetta "skrílfréttamennsku" og þetta er alþjóðlegt vandamál sbr. þessa frétt á vef BBC. Nei, getur þetta verið? Varla þegar ástandið í þjóðfélaginu er eins og það er, þá megum við ekki við slíkri fréttamennsku. Hér er upptakan af því sem sent var út af fundinum.

Og hér eru fréttir Stöðvar 2 í kvöld. Jón Sig í bleiku fékk sérumfjöllun og aftan við skeytti ég hrósi Ingibjargar Sólrúnar og þeirri ályktun sem ég dró af því.

Klippti svo sérstaklega út þessi skilaboð frá Herði Torfa.

Ég hafði á orði við einhverja ljósmyndara með flottar vélar og linsur á stærð og lengd við niðurföllin á húsinu hjá mér, þar sem við stóðum á palli að taka myndir, að ég væri hálf feimin við að draga upp mína litlu myndavél þar sem þeir væru með allar sínar græjur. Uppskar góðlátleg bros og það vottaði fyrir meðaumkun í svip þeirra. En ég tók nú samt nokkrar myndir.

Mótmæli 22. nóvember 2008Mótmæli 22. nóvember 2008Mótmæli 22. nóvember 2008Mótmæli 22. nóvember 2008Mótmæli 22. nóvember 2008Mótmæli 22. nóvember 2008Mótmæli 22. nóvember 2008Mótmæli 22. nóvember 2008Mótmæli 22. nóvember 2008Mótmæli 22. nóvember 2008


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Mér finnst þetta flottar myndir hjá þér Kannski fæ ég að „stela“ myndinni af IMF-skrímslinu við tækifæri... Mér finnst líka frábært að fá að lesa um upplifun þeirra sem ekki eru að reyna að selja fréttir af fundunum á Austurvelli. Takk, takk.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.11.2008 kl. 03:31

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ég sé engar tölur um fjölda...............bara þúsundir

Fráleitt að HT hafi hvatt til óeirða.

Hólmdís Hjartardóttir, 23.11.2008 kl. 03:53

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég ætla að leyfa mér að setja hérna krækjur á frásögn móður mannsins sem var handtekinn og vinkonu hennar sem segist vita hver borgaði hann út. Frásögn hennar snýst reyndar fyrst og fremst um kvalir dóttur hennar sem fékk piparúða framan í sig í aðgerðunum fyrir framan Hegningarhúsið. Það er nokkuð liðið á þá frásögn þegar hún ýjar að því hver það er sem borgaði sekt Hauks og hvaða ástæður liggja að baki því að hann gerði það. Ég er ekki að taka afstöðu til þess sem þarna kemur fram en langaði til að benda á þetta fyrir þá sem hafa áhuga.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.11.2008 kl. 04:49

4 identicon

Það er mitt mat að þarna hafi verið á milli 700 og 800 manns! Já, já, ég fór á námskeið hjá löggunni og lærði að telja.  Ég hef hvergi séð opinberar upplýsingar um fjöldann sem var á Austurvelli í gær og tek það sem merki um að fjöldinn hafi verið það mikill að lögreglan treysti sér ekki lengur til að segja ósatt og velji þess vegna að steinþegja.

Vegna brotinna rúða þá ætla ég að segja að ég hef beðið eftir þessu frá því fyrsti fundurinn var haldinn. Lítilsvirðingin sem okkur var sýnd á fyrsta fundinum var botnlaus: Logið til um hvað við vorum mörg, gert lítið úr tilefninu o.s.frv. Þannig hélt það áfram í fjórar vikur eða allt þar til fyrir hálfum mánuði að fréttamenn skildu loksins að þeir eru í sama drullupyttinum og við sem stóðum á Austurvelli.

Það er hægt að lítilsvirða fólk um hríð en á endanum kemur alltaf að því að upp úr sjóði - það var því aldrei annað en spurning um tíma hvenær fólk færi að eyðileggja sameiginlegar eigur þjóðarinnar. Vonandi verður ekki meira af því. En það er allt undir ríkisstjórninni komið hvort skemmdarverkin halda áfram eða ekki. Haldi hún áfram að lítilsvirða fólk með því að virða það ekki viðlits þá halda skemmdarverkin áfram. Það er bara þannig að sumir eru ofbeldisfyllri en aðrir. Enn óttast ég að þessi bölvaða ríkisstjórn nái að kalla skemmdarfýsn fram í rólegheitasta fólki.

Að lokum það er sára en tárum taki að skoða myndirnar þínar og sjá óttann og vonleysið í andlitum fólksins. Þetta er fólkið sem mun þræla næstu 3 ár fyrir skuldum annarra en sinna eigin, eða allt þar til IMF og ESB fyrir hönd Breta, Hollendinga, Þjóðverja og Belga, innheimta veðin sín vegna vangoldinna skulda, þ.e. auðlindirnar okkar. Skömm hafi Ingibjörg Sólrún fyrir það að halda þing Samfylkingarinnar á sama tíma og fundurinn á Austurvelli - fundurinn okkar var boðaður með margra vikna fyrirvara - okkar fundartími er fastur kl. 15 á laugardögum stendur yfir í 40 mínútur og þann tíma valdi hún til að smala liði sínum saman. Vinsamlegast minnist þess þegar þið gerið upp hug ykkar til hennar.

Helga (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 05:31

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Eru þessi skemmdarverk á löggustöðinni ekki smámál miðað við þau skemmdarverk sem unnin hafa verið undanfarið á eigum þjóðarinnar og einstaklinga? Fjandinn hossi þeim sem kvarta yfir þessum smámunum.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.11.2008 kl. 10:48

6 identicon

Ég styð þessi mótmæli við Austurvöll heilshugar og er ánægður að sjá alltaf bætast í hópinn. Hinsvegar Get ég með engu móti verið ánægður með það sem gerðist við lögreglustöðina. Víst vil ég ekki lifa í landi sem er spillt í gegn en ég vil heldur ekki lifa í landi þar sem ofbeldi og eignarspjöll eru lofuð og eða lögregla er máttvana gagnvart borgurum sínum....

...Það var að mínum mati skylda lögreglu að sprauta piparúða á liðið í þessu tilviki. Getið þið ímyndað ykkur hvernig þetta hefði getað orðið annars. Áttu þeir að leyfa þessu fólki að ryðjast inn með valdi og hvað svo láta það fá lyklana að klefa piltsins. Hvað stoppar þá forherta glæpamenn og slagsmála sjúklinga í að sækja vini sína í grjótið um helgar þegar þeir vilja.

...Hefði lögreglan getað komið sínum mönnum útá tröppur án þess að nota úða ? Kannski en það hefði þá komið til mun meiri handalögmála því múgæsingurinn var orðin það mikill og fólk það æst.

Auðvitað hefði þetta verið allt betra ef að talsmaður lögreglu hefði komið útá stéttina og rætt við liðið áður en allt fór í óefni. En eftir að múgurinn braust í gegnum fyrri hurðina, þá tel ég að lögreglan hafi gert sitt besta til að standa vörð um það sem þeir standa fyrir.

Ég ætla rétt að vona að það fjölgi á útifundum og fólk mótmæli ástandinu því ekki er það gott. En svona læti í kjölfarið geta auðveldlega grafið undan því góða verki sem þar er unnið.

Gestur S. (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 12:24

7 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Sá þig uppá palli en náði ekki í skottið á þér.

Rut Sumarliðadóttir, 23.11.2008 kl. 12:40

8 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Það sem mér fannst alvarlegast við aðgerð lögreglunnar var að það var úðað án viðvörunar - ég er sannfærð um að ef hún hefði sagt gas og sprautað vatni á okkur að fólk hefði fært sig - það var bara ekki séns að komast út, hvorki þegar byrjað var að spreyja né áður og ég veit ekki með ykkur en ég hef áður staðið í mannþvögu og borist lengra og lengra til dæmis nær sviði á tónleikum án þess að ráða neitt við að komast burt - þannig var það í gær - við vorum nokkur að reyna að komst út þegar plankinn var skyndilega kominn þarna inn en við vorum föst - flestir sem þarna voru inni höfðu engan áhuga á að fara í einhver handalögumál við lögregluna - hvernig lögreglan úðaði og spúlaði baneitruðum vökva á fólk er bara ekki réttlætanlegt.

Birgitta Jónsdóttir, 23.11.2008 kl. 13:00

9 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Tek undir með Gesti hérna að ofan um leið og lýsa furðu bæði á orðum Sigurðar og Birgittu. Ef hún hefur svona mikla reynslu af því að vera í fjölmenni, t.d. á tónleikum, hví hélt hún sig þá ekki aftar vitandi vits að þetta gæti hent hana? Vissulega eru ein eða tvær brotnar rúður eða ein hurð ekkert í samanburði við til að mynda tapaðan ævisparnað fjölda fólks, en er það samt uppbyggjandi og betra að bæta í, auka skaðan um leið og torvelda eða gjöra ómögulegt að einhverju réttlæti verði einvhern tíman komið á!

Sigurður vinur þinn og fleiri sem setja dæmið svona upp, ættu aðeins að hugsa málið betur finnst mér!

Magnús Geir Guðmundsson, 23.11.2008 kl. 15:58

10 identicon

Ég tek þátt í mótmælunum og alltaf friðsamlega, tek dóttur mína þriggja ára með mér og útbý skilti fyrir okkur og er stoltur af því að mæta á Austurvöll ásamt öllum hinum. Mér finnst eins og ég eigi að gagnrýna fólkið sem var á Hlemmi og olli þar usla...........en ég fæ það ekki af mér. Ég hugsaði þetta vel og lengi og komst að því mér til nokkurar furðu að innst inni þá var ég stoltur af þeim, já ég segi stoltur. Það versta sem þú getur gert er að hunsa reitt fólk, það magnar bara reiðina þegar hún er ekki viðurkennd og það gerði lögreglan á Hlemmi. Enginn ávarpaði fjöldann og þeir létu sem þau væru ekki þarna. Ég veit að margir eru ósammála mér en 1 stk brotin hurð og 4 stk brotnir gluggar eru ekki hlutir sem skipta máli, og mér finnst leiðinlegt að margir Íslendingar séu meira gramir útaf því heldur en því að hafa verið rænd og niðurlægð af stjórnvöldum, auðmönnum og fleirum.

Þetta er reitt ungt fólk sem er komið með nóg af því að sjá landið sitt eyðilagt í skjóli stjórnmálamanna og meingallaðs peninga- og stjórnkerfis. Það vill breytingar því þetta kerfi hefur margsýnt að það er meingallað og í því er innbyggð spilling og ósanngjarnt, þar sem einhver verður alltaf undir og þarf að halda uppi hópi nokkurra forríkra sem mergsjúga samfélagið. Reiði þeirra er réttmæt og skiljanleg. Og ef ekkert fer að breytast þá bætist ég í hóp þessa fólks, og er ég nú ekki ofbeldismaður. Stjórnvöld eiga að hræðast og bera virðingu fyrir þegnum sínum, ekki öfugt.

Og takk fyrir frábært blogg Lára, þú ert hvunndagshetja sem stendur vörð um réttlæti og lýðræði. Húrra fyrir þér!!!

Sölvi (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 16:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband