12.4.2009
Okkur vantar Kompás aftur
Ég hef oft minnst á nauðsyn þess að efla fjölmiðlana og styðja betur við bakið á sjálfstætt þenkjandi fjölmiðlafólki sem þorir að taka á erfiðum málum og stunda rannsóknarblaðamennsku. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Í þeim ósköpum sem dunið hafa yfir þjóðina þurfum við enn frekar en nokkru sinni á öflugum fjölmiðlum og góðu fjölmiðlafólki að halda. Þess í stað hefur verið skorið niður og - eins og ég nefndi t.d. hér - margt reynslumesta fólkið rekið og óreyndum, illa talandi og óskrifandi ungmennum haldið eftir. Á þessu eru þó heiðarlegar undantekningar.
Ég sakna Kompáss mjög. Þótt margt hafi örugglega mátt gagnrýna í efnistökum og umfjöllun þeirra Kompássmanna var ótalmargt líka framúrskarandi og þeir tóku á ýmsum málum af fagmennsku og festu. Upplýstu, fræddu og komu við kaun. Sú ákvörðun 365 miðla að hætta með þáttinn og reka þáttagerðarmenn rúmum 3 mánuðum eftir hrun er fullkomlega óskiljanleg. Nánast ósiðleg.
En eins og fram kom í Spjallinu með Sölva við Kompássmenn um daginn eru þeir enn að vinna að málum. Hafa bara ekki fundið þættinum stað ennþá. Ekki fundið kaupendur að honum enda ekki um auðugan garð að gresja í fjölmiðlaflórunni - aðeins tvær sjónvarpsstöðvar koma til greina eftir brottreksturinn af Stöð 2. Spurning um netið... en svona vinna kostar peninga og hver vill borga - eða getur það?
Ég ætlaði að vera löngu byrjuð að birta brot úr Spjallinu með Sölva á Skjá einum en hef lent í endalausum hremmingum með þáttinn. Fyrst í upptökuferlinu, síðan úrvinnslunni og nú síðast harðneitaði eitt forritið að vista skrána þegar búið var að klippa hana. Ég þurfti að gera allt upp á nýtt í öðru forriti. Endalausar hindranir en lærdómsríkar. Nú vona ég að þetta sé komið.
Annars finnst mér Spjallið alls ekki hafa hlotið þá athygli sem það verðskuldar. Auðvitað getur fólk sett út á hitt og þetta og sitt sýnist hverjum um val á viðmælendum. En á heildina litið er þetta mjög fínn þáttur og vel þess virði að horfa á hann. Svo eru allir svona þættir afskaplega góðar, sagnfræðilegar heimildir.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sammála þér Lára Hanna, þetta var flottur þáttur og tók oft á þeim málum,sem aðrir fjölmiðlar vild ekki tala um,því miður skilst mér að áhvenir menn sem ekki vildu láta skoða sín mál,hefðu stillt þeim upp,ef þeir ræddu um þá,nú þá höfðu þeir það góð ítök,þeim var bara sagt upp,því þetta vor mjög góðir fréttamenn að þér létu ekki undan,létu ekki kúa sig,það er skömm að því hjá stöð 2 að láta þessa frábæru þætti hverfa,en svona eru nú vinnubrögðin hjá þeim,eins var með uppsögn fréttastjórans,enda held ég því miður að þessi mál skemmi fyrir þeim,fólk hættir að treysta á fréttaflutning þeirra,þeir vita af þessari ritskoðun,því miður,hin frábæra blaðadrottning Agnes Bragadóttir gæti ekki unnið við svona kúgun,vonandi á þetta eftir að breytast hjá stöð 2(ég trúi því) Ég óska þér Lára Hanna gleðilega páska og njóttu þeirra,þetta var gott comment hjá þér.
Jóhannes Guðnason, 12.4.2009 kl. 15:21
Svakalega er ég sammála þér, Hamraskóla málefnið hefði verið gerð góð skil þarna þar sem lítill drengur var beittur ofbeldi af samnemenda sínum. Styrkir sjálfstæðisflokks og meira. Upp með Kompás.
special1, 12.4.2009 kl. 15:56
Þakka þér fyrir þessa færslu og ég er þér hjartanlega sammála Ég vissi ekki af þessum þætti hjá Sölva og hefði viljað sjá þetta allt.
Ég vona innilega að þeir haldi áfram,þjóðin þarfnast þeirra.
Gleðilega páska Lára Hanna
Ruth, 12.4.2009 kl. 15:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.