Stjórnmál og trúarbrögð

Egill Helgason birtir oft bréf á blogginu sínu frá öllu mögulegu fólki - ýmist nafnlaust eða undir nafni. Mörg eru frábær, upplýsandi og ótalmargt áhugavert hefur komið fram í þessum bréfum.

Rétt í þessu skaust ég til Egils og las nýjasta bréfið. Ég ákvað samstundis að hnupla því. Ekki bíða til morguns til að fá leyfi - og vona bara að mér verði fyrirgefið. Bréfið var frábært og minnti mig á úrklippu úr viðtali sem ég hef notað mikið í myndböndunum mínum og setningarnar úr því eru nú orðnar þjóðþekktar og fleygar sem dýrustu gullkorn. En hér er bréfið:

Eftir að hafaTrúarbrögð heimsótt vesturströnd USA í tvígang og upplifað þar mjög auðugt og opinskátt trúarlíf fór ég að hugsa. Í USA er ekki kurteist að spyrja fólk útí pólitískar skoðanir, það þykir ekki viðeigandi . Fólk er ekki mjög pólitískt en það er trúfólk á verulega opinskáan hátt. Hér heima aftur á móti eru allir til í að básúna sínum pólitísku hugsunum og skoðunum yfir landslýð en trúin er ekki rædd. Eitt sinn talaði ég við mann sem hafði farið nýlega í meðferð og hann kvartaði sáran yfir að ef hann trúði fólki fyrir sinni edrúmennsku væru allir til í að sympatísera og ræða það en ef hann minntist á að hann hefði fundið Jesú Krist í leiðinni urðu allir eins og kvikindi og losuðu sig úr umræðunni snimmhendis.

Síðan átti nýlega ég tal við sálfræðing sem fræddi mig um fimm stoðir mannlegs lífs. Ekki meira um það nema ein stoðin er einhvers konar andleg stoð. Þar leitar fólk af tilgangi sínum, veltir fyrir sér hvort til sé eitthvað stærra en það. Ein leið til að fullnægja þessari hvöt er að hjúfra sig inn í trúfélag þar sem eldgamalt og skipulagt stórveldi tekur við þér og af þér ábyrgðina á þessari leit. Þú ert komin/n heim til Guðs þar sem þú áttir alltaf að vera og einhverjir aðrir sjá um pappírsvinnuna. Þægilegir (og misvitrir) milliliðir milli þín og almættisins, þú ert örugg/ur og ert í réttum flokki.  Og allir aðrir þá að sjálfsögðu í vitlausum flokki.

Og hér er mergurinn málsins. Getur verið að við íslendingar noti stjórnmálaflokka til að fullnægja þessari trúarþörf? Og í stað þess að vera Sjálfstæðisflokkurinnhugsandi manneskjur með gagnrýninn hug, verður stuðningur við flokk spursmál um trú? Þú ákveður (...eða erfir ...eða  velur af (efna)hagkvæmum ástæðum) að þínum hagsmunum sé best borgið inni í ákveðnum flokki einhvern tímann á æviskeiðinu. Þar er fólk sem er til í að vinna og ræða og hugsa og framkvæma það sem  er því og þér fyrir bestu. Þú færð að vera með , þú tilheyrir og ert staðsett/ur á „réttum stað". Án þess að þurfa að gera neitt sérstakt nema kjósa „rétt" á fjögurra ára fresti. Og allir hinir eru að sjálfsögðu vitleysingar.

Það eru mýmörg dæmi um trúfélög, hér á landi sem annars staðar, sem hafa liðast í sundur vegna breyskleika mannsins. Þjóðkirkjan heldur samt alltaf velli. Eins liðast minni stjórnmálaflokkar sundur en þeir stóru halda alltaf velli. Vegna þess að fólk hefur varpað frá sér ábyrgðinni. Gert flokkinn að milliliði milli sín og umheimsins. Og í huga margra er það eins fjarstæðukennt að skipta um flokk og að skipta um trúfélag.  Hrætt um álit annarra.  Meðan við nennum ekki sjálf að hugsa halda flokkarnir velli og mala sér og sínum gull.

Þar sem mikilvægustu kosningar Íslandssögunnar standa fyrir dyrum finnst mér nauðsynlegt að fólk staldri við þetta. Gæti það gerst að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn myndi stjórn með vorinu?

FramsóknarflokkurinnÉg veit að það er í mannlegu eðli að sporna á móti breytingum og þekki fullt af fólki sem er frekar til í að koma sjálfu sér/hjónabandi sínu/ sambandi sínu við börnin sín/ þjóðinni sinni í algert þrot frekar enn að setjast niður og eiga heiðarlegt (og oftast verulega sársaukafullt) endurmat á sér og viðhorfum sínum. En hversu langt eigum við að ganga til að halda hlutunum í skorðum? Aldrei hafi verið gerð eins afdrifarík mistök og gerð voru af ráðamönnum síðustu ára. Samt heyrir maður merki þess að fólk ætli nú bara að kjósa sem fyrr og vona að það gangi betur næst.

Að mistakast 19 sinnum og ná árangri í 20. sinn er skilgreining á þrautseigju, en það hefur líka verið sagt að ef maður geri sama hlutinn aftur og búist við annarri niðurstöðu í seinna skiptið sé merki um geðveilu.

Við höfum ekki tíma eða efni á að vera hugsanalöt. Við verðum hvert og eitt að líta í eigin barm, hugsa um framtíðina og ákveða hvernig henni er best borgið. Heiðarlegt uppgjör við fyrri ákvarðanir er nauðsyn, henda út því sem er ónothæft og hugsa hlutina uppá nýtt.

Ég er í kastþröng (aftur), er enn pólitískt viðrini og er búin að finna alls einn pólitíkus sem ég gæti hugsað mér að starfaði áfram.

Ætlum við að gefa sama fólki annað tækifæri? Ætlum við taka þá áhættu að flokkarnir geti núna unnið  sitt verk, þó að allt bendi til þess flokkakerfið sé mannskemmandi og er ekki hæft til að fara með völd?

Ragnheiður Erla  Rósarsdóttir

______________________________________________

Þetta stórfína bréf Ragnheiðar Erlu minnti mig semsagt á Hannes Hólmstein Gissurarson og fleyg orð hans um hvað sjálfstæðismenn væru ópólitískir og vildu bara láta leiðtogann teyma sig áfram og hugsa fyrir sig. Þetta er nefnilega satt. Sumir nenna ekki að hugsa - hvað þá gagnrýnið og sjálfstætt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mamma mín er ein af þessum trúuðu, hún stendur ennþá með Davíð og finnst hann ekkert hafa gert til þess að hafa verið rekinn og kallar mig kommúnista.     Ég segi í dag, allt er skárra en íhaldið.  

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 18.3.2009 kl. 01:56

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

snilldarhugvekja

Hólmdís Hjartardóttir, 18.3.2009 kl. 02:16

3 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Vá.. þetta "meikar" óþægilega mikinn sens!
Ég hef, eins og svo margir, talað um það í fíflagangi að það séu trúarbrögð að kjósendur Sjálfstæðisflokksins, no matter what, árum saman, kynslóð á eftir kynslóð og það muni engu breyta hvað flokkurinn geri.

En hún setur þetta í samhengi og ég hafði bara ekki hugsað þetta svona langt

Heiða B. Heiðars, 18.3.2009 kl. 02:41

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sú var tíðin að það var ekki gerður á munur á stjórnmálum og trúarbrögðum. Þegar þau aðgreindust var pólitíkin að úrkynjuðum trúarbrögðum og trúarbrögðin að úrkynjaðri pólitík.

Svanur Gísli Þorkelsson, 18.3.2009 kl. 02:59

5 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Þetta er gott bréf.   Hógvært en sterkt.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 18.3.2009 kl. 03:24

6 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Góð hugleiðing og svo sönn að mínu mati.

Sigrún Jónsdóttir, 18.3.2009 kl. 07:23

7 Smámynd: Einar Indriðason

Nú þarf að koma þessari hugvekju til enn fleira fólks, og reyna að fá fólk til að hugsa sjálft og vakna af þyrnirósarsvefninum.

Einar Indriðason, 18.3.2009 kl. 08:18

8 Smámynd: Baldvin Jónsson

Mjög góðar vangaveltur í þessu bréfi. En til að gæta jafnræðis finnst mér rétt að taka skýrt fram að orð Hannesar Hólmsteins eiga því miður ekki aðeins við um kjósendur Sjálfstæðisflokksins. Grill fólkið er meirihluti kjósenda allra núverandi flokka.

Flest allir sem ég tala við vilja ekkert frekar en að einhver annar sjái um kerfið fyrir sig. Vilja bara vinna á daginn og grilla á kvöldin í þeirri vissu, í því trausti að einhver annar muni sjá um þetta fyrir þau.

Þetta þarf augljóslega að breytast gríðarlega. Við verðum að bera ábyrgð á eigin lífi.

Baldvin Jónsson, 18.3.2009 kl. 08:56

9 identicon

Þetta er mjög áhugavert sjónarmið og gæti skýrt margt.  Bý erlendis og þar er stjórnmálaumræðan á allt öðru plani en tíðkast "heima".  

ASE (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 09:34

10 Smámynd: Heidi Strand

Frábær!

Heidi Strand, 18.3.2009 kl. 11:20

11 identicon

Flott bréf og ágætt að rifja upp samtal Simma við HHG. Nú tekst Simmi á við Tryggvar Þór , einn hagspekisnillinginn.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 12:32

12 Smámynd: Einar Ólafsson

Jú, jú, þetta er að mörgu leyti ágætur pistill. En í lokasetningunni er tekin upp tugga, sem er býsna hæpin og er reyndar bara vatn á myllu Sjálfstæðisflokksins: „Ætlum við að taka þá áhættu að flokkarnir geti núna unnið sitt verk, þó að allt bendi til þess flokkakerfið sé mannskemmandi og er ekki hæft til að fara með völd?“

 

Þetta er fjórflokkstuggan. Á endanum eru sem sagt allir flokkar lagðir að jöfnu. Hljómar svolítið sérkennilega fyrir þá sem hafa starfað með Vinstri grænum, eins og mig, sem var einn af stofnendum þess flokks og sá í honum einhverja leið til að mynda samtök, flokk, um aðrar áherslur en þá voru í sókn. Allt frá stofnun hefur þessi flokkur mátt sitja undir háðsglósum á borð við fjallagrasa- eða lopapeysiflokkur, afturhaldsamur, þröngsýnn, af því að hann fylgdi ekki öðrum í fögnuði yfir kraftinum og athafnagleðinni í samfélaginu, virkjunum, stóriðju, einkavæðingu og útrás. Það er óneitanlega andskoti hart að sitja undir því að vera nú spyrtur saman við þá flokka sem allan tímann voru gerendur í þessum hrunadansi eða gagnrýnislitlir.

 

Í öðru lagi eru stjórnmálaflokkar mjög eðlilegur fylgifiskur lýðræðisins, það er eðlilegt að menn myndi samtök um meginlínur í stjórnmálum. Hitt er annað mál að flokkarnir sem slíkir, líka VG, geta haft ýmsa galla og það er brýnt að vera vakandi yfir þeim. En það var ekki flokksræði eða flokkakerfið sem slíkt, sem setti Ísland á hausinn, heldur auðræðið sem tveir flokkar studdu en sumir flokkar, allavega einn, börðust stöðugt gegn.

Einar Ólafsson, 18.3.2009 kl. 12:52

13 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Það er með ólíkindum hvað fólk á erfitt með að hugsa út fyrir rammann. Einar segir að stjórnmálaflokkar séu eðlilegur fylgifiskur lýðræðisins. Það má segja að það rétt, alveg eins og bleyjur eru eðlilegur fylgifiskur smábarna. Fyrr eða síðar verður barnið þó að læra að fara sjálft á salernið. Áhugafólk um ýmis málefni geta vel myndað með sér klúbba um málin, en þau eiga ekki að fá að bjóða fram. Persónukjör er eina ráðið til að spyrna við flokksræði og þar með spillingu.

Svanur Gísli Þorkelsson, 18.3.2009 kl. 13:01

14 Smámynd: Einar Ólafsson

Það er annað mál, Svanur, hvernig framboðum er háttað, en samtök um stjórnmál eru eðlilegur fylgifiskur lýðræðisins og hvort þau eru kölluð flokkar, félög eða klúbbar, það sé ég ekki að skipti máli. Og hvernig ætlarðu að koma í veg fyrir að þau skipti sér einhvern veginn af kosningunum, þótt um formlegt persónukjör sé að ræða? Það er hið besta mál að ræða þetta.

Einar Ólafsson, 18.3.2009 kl. 13:21

15 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Góð pæling.

Rut Sumarliðadóttir, 18.3.2009 kl. 13:22

16 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Einar: Vissulega skiptir engu máli hvað þú kallar félagsskapinn, það er eðli hans og tilgangur sem máli skiptir. Eðli stjórnmálflokka eins og þeir eru í dag er ekki að vera spjallklúbbur um pólitík heldur eru þeir valdastofnanir. Fái flokkar og listar ekki að bjóða fram, hverfur ástæðan fyrir tilvist þeirra. Auðvitað munu einhverjir reyna að skipta sér að þeim sem þeir telja líklega að verði kosnir og reyna að hafa áhrif á þá. En með brotthvarfi pólitískra flokka mundi starf alþingis breytast. Þar mundu ekki verða meirihluti sem öllu réð og minni hluti sem "á að sýna aðhald með því að vera á móti öllu". Í staðin yrði alþingi að samráðsstofnun þar sem mál yrðu afgreidd til framkvæmdavalds eftir kosningum um þau þar sem einfaldur meiri hluti réði. Á þingi mundu þingmenn kjósa eftir málum, ekki flokkum eins og þeir gera nú.

Svanur Gísli Þorkelsson, 18.3.2009 kl. 13:38

17 Smámynd: Einar Ólafsson

Ég er að mörgu leyti sammála þér, Svanur. Það þarf að koma í veg fyrir að flokkarnir einoki stjórnmálin, ef svo má segja. Og sjálfur skrifaði ég litla grein í Mbl. fyrir þremur árum um þetta vandamál með meirihluta og minnihluta (http://notendur.centrum.is/~einarol/lydraedi.html). En þótt „flokksræði“ sé kannski ákveðið vandamál, þá tel ég fráleitt að setja alla flokkana undir einn hatt, eins og tilhneiging hefur verið til, og ég endurtek það sem ég sagði í fyrsta innleggi mínu: það var ekki flokksræði sem setti Ísland á hausinn heldur auðræðið. Mér er til efs að annað kosningaskipulag hefði skipt neinu máli. Það er mikilvægt atriði til að ræða og sjálfsagt breyta, en fyrir alla muni, töpum okkur ekki í „flokksræðinu“. Hvernig getum við stöðvað auðræðið, alræði auðvaldsins?

Einar Ólafsson, 18.3.2009 kl. 14:11

18 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ef að hugmyndafræðin sem flokkarnir skipta sér eftir skiptir ekki máli við stjórnun landsins og hvernig stofnanir þess eins og fjármálastofnir, bankar og viðskiptahættir eru yfirleitt ástundaðir, eru það enn frekari ástæða til að leggja flokkana niður. Ég er þeirrar skoðunar að frjálshyggjan og nýfrjálshyggjan sem tekin var upp sem opinber stefna ákveðinna flokka, ekki aðeins hér á landi heldur víða um heim, sé megin orsök kreppunnar og hruns bankakerfisins.

En við erum sammála Einar, um megin línurnar held ég eins og þú leggur þær í þessari ágætu grein þinni í Mogganum fyrir þremur árum. Ég veit að margir mega ekki til þess hugsa að fólk sé valið á þing án taglhnýtingar við flokk eða stefnu og að persónuverðleikar ráði fyrst og fremst vali þeirra eins og t.d.  hugmyndir eru nú uppi um að velja fólk til stjórnlagaþings.

Svanur Gísli Þorkelsson, 18.3.2009 kl. 14:54

19 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Einn kunningi sagði mér að þótt hann hafi komið út úr skápnum fyrir mörgum árum, þá hafi hann ekki enn þorað að segja foreldrum sínum að hann kjósi annan flokk en þau. Er það ekki mergurinn málsins? 

Auðvitað eru þetta trúarbrögð. Þar ertu alveg laus´við að temja þér gagnrýnt hugarfar eða að hugsa yfirleytt á þínum persónulegu nótum. Þú ert hluti af kollektífum heila sem aldrei er skarpari en lægsti samnefnarinn.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.3.2009 kl. 17:07

20 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Í stjórnmálaflokkum og trúarbrögðum er það eins að þú samþykkir og verð það sem þú vilt ekki svo þú fáir það sem þú vilt.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.3.2009 kl. 17:11

21 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Frábær færsla þó hún sé stolin.

Gunnar Skúli Ármannsson, 18.3.2009 kl. 21:41

22 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Á menntaskólaárum mínum þótti fínt að vera sósíalisti. Ef þú varst það varst þú inni og engar spurningar voru settar fram. Ef einhverjir voru ekki sósíalistar þá voru þeir einfaldlega fífl. Sumir höfðu lesið Karl Max og aðrir sögðust hafa gert það. Gagnrýnin hugsun var ekki inni. Einn kennara okkar sjokkeraði hópinn með því að segja að við værum sósíalistar af því að við nenntum ekki að hugsa. Þessi kennari gaf sig aldrei upp í pólitík, en síðar átti ég gott spjall við hann og komst að því að hann var sennilega sá eini sem var sannur sósíalisti.

,, Sauðir gera aldrei gagn í pólitík" sagði hann.

Egill Helgason hefur af mörgum verið talinn Samfylkingarmaður. Það kom því mörgum á óvart að þegar hann ræddi við stjórnmálamenn s.l. sunnudag um leiðir til þess að hjálpa heimilunum í greiðsluerfiðleikum og Árni Páll Árnason byrjaði að ræða ESB. ,, Er það töfralausn ykkar í öllum málum" . Árni varð kjaftstopp, en Egill óx í áliti. Sigmundur kom fyrst með 25% afskrift lána, hugmynd sem mér finnst verið að ýta út af borðinu, án umræðna.

Konan í Vesturbænum kaus Sjálfstæðisflokkinn af því að hún var ópólitísk. Hún las tuggurnar sínar úr Morgunblaðinu, og lærði frasana utanað. Mér finnst vera talsvert af konum úr Austurbænum hér á blogginu. Þær eru á móti Sjálfstæðisflokknum og Framsókn, og síðan Davíð og Hannesi Hólmsteini. Þær eru á móti ,,gróðraröflunum" og ,,nýfrjálshyggjunni". Þær býsnast yfir ástandinu sem var auðvitaði ,,hinu  liðinu að kenna" en það koma aldrei lausnir. Kannski er konan úr Vesturbænum og hin úr Austurbænum systur, a.m.k. eru þær alveg eins. Aldrei dytti þeim að gagnrýna neinn úr sínu liði eða efast um þá stefnu eða málflutning sem eigið lið hefur.

Ég hef kallað þetta trúarpólitík, og held að hún sé einn vesti óvinur raunverulegs lýðræðis.

Sigurður Þorsteinsson, 18.3.2009 kl. 21:50

23 Smámynd: Þórarinn Sigurðsson

Alhæfingar eru skemmtilegar. Þær eru líka oftast órökréttar.

Snilldarinnlegg hjá Sigurði hér að ofan, ég er algerlega sammála honum. Sjálfur er ég hægrimaður, alinn upp vinstrimaður, en skipti um skoðun í menntó. Ég er þeirrar skoðunar að fólk eigi aldrei að leyfa sér þá leti að afgreiða þá sem standa andspænis skoðunum manns með því að veifa töfrasprotanum, alhæfa, einfalda og misskilja sér til hæginda. Ég skal þó viðurkenna að það er skemmtilegt, og freistingin virðist því miður verða allt of mörgu greindu fólki ofviða þessa dagana.

Menn ættu að reyna einlæglega að efast um skoðanir sínar a.m.k. jafnoft og þeir gagnrýna aðra fyrir sínar. Annað býður bara upp á staðnað hugarfar og asnaskap.

Þórarinn Sigurðsson, 18.3.2009 kl. 22:37

24 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Innlitskvitt og ljúfar kveðjur...:0)

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 18.3.2009 kl. 22:40

25 Smámynd: Róbert Björnsson

Frábær færsla og ég tek undir hvert orð Sigurðar (no.22) og Þórarins hér að ofan.  Trúarbrögð og trúarpólitík ganga út á að bæla niður sjálfstæða og gagnrýna hugsun.

Róbert Björnsson, 18.3.2009 kl. 23:00

26 Smámynd: Mofi

Þakka skemmtilega grein! :)    Væri að mínu mati góð breyting ef íslendingar gætu talað opinskátt um trúmál eins og önnur mál.

Mofi, 19.3.2009 kl. 18:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband