"Mér þykir leitt hvað þið eruð vitlaus"

Davíð neitar að hætta : "Mér þykir leitt... hvað þið eruð vitlaus"

Greinin birtist upphaflega á ensku á HuffingtonPost.com, 11. febrúar undir heitinu: "I'm sorry You're so Stupid:"Head of Iceland's Central Bank refuses to step down

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur, eins og kunnugt er, óskað eftir því við bankastjóra Seðlabankans að þeir segi upp störfum sínum svo að unnt sé að endurvekja traust erlendra fjárfesta á stofnuninni.

Íris ErlingsdóttirAðeins einn af bankastjórunum þremur varð við beiðni Jóhönnu; Eiríkur vill hætta 1. júní, en Davíð sendi forsætisráðherranum bréf þar sem hann beinlínis úthúðaði henni fyrir að voga sér að vilja „kanna hvort vilji sé til þess af yðar hálfu að biðjast lausnar frá embætti nú þegar..." (Davíð ætti að vera þakklátur fyrir að Jóhanna hafði ekki gömul bréf hans sér til hliðsjónar við skrifin; þá hefði hún sennilega sagt að ef Davíð ekki segði upp myndi hún "sjá til þess...að menn komi að bankanum sem viti hvað þeir eru að gera...ég mun ekki sitja lengur kyrr.")

Hógværari maður en Davíð hefði ef til vill minnst orða De Gaulle, að kirkjugarðarnir eru fullir af ómissandi einstaklingum, og ákveðið að láta málið öðrum eftir. En í augum Davíðs snýst íslenska efnahagskreppan því miður fyrst og fremst um hann sjálfan (og Davíð er ekki einn um þennan misskilning). Hann virðist, rétt eins og ákveðinn bandarískur forseti, álíta það vera ófyrirgefanlegan veikleika að viðurkenna mistök. Eina afsökunin sem hann virðist vera fær um er af "Mér þykir leitt... að þið skulið vera svona vitlaus" taginu.

Davíð hefur rétt fyrir sér að einu leyti. Seðlabankanum er ætlað að vera óháð stofnun sem staðið geti vörð um fjármuni þjóðarinnar óháð pólitískum áhrifum. Að verða við ósk Jóhönnu gæfi til kynna að Seðlabankinn væri bara enn opinber stofnun sem starfaði eftir duttlungum stjórnmálamanna.

En allir vita að pólitískt sjálfstæði Seðlabankans er nafnið eitt (íslenskir skattborgarar halda uppi þremur pólitískt ráðnum seðlabankastjórum, svo allir angar flokksræðisófreskjunnar fái sitt).  Davíð hafði hvorki menntun né þjálfun í hagfræði eða fjármálavísindum; hann var fremsti stjórnmálamaður landsins og hélt áfram að ráða lögum og lofum í Sjálfstæðisflokknum eftir að hann varð Seðlabankastjóri árið 2005. Til samanburðar væri meistaragráða í fyrrnefndum sérgreinum fyrsta skilyrði fyrir ráðningu í embætti nýs Seðlabankastjóra.

Davíð neitar einnig að viðurkenna að undir stjórn hans hefur Seðlabankanum algerlega mistekist þau grundvallarverkefni bankans að ná stöðugleika í gengi krónunnar og að hafa stjórn á verðbólgu, sem í janúar rauk upp í 18.6%. Hann sá ekki til þess að treysta gjaldeyrisforða Íslands til að vega á móti þenslu viðskiptabankanna erlendis. Krónan hefur tapað helminginum af verðgildi sínu á síðustu mánuðum og það er aðeins vegna þess að IMF hefur notað milljarða dala til að halda krónunni í gjörgæslu að hún er ekki í frjálsu falli.

Þessi deila skaðar enn frekar stöðu Íslands í augum erlendra fjárfesta, samkvæmt Financial Times, og gæti stefnt áætlunum alþjóðagjaldeyrissjóðsins til bjargar landinu í hættu.

Að stíga niður úr valdastól með reisn er án efa list út af fyrir sig. Í mannkynssögunni eru óteljandi dæmi um leiðtoga sem ákváðu að það væri Davíð Oddssontímabært og viðeigandi að axla ábyrgð og hörfa og lögðu þannig drög að endurkomu sinni. Davíð mun ekki ávinna sér virðingu meðal Íslendinga með því að sýna embætti forsætisráðherra virðingarleysi. Það mun aðeins gera þeirri ríkisstjórn sem kjörin verður í komandi kosningum erfiðara fyrir. Ef leiðtogi Sjálfstæðisflokksins neitar að fara að tilmælum ríkisstjórnar sem samanstendur af öðrum stjórnmálaflokkum í landinu, hvers vegna ættu leiðtogar þeirra flokka að gegna ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins?

Grundvallarskilyrði fyrir réttlátu og virku lýðræðisríki er að viðurkenna að embættið er æðra einstaklingnum, að þjóðin er mikilvægari en flokkurinn.

Mótmælendurnir sem felldu ríkisstjórn Geirs Haarde trúa því ekki lengur að íslenskir leiðtogar beri virðingu fyrir lögum og reglum. Þeir sjá smáklíku sem uppsker gríðarleg verðmæti fyrir sig og sína og stefnir efnahagslegu öryggi þjóðarinnar í stórhættu. Þeir spyrja hvers vegna enginn hefur verið sóttur til saka fyrir fjármálaglæpi vegna efnahagshrunsins; hvers vegna aðilar innan bankanna sem tóku lán fyrir hlutabréfakaupum þurfa ekki að standa við skuldbindingar sínar, hvers vegna embættismenn sem vanræktu að hafa eftirlit með bönkunum voru enn í starfi mánuðum eftir hrun bankanna. Þessir mótmælendur berja nú potta og pönnur fyrir framan Seðlabankann til að reyna að fá bót á þessu ástandi.

Þó bréf Davíðs til Jóhönnu hafi verið meira Mugabe en Churchill, má enn vona að hann íhugi málið betur og ákveði að láta hagsmuni þjóðarinnar ganga fyrir sínum eigin. Ef hann vill fá endurlausn getur hann að lagt mál sitt fyrir þjóðina þegar gengið verður til kosninga í apríl. Umsáturs-hugarfar Davíðs smánar aðeins hann sjálfan og stefnir efnahag okkar í hættu.

Íris Erlingsdóttir fjölmiðlafræðingur og fyrrverandi ritstjóri Gestgjafans og fréttamaður á Stöð 2 býr í Bandaríkjunum. Hún er dálkahöfundur fyrir bandaríska vefmiðilinn Huffington Post, þar sem þessi grein birtist fyrst á ensku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst þessi mynd svo táknræn.

Græna loppan (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 12:18

2 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

greinilegt chemistry í gangi

Brjánn Guðjónsson, 17.2.2009 kl. 12:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband