Basil fursti fallinn og Öldungaráð Eiríks

Eiríkur Guðmundsson - Öldungaráðið - Pistlar

Enn og aftur bendi ég á Víðsjárpistil eftir Eirík Guðmundsson. Þessi er frá í gær og Eiríkur kallar hann Öldungaráðið. Hér er Eiríkur með tillögu að lausn á vissu vandamáli í íslensku þjóðfélagi. Pistillinn er í tónspilaranum, næst neðst, merktur Víðsjá - Öldungaráðið - Eiríkur Guðmundsson. Hann er líka viðfestur neðst í færslunni. Takið sérstaklega eftir laginu á eftir pistlinum.

Öldungaráðið

Hvað er hægt að bjóða einni þjóð upp á mikið? Hvað er hægt að leggja á eitt stykki landslýð? Hvað er annars í fréttum, ég hef ekkert heyrt af Íslandi, hverjir fá sýslurnar og hvað um brauðveitingar, hvað um skólann og alþing, og hvurnig var haustið, og hvernig hefur heyjast? Málaferli, hvalrekar, nýjar uppgötvanir, draugar og svo framvegis?

Adenauer - De Gaulle - Deng XiaopingÍ fréttum, kæri Jónas, þú spyrð, hvað er í fréttum? Ég veit ekkert um það, ég hef engan hitt og ekkert heyrt, ekkert Heklugos og enginn manndauði hér, en nú er svo komið að þjóðin sameinast ekki um annað en eitt: einhvers konar andúð á einum manni, sem neitar að hætta í vinnunni sinni, þótt búið sé að reka hann. Sameiningartákn þjóðarinnar er maður sem neitar að standa upp úr stólnum sínum, við höfum hér annan mann í hárri stöðu sem hefur ekki við að leiðrétta skrif erlendra blaðamanna, sá þriðji, er afgamall orðinn en með fiðring og vill ólmur verða forsætisráðherra, að minnsta kosti formaður í flokki.

Mikla raun höfum við nú af vorum gömlu mönnum; mönnum hinna gömlu flokka sem þeir kenndu ýmist við alþýðu eða sjálfstæði. Getur verið að Ólafur Ragnar Grímsson, Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson séu orðnir elliærir? Nei, til þess eru þeir varla nógu gamlir. En ef maður dregur ályktun af því sem birtist í fjölmiðlum, þá haga þeir sér eins og elliærir menn. Einn segir tóma vitleysu við erlenda blaðamenn, annar heldur að hann sé til skiptis De Gaulle og Deng Sjaó Ping, sá þriðji neitar að standa upp, þótt allir vilji að hann standi upp, og gott betur en það. Og ég spyr mig: Getur verið að þessir gömlu hrókar úr pólitíkinni, these old dudes, hafi allir misst vitið, sirkabát á sama augnablikinu; að þeir séu hreinlega orðnir geggjaðir? Öldungar hafa gefist vel, sagði Jón Baldvin um helgina, þegar hann boðaði endurkomu í pólitík; Adenauer hafi verið 69 ára þegar hann varð kanslari, De Gaulle um áttrætt og Deng Sjaó Ping um nírætt - og gafst vel, sagði Jón.

Nei, engu illu vill maður trúa; en stundum læðist að manni sá grunur, að allir þessir menn lifi í heimi sem snýst öðru fremur um þá sjálfa, töfra þeirra, og visku, pólitíska fortíð, framtíð, arfleifð, virðingu, urðu þeir allir glórulausir árið 1991, og hafa þeir, verið spirillíbúbb, allar götur síðan, í heil 18 ár? - þú mátt ekki misskilja mig, Jónas, ég hef gaman af þessum mönnum, sérstaklega Jóni, mér finnst þeir segja margt spaugilegt, án þess endilega að þeir ætli sér það. En það sorglega, er að þjóðin má varla við meira spaugi en orðið er; þetta er komið gott. Við þolum ekki meira grín, ekki meiri Matthildi; við erum sem hengd upp á þráð, út af ástandinu, sjáðu til.

En það er kunnara en frá þurfi að segja að fólk sem á við geðræn vandamál að stríða, heldur gjarnan að það sé einhver annar en það er, gjarnan verður Jesús Kristur fyrir valinu, og það er eðlilegt. Sagan segir að gárungarnir kalli Davíð Oddsson Winston Light, með tilvísun í gamla bretatröllið, Winston Churchill. Og kannski upplifa vorir gömlu herrar sig sem nett stórmenni sem þeir hafa lesið um í sögubókum, og spegla sig í slíkum góðum degi; De Gaulle Ligth, Abraham Lincoln, Ghengis Kahn, Maó, Lenín, og Thatcher; það er árið 2009 og við erum enn að fást við þessa gömlu herra, sem sigldu með hatta út í Viðey fyrir löngu, og virðast halda að þeir séu hitt og þetta; við erum enn að fást við Alþýðubandalagsmann sem breyttist í fursta, manninn sem innleiddi frjálshyggjuna á Íslandi, og náungann sem heldur að hann sé til skiptis De Gaulle og Deng Sjaó Ping! Og við þurfum enn að hlusta á náunga sem verja vitleysuna, á meðal þeirra eru karakterar sem ætlast til að þeir verði kosnir á alþingi í vor.

En héðan er svosem ekkert að frétta, annað en það að Davíð - Jón Baldvin - Ólafur RagnarSjálfstæðisflokkurinn íhugar að bjóða fram til Alþingis í vor, engin tíðindi, önnur en þau að ég hef lausn: það þarf ekki stórt fley undir vora gömlu herra, varla meira en skektu, setjum á þá hatta, og sendum þá aftur út í Viðey, þar sem þetta byrjaði allt saman; Ólafur getur fengið að vera forseti ... Viðeyjar, Jón Baldvin sá forsætisráðherra sem hann hefur alltaf dreymt um að vera, forsætisráðherra ... í Viðey, og Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, ...Viðeyjar! Við sendum þessa dára úr landi, sail away, ekki of langt, þannig að við getum áfram fylgst með þeim, úr fjarlægð, og haft af þeim nokkuð gaman, þegar aftur hýrnar yfir okkur hér á fróni, eftir allt helvítis fokkings fokkið!

Fylgismenn þeirra mega fylgja þeim út í eyjuna, og geta sest þar að, unað þar glaðir við sitt, þarna eru húsakynni frá miðri 18. öld. Þar geta vorir gömlu herrar haft sína aðstoðarmenn og einkabílstjóra, þeir geta skipað í allar þær stöður sem þeim hentar, það má jafnvel senda til þeirra einn og einn blaðamann, við og við, ljósmyndara, það má jafnvel láta þessa blaðamenn tala erlend mál, svo að vorir gömlu herrar haldi áfram að finna til sín, og það er sjálfsagt að borga þeim einhver laun, úr gamla útvegsspilinu, matadorpeninga, það er hvort eð er ekki svo mikill munur á krónunni og spilapeningum. Þarna mætti jafnvel prenta dagblað, það er hefð fyrir prentsmiðju í Viðey; það mætti jafnvel prenta þrjú blöð, Mogga, Þjóðvilja og Alþýðublað, svo allir fái nú eitthvað kunnuglegt fyrir sig. Davíð getur hækkað og lækkað stýrivexti að vild, jafnvel hótað að fara aftur út í pólitík! Jón Baldvin getur gengið inn og út úr Evrópusambandinu, alveg eins og honum hentar; hann getur vaknað á morgnana sem De Gaulle, leikið Adenauer um miðjan dag, og lagst til svefns sem Deng Sjaó Ping, og Ólafur Ragnar, hann getur myndað margar ríkisstjórnir á dag, eins margar og hann vill, og ráðið ríkisstjórnarsáttmálunum í þeim öllum, rifjað upp sögu Alþýðubandalagsins og útrásarinnar, verið í senn heimsborgari með hatt í húsakynnum Skúla Magnússonar, og sveitamaður, búandkarl í fámennu landi, eyju, og húðskammað einhverja konu, fyrir að segja sannleikann - þetta verður allt í lagi, og mun ekkert káfa upp á okkur, hér uppi á fastalandinu.

Jón Baldvin sagðist um helgina ekkert vera gamall miðað við marga aðra - og það er rétt hjá Jóni! ég hef séð eldri menn en þá Jón Baldvin, Ólaf Ragnar og Davíð Oddsson. En enginn þessara gömlu manna hélt að hann væri De Gaulle, Adenauer eða Deng Sjaó Ping, ekki einu sinni í hinsta óráðinu!

Hvað er að frétta? Engin tíðindi, ég skrifa þér á morgun, með bréfpósti, ég er frískur, Bryndís segir að ég sé við hestaheilsu, en heimilislæknirinn minn er löngu dauður, þú lasinn, vesalingur, gleddu þig við vorið og góða von. En ég segi: Öldungana út í Viðey! Bye bye, good old boys!

Við hin getum reynt að halda eitthvað áfram, tekið einhver hænuskref, ég veit reyndar ekki hvert, en eitthvað þurfum við að gera.

Víðsjá, 16. febrúar, 2009


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sallafínt.

Samgönguráðherra var líka skemmtilegur á borgarafundinum í gær. Spurt var hvort binda ætti í stjórnarskrá lýðveldisins að pólitíkusar mættu ekki ljúga. Það þótti Kristjáni Möller óráð, og fór um það ýmsum orðum. Meðal annars þessum:

"Það er ekki eins og stjórnmálamenn séu að ljúga að gamni sínu."

Rómverji (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 15:54

2 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Já Basil fursti er fallinn, skildu þeir vita af því hattamennirnir hér fyrir ofan. -

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 17.2.2009 kl. 20:41

3 identicon

,,Nýtt stjórnmálaafl óskast”

http://vald.org/greinar/090217.html

JR (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 21:08

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst það nú ósmekklegt og röklega slappt að gefa í skyn að Jón Baldvin eigi við geðræn vandamál að stríða því þetta er auðvitað sneið til hans.

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.2.2009 kl. 22:22

5 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Þetta er, held ég, besta hugmynd sem ég hef heyrt lengi. En þá ber líka að leggja af reglulegar ferðir út í eyna, því þeir gætu sloppið.

Helga Magnúsdóttir, 17.2.2009 kl. 22:44

6 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Eiríkur tæklar ástandið frábærlega einsog alltaf - farsælasta leiðin til að fella þetta Grundar-gengi er með þeirra eigin klofbragði, íslenskri fyndni...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 18.2.2009 kl. 09:08

7 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Verður ekki að fara að reka þennann Eirík af RÚV  -og leggja niður Víðsjá ?

Hildur Helga Sigurðardóttir, 20.2.2009 kl. 01:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband