Mótmælt víða um land

Það var heldur betur margt um manninn á Austurvelli í gær, töluvert fleiri en Mótmæli - 17.1.09 - Heilbrigðisstarfsfólksíðasta laugardag. Ræðumenn báðir mjög góðir. Og fleiri og fleiri fundir eru haldnir á sama tíma víða um land. Í gær voru haldnir fundir, að Austurvelli frátöldum, á Ísafirði, Akureyri, í Mývatnssveit, á Egilsstöðum og Selfossi. Vel mætt á alla fundina.

Mér þótti alveg sérstaklega vænt um að sjá heilbrigðisstarfsfólk á frívakt með skilti og grænar höfuðhlífar. Það kom augljóslega til að mótmæla hryðjuverkum ráðherra á heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga, kannski einkum lokun St. Jósefsspítala í Hafnarfirði sem er algjört glapræði. Það má ekki láta Guðlaug Þór komast upp með þessar áætlanir, vítaverð vinnubrögð og glórulausa einkavinavæðingu á heilbrigðiskerfi sem forfeður okkar og -mæður byggðu upp með blóði, svita og tárum. Meðal annars gamla fólkið sem Sigrún talar um hér að neðan og er nú flutt hreppaflutningum eins og sauðfé. Hvað yrði um þetta fólk ef öldrunarþjónustan væri einkavædd og gengi fyrir græðgi auðmanna? Lesið t.d. þetta og þetta - þarna kristallast stefna frjálshyggjumannsins Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í heilbrigðismálum. Óhugnanleg lesning og ekki gert ráð fyrir því sem varð efnahag Íslands að falli, grægðinni, sem er þó drifkraftur og uppistaða frjálsyggjunnar. Vonandi heldur heilbrigðisstarfsfólk áfram að koma í hópum eins og nú.

Sigrún Sverrisdóttir, mótmælandi í MývatnssveitFrumlegustu mótmæli dagsins fannst mér vera mótmælin í Dimmuborgum í Mývatnssveit en þau voru líka þau fámennustu - eðlilega. Þar kom fólk saman til að fleygja gúmmískóm í gullkálfinn sem tákns siðspillingar, valda og siðblindu. Svar dagsins á Sigrún Sverrisdóttir, landpóstur og bréfberi í Mývatnssveit. Þegar fréttamaður spurði hana af hverju hún væri mætt á mótmælin í Dimmuborgum svaraði Sigrún: "Af því þjófnaður hefur aldrei verið vel séður í Mývatnssveit og mér finnst alveg svívirðilegt hvernig er búið að fara með íslensku þjóðina. En svívirðilegast af öllu finnst mér hvernig farið er með gamla fólkið sem er búið að byggja upp landið okkar. Það er flutt hreppaflutningum eins og hvert annað rusl." Vel mælt hjá Sigrúnu fyrir utan að vera auðvitað alveg hárrétt. Góðir, Mývetningar!

Haldinn var fyrsti mótmælafundurinn á Austurlandi í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum í gær. Ung kona, Þórunn Ólafsdóttir frá Fáskrúðsfirði, var driffjöður og skipuleggjandi fundarins. Ræðumenn voru Björgvin Valur Guðmundsson og Ingunn Snædal, sem bæði fluttu stuttar en kjarnyrtar ræður. Þær voru teknar upp og ég klippti saman það sáralitla myndefni sem ég hafði úr fréttunum og skeytti saman við ræðurnar þeirra. Takið viljann fyrir verkið. Hljóðið er gallað alveg fremst en lagast fljótlega. Áfram Austfirðingar!

Ég klippti saman fréttaumfjöllun sjónvarpsstöðvanna um fundina. Takið eftir gjörólíkum efnistökum fréttamanna fréttastöðvanna. Það er dæmigert að uppákomur eins og sú sem Ástþór Magnússon og Eiríkur Stefánsson stóðu fyrir fái meiri umfjöllun en ástæða fundarins, ræðurnar og samhugur þúsunda fundargesta. Myndefni frá fundunum á landsbyggðinni var harla lítið. Nánast ekkert frá Ísafirði og ekkert frá Selfossi. Og hvergi bútar úr ræðum eða neitt slíkt. Ef einhver á myndefni frá þessum fundum væri gaman að fá það eða vísun á það á netinu.

Viðbót: Hér er ræða sem flutt var á fundinum á Selfossi í gær.

Á fundinum á Austurvelli töluðu Gylfi Magnússon, lektor við HÍ, og Svanfríður Anna Lárusdóttir, sem nú er atvinnulaus. Ekki veit ég hvort Svanfríður Anna er sviðsvön, en mikið fjári stóð hún sig vel! Ég varð mér úti um ræðu Gylfa, en á eftir að bera mig eftir ræðu Svanfríðar Önnu. Ef hún sér þetta má hún gjarnan senda mér hana. En hér er glæsileg ræða Gylfa Magnússonar:

"Fundarstjóri, ágætu fundargestir.

Það leika naprir vindar um efnahagslíf heimsins um þessar mundir. Óvíða kaldari en á okkar hrjóstruga landi. Yfir okkur hellast slæmar fréttir, gjaldþrot, uppsagnir, niðurskurður, tap og skuldir. Hnípin þjóð hlustar. Reið og ráðþrota.

Það er erfitt að vera bjartsýnn við aðstæður sem þessar. Aðrar tilfinningar ríkja.

Gylfi Magnússon á Austurvelli 17.1.09Bölsýnin eykur enn á vandann. Til að endurreisa íslenskt efnahagslíf þarf margt. Eitt af því er bjartsýni. Þjóðin þarf að fá aftur trú á sjálfri sér og leiðtogum sínum. Trúa því að landsmenn séu á réttri leið.

Án þess koðnar allt niður áfram. Enginn þorir að sýna frumkvæði, hefja rekstur og ráða starfsfólk. Fólk sem getur unnið og vill vinna fær þá ekki vinnu. Atvinnutæki standa óhreyfð. Verðmæti eru ekki sköpuð.

Við hvorki viljum né þurfum aftur þá ofurbjartsýni og fífldirfsku sem gerði stjórnlausum áhættufíklum kleift að koma okkur á kaldan klaka. Með dyggri aðstoð og velþóknun ráðamanna sem létu fámennan hóp pappírsauðkýfinga fara um hagkerfið eins og engisprettur um akur.

Leiðtogar þjóðarinnar leyfðu hópi manna að sölsa undir sig öll helstu fyrirtæki landsins, skipta á milli sín öllum feitustu bitunum. Þeir léku sér með annarra manna fé. Ef einhvers staðar var fé án hirðis þá fengu þeir að hirða það. Þeir fengu meira að segja íslenska ríkisábyrgð fyrir mesta glannaskapnum. Umræðulaust. Enda réðu þeir umræðunni. Kváðu niður alla gagnrýni. Deildu og drottnuðu.

Það er komið miklu meira en nóg af slíku. Það hefur enginn trú á þessu lengur. Hvað gefur þá ástæðu til bjartsýni?

Jú, það er ýmislegt. Kannski fyrst og fremst það, að í lýðræðisríki eins og okkar þá ræður þjóðin á endanum. Hún velur þingmenn og forseta og getur skipt þeim út, hvort sem þeim líkar betur eða verr, þegar þeir hafa brugðist. Það verður án efa gerst við fyrsta tækifæri.

Þjóðin ræður stefunni. Hún getur ákveðið að sópa gamla hagkerfinu á öskuhauga sögunnar og reisa annað, nýtt og miklu betra á rústunum.

Til þess hafa Íslendingar alla burði. Við erum kraftmikil og vel menntuð þjóð, vinnusöm, útsjónarsöm og úrræðagóð. Okkur tókst á tuttugustu öld að byggja upp þjóðfélag sem við vorum stolt af með réttu. Friðsælt, opið og lýðræðislegt þjóðfélag með ein allra bestu lífskjör í heimi.

Við búum enn að öllu því sem þarf til að endurreisa þetta þjóðfélag og gera það enn betra. Fjármálakreppa eyðileggur ekki það sem mestu skiptir. Hún eyðir pappírsverðmætum.

Fólkið er enn hér. Menningin. Sagan. Auðlindir lands og sjávar. Ægifögur náttúran. Virðing fyrir lögum og reglum og trú á friðsamar lausnir. Þetta gerir okkur kleift að halda okkur í hópi þeirra þjóða heims sem búa best að þegnum sínum.

Vitaskuld bíður Íslendinga erfitt verkefni. Það er því miður nær óhjákvæmilegt að ástandið á eftir að versna á marga mælikvarða áður en Gylfi Magnússon á Austurvelli 17.1.09það fer að batna aftur. Það eru engar auðveldar lausnir í boði. Fjölmörg heimili og fyrirtæki eiga eftir að ganga í gegnum erfiða og þungbæra fjárhagslega endurskipulagningu. Ríkið þarf að skera niður og hækka skatta.

Þetta eru ekki skemmtileg verkefni. Það er hins vegar ekkert sem fyrir liggur sem er óviðráðanlegt. Því fer raunar fjarri. Byrðarnar verða þungar um tíma en ef þeim er skipt á sanngjarnan hátt þá verða þær engum óbærilegar.

Nýja hagkerfið fær í vöggugjöf gríðarlegar skuldir. Einkageirinn skuldar mikið og mun raunar aldrei endurgreiða nema hluta þess. Hið opinbera mun skulda talsvert meira en landsframleiðslu eins árs. Það eru skatttekjur fjölmargra ára.

Þetta er auðvitað ekkert fagnaðarefni. Það er ekkert skrýtið að margir bölvi þeim sem komu okkur í þessa stöðu. Það á líka að draga þá til ábyrgðar, bæði siðferðilega og lagalega. Undanbragðalaust. Uppgjör við fortíðina er nauðsynlegur liður í uppbyggingunni.

Skuldirnar eru samt ekki, frekar en annað sem við þurfum að takast á við, óviðráðanlegar. Það hafa ýmis ríki þurft að takast á við skuldir sem þessar og tekist það. Þeim mun örugglega fjölga á næstunni enda því miður ýmis dæmi um ríki sem eru með lítið skárra fjármálakerfi en hið helsjúka íslenska kerfi var orðið undir lokin.

Það má líka ekki gleyma því að Ísland býr, þrátt fyrir allt, að sterku lífeyriskerfi. Það hefur fengið þungt högg. Eftir stendur samt mun betra kerfi en flestar aðrar þjóðir búa að. Þjóðin er líka ung. Það skiptir miklu að íslenska ríkið þarf ekki að hafa verulegar áhyggjur af lífeyrisskuldbindingum landsmanna, ólíkt mörgum nágrannaríkja okkar.

Hvað þarf á að gera? Það þarf að teikna upp nýtt hagkerfi með nýjum leikstjórnendum og nýjum leikreglum.

Um flesta þætti þess er líklega breið samstaða. Flestir vilja bæði öflugan einkageira og opinberan geira. Sá síðarnefndi heldur uppi velferðarkerfi og tryggir öllum aðgang að góðri menntun og heilsugæslu. Hið opinbera setur leikreglurnar og sér til þess að þeim sé fylgt. Þar þarf ýmsu að breyta.

Gylfi Magnússon á Austurvelli 17.1.09Einkageirinn skapar verðmæti og skatttekjur. Hann þarf að losna við meinsemdir útrásarvíkinga, með öll sín eignarhaldsfélög, "Group", bókhaldsbrellur, vogaðar stöður, skattaskjól, eigna- og stjórnunartengsl, pólitísk tengsl og hvað þetta nú allt saman heitir. Þetta er hluti af því sem fara þarf á öskuhauga sögunnar. Ekkert af þessu skapaði nein raunveruleg verðmæti.

Í stað þess getur komið blómlegt atvinnulíf með fleiri og smærri fyrirtækjum, dreifðara en einfaldara eignarhaldi, meiri valddreifingu, meira gagnsæi, hraustlegri samkeppni, meiri nýsköpun, fleiri tækifærum fyrir alla. Opið, sanngjarnt og heilbrigt efnahagslíf.

Það þarf mörgu að breyta. Fyrst hugarfarinu. Sú hugmyndafræði sem kom okkur í núverandi stöðu er andlega gjaldþrota. Þeir sem fóru fyrir henni þurfa að víkja strax af sviðinu og láta öðrum eftir uppbygginguna. Hvort sem þeir eru í stjórnmálum, stjórnkerfinu, fyrirtækjarekstri, fara fyrir hagsmunasamtökum eða voru bara í klappliðinu.

Fyrsta skrefið til fyrirgefningar er að þetta fólk rétti fram sáttarhönd og axli ábyrgð með því að víkja. Því miður hefur lítið sést til þeirrar sáttahandar ennþá. Það glittir bara í löngutöng.

Allt þetta fólk má auðvitað starfa að uppbyggingunni en það má ekki og getur ekki stjórnað henni. Þeir sem strönduðu þjóðarskútunni eiga ekki að stýra henni af strandstað. Þeir geta ekki hvatt landa sína til dáða. Það hefur enginn trú á þeirra lausnum. Þeir mega hins vegar leggjast á árarnar með öllum hinum. Á almennu farrými.

Með nýrri sýn og nýrri forystu verða Íslendingum allir vegir færir. Okkur vantar ekkert annað til að hefja endurreisn Íslands."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Víðir Benediktsson

það er nú svo sem ekki fréttunum fyrir að fara af mótmælum héðan frá Akureyri. Aldrei eru sýndar myndir í sjónvarpinu héðan nema einu sinni og því síður að teknir séu upp ræður sem margar hafa verið prýðilegar. Þetta sýnir bara á hvaða level fréttamenn sjónvarps eru. Það virðist þurfa að koma til óeirða svo þeir fái áhuga en hér hefur alltaf allt verið með friði og spekt. Einu afskipti lögreglunnar hér á Akureyri eru að tryggja gangandi mótmælendur öryggi í umferðinni og þegar þeir eru mættir á Ráðhústorgið telur lögreglan sínu hlutverki lokið og lætur sig hverfa á meðan fundurinn fer fram. Löggan hér er til fyrirmyndar og sýnir mómælendum mikla virðingu.

Víðir Benediktsson, 18.1.2009 kl. 05:47

2 identicon

Hljóðupptaka af ræðunum sem fluttar voru á fundinum á Egilsstöðum er hér:

http://www.raudhausar.com/jonknutur/

Með baráttukveðjum.

Gnnar Geirsson (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 09:39

3 identicon

Vefþjóðviljinn
Við gerum okkar besta til að blaðið sé eins ólíkt Þjóðviljanum heitnum og
mögulegt er.
Við minnum einnig á að einungis einstaklingar hafa vilja - ekki þjóðir.
  304. tbl. 7. árg.
 
Föstudagur 31. október 2003
Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður er dugleg að spyrjast fyrir um ferða- og
risnukostnað ríkisstofnana og ráðuneyta. Fjármálaráðuneytið svaraði í vikunni
nýjustu fyrirspurn hennar og þar kemur fram að ríkisstarfsmenn eyddu 2.425
milljónum króna í ferðalög á síðasta ári og 325 milljónir fóru í risnu. Samtals
2.750 milljónir króna. Ef að meðalferðin kostar 100 þúsund krónur og tekur tvo
daga fara ríkisstarfsmenn í 25 þúsund ferðir á ári og eru 50 þúsund daga á
ferðinni. Það gætu því verið 200 ríkisstarfsmenn á ferðinni á hverjum virkum
degi ársins. Ein góð þota full af ríkisstarfsmönnum í brýnum erindisgjörðum.

Ofanskeyttur greinarstubbur er úr gömlum Vefþjóðvilja
http://www.andriki.is/default.asp?art=31102003


Sæl, Lára Hanna...
Ekki veit ég hverjar nýjustu tölur úr ferðabransa vorra opinberu starfsmanna og
fylgiliðs þeirra eru í dag.Varla hafa þessar tölur lækkað? Hmmmm...

Risna er skemmtileg. Fyrir þá sem njóta hennar.

Að vera gamall og lasburða er óskemmtilegt. Sérstaklega þegar þeir, sem svo er
komið fyrir, eru teknir fantatökum og fluttir nauðugir viljugir á milli húsa.
Þarna njóta menn einskis.

Eftir uppákomuna fyrir norðan (þar á ég við Sel)http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item244908/ er
ég með óbragð í munni og sannkallað hatur í hjarta. Tek fram að ég er
dagfarsprúð og reyni að gera fólki gott ef ég get.

En þessi viðbjóður tekur út yfir allan þjófabálk. Þarna sparast 100 milljónir.
Vonandi gengur sá sparnaður upp í risnu fyrir ráðfrúr og ráðherra í kreppunni.
Hundrað millur eru nú bara skiptimynt.
Því í andskotanum leyfir heilbrigðisráðherra ekki líknardráp svo að við losnum
við öll þessi gamalmenni og ólæknandi sjúklinga sem eru greinilega að sliga
heilbrigðiskerfið? Við höfum ekkert við þetta að gera lengur...eða hvað?
Er ekki búið að ná úr þessu liði öllum þeirra kröftum síðastliðin 60-70 ár eða
svo? Hvað er gert við gamla, fótlúna hesta? Júbb, felldir út í haga og urðaðir.

Þetta er ömurlegasta atriði úr íslenskum veruleika sem ég hef nokkru sinni
augum litið. Ekkert toppar þetta, ekki neitt.

Megi þeir sem að þessu stóðu, fá sín verklaun greidd í fyllingu tímans og túlki
svo hver sem vill.

Guðrún Garðarsdóttir
2008624819
_______________________________

guðrún garðarsdóttir (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 10:47

4 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Takk fyrir þetta Lára Hanna.

Þeesir hreppaflutningar með gamla fólkið er með því ljótara.

Hólmdís Hjartardóttir, 18.1.2009 kl. 11:33

5 Smámynd: Guðmundur Óli Scheving

Sæl Lára Hanna.

Það er bara verst að þeir aðilar sem mótmælin beinast að, er alveg sama.

Annar aðilin telur þetta varla vera mótmæli og skilur ekki raddir fólksins og hinn aðilin telur að þetta sé ekki þjóðin að mótmæla.

Þetta finnst mér.

Guðmundur Óli Scheving, 18.1.2009 kl. 12:13

6 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Já, það er undarlegt að þeir sem helst eiga að hlusta virðast ekki skynja samhljóminn í öllum þessum ólíku röddum sem nú hafa kosið að láta í sér heyra. Vonandi knýjum við fram kosningar sem fyrst. Ég vil líka benda á snilldarlega góðar greinar Njarðar P. Njarðvík í Fréttablaðinu. Þar talar réttsýnn mannvinur.

Steingerður Steinarsdóttir, 18.1.2009 kl. 13:22

7 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Sæl Lára Hanna

Takk fyrrir frábæra umfjöllun. Myndir mínar frá fundinum eru hér, í möppu með  þar síðasta fundi og þegar bónusfáninn var dreginn á hún.

kv Helgi

  Mynd 2009 01 17 15 15 44

Helgi Jóhann Hauksson, 18.1.2009 kl. 15:10

8 Smámynd: Anna

Heilbrigðisráðaherra virðist ekki vera með heilbrigðaskynsemi. Svo vill hann byggja nýtt sjúkrahús ámeða þjóðin er á kúpunni. Hann er ekki með réttu ráði maðurinn. Bara svo hann geti sett nafn sitt á nýtt sjúkrahús. Þetta minnir mig á vinnubrögð Davíðs Oddssonar einræðisherra.

Hvernig væri að borga erlendar skuldirnar fyrst. Erlendir aðilar sem bíða eftir að kæra þjóðina fyrir bankasvild og svínarí.

Eins og í april í fyrra þegar ríkisstjórnin dróg fæturna um bankavandræð Issave.

Ef það má lesa úr ummælum Jóhönnu í fréttum, þá er ekkert gott samstarf á milli flokkanna 2 um hvernig á að standa að borgun skulda eða hvaðan á að taka þá peninga.

Ég vil gjarnan sjá kosningar um páskanna.

Kjósa fólk en ekki pólitíska stjórnmálaflokkar.

Endurskifa stjórnarskrána. Sem hefur verið brotin á bak aftur hjá fjármálaeftirlitinu vegna gata í henni sem þeir hafa getað nýtt sér í peningaviðskiptum.

Og endurreisa Lýðveldið í landinu. Sem er ekki lengur til staðar.

Alþingi og alþingismenn hafa misst alla virðingu og traust almennings vega ábyrðalausa athafa í viðskiptum og fjármálum landsins. Þar sem draumóramenn hafa fengið að athafna sig árum saman í útrásar maníu.

Ef við seldum öll fyrirtækin í landinu þá yrði það ekki nóg til þess að borga skuldir þjóðarinnar.

Gleymum ekki bankastjórunum og bankaráðuunum, sem fengu starfsfólk sitt til þess að hringja í gamla fólkið á elliheimilunum. Með gilliboð um háa ávöxstun á bókum og reikningum sem síðan allt tapaðist.

Þetta fólk sem bjuggu þessi gilliboð til ættu að skammasýn að koma svona fram við ellilífeyrisþega. Ég varð orðlaus þegar ég frétti af þessu.

Ég er sammála þer Steingerður um grein Njarðars. Hann hefur marg gott um málanna að leggja. Kveðja

Anna , 18.1.2009 kl. 15:56

9 identicon

Það er helst í Ástþórs Magnússonar fréttum að öll þessi mótmæli séu sovét-fasízkir kommúnistatilburðir

ari (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 16:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband