Hugsað upphátt um Icesave, réttlæti og mótmæli

Til að byrja með langar mig að leiðrétta leiðan misskilning sem ég hef orðið vör við. Icesave-samningurinn er ekki flokkspólitískt mál heldur þverpólitískt eða ópólitískt. Hann er harmleikur þjóðar, afleiðing taumlausrar græðgi nokkurra siðlausra manna og meðvirkra meðreiðarsveina sem kunnu sér ekkert hóf. Og spilltra, vanhæfra og sinnulausra stjórnmála- og embættismanna. Það er fáránlegt að einhverjir flokkar, einkum þeir sem eru í raun arkitektar hrunsins, eigni sér andstöðu við samninginn. Þess vegna þurfa þeir sem vilja mæta á mótmælafundinn á Austurvelli klukkan 15 í dag ekki að hafa áhyggjur af því að þeir lýsi þar með yfir stuðningi við einhverja stjórnmálaflokka. Þeir lýsa yfir stuðningi við sjálfa sig, samvisku sína og þjóðina - og andstöðu við óréttlæti.

Ég veit varla lengur hvað snýr upp eða niður á Icesave-samningnum. Hvort ég er samþykk honum eða ekki. Ég les og les, hlusta, horfi og tala við fólk - og snýst í hringi. Við höfum loksins fengið að sjá samninginn (sjá viðhengi neðst í færslu) en enginn hefur ennþá séð eignirnar sem eiga að fara upp í. Hvorki samninganefndin né ríkisstjórnin, hvað þá þingmenn eða þjóðin. Ku vera mest lánasöfn og slík söfn eru ekki traustustu eignirnar nú til dags. Og ómögulegt að segja hvað gerist á næstu 7 árum. Þeir voru ekki beint sammála, Indriði H. og Eiríkur Indefence í Kastljósinu á fimmtudagskvöld.

Auðvitað vil ég standa í skilum við mitt. Það er óheiðarlegt að borga ekki skuldir sínar. En þetta eru ekki mínar skuldir. Ég er í nógu rammgerðu skuldafangelsi fyrir þótt Icesave-skuldirnar bætist ekki við. Íslenska ríkið líka. Og þær bætast ekki bara við mínar skuldir heldur einnig afkomenda minna. Á meðan er ekki hróflað við þeim sem stofnuðu til þessara skulda. Þeir lifa enn í fáheyrðum lúxus víða um heim og gefa skít í okkur þrælana sem eigum að borga. Ég er ekki sátt.

Auðvitað eiga allir sparifjáreigendur að sitja við sama borð. Íslenskir, breskir og hollenskir. Ég skil vel að fólkið vilji fá peningana sína. Það myndi ég líka vilja. En hvað kostar það okkur Íslendinga? Mér virðist að það muni kosta okkur ógnvænlegar þrengingar, skattahækkanir, niðurskurð á allri grunnþjónustu, lækkuð laun, skertan lífeyri, lakari menntun barnanna okkar, landflótta... og fleira og fleira. Íslenska þjóðin verður í skelfilegu skuldafangelsi um ókomin ár. Nema þeir sem rændu okkur, því þeir fá að hafa þýfið í friði og ró.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, segir hér frá fundi þeirra Þórs Saari við konu í hollensku samninganefndinni. Þau spurðu hvort hún myndi samþykkja svona samning í þeirra sporum. Hún sagði nei.

Hvað gerist ef við borgum ekki? Tvennum sögum fer af því. Sumir mála skrattann á vegginn, aðrir segja þrengingar í örfá ár og síðan ekki söguna meir. Hvernig hefur upplýsingagjöf til útlanda verið háttað? Er búið að gera t.d. Bretum og Hollendingum grein fyrir því hvað samningurinn kostar íslenskan almenning? Hvaða afleiðingar hann hefur fyrir okkur um ókomin ár? Er búið að biðja breskan og hollenskan almenning um stuðning, höfða til samvisku hans og sanngirni? Ég held ekki. Upplýsingaflæðið innanlands er afleitt, svo ég geri ekki ráð fyrir að það sé neitt skárra út á við.

Ég minni á þá Michael Hudson og John Perkins sem voru í Silfri Egils í byrjun apríl. Byrjum á Hudson. DV talaði við hann í gær.

Michael Hudson um Icesave - dv.is 19.6.09

Og þetta sagði hann í Silfrinu 5. apríl.

John Perkins sagði þetta í sama Silfri.

Eins og áður sagði er ég búin að fara í marga hringi með þetta mál. Reyna að vera skynsöm, sanngjörn, raunsæ og með kalt mat. En það er alveg sama hvað ég reyni - hjartað segir NEI. Réttlætiskenndin segir NEI. Alveg sama hvernig ég hugsa þetta, frá hvaða hlið - og þær eru margar - mér finnst einhvern veginn að verið sé að byrja á öfugum enda. Hengja bakara fyrir smið. Ég get ekki samþykkt það.

Ég ætla því að mæta á Austurvöll klukkan þrjú í dag. Ekki aðeins til að mótmæla Icesave-samningnum heldur líka til að krefjast þess að tekið verði á vanda heimilanna. Okkar, sem sjáum skuldirnar okkar rjúka upp, skattana hækka, verðlagið fara upp úr öllu valdi á meðan bankar og innheimtustofnanir - jafnvel ríkisins - ganga hart að skuldurum í vanda.

Síðast en ekki síst ætla ég að krefjast réttlætis. Krefjast þess að tekið verði á sökudólgunum, þeim sem bera ábyrgð á ástandinu. Að íslenskt réttarkerfi hafi döngun í sér til að gera það sem Danirnir gerðu við Bagger - láta þá sem brutu af sér sæta ábyrgð. Ekki okkur sem alsaklaus erum.

Viðbót: Bendi á tvær góðar greinar í prentmiðlum dagsins - Herdís Þorgeirsdóttir í Fréttablaðinu og Árni Þórarinsson í Lesbók Morgunblaðsins.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mér þykir verst að komast ekki á mótmælin á morgun, ég verð með barnaafmæli hérna heima hjá mér á sama tíma og get ég ekki verið þekkt fyrir það að fara út á meðan afmælið er.  Dóttir mín sem býr í Fljótunum er hjá mér með litla son sinn og á hann afmæli, það var búið að bjóða öllum gestunum áður en ég frétti af þessum mótmælafundi.  Ég vona að fólk verði duglegt að mæta. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 20.6.2009 kl. 02:58

2 identicon

Íslenska þjóð!

Því er okkar Ríkisstjórn að reyna að semja um að við borgum skuldir óreiðumanna? Því er hún ekki að semja um að allir sem að málið varða, sameinist um að finna hvert peningarnir fóru, og finna út hvar sakhæfi viðkomandi fjárglæframanna liggur! Nú er næstum liðið ár. Er þetta ásættanlegt. Ekki ein króna kyrrsett! Ekki einn sauður ábyrgur!

Af hverju? Samspilling. Samspilling. Samspilling.   Sveiattan hér er ekkert lýðræði!

Hvar eru loforð þessarar stjórnar að kyrrsetja eignir óreiðumanna, óháða rannsókn  (já þau réðu Evu, og hlustuðu svo bara ekkert á hana, og hafa ekki ráðið einn einasta utanaðkomandi ráðgjafa síðan.) 

Ráðgjafa nota bene. rétt eins og frumvarp samspillingar um Þjóðaratkvæðagreiðslu, ráðgefandi eingöngu. Svo völdin séu þeirra. 

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 20.6.2009 kl. 04:21

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

 Mér hefur liðið nákvæmlega eins. Veit ekki hverju ég á að trúa og hverju ekki. Mér er hins vegar alveg ljóst að gjörningur þessi er kolólöglegur og verið er að neyða ríkisstjórnina til hans. Viðsnúningur SJS er hreint með ólíkindum. Mér þykir einsýnt af öllu þessu að verið sé að fela einhvern ægilegan sannleik - sannleik sem við verðum líklega aldrei upplýst um.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 20.6.2009 kl. 04:59

4 identicon

Sæl Lára Hanna. 

Það er að bera í bakkafullan lækinn að ausa  þig lofi en þetta er frábær pistill, sem ég held að lýsi vel líðan margra og afstöðu til "þrælasamningsins." A.m.k. eins og talaður út úr mínu hjarta. En má ég víkja að öðru?

Fyrir fáum dögum inntir þú eftir hvaða mann Brynja Níelsson lögmaður hefur að geyma og kvaðst ekki botna
í manninum. Ég þekki aðeins til hans og hef oft átt orðastað við hann, þótt
nú sé nokkuð um liðið. Hvað skal segja? Þetta er ekki slæmur strákur í
þeim skilningi, en hann er náttúrulega ultra ultra hægri maður og alger
kerfiskall. Brynjar hefur hreiðrað vel um sig í  dómskerfinu okkar og
komið sér áfram í sínu fagi; hann er sjálfsagt ekki bíræfnari en gengur og
gerist um lögfræðinga, en óneitanlega fer prýðilega um hann. Satt að segja
botna ég ekki í honum heldur, þrátt fyrir nokkur kynni. Það sem kemur helst
upp í hugann er augnaráðið, sem minnir á krókódíl og svo það, sem þú ættir
sennilega erfitt með að þola, nefnilega talsverða fordóma í garð kvenna. En
það er nú kannski bara vanmetakennd sem liggur þar á bak við.

Brynjar ólst upp í Hlíðunum í ósköp "venulegri" fjölskyldu að ég held.
Pabbi hans var leigubílstjóri og kannski má segja um strákinn að hann hafi
ofmetnast dálítið með sinn lögfræðingatitil. Hann á bróður, sem heitir
Gústaf Nielsson og sá er jafnvel enn óskiljanlegri og stækari í sinni hægri
sveiflu. Það er svona hægri hugsjón sem lýsa má sem "survival of the
fittest" og skítt með hina. Og allar óþarfa kellingar líka. Ef þú skilur
mig.

Annar "síamsbróðir" Brynjars er Helgi Sigurðsson lögfræðingur Kaupþings,
bæði þess sem hrundi og nú í nýja bankanum. Merkilegt nokk. Og talandi um
augnaráð, þá er það stórt einkenni á Helga þessum að þegar hann tekur til
máls, þá tina og titra á honum hálflokuð augnlokin. Ég hef nú alltaf litið
á það sem streitu og kannski dálítinn efa um eigið ágæti. En Helgi og
Brynjar hafa baukað margt saman frá því þeir voru strákar í sömu götu,
farið í gegnum skólakerfið nokkuð samstiga (Brynjar er árinu eldri) og loks
í lögfræðina. Þeir hafa rekið saman stofu og í stuttu máli fylgst að í
gegnum árin. Svona eins og hálfgerðir fóstbræður. Helgi Sigurðsson
hefur sömuleiðis komið sér mjúklega fyrir í (hinu kerfinu þ.e.)
bankakerfinu og m.a. séð um erfið innheimtumál hjá KB. Nú síðast komst nafn
hans á allra varir vegna kúlulánsins, sem hann tók hjá bankanum ásamt
fleiri lykilmönnum, afskrifaði síðan persónulegar ábyrgðir þeirra og þar
með sína líka. Og loks eftir að Helgi kom í nýja bankann, lét hann ekki
sitt eftir liggja að kveða upp úr með að það væri óafturkræfur gjörningur.
Þá er það afgreitt.

Það má segja um þá félaga að þeir hafi þrifist vel og fitnað jafnt og þétt
í sínum kerfum. Dálítið ei ns og fengsælar kóngulær sem sitja fast í sínum vef.

Þeir eru með öðrum orðum báðir algerlega innmúraðir og
innvíkklaðir. Og enginn skal efast um að innviðir sýstemsins
eru sannir og réttir. Samt eru þeir eru báðir ágætlega greindir
og rökhugsun þeirra í góðu lagi, þótt ekki votti fyrir frumleika eða
skapandi hugsun hvorki í lífi né starfi. En það verður seint um þá sagt að
þeir séu skemmtilegir. Þess vegna hefur það vakið furðu, að þeir tveir hlægja mikið saman. Einhvern veginn er
samt eins og það sé einhver taugatrekkingur í þessum smástrákalega "húmor" og
einkanlega hvernig hláturinn brýst út úr "litla bróður" í hvellum, tilgerðarlegum rokum. Eins og dynkir frá hamri. Svei mér þá.

Brynjar og Helgi eru tveir litlir hlekkir í sömu keðjunni. Og keðjan er undin og traust.

Ég veit ekki hvort þetta hjálpar neitt. Þetta hefur ekkert hjálpað mér.



Bestu kveðjur,

Frændi

Es. Þegar ég hugleiði þessi sérkennilegu augnaráð þeirra kumpána, þá situr
alltaf eftir hjá mér óljós tilfinnig um óhreint mjöl. En

Frændi (IP-tala skráð) 20.6.2009 kl. 06:03

5 Smámynd: Fríða Eyland

Get svarið að ég mótmæli þessu öllu frá hjartarótum, er með ógeð á hugmyndinni um Evrópusambandið hjá ríkisstjórninni.

Fríða Eyland, 20.6.2009 kl. 09:44

6 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Góður pistill Lára Hanna.... en þeir eru það allir þannig að það kemur ekkert á óvart

Hvet alla til að mæta í dag. Þessar vikur sem við erum að lifa núna verða líklega þær áhrifamestu í sögu þjóðarinnar. Við getum ekki látið eins og ekkert sé og skundað í Kringluna

Heiða B. Heiðars, 20.6.2009 kl. 09:52

7 identicon

Hann svaraði mér þegar þú fékkst hann til viðtals að maður þurfti ekki að hafa neinar áhyggjur af icesave. Ættum bara að láta bretanna fá eignirnar og búið mál!

Jóhann Gunnar (IP-tala skráð) 20.6.2009 kl. 10:25

8 Smámynd: Dúa

Ég má auka á lofið þar sem ég er nýbyrjuð að blogga og hef ekki kommentað hér áður 

Frábær færsla eins og þær allar reyndar!

Dúa, 20.6.2009 kl. 11:18

9 Smámynd: Sigríður B Svavarsdóttir

Ég les oft pistlna þína Lára Hanna mín og hef ánægju af, og er oftast hjartanlega sammála þínum málflutiningi. Þessum pistil er ég alveg sammála, og óska þess í hjarta mínu að hann rati á borð ráðamanna þjóðarinnar. Þeir eru ekki öfundsverðir þessa dagana. Ég borga alltaf mínar skuldir, og væri til búin til þess að hjálpa þeim sem lítið hafa á milli handa af einhverjum ástæðum td veikinda eða áfalla sem ekki er hægt að sporna við. Ég er ekki tilbúin að borga bullskuldir manna sem ganga lausir og halda áfram að fela og fjárfesta með féð okkar. Ég hef áður sagt að sá sem stelur sér til matar er settur umsvifalaust inn og látin borga sektir þó engar eignir eða aurar séu þar fyrir, en þessir kónar sem stálu landinu okkar ganga lausir. Mín spurning er stór í sambandi við Icesave-skuldirnar. Er verið að semja um þessar skuldir á þeim forsendum að við verðum neidd til að ganga í ESB??? Við eigum frekar að ganga úr EES og vera sjálfstæð sem þjóð í normal matvælaframleiðslu og hætta að láta glepast að græðismönnum. Það þarf að byrja á því að breyta lögunum á Íslandi til að ná jöfnuði á laganlegur grundvell. Gera lög sem gilda fyrir þjóðina í heild en ekki sérlög fyrir þá sem kalla sig auðmenn eins og fyrri stjórn geri þá á ég við S og F. Mér verður flökurt þegar ég heyri í sjálfstæðis og framsóknarmönnum, þeim sem settu lögin og komu okkur í þessa aðstöðu sem við erum í hreint og beint.

Sigríður B Svavarsdóttir, 20.6.2009 kl. 11:38

10 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Það er alveg ljóst að það er sama hvaða ríkisstjórn situr hér, hún mun þurfa að leysa Icesave málið.

Okkar frændþjóðir segja okkur að aðstoð þeirra er skilyrt lausn málsins.  Það eru öfl innan þessa þjóðfélags sem vilja ekki lausn Ice save málsins. Þau vilja að ríkisstjórn sú er hér situr hrekist frá. Þeir komist aftur að og geti losað okkur við hana Evu. Og gefið bankana aftur. 

Mér finnst tími til kominn að manneskja eins og þú sem hefur miklar gáfur og réttlætiskennd komir með beinum hætti inn í íslensk stjórnmál. Eflaust er unnt að gera betur en núverandi ríkisstjórn gerir. Mér finnst hins vegar fábært að sjá réttlæti í skattamálum og gaman að sjá árásir fulltrúa útrásarinnar á Evu Joly.

Þetta tvennt segir mér að ríkisstjórnin er á réttri leið. 

Jón Halldór Guðmundsson, 20.6.2009 kl. 12:02

11 Smámynd: Kári Harðarson

Svo eru stórþjóðirnar hissa þegar menn og konur fremja sjálfsmorð til að vekja athygli á yfirganginum í þeim...

Kári Harðarson, 20.6.2009 kl. 12:03

12 Smámynd: Andrés Kristjánsson

Ég deili ekki með ykkur þeim hugmyndum að ganga ekki að þessum samningum. Við erum nauðbeigð. Þeir sem bera pólitíska ábyrgð sem og stjornendur hafa framið glæp gegn þjóðinni. En við getum ekki látið sem að við séum ein í heiminum. Það eru önnur fyritæki sbr. Landsvirkjun sem gerði viðbúnaðarsamning við ríkið vegna erfiðleika með endurfjármögnun. Landsvirkjun skuldar hundruð milljarða.

Hugmyndir um lækkandi lánshæfi Íslandsef að samningunum yrði gengið voru endanlega jörðuð í gær þegar Paul Rawkins, framkvæmdastjóri hjá lánshæfismatsfyrirtækinu Fitch, talaði um að ef Íslendingar standi ekki undir skuldbindingum þá myndu þeir afskrifa lánshæfið. Ekki lækka það heldur afskrifa það. Það er nokkuð afdráttarlaust. Fyrirtæki eins og Landsvirkjun myndi fara í þrot og eignir þess hirtar af lánadrottnum

Andrés Kristjánsson, 20.6.2009 kl. 15:51

13 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Indriði sagði að IMF hefði sagt að þetta væri góður samningur: "Þeir sögðu það" sagði Indriði.

Vissi Indriði ekki að sjálfur Gordon Brown hafði sagt í beinni útsendingu í breska þinginu að hann væri að láta IMF setja pressu á Íslendinga að borga og sjá hverju væri hægt að ná af þeim?  Ef Indriði vissi þetta ekki gat þá enginn sagt honum þetta?

Þeir þingmenn sem munu slysast til að samþykka þessi samningsdrög verða dæmdir af sögunni sem mestu óhappamenn Íslands. 

Sigurður Þórðarson, 20.6.2009 kl. 17:59

14 Smámynd: Sævar Einarsson

Góður pistill Lára Hanna, mig langar til að benda á ákveðna lausn á þessu IceSlave sem ég kæri mig ekkert um að borga en að tvennu illu held ég að þetta sé ágætis lausn.

Sævar Einarsson, 20.6.2009 kl. 19:13

15 identicon

Því miður komst undirrituð ekki á Austurvöll í dag. Var að hjálpa til í sjoppu nágránna minna. Var samt í anda með fólkinu sem þar var. Það eru liðnir 268 dagar frá hruni. Hvað með aðgerðir gagvart þessum Icesave kóngum? Þeir einir bera þá ábyrgð að nýta það fé sem þeir ryksuguðu upp. Þeir fóru eins og engissprettur um akur. Sukkuðu undir sig og sína en vilja núna að almenningur borgi fyrir þeirra einkaneyslu. Ég segi nei. Fyrir mína hönd og annara vandamann. Nei.

Erna Margrét Ottósdóttir Laugdal (IP-tala skráð) 20.6.2009 kl. 20:28

16 Smámynd: Andrés Kristjánsson

Ég veit ekki hvort að það skijist hvað það er að missa lánshæfi?  Einnig tel ég okkur enn geta tapað þó nokkru með því að lýsa því yfir að við séum insolvent.  Minnir mig á kunningja minn, þegar við vorum yngri, sem henti sér í drullupoll enda rennblautur fyrir en komst síðan að því að nærbuxurnar voru þurrar.  Göngutúrinn var erfiður heim.   En ég skrifaði um stöðu Landsvirkjunar, lánshæfi og hvort hún allmennt tilheyrir okkur.

Andrés Kristjánsson, 20.6.2009 kl. 20:33

17 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Ég var að horfa á klippuna af Indriða og Eiríki og það var tvennt í máli Indriða sem ég hnaut um.

1) Þegar rætt var um krossákvæðið, sem varðar að gjaldfella allan samninginn ef ísland borgar ekki af öðrum skuldbindingum sínum. Andsvar Indriða við því var óskiljanlegt.

2) Þegar Eiríkur var að bera vextina saman við vöruskiptajöfnuð og taldi þessa greiðslubyrði of mikla var svar Indriða að þetta væri nú ekki svo slæmt því að skuldavandræði vegna afglapa Seðlabankans væru enn verri

Ég hélt að málið versnaði enn við það en lagaðist ekki.

Ólafur Eiríksson, 20.6.2009 kl. 20:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband