Fuglalíf og svolítil nostalgía

Ég var að horfa á og taka upp tíufréttirnar í Ríkissjónvarpinu áðan og heillaðist af lokamínútunum. Þar voru lómur og kjói við Héraðsflóa í aðalhlutverki ásamt ungunum sínum. Mér finnst að báðar sjónvarpsstöðvarnar mættu sýna svona náttúrulífsbrot í lok allra fréttatíma í sjónvarpi. Á báðum stöðvunum vinna kvikmyndatökumenn sem geta, ef sá gállinn er á þeim og þeir fá tækifæri til, verið listamenn á sínu sviði eins og þetta myndbrot ber með sér.

Mér varð hugsað til bernskunnar og lags sem ég grét yfir í hvert sinn sem það var spilað í útvarpinu. Mikið svakalega fannst mér það sorglegt. Það var á þeim árum þegar útvörp voru risastórar mublur, helst úr tekki, og maður var sannfærður um að fólkið sem talaði eða söng væri inni í tækinu. En aldrei skildi ég hvernig heilu hljómsveitirnar og kórarnir komust þar fyrir - og skil ekki enn.

Lagið setti ég í tónspilarann - það er gullaldarlagið "Söngur villiandarinnar", sungið af Jakob Hafstein af yndislegri innlifun og tilfinningu. Ég gleymi aldrei hvernig mér leið þegar ég hlustaði á það "í den". Og það vill svo skemmtilega til að sonur og alnafni söngvarans er nú afskaplega kær fjölskylduvinur.

 

 


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

tók einmitt eftir þessu sama.. virkilega gaman að sjá þetta og góðar myndir hjá þeim.. hver skyldi hafa tekið þessar góðu myndir ?

Óskar Þorkelsson, 1.7.2008 kl. 00:16

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

þessar myndir fanga Íslenska sumarið.....mjög góðar

Hólmdís Hjartardóttir, 1.7.2008 kl. 00:17

3 identicon

Þakka þér fyrir þetta mín kæra, þú gladdir mig innilega núna :) með laginu á spilaranum, þetta söng hún mamma svo oft fyrir okkur krakkana í bernsku og ég hááágrét og enn meir þegar kom að morðinu...og bóndinn dó...og mamman sár...sniff, sniff...ég var alveg búin að gleyma þessu, nú mun ég syngja þetta fyrir krakkana mína :)...jeminn, þetta var nú meira flassbakkið!! Ég vona að þetta verði á spilaranum þínum lengi, svo ég geti nálgast þetta leeeengi!!

HAFÐU ÞAÐ VOÐA GOTT.

alva (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 00:26

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta lag er í mínum huga svona týpískt síðastalagfyrirfréttir-lag en ég hef aldrei hlustað á ljóðið fyrr en nú. Ég horfði líka á þetta myndskeið eftir 10 fréttirnar en lómurinn er afskaplega fallegur fugl og alveg tilvalinn síðastifugleftirfréttir-fugl.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.7.2008 kl. 00:39

5 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

fallegt myndbrot...það er fátt yndislegra en íslensk náttúra

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 1.7.2008 kl. 00:40

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Óskar... það eru tilteknir margir í kreditlistanum svo ómögulegt er að segja hver þeirra tók einmitt þessar myndir.

Íslenska sumarið er engu líkt, Hólmdís.

Alva mín... ég hef bara lagið þarna inni  fyrir þig. Nokkur óskalög?

Þú ert ekki nógu gamall til að hafa hlustað á ljóðið, Emil og já - þetta er eiginlega svona týpískt síðastalagfyrirfréttir-lag. En ekki man ég nú hvenær dagsins ég heyrði það í gamla daga. En ég man að það var spilað svolítið oft og því grét ég svolítið oft. Og mikið vildi ég að fréttastofurnar hefðu alltaf annað hvort náttúrulífsmyndeftirfréttir eða síðastifugleftirfréttir.

Hrafnhildur... oftast held ég að það sé EKKERT yndislegra en íslensk náttúra - en það er kannski fötlun hjá mér.

Annars er ég með tillögu um áhorf og hlustun sem ég var að prófa:  Lækka niður í hljóðinu á myndbandinu og spila Söng villiandarinnar undir. Lagið er reyndar miklu lengra en myndbandið svo þá er bara að spila myndbandið aftur á meðan lagið endist.

Lára Hanna Einarsdóttir, 1.7.2008 kl. 00:45

7 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Þessar myndir tók snillingurinn Hjalti Stefánsson myndatökumaður RÚV á Austurlandi. Ég heyrði einmitt í honum um daginn og þá lá hann í byrgi sem hann var búinn að útbúa sér í Útmannasveit til að ná þessum myndum. Hann hefur legið úti eins og refaskytta marg oft til að ná góðum myndum. Það þarf þolinmæði og natni í svona myndatökur en Hjalti á orðið gott safn fugla- og náttúrumynda.

Haraldur Bjarnason, 1.7.2008 kl. 07:30

8 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Ég tók alveg sérstaklega eftir þessu myndbroti þrátt fyrir það að horfa nánast aldrei á sjónvarp - flott var það :)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 1.7.2008 kl. 08:24

9 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég elska landið mitt, birtuna, litina, landslagið.  Úff, og ég vil að sem flestir fái að njóta þess með okkur.

Finn ekki villiöndina.

Jenný Anna Baldursdóttir, 1.7.2008 kl. 09:05

10 Smámynd: Hlynur Hallsson

Fallegar myndir hjá Hjalta. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 1.7.2008 kl. 12:21

11 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk fyrir þessar upplýsingar, Haraldur. Ég skora hér með á RÚV að sýna fugla- og náttúrumyndir Hjalta í lok hvers einasta fréttatíma. Verk svona listamanna eiga að sjást oft og víða.

Jenný... lagið er eins og er þriðja neðst í spilaranum - í stafrófstöð á eftir öllum Spegilsviðtölunum. Söngur villiandarinnar.

Já, Hlynur og Kjartan... þetta er sérlega fallegt myndbrot.

Lára Hanna Einarsdóttir, 1.7.2008 kl. 12:33

12 identicon

MAGNUS FINNUR HAUKSSON (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 16:59

13 Smámynd: Steingrímur Helgason

Uzzumzuzz, nú lángar mig í grillaða villiönd ...

Steingrímur Helgason, 1.7.2008 kl. 20:54

14 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Uzzumfuzz, Zteingrímur!  Þú grillar ekkert bernsku minnar villiendur, góurinn! 

Lára Hanna Einarsdóttir, 1.7.2008 kl. 21:34

15 identicon

Takk fyrir það Lára Hanna...ég var að spá í óskalag...þarna...man ekki hvað það heitir en það er sungið af Britney Spears... Prófaði þetta með að lækka niður og spila villiöndina - svínvirkaði.

alva (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 23:01

16 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Sæl Lára Hanna. Ég heyrði í Hjalta áðan og sagði honum frá þessu bloggi þínu. Hann var stoltur og þakklátur, fannst mér, en drengurinn er svo lítillátur og lélegur að koma sínu á framfæri að ég held hreinlega að við verðum að gera það hér og skora á þessa aumu stofnun RÚV-ohf að koma þessu sem hann hefur verið að gera á framfæri. Annars býst ég við að lítil von sé til þess þegar nýjustu fréttir segja að helmingur þeirra sem sagt er upp núna vegna sparnaðar RÚV-ohf séu starfsmenn svæðisstöðva á landsbyggðinni. - Var ekki slagorðið: "Útvarp allra landsmanna - þjóðareign í þína þágu". Það stóð á bílnum þegar ég var að vinna þar.   

Haraldur Bjarnason, 1.7.2008 kl. 23:03

17 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Söngur villiandarinnar var fyrstu kynni mín af sorginni í lífinu. Þá átti ég heima á Vesturgötunni, beint á móti þar sem þú átt núna heima. En nú er ég sem betur fer alveg orðinn tilfinningalaus! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.7.2008 kl. 23:19

18 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Alva... bara gullaldarlög í boði - ekkert Britney Spears gaul... 

Haraldur...  Hjalti má svo sannarlega vera stoltur af þessu myndskeiði og eflaust á hann fjölmörg slík. Ég vona að ráðamenn RÚV taki áskorun okkar og sýni meira af efninu hans!

Siggi...  tilfinningalaus, hvað?!    Glætan!  En líklega er Söngur villiandarinnar líka fyrstu kynni mín af sorginni. Hafði ekki hugsað dæmið þannig - en líklega er það svo. Ég er samt sem betur fer ekki orðin tilfinningalaus nema síður sé.

Lára Hanna Einarsdóttir, 1.7.2008 kl. 23:48

19 identicon

Sigurður Þór, þú ert algert æð!! hahahaha

alva (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 00:08

20 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Skemmtiileg umræða um villiöndina, sem rifjar upp fyrir mér, að vinur okkar hann Jens var með í vetur minnir mig einmitt með svipaða æskuminningu og þú og Sigurður. Hún var reyndar kátbrosleg, því eldri bróðir hans, STebbi, neyddi hann alltaf til að hlusta svo hann gæti heyrt litla bróður grenja!

ER svo gamall sjálfur að muna þessi ár og þá andakt sem síðasta lag fyrir fréttir vakti oft t.d. með spilun á villiöndinni, Svanasöng á heiði, Draumalandinu og í fjarlægð, svo nokkur séu nefnd af mörgum fallegum sönglögum!

Þetta voru nánast heillagar stundir fyrir margan manninn!

Magnús Geir Guðmundsson, 2.7.2008 kl. 00:18

21 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fugla og dýralíf í Héraðsflóa átti að vera í stórhættu vegna Kárahnjúka samkvæmt niðurstöðu "sérfræðinga" sem andstæðingar framkvæmdanna leituðu til. Einnig að ferðamannaiðnaðurinn myndi hrynja á Austurlandi, fækkun upp á heil 50% var fyrirsjáanleg samkvæmt öðrum "sérfræðingum" og 30% á landin öllu.

Annað hefur komið á daginn, en það kemur mér ekki á óvart.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.7.2008 kl. 15:38

22 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Gunnar minn. Þú ert að tala um Héraðsflóa. Þessar myndir eru teknar upp á Héraðssandi, hann er ekki úti á sjó. Það sem breyttist við Kárahnjúkavirkjun var það að nú sest framburður í Hálslón, sem áður hlóðst upp við ósa Lagarfljóts og Jöklu. Kynntu þér nú aðeins landafræðina!!! - þetta gerir það að verkum að lífverur úr framburðinum, sem rækja, ýsa og fleiri tegundir sóttu í berst ekki lengur úti í Héraðsflóa. Það er alveg óháð því hvort lómur og fleiri fuglar verpi á Úthéraði. - Þetta er ótrúleg framsetning af manni sem búið hefur á Austurlandi í mörg ár.

Haraldur Bjarnason, 2.7.2008 kl. 18:33

23 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Haraldur minn. Ég át þetta með Héraðsflóann upp úr pistli Láru Hönnu. Ég þekki fugla á Íslandi nógu vel til þess að vita að þeir verpa ekki út á sjó.   Kynntu þér umræðuna og rök andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar þar sem þeir fullyrtu að lóu, spóa og gæsastofninn væri í hættu vegna framkvæmdanna, svo ekki sé minnst á sela og fiskistofna í flóanum.... hreindýrin líka. Allt tómt bull eins og fyrri daginn sem frá þessu fólki kemur.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.7.2008 kl. 19:00

24 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Gunnar. Lára Hanna segir við Héraðsflóa en þú segir í. Þessar áhyggjur af breytingu lífríkis í Héraðsflóa mátti nú einfaldleg lesa í skýrslum um mat á umhverfisáhrifum vegna virkjunarinnar. Það er ekki frá andstæðingum komið, kostað af Landsvirkjun.

Haraldur Bjarnason, 3.7.2008 kl. 18:25

25 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Fallegar myndir.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 26.7.2008 kl. 13:26

26 identicon

Ansi er þessi Gunnar heiftúðugur og ílla að sér um Íslenska fugla, sennilega fer allt púðrið hjá honum í að mæra stóriðjuna eða álglýjan hefur skemmt hann,  hinum þakka ég góð orð þó seint sé, kveðja Hjalti myndatökumaður

Hstef (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 12:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband