9.6.2009
Ríkisstjórnin og réttlætið
Seint í gærkvöldi sendi ég þingmönnum og ráðherrum stjórnarflokkanna bréf. Líka utanþingsráðherrunum. Mér var mikið niðri fyrir að venju og ég var óttaslegin. Er það enn. Ég held að samfélagssáttmálinn sé að rifna í tætlur, aðallega vegna skorts á upplýsingum og réttlæti. Réttlætið er einna mikilvægast af öllum þáttum samfélagsins og ein af grundvallarforsendum vonarinnar. Íslenska þjóðarsálin hrópar á réttlæti og þráir von. Réttlætiskennd almennings er líklega dýpri en nokkru sinni og þjóðarsálinni stefnt í voða ef réttlætið nær ekki fram að ganga. Ég held að við getum flest verið sammála um það. En hér er bréfið.
_______________________________________
Ágætu þingmenn og ráðherrar Vinstri grænna/Samfylkingar,
Eflaust kannast flest ykkar við skrif mín á blogginu svo ég eyði ekki tíma í að kynna mig.
En mér er mikið niðri fyrir. Ég er óttaslegin. Það er ekki langt í að ég verði skelfingu lostin. Ekki aðeins vegna óvissrar framtíðar, bæði fjárhagslegrar og annars konar, heldur einnig vegna ókyrrðarinnar, undirtónsins í samfélaginu, undiröldunnar. Ég held að ekki sé langt þangað til allt verður vitlaust og það hefur ekkert með flokkapólitík að gera. Flokkapólitíkina er hægt að hemja, tala til, semja um, stýra upp að vissu marki. En ekki mannssálina. Þjóðarsálina. Hún hefur sitt eðli óháð öllum flokkum og pólitík. Sál íslensku þjóðarinnar er um það bil að bresta.
Stundum finnst manni eins og fólk missi jarðsambandið um leið og það sest á þing. Kannski á það við eitthvert ykkar, ég vona þó ekki. Ef ekki þá hljótið þið að finna þessa undiröldu sem þyngist með hverjum deginum sem líður. Kannski hafið þið ekki mikinn tíma til að lesa blogg, athugasemdir og fleira á netinu sem gefur til kynna ástandið í samfélaginu. En þið verðið að vita þetta, hvernig sem þið aflið vitneskjunnar.
Ég þarf ekkert að tíunda hvað komið hefur fyrir íslenska þjóð. Við vitum það öll. Þið eruð í afleitu hlutverki við að moka grómtekinn flórinn eftir fyrirrennara ykkar. En í mestu vinsemd langar mig að benda ykkur á, að að minnsta kosti einhver ykkar virðast hafa misskilið hlutverk sitt - og vilja þjóðarinnar. Þið eruð um það bil að missa þjóðina og ef svo fer verða það ykkar stærstu mistök og gæti reynst afdrifaríkara en nokkurn grunar. Örvæntingin er skelfileg. Hvað tekur fólk til bragðs sem hefur engu að tapa lengur?
Búsáhaldabyltingin í vetur gekk ekki aðeins út á "vanhæfa ríkisstjórn". Hún gekk líka út á gagnsæi, upplýsingar og ekki síst réttlæti. Ekkert af þessu höfum við fengið. Og eftir þessu er kallað... og það hátt. Þolinmæði almennings er ekki söm og áður - og verður kannski aldrei framar. Við höfum lært okkar lexíu - en hafið þið lært ykkar?
Hinum almenna Íslendingi svíður að fá ekki nema lágmarksupplýsingar, gagnsæið er ekkert og lítið bólar á réttlætinu. Mig langar að biðja ykkur að lesa tvo nýlega bloggpistla: Með stein í maga og verk í hjarta og Heimsk þjóð með gullfiskaminni? Takið sérstaklega eftir hinum miklu viðbrögðum og á hvaða nótum þau eru. Icesave-málið er gríðarlega stórt og eldfimt - en við fáum engar upplýsingar um það. Hvernig ætlist þið til að fá þjóðina með ykkur - sem er lífsnauðsynlegt fyrir stjórnina - ef þið gefið henni ekki upplýsingar um það sem verið er að steypa yfir hana?
Vonandi er ekkert ykkar í þeim hópi sem tekur ekki mark á neinu nema það birtist annaðhvort í prentmiðlum eða ljósvakamiðlum. Þjóðarsálin er á netinu. Á blogginu og Facebook. Ef þið fylgist ekki með þessum miðlum eruð þið ekki með á nótunum, svo einfalt er það.
Það verður að auka gagnsæið í íslenskri stjórnsýslu og stjórnarathöfnum. Gefa skýringar, útskýra fyrir okkur eins og við séum 10 ára börn. Ef embættismannakerfið leyfir það ekki verður að skipta þar um fólk. Það verður að dæla út upplýsingum - með skýringum á mannamáli. Af hverju hefur ríkisstjórnin ekki ráðið sér fólk til að sinna upplýsingastreymi og útskýringum til almennings og fjölmiðla?
Einna mikilvægast er að þjóðin viti að verið sé að róa öllum árum að því að réttlætið nái fram að ganga. Eitt af því almikilvægasta sem bráðabirgðastjórnin gerði fyrir þjóðina, að öllu öðru ólöstuðu, var að ráða Evu Joly til starfa sem ráðgjafa sérstaks saksóknara. Ef þið viljið og hafið tíma til að rifja upp viðtalið við Evu Joly í Silfri Egils er það hér:
Eva Joly í Silfrinu 8. mars 2009
Ég bið ykkur líka að lesa þessa bloggfærslu: Straumur vonar. Þarna segi ég m.a.: "Það gerist ekki oft að einhver höfði svona sterkt til heillar þjóðar. Undanfarna daga hefur farið straumur um þjóðfélagið - straumur vonar. Ferill, framkoma og ekki síst orð Evu Joly vöktu þá von með þjóðinni að ef til vill nái réttlætið fram að ganga þrátt fyrir allt - þótt síðar verði. Við skynjum öll hve nauðsynlegt það er og munum öll leggja okkar af mörkum ef með þarf. Að minnsta kosti við sem höfum hreina samvisku - og það er meirihluti þjóðarinnar. Ég efast ekki um það eitt augnablik."
Þið gáfuð okkur von þegar þið réðuð Evu Joly til starfa. Vonin er einn sterkasti þáttur mannssálarinnar og mannlegra tilfinninga. Fólk getur umborið og þolað alls kyns óáran ef það eygir von, ekki síst um réttlæti. Eins og Eva Joly sagði í viðtalinu: "...því er þörf á réttlæti. Það er fyrir öllu. Þetta fólk má ekki komast upp með þetta. ... Aðeins innanlandsrannsókn getur leitt það í ljós. Þið hafið ekki rétt til að sleppa þessari rannsókn." Eva sagði jafnframt: "Réttlæti er grundvallaratriði fyrir hvert þjóðfélag, samfélagssáttmálinn og skilningur á því að vera þjóð og búa saman."
Er ekki kominn tími til að þjóðin fái fregnir af störfum Evu Joly, hinna erlendu sérfræðinga sem hún ætlaði að útvega og að okkur verði skýrt frá gangi mála? Við bíðum og bíðum en heyrum ekkert. Þörf samfélagsins fyrir réttlæti er meiri en orð fá lýst og eins og áður sagði er hægt að umbera margt ef við sjáum fram á að réttlætinu verði fullnægt.
Ég fylgist mjög vel með undiröldu þjóðarsálarinnar og nafn Evu Joly er ávallt tengt þessari von. Hún er holdgervingur vonar íslensku þjóðarinnar. Enda er réttlæti grundvallaratriði.
Ég skrifa þetta bréf af heilum hug og miklum velvilja þótt ekki sé ég í flokknum ykkar. Á morgun eða hinn birti ég bréfið á bloggsíðu minni og svörin frá ykkur - ef einhver berast. Ef einhver svarar en vill ekki að ég birti svarið bið ég þann hinn sama að geta þess.
Með vinsemd og hóflegri virðingu,
Lára Hanna Einarsdóttir
www.larahanna.blog.is
______________________________________
Viðtakendur bréfsins voru alls 36 og þegar þetta er skrifað hef ég fengið fjóra tölvupósta og eina upphringingu. Einn svarpósturinn var hraðskrifuð lína á hlaupum frá Guðfríði Lilju (Vg) sem þakkaði fyrir póstinn og sagðist svara betur í kvöld. Símtalið var frá Svandísi Svavarsdóttur (Vg). Hún náði ekki í mig, skildi eftir skilaboð í talhólfinu, ég reyndi að hringja í hana um leið og ég gat en náði ekki í hana. Við höfum semsagt ekki náð saman ennþá. Póstarnir þrír sem eftir eru fara hér á eftir. Þeir eru frá Álfheiði Ingadóttur (Vg), Jónínu Rós Guðmundsdóttur (S) og Ólínu Þorvarðardóttur (S).
Þingmenn og ráðherrar eru væntanlega önnum kafið fólk sem fær mikinn póst eins og Ólína nefnir. Maður kemst aldrei yfir að svara öllu, það þekki ég mjög vel af eigin reynslu undanfarið ár. Ég er þakklát fyrir þó þau svör sem ég fékk. Ég les ekkert sérstakt í það að fá ekki meiri viðbrögð þótt það hefði verið vel þegið, en vona þó að allir hafi a.m.k. lesið bréfið og tekið innihaldið til alvarlegrar athugunar. Athyglisvert fannst mér að svarendur eru allt konur. En hér eru bréfin þrjú:
Sæl Lára mín Hanna og takk fyrir þessa brýningu og alla pistlana.
Já ég les bloggið a.m.k. þitt og var búin að renna yfir athugasemdirnar. Ég er líka hrædd við þessa reiði og ekki síður óttann sem menn eru haldnir. Okkur er held ég alveg ljóst að við þurfum að ná betri árangri í því að opna stjórnsýsluna og ég vona að í þessu Icesave máli muni öll gögn koma uppá borðið strax og málið verður lagt fram á alþingi. Það geta ekki verið margir dagar í það. Einhvern veginn endist okkur ekki sólarhringurinn þessa dagana, fyrst Icesave og svo 170 milljarða niðurskurður næstu 3 árin. Það er skelfilegt verkefni get ég sagt þér.
En takk fyrir aftur og aftur. Kv. Álfh
Takk fyrir bréfið Lára Hanna - ég skynja líka undirölduna og um leið að það er auðveldlega hægt að slá á hana með skýringum og upplýsingum - ég deili því sjónarmiðum þínum um að veita þurfi upplýsingar og mun leggja mitt á þær vogarskálar að slíkt verði veruleiki.
Kær kveðja Jónína Rós
_______________________
Sæl Lára Hanna mín og takk fyrir bréfið.Ég hef setið í óðaönn við að svara þeim sem hafa sent mér áskoranir að undanförnu. Svar mitt hef ég nú birt á blogginu hjá mér líka, svo það er alveg ljóst hver mín afastaða í þessu máli er http://olinathorv.blog.is/blog/olinathorv/entry/893088/
Ég hef kynnt mér þetta mál svo vel sem mér er unnt og komist að þeirri niðurstöðu að það sé réttast af okkur að taka þessum samningi og leysa þjóðina þar með af þeim klafa sem er að kollsliga atvinnulíf okkar og lífskjör. Vissulega þýðir þetta þyngri byrðar á okkur öll - en við vissum að það yrðu lagðar á okkur byrðar. Og við sem ætlum að búa í þessu landi verðum að taka við þessum byrðum og axla þær. Ef ekki sjálfra okkar vegna, þá framtíðarinnar vegna. Það er ekki sanngjarnt. Það er ekki réttlátt. En hver á að reisa landið við? Gerir það einhver fyrir okkur? Við verðum sjálf að taka hleðslugrjótið, stein fyrir stein, og bera það að byggingunni. Það er erfitt, ég veit það. Við erum misvel til þess búin að axla þessi þyngsli - en hver er hinn kosturinn? Að loka landinu?
Hefur þú aðra leið? Hefur einhver bent á aðra færa leið?
Þetta mál hefur reynst þingmönnum afar erfitt. Það er ekki auðvelt að móta yfirvegaða skoðun þegar barin eru búsáhöld í eyrun á manni og póstkerfið fyllt af áskorunum sem sendar eru margsinnis af sama fólkinu. Það er ekki þægilegt að taka við skítkasti og skömmum fyrir skoðun sína. Einmitt þess vegna er mikilvægt að maður sé sjálfur sáttur við afstöðu eigin afstöðu og að hún sé vel ígrunduð.
Ég hef svarið þess eið að hlýða samvisku minni og láta þjóðarhag ráða afstöðu minni til hvers máls. Það hyggst ég gera í þessu máli sem öðrum. Slík afstaða kallar á kjark - því vitanlega væri auðvelt núna að dansa bara eftir háværustu röddunum. Ég er bara ekki þannig kona - og nú er meira í húfi en persónulegar vinsældir. Nú er hagur þjóðar í húfi.
Ég ætla að greiða atkvæði með þessum samningi, og bið þig að virða ákvörðun mína.
Þín bloggvinkona - þinn þingmaður,
Ólína Þorvarðardóttir.
Ég fékk lengsta SMS sem ég hef fengið frá Svandísi fyrr í kvöld. Sá það fyrst núna, heyri ekkert í símanum þegar hann er ofan í tösku. En svona hljóðuðu skilaboðin:
Agalegt að vera tölvulaus og á leið út á land þegar mig langar virkilega að skrifa þér línur.
Ég deili áhyggjunum yfir því að við tölum ekki nógu opið. Við verðum að opna umræðuna og allar upplýsingar miklu betur. Verkefnin eru hrikaleg - niðurskurður og sparnaður. Og líka þar sem það kemur illa niður.
Ég hef þá einlægu skoðun að fólk sem vill jöfnuð og félagslegt réttlæti eigi að sitja undir stýri í gegnum þennan erfiða tíma. AGS mun reynast okkur erfiður en engan veginn eins erfiður þó og það, ef okkur auðnast ekki að halda þjóðinni upplýstri og trausti í samfélaginu á það sem verið er að gera.
Brýnast af öllu samt er að fólk eygi von. Alvöruvon fyrir sig og börnin sín. Í þágu þess vil ég vinna. Og vanda mig. Fólk eins og þú er algjörlega ómetanlegt á sinni síkviku, vakandi og gagnrýnu vakt. Heill þér!
Kveðja, Svandís
Sæl Lára Hanna og þakka þér fyrir póstinn.
Það er mikil ólga í samfélaginu, þar er ég þér sammála og hún veldur mér miklum áhyggjum. Þjóðin krefst réttlætis, gegnsæis og upplýsinga og stjórnvöld reyna að bregðast við þessari kröfu en verkefnið er yfirþyrmandi fyrir lítið stjórnkerfi.
Í pósti þínum segir þú:
"Er ekki kominn tími til að þjóðin fái fregnir af störfum Evu Joly, hinna erlendu sérfræðinga sem hún ætlaði að útvega og að okkur verði skýrt frá gangi mála? Við bíðum og bíðum en heyrum ekkert. Þörf samfélagsins fyrir réttlæti er meiri en orð fá lýst og eins og áður sagði er hægt að umbera margt ef við sjáum fram á að réttlætinu verði fullnægt."
Það má segja að í dag höfum við fengið fréttir af Evu Joly og störfum hennar! Það voru þó ekki fréttirnar sem við vorum að vonast eftir. Ég er þó ánægð með að við höfum verið upplýst um stöðu mála því þá er hægt að bregðast við og bæta úr. Það er frábært að við höfum konu eins og Evu Joly sem ber í borðið og talar út um hlutina. Sem þingkona mun ég beita mér fyrir því að farið verði að ráðum Evu Joly. Ég fagnaði eins og flestir aðrir ákaft þegar hún kom til liðs við okkur í vor og fann fyrir þeirri von að réttlætinu yrði fullnægt. Þá von megum við ekki missa.
Bestu kveðjur
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
____________________________________
Kæra Lára Hanna.
Takk fyrir bréfið og alla þína ötulu baráttu og vinnu. Ég finn að sjálfsögðu undirölduna sem þú talar um enda kraumar hún líka innra með mér eins og svo mörgum okkar.
Í takt við hugleiðingar þínar hefur mér undanfarið verið hugsað til hins góða slagorðs Öryrkjabandalagsins "Ekkert um okkur án okkar." Ég held að frá því í vetur megi heimfæra þetta slagorð upp á þjóðina alla og skilaboð hennar til stjórnvalda hvaða nafni sem þau nefnast - Ekkert um okkur án okkar.
Varðandi Ice-Save þá hlýtur það að vera eðlileg og réttmæt krafa að allar upplýsingar komi upp á borð svo allir - allir - geti sett sig inn í málin og tekið upplýsta afstöðu. Þannig á það að vera í öllum málum. Mikilvægum spurningum er í mínum huga enn ósvarað og ég vil skilja málið til fulls. Málið er ekki enn komið formlega fyrir þingið og því höfum við ekki gögn í höndunum. Þegar það kemur inn í þing ættu gögnin að verða opinber svo bæði ég, þú og aðrir nágrannar geti lesið og sett sig inn í málin. Ég hef sjálf sagt að ég hafi alla fyrirvara á Ice-Save og tel að sönnunarbyrðin hvíli hjá þeim sem telja þetta "einu leiðina". Málið allt er augljóslega afurð alls þess sem á undan gekk í haust og í vetur og þá ömurlegu aðstöðu sem Ísland var sett í - það er með ólíkindum hvernig þessi mál voru látin þróast og þyngra en tárum taki. Ljóst er að hvor leiðin sem farin er núna á þessum tímapunkti - að samþykkja eða hafna - getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þær afleiðingar þarf að teikna betur upp í hvoru tilfellinu sem er, vega og meta hvort um sig og taka svo afstöðu út frá því. Það er algjört grunnprinsip að þjóðin sé ítarlega upplýst um málið og sé með. Ég veit ekki betur eins og ég segi en að þessi gögn komi einmitt öll upp á borð.
Og þá kemur einmitt að samfélagssáttmálanum. Ég er sammála þér um Evu Joly og hversu mikið grundvallaratriði það er að málin séu rannsökuð ofan í kjölinn með handleiðslu fremstu sérfræðinga, peningaslóðin sé elt og ALLT sé gert til að ná í fjármagnið hvar sem það er. Þetta MÁ EKKI KLÚÐRAST og hér má ekkert gefa eftir. Augljóslega sjá enn valdamikil öfl (og þau leynast mjög víða!) sér beinan hag að því að sem minnst sé rannsakað og að slóðin sé ekki elt. Ég segi aftur: Hér verðum við öll að leggjast á eitt sem áhuga höfum á þessum málum því að öflin sem vilja að þetta sé ekki gert eru augljóslega mörg og þræðirnir sterkir. Ég hef oftsinnis sagt það alveg frá því í haust að mér finnist við ekki eiga að sjá eftir einni krónu sem fer í rannsókn þessa máls - það sé einmitt einn meginþráður þess að við komumst í gegnum þetta saman að við getum öll gengið að því sem vísu að ALLT sé gert í þessum efnum. Ef þetta sé ekki gert (sem augljóslega hefði átt að gera af krafti strax í haust - hvílíkur dýrmætur tími sem liðinn er) þá er engin leið að hér geti skapast sátt. Ég fagnaði því mjög þegar Eva Joly var ráðin og vil að farið sé eftir hennar ráðum og sérfræðiþekkingu, punktur.
Upplýsingar, upplýsingar, upplýsingar - opnari vinnubrögð, það er leiðin fram á við. Það breytir ef til vill ekki þeirri djúpu efnahagskreppu sem við erum í - hún verður hér með okkur næstu árin (en um leið er mikilvægt að muna að henni MUN ljúka, þetta er tímabundið!) - en það breytir einmitt öllu um samfélagssáttmálann, að við séum öll með, vitum öll hvað er í gangi og á hvaða forsendum, og getum séð að snefill af réttlæti eigi að ná fram að ganga.
Læt þetta nægja í bili. Ég kemst ekki yfir helminginn af tölvupóstunum mínum og talhólfið mitt yfirfyllist ósvarað á hverjum degi en við höldum áfram að hlaupa... mér er sagt að byltingin sé maraþon er það ekki?!
Lilja
Sæl vertu, Lára Hanna, og afsakaðu hvað ég svara þér seint.
Þakka þér fyrir ítarlegt og vel rökstutt bréf. Ég tel mig fylgjast sæmilega vel með í fjölmiðlum - líka bloggi og opinberunarbók - og tek undir það með þér að þar fæst ágætur mælikvarði á stemmningu, strauma, angist og gleði. Við lifum enga venjulega tíma, Íslendingar. Traustið er svo að segja horfið, bæði innanlands en ekki síður traust annarra ríkja á okkur sem ábyrgu landi. Allar þær erfiðu og oft óvinsælu aðgerðir sem gripið verður til miða að því að efla traust og trú og gera Ísland aftur fjárhagslega sjálfstætt og öflugan hlekk í samfélagi þjóða.
Samningurinn við AGS, samningar um Icesave, niðurskurður í ríkisrekstri, baráttan gegn atvinnuleysi, lægri vextir, nýr gjaldmiðill og tryggur samastaður Íslands í Evrópu. Allt miðar þetta að sama marki að Ísland endurheimti stöðu sína og traust með því að gefa skýr skilaboð um stefnu og markmið stjórnvalda. Í mínum huga er og verður það aldrei kostur að loka landinu og segja sig úr lögum við umheiminn. Menn gerðu alvöru atlögu að því markmiði í haust með fyrrverandi seðlabankastjóra fremstan í flokki. Þeirri atlögu var góðu heilli hrundið. Leið okkar út úr kreppunni og til endurreisnar verður að vera í samvinnu við önnur ríki, sem hafa hagsmuni að verja, eins og við. Algjör uppstokkun ríkisstofnana, embættismannakerfið og opinberrar stjórnsýslu er einnig nauðsynleg forsenda þess að hér sé hægt að byggja betra samfélag.
Að síðustu, um Evu Joly. Hún stendur fyrir sínu sú kona og hefur þann dásamlega eiginleika að hrista upp í valdastrúktúr feðraveldisins svo um munar. Ég er sammála þér um það að almenningur treystir Evu Joly. Það geri ég líka. Hún er mikill fengur á erfiðum tímum.
Með góðri kveðju,
Þórunn Sveinbjarnardóttir,
alþingismaður
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 17.6.2009 kl. 21:29 | Facebook
Athugasemdir
Ætli það sé tilvijun að svörin eru öll frá konum?
Asdis (IP-tala skráð) 9.6.2009 kl. 22:08
Frábært bréf hjá þér og gott að allavega nokkrar konur hafi gefið sér tíma til að svara þér. Það kemur ekki á óvart að bara konur hafi svarað. Þær eru bara þannig.
Helga Magnúsdóttir, 9.6.2009 kl. 22:13
lýst er eftir nýja-íslandi.
beðið um að gefa sig fram við óspillta.
eins og það finni engan.
sr (IP-tala skráð) 9.6.2009 kl. 22:16
Sæl Lára Hanna.
Ég tek undir orð þín - einkum og sér í lagi varðandi Evu Joly.
Kær kveðja,
Gunnar
Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 9.6.2009 kl. 22:23
Ég tek undir allt sem hún Ólína segir hér . Við verðum að byggja hér allt ,allt upp aftur.
Annað er ekki í boði. Ef við verðum samtaka - vinnum við sigur fyrr en varir- ég trúi því.
En takk fyrir pistilinn þinn, Lára Hanna
Sævar Helgason, 9.6.2009 kl. 22:29
Prýðilegt bréf hjá þér Lára Hanna,
Á það hefur verið bent í bráðum 250 daga samfellt, að til þess að einhver von sé til að fólk hristi sig saman, bíti á jaxlinn og hefji steinaburð, þá þarf eitthver arða af réttlæti að vera í augsýn.
Ráðning Evu Joly, eins og þú bentir í einlægni á, kveikti von í brjóstum fólks, um að nú yrði loks byggður sá planki sem þjóðin þarf til að spyrna sig af; réttlætisplankinn. Enn sem komið er, sjáum við ekki eina spýtu.
Finnst leitt að ofangreindir þingmenn hafi ekkert tjáð sig um þessi mál. Það er verið að þenja þolrif þjóðarsálarannir út fyrir öll mörk, og það verða þau að skynja.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 9.6.2009 kl. 22:37
Takk...enn og aftu Lára Hanna!. Svörin eiga eftir að verða fleiri, og vonandi frá karlpeningnum líka?
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 9.6.2009 kl. 22:41
Eins og venjulega kemur Lára Hanna málum vel skiljanlega frá sér, en er þó full langorð að þessu sinni.
Þessi viðbrögð þingmanna eru svipuð og mín reynsla er af þeim en ég hef í þrígang sent þeim öllum bréf. Haustið 2006 um breytt kosningalög og persónukjör og aftur haustið 2008. Í janúar s.l. sendi ég tillögu um niðurfærslu skulda heimila og fyrirtækja sem Framsóknarflokkurinn gerði að sínu máli í febrúr s.l. í aðdraganda kosninga mér til mikillar ánægju.
Við erum stödd í vítahring sem fór af stað með hamagangi Davíðs Oddssonar út í Baugsdrenginn og síðan tók við skelfilegt framhald með setningu óheiðarlegra neyðarlaga sem verða okkur myllusteinn um háls þangað til þau verða afnumin.
Í núverandi stöðu er sýnist mér hugsanleg lausn vera yfirlýsing um þjóðargjaldþrot (sovereign default) líkt og varð raunin hjá Perú (1996) og Argentínu (2001). Þetta er leiðir sem verður að skoða. Spurningin er hvort við viljum standa á núlli núna og rúin trausti heimsins eða standa í mínus eitt þúsund milljarða árið 2016 og vera líka rúin trausti ekkert síður.
Kyngja þarf stoltinu, viðurkenna staðreyndir og haga sér samkvæmt því. Hafi fólk áhyggjur af áliti heimsins má hinn sami spyrja sjálfan sig hvort Bandaríkjamenn hafi þjáðst sérstaklega eftir morði á hundruðum þúsunda japana í lok seinni heimsstyrjaldarinnar með kjarnorkusprengjunum eða þjóðverjar fyrir að hafa byrjað það morðæði sem báðar heimsstyrjaldirnar voru.
Nei, góðir hálsar, þetta gleymist fljótt. Það sem gleymist ekki eru 1000 milljarðarnir sem okkur verður ætlað að byrja að borga árið 2016.
Það hlýtur að vera flestum ljóst að ef eitthvað fer stórkostlega á hliðina þarf stórkostlegar aðgerðir til að koma hlutunum aftur á réttan kjöl. Það þarf því að skoða óhefðbundnar leiðir til þess. Fólk má hafa í huga að stolt, og það meira að segja þjóðarstolt, í þessu sambandi, er ekki skítsins virði.
Haukur Nikulásson, 9.6.2009 kl. 22:46
gott framtak hjá þér Lára Hanna og er ég virkilega stoltur af því að þekkja þig :)
Óskar Þorkelsson, 9.6.2009 kl. 22:49
Gott hjá þér !
Það er enn svo mikill hroki í þessu liði !
Ætli það svari nokkuð nema ef einhver ,,bankar upp" hjá þeim !
JR (IP-tala skráð) 9.6.2009 kl. 22:49
Það er eins og að í alþingishúsinu sé ekkert jarðsamband; innvígðir verða uppteknir af: aukaatriðum, útfærslum, hirðsiðum - hætta að sjá skóginn fyrir trjám.
Það er augljóst að Íslendingar munu EKKI BORGA - IceSave er aðeins einn bagginn af mörgum. Ef haldið verður áfram í afneitun og reynt að borga verða Íslendingar fátækasta og vonsviknasta þjóð Evrópu. Ef staðreyndir verða viðurkenndar og komið hreint fram við grannþjóðir okkar verða erfiðleikar töluverðir en þeir munu aðeins vara í nokkur ár og framtíðin verður björt.
Ef Alþingi staðfestir IceSave-samninginn verður varla aftur snúið.
AB (IP-tala skráð) 9.6.2009 kl. 22:59
Sæl Lára Hanna og takk fyrir þá miklu vinnu sem þú hefur lagt í upplýsingaöflun og miðlun undanfarna mánuði.
Margir einstaklingar hafa eytt drjúgum stundum í að hvetja þjóðina, draga fram gögn og fróðleik, leggja fram hugmyndir.
Maður sér á síðum bloggheima að umræður standa oft heilu næturnar og mikið liggur á hjarta þeirra sem tjá sig.
Það er alveg rétt sem sú setur hér fram, upplýsingagjöf vantar. Stærsta ástæðan fyrir þeirri miklu sundurþykkju sem nú herjar á þjóðarsálina er skortur á upplýstri umræðu. Orðin og yfirlýsingar fólks verða sífellt stærri og alvarlegri.
Netið með sínum bloggsíðum og samskiptavefjum er miðja umræðunnar. Dagblöð og sjónvarp eru á undanhaldi. Fólk krefst gagnvirki, það að geta tekið þátt í umræðunni, óháð stöðu eða stað.
Upplýsingavefurinn island.is sýnist mér að hafa átt vera miðlunargátt stjórnvalda til að útskýra hvað um væri að vera í samfélaginu.
Féttafundir ráðherra áttu sömuleiðis að vera leið til miðlunar.
Hvoru tveggja hefur algjörlega brugðist.
Meira að segja vefur Seðlabanka Íslands gefur meiri yfirsýn yfir stöðu mála og þá mikið sagt.
Tregða kerfisins til að bregðast hratt við er einnig sláandi.
Mín ráð til stjórnmálamanna dagsins í dag eru þessi:
Hreinsið til í kerfi embættismanna, þeir sem ekki vinna hratt að endurbótum, svara fyrirspurnum, eða telja að leyndarhjúpur sé hin rétta aðferðafræði, útvegið þeim ný störf á öðrum vettvangi.
Hættið með kjánalegan upplýsingavef, setjið fólk í að blogga og miðla upplýsingum í gagnvirkni.
Takið sjálf þátt í beinni umræðu.
Það er betra að segjast ekki vita hver staðan er en að þegja.
Enginn þarf að vera hræddur við að tjá sig í dag. Mistök eru til að læra af og það er styrkleikamerki að geta skipt um skoðun.
Ps.
Það tók mig 3 mínútur að slá inn þessum texta, 3 mínútur allt og sumt. Stjórnmálamenn og ráðherrar, þið getið líka.
Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 9.6.2009 kl. 23:04
Lára Hanna, ef ég væri í úthlutunarnefnd á Nóbelnum... Þá værir þú efst þar á blaði hjá mér. Ég veit ekki hvernig ég á að segja "takk" við þig, án þess að það gæti hljóða klisjukennt.
Þú ert meiriháttar, að senda þeim bréf, segja þeim frá undiröldunni (sem ég er alveg skíthræddur við... ég vona að nauðsynlegur neisti muni ekki kvikna til að allt fari í háaloft. (Og þá á ég við miklu, miklu, miklu, miklu, miklu verra ástand heldur en nokkrir beyglaðir pottar með hávaða á Austurvelli.))
Og, það er enn betra, að sjá að þingmenn hafi svarað. Ég hefði þó, held ég, viljað sjá þetta sent á alla þingmenn, og hvetja þá þannig til að standa saman. Það er tími fyrir flokkapólitík... og það er tími til að standa saman. Þessa dagana... er tíminn til að standa saman, ekki flokkapólitíkusast.
Það er líka áhugavert að sjá kynjaskiptinguna í þeim svörum sem eru nú komin. Hver sem skýringin er. Og það er líka áhugavert að sjá í (amk sumum) svörunum að viðkomandi þingmaður les bloggið þitt og fylgist með.
Ég bíð spenntur eftir svörum frá öllum þingmönnum, og ráðherrum.
Einar Indriðason, 9.6.2009 kl. 23:07
Tek innilega undir með Jóhanni!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 9.6.2009 kl. 23:10
Sammála þér og sérstaklega er varðar Evu Joly. Hún er sá vonarneisti sem maður heldur í. En óttinn læðist oft að manni, óttinn um að allt verði þagað í hel og reynt verði að ýta henni frá til að bjarga einhverjum vinum eða vandamönnum. Líka óttinn við að þau sem ráða ferðinni hér, þingmenn og embættismenn séu of innblönduð og of skemmd til að sjá réttlætið. Fílabeinstrunin er ansi hár og of margt hefur viðgengist hér á þessu landi til að sama fólkið sé fært um að framfylgja réttlætinu.
María J. Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 9.6.2009 kl. 23:16
Þökk fyrir pistilinn Lára Hanna. Það eru svona umræður og ábendingar sem við þurfum og sem ráðamenn þurfa ekki síst. Ég hef hlustað umræður á þinginu undanfarið sem hafa fyllt mig óhug. Hafa forystumenn okkar enn ekkert lært. Við viljum umræður, skoðanaskipti byggð á rökum en ekki upphrópanir, útúrsnúninga, skammir og jafnvel svívirðingar á Alþingi okkar. Eins og umræður hafa verið undanfarið er eins og Ragnar Reykás hafi verið fjölfaldaður, lengdur og sendur á þing. Það er ekki boðlegt og alls ekki nú þegar hnípin og áhyggjufull þjóð bíður eftir aðgerðum sem varða öllu um framtíð okkar. Umræðan hefur skelft okkur og ruglað í ríminu. Við vitum ekki hverjum skal trúa. Af hverju reyna þingmenn ekki að leggjast á eitt um að reyna að komast að niðurstöðu. til þess verður að hleypa öllum að upplýsingum og jafnvel að samningaborðinu til að reyna að eyða allri tortryggni. Af hverju voru t.d. ekki einhverjir úr stjórnarandstöðunni með í viðræðunum. Þá væri e.t.v. einhverjar líkur á betri skilningi á niðurstöðunum. En upphrópanir eins og hefa heyrst í þinginu núna frá stjórnarandstöðunni eru auðvitað ekki boðlegar. Hvernig dettur Bjarna Ben. í hug að spyrja af hverju eignum Landsbankans var bara ekki hent í hausinn á Bretum og þar við látið sitja. Þannig ganga samningar auðvitað ekki fyrir sig. Allra síst í stöðu eins og okkar. Þingmenn, vandið umræðu ykkar, hættið pólitíska hráskinnaleiknum og reynið frekar að vekja vonir en skapa ótta. En fyrir alla muni segið sannleikann, dragið ekkert undan en málið samt ekki skrattann á vegginn bara til að reyna að koma höggi á pólitiska andstæðinga. Til þess voruð þið ekki kosnir. Gerið ykkur ljósa ábyrgð ykkar á þeim áhrifum sem orð ykkar hafa á þjóðina. Þið megið ekki vekja óþarfa ótta eða rugla okkur í ríminu með fullyrðingum og sleggjudómum.
Vandið ykkur !!
Haraldur (IP-tala skráð) 9.6.2009 kl. 23:20
sæl og takk fyrir að létta á hjarta þínu. Ég tel að þjóðin sé nú tilbúin til að taka á vandanum saman og berjast út á við. Ég get ekki sætt mig við þennan samning. Ef við ætlum að láta kúga okkur til samnings þarf það að vera uppi á borðinu og ástæðan ljós. Ef við ákveðum að lúta þvingunum er lágmark að nota varnarstöðu okkar og alla vega fá lægri vexti eða breytilega vexti svo að þeir séu í samræmi við vextina á útlánunum sem koma upp í skuldina. Helst af öll vildi ég að mynduð yrði þjóðstjórn. Það sem við þurfum núna er að þingið í heild komi að óvinsælum ákvörðunum og að hægt verði að notast við góðar hugmyndir hvaðan sem þær koma. Við þurfum á öllum okkar þingmönnum og sérfræðingum að halda og samstöðu þjóðarinnar. Þetta sem verið er að gera núna kallar á siðrof, rof á sáttmála og gríðarleg reiði er úti í þjóðfélaginu og nú loksins jafnt meðal vinstri sem hægri manna. Reiðin á ekki að þurfa að snúa að hluta þingmanna okkar!
Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 9.6.2009 kl. 23:32
Ég er búinn að vera að tala við menn úr viðskipta og bankaheiminum og rek nú sjálfur lítið fyrirtæki. Það botnar enginn í því hvernig mönnum datt í hug að skrifa undir þetta. krónan fallið báða dagana síðan og það veit enginn hvar það endar. Líkurnar að það fáist eitthvað að viti upp í þetta eru ekki góðar og útlitið dökkt í Bretlandi þar sem eignirnar eru og líkurnar ekki með okkur. vextirnir eru alveg út í hött, það skilur það enginn.
Ég hef á tilfinngunni að menn óttist svo að einangrast að þeir gera hvað sem er
Bara það að láta sér detta það í hug að skrifa undir þetta segir mönnum að stjórnin botnar ekkert í efnahagsmálunum og tala um að þessi samningur gefi skjól til að vinna að uppbyggingu er hlægilegur brandari
þessi gjörð afskrifar okkur endanlega sem gjaldþrota þjóð. Við eigum að taka það högg strax og komast á botninn til að spyrna okkur upp. með þessari leið verður ástandi bara verra og verra og endar í algjörri örbyrgð
Bara síðan skrifað var undir hefur skuldin vaxið um 20 milljarða og ekki eru það margir dagar
Það er auðséð að stjórnin botnar hvorki upp né niður í þessu. það er það sem hræðir mig mest
Þjóðin er tilbúinn að vaða eld og brennistein með ykkur stjórnvöld Við höfum nóg að bíta og brenna þó við einöngrumst um stund en þið verðið að verja okkur fyrir hrægömmunum.
En það verður að vera ljós við endann sem við stefnum á
Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 9.6.2009 kl. 23:35
Gott framtak og þarft Lára Hanna! Það verður spennandi að fylgjast með svörum þingmanna og ráðherra við bréfinu, ég efast ekki um að þú fáir mörg svör, gott ef ekki frá þeim öllum! - En það getur kannski tekið tíma að fá svörin því það er mikið að gera hjá þeim öllum við erfið mál sem öll þarfnast lausna. Og öll þjóðin fylgist með sem einn maður, loksins, nokkuð sem hefur ekki gerst í um tuttugu ár. Ég fagna því. og ég fagna því líka að þessi stjórn skuli vera við völd með hreinan meirihluta, því ég treysti þeim til að vinna verkin af alúð og umhyggju fyrir íslensku þjóðinni og framtíð landsins.
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 9.6.2009 kl. 23:40
Bestu þakkir fyrir framtakið. Þetta er hverju orði sannara, enn er pukrast og í stað skýrra upplýsinga á mannamáli eru véfréttaviðtölin allt of oft látin duga.
Það heldur áfram að grafa undan traustinu ef grunur er um að mikilvægum upplýsingum sé haldið leyndum og/eða ekki sé verið að rannsaka saknæma hluti.
Þá koma sögurnar um hagsmunatengsl og spillingu og afleiðingar verða verri en ef fólk telur að unnið sé af heiðarleika og fyrir opnum tjöldum, jafnvel þó staðreyndirnar séu erfiðar að horfast í augu við.
Gagnsæi, upplýsingar, réttlæti, það þarf svo sannarlega að hamra á þessu.
Solveig (IP-tala skráð) 9.6.2009 kl. 23:45
Þú ert ótrúlega góður penni Lára Hanna. Frábært framtak hjá þér eins og fyrri daginn og ég tek undir orð þín. Ástandið er orðið ískyggilegt og fer versnandi. Við skulum vona að einhverjum takist að blása þjóðinni bjartsýni í brjóst fljótlega, upplýsa okkur um hvað er framundan því óvissan er versti óvinur okkar í dag. Takk fyrir sérstaklega góða pistla.
Katrín Linda Óskarsdóttir, 9.6.2009 kl. 23:49
Er Eva Joly "holdgervingur vonar íslensku þjóðarinnar"? Þurfa menn ekki fara að leita sér einhverrar sáluhjálpar í reiði sinni, ótta og hysteríu. Er engin reisn eftir með þessari vesalings þjóð? Þú talar ekki í umboði mínu eða þeirra Íslendinga sem ég þekki og umgengst og berjast í bökkum engu síður en þú en finna ekki hvöt hjá sér til að reita hár sinn opinberlega. Vonin felst eins og ævinlega í réttlætiskennd og sálarstyrk venjulegs alþýðufólks á Íslandi. Auðvitað mun það sigra!
nonnih (IP-tala skráð) 9.6.2009 kl. 23:50
Gott bréf hjá þér Lára Hanna.
Hvað mig varðar líður mér eins og afkróuðum ferðalangi í húsasundi fjarlægs lands, þar sem svírlegir ribbaldar miða að mér byssu og biðja um peninga. Hvaða möguleika hefur maður í þeirri stöðu, aðra en að láta þá af hendi.
Hinsvegar.
Þegar og ef maður slyppi úr þess lags aðstæðum skyldi maður fara beinustu leið á næstu lögreglustöð og kæra. Fá réttlætinu fullnægt. Ég hef ekkert heyrt frá hinumn háttvirtu um að slíkt sé í bígerð.
Svo ég haldi áfram í líkingunum, má líka íslendingum við skólakrakka sem hefur orðið fyrir einelti. og þorir ekki að sækja rétt sinn. Fautarnir komu og sögðu „Láttu okkur fá alla vasapeningana þína, annars lemjum við þig og þú færð aldrei að vera með í neinu.“ Hvað getur manni annað dottið í hug, þegar ríkisstjórnin kemur og segir að þetta sé eini kosturinn. Annars verði okkur útskúfað. Fáum ekki að vera memm. Verðum skilin útundan í hópi hinna stóru.
Eru þetta skilaboðin sem við viljum senda börnum okkar? Nei takk. Ekki ég.
Að endingu langar mig að plögga næturhugrenningum mínum frá í gær.
Brjánn Guðjónsson, 9.6.2009 kl. 23:53
Um þennan samning verður aldrei sátt né friður og það er gott ef þú hefur komið því að hjá nokkrum stjórnarliðum. Ég er enginn ófriðarsinni en ég tek frekar slaginn núna meðan ég enn á samfélag að berjast fyrir heldur en að láta vaxtagreiðslur úr landi tæra burt íslenskt samfélag. Valið er milli baráttu eða uppgjöf og það er enn auðvellt.
Héðinn Björnsson, 9.6.2009 kl. 23:55
Sæl
Gott framtak, gott bréf.
Það þarf að gera allt til að stoppa samninginn - öll yfirveguðu rökin sem svo eiga að heita eru full af nauðhyggju, uppgjöf og vanþekkingu á alþjóðamálum og lagastöðu smáríkja. Það er hægt að gera betur, eftir ótalmörgum leiðum, áframhaldandi samningsleiðum, dómsleiðum, lagakrókum ellegar þá róttækari leiðum.
Kær kveðja
Hermann stefánsson
Hermann Stefánsson (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 00:12
Frábær grein hjá þér Lára ! Virkilega góð.
Ég sjálf er búin að skrifa öllum þingmönnum bréf og hef staðið fyrir utan Alþingishúsið berjandi makintiosdollur með gömlu trommukjuðunum mínum hrópandi slagorðið "Við látum ekki kúga okkur" aftur og aftur.
Stöku sinnum sé ég glitta á einu og einu andliti í gegnum rúðu alþingishússins. Ein þingkona hefur komið að máli við mig, Guðfríður Lilja. Sú kona er einstök, ég ber mikla virðingu fyrir henni sem og Lilju Mósesdóttir og trúi því að þær mun láta hjarta fylgja för þegar að hinum afdrifaríku icesave kosningum koma.
Bara núna á 2 dögum hefur það lán hækkað um "litla" 23 miljarða plús 200 milj. í vöxtum vegna smá lækkunar á gengi. úff...
Við erum að taka lán frá AGS sem kostar okkur 5 miljónir í vexti á dag, lán frá Norðurlöndunum, ESB, Belgíu, Hollandi, Póllandi, Rússlandi og ég veit ekki hvað og hvað.. ofan á allt þetta bætist svo Icesave þar sem vextirnir á ári nema jafnmiklu og 200 þús. tonn af þorski. Þess má geta að við leyfum veiðar á 150 þús. tonnum árlega.
Það hljóta allir að sjá að þetta gengur ekki upp... Við getum ekki tekið á okkur þessar skuldbindingar. Það væri ábyrgðarlaust með öllu. Við verðum að segja NEI og taka afleiðingarnar af því. Það er ekkert annað í stöðunni.
Ég hvet þig Lára Hanna til þess að lesa nýjust grein Jóhannesar Björns á vald.org. En þar skrifar hann tvær greinar sem bera heitið: Stundar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hryðjuverk? Þar rekur hann meðal annars sögu þá sem hefur verið á milli Breta og Íslendinga og aðkoma Sjóðsins að því.
Við verðum að stöðva þetta brjálæði. Fá allar upplýsingar upp á borðið og allar þær hótanir sem hafa þjóð borist ef hún skrifar ekki upp á þessi lán. Svo þurfum við að fara í PR stríð. Láta alla fjölmiðla heimsins vita hvernig er verið að fara með litla þjóð, standa saman og taka skellinn saman.
Ég vil frekar vera olíulaus í 3 ár (þá þróast vetnis og metan tækni okkar enn frekar) en að binda bæði land og þjóð í eilífðaránauð heimsauðvaldsins.
Björg F (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 00:27
Það er svo margt sem ég vildi taka undir í færslunni þinni Lára Hanna og líka undir sumt af því sem kemur fram í athugasemdum sumra. Ég er sem sagt afar þakklát fyrir þína miklu vinnu en ég vildi líka óska þess að þú hefir lifibrauð þitt af því að þjóna öllum þínum þakklátu lesendum jafnvel og raun ber vitni!
Það sem mig langar til að undirstrika sérstaklega í færslunni þinni er það sem þú segir um Evu Joly! Ég vona bara að hún gefist ekki upp á okkur eða réttara sagt þeim sem hún vinnur með. Mér hefur skilist að henni hafi ekki verið útveguð nein vinnuaðstaða og lítið eða illa farið eftir ráðleggingum hennar.
Ég myndi vilja fá að vita af hverju hún fær ekki að ráða hæfa sérfræðinga til að vinna með sér? Af hverju þarf hún að sitja uppi með vanhæfan saksóknara? Af hverju er ekki hægt að finna henni skrifstofu eins og þessum vanhæfa saksóknara? Var ráðning hennar bara sýndarmennska eða tilraun til að lægja öldurnar í samfélaginu um sinn? Ég myndi líka vilja vita hvort hún er með löggiltan skjalaþýðanda á sínum snærum? Skjalaþýðanda sem hún þarf ekki að borga sjálf úr eigin vasa.
Ef ríkisstjóður ætlar að gefa út skuldabréf út á innistæður almennings í lýfeyrissjóðunum þá mæli ég með því að þeim peningum verði m.a. varið í það verkefni sem Eva Joly stýrir. Ég vil að rannsóknin á þessari stærstu svikamyllu eftir seinna stríð verði sett af stað fyrir alvöru með þeim hæfustu sérfræðingum sem eru tilbúnir til að vinna með Evu Joly. Ef það verður ekki gert þá veit ég ekki hvað Eva hefur þolinmæði til að hjakka í þessu hjólfari sem henni var skammtað.
Ef þetta er jafn umfangsmikill spillingarpyttur og mörg okkar grunar þá endist Evu einni ekki aldurinn til að komast þar lönd eða strönd. Hún þarf öflugt lið með sér. Ef hún fær ekki þá aðstoðarmenn sem hún treystir til að vinna með sér er ég skíthrædd um að hennar bíði verkefni annars staðar þar sem verðleikar hennar eru í alvöru metnir að verðleikum á þann hátt að á hana sé hlutstað!
Hver getur láð henni ef hún ákveður að pakka saman og kveðja? Ef henni er gert ókleift að vinna að rannsókn íslensku svikamyllunnar þá skil ég vel að hún gefist upp. En auðvitað vona ég að hún átti sig á því að við, íslenska þjóðin, setjum traust okkar á hana. Ef hún fer er von okkar úti! Og hvað gerum við þá?????Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.6.2009 kl. 00:47
Ég er allavega með nýja hugmynd....
Hvað með, ef við bara lokum Íslandi??
Við bara hrekjum stjórnina burt, brennum stjórnaskránna og lagasafnið, og bara stofnum nýtt skuldlaust land?? Svo skrifum við bara ný lög og köllum landið "Newland" í stað "Iceland" ??
Þetta er allavega besta lausn á vandanum eins og hann er í dag. Ef þetta er hægt, Let's do it!
ps... ég er ekki grínast, allavega finnst mér þetta sniðug hugmynd.
Kjartan Ólason (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 00:54
Ég frétti í kvöld að Eva Joly væri við það að gefast upp, hér er svo mikil bankaleynd og enginn vill tala við rannsakendur. Allir bera fyrir sig bankaleynd. Ég þakka þér kærlega fyrir þetta bréf sem svo mörg okkar geta tekið undir.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.6.2009 kl. 00:57
Þakka þér fyrir þetta framtak Lára Hanna. Þú og réttlætið hafið sömu rödd og mig grunar að þið talið fyrir hönd meiginhluta þjóðarinnar með þessu bréfi.
Mér sýnist á viðbrögðum þeirra sem hafa svarað að þeir lesi ekki ástandið alveg rétt. Þeir einblína á icesave samninginn en hann er ekki eina málið. Mín skoðun en nefnilega sú að nú sé þjóðin að fá staðfest hið óhjákvæmilega: Við og okkar afkomendur þurfum að borga skuldir óreiðumannanna. Það er það sem misbýður réttlætiskennd fólks og að óreiðumennirnir læðist glottandi á brott.
Hrunastjórnin sló snarlega öfluga skjaldborg um fjárglæfraliðið. Það mátti ekki fara á nornaveiðar, "þetta er ekki rétti tíminn", "rykið þarf að setjast" og bla,bla. Þeirri ríkisstjórn tókst að koma frá og ný tók við. Þá fylltust margir von um að skarð yrði höggvið í þessa öflugu skjaldborg. En....skjalborgin stendur óhögguð. Áfram stjórnar sýslumaðurinn rannsókninni þó allir viti að hér þarf reyndan og hæfann fagmann sem þarf að sækja útfyrir landsteina. Eva Joly fær kvorki aðstöðu, mannsakp, fjármagn né nokkuð "backup". Maður hlýtur að spyrja sig hvort einskærar tilviljanir ráði því að fjárglæfraliðið fær ótakmarkaðan tíma til að hreinsa sínar tölvur og skjalaskápa.
Ég vona að tetta framtak þitt verði til þess að stjórnarþingmenn átti sig á að fólk vill upplýsingar, upplýsingar og upplýsingar. Einnig vil fólk sjá afgerandi aðgerðir gegn óreiðumönnunum, skjaldborgina rifna og endurreista utanum heimili landsins.
sigurvin (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 01:40
Gott framtak, gjössovel, ávísun á fálka(orðu)
Stefanía (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 01:59
Þakka þér bréfið og annað framlag þitt hingað til
Guðríður Adda Ragnarsdóttir (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 02:04
Ólína er eina sem svarar af viti.
Svar Svandísar er almennt og aumkunarvert kosningaþvaður. Hún kann rulluna einum of vel.
Nú þurfa þingmenn að taka ákvarðanir og standa og falla með þeim. Guðfríður Lilja fær plús í kladdann fyrir að standa með sinni sannfæringu þó afstaða hennar að mínu áliti sé út á þekju. Verður fróðlegt að sjá hvort hún stendur við stóru orðin og felli samninginn í þinginu.
Það er hárrétt hjá þér Lára Hann að réttlætið verður að sigra. Annars skaðast þjóðarsálin og nær sér kannski aldrei aftur! Hrunið er að gjörbreyta sjálfsmynd þessarar örþjóðar.
Mikið hafa fáir á samviskunni.
Annars spái ég því að þessi stjórn situr ekki út árið. Svo erfitt er verkefnið og VG og Samfylking eru ekki að horfa sömu augum til framtíðar. Slík hjónabönd vara stutt.
Takk Lára Hanna fyrir Bloggið þitt. Þú átt skilið Fálkaorðuna.
Jón Halldór Eiríksson, 10.6.2009 kl. 02:06
Lára,
Takk fyrir þetta framtak, en svörin eru sorgleg. Á meðan Álfheiður bíður vongóð eftir að fá öll spilin upp á borðið, er Ólína þegar búin að ákveða sig. Enn og aftur halda sumir/sumar að það þurfi ekki að lesa smáa letrið, eða setja sig inn í grundvallarupplýsingar sem enn eru á huldu.
Og ekki er Ólína endilega barnanna verst, sumir tjá sig eins og málið sé búið og gert vegna loforða framkvæmdavaldsins í vetur.
Svona risasamningur er auðvitað á ábyrgð þingsins, enn frekar en ríkisstjórnarinnar. Bara sem dæmi, myndi Bandaríkjaþing telja sig skuldbundið til að samþykkja 4 þúsund miljarða dollara áhættu fyrir sinn ríkissjóð, af því framkvæmdavaldið í Hvíta húsinu skrifaði upp á eitthvað? Þetta myndi ekki hvarfla að nokkrum bandarískum þingmanni, hvorki hægrisinnuðum byssutrúarmönnum né vinstrisinnuðum “bleeding heart liberals”, og má þó færa gild rök fyrir því að Washington sé Mekka óreiðumanna í heiminum.
Íslendingar eiga einfaldlega ónýta stjórnmálastétt. Þarna eru nokkrir góðir einstaklingar, en sem hópur hefur þetta fólk vanið sig á hugsunarhátt, samskipti og vinnubrögð sem eru galin. Ef ekki tekst að vinda ofan af þessu rugli núna, hvenær þá?
Ari Eiriksson (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 02:08
Ég má til að stinga mér hingað inn aftur til að taka heils hugar undir með Ara hér að ofan!!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.6.2009 kl. 02:20
Vil líka fá að stinga hér inn bút úr grein Jóhannesar Björns með leyfi...
"Aðferðin sem sjóðurinn notaði var dæmigerð og margreynd út um allan heim. Fyrst lofaði hann láni—lét menn finni lyktina af peningunum—en neitaði svo að afhenda lánið þar til búið var að framkvæma hluti sem fræðilega komu sjóðnum ekkert við. Evrópusambandið (að virðist) kom síðan í veg fyrir að peningar bærust frá öðrum aðilum. “Sveltum skepnuna”, var viðkvæðið hjá Ronald Reagan þegar hann talaði um að skera niður félagslega þjónustu, en það var nákvæmlega aðferðin sem notuð var gegn Íslandi.
Hlutverk AGS er þó miklu stærra í sniðum en að starfa eins og handrukkari. Sjóðurinn stundar óbeint trúboð með því að hjálpa öfgamönnum að útbreiða hugmyndafræði Milton Friedman—nýfrjálshyggjustefnu Chicago skólans—sem boðar einkavæðingu á svo til öllu og taumlausan kapítalisma. Ekkert kætir sjóðinn meira en brunaútsölur á ríkisfyrirtækjum—helst fyrirtækjum sem luma á orku eða hráefnum. "
Greinina má sjá í heild sinni á www.vald.org
Skyldulesning fyrir alla og þá sérstaklega þingmenn þjóðarinnar
Björg F (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 02:46
Takk fyrir þetta Lára, sumir tala um aumkunnarleg svör frá þessum þingmönnum, þeir svöruðu þó, hvað með hinna, eru þeir ekki þrjátíu og eitthvað, þeir hafa kannski svona mikið að gera við að skera niður ??? OG SVONA AÐ LOKUM ÞAÐ ER SKELFILEGT EF ÞAÐ Á AÐ SKERA NIÐUR BÆTUR HJÁ ÖRYRKJUM OG ÖLDRUÐUM, ÞETTA FÓLK Á VART Í SIG OG Á, Á AÐ GANGA AÐ ÞESSU FÓLKI DAUÐUM, HVERNIG VÆRI AÐ SKATTLEGGJA ÞÁ SEM EIGA 2. TIL 3. ÍBÚÐIR, HÚS EÐA SUMARHÚS, NÚ EÐA ÞÁ SEM EIGA ATVINNUHÚSNÆÐI ÚT UM ALLAN BÆ, VÆRI EKKI NÆR AÐ BYRJA Á ÞESSU FÓLKI, ( RÍKA FÓLKINU ), HELDUR EN AÐ RÁÐAST Á ÖRYRKJA ?????
Sigurveig Eysteins, 10.6.2009 kl. 02:52
Kjartan bryddar á "nýrri" hugmynd í fúlustu alvöru.
Hef líka velt fyrir mér þetta viðskeyti sem margar borgir, bæjarfélög, fylki og fleira hafa skeytt framan við aristókratalegra nafn:
New York, New Jersey, Newfoundland, New Brunswick, New Hampshire, Nova (new) Scotia, New Iceland, New Zealand og fleira og fleira .......
Þurfum við ekki ferskt, nýtt upphaf? Allavega er ég komin með upp í kok á hinu!
Jenný Stefanía Jensdóttir, 10.6.2009 kl. 03:21
1000 þakkir Lára Hanna mín fyrir að standa alltaf vaktina - tek undir allt sem í bréfinu stendur og deili með þér áhyggjunum af andvaraleysinu sem virðist einkenna stjórnsýsluna og æðstu embættismenn þjóðarinnar. Ég varaði Jóhönnu og Steingrím við því að það yrði allt vitlaust hér ef sá verkefnalisti sem mér var sýndur varðandi sumarþingið myndi ekki innihalda einhverjar lausnir fyrir fjölskyldurnar í landinu - það er svo sem ljóst að þeirra afstaða um að nóg væri gert er það sem varð ofan á... ég vona að þessi varnaðarorð þín verði til þess að fólkið í stjórninni inni á þingi vakni upp og fari að fylgja samfæringu sinni - og að það kynni sér ICESAVE með opnum huga frá sem víðtækustum grunni.
Birgitta Jónsdóttir, 10.6.2009 kl. 07:33
Sæl Lára Hanna
Ég vil byrja á því að þakka þér fyrir að halda úti þessu bloggi. Umræðan verður að halda áfram. Ég deili með þér þessum ótta og vonleysi. Mér finnst sjálfum eins og ráðamennirnir séu bara ekki jarðtengdir. Þjóðin virðist hins vegar vera það og skilur það að við munum aldrei í lífinu getað endurgreitt allar þessar skuldir sem er verið að henda á okkur. Þjóðfélagið stendur hreinlega ekki undir þeim. Við erum bara 300 þús manns og það er takmarkað hvað við getum greitt. Það er mýrarljós að halda það að þessi 7 ára greiðslufrestur veiti okkur eitthvað skjól. Þessar skuldir munu bara hanga yfir okkur eins og sverð Damoclesar og eftir 7 ár þá kemur að skuldadögum sem við getum ekki greitt. Hvað gerist þá. Maður spyr sig hvort að maður eigi bara ekki að flýja land en ég sé litla framtíð hér fyrir ungan son minn og ég vil búa í samfélagi sem getur gefið honum tækifæri á að verða eitthvað. Ég er ennþá ungur og get byrjað upp á nýtt á nýjum stað, það geta ekki allir.
Ólafur Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 09:16
Sæl Lára Hanna og kærar þakkir fyrir þitt mikla og góða starf á þessum erfiðu tímum.
Ég kaus núverandi ríkisstjórn (VG) og veitti þeim umboð mitt vegna loforða þeirra um að:
- Íslandi væri best borgið utan ESB
- Þeir vildu IMF burtu
- Sýna ætti fulla hörku í IceSave málinu og að láta reyna á dómstóla
- Ráðast ætti á verðtrygginguna og að það ætti að vera forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar
- Upplýsingaflæði til almennings átti að stórbæta
Ekkert af þessu hafa VG staðið við en telja sig samt enn hafa umboð frá mér án þess að ég segi neitt við því. Ég hef varla getað sofið af reiði, áhyggjum og vonleysi og flokkurinn sem ég kaus gefur mér ekkert til efni til að endurskoða þessar tilfinningar. Ég er mjög hrædd um það hvernig þetta mun enda.
Kolbrún Heiða Valbergsdóttir, 10.6.2009 kl. 09:19
Gaman að lesa þessi svör, Ólína Þorvarðardóttir dettur samt í þann farveg að svara með spurningum. Það er það leiðinlegasta sem stjórnmálamaður gerir.
Ólafur Sveinn Haraldsson (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 09:36
Ég er mikið að velta fyrir mér svipuðum hlutum og Haraldur gerir ágætlega í #15.
Í Hruninu hans Guðna Th. bls 141 er því velt upp að etv hefði mátt bjarga einum banka eða fleiri ef ekki væri fyrir meting og sjálfhverfu eigenda þeirra. Svona sjálfhverfa virðist heltaka marga sem setjast á þing. Eilífur belgingur, derringur, rembingur og sjálfumgleði einkenna alltof marga þingmenn og koma í veg fyrir vitræna umræðu.
Hvað veldur þessu? Er það flokkapólitíkin?
Hversu miklu betur værum við sett með fleiri þingmenn sem geta blandað sér í umræðuna af málefnalegri hófsemd á sama hátt og þær 4 ÞINGKONUR gera sem svara þér Lára?
Guðl. Gauti Jónsson, 10.6.2009 kl. 11:31
Ég þakka. Góðir hlutir gerast hægt. Það er ekki hægt að uppræta spillingu á nokkrum mánuðum. Viðhorfs breyting tekur mörg ár. Ég legg mikla vonir um að nýja kynslóð landsins mun vera heiðarlegra. En fórfeður vor.
Anna , 10.6.2009 kl. 13:10
Nå står det i Morgenbladid at Eva Joly skal slutte som spesialrådgiver, siden (hvis jeg har forstått det rett) hun ikke ble lyttet til og gitt de nødvendige arbeidsmuligheter.
Hvordan tør Islandske myndigheter (som står foran en sannsynlig EU-søknad) å slippe Eva Joly løs i EU-systemet med meldinger om at på Island ønsker de ikke å etterforske sine kriminelle?
Hvordan tror man dette ser ut ute i Europa?
MVH
Håvard
Håvard Saude (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 14:38
Ég hef enga trú á að réttlætið nái fram að ganga. Baldur Guðlaugsson aftur orðinn ráðuneytisstjóri og ekki er tekið mark á ráðum Evu Joly sem er kannski að hætta.
Sigurður Þór Guðjónsson, 10.6.2009 kl. 14:51
Sæl.
Mér finnst athyglisvert að engin þessara ágætu kvenna gefur þó neitt út á lykilatriðið, sem er traustið. Það er lauslega nefnt einhvers staðar, en ekkert gefið út á þennan part með Evu Joly og hlutlausu aðilana sem þurfa að rannsaka málin. Við VILJUM réttlæti og eigum HEIMTINGU á því. Ég vil sjá menn hanga fyrir að koma okkur á kaldan klaka og þá sérstaklega Landsbankamenn með sína ófyrirleitnu ICESAVE-reikninga. Hins vegar hef ég heyrt því fleygt að Samfylkingin ætli að fría Björgólf yngri af öllu og bjóða honum svo til kaups ýmsar eignir til að "endurreisa" íslenskt samfélag. Sögur séu farnar að berast úr þeirra búðum um ágæti hans og sakleysi. Sel það ekki dýrara en ég keypti.
Mér finnst sem sagt svör þessara kvenna nokkuð á þeim nótum að þær séu bara að svara til að sýna lit og fá viðurkenningu fyrir það. Þær slá þó ekki ryki í augun á mér. Ólína er náttúrlega bara Samfylkingarmaður sem er blindur sem slíkur og þær hinar segja ekki neitt.
Kveðja,
Svanhildur Steinars
Svanhildur Steinars (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 15:05
Tilvitnun í svar Ólínu:"Þetta mál hefur reynst þingmönnum afar erfitt. Það er ekki auðvelt að móta yfirvegaða skoðun þegar barin eru búsáhöld í eyrun á manni og póstkerfið fyllt af áskorunum sem sendar eru margsinnis af sama fólkinu. Það er ekki þægilegt að taka við skítkasti og skömmum fyrir skoðun sína. Einmitt þess vegna er mikilvægt að maður sé sjálfur sáttur við afstöðu eigin afstöðu og að hún sé vel ígrunduð."
Fyrirgefðu Ólína að við skyldum vera að berja í búsáhöldin og "trufla" þig. Ef þú, sem þingmaður, gefur kost á þvi að fólk geti sett athugasemdir inn á bloggið þitt, þá verður þú líka taka því að það segja ekki allir amen og halelúja yfir hverju því sem að þú segir.
Var það annars ekki "búsáhaldabyltingin" sem að kom þér inn á þing. Þú bölvaðir ekki búsáhöldunum þá.
Já já um að gera að samþykkja Icesavesamninga, með risavöxtum, sem að við ráðum ekki við, alveg frábært. Já og svo er Eva Joly víst að fara að hætta. Lái henni hver sem vill.
Þórkatla Snæbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 15:20
Gott hjá þér Lára Hanna, þú stendur þig sérlega vel.
Svörin eru sorglega fá. Þau er líka afar innantóm frá öllum þessum fáu, sérstaklega Svandísi. Orðagjálfur, engar skýringar á leyndinni né áform um hvernig eigi að aflétta henni.
Stjórnmálamennirnir okkar núsitjandi hafa aldrei fyrr tekist á við svona mikla alvöru. Aðeins damlað í einhverju gruggi sem fylgt hefur pólitískri þátttöku og ekki þurft að hafa áhyggjur af neinu sem máli skiptir. Fyrr en núna. Og þeir virðast ekki valda því. Enginn þeirra. Það virðist ekkert afburðafólk veljast í þetta slor.
Fimmta valdið (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 15:33
Það vantar bara upptöku í hljóð og mynd ... raunveruleikasjónvarp sem fylgir öllum ráðherrum og þingmönnum í opinberum störfum.
Dálítið róttæk tillaga já ... en ef einhver á að semja um framtíð Íslands fyrir mína hönd þá vil ég fá að vita hvernig það ferli fór fram eins nákvæmlega og mögulegt er utan þess að vera sjálfur á staðnum.
Allt sem heitir "trúnaðarupplýsingar" eða "á viðkvæmu stigi" er bull og vitleysa sem fólk verður bara að rífa sig upp úr og sætta sig við að á ekki við þegar kemur að hinu opinbera. Slíkt leynimakk er spillingartæki sem við verðum að fjarlægja.
Björn Leví Gunnarsson, 10.6.2009 kl. 15:33
Ég átti ekki til orð yfir svarinu hennar Ólínu! Ef þetta er lýsandi fyrir þá alþingismenn sem nú sitja í stjórnarmeirihluta þá segi ég nú bara Guð hjálpi okkur! Hroki gerir ekki neitt fyrir þessa þjóð. Þeir sem eru fullir af hroka sjá það ekki sjálfir. Það er ekki lengur töff Ólína að bera fyrir sig hroka eða tala niður til þeirra sem vilja réttlæti. Væri gaman að heyra hvað Njörður P. segir núna um stöllu sína?
ÞE (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 16:19
Var skoða svörin aftur. (Vona að fleiri séu búin að svara). Tók eftir að Ólína ræðir í raun ekki aðalatriði bréfs þíns, ákallið um upplýsingar, gagnsæi og réttlæti ALMENNT. Svarið er eingöngu skýring á afstöðu hennar til Icesave.
Solveig (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 19:36
ég gef ekkert fyrir þessu svör sem þú fékkst. Það getur verið að þau nái að róa þig og kæta en þetta eru svona týpísk ekki svör. Ósköp fannst mér tilgerðarlegt og yfirlætisfullt svarið frá Álfheiði "lára MÍN hanna" mig langaði til að æla. En ef þú ert ánægð með snuðið sem er búið að stinga upp í þig þá þarf lítið.
anna María (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 20:47
Fyrgefðu Lára Hanna að ég leyfi mér að taka smábeygju frá umræðunni.
Eftirfrandi sá ég á bloggi Ólínu Þorvarðardóttur, alþingismanns:
Þessi orð þingmannsins finnst mér umhugsunarverð! Að þingmanninum finnist það umhgsunarvert að Joly tali eins beint til almennings og hún getur.
Joly hefur frá því hún kom fram í Silfri Egils sent þau skilaboð að hún sé að vinna fyrir almenning - Íslendinga - sakleysingjana í málinu - þá sem voru ekki gerendur.
Það er umhugsunarvert að þingmaðurinn skuli enn ekki hafa skilið að Joly vill hjálpa íslenskum almenningi en ekki íslenskum stjórnvöldum.
Joly nýtur trausts almenning vegna þess að hún talar við almenning en ekki við stjórnmál bak við luktar dyr.
Stjórnvöld gjörið svo vel að ganga að öllum kröfum Evu Joly, stórum sem smáum.
Helga (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 21:55
Kæra Lára Hanna.
Ég hef augljóslega ekki lesið bréfið þitt nógu vel - ég áttaði mig ekki á því þegar ég svaraði þér að það yrði birt hér í færslunni þinni og þar með gert opið fyrir athugasemdum frá öðrum. Ekki svo að skilja að ég hefði efnisllega svarað þér neitt öðruvísi. En ég er fyrir vikið fyrst að koma hér inn í þessa umræðu núna, eftir að mér hefur verið bent á þessar umræður hér - ég vissi ekki af þeim fyrr og bjóst ekki við að ég þyrfti að "verja" svör mín til þín fyrir öðrum en þér sjálfri.
Sumir sem gera hér athugasemdir leggja nokkuð upp úr því að draga einlægni mína í efa, og vilja frekar mála mig þeim litum að ég vilji ekki hlusta á fólk og síst af öllu tala beint til almennings. Ég er meira að segja sökuð um hroka og yfirgang í þessu svari - svari sem var skrifað til bloggvinkonu í hjartans einlægni og af fullkominni hreinskilni.
Ég vil bara árétta það að í þessu máli er mikill þrýstingur úr ýmsum áttum. Undir slíkum kringumstæðum verður maður að horfa í eigin barm og hlýða samvisku sinni og skynseminni. Það stingur mig að sumir hér skuli ekki vera tllbúnari að virða skoðanir annarra en raun ber vitni - þeir efast sjálfkrafa um heilindi og heiðarleika þeirra sem hugsa öðruvísi en þeir. Það er ekki gott að eiga rökræður í slíku andrúmslofti.
Varðandi síðustu athugasemdina (frá Helga) þá er það fjarri mér að amast við því að Eva Joly skuli tala til almennings. En að hún skuli ekki líka (helst áður) snúa sér beint og milliliðalaust til réttra aðila, það finnst mér já undarlegt, sérstaklega í ljósi þess hve alvarlegar athugasemdir hennar eru.
Það er ósiður að ræða ekki beint og milliliðalaust við þá sem maður á erindi við. Það breytir því ekki að athugasemdir hennar eiga fullt erindi inn í opinbera umræðu, og ekkert nema gott um það að segja að hún skuli hafa tjáð sig um þetta opinberlega.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 10.6.2009 kl. 22:21
@Ólína " Það er ósiður að ræða ekki beint og milliliðalaust við þá sem maður á erindi við".
Í fínu Kastljósviðtali sagði Eva Joly að hún hefði (beint og milliliðalaust) sett alvarlegar athugasemdir við hæfi saksóknara, og að hennar afstaða væri "common knowledge" í stjórnkerfinu.
Slóðaháttur undangenginna mánuða er ekki bara ósiður, heldur sóun á orku og peningum skattborgara, sem voru í góðri trú um að rannsókninni miðaði vel áfram í fullri sátt og samstarfi við yfirvöld.
Það er hlutverk alþingis og stjórnar að sjá svo um að málum sé fylgt eftir, og sé ekki kastað á milli manna í vonlausu sjónarspili og blekkingu.
Í dag gerist það svo, eftir að augu ríkisstjórnar hafa opnast fyrir alvarleika málsins, að er rokið til og saksóknari lýsir sig vanhæfan og nýr ráðinn, með það sama.
Held að það þurfi ekki að ræða þetta frekar allra sýst með "mannasiði" að leiðarljósi. Slæmir mannasiðir dæma þann sem þá brúka verst, en stundum þarf að svara líku líkt.
Eva Joly, lítur svo á að hún sé að vinna fyrir íslenskan almenning! Eitthvað sem aðrir sem málið er skyldara ættu að taka sér til fyrirmyndar.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 10.6.2009 kl. 22:55
Helga (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 21:55 .............
"........ Stjórnvöld gjörið svo vel að ganga að öllum kröfum Evu Joly, stórum sem smáum." 100 % Sammála !
Mér fannst Eva Joly bara sjokkeruð í Kastljósviðtalinu ..... hver andsk. er hér í gangi ?
Heiður (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 23:26
SVei mér ef frú Ólína er ekki bara orðin holdgervingur Icesave samningsins og eigi því skilið alla gremjuna, beiskjuna, reiðina og óttan, sem birtist hér í orðum fólks!?
Eins og mál hafa þróast er það ekkert óeðlilegt að bleik sé brugðið, en það veit sá sem allt veit, að þótt Ó hafi vissulega breitt bak og hafi ýmislegt reynt, þá á hún ekki skilið þessar dylgjur og getsakir sem hér eru fram bornar.Þar á ég ekki hvað síst við athugasend nr. 50, en ekki er langt um liðið svo mjög frá því höfundur hennar kveinkaði sér hér sáran undan einhverri gagnrýni og ákvað þá að hætta að koma hingað inn. Honum ferst því í gagnrýninni og virðist reyndar setja samasemmerki milli þess að vera ekki sammála einhverjum og skítkasts! (hið síðarnenfda sé bara eitthvað sem Ólína geti bara þolað fyrst hún leyfi athugasendir á eigin bloggi?)
Þetta er ekki bara hrópandi mótsögn, heldur einfaldlega rugl.
Litlu síður þykir mér svo leitt að lesa athugasend hans Hauks Nikulássonar, sem reyndar hefur skrifað margt gott og skemmtilegt gegnum tíðina.Vægt til orða tekið, er samjöfnuður hans við ástandið nú hér á landi við það sem gerðist í Perú og Argentínu, afskaplega óréttlátur og rangur. Eða ætlast Haukur virkilega til þess að fólk leggi að jöfnu, ógnarstjórn, ofsóknir, fátækt, hungur, morð og gripdeildir, sem plöguðu þessar tvær þjóðir og gerir að mörgu leiti enn, við nokkra ma´nuða erfitt efnahags- og fjármálaástand, sem jú vissulega er alvarlegt, en kemst ekki í hálfkvist við þann vanda sem á undan var talið og dróg þær þjóðir niður í svaðið!?
Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt, en sýnir þó auðvitað hve annars velupplýst fólk er farið að tala og af því hef ég nú mun meiri áhyggjur sjálfur, en af framtíðinni, veraldlegum skuldum þjóðarinnar til eða frá árið 2016!
Magnús Geir Guðmundsson, 10.6.2009 kl. 23:49
Afsakaðu Lára Hanna enn eitt kommentið en mig langar að segja:
Ólína, svar þitt tengist eingöngu einu máli, Icesave, og hvernig þú ætlar að greiða atkvæði um það mál. „Ég hef kynnt mér þetta mál svo vel sem mér er unnt og komist að þeirri niðurstöðu að það sé réttast af okkur að taka þessum samningi.“ „Ég ætla að greiða atkvæði með þessum samningi, og bið þig að virða ákvörðun mína.“
Það svarar ekki ákalli Láru Hönnu og fjölmargra annarra um gagnsæi, upplýsingar og réttlæti í ÖLLUM málum. Bæði í almennri stjórnsýslu sem og við uppgjörinu á hruninu. Rannsókn, aðferðum, mannaskipan, fjárveitingu. Leiðir sem þarf að fara til að ná réttlætinu fram og endurskapa traust.
Varðandi Evu Joly kom fram að þetta er ekki í fyrsta sinn sem hún kemur í vinnuferð, ólíklegt að hún sé ekki búin að koma þessum skoðunum á framfæri við sitt samstarfsfólk. Þú gefur þér að svo sé ekki. („En að hún skuli ekki líka (helst áður) snúa sér beint og milliliðalaust til réttra aðila, það finnst mér já undarlegt, sérstaklega í ljósi þess hve alvarlegar athugasemdir hennar eru.“)
Ég gef mér að svo sé.
Nú snýr hún sér til þeirra sem þrýstu á um að hún kæmi. Er það heiðarleg að segja, það er ekki unnið eins og ráðlegg, því tel ég að þið að fáið ekki það útúr minni vinnu sem ætlast er til. Fyrir það vil ég ekki þiggja laun.
Til hvers var verið að fá sérfræðing til starfa ef ekki á að hlusta á ráðleggingarnar?
Solveig (IP-tala skráð) 11.6.2009 kl. 00:06
Mig langar til að vekja athygli á athugqasemd Kolbrúnar nr. 41! Það er ljóst að eftri kosningar hefur orðið alger umsnúningur á stefnuskár VG miðað við framgöngu þeirra í ríkisstjórn! Þetta lítur frekar út fyrir að vera EKKI-stefnuskrá VG. Er þetta ekki forsendubrestur og mega þá kjósendur VG ekki rifta samningum!
Ég treysti ekki hreinlega ekki þeim sem sitja við stýrið lengur! Það getur verið að þeir séu með svona gjörsamlega vanhæfa ráðgjafa en ég krefst þess þá að þeir reki þá á stundinni og ráði til sín hæfa einstaklinga sem eru í sambandi við íslenska þjóð og hennar raunverulegu þarfir!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.6.2009 kl. 02:05
Komið þið sæl; Lára Hanna, sem þið hin - hver geymið hennar síðu, og brúkið !
Magnús Geir Guðmundsson !
Á hvaða helgum stalli; hyggur þú Samfylkingar þingmenn vera - öðrum fremur ?
Er nokkru; skrökvað hér, um STAÐREYNDIR íslenzks þjóðlífs ?
Er FLOKKURINN þér; hið allra helgasta, á jarðríki ?
Hvers virði; raunverulega, er eiðstafur sá, sem Alþingismenn undirgangast, og sverja hollustu, við töku sæta sinna ?
Hefir nokkuð þurft; að minna þetta fólk (þingmenn) á, hverra HAGSMUNA það á að gæta, í störfum sínum ?
Þú virðist ósáttur; við réttilega skírskotun Hauks Nikulássonar, með því ástandi, sem viðavarandi hefir jú verið; víða í Suður- Ameríku ?
Eru ekki; áþekkir hlutir, að þróast hér ?
Eru Fjölskylduhjálp og Mæðrastyrksnefnd, auk annarra fjölmargra hjálpar stofnana, upp á punt eitt ?
Svari þú nú; þá þú þorir, Magnús minn !
Þakka; að öðru, yfirleitt. skynsamlega og mjög brýna umræðu.
Lára Hanna, á sér víst fáar hliðstæður - sú veleðla kona, gott fólk.
Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 11.6.2009 kl. 02:53
-Engum og hér er um að ræða eina konu, ekki þingmenn, sem er vinkona mín og mér þykir vænt um og tek ekki orðalaust ef einvher kastar rýrð á að ósekju.
-Skrök er ekki rétta lýsingin, orðið, heldur eru uppi alls kyns fullyrðingar og ranghugmyndir sem standast ekki skoðun eða eru rangar. Dylgjur í garð Ólínu og lýsingar á meintu innræti hennar he´rna m.a. dæmi um það.
-Hvaða flokki, B, D, O, S, V? Ef þú heldur að ég tali fyrir hönd einhvers flokks, þá er það misskilningur.
-Þingmenn sverja ekki eiðstafnum hollustu,eiðstafurinn er yfirlýsing þeirra að fara eftir sannfæringu sinni og virða og verja stjórnarskrána. Hvers virði það er sem slíkt, verður ekki metið sem slíkt, en er óhjákvæmileg forsenda þingsetu. En stundum verður mönnum á, eins og segir í textanum ættuðum frá Bifröst,þingmenn fara ekki alltaf eftir sannfæringu sinni og dæmi eru um brot á stjórnarskránni, eitt örlagaríkasta dæmið er Öryrkjadómurinn líkast til.
-Sá dómur hefur einmitt áreiðanlega mynt þá marga á hvaða hagsmuni þeir ættu að gæta.
-Nei, hér eru ekki álíka hlutir að þróast, hvað þá að hafa viðgengist hjá þessum þjáðu þjóðum, engin herforingjastjórn sem ofsótt hefur þegnana, látið þá hverfa, myrt og þyntað, né einræðisvald ríkt samfara hungursneyð,ofsóknum á hendur minnihlutahópum, (indijánafrumbyggjum í tilfelli Perú, Inkunum) og þannig mætti áfram telja.Síðatliðin 65 ár allavega, á lýðveldistímanum, hafa Íslendingar þegar öllu er á botnin hvolft, átt góðu gengi að fagna og lifað við meiri lífsgæði en stærstur hluti íbúa jarðarkringlunnar!
En ekkert er fullkomið, alltaf verða einhverjir undir og eiga bágt, þannig hefur það alltaf verið og mun alltaf verða.
Og svo bara þetta:
Þótt efalaust hafir, innan- já borðs,
eðalhjarta úr gulli.
Óskar minn Helgi, hagur til orðs,
hættu nú þessu bulli!
Magnús Geir Guðmundsson, 11.6.2009 kl. 12:15
Afsakið,einu y ofaukið í orðinu mint hér að ofan.
Magnús Geir Guðmundsson, 11.6.2009 kl. 12:20
Komið þið sæl; á ný !
Magnús Geir !
Þakka þér; tilraun þína, til andsvara nokkurra, þó klén sé - sumsstaðar.
En; sé ''bull'' mitt, eitthvað frábrugðið raunveruleika skynjun annarra, þá verð ég, að biðja forláts á, séu skynfæri mín ekki, sem skyldi - til raunveruleikans sýnar.
Ágætur hagyrðingur ertu; ávallt, Magnús Geir, og skyldi ei nokkur kasta rýrð, á þann fágæta eiginleika.
Með beztu kveðjum; sem fyrr og áður /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 11.6.2009 kl. 12:29
Frábær pistill og bréf frá þér Lára Hanna, ég er þér algjörlega sammála.
Kjartan Birgisson, 11.6.2009 kl. 12:55
Lára Hanna. Ólína Þorvarðardóttir er greinilega sár vegna birtingar þinnar á svari hennar hér á bloggsíðu þinni. Hún verður að gera sér grein fyrir því að eftir að hún er komin inn á Alþingi er hún opinber persóna þegar kemur að umræðu um pólitísk mál.
En þessi ályktun hennar um viðtöl Evu Joly eru mér sár vonbrigði. Svo virðist vera að flestir Íslendingar og jafnframt fólk af öðrum þjóðum hafi meiri áhuga og áhyggjur af því hvernig rannsókn á aðdraganda þess að við erum komin í hóp snauðustu og smáðustu þjóða heimsins vindur fram en kjörnir fulltrúar okkar á Alþingi.
Árni Gunnarsson, 11.6.2009 kl. 21:59
Hvað meinar Ólína, að hún hafi ekki vitað að ætti að birta svarið hennar? Hún segir sjálf í byrjun síns svars, að hún sé þegar búin að birta það á sínu bloggsvæði LÍKA. Hún gerir sér grein fyrir því að svarið verði birt svo ekki má um villast.
Hvað er hún að pæla? Einhver tilgangur hlýtur að vera með þessu.
Svanhildur Steinars
Svanhildur Steinars (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 14:18
Svo er annað! Hvernig stendur á að í ICESAVE-samningnum eigum við að afsala okkur rétti til að fara í mál við breta!!! Hvers vegna vilja þeir hafa þetta inni, nema vegna þess að þeir gera sér grein fyrir því að við gætum farið með sigur af hólmi í þeim málarekstri.
Svanhildur Steinars
Svanhildur Steinars (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 14:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.