Gjaldþrot og upprisa þjóðar

Ég skrifaði þennan pistil í upphafi efnahagshrunsins, eða 4. október sl. Mundi eftir Spegilsviðtali sem hafði vakið athygli mína tæpum tveimur mánuðum áður um argentínska efnahagsundrið og síðan gjaldþrot þjóðarinnar. Ég held að það sé ekki vitlaust að rifja þetta upp og birta aftur með myndinni um efnahagshrun Argentínu sem varð fyrir ekki svo ýkja löngu síðan. Hvort sem þið lesið pistilinn eða ekki - horfið að minnsta kosti á myndina. Hún er mögnuð. Neðst í færsluna hengi ég Spegilsviðtalið sem vitnað er í í pistlinum. Hlustið á það líka.

Verða hin nýju, íslensku yfirvöld of hrokafull - eina ferðina enn - til að læra af reynslu annarra þjóða? Verður enn og aftur talað um hinar frægu "séríslensku aðstæður" og öllu klúðrað? Maður spyr sig...

Gjaldþrot og upprisa þjóðar

Ástand efnahagsmála á Íslandi yfirskyggir alla aðra umræðu þessa dagana og ekki að ástæðulausu. Við erum skelfingu lostin og dregist hefur úr hömlu að stjórnvöld finni lausn á vandanum sem blasað hefur við alllengi. En við erum líka öskureið út í þá ofurlaunuðu, eigingjörnu gróðapunga og áhættufíkla sem hafa leikið sér með efnahag þjóðarinnar og að því er virðist teflt svo djarft að ekkert mátti út af bregða til að spilaborgin hryndi.

Þegar ástandið jafnar sig, sem það hlýtur að gera um síðir, og óttinn hjaðnar náum við vonandi þeirri sálarró að geta íhugað hverju er um að Línuritkenna, lært af reynslunni og hindrað að slíkt ástand komi upp aftur. Þar á ég við þær aðstæður sem þessum mönnum voru skapaðar til að seðja áhættufíkn sína og græðgi, skort á regluverki, aðhaldi og eftirliti með því hvernig þeir umgengust fjármuni og spiluðu með efnahag og orðstír lítillar þjóðar sem ekki má við miklu hnjaski. Ég fæ ekki betur séð en þar sé við að sakast þá stjórnmálaflokka sem sátu við völd, veittu frelsið mikla, sömdu og samþykktu lögin en hirtu ekki um að hnýta lausa enda. Og létu undan þrýstingi. Meðal annars þess vegna er svo hlægilegt að hlusta á framsóknarforkólfana Guðna, Valgerði, Siv og fleiri sem öll bera ábyrgð á ástandinu eftir langa valdasetu og helmingaskipti, en tala nú af heilagri vandlætingu eins og þeim komi málið ekki við, þau séu alsaklaus og flokkurinn hafi breyst úr maddömu í mey við það eitt að lenda í stjórnarandstöðu.

Eftirsóttustu viðmælendur fjölmiðlanna, fyrir utan ráðherra, eru nú hagfræðingar. Einn segir eitt og sá næsti eitthvað allt annað. Sumir eru bjartsýnir, aðrir svartsýnir. Þeir láta sér um munn fara alls konar orð og hugtök sem enginn skilur nema kollegarnir og kannski þeir sem vinna í fjármálabransanum. Greiningardeildir bankanna, sem nú ku allir standa tæpt, hafa undanfarna daga, vikur og mánuði rutt út úr sér alls konar hagspám og þær eru með sérheimasíður hjá öllum fjármálastofnunum. Bunan stendur út úr talsmönnum þeirra um skortstöður, hagtölur og línurit og þeir spá hinu og þessu næstu vikur og mánuði. Rýnt er í tölur og gröf en það sem gleymist gjarnan er fólkið sem er á bak við tölurnar eða sem tölurnar vísa í, fjárhagur þess, heimili, heill, velferð, viðhorf og hamingja. Tölur eru blóðlausar og skortir alla mennsku og hlýju. Þær taka ekki tillit til raunveruleikans sem maður lifir í og sýna eitthvað allt annað. Enda þótt hagfræði og tölur séu nauðsynleg tæki til vissra hluta eru þau ekki veruleikinn sjálfur og geta ekki náð utan um allar hliðar hans.

Um miðjan ágúst sl. var að venju athyglisverð umfjöllun í Speglinum á RÚV.Hólmfríður GarðarsdóttirÞar var tilefnið gjaldþrot argentínsku þjóðarinnar ekki alls fyrir löngu. Látum Spegilsmenn hafa orðið:
"Það var einu sinni talað um argentínska efnahagsundrið en svo varð argentínska ríkið gjaldþrota. Er nokkuð sameiginlegt með Argentínu og Íslandi og hvað segja hagtölur okkur? Við ræðum við Hólmfríði Garðarsdóttur, lektor.

Á tíunda áratugnum voru stofnanir í Argentínu einkavæddar í stórum stíl. Það var meðal annars fyrir tilstilli Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hagtölur voru svo jákvæðar að talað var um "argentínska efnahagsundrið".
En svo varð landið gjaldþrota árið 2001 og nú huga stjórnvöld að því að ná aftur til ríkisins flugfélögum sem voru seld alþjóðlegu fyrirtæki. Hefðu Íslendingar átt að læra meira af þeirra reynslu? Hólmfríður Garðarsdóttir, lektor við Háskóla Íslands, þekkir vel til stjórnmála í Argentínu. Hún spyr í ljósi þess sem þar gerðist hversu raunhæf mælieining hagfræðin sé og hvaða merkingu tölur hennar hafa. Er hún raunveruleg speglun samfélagsins eða er þörf á því að skoða það með fjölbreyttari aðferðum."

ArgentinaÞetta var bara byrjunin á umfjöllun Spegilsins, sem var afskaplega athyglisverð. Hólmfríður segir m.a. um það sem gerðist í kjölfar gjaldþrotsins að Argentínumenn hafi orðið mjög ákveðnir í að bjarga sér sjálfir eftir kaosástandið sem varði í um tvö ár. "Við höfum eitthvað annað til að bera heldur en það sem einhverjir aðrir ætlast til af okkur," sögðu þeir. Argentínumenn öðluðust sjálfsöryggi til að reiða sig á sjálfa sig í kjölfar niðurbrotsins. Þeir hættu að leita að módelum fyrir velgengni og velferð annars staðar og studdust frekar við það sem hentaði þeim við þær aðstæður sem þar ríktu. Þetta var ekki átakalaust og Argentína fór í gegnum hræðilegar hremmingar, náði upprisu en nú eru aftur komnar alvarlegar krísur sem snúast aðallega um atvinnuleysi.

Einkavæðingarferlið í Argentínu er að ganga til baka. Það gekk allt út á hagfræði en tók ekki tillit til annarra hliða á mannlífinu eins og kemur fram í viðtalinu við Hólmfríði. Í ljós kemur að hagtölur hafa enga merkingu fyrir almenning sem lifir í landinu. Hólmfríður segir: "Þú ert annaðhvort bóndi í norðurhluta landsins, suðurhluta þess, eða íbúi í borg. Það er búið að loka bankaútibúinu í þorpinu þínu, búið að loka búðinni, gjaldmiðillinn þinn hefur ekkert vægi, ekkert gildi, enga merkingu... þá skipta hagtölur engu máli." Íbúar hugsa um það eitt að lifa frá degi til dags.

Kannast einhver við þessa lýsingu?

Hólmfríður heldur áfram: "Ég hef svolítið verið að bera þetta saman við það sem hefur verið að gerast á Íslandi og upplýsingarnar sem komu fram í febrúar á þessu ári þar sem við vorum ennþá - okkar fjármálaspekúlantar voru ennþá að segja okkur að þetta væri allt í lagi. Hér væri allt á byljandi blússi og við værum í fínum gír. Svo kemur bara apríl, maí og júní og það er einhver allt annar veruleiki sem blasir við okkur. Hann er að byrja að hafa áhrif á Íslendinga. Þá einhvern veginn blasir kaldhæðnin í hagtölunum við." Virðing almennings fyrir þeim sem réðu og voru kjörnir til að hafa áhrif og fara með völd og peninga hrundi og ekki hvað síst virðing fyrir hagspekingum og fjármálaspekúlöntum.

Efnahagsundrið í Argentínu stóð yfir frá um 1990 til 2000, það er ekki lengra síðan.

Hólmfríður spyr að lokum: "Hversu raunhæf mælieining er hagfræðin? Hvaða merkingu hafa tölurnar? Er það einhver speglun á samfélagið? Eru bókmenntir ekki miklu betri spegill, þar sem lýst er raunverulegum aðstæðum fólks, viðhorfum, sjónarmiðum, vangaveltum og efasemdum, heldur en hagtölur?" Er það ekki? Ég held það.

Efnahagshrun Argentínu - 1. hluti

Efnahagshrun Argentínu - 2. hluti

Efnahagshrun Argentínu - 3. hluti


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað heitir myndin ?

Kári (IP-tala skráð) 22.5.2009 kl. 08:38

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Kári... myndin er á netinu undir heitinu "Argentina's Economic Collapse", eða "Efnahagshrun Argentínu". Ég hef ekki orðið vör við annan titil á henni neins staðar.

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.5.2009 kl. 09:51

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Lára Hanna þegar hagsmunir flokkana eru settir ofar þjóðarhag er mikil hætta á að ílla fari. Svíþjóð gekk líka í gegnum bankahrun og við fengum Göran Person fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar í heimsókn, hann varaði við því að við færum í kosningar. Það gæti haft alvarlegar afleiðingar, þar sem það tefði fyrir nauðsynlegri uppbyggingu. Það þarf ekki að greina stöðuna lengi til þess að meta að lítið sem ekkert hefur verið gert síðustu þrjá mánuði. Ég minnist þess ekki Lára Hanna að þú hafir tekið undir þessi varnaðarorð Persons, eða vakið á þeim sérstaka áherslu.

Stjórnvöld og peningastefnunefnd halda að þjóðinni að hér sé 11,9% verðbólga, og því þurfi aðgerðir í samræmi við þær aðstæður. Þ.e. draga úr þennslu. Afleiðingin virist koma stjórnvöldum á óvart, mjög aukið atvinnuleysi. Í skoðanakönnun hjá Capacent Gallup kemur fram að almenningur telur að það verði 17% verðbólga næstu 12 mánuðina. Á sama tíma telja atvinnurekendur að það verði 0% verðbólga. Lilja Mósesdóttir hagfræðingur og Alþingismaður VG, bendir hins vegar á að ársverðbólga síðustu þrjá mánuði hafi mælst 1,4%, og fari ört lækkandi. Hvaða máli skiptir þetta nú, Lára Hanna. Jú, þú notar allt aðar stjórnunaraðferðir í 11,4% verðbólgu, en í 0% verðbólgu.

Hagsmunasamtök heimilanna, benda á að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hafi beitt sér fyrir séu algjörlega ófullnægjandi. Ráðherrar og þingmenn samfylkingarinnar benda hins vegar á lista af aðgerðum. Ég held að þau séu þau einu sem trúa að þau tæki dugi.

Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún fengu þá gagnrýni að þau hefðu ekki verið að gera  neitt. Auðvitað var það ekki rétt, en aðgerðirnar voru ekki nægar og upplýsingarnar til almennings voru ófullnægjandi. Samfylkingin fór inn í þessa ríkisstjórn, með það að þau hefðu ekki borið ábyrgð á bankahruninu. Þau hefðu bara verið svo lítil og vitlaus, að þau hafi ekki neitt vitað hvað var að gerast. Er þá líklegt að sama fólk geti tekið á þeim málum sem taka þarf á?

Það er vaxandi ólga meðal almennings, sú ólga á bara eftir að vaxa. Ég á von á nýrri búsáhaldabyltingu í haust. Við skundum á Austurvöll með skyltin okkar Lára Hanna og hrópum vanhæf ríkisstjórn og Seðlabankastjórnann heim. Þessi norski verður þá lögngu flúinn. Þú verður að benda mér á hvaða gagn var í honum.

Mitt mat var að það að best hefði verið að fá Þjóðstjórn við þessar aðstæður. Það var ekki byggt á því að núverandi stjórnarflokkar væru óhæfir, í þeim báðum eru hið ágætasta fólk. Aðstæðurnar eru hins vegar þannig að við þurfum á allri okkar samstöðu að halda. Það segir mér svo hugur að þetta verði óvinsælasta ríkisstjórn allra tíma. Lára Hann, þú getur svo vitnað í þetta, þegar ríkistjórnin er fallin.

Sigurður Þorsteinsson, 22.5.2009 kl. 11:42

4 identicon

off topic :

sá á öðru bloggi að þú værir að leita þér af hjóli.

Tékkaðu endilega á þessu:

http://logreglan.is/displayer.asp?cat_id=1042&module_id=220&element_id=13892

magn-us (IP-tala skráð) 22.5.2009 kl. 13:11

5 identicon

Það verður fyrst fjör á Fróni þegar seina hrunið kemur því þá verður íslenska krónan alveg búin á því. Norðmenn hafa sagt að þeir munu ekki láta okkur svelta svo við erum í þokkalegum málum miðað við aðstæður.

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 22.5.2009 kl. 21:30

6 identicon

Líkindin með íslenska þjóðarráninu eru mikil. Rán Argentínu er bara miklu minna í sniðum, hlutfallslega.

Þessa mynd þarf að íslenska (texta) og sýna opinberlega. Helst á báðum stóru stöðvunum.

Rúv ohf. getur ekki annað en sýnt myndina.

Einfeldni og trúgirni gagnvart "kerfinu" er skelfileg. Barnalegt er að gera ráð fyrir að Steingrímur eða Jóhanna muni stokka það upp. Jafnvel þótt þau dreymdi um það (sem þau gera ekki) gætu þau ekki staðið fyrir neinum raunverulegum breytingum. Þau eru kerfið, sjálf holdtekja þess. 

Rómverji (IP-tala skráð) 22.5.2009 kl. 21:44

7 identicon

Þegar maður hugsar út í það þá sér maður alveg vissa samsvörun milli þess hvernig Menem talaði áður en hann varð forseti og svo hvernig Steingrímur J talaði áður en hann fékk stólinn. Og svo hvað Menem gerði þegar hann varð forseti og hvað Steingrímur gerir eða gerir ekki nú þegar hann er kominn til valda. Hann er að minsta kosti farinn að tala allt öðruvísi en áður. Kannski er þetta bara ráðherraleikritið sem hann er að leika.

Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 23.5.2009 kl. 00:56

8 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Mín tilfinning er sú að búsáhaldabyltingin hin síðari hefjist í haust þegar seinni hluti hrunsins hefst.

Arinbjörn Kúld, 23.5.2009 kl. 01:49

9 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

,,The mafiocracy unites businessmen, politicians and magistrates, traffickers and bureaucrats, union leaders and media moguls.  Their complicity was only matched by their hypocrisy".

Þórður Björn Sigurðsson, 23.5.2009 kl. 02:06

10 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

,,Við viljum gera uppreisn, en uppreisn innan þess ramma sem stjórnskipunin gerir ráð fyrir og aldrei öðruvísi. Við viljum gera uppreisn í grasrótinni úti á meðal fólks. Við treystum því að fólkið vilji. Við myndum ekki flokk, aldrei framar flokk, heldur laustengt bandalag laustengdra samtaka karla og kvenna, þar sem það ræður miðað við höfðatölu. Við vitum um okkar vanda. Hann er sá að þó að við séum ídealistar í dag, þá getum við verið orðin stofnun fyrr en varir. Engin hugsjón nær nema ákveðnum aldri, þá verður hún stofnun. Þess vegna verðum við alltaf að vita, væntanlegir þátttakendur í Bandalagi jafnaðarmanna, að þó sú þörf sé fyrir okkur í dag, þá er langt frá því að sú þörf vari til eilífðarnóns. Það kemur kannski fljótt og kannski seint, en það kemur að því að við förum að þvælast fyrir eins og gamla flokkakerfið gerir í dag. Þetta verðum við að vita."

http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/724660/

Þórður Björn Sigurðsson, 23.5.2009 kl. 02:10

11 identicon

Munurinn á okkur og Argentínu er að við eigun vini sem hafa efni á að halda í okkur lífinu, s.b.r ábendingu Baldvin Nielsen.

Viðar Ingvason (IP-tala skráð) 23.5.2009 kl. 12:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband