Megi réttlætið sigra að lokum

Ég er búin að skrifa svo mikið um þöggunina og hræðsluþjóðfélagið að mér fannst varla á það bætandi. Ég bætti nú samt á það í föstudagspistlinum á Morgunvakt Rásar 2 - og viti menn! Daginn eftir var skrúfað fyrir aðgang Jóns Jósefs að Fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra þegar hann var að uppfæra gagnagrunn sinn. Án viðvörunar eða skýringa. Þó er gagnagrunnurinn í notkun hjá opinberum rannsóknaraðilum og Persónuvernd búin að hafa hálft ár til að skoða málið. Engu að síður herma nýjustu fréttir að lokað hafi verið fyrir aðganginn því skort hafi leyfi frá Persónuvernd. Maður spyr sig því hvort Persónuvernd hafi vald til að bregða fæti fyrir rannsókn á hruninu... eða hvort það sé bara fjölmiðlar og almenningur sem ekkert megi vita. Þetta hlýtur að koma í ljós við rannsókn fjölmiðla á málinu - en ég sakna þess mjög að heyra ekkert um þetta mál hjá Mogga, Stöð 2, Fréttablaðinu og Vísi.is. Mér finnst þetta grafalvarlegt mál sem allir fjölmiðlar ættu að veita mikla athygli.

En hér er pistill föstudagsins. Í tilefni nafnlausu umræðunnar í síðustu viku var pistillinn alveg nafnlaus. Ég þakka hagyrðingnum, Gísla Ásgeirssyni, kærlega fyrir hans innlegg og vonast til að hann botni kvæðabálkinn í ljósi frávísunar Björns betri. Botninum verður þá náð og vitanlega bætt við. Hljóðskrá er hengd við neðst að venju ef fólk vill hlusta líka.

Morgunvakt Rásar 2
Ágætu hlustendur...

Áður en lengra er haldið skal tekið fram, að þessi pistill er nafnlaus. Þeim, sem telja sig þekkja röddina, skjátlast hrapallega.

Við höfum búið svo lengi í hræðsluþjóðfélagi þöggunar þar sem sannleikurinn hefur aldrei verið vel séður ef hann hróflar á einhvern hátt við ráðandi stéttum þjóðfélagsins, sjálfu valdinu. Lýðræðisleg, opin og gagnrýnin umræða hefur ævinlega verið í skötulíki á Íslandi. Upplýsingum er leynt fyrir fjölmiðlum og almenningi og beinlínis logið til um óþægilegar staðreyndir. Fólk sem býr yfir upplýsingum þorir ekki að greina frá þeim af ótta við hefndaraðgerðir - til dæmis yfirvalda eða vinnuveitenda. Og Alþingi segir upp áskrift að DV ef menn þar á bæ eru ágengir og upplýsandi. Svona andrúmsloft er líka kjörlendi fyrir Gróu kerlinguna á Leiti, sem kvartað er undan nú sem endranær.

Það vakti mikla ólgu í samfélaginu þegar Fjármálaeftirlitið kærði nokkra blaða- og fréttamenn fyrir að birta upplýsingar. Sérstakur saksóknari, sem víða er kallaður hinu notalega gælunafni Óli spes, vildi ekki aðhafast og þá var kært til setts ríkissaksóknara, Björns L. Bergssonar. Þær fréttir bárust í fyrradag að Björn hefði vísað málinu frá. Ég legg til að hann verði kallaður Björn betri. Ekki veit ég til þess að Óli spes og Björn betri krefjist nafnleyndar, þrátt fyrir að neita að draga sannleiksleitandi fjölmiðlafólk fyrir dóm.

Hagyrðingurinn Gísli Ásgeirsson, sem kýs að vera nafnlaus í þessum pistli eins og ég, orti eftirfarandi kvæði í tilefni af forgangsröð Fjármálaeftirlitsins.

Auðmannahjörðin okkar fól
erlendis mesta þýfið
í aflandsbankanna skattaskjól
skreppa þeir fyrir næstu jól.
Þar verður ljúfa lífið.

Rannsóknarnefndir rembast við
að rekja slóðir til baka
en þeir sem ætla að leggja lið
og leka gögnum í sjónvarpið
eru sóttir til saka.

Bíður og vonar barin þjóð
að búinn verði til listinn
yfir menn sem í okkar sjóð
auðinn sóttu af græðgismóð.
En fyrst þarf að kæra Kristin.

Fangelsið eigum fyrir þá
fúl er á Hrauninu vistin
en nú liggur ákæruvaldinu á
Agnesi að dæma og koma frá.
Helst þarf að hengja Kristin.

Ég óska Óla spes, Birni betri, fjölmiðlafólki, lýðræðinu, sannleikanum og íslenskum almenningi til hamingju með frávísanirnar og hvet uppljóstrara til dáða.

Megi réttlætið sigra að lokum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta fólk telur að við séum fávitar, þið munið að árum saman stólaði pakkið á gullfiskaminni íslendinga.
Ég er enn að jafna mig eftir undrunina á því þegar persónuvernd kom fram og vildi banna nafnlausar ábendingar eftir lekan úr kaupþingi

Ég held að það sé ljóst að við fólkið í landinu þurfum að fara að taka ákvörðun um það hvort við séum fávitar eins og þetta lið telur okkur vera.

DoctorE (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 07:37

2 identicon

Hvaðan hefurðu þessar fréttir um Persónuvernd? Er þetta ekki bara einhver flökkusaga?

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 08:34

3 identicon

Þetta var í fréttum... ekki flökkusaga.
Strax eftir lekan kom persónuvernd fram og bullaði um að nafnlausar ábendingar kæmu oft niður á saklausu fólki...

2 + 2 = 4

DoctorE (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 09:10

4 identicon

Geturðu vísað á fréttina DoctorE? Við hvern var talað hjá Persónuvernd?

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 09:33

5 identicon

Þessi gjörningur Ríkisskattstjóra og Persónuverndar bendir eindregið til þess að þær stofnanir gangi erinda auðmanna og séu alfarið á móti upplýsingastreymi til almennings.

Stefán (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 10:42

6 identicon

Ég man ekki við hvern var talað.. googlaðu þetta, mikið að gera í vinnunni hjá mér í augnablikinu.

DoctorE (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 11:03

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Hrannar Baldursson, 14.9.2009 kl. 11:07

8 identicon

Finn ekkert um þetta DoctorE. Kannski var þig að dreyma.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 11:08

9 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Maður var svo gersamlega bit yfir fjármálaeftirlitið gerði það að forgangsmáli sínu að þagga niður í blaðamönnum að maður átti ekki orð, - en svo bætist þetta við. - Það verður einhver að rekja þessa þræði til upphafs síns. Hver togar í? Hver knúði á þessar áherslur fjarmálaeftirlitsins? hver hlýddi öðru eins? hver hlýddi hjá fyrirtækjaskrá? og hver kippti í spottana þar? - Þegar menn finna það eru þeir komnir að kjarna spillingarinnar og hrunsins á íslandi - það er ekki flóknara en það.

Helgi Jóhann Hauksson, 14.9.2009 kl. 11:27

10 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Það er kannski mikilvægast að setja upp tengslanet (með ættum, vinum og pólitískum stjórnum auk viðskipta) við þá sem ráða og starfa á þessum stöðum í Fjármálaeftirlitinu, í fyrirtækjaskrá og hjá persónuvernd og eftir því sem tilefni gefast hjá öðrum eftirlitsstofnunum ríkisins. - Trúlega myndi það leiða í ljós samnefnara og þar með dýpsta spillingadýkið.

Helgi Jóhann Hauksson, 14.9.2009 kl. 11:32

11 Smámynd: Baldvin Jónsson

Allir á palla Ráðhúss Reykjavíkur á morgun - Borgarstjórn ætlar að "klára" Magma málið!!

Baldvin Jónsson, 14.9.2009 kl. 13:03

12 Smámynd: Elfur Logadóttir

er ekki kominn tími á kennitöluflakk tölvumannsins?

Elfur Logadóttir, 14.9.2009 kl. 19:30

13 identicon

Hverjir eru svo í stjórn Persónuverndar? Jú það eru til dæmis Dr.Páll Hreinsson prófessor formaður, en hann leiðir rannsókn á bankahruninu og til gamans er doktorsritgerð hans í hæfnisreglum;-)Síðan höfum við varaformanninn Aðalstein Jónasson hæstaréttarlögmann sem var í stjórn Straums Burðarás Fjárfestingabanka 2007 áður hjá fárfestingafélaginu Gnúpur. Þá er það Ólafur Garðarsson í slitastjórn Kaupþings.  Það er nú bara þannig að á Íslandi í dag þá treystir enginn neinum eða neinu, þessir menn og hin í Persónuvernd eru örugglega hið besta og heiðarlegasta fólk. En það passar ekki alveg í kramið að loka á Jón Jósef án fyrirvara og með öllu að ástæðulausu.Í Noregi getur hver sem er skoðað hlutafélög, hverjir eru í stjórn hlutafélata og fárhagsstöðu þeirra (hlutafélaga), þetta er mikið notað og þíðir í raun að fyrirtæki  eru ekki rekin með tapi nema að  hlutafé sé aukið að sama skapi. Þetta er í raun opnara samfélag fyrir vikið.

Kalli (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 20:37

14 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Veit ekki betur en Sigrún Jóhannsdóttir sé enn forstöðumaður persónunefndar,pottþétt hin ærlegasta manneskja.Veit það því hún er tengd mér.

Helga Kristjánsdóttir, 14.9.2009 kl. 23:02

15 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Afsakið!!     Átti að vera persónuverndar.

Helga Kristjánsdóttir, 14.9.2009 kl. 23:03

16 identicon

 Heyr heyr !

 "Allir á palla Ráðhúss Reykjavíkur á morgun - Borgarstjórn ætlar að "klára" Magma málið!!

Baldvin Jónsson,  kl. 13:03 "

Drögum úr blogg -setunni og ............................förum í aðgerðir NÚNA !

Heiður (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 23:13

17 Smámynd: Elfur Logadóttir

Hætti Páll ekki þegar hann varð hæstaréttardómari? Það er eins og mig minni það.

Annars tek ég undir með Helgu, Sigrún Jóhannesdóttir forstjóri Persónuverndar er afar vönduð og fagleg í sínu starfi.

Elfur Logadóttir, 14.9.2009 kl. 23:15

18 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Takk Elfur, leiðrétti hér hún er Jóhannesdóttir. Mér eru mislagðar hendur í dag.

Helga Kristjánsdóttir, 14.9.2009 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband