Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Gestir í Kastljósi kvöldsins

Kannski er þetta oft svona - en sem ég var að klippa Kastljós kvöldsins skellti ég allt í einu upp úr og var smástund að fatta af hverju. Þetta er ástæðan. Kannski finnst engum þetta fyndið nema mér.

Gestir Kastljóss 17.3.09


Áfram Austurvöllur!

Hjálmar SveinssonÉg hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar minnst á Hjálmar Sveinsson og þáttinn hans, Krossgötur, sem mér finnst með þeim albestu í útvarpi nú um stundir. Í Krossgötum fjallar Hjámar um alls konar samfélagsmál og gerir þeim ítarleg skil. Fyrr í vetur fékk Hjámar viðurkenningu frá Skipulagsfræðingafélagi Íslands fyrir sérlega vandaða umfjöllun um skipulagsmál í Krossgötuþáttum sínum og var hann svo sannarlega vel að henni kominn.

En Hjálmari er fleira til lista lagt en að gera frábæra útvarpsþætti. Á síðasta mótmælafundi á Austurvelli hélt hann ræðu ásamt Aðalheiði Ámundadóttur. Það mígrigndi, völlurinn var eitt forarsvað og fáir mættu - en ræður þeirra Aðalheiðar og Hjálmars voru fantagóðar og afleitt að fólk missi af þeim. Aðalheiður birtir sína ræðu á blogginu sínu hér, en ég fékk leyfi til að birta ræðu Hjálmars.

Áfram Austurvöllur!

Í dag eru fjölmiðlar landsins uppfullir af myndum af fólki sem er að biðja okkur að styðja sig í prófkjörum helgarinnar. Helst í eitt af efstu sætunum. Nú er stóra prófkjörshelgin. Frambjóðendur segja að verkefnið sé risavaxið, þeir tala um endurreisn og jafnvel endurnýjun. Sumir þeirra eru meira að segja komnir í lopapeysu. Og það eru víst allir boðnir í kaffi í dag. Í dag vilja frambjóðendur alveg endilega ræða við okkur

Það er gott að fólk vilji bjóða sig fram - að það skuli vilja starfa í Gallup - Traust til stofnanapólitískum flokkum og berjast fyrir pólitískum hugsjónum um gott og réttlátt samfélag. Við skulum ganga út frá því að það sé ástæðan fyrir framboði. Stjórnmál skipta máli, hlutverk þeirra í samfélaginu er mikilvægt. Hin leiðin, þar sem stjórnmál áttu ekki að hafa neitt annað hlutverk en að búa í haginn fyrir fjárfesta, hefur lent í miklu ógöngum. Og þar er kannski að finna ástæðuna fyrir því að samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup ber aðeins 13% þjóðarinnar mikið traust til Alþingis. Aðeins 13%, það er ótrúlega dapurlegt. 80% bera mikið traust til Háskóla Íslands og 79 % til lögreglunnar. En þetta litla traust getur ekki verið neinum öðrum að kenna en þingmönnum sjálfum.

Þess vegna vekur það athygli að 80% sitjandi þingmanna sækjast eftir endurkjöri: Þeir vilja vera áfram á þingi. Það er nokkuð há tala miðað við hið litla traust sem þingið nýtur. Reynslan sýnir að sitjandi þingmenn eiga mun meiri möguleika í prófkjörum en þeir sem koma nýir inn. Það er kannski ekkert skrýtið - en ef þetta verður raunin eftir prófkjörshelgina miklu, ef sáralítið endurnýjun mun hafa átt sér stað - hljóta margir að pæla í því í kosningunum í apríl hvort ekki sé rétt að skila auðu eða að kjósa nýja flokka, sem ætla að bjóða fram.

Gleymum því ekki að þingmennirnir sem við kjósum taka að sér að vera okkar rödd á þingi. Rödd og atkvæði er nánast sama orðið í mörgum evrópskum tungumálum. Það er mikilvægt að minna þingmenn á þetta  reglulega og ekki bara þegar eru kosningar til þings. Það er nefnilega ekki þannig að við borgararnir höfum alfarið afsalað okkur rödd okkar með því að greiða atkvæði. Við höfum rödd til að tjá okkur - heima hjá okkur, út á götu, á internetinu, í fjölmiðlum - já, og hér á Austurvelli fyrir utan þinghúsið. Austurvöllur er ótrúlega mikilvægur staður.

Það er áríðandi að rifja þetta upp vegna þess að hér á landi hefur ríkt sterk tilhneiging til þöggunar. Á góðæristímanum mikla - eða ætti maður kannski Heyri ekki, sé ekki, tala ekkiað tala um blekkingartímann mikla - voru allar gagnrýnisraddir dregnar í dilk sem var merktur nöfnum eins og: "öfgamenn, hælbítar, kverúlantar og afturhaldskommatittir". Svo dæmi sé tekið var fréttaskýringarþátturinn Spegillinn á ríkisútvarpinu kallaður hæðnislega „Hljóð-viljinn" og þáttarstjórnendur sakaðir um linnulausan áróður og vinstrislagsíðu í aðdraganda innrásar Bandaríkjamanna í Írak 2003. Þess var krafist að þeir yrðu settir undir strangari ritstjórn. Síðar kom í ljós að allt var rétt sem kom fram í þættinum, enda höfðu heimildirnar verið mjög áreiðanlegar og í raun öllum aðgengilegar. Engin gjöreyðingarvopn voru í Írak, ekkert úran var flutt frá Nígeríu til Íraks, það voru engin tengsl milli Íraksstjórnar og Al Kaída. Og svo kom líka fram, sem búið var að spá, að innrásin leiddi til glundroða og hræðilegrar borgarastyrjaldar þar sem tugir þúsunda saklausra borgara hafa fallið.

Nú er talað um að allir sem áttu að fylgjast með og gæta hagsmuna almennings hér á landi, hafi brugðist undanfarin ár. Það er alveg rétt. Fjölmiðlar hafa brugðist, á því er ekki nokkur vafi og í raun ætti að koma fram krafa um endurnýjun í heimi fjölmiðla alveg eins á Alþingi. En þegar litið er yfir sviðið má segja að sú endurnýjun sé furðulega lítil. Ritstjórar, fréttastjórar, ritstjórnafulltrúar og útvarpsstjórar eiga ekki að vera undanþegnir gagnrýni. Það er meðal annars þeirra hlutverk að styðja blaðamenn, fréttaskýrendur og dagskrárgerðarfólk sem er tilbúið að leggja á sig að fjalla á vandaðan, málefnalegan en gagnrýninn hátt um samfélagsmál. Tilhneigingin er hins vegar stundum sú, að vilja dempa gangrýna umfjöllun til að hafa gott veður.

Það er líka afar slæm þróun sem hefur aðeins örlað á síGræðgiðustu misserin þegar blaðmenn og valdamikið fólk í samfélaginu, til að mynda bankamenn og aðstoðarmenn ráðherra, virðast komnir í sama liðið. Hér er dæmi. Svokölluð kúlulán hafa verið aðeins til umfjöllunar. Sérstakir útvaldir starfsmenn eða jafnvel aðstoðarmenn ráðherra fengu þau í bönkunum. Það gátu verið 60 milljónir eða 150 milljónir. Viðkomandi gátu notað þessa peninga og látið þá búa til meiri peninga, skilað þeim síðan en hirt ágóðann sem gat jafnvel skipt tugum milljóna. Ég heyrði um daginn í útvarpinu af útvöldum manni sem hafði fengið 150 milljóna kúlulán. Þegar hann varð þess var ekki alls fyrir löngu að stórt blað hér á landi, eins og hann orðaði það, hafi fengið áhuga á málinu, sagðist hann hafa hringt í viðkomandi blaðamann eða ritstjóra og menn hefðu orðið sammála um að þetta væri ekki fréttamál. En hvað er þá fréttamál? Vilhjálmur Bjarnason hefur sagt að mál af þessu tagi eigi sinn þátt í spillingu og hruni = siðlausir viðskiptahættir.

Eitt að lokum. Undanfarin ár var gagnrýni illa séð og að lokum var ástandið orðið þannig að ekki mátti tala um hlutina af ótta við að allt hryndi. Það minnir svolítið á leikritið fræga eftir Max Frisch  - Biedermann og brennuvargana. Brennuvargarnir bera bensíntunnur upp á loft hjá Gottlieb Biedermann, en hann telur sér trú um að allt hljóti þetta að fara vel og það sé best að hafa alla góða og spyrja engra óþægilegra spurninga. Tímabilið í Íslandssögunni sem við höfum nú kvatt var í svipuðum dúr. Það var talin borgaraleg skylda að „tala hlutina upp", þeir sem gerðu það ekki lentu í dilknum sem var nefndur áðan. Nú vitum við hvernig fer þegar ekki má tala um hlutina nema að tala þá upp. Verum því á varðbergi núna og alveg sérstaklega eftir kosningar í vor þegar forstjórar, bankastjórar og ráðherrar fara vara við „neikvæðni" og „niðurrifi" eins og það verður kallað. Slíkar raddir eru þegar farnar að heyrast. Við skulum ekki taka mark á þeim - en leitast alltaf við að vera málefnaleg. Þess vegna segi ég að lokum: ÁFRAM AUSTURVÖLLUR!

Hjálmar Sveinsson

Að lokum hengi ég hér við þrjá síðustu Krossgötuþætti Hjálmars ef fólk vill kynna sér það sem hann fjallar um á þeim vettvangi. Enginn ætti að sjá eftir þeirri hlustun. Þættirnir eru á dagskrá Rásar 1 klukkan 13 á laugardögum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Silfuröld í Silfri dagsins

Í sögulegu samhengi þýðir orðið silfuröld tímabil sem tekur við af gullöld þegar nokkurrar hnignunar er tekið að gæta, og á þetta einkum við um skeið í sögu Grikkja og Rómverja. Í Silfri dagsins var 47 mínútna silfuröld - endurkoma stjórnmálamanna. Spurning hvað Egill hyggst gera í þáttunum fram á vor. Í fyrra var síðasti þáttur fyrir sumarleyfi 25. maí og ef miðað er við svipaða dagsetningu nú eru 10 þættir eftir.

Ekki þar fyrir... það má notfæra sér þætti með pólitíkusunum, þeir láta oft ýmiss konar gullkorn út úr sér. En ég hugsaði með mér í dag eftir um 20 mínútur af þeim: "Nú gefst einhver upp og hættir að horfa." Og viti menn - klukkutíma seinna hringdi vinkona mín sem hefur horft á alla þættina í vetur og sagðist ekki hafa nennt þessu blaðri og hávaða þar sem hver greip fram í fyrir öðrum, talað var í kross og engin leið að heyra hvað hver sagði. En hér er Silfrið í klappstýrubúningi að venju.

Vettvangur dagsins - Svanhildur Hólm, Pétur Gunnarsson og Páll Ásgeir

 

Draumalandið hans Andra Snæs verður frumsýnt 8. apríl og verður mögnuð mynd

 

Silfuröldin - Sigmundur Davíð, Guðfríður Lilja, Árni Páll og Bjarni Ben

 

Viðtalið í norska sjónvarpinu við Evu Joly - sjá það og einnig útvarpsviðtal í mynd hér

 


Myndir ársins

Hin árlega ljósmyndasýning Blaðaljósmyndarafélagsins var opnuð í gær. Ég hef oft farið á þessa sýningu og haft mjög gaman af. Ljósmyndun er listgrein og blaðaljósmyndarar hafa margoft sýnt hvað þeir eru góðir þótt ekki fáum við alltaf að sjá allt sem þeir gera í blöðunum. Hér eru tvö sýnishorn.

Það kemur ekki á óvart að þessi mynd hafi verið valin mynd ársins.

Mynd ársins - Mbl. Kristinn

Þetta er portrettmynd ársins - frábær!

Portrettmynd ársins - Mbl. Júlíus


Eru auðmenn "kommúnistar" samtímans?

Nú er illt í efni, maður! Illa innrættir "ofurbloggarar", stjórnmála- og fjölmiðlamenn eru að tæta æruna af útrásarvíkingum og bankamönnum. Þessum líka sauðmeinlausu gæðablóðum sem vilja öllum vel og hugsa um það eitt að hjálpa heimilunum. Ja... svo segir að minnsta kosti Hjörleifur Jakobsson, forstjóri eins af fyrirtækjum Ólafs Ólafssonar, Kjalars. Líklega er hann búinn að gleyma áróðursmynd auðmanna sem sýnd var á RÚV í nóvember 2004.

Hjörleifur líkir þessum illa innrættu gagnrýnendum auðjöfra og bankamanna við McCarthy, sem sá kommúnista í öllum hornum og ýmist svipti blásaklaust fólk lífsviðurværinu, útskúfaði því úr samfélagi manna eða hrakti það út í dauðann. Hann áttar sig ekki á því að nú er þessu öfugt farið þar sem græðgi, svik og prettir auðjöfra og bankamanna hafa svipt þúsundir atvinnunni og nú þegar hrakið nokkra örvæntingarfulla Íslendinga út í dauðann. Hjörleifur fær pláss fyrir þessa varnarræðu sína við hlið leiðara Fréttablaðsins í dag, það dugar ekkert minna.

En á forsíðu Fréttablaðsins í dag var þessi frétt sem dregur allverulega úr vægi orða Hjörleifs, hafi þau eitthvert vægi yfirhöfuð. Það sem fram kemur hér er einungis eitt örlítið dæmi af ótalmörgum.

Bankamenn bjóða lán - Fbl. 14.3.09 - smellið þar til læsileg stærð fæst

Líklega finnst Hjörleifi og öðrum þeim, sem verja þátt útrásarvíkinga og bankamanna í efnahagshruninu og líkja gagnrýni á þá við McCarthy-ofsóknirnar í Bandaríkjunum, í lagi að haga sér svona. Og svona, og svona og svona. Hjörleifur hefur kannski ekki séð þetta... eða þetta, þetta og þetta. Líkast til hefur hann heldur ekki séð myndböndin um Leppa og leynifélög - hér og hér - sem afhjúpa blekkingarleik útrásarvíkinga og bankamanna. Nei, Hjörleifur kallar þá sem bent hafa á sukkið, spillinguna og siðleysið "berserki óhróðurs" og segir bloggara skrifa "eiturpillur" sem bjóði heim óhróðri um blásaklausa útrásarvíkinga og bankamenn.  Ólafur Ólafsson og Finnur Ingólfsson

Það er fallegt af Hjörleifi að stökkva fram á ritvöllinn til varnar sínum mönnum, kannski einkum yfirmanni sínum, Ólafi Ólafssyni. Eða eru þeir félagar meðal þeirra sem skjálfa á beinunum eftir innkomu Evu Joly í rannsókn á hruninu? En kannski finnst Hjörleifi bara allt í lagi að nokkrir tugir einstaklinga geti arðrænt heila þjóð og hneppt hana í skuldafjötra til áratuga með dyggri aðstoð skeytingarlausra eftirlitsaðila, öflugra þrýstihópa og spilltra stjórnmálamanna. Mér finnst það ekki og ég áskil mér rétt til að halda áfram að gagnrýna allt þetta lið þótt það stimpli mig þar með "berserk óhróðurs" sem skrifar "eiturpillur" um þessa sárasaklausu vesalinga.

Ég ráðlegg Hjörleifi að kynna sér ENRON-málið betur og bera það saman við undangengna atburði á Íslandi auðjöfranna. Vona það besta en  búa sig undir hið versta.

Að lokum bendi ég á nýja bloggsíðu hins frábæra Andrésar Magnússonar, geðlæknis, sem hefur einstakt lag á að greina stöðuna og tjá hana á mannamáli. Fylgist með bloggi Andrésar framvegis!


Eva Joly um Ísland í norska sjónvarpinu

Eva Joly var viðmælandi Önnu Grosvold í norska sjónvarpinu í gærkvöldi. Eini gallinn við samtal þeirra var hvað það var stutt. Fleiri viðmælendur voru í þættinum og ég leyfi einum þeirra að fljóta með, Robert Wilson, rithöfundi, því mér fannst innlegg hans athyglisvert.



Ari benti á annað viðtal við Evu Joly í athugasemd við þessa færslu og ég nældi mér í það líka. Þetta er útvarpsviðtal í mynd sem útvarpað var á fimmtudagskvöldið í norska ríkisútvarpinu, NRK2. Kærar þakkir fyrir ábendinguna, Ari.
 

Græðgi, siðleysi og spilling - ennþá!

Það fauk hressilega í mig þegar ég horfði á fréttir Stöðvar 2 í kvöld. Þetta getur ekki verið annað en svik og brot á samningum sem gerðir voru í febrúar um að bíða með launahækkanir til handa launþegum. Hér ætla eigendur fyrirtækis að greiða sjálfum sér arð sem myndi nægja í áður umsamda launahækkun starfsmanna í átta ár! Samið var um frestun - væntanlega vegna þess hve fyrirtækin eru blönk... eða hvað? Varla HB Grandi fyrst þeir hyggjast ausa fé í vasa eigenda á meðan starfsfólkið má lepja dauðann úr skel og fær ekki umsamda launahækkun.

Hafa þessir menn ekkert lært? Ætlar verkalýðshreyfingin að láta þetta óátalið? En ríkisstjórnin? Einn þessara manna skuldar þjóðinni stórfé! Ætti arðgreiðslan hans ekki að renna óskipt í ríkiskassann? Það verður að stöðva svona siðlausa græðgi.


Straumur vonar

"Eva Joly birtist alltaf eins og stormsveipur, hvar sem hún kemur. Og ekki eru allir sáttir við hana, sérstaklega vegna þess að hún þykir full opinská þegar viðkvæm mál eru annars vegar." Þannig hófst umfjöllun Gísla Kristjánssonar um Evu Joly í Speglinum miðvikudaginn 11. mars, þremur dögum eftir að Eva tók íslensku þjóðina með trompi. Hún kom svo sannarlega eins og stormsveipur til Íslands og áreiðanlega eru ekki allir sáttir. Ég skal veðja að einhverjir skjálfa á beinunum núna.

Það gerist ekki oft að einhver höfði svona sterkt til heillar þjóðar. Undanfarna daga hefur farið straumur um þjóðfélagið - straumur vonar. Ferill, framkoma og ekki síst orð Evu Joly vöktu þá von með þjóðinni að ef til vill nái réttlætið fram að ganga þrátt fyrir allt - þótt síðar verði. Við skynjum öll hve nauðsynlegt það er og munum öll leggja okkar af mörkum ef með þarf. Að minnsta kosti við sem höfum hreina samvisku - og það er meirihluti þjóðarinnar. Ég efast ekki um það eitt augnablik.

Í fyrradag spurði ég ungan mann hvað hann sæi þegar hann horfði á þessa mögnuðu mynd hans Ómars af Evu Joly sem fylgir viðtalinu í Morgunblaðinu hér að neðan. Hann hugsaði sig um augnablik og svaraði síðan: "Gamla konu". Ég hló og sagði honum að hann þyrfti að læra að lesa fólk. Lesa í þessar tjáningarríku hrukkur, brosið, svipmótið og það mikilvægasta af öllu - augun. Að lesa myndir og fólk er mjög stór hluti af lesskilningi. Ég ætla ekki að segja hvað ég sé - lesi hver fyrir sig. Mikið væri gaman að fá að heyra í athugasemdum hvað fólk les út úr myndinni.

Viðtalið sjálft við Evu Joly er líka frábært, enda einn af bestu blaðamönnum landsins hér á ferðinni, Kristján Jónsson. Lesið hvert einasta orð og gleymið ekki að lesa myndina líka. Hún er risastór hluti af viðtalinu. Smellið þar til læsileg stærð fæst og Spegilsbrotið er viðfest neðst í færslunni ásamt öðru Spegilsviðtali við dómsmálaráðherra.

Eva Joly - Mbl 11.3.09


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þetta er einmitt málið!

Bergþóra Jónsdóttir - Persónukjör er þverpólitískt - Moggi 12. mars 2009


500 milljarðar til eigenda - glæpur eða vinargreiði

Borgarafundirnir sem haldnir hafa verið í Reykjavík og á Akureyri í vetur hafa verið gríðarlega fjölsóttir og ógleymanlegir þeim sem þangað hafa komið. Á þá hafa mætt og setið fyrir svörum þingmenn, ráðherrar, fjölmiðlafólk, sérfræðingar af ýmsu tagi, leikmenn - og við, fróðleiksfús almenningur sem vill fá svör. Stundum höfum við fengið þau, stundum ekki. En enginn getur sakað okkur um að hafa ekki reynt.

Í kvöld, miðvikudagskvöld, er enn einn borgarafundurinn í Reykjavík - í þetta sinn í Iðnó klukkan 20. Yfirskrift fundarins er 500 milljarðar til eigenda - glæpur eða vinargreiði. Væntanlega dylst engum við hvað er átt.

Frummælendur verða þingmennirnir Atli Gíslason og Bjarni Benediktsson og Björn Þorri Viktorsson, hæstaréttarlögmaður. Orð Atla Gíslasonar í Silfri Egils um daginn eru ógleymanleg og Björn Þorri var í Silfrinu hér.

Í pallborði verða Haraldur L. Haraldsson, hagfræðingur og Jóhann G. Ásgrímsson, viðskiptafræðingur. Haraldur var gestur í Silfri Egils hér (sami þáttur og Björn Þorri var í), glærurnar sem hann notaði með erindi sínu á síðasta Borgarafundi eru hér og  Jóhann G. Ásgrímsson var í Silfrinu hér.

Er það glæpur eða vinargreiði að lána vildarvinum 500 milljarða? Þetta eru engir smáaurar. Hvað ætli hafi verið að gerast í Landsbankanum og Glitni? Hvenær kemur það upp á borð? Hér kemur ýmislegt fram eins og í fyrri myndböndum.

  Mætum á Borgarafundinn í Iðnó í kvöld klukkan átta!

Borgarafundur í Iðnó 11. mars 2009


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband