21.6.2009
Útifundur og óvænt heimsókn til ráðherra
Fundurinn á Austurvelli í gær var fámennari en ég bjóst við. Og þó... Vonin dregur mann alltaf á asnaeyrunum. Af hverju ætti fólk svosem að nenna niður í bæ í klukkutíma til að berjast fyrir framtíð sinni og barnanna sinna þegar hægt er að dúlla sér í Kringlunni, Smáralind, sumarbústaðnum eða bara liggja í sófanum og horfa á sjónvarpið? Það er svo þægilegt að láta aðra um púlið og njóta bara afrakstursins. Jakkalakkarnir úr Sjálfstæðisflokki og Framsókn létu auðvitað ekki sjá sig. Svona fundir eru fyrir neðan þeirra virðingu. En hetjurnar mættu.
Fundurinn var góður og ræðurnar stórfínar. Andrea Ólafsdóttir flutti þrumuræðu með álfahúfu á höfði og litla barnið sitt í poka á maganum. Jóhannes Þ. InDefence var seinni ræðumaðurinn og flutti glæsilega tölu sem fundargestir tóku undir hvað eftir annað. Ég birti hana hér að neðan. Og hér eru fréttir kvöldsins samanklipptar. Tölum ber að sjálfsögðu ekki saman frekar en venjulega og ég heyrði að lögreglan hefði talið 100 manns.
Eftir fundinn sat stór og skemmtilegur hópur fólks á spjalli á Thorvaldsen þegar Hörður Torfa fékk upphringingu og gekk frá til að tala í símann. Kom svo og sagðist vera á leið til fjármálaráðherra sem vildi leiðrétta eitthvað sem komið hafði fram í máli Harðar og ráðherra sagði misskilning. Ég bauðst samstundis til að fara með honum og gerðist boðflenna á fundinum. Steingrími J. og Indriða H., sem hitti okkur líka, fannst það bara í góðu lagi og við sátum og ræddum við þá í hálftíma eða svo. Ég hafði hvorugan hitt áður.
Það sem þeim lá á hjarta var að leiðrétta þær fullyrðingar að Hollendingar og Bretar hafi ekkert haft á móti því að gera Icesave-samningana opinbera. Þeir sýndu okkur tölvupósta á milli Indriða H. og embættismanna í Hollandi og Bretlandi og ég bað um ljósrit af þeim til að birta úr hér máli þeirra til sönnunar. Fyrsti pósturinn er frá Indriða og er dagsettur 11. júní. Þar segir Indriði:
Í íslenskri snörun: "Samningurinn hefur verið ræddur í nokkrum þingnefndum og þeir hafa krafist þess að fá afrit af samningunum í hendur líka. Ég held að mjög erfitt sé að verða ekki við óskum þeirra en við myndum fara fram á trúnað. Hvað segið þið um það?" Þá kemur svar frá Bretanum, einnig frá 11. júní:
"Ég býð fólki gjarnan að lesa skjalið inni á skrifstofu/ í herbergi en leyfi þeim ekki að fá afrit. Það þýðir að þeir verða að segja fólki frá innihaldinu en skjalið sjálft er ekki gert opinbert. Gæti það gengið á Íslandi?" Hollendingurinn svarar ekki fyrr en 12. júní og afsakar töfina. Hann segir:
"Ef tillaga G (Bretans) er möguleg hreyfi ég engum mótmælum. Ég hef áhyggjur af því, að ef allt verður gert opinbert hellist yfir okkur utanaðkomandi athugasemdir sem flækja umræðuna. En ef þú telur eina möguleikann vera að opinbera samningana væri ég tilbúinn til að íhuga það. En það verður að vera ljóst að við getum ekki endursamið."
Svo mörg voru þau orð. Greinilegt er á þessum orðaskiptum að Bretar og Hollendingar vildu ekki gera samningana opinbera. Ekki einu sinni þingmönnum, hvað þá þjóðinni. Hvað gerðist milli 12. og 17. júní þegar hollensku útgáfunni var lekið í fjölmiðla veit ég ekki. Ef áhugasamir koma með spurningar í athugasemdum er mögulegt að Indriði geti gefið sér tíma til að svara. Maður veit aldrei. Þeir lesa þetta væntanlega og vonandi athugasemdirnar líka. Einmitt þess vegna vil ég benda Steingrími J. sérstaklega á þessa bloggfærslu Teits Atlasonar. Þetta er málið eins og við ræddum, Steingrímur. Ekki bara mín skoðun. Koma svo!
Viðbót: Illugi skrifaði líka pistil á sömu nótum og Teitur í morgun.
Ég legg líka til að Steingrímur og Indriði lesi ræðu Jóhannesar sem ég sagði þeim frá. Hún var ansi mögnuð og mjög vel flutt. Hér er hún:
Austurvöllur, 20. Júní 2009.
Góðir Íslendingar.
Í gær birti ríkisstjórn Íslands undirritaðan samning við Breta og Hollendinga um lausn ICESAVE deilunnar.
ICESAVE málið varðar stærstu fjárskuldbindingar íslensku þjóðarinnar frá upphafi. Það er mikilvægasta mál sem Alþingi hefur fjallað um frá lýðveldisstofnun. Og það er gríðarlega áríðandi að fjallað verði um þetta mál af skynsemi og samkvæmt efnisinnihaldi því að án þess að það gerist eigum við Íslendingar ekki möguleika á því að komast út úr þessu máli sem heil þjóð.
InDefence hópurinn, sem ég er hluti af, er ópólitískur og óháður hópur fólks sem á það eitt sameiginlegt að bera hagsmuni Íslands fyrir brjósti. Hópurinn afhenti í mars breska þinginu 83 þúsund undirskriftir gegn hryðjuverkalögunum og hefur síðustu 8 mánuði ítrekað bent stjórnvöldum á þær hættur sem Íslendingar stæðu frammi fyrir og þörfina fyrir aðgerðir.
Hópurinn hefur frá því að skrifað var undir ICESAVE samninginn barist fyrir því að vekja athygli á fjölmörgum atriðum sem tengjast samningnum og sem skipta öllu máli fyrir framtíð Íslands. Meðal þessara grundvallaratriða eru eftirfarandi:
Nr. 1. Afsal fullveldisréttar og eignir íslenska ríkisins
Mikið hefur verið rætt um 16. grein samningsins, sem fjallar um afsal fullveldisréttar íslenska ríkisins. Lögfræðingar InDefence, sem hafa mjög víðtæka reynslu af því að fjalla um þjóðréttarsamninga, eru sammála um að þetta ákvæði feli í sér víðtækt afsal friðhelgisréttinda sem leiðir til þess að mun auðveldara verður að ganga að eignum íslenska ríkisins. Þegar ákvæðið er lesið kemur ekki fram í texta samningsins nein takmörkun á hugtakinu eign".
Ríkisstjórn Íslands hefur sakað okkur um hræðsluáróður fyrir að benda á þessa augljósu staðreynd. En ef sú fullyrðing stjórnvalda er rétt að þessi tilvísan taki ekki til eigna á Íslandi - af hverju stendur það þá ekki skýrt í ákvæðinu?
Það er rétt að benda á að fyrst þegar þetta ákvæði komst í almenna umræðu á 17. júní, þá héldu stjórnvöld því blákalt fram að þarna væri aðeins átt við eignir Landsbankans. Nú hefur verið sýnt fram á, meðal annars af sérfræðingi í þjóðarétti, að þessi skilningur stjórnvalda var rangur.
Íslenskur almenningur á kröfu til þess að öll réttaráhrif sem felast í þessari grein séu skýrð af stjórnvöldum á tæmandi hátt. Að benda á staðreyndir og að kalla eftir nákvæmum útskýringum er ekki hræðsluáróður.
Nr. 2. Engar efnahagslegar forsendur
Samkvæmt útreikningum InDefence hópsins hefur íslenska ríkið engar efnahagslegar forsendur til þess að greiða lánið samkvæmt þessum samningi. Samninganefnd Íslands gefur sér að á næstu 7 árum muni eignir Landsbankans seljast fyrir 75% af upphæðinni. Það þýðir að eftir 7 ár koma íslendingar til með að sitja uppi með skuld sem með vöxtum og vaxtavöxtum verður milli 450-500 milljarðar króna. Þessa upphæð þarf að greiða á næstu 8 árum eftir það. Til að setja þessa tölu í samhengi þá jafngildir þetta því að íslendingar borgi að minnsta kosti þrjár Kárahnjúkavirkjanir á 8 árum. Ef eignir Landsbankans gefa minni heimtur en 75% hækkar þessi upphæð hratt.
Vaxtagreiðslur af þessu láni eru einnig gríðarlega erfiðar fyrir ísland. Miðað við forsendur samninganefndarinnar eru vextirnir um 36 milljarðar króna á hverju ári. Til að eiga fyrir þessum vaxtagreiðslum verður íslenska ríkið að eiga 36 milljarða af erlendum gjaldeyri í afgang á hverju ári, því að lánið er í evrum og pundum. En hvernig er hægt að búast við því þegar mesti gjaldeyrisafgangur síðustu 25 ára var aðeins 30 milljarðar? Þetta þýðir að Ísland þarf að gera betur en besta gjaldeyrisjöfnuð síðustu 25 ára bara til að geta borgað vextina samkvæmt þessum samningi. Og það þarf að gerast á hverju ári, næstu 15 ár.
Nr 3. Lánshæfismat Íslands mun mögulega lækka.
Það skiptir gríðarlegu máli að staðfesting fáist frá óháðum aðilum á því að lánshæfismat Íslenska ríkisins muni ekki lækka í kjölfarið á þessum samningi. Það myndi hafa skelfilegar afleiðingar fyrir ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og heimilin í landinu. Slík staðfesting hefur ekki fengist.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra lýsti sjálfur yfir áhyggjum af lánshæfismati íslenska ríkisins í erlendum fjölmiðlum í gær. Það hlýtur því að vera alger forsenda að áður en ríkisábyrgð á þessum samningi er lögð fyrir Alþingi sé fengið álit á stöðu Íslands frá alþjóðlegum lánshæfismatsfyrirtækjum.
Nr. 5. Samningsmarkmið Íslendinga eru þverbrotin
Það er algerlega ljóst að samningurinn er ekki í neinu samræmi við þau viðmið sem samninganefndir landanna þriggja voru bundnar af og fram koma í þingsályktun Alþingis frá 5. desember 2008. Þessi samningsviðmið voru mikilvægur hluti af pólitískri lausn málsins, þannig að íslendingar samþykktu að taka á sig skuldbindingar gegn því að samið yrði um þær þannig að tekið skyldi tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og ... ákveða ráðstafanir sem gerðu Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt".
Það er ljóst að samningur sem er ekki í neinu samræmi við þessi viðmið er óásættanlegur fyrir Alþingi Íslendinga. Í 3. grein samningsins er tekið skýrt fram að samningurinn tekur ekki gildi ef ríkisábyrgðinni verður hafnað á Alþingi. Þetta er eina útleið Íslendinga. Ef þessi samningur tekur gildi með samþykki Alþingis er hann algerlega skotheldur. Eina leiðin er að hafna ríkisábyrgðinni núna og knýja þannig á um að Bretar og Hollendingar setjist aftur niður að samningaborðinu, til að gera samning við Íslendinga sem er í samræmi við markmið Alþingis eða svokölluð Brüssel viðmið. Samning sem gerir okkur kleift að standa við skuldbindingar okkar. Það gerir þessi samningur ekki. Sá fyrirvari sem talað er um af hálfu stjórnvalda, að setjast niður og ræða vandann, er máttlaus því engin skylda er lögð á viðsemjendur okkar að breyta neinu í þeim viðræðum.
Svavar Gestsson hefur ítrekað haldið því fram að tvö atriði gerðu það að verkum að þetta væri góður samningur fyrir Ísland: Annars vegar að hryðjuverkalögunum yrði aflétt og hins vegar að Ísland kæmist í sjö ára skjól. Hvort tveggja er ofmetið.
Í fyrsta lagi lá það fyrir allan tímann, eins og InDefence fékk staðfest á fundi með fulltrúa breska utanríkisráðuneytisins í mars síðastliðnum, að um leið og einhvers konar samningur um ICESAVE lægi fyrir yrði hryðjuverkalögunum aflétt. Það er því ekki þessum samningi að þakka sérstaklega. Það lá alltaf fyrir hvort eð var.
Í öðru lagi er lítið hald í þessu sjö ára skjóli þegar Bretar og Hollendingar geta, samkvæmt 11. grein samningsins, gjaldfellt allt lánið hvenær sem er á lánstímanum, til dæmis á grundvelli þess að Alþingi breyti lögum eða að Íslendingar geta ekki borgað önnur erlend lán á réttum tíma. Þessi gjaldfellingarákvæði binda hendur Alþingis og íslenska ríkisins á óvenjulegan hátt, meðal annars takmarka þau rétt Alþingis til að setja lög. Ef Ísland uppfyllir eitthvað af þessum gjaldfellingarákvæðum þá skiptir engu máli hvort liðin eru sjö ár eða ekki. Allt tal um sjö ára skjól er því orðum aukið.
Svavar Gestsson og Jóhanna Sigurðardóttir hafa bæði fullyrt að Bretar og Hollendingar séu að kaupa eignir Landsbankans eða taka þær upp í greiðslu. Þetta er algerlega rangt. Hið rétta er að Íslendingum er gefið færi á því að selja eignirnar áður en við greiðum Bretum og Hollendingum peninga. Ef okkur tekst ekki að selja eignirnar og fá andvirðið upp í ICESAVE mun Íslenska þjóðin þurfa að borga mismuninn. Svona rangfærslur hjá forsætisráðherra og aðal samningamanni Íslands gefa tilefni til að spyrja hvort þau hreinlega skilja ekki þann samning sem þau ætlast til að Alþingi samþykki?
Mikið hefur verið rætt um þann þrýsting sem liggur á Íslendingum að samþykkja ríkisábyrgð á ICESAVE samningnum. En gleymum því ekki að það hefur áður legið þrýstingur á Íslendingum og í hvert sinn risu Íslendingar upp sem einn maður undir einkunnarorðum Jóns Sigurðssonar: Eigi víkja! Og þeirrar samstöðu þörfnumst við í dag.
Því fyrir Breta og Hollendinga getur það ekki talist neins konar ósigur að þurfa, samkvæmt samningnum sjálfum, að lúta vilja lýðræðislega kjörins þjóðþings Íslendinga. Það gefur hins vegar tækifæri til að setjast niður á nýjan leik og endurmeta samningsstöðuna á grundvelli þess að Alþingi telur forsendur þessa samnings of óhagstæðar fyrir Íslenska ríkið.
Það er staðreynd að í þessum samningi gefur íslenska ríkið frá sér allar varnir gegn því að vera dregið fyrir dómstóla vegna þessa samnings. Það er skýrt afsal á fullveldisrétti Íslenska ríkisins. Og hvort sem fjármálaráðherra telur það vera eðlilegt" ákvæði eða ekki, þá er það algerlega ljóst að fyrir Íslensku þjóðina, sem barðist fyrir fullveldi sínu í heila öld, er ekkert eðlilegt" við að afsala því með einu pennastriki. Þó við Íslendingar búum í fullvalda lýðræðisríki megum við aldrei gleyma því að jafnvel enn í dag eru fullveldi og lýðræði ekki sjálfsögð réttindi. Við búum við lýðræði, en við verðum samt að búa það til á hverjum degi.
Fyrir þrem dögum síðan fögnuðu Íslendingar fæðingardegi Jóns Sigurðssonar og stofnun íslenska lýðveldisins. Og við skulum aldrei gleyma því að það er engin tilviljun að mynd Jóns Sigurðssonar er staðsett hér á Austurvelli. Í nærri heila öld hefur Jón staðið hér og minnt Alþingismenn Íslendinga á skyldur sínar gagnvart því fjöreggi þjóðarinnar sem hann og fjölmargir aðrir börðust fyrir alla sína daga, fullveldi Íslands. Í nærri heila öld hafa íslenskir Alþingismenn aðeins þurft að líta út um glugga Alþingishússins til að vera minntir á að í eina tíð þótti fullveldi Íslands ekki sjálfsagður hlutur í samfélagi þjóða. Að afsala fullveldisrétti þjóðarinnar getur því aldrei talist eðlileg ráðstöfun sem embættismenn skrifa undir í skjóli nætur. Aldrei.
Góðir Íslendingar.
Þetta er vondur samningur fyrir Ísland. Alþingismenn verða að gera sér grein fyrir því að eina svarið er að hafna ríkisábyrgðinni núna og freista þess að ná betri kjörum við Breta og Hollendinga í kjölfarið. Það er ljóst að þegar Alþingi hafnar þessum samningi munu verða erfiðar afleiðingar af því fyrir Ísland í skammtímanum. En allt tal um áralanga útilokun úr alþjóðasamfélaginu, það er hræðsluáróður og hræðsluáróður bítur ekki á þá sem vita að þeir hafa réttlátan málstað að verja. Það er öllum aðilum í hag að semja upp á nýtt. En til þess að það geti gerst verðum við að standa saman núna. Eigi víkja. Því það er betra að taka slaginn núna en að komast að því eftir sjö ár að við höfum skrifað upp á dýrustu mistök Íslandssögunnar.
Jóhannes Þ. Skúlason
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:18 | Facebook
Athugasemdir
Athyglisverð orð hollendingsins um að gjörningurinn sé ekki endurumsemjanlegur! Gefur í skyn að felli alþingi samninginn þá verði allt vitlaust í ESB eða..........
Kveðja að norðan
Arinbjörn Kúld, 21.6.2009 kl. 04:20
Lára Hanna! þú segir:
Af hverju ætti fólk svosem að nenna niður í bæ í klukkutíma til að berjast fyrir framtíð sinni og barnanna sinna þegar hægt er að dúlla sér í Kringlunni, Smáralind, sumarbústaðnum eða bara liggja í sófanum og horfa á sjónvarpið? Það er svo þægilegt að láta aðra um púlið og njóta bara afrakstursins.
Það er ekkert öruggt að allir séu á sama máli og þú.
Þetta með endursemjanleikann er bara taktík. Verði ríkisábyrgðarfrumvarp fellt verður ekki hjá því komist að semja upp á nýtt. Hvort samningurinn mundi við það batna frá okkar sjónarmiði er samt ekki öruggt.
Sæmundur Bjarnason, 21.6.2009 kl. 05:11
"Jakkalakkarnir úr Sjálfstæðisflokki og Framsókn létu auðvitað ekki sjá sig. Svona fundir eru fyrir neðan þeirra virðingu" Er þetta ekki fulllangt gengið hjá þér Lára Hanna. Hvar er lýðræðið? Hvernig í ósköpunum ættir þú svo sem að geta dregið fólk í dilka eftir skoðunum þeirra.
Sólveig Þóra Jónsdóttir, 21.6.2009 kl. 06:08
Sólveig - þetta er svona.
SM, 21.6.2009 kl. 08:42
Vó hvað mér er illa við að láta skamma mig.
Gerði mér ekki grein fyrir að hetjurnar væru allar á Austurvelli og gungurnar dúllandi sér annars staðar.
Jenný Anna Baldursdóttir, 21.6.2009 kl. 09:02
Þetta er af vef Seðlabankans.
---------
Ég veit ekki hvort að það tekur því að segja eitthvað fleira. Mér er fyrirmunað að sjá að við ráðum við frekari erlendar lántökur - hvaða nafni sem þær nefnast fyrr en ástandið í heimshagkerfinu lagast verulega. Frekari lán frá vinaþjóðum og AGS auka enn vandann. Það er fræðilega mögulegt að afstýra þjóðargjaldþroti og borga eitthvað upp í icesave ef við sleppum frekari lántökum. Varla meira en það.
Ólafur Eiríksson, 21.6.2009 kl. 09:05
Rétt hjá Láru Hönnu !
Auvitad borgar sig ekki ad mótmæla, en betra er ad skita allt og alla út thví vid skulum ekki berjast fyrir rétti okkar, en kenna öllum ödrum um.
Ìslenskt fyrirbæri aumingjar.
Baldur Gudnason (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 10:26
Ég bjóst nú ekki við að orð mín kæmu við kaunin á þeim sem þau beinast ekki að. Hélt að þeir tækju þetta til sín sem ættu. Verra þætti mér þó ef þau skyggja á aðalatriði færslunnar. En fundurinn í gær gekk út á þrennt:
1. Að mótmæla Icesave-samningnum.
2. Krefjast þess að ríkisstjórnin geri eitthvað fyrir heimilin og fyrirtækin.
3. Að dómskerfið taki hið snarasta á hvítflibbaglæpamönnunum sem komu okkur á hausinn.
Í pistlinum á ég að sjálfsögðu við þá sem eru á sama máli og geta tekið undir innihald fundarins. Varla er hægt að ætlast til að hinir mæti. Og það eru tugþúsundir ef marka má t.d. hópinn á Facebook sem lýsir sig andvígan Icesave-samningum taldi síðast þegar ég vissi um 30.000 manns. Ég veit ekki hve margir hafa skráð sig í hópa um hin málefnin. Hvað sem þeim hópum líður hafa margfalt fleiri tjáð sig um þessi mál á blogginu og öðrum netmiðlum en mættu á fundinn. Og ekki eru allir sem geta tekið undir efni fundarins á Facebook.
Svona var þetta í mótmælunum í vetur og ég gagnrýndi það margoft. Nú var engin breyting á, en vonandi mæta fleiri næsta laugardag.
Sólveig Þóra... Ég er ekki að draga fólk í dilka. Eins og ég tók skýrt fram í þessum pistli á andstaða við Icesave-samningana ekkert skylt við flokkapólitík. Fólk í öllum flokkum og utan flokka vill ekki sjá þá. Sama gildir um hin tvö málefnin. Þegar ég segi þetta sem þú vitnar í er ég að nota lýsingu á stereótýpunni. Eins og Sylvía bendir á. Við vitum samt að lífið er aldrei svona auðvelt eða einsleitt.
Ég tala, hugsa og skrifa út frá mínum eigin gildum og skoðunum. Þegar ég skrifaði um mótmælafundi í vetur margsagði ég að ég sjálf mætti á mótmælafundi á mínum eigin forsendum. Mér þyrfti ekki endilega að líka við allt sem sagt eða gert væri á þeim. Ég þyrfti ekki endilega að taka undir allt sem ræðumenn sögðu. Aðalatriðið í mínum huga er að mæta, tjá hug sinn með nærveru sinni. Ef ég er ósátt við ástandið og get tekið undir, þótt ekki sé nema eitt atriði sem mótmælt er, þá nægir það mér til að mæta.
Við sáum í vetur hverju samstaða fjöldans getur áorkað. Auðvitað geta ekki alltaf allir mætt sem vildu, það er alveg ljóst. En í ljósi óánægjunnar í samfélaginu, andstöðunnar við Icesave-samningana, örvæntingar skuldsettra fjölskyldna og reiðinnar vegna afleiðinga gjörða banka- og auðmanna - þá hélt ég satt að segja að fundurinn yrði talsvert fjölmennari. Lái mér hver sem vill.
Lára Hanna Einarsdóttir, 21.6.2009 kl. 10:31
Lára Hanna. Mig langar að þakka þér fyrir frábært blogg. Þú hefur lagt svo mikið í þetta. Í mínum huga er þetta blogg sagnfræði fyrir framtíðina. Takka aftur.
Erna Margrét (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 10:50
Augljóst af hverju Hollendingar og Bretar vildu ekki að samningarnir yrðu birtir. Þeir vissu jafnvel og íslensk stjórnvöld að sæi íslenskur almenningur samningana yrði tæplega gengið að þeim.
"Í gær áttum við Þór Saari fund með fulltrúa frá Hollandi sem var í samninganefndinni. Þar kom margt áhugavert í ljós. [...].
Þór spurði þessa ágætu nefndarmanneskju hvort að ef dæminu væri snúið við og ef hún væri í okkar sporum á hollenska þinginu, hvort að hún gæti hugsað sér að samþykkja slíkan samning: svarið var auðvitað eins og okkar: NEI."
http://birgitta.blog.is/blog/birgitta/
Rómverji (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 10:55
Það eru farnar að renna á mig tvær grímur! Staða Íslands er hrikaleg ef þessi samningur er það besta sem við getum fengið. Ég er farinn að hallast að því að Alþingi meigi alls ekki skrifa upp á víxilinn.
Hvar eru vinir Íslands. Hvar er Noregur, Svíþjóð og Danmörk? Mér finnst andskoti skítt ef Íslendingar geta ekki einu sinni fundið sér málssvara hjá þessum þjóðum. Kannski vilja Danir fá Ísland aftur sem nýlendu?
Af hverju er ekki hægt að semja um að Bretar og Hollendingar taki eignir Landsbankans upp í innistæðutrygginguna með ákvæðum um að ef eignirnar duga ekki þá verði samið um eftirstöðvar? Hægt væri að semja um þak á þessum eftirstövðum. En það er sennilega ekki hægt. Manni sýnist að Evrópa og þar með taldir svo kallaðir "vinir" okkar ætli að kenna Íslendingum almennilega lexíu í eitt skipti fyrir öll. Það á að koma í veg fyrir annað strandhögg frá Íslandi næstu 300 árin eða svo.
Þegar kafað er ofan í Icesave glæpinn þá hellist yfir mann óstjórnleg löngun að setja allt gamla Landsbankagengið í gapastokk á Ingólfstorgi.
Jón Halldór Eiríksson, 21.6.2009 kl. 11:04
Góður pistill hjá þér Lára Hanna, fundurinn á Austurvelli vara góður þótt svo að ekki væri fjöldanum fyrir að fara, en málefnalegur flutningur ræðumanna skilaði sér vel til fólksins.
Megum við búast við því að þú verðir netritari og yfirbloggari fjármálaráðherra í framtíðinni ??
Góðar stundir.
Pétur Steinn Sigurðsson, 21.6.2009 kl. 11:05
Hér er spurning sem hægt er að beina til Steingríms J. og Indriða og Svavars G og Jóhönnu.
"Hvers vegna mátti ekki birta samning um IceSave fyrir almenning? Hvaða atriði í IceSave samningnum voru metin það eldfim, að það mátti ekki birta þau?"
Þetta eru mjög einfaldar spurningar, jafnvel þó þær séu tvær spurningarnar. Ef það er erfitt um svör, þá má minna ráðamenn um að almenningur í landinu er farinn að krefjast miklu meira gegnsæis. Og. Hverjir voru það, sem börðu hnefanum í ræðustól alþingis, og kröfðust "allt upp á borðið"? Ef þeir aðilar, um leið og þeir setjast hinu megin við borðið, snúa um skoðun eins og vindhani... Þá hljótum við almenningur að spyrja: Hversu mikið er að marka orðin sem koma frá ykkur?
Einar Indriðason, 21.6.2009 kl. 11:14
Það er farið að læðast að manni að á bak við þennan IceSave samning sé annar sem komi upp á yfirborðið um frágang mála ef gengið verði í ESB. Bandalagið er alveg tilbúið að borga talsvert til að eignast Ísland og auðlindirnar.
Í samningnum er ekkert tekið tillit til þess að íslenska þjóðin tók ekki við innlánunum heldur einkafyrirtækið Landsbankinn sem átti sér bara bakhjarl í lögbundnum tryggingasjóði innistæðueigenda en ekki tómum vösum almennings á Íslandi hvað þá ríkisábyrgð.
Þessi samningur er hið fullkomna tæki til að ná völdum á Íslandi. Hvenær ætlar fólk að sjá í gegnum það að STÓRI og endanlegi tilgangurinn er að sölsa Íslandi undir sig í Bandaríki Evrópu? Það má ekki gleyma því að stærri flokkurinn í ríkisstjórninni getur varla beðið eftir því að afhenda öll völd til Brussel. Reynslan ætti að vera búin að kenna okkur að það er fullkomlega gilt að vera skeptískur á heilindi þeirra sem hafa ráðið ferðinni hingað til. Það er ekki lengur ástæða til að treysta neinum. Spyrjið ykkur bara að því hvar þessi þjóð er stödd? - Það er ekki verið að vinna að neinum alvöru bjargráðum.
Hvað svo sem líður öllum lögum og reglum þá ganga þau ekki nema þau uppfylli lágmarkskröfum um réttlæti fólki til handa. Hefur fólk nokkurn tímann heyrt um ólög?
Haukur Nikulásson, 21.6.2009 kl. 11:15
Annars er það pínu merkilegt, að Hörður skuli hafa fengið boð frá Steingrími um að hitta sig. Það bendir til að Steingrímur sé jú að fylgjast með... Sko hann. Það má rétta honum prik fyrir þetta.
Og þú færð að sjálfsögðu prik líka, Lára Hanna :-)
Einar Indriðason, 21.6.2009 kl. 11:17
Lára, þú segir "Við sáum í vetur hverju samstaða fjöldans getur áorkað".
Hverju var áorkað? Jú, við felldum að lokum ríkisstjórn Geirs ... en hvað fengum við í staðinn sem við getum verið stolt af:
Fyrst má nefna ónýta bráðbrigðastjórn sem gerði tvennt eftirminnilegt: losaði okkur við Davíð :) og gerði sölu vændis ólöglegt :)
í annan stað: Kosningar ... án þess að við hefðum neitt frambærilegt til að kjósa um og er árangurinn eftir því.
Nefndu mér eitthvað sem hefur breyst til batnaðar? Kannski væri staðan verri ef ekkert hefði verið að gert ... kannski, kannski ekki ... kannski betri ... ef og hefði ... ?
Kannski nær þessi ónýta ríkisstjórn að losa okkur undan fullveldinu sem hér áður var barist fyrir af mikilli grimmd og við höfum verið svo stolt af í gegnum síðustu áratugi. Verður þá sett upp stytta af Jóhönnu Sigurðardóttur við hlið Jóns Sigurðarssonar á Austurvelli.
Guðmundur Egilsson (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 11:42
Afar athyglisvert hvernig Indriði gerir greinarmun á sér og þjóðinni. Hann segir: "Ég held að mjög erfitt sé að verða ekki við óskum þeirra en við myndum fara fram á trúnað. Hvað segið þið um það?" þarna er hann að tala um okkur Íslendinga sem "þeir" en þeir sem eru í samninganefndinni eru "við". Trúnaðarmenn hans eru semsagt íslenska nefndin og breska nefndin. Svona tal teldist landráð í öllum siðuðum ríkjum.
Doddi D (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 11:52
Mér finnst ekki hægt að leggja að jöfnu skyldur þjófanna sem stofnuðu Icesave-reikningana og skyldur almennings á Íslandi. Íslenskur almenningur bar enga ábyrgð á þessum reikningum, stofnaði ekki til þeirra og hagnaðist ekki á þeim.
Þjófar stela frá saklausu fólki, gömlu fólki, öryrkjum og góðgerðarsamtökum en engum dettur í hug að sækja fjármunina annað en í vasa þjófanna. Það sama á við hér.
Þeir sem töpuðu sínum peningum á Icesave eiga auðvitað engar kröfur á íslenskan almenning. Þessu fólki öllu er mikil vorkunn en íslenskum almenningi ber ENGIN siðferðileg skylda til þess að borga tjónið. Það er fráleitt. Foreldar óþekktarorma geta þurft að bæta tjón sem börnin þeirra valda en Icesafe-þjófarnir voru ekki í umsjá íslensks almennings. Öðru nær. Þeir höfðu fengið heilan banka gefins til þess að leika sér með.Íslendingar borga brúsann vegna þess að þeir eru neyddir til þess en ekki vegna siðferðilegrar skyldu.
Guðmundur Guðmundsson, 21.6.2009 kl. 12:19
Ég fagna því að til sé fólk sem hefur málefnalega umræðu í forgrunni en talar ekki í upprópunum og lygaáróðri líkt og lýðskrumararnir Sigmundur Davíð og Þór Saari (ég er brálaður yfir að hafa kosið Borgarahreyfinguna vegna þess hvernig hann hegðar sér orðið).
Það máttu eiga Lára Hanna að þú ert sóma bloggari og lætur ekki segja þér hvernig þú átt að hugsa eða hvað þú átt að segja. Hér fáum við upplýsingar sem okkur þykir eðlilegt að fá og finnst mér Steingrímur J. gera vel í því að opna allar dyr og bjóða höfuðmótmælandanum (og sem betur fer þér með) á sinn fund til að útskýra dæmigerðan "misskilning". Hann Steingrímur má eiga það að hann gefur venjulegu fólki ótrúlega mikinn tíma til funda við sig og reynir greinilega að hlusta á fólk líka, og ég segi ótrúlegt af því að störf hans eru ekki beinlínis smávægileg þessa dagana við að gera hreint í rústunum eftir Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn.
Því miður þá eru þeir (flestir a.m.k.) sem skilja eftir athugasemdir á blogginu hjá þér, Lára Hanna, aftur á móti ekki upp á marga fiska þegar kemur að heiðarlegri og góðri umræðu. Upphrópanir og lygar í öðru hverju orði einkenna þar flesta sem virðast einfaldlega ekki búa yfir þeirri grundvallargreind að geta hugsað sjálfstætt og með rökvíst.
Þakka aftur gott blogg - en harma viðmælendur þína (flesta).
Veggurinn (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 12:25
Flott færlsa hjá þér eins og ávallt Lára Hanna!
Ég segi takk enn og aftur. Ekkí í fyrsta skipti og ekki í síðasta er ég fullviss um .
Við hefðum vissulega mátt vera fleiri þarna og réttmæt ábending og ádrepa hjá þér til þeirra sem ávallt sitja heima við en verða svo bara sárir og sorry þegar sett er óní þá. Framtíð þeirra og barnanna þeirra er í húfi og þeir sitja bara heima við.
En mótmælunum á eftir að vaxa fiskur um hrygg vittu til. Íslendingar eru þvi miður ansi seinteknir eins og kom berlega í ljós í síðustu mótmælunm en þeir skila sér fyrri rest.
Annars er umræðan um Icesave komin í þann farveg og þær upplýsingar liggja fyrir að ég held að allir hljóti að gera sér grein fyrir að þessi samningur verður aldrei samþykktur á alþingi.
Ég leyfi mér allavegana að trúa því að alþingismnenn séu ekki svo gæfulausir að samþykkja landráðasamning sem þennan.
Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 12:27
"En kaupi sér nokkur manns vinskap og vild
því verði, að Ísland hann svíki,
skal byggja' honum út, inn í fjandmanna fylgd
og föðurlandssvikarans ríki.
Þar skipta ei flokkunum skoðanir manns,-
þeir skiptast um hagnað og tjón þessa lands."
þetta var ort 1895 af Einari Ben.
Ætli hann hafi séð fram í tímann?
Guðrún.
Guðrún Garðarsdóttir (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 12:38
Ég veit ekki betur en að eignum Landsbankans hafi verið afhentar skilanefnd bankans. Ekki hef ég séð í neinum fréttum frá skilanefnd um að kröfuhafar bankans hafi gefið grænt ljós á afhendingu eigna bankans í Bretlandi til uppígreiðslu IceSave skuldbindinga Tryggingasjóðs.
Ekki er hægt að reikna með þessum eignum fyrr en skýr skilaboð, og samningur liggi á borðinu fyrir afsali kröfuhafa Landsbankans um að Tryggingasjóður geti ráðstafað þessum eignum upp í sínar skuldbindingar.
Það á ekki að skrifa undir neinn IceSave samning, fyrr en búið er að fara með þetta mál fyrir dómsstóla og láta reyna á lögmæti þessarra krafna.
Eggert Guðmundsson, 21.6.2009 kl. 12:45
„En það verður að vera ljóst að við getum ekki endursamið“ segir Hollendingurinn m.a. í tölvupóstinum. Ef svo er, eru valkostirnir þá ekki bara þeir að hafna alveg samningnum eða gangast við samkomulaginu eins og það er? Ég er hræddur um að þá fyrst færi illa fyrir okkur ef við segjum nei.
Emil Hannes Valgeirsson, 21.6.2009 kl. 12:48
Flott hjá þér Lára Hanna. Keep on trucking, ekki veitir af.
Rut Sumarliðadóttir, 21.6.2009 kl. 12:57
Tek undir með Sæmundi og ekki er rétt að gera þá sem mæta að hetjum en gefa í skyn að aðrir séu skeytingarlaust fólk sem bara hirði um að hafa það gott. Þetta snýst heldur ekki um það að koma við nein kaun. Hvorki ég né Sæmundru hafa kaun. Þetta er bara spurning hvort við föllumst á almennar staðhæfingar sem þú setur fram. Við Sæmi erum það greinilega ekki. Í vetur voru allir sammála um aðalkröfuna: ríkisstjórnina frá. Núna eru menn ekki eins sammála. Það eru ekki allir forkakslaust á móti því að borga Icesavesamninga (þó enginn geri það væntanelga með glöðu geði) telji það skásta kostinn. Það verður ómögulegt að þjappa fólki eins vel saman um þessi nýju markmiðð og þau gömlu og auk þess er eðli andstöðunnar orðinn annars eðlis, meira einstefnu, meira eftir einni línu. Þetta eru ekki sömu raddir fólksins. Mér finnst það loks það versta af öllu að vera að pólarísera hlutina: mála svart gegn hvítu: hetjur gegn gungum. Þetta gerist ekki aðeins í Icesave heldur líka varðandi ESB. Ég er á móti svona einföldunum. Auk þess leiða þær til fjandskapar. Það er aldrei til góðs að kalla skoðanaandstæððinga sína niðrandi orðum. Það drepur alla umræðu.
Sigurður Þór Guðjónsson, 21.6.2009 kl. 13:05
Það truflar mig að Steingrímur sé fyrst núna að koma þessu á framfæri. Af hverju minntist hann ekki á þessar kröfur Breta og Hollendinga strax og Þór Saari og Birgitta Jónsdóttir sögðu frá því að leyndin væri ekki komin frá þessum þjóðum?
Ég hef áhyggjur af því hvort það hafi vakið fyrir ráðherranum að reyna að tala Hörð til hlýðni með því að kalla hann á fund til sín en hætt við þegar hann sá að ofurbloggarinn Lára Hanna var með honum eða hvort þetta sé PR bragð hjá honum til þess að skapa sér góðvild hjá forsvarsmönnum Radda fólksins.
Get ekki gert að því en þetta atriði truflar mig en ég vona að sérstaklega þú haldir áfram þínu góða sjálfboðaliðastarfi í þágu okkar allra landsmanna.
Guðrún (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 13:13
Hanna Lára:
Ég þakka þér fyrir frábært blogg í allan vetur. Það er hárrétt hjá þér að málið er alls ekki flokkspólitískt!
Þú mátt alveg skamma mig fyrir að hafa ekki komið á fundinn í gær, því ég og tugþúsundir annarra Íslendinga hefðum átt að vera þarna. Ég hafði enga aðra afsökun en þá, að ég hélt að fundirnir byrjuðu um næstu helgi og þá mun ég "íhaldsmaðurinn" mæta í fyrstu mótmælin á ævinni orðinn 47 ára gamall!
Ég tók undir margt af því sem þið mótmæltuð í vetur, t.d. að Davíð Oddsson yrði að hætta í Seðlabankanum og Jónas Fr. Jónsson í Fjármálaeftirlitinu. Þótt ég skildi afstöðu ykkar til ríkisstjórnarinnar og að best væri að hún færi frá völdum, vildi ég að kosningarnar yrðu nú í haust og ríkisstjórnin ynni að björgunaraðgerðum þangað til. Það fór sem fór og því miður virðumst við hafa farið úr öskunni í eldinn!
Ég var lengi vel á því eina leiðin væri að semja um þessar Icesave "skuldbindingar", þótt vissulega væri það óréttlátt. Efasemdir mínar hafa vaxið meir og meir eftir því sem ég sé meira af samningnum og núna er ég honum meira andsnúinn. Það má segja að ræða Jóhannesar Þ. Skúlasonar hafi gjörsamlega sannfært mig:
Það er ekki bara að okkur ber í raun engin lagaleg skylda til að greiða þessar skuldbindingar - líkt og nokkrir lögfræðingar hafa bent á - heldur ber okkur siðferðilega engin skylda til að greiða þessar skuldir. Þessu til viðbótar höfum við ekki fjárhagslega getur til að standa undir þessum lánum!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 21.6.2009 kl. 13:33
Alþingi verður að hafna þessum samning - ef ekki næst síðan betri samningur þá getur lítið breyttur samningur farið aftur fyrir Alþingi síðar á árinu.
Það gengur ekki að rumpa þessu í gegn af því að Svavar G var að fara í frí og til að uppfylla 100 daga áætlun stjórnarinnar.
Kröfur Framsóknarflokks um icesave (greinargott mat á efnahagslegum afleiðingum o.s.frv) er kannski það fyrsta gáfulega sem ég hef nokkurn tíma heyrt koma frá þeim flokki.
Arnbjörn (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 13:46
Hvers vegna hringdu Steingrímur og Indriði til Harðar? Hvers vegna leggja þeir ekki fram bréfin opinberlega, með haus og hala. Ég er viss um að bréfabútarnir hér að ofan eru úr bréfunum vegna þess að þú segir það. En svona á stjórnsýslan ekki undir nokkrum kringumstæðum að vinna. ALDREI!
Það er mjög ámælisvert að ríkisstjórnin birti ekki bréfasamskiptin í heild sinni. Og það er mjög ámælisvert að ráðherra og aðstoðarmaður hans "leiðrétti" í tveggja manna tali máefni sem snertir alla þjóðina, núverandi kynslóðir og þær næstu.
Svona vinnubrögð á að fordæma en ekki hrósa.
Hvers vegna samþykkti ríkisstjórnin að samningarnir væru leynilegir og samskipti nefndarmanna líka? Þessu á ekki að svara á bloggi heldur á Alþingi.
Fjármálaráðherra er ekki ábyrgur fyrir því sem hann lætur birta á bloggi en hann er ábyrgur orða sinna úr ræðustól á Alþingi. Þetta veit hann örugglega.
Þetta eru skelfileg vinnubrögð ráðherrans og aðstoðarmannsins!
Helga (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 13:55
Sammála Helgu hér að ofan. Ríkisstjórnin hefur engan vegin heimildir til að skuldbinda þjóðina svona ein og sér. Þannig að eitthvað mikið er að samninganefndinni ef hún hefur ekki gert öllum aðiljum það ljóst frá upphafi! Að í það minnsta Altingi þyrfti að fjalla um málið.
Landráð, skýst upp í huga mér.
Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 14:12
Ástæðan fyrir því að viðsemjendurnir vilja ekki að samningurinn sé gerður opinber er augljós: Þá verða fleiri til að benda á hversu gallaður hann er.
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 21.6.2009 kl. 14:18
Eg er einn sauðurinn sem hef alltaf látið aðra um mótmælin en
dröslaðist þó upp úr sófanum núna og mætti.
Ég er ekki alveg að fatta þetta með að hvaða hetjur hún er að tala um
ég var ekki að sjá að fólk væri klætt einhverjum lörfum þarna
voru allir útrásarvíkingarnir í sjálfstæðis eða framsóknarflokki.
Hverjir stjórna landinu núna.
Kristín Sveinsdóttir (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 14:32
Jahérna... Indriði (naðran sem hvíslar í eyra Steingríms) telur það sjálfsagt mál að halda samningi sem mun setja landið á hausinn leyndum. Sér hreinlega ekkert athugavert við það, annað en nöldur löggjafarvaldsins.
Ef þessi samningur verður samþykktur þá verður hér borgarastyrjöld.
Þessar hótanir Hollendinga um að ekki verði endursamið er nokkuð sem við sitjum ekki undir - þeir geta átt sig þessir fjandans Bretar og Hollendingar - við borgum ekki!
Liberal, 21.6.2009 kl. 14:53
"Við munum ekki borga erlendar skuldi óeiðumanna"
Nú er búið að hrekja þann sem sagði þetta útí yztu myrkur og setja norskan strák á útseldu tímakaupi í Seðlabankann til að halda uppi gengi íslenzku krónunnar.
Er ekki allt í lagi ?
Halldór Jónsson, 21.6.2009 kl. 14:55
"Við munum ekki borga erlendar skuldir óreiðumanna "átti að standa,-afsakið klúðrið
Halldór Jónsson, 21.6.2009 kl. 14:59
Ég tek undir með Helgu. Hvers konar vinnubrögð ráðherra eru þetta eiginlega. Að lauma bréfasnifsum að einstaklingum til þess að birta á bloggi er vægast sagt mjög undarlega samskipti milli ráðherra og þjóðar.
Ráðherrann verður að standa frammi fyrir þjóðina og skýra sín mál. Ráðherrann verður einnig að gera lágmarkskröfur um siðmennt í samskiptum sínum við aðrar þjóðir. Hollendingar og Bretar hafa gert kröfu um leynd vegna þess að þeir áttu von á því að íslensk stjórnvöld myndu koma þeim upp með það.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 21.6.2009 kl. 15:22
Sammála Helgu í hverju orði. Furðuleg vinnubrögð.
Ég fór á Austurvöll í gær. Af því ég hef tekið afstöðu gegn samningunum miðað við það sem er uppi á borðum í dag. Það gerir mig ekki að hetju frekar en hina sem mættu.
Dúa, 21.6.2009 kl. 16:00
Sumir hafa alltaf allt á hornum sér og verða ergilegastir þegar heimsenda-spárnar þeirra rætast ekki og bullið í þeim sjálfum sannast vera lygi.
Sorglegast samt þegar fólk ber öðrum á brýn lygi með lygi.
Mér finnst frábært hjá SJS að kalla Hörð og co til sín og sýna þeim bréfin og leyfa þeim að taka þau með sér til birtingar eftir yfirlýsingar Harðar í fréttum RÚV í gær. SJS var marg oft búinn að segja þetta fjölmiðlum líka en það hentaði þeim ekki. Miklu skemmtilegra fyrir fjölmiðlana sem allir eru í eigu og/eða undir stjórn Sjálfstæðisflokksmanna að æsa upp með röngu tré fremur en öngu.
GG (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 16:17
Hörður Torfason lýsti því yfir í hádegisfréttum RÚV í gær að meginástæða þess að hann væri farinn af stað aftur með laugardagsmótmælin væri að því hefði verið logið að þjóðinni að Bretar og Hollendingar krefðust leyndar yfir samningnum.
- Ég taldi mig hafa heyrt Steingrím J á útvörpuðum blaðamannafundi reyna leiðrétta þetta fyrir nokkrum dögum en fréttamenn enn ekki sýna því minnsta áhuga. Ég var því undrandi að Hörður staðhæfði nú hið gagnstæða eins og hann vissi það fyrir víst að Hollendingar og Bretar krefðust ekki trúnaðar. Eftir þá staðhæfingu Harðar í fréttum þrátt fyrir endurteknar tilraunir SJS til að segja fjölmiðlum annað með tilvísun í skjöl og tölvupósta er ekkert eðlilegra en SJS kallaði Hörð til sín til að segja honum sjálfum hvað er væri satt í þessum efnum og sýna honum gögn því til staðfestingar.
- Frábært hjá SJS, og frábært hjá Hönnu Láru að birta þetta hér, - klárlega samt ekki það sem SJS var að sækjast eftir þegar hann hringdi í Hörð þar sem SJS gat ekki vitað að LH kæmi með honum.
GG (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 16:46
Hver skonar mannalæti eru falin í þessum samningi?
Þrjár spurningar svona til umhugsunar og miðað við að samningurinn hljóði upp á tæpa 8oo milljarða að nafnverði.
1. Hvað hefðum við gert ef skuld vegna Icesave hefði verið 2800 milljarðar?
2. Hvernig dettur fólki í hug að þjóð sem er með lamað efnahagslíf geti bara skrifað undir skuldbindingar sem þessa eins og ekkert hafi í skorist?
3. Hefur einhverjum komið í hug í þessu sambandi að efnahagsundrið Kárahnjúkavirkjun mun innan tveggja ára verða búið að setja Landsvirkjun í greiðsluþrot og ríkið og Seðlabankinn taka við greiðslum?
Árni Gunnarsson, 21.6.2009 kl. 17:05
Lára Hanna.
Fékkstu tölvupóstana afhenta í heild sinni, þ.e. með sendanda og móttakanda og tölvupóstföngum?
Rómverji (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 17:13
Mér var að detta í hug hvort Icesave málið tilheyrði ekki gamla Íslandi og þá í leiðinni gömlu kennitölu Íslands. Var ekki boðað að nýtt Ísland svo gegnsætt og gott væri risið úr sæ? Er þá ekki komin ný kennitala á þetta nýja Ísland? Ömurlegt mál hvernig sem á það er litið. Óbærilegt að bjóða næstu kynslóðum þau vinnubrögð sem viðhöfð voru.
Erna Margrét Ottósdóttir, 21.6.2009 kl. 20:05
Hvað voru margir á fundinum? Eru fjölmiðlar að ljúga þegar þeir segja að það hafi verið tæplega 400 manns. Ég heyrði að það hafi verið miklu nær 800 manns? Hvað er rétt? Hverju á maður að trúa?
Anna Margrét Bjarnadóttir (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 20:31
Þakka þér fyrir góða pistla og þá sérstaklega tvo síðustu. Það lofar góðu að "okkar" fulltúi (þú) hafi beina aðkomu að upplýsingagjöfinni því enn og aftur sýnist mér að upplýsingaskortur, engar/rangar upplýsingar móti umræðuna ansi mikið eins og þessi færsla þín snýst í raun um.
Hefði ég haft tök á að mæta í gær hefði það verið vegna 2 og 3 (í aths. nr 8) en varðandi icesave samninginn þá hef ég ekki þær upplýsingar sem ég tel mig þurfa til að taka endanlega afstöðu, hef einhvernveginn á tilfinningunni að einhversstaðar liggi fiskur undir steini sem gæti skipt sköpum varðandi málið.
Í mínum huga er icesave málið tvískipt. Annarsvegar er spurningin um hvort íslenska ríkið (við) beri ábyrgð á innistæðunum (tryggingasjóðnum), hinsvegar hvort sá samningur sem nú liggur fyrir sé ásættanlegur (ef við viðurkennum ábyrgðina).
Ég svara fyrri spurningunni játandi, hef skoðað lögin og sýnist að þó lengi megi deila um orðalag þá sé "andi " laganna nokkuð skýr og eftir honum er jú dæmt ekki síður en orðalaginu. Öll Evrópa stóð uppú sætum sínum og benti á okkur fingri - hversvegna?
Varðandi hitt atriðið þá tel ég að þessi samningur sé ekki ásættanlegur, hann er okkur einfaldlega ofviða. Hef litla trú á þessu meinta eignasafni sem líklega er veðsett uppí topp og alls ekki fastur í hendi fyrir ríkið/tryggingasjóð. Ég held hinsvegar að við verðum að semja, ef á að fara dómstólaleiðina þarf að minnast þess að við tryggðum innistæður á Íslandi að fullu. Það þarf að semja uppá nýtt og borga með einhverju öðru en beinhörðum peningum, einhverju sem við eigum nóg af, ...þekkkingu, vatni, óveiddum fiski....það þarf hugmyndaflug.
Þessi þingmaður talaði oft um icesave í vetur, svo kom þessi frétt og síðan hefur ekki í honum heyrst. Fiskur undir steini? Eitthvað sem við vitum ekki? eitthvað sem þingmenn vita ekki? Enn og aftur: Upplýsingaskortur!
sigurvin (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 22:13
Sigurvin, ég er að mestu sammála þér. Þetta með 200 milljón pundin sem Siv var að tala um hefur Friðrik Þór oft bloggað um og ég hélt að flestir væru hættir að trúa á það.
Sæmundur Bjarnason, 21.6.2009 kl. 22:49
Takk fyrir upplýsingarnar .
Núna eru allir að ræða ICESAVE, en hvers vegna gerir engin athugasemd við að einn af stjórnarmönnum Landsbankans , sem þáði milljónir í laun fyrir stjórnarstörf, er rektor Háskólans í Reykjavík !
Hvers vegna auglýsir HR ekki að þeir hafi einn úr ICESAVE-genginu í sínu liði ?
Hvers vegna á þetta fólk að sleppa ???
JR (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 22:50
Mér var sagt að það hefðu verið um 800 manns á fundinum en að fjölmiðlar og lögregla væru bara að ljúga til um tölurnar til að gera lítið úr mótmælunum. Er þetta satt?
Annars þótti mér það bæði sorglegt og sýna í hnotskurn ástandið hér að fletta fjölmiðlum á föstudaginn, daginn fyrir fundinn. Fjölmiðlar voru fullir af ,,ekki fréttum" og hvergi var minnst á fundinn. Margir sem að ég talaði við höfðu ekki hugmynd um fundinn. Það er ekki undarlegt, fjölmiðlar á Íslandi eru skipulega að reyna að þagga niður í mótmælendum og halda upplýsingum um það sem er mikilvægast að gerast í þjóðmálum frá fólki. Þetta hafði hann viðar að segja um þetta mál á laugadaginn: http://www.facebook.com/ext/share.php?sid=94556853879&h=QO6cM&u=V1ZTN&ref=mf
Anna Margrét Bjarnadóttir, 21.6.2009 kl. 22:59
Það er rétt Sæmundur, Friðrik er búinn að afgreiða bullið í Thor. Vitnaði í fréttina bara vegna þess að Siv virtist hafa mikinn áhuga á icesave í vetur en nú þegar málið er í hámæli virðist áhuginn horfinn.
sigurvin (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 23:07
tek undir með helgu hverslags vinnubrögð eru þetta eiginlega. Ég dreg í mikin efa við hversu mikið mark er takandi af myndum af óundirrituðum og ódagssettum bréfum. komdu amk fram með hvað þeir sem þessi bréf skrifuðu fyrir hönd Breta og Hollendinga heita, hvaða stöðu þeir gegna og hvaða völd þeir hafa til að mark sé á þessu takandi. Ég er persónuleg skúffaður með vinnubrögð ráðherra og samþykki ykkar Harðars við þeim.
Til Sigurvin!
þá er ég þér ekki sammála hvað varðar lögin en þau eru skýr og hveða að tryggingasjóður en ekki ríkið beri ábyrgð á þessu þó svo að lögunum var að öllum líkindum ætlað að ríkið ætti að bera ábyrgð. málin standa þannig að icesave var ekkert annað en svikamilla og bendi á að í bandaríkjunum er stanford í fangelsi fyrir svipaða svikamillu. það sem sif er óttslegin um er líklega sú staðreind að bretarnir notiuðu til að mynda ags til þess að kúga íslendinga til að borga samkomulagið og láta ekki á þetta reina í rétti þar sem jú þetta gæti verið dæmt okkur í óhag en það á frekar að láta reyna á það þar sem dómstólar eru eina treystandi valdið til þess fært að skera úr um upp að hvaða marki við erum ábyrg fyrir þessari svikamillu. Brown viðurkendi meira að segja á fyrirspurnartíma á breska þinginu að hafa notað ags til að þvinga frama betri samninga fyrir hönd breta en það er líka skýrt brot á lögum ags.
Samningurinn er eins og hann stendur er þar að auki ógreiðanlegur fyrir íslenska skattgreiðendur þar sem ofan á allt þetta kemur ríkið til með að þurfa að standa skilum á afborgunum og vaxtagreiðsla til ags, sem nema um 2000 milljón dollurum, og að auki lánum frá noregi rússum og örðum þjóðum sem samkvæmt ags þarf að vera um 4000 milljónir dollara til viðbótar; allt saman lán með álíka eða hærri vöxtum í erlendum gjaldmiðlum. ég sá menn vera að reina reikna út greiðlu byrgðina af icesave einu saman sem þýðir að við þyrftum að ná meira en met viðskipta jöfnuði ár eftir ár næstu fimmtán árin amk.
Aron Ingi Ólason, 21.6.2009 kl. 23:10
Annað langar mig að minnast á, John Perkins talaði um að við skyldum fylgjast með hvernig fólkið breyttist....þegar hryllilegar hótanir fara að berast stjórnmálamönnum....margir tala um breytinguna sem hefur orðið á Steingrími og U-beygjunni sem að hann tók. Hefur honum verið hótað af X? Er það þess vegna sem að hann hagar sér svona undarlega? http://www.youtube.com/results?search_type=&search_query=john+perkins&aq=f
Anna Margrét Bjarnadóttir, 21.6.2009 kl. 23:10
Það er gott að vita til þess að til er hugsandi fólk á skerinu. Ef hver hugsar fyrir sig er ég nokkuð viss um að enginn kemst að þeirri niðurstöðu að það sé allt í lagi að taka lán sem ma'r getur alls ekki borgað ef eitthvað klikkar. Bendi á bloog sem ég skrifaði en engill las :-).
ttp://kjartanbjorgvinsson.blog.is/admin/blog/?entry_id=895796
Það er sennilega að bera í bakafullann lækinn að hrósa þér Lára Hanna fyrir frábært blogg en ég get bara ekki orða bundist, það sem þú gerir er svo mikilvægt og mér finnst frábært hversu mikla áherslu þú leggur á staðreyndir og gefur okkur möguleika á að túlka þær. Margir blaðamenn á klakanum gætu lært mikið af þér. Við þau sem eru svo föst í gömlum flokkadráttum að þeu móðgast í hvert skipti sem minnst er á elsku flokkinn þeirra, sama hver hann er vil ég benda á að lýta á staðreyndirnar og dæma út frá þeim það er kominn tími til að leggja flokksagann frá sér og vinna að hagsmunum þjóðarinnar og ekki flokksins. Flokkstrúarbrögð eru ekkert betri en önnur trúarbrögð. Munið að blindur átrúnaður er megin orsökin að styrjöldum sögunnar.
Með von um betri tíð og lægri vexti
Kjartan Björgvinsson, 21.6.2009 kl. 23:40
Við erum nokkurnveginn sammála Aron Ingi, það sem lögunum er "ætlað" skiptir ekki minna máli en orðalagið. Jú, kannski var icesave svikamilla og furðulegt ef enginn fær dóm vegna þess. En undir þessa svikamillu skrifuðu íslenkir valdhafar, þeir skrifuðu undir víxilinn fyrir okkar hönd og höfðu til þess fullt umboð. Löglegt?...já, réttlátt?...fjarri því.
Ég tel það mikla framför að ráðherra hringi í Hörð og finnst það lofsvert, við þurfum réttar og sannar upplýsingar. Vona að hann hringi sem oftast og þá í LHE okkar helstu upplýsingaveitu.
sigurvin (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 23:52
Sigurvin svona upplýsingar eiga bara að vera gefnar út á fyrir alla að sjá ef menn ætla að leka þeim á annað borð, ég spyr enþá hverjir skrifuðu þessi bréf hvað stöðum gengdu þeir og hvaða völd höfðu þeir til þess að fara fram á að upplýsingum um Icesave yrði gefnar út með þeim hætti sem farið var fram á.
Aron Ingi Ólason, 22.6.2009 kl. 00:08
Nr. 10 Jón Halldór spyr: "Af hverju er ekki hægt að semja um að Bretar og Hollendingar taki eignir Landsbankans upp í innistæðutrygginguna með ákvæðum um að ef eignirnar duga ekki þá verði samið um eftirstöðvar? Hægt væri að semja um þak á þessum eftirstövðum." Við spurningunni er það svar að ef Bretar og Hollendingar eignuðust allar eignir Landsbankans nú og Íslendingar væru ábyrgir fyrir afganginum, þá væri ekkert sem hvetti þá til að fá sem mest fyrir eignirnar og þar með ekki til að bíða í nokkur ár í von um betri tíð á mörkuðum, því Íslendingar borga jú restina! Um seinna atriðið, þá hafa fleiri bent á það að fá þak á ábyrgðir Íslands. Þá hefur þrautreyndum samningamanni, Indriða, verið við brugðið ef hann reyndi það ekki. Ég held, en veit ekki, að hann hljóti að hafa reynt að ná því fram.
Nr. 20 Doddi segir: "Afar athyglisvert hvernig Indriði gerir greinarmun á sér og þjóðinni. Hann segir: "Ég held að mjög erfitt sé að verða ekki við óskum þeirra en við myndum fara fram á trúnað. Hvað segið þið um það?" þarna er hann að tala um okkur Íslendinga sem "þeir" en þeir sem eru í samninganefndinni eru "við". Trúnaðarmenn hans eru semsagt íslenska nefndin og breska nefndin. Svona tal teldist landráð í öllum siðuðum ríkjum." Þarna leggur Doddi út af rangri þýðingu þegar enskum texta Indriða er snarað á íslensku í bloggærslunni. Textinn er birtur á ensku og eftirfarandi snörun gefin: "Samningurinn hefur verið ræddur í nokkrum þingnefndum og þeir hafa krafist þess að fá afrit af samningunum í hendur líka. Ég held að mjög erfitt sé að verða ekki við óskum þeirra en við myndum fara fram á trúnað. Hvað segið þið um það?" Rétt þýðing á að vera þær, þingnefndirnar, hafa krafist. Því er ekki verið að tala um almenning sem "þeir" en samningamenn sem "við" og gefur ekkert tilefni til að hrópa upp um landráð vegna orðavalsins.Nr. 52 JR segir: "...einn af stjórnarmönnum Landsbankans , sem þáði milljónir í laun fyrir stjórnarstörf, er rektor Háskólans í Reykjavík !" Staðreyndin er að Svafa Grönfeldt er rektot HR. Var hún einhverntíma í stjórn Landsbankans? Ertu ekki að rugla heni saman við Sigurjón Þ. Árnason f.v. bankastjóra sem er nú stundakennari við HR?Svo bendi ég fólki á að lesa dæmisöguna um Fær Save sem er inni á bloggi Silfurs Egils.Að lokum. Kreppan sem við erum í getur ekki orðið sársaukalaus. Hún hlýtur að bitna á saklausum og fátækum líka, en ekki bara þeim sem geta borið hana og þaðanaf síður þeim sem ollu henni. Þegar þjóðarbúið er sett á hvolf, bankarnir gerðir gjaldþrota, lífeyrissjóðum sólundað og gríðarlegar skuldabyrðir lagðar á ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og heimili þá verður ekki hjá því komist að þrengi að okkur almenningi. Hversu vel sem ríkisstjórn vill standa vörð um almannaheill, getur hún ekki firrt okkur algjörlega skakkaföllum. Hún getur ekki einu sinni forðað öllum sem reiða sig á velferðarkerfið frá höggi. Hún getur bara reynt að milda höggið. Er það ekki alveg týpískt að nú beinist reiði almennings að þeim sem eru að reyna að vinna úr vandanum á meðan þeir sem komu okkur í vandann liggja í sólbaði?Soffía Sigurðardóttir, 22.6.2009 kl. 00:44
Það er rétt að það er gott að ráðherrann loksis gefi upplýsingar, en hvers vegna ekki fyrr? Það er vel skiljanlegt að bretar og hollendingar vilji ekki að fólk sjái hvílíka afarkosti þeir setja íslendingum en fulltrúar Íslands ættu að gera sér grein fyrir því hversu mikilvægt það er að básúna það um alla heimsbyggðina að Golíat er að kyrkja Davíð. Menn verða að muna að þeir eru fulltrúar annarra og eiga að gæta hagsmuna þjóðarinnar. Hluti af þeim hagsmunum er að upplýsa þjóðina um staðreyndir málsins. Sá tími er liðinn að kjörnir fulltrúar og embættismenn geti ákvedið að hafa vit fyrir fólki. Sagan hefur dæmt og þeir vitsmunir eru einfaldlega ekki nægir.
Með von um betri tíð og lægri vexti
Kjartan Björgvinsson, 22.6.2009 kl. 00:53
Sáuð þið aðeins þessa búta úr tölvuskeytunum?
Geturðu sýnt okkur bréfin í heild -með viðtakanda, sendanda, o.s.frv.?
Guðríður Adda Ragnarsdóttir (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 03:21
Takk fyrir þessar upplýsingar og bloggi Lára.
Samfylkingin er ekki viðræðuhæf í þessu máli. En ef þetta er rétt sem Steingrímur segir að Bretar hafi viljað leggja á okkur þessa fjötra í skjóli nætur þá hefði hann ekki átt að taka þátt í því. Það er þó þakkarvert að hann hafi upplýst ykkur um þennan hluta viðræðnanna.
Sigurður Þórðarson, 22.6.2009 kl. 08:31
Að voga sér að kalla strangheiðarlegan sómamann á Alþingi Íslendinga (Þór Saari) "lýðskrumara" og pontifiséra síðan svona (#22):
"Því miður þá eru þeir (flestir a.m.k.) sem skilja eftir athugasemdir á blogginu hjá þér, Lára Hanna, aftur á móti ekki upp á marga fiska þegar kemur að heiðarlegri og góðri umræðu. Upphrópanir og lygar í öðru hverju orði einkenna þar flesta sem virðast einfaldlega ekki búa yfir þeirri grundvallargreind að geta hugsað sjálfstætt og með rökvíst. Þakka aftur gott blogg - en harma viðmælendur þína (flesta)."
í skjóli nafnleysis er kjaftstoppandi svívirða og gunguháttur. "Heiðarleg og góð" umræða á sér sjaldnast stað meðal fólks sem finnst í lagi að uppnefna aðra og niðurlægja en þorir svo ekki að kvitta fyrir skítkastið.
Takk, Lára Hanna, fyrir þína mikilvægu vinnu (ertu búin að setja upp $fítus á síðuna þína svo lesendur þínir geti farið að sýna í verki stuðning við störf þín?)
Kveðja frá USA, Íris Erlingsdóttir, Huffington Post
Iris Erlingsdottir (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 09:01
Tek undir með Írisi, hvernig getum við sýnt það í verki að við lítum á þig sem blaðamann fólksins? Við viljum sýna það með nokkrum krónum til að taka undir hornið hjá þér, en það hefur ekki verið hægt þó maður gjarna vildi... Það gengur ekki lengur að öll þessi vinna sé unnin með skuldabagga á herðunum. Gengur bara alls ekki...
Beggi (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 10:37
Ef þjóðin á að borga . Þá hefur þjóðin rétt á að sjá samninginn. Þetta er ekkert flóknara en það.Og Steingrímur á að vera ákveðin við þessa menn. Þeir eru að reyna að stilla þjóðina upp við vegg. Nú vilja þeir fara með samninginn fyrir dómsstólum sem ég tel sé mjög alvarlegt mál. Þar geta þeir sett kröfur um að borgi Ísland ekki eða standi ekki við lánasamninga geti þeir gengið á eignir sem þessar þjóðir eiga i landinu. Hvernig væri að ÞÓÐIN FÁI AÐ VITA HVAÐA EIGNIR ERLENDIR LÁNDRÓTTNAR EIGA.
'Alverinu.
Hvótann.
Hvessu mikið áttu þeir í gömlu bönkunnum.
Hvessu miklar eignir eiga erlendar þjóðir á Íslandi.???
Við þurfum að fá svör.
Anna , 22.6.2009 kl. 20:31
Er það ekki staðreynd að þessi ömurlegi IceSlave samningur er alfarið á ábyrgð stjórnar Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Hversvegna tala þau ekki um þennan samning? Þau virðast bæði vera gufuð upp. Horfin af sjónarsviðinu.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 23.6.2009 kl. 01:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.