Breskur húmor, myndbönd og efnahagsmál

BBC-ITVBretar eru miklir húmoristar, það held ég að sé nokkuð óumdeilt. Við sjáum allt of lítið af bresku efni í íslensku sjónvarpi. Amerískir veruleikaþættir hafa tröllriðið dagskrá flestra sjónvarpsstöðva undanfarin ár. Það er helst Ríkissjónvarpið sem býður upp á breskt efni, bæði drama og grín, og það er geysivinsælt. En meðalaldur sjónvarpsáhorfenda er að hækka eins og fram kom í þessari frétt, svo væntanlega endurspeglar dagskráin það fljótlega með þáttum fyrir fullorðna.

Bretar ganga oft mjög langt í sínu gríni og miðað við viðbrögð sumra við gríni hérlendis yrðu þeir líklega snarvitlausir ef okkar grínistar myndu hamast jafn miskunnarlaust á jafnvel viðkvæmum málum og þeir bresku gera gjarnan. Þeim virðist fátt vera heilagt.

Ekki hafa Bretar farið varhluta af efnahagskreppunni sem geisað hefur þótt Baugur Groupþær vaxta- og verðbólgutölur sem þeir glíma við séu snöggtum lægri en þær sem við Íslendingar sjáum hér. Í ljósi þess er kannski skiljanlegt að eitt stærsta fyrirtæki landsins hafi séð sér leik á borði og flutt aðsetur sitt til Englands þótt ekki sé það stórmannlegt. Eigendurnir fleyttu rjómann af góðærinu en stinga svo af þegar kreppir að. Þannig lítur málið út í mínum augum, en ég viðurkenni að vera illa að mér í völundarhúsi fjárfestinga og Group-mála, svo vel má vera að þetta sé rangt mat.

Bankar, verktakar og ýmis fyrirtæki emja líka sáran. Á meðan græðgin réð för og allt lék í lyndi, bankar græddu á tá og fingri, verktakar færðust allt of mikið í fang og fyrirtækin slógu lán á báða bóga var íhlutun eða afskipti ríkisvaldsins harðlega fordæmd. Allt átti að vera svo einkavætt og frjálst, öllum heimilt að gera það sem þeim sýndist í opnu hagkerfi og frjálsu samfélagi. Ríkisvaldið mátti hvergi koma þar nærri - ekki einu sinni til að vara menn við því að óráðsían væri feigðarflan og farin úr böndunum. Ríkinu kom þetta bara ekkert við... þá.

PeningarSvo sprakk blaðran eins og hún hlaut auðvitað að gera eftir allt sukkið. Þá kom skyndilega allt annað hljóð í strokkinn. Nú á ríkið (við skattborgarar) að redda hlutunum, slá erlend lán upp á hundruð milljarða á gengi dagsins, bjarga óforsjálum verktökum frá gjaldþroti vegna offjárfestinga, breyta gjaldmiðlinum, ganga í ESB og síðast en ekki síst - virkja allar orkuauðlindir okkar strax til að byggja verksmiðjur ("mannaflsfrekar framkvæmdir", svokallaðar). Fyrirhyggjuleysið kristallast í orðum talsmanns greiningardeildar Glitnis sem lesa má í þessu morgunkorni þar sem fyrirhuguð eyðilegging á íslenskri náttúru er dásömuð af því hún færir aur í kassann hjá bönkunum:

"Segja má að álframleiðsla og annar orkufrekur iðnaður sé leið Íslendinga Glitnirtil að flytja út orku með hliðstæðum hætti og olíuríki selja afurðir sínar á heimsmarkaði, og hátt orkuverð er að öðru óbreyttu jákvætt fyrir arðsemi af slíkum orkuútflutningi. Í því ljósi, og með hliðsjón af því hversu fjárfestingarstig í hagkerfinu virðist nú lækka hratt, má segja að ofangreindar framkvæmdir séu heppilegar og líklegar til þess að vega gegn verulegum samdrætti í innlendri eftirspurn á næstu misserum."

Takið eftir niðurlaginu - það er verið að tala um misseri, ekki ár eða áratugi. Framtíðarsýn peningaaflanna er aðeins nokkur misseri. Bankarnir bara að bjarga sjálfum sér fyrir horn. Þetta er óhugnanlega dæmigert fyrir íslenskan hugsunarhátt og pólitík. Stjórnmálamenn hugsa í kjörtímabilum, þá helst aðeins um sitt eigið kjördæmi og eru á stanslausum atkvæðaveiðum. Hagsmunir og framtíð heildarinnar hverfa í skuggann á pólitískum skammtímaframa stjórnmálamanna. Bankar og önnur fyrirtæki - og reyndar almenningur líka - hugsa bara um morgundaginn, í besta falli næsta ársuppgjör eða næstu mánaðamót. Ég vildi óska að hér ríkti meiri langtímahugsun í stjórn landsins, viðhorfi banka, fyrirtækja og almennings og umhyggja fyrir heildarhagsmunum í stað sérhagsmuna. Það er ekki vænlegt til árangurs að hugsa alltaf eingöngu um rassinn á sjálfum sér.

En ég ætlaði ekki að skrifa svona mikið heldur koma með sýnishorn af breskum húmor. Þau tengjast öll efnahagskreppunni og þarfnast ekki frekari skýringa. Þriðja og síðasta myndbandið birti ég hér fyrir nokkrum mánuðum - en góð vísa er sjaldan of oft kveðin.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Heil og sæl Lára Hanna, 

Sá þig auglýsa á amk einum stað eftir fleiri dæmum um það, sem ekki hefur gengið eftir í kjölfar virkjana í fyrirheitna landinu á Austfjörðum.   Nógu mörg slík dæmi hafa nú bæði þú og aðrir talið upp, en ég bendi samt á nýlega frétt um stóraukna tíðni hjónaskilnaða fyrir austan. (Sjónvarp; RÚV eða Stöð 2).

Ekki skal því haldið fram að skilnaðir séu alfarið af hinu illa, en bendir þetta nú samt ekki til þess að hin dásamlega innspýting í atvinnu- og mannlíf á þessum slóðum hafi ekki verið eins (kjarna)fjölskylduvæn og látið var í veðri vaka að hún yrði ?

Einnig man ég ekki betur en að atvinnumöguleikar kvenna hafi átt að stóraukast, en það er löngu komið fram að svo varð ekki, nema síður væri.   Er hugsanlega samhengi þarna á milli ?

Dáist annars að þér fyrir dugnaðinn við að afla gagna og miðla fróðleik um þessi mikilvægu mál.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 5.7.2008 kl. 17:10

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Lára Hanna.

Afar fínn pistill og sígild myndbönd. Nýt þess stundum að bera saman Breta og Íslendinga hvað húmor snertir og sé greinilega hversu hörundssárir við erum þegar kemur að sjálfum okkur. Að auki kemur þú inn á þetta mál um góðærið sem gufaði upp á exelskjölunum. Hvar eru allir peningarnir sem búnir voru til á s.l. 6 árum og útrás íslendinga m.a. var fjármögnuð af? Gufuðu verðmætin bara upp. Kaup erlendra banka, verslanakeðja og fyrirtækja sem bjuggu til ofurríka íslendinga, kvótapeningarnir þar sem menn fengu greitt milljarða fyrir óveiddan fiskinn, bankarnir sem gerðust group hitt og finance þetta. Hvernig á svo að hafa samúð með þessu hyski þótt gróðinn minki eitthvað næstu misserin?

Svanur Gísli Þorkelsson, 5.7.2008 kl. 21:05

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ég dáist að baráttunni þinni. Er þér oft sammála en stundum ekki. Þannig má það nú líka vera. Við eigum ekki að vera hjarðdýr með eða á móti álverum. Heldur hafa kjark til þess að skoða málin og taka afstöðu.

 Fyrir nokkrum árum fór ég með vini mínum sem starfaði sem rafvirki, í heimsókn til föður hans sem dvaldi á Grund. Sá gamli hafði skoðanir á flestu, og stóru dómarnir voru settir fram eins og komandi á færibandi. Hluti af "vondu mönnunum" voru einmitt verktakarnir. Þessi ógeðslegu skriðkvikindi sem réðust á íslenskan almenning, sviku og sukkuðu.

"En, pabbi, okkur var sagt upp í síðustu viku og nú er ég orðinn verktaki. Er ég þá orðinn svikari og sukkari." Það var löng þögn.

" Hluti móðurættar þinnar var alltaf veikgeðja" sagði sá gamli.

Vinur minn sagði mér síðar að sá gamli hafi tekið út verktakana úr pistlum sínum til hans. Það gerði svo sem ekkert til, andstæðingar þjóðfélagsins voru nógu margir. Þegar sá gamli fór að horfa á fótbolta, ákvað hann að halda með Tottenham. Allir aðrir gátu ekki spilað fótbolta.

Sigurður Þorsteinsson, 6.7.2008 kl. 12:23

4 Smámynd: Víðir Benediktsson

Haft er fyrir satt ef þú vilt halda alvöru partý lætur þú Ítali sjá um matinn, Þjóðverja um skipulagningu og Breta um skemmtiatriðin. Ef þú hins vegar vilt að allt fari á annan endann lætur þú Ítali sjá um skipulagningu, Breta um matinn og þjóðverja um skemmtiatriðin.

Víðir Benediktsson, 6.7.2008 kl. 23:38

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Þú gætir setið ein í stjórnarandstöðu með þennan dugnað! .. Takk fyrir comment.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 8.7.2008 kl. 15:57

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Kærar þakkir fyrir innlit og athugasemdir.

Ég bætti hluta af athugasemdinni þinni inn í pistilinn hér á undan, Hildur Helga. Heimildagildisins vegna, það er auðveldara að finna hlutina í pistlum en í athugasemdum.

Ég verð að játa, Svanur, að ég hef ekki samúð með neinum sem lét glepjast af græðgisæðinu og sýpur nú seyðið af því. Ég er heldur ekki tilbúin til að láta skattborgarana redda þeim upp úr skítnum.

Góð saga af gamla manninum á Grund, Sigurður! 

Ég heyrði þetta einhvern tíma, Víðir... en var að sjálfsögðu búin að gleyma því. Ég held að þetta sé alveg hárrétt.

Ég er alltaf í einhvers konar stjórnarandstöðu, Jóhanna... en mikið djö... er það lýjandi!

Lára Hanna Einarsdóttir, 10.7.2008 kl. 23:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband