Réttlætið og sálarheill þjóðar

Þessi litla frétt birtist í Mogganum í gær. Landlæknir segir að réttlæti dragi úr áfallastreitu, sem öll þjóðin þjáist líklega meira og minna af um þessar mundir. Ég tek heilshugar undir þessa skoðun landlæknis - ekki á faglegum forsendum, því þær hef ég ekki, heldur aðeins með því að líta á eigin líðan og annarra í kringum mig. Þegar réttlætiskennd manns er misboðið - og það bæði gróflega og ítrekað - fyllist maður reiði, vonleysi og svartsýni og allir vita hve mikil áhrif sálræn líðan hefur á líkamlega heilsu.

Landlæknir um fé í skattaskjólum - Moggi 28.2.09

Ótrúlegasta fólk hefur liðið sálarkvalir í vetur - verið kvíðið, óttaslegið, vonlítið með hugann fullan af svartnætti. Það er líka logandi af réttlátri reiði og sárindum sem eiga sér engan líka. Jafnvel fólk sem ekki fer illa út úr hruninu fjárhagslega, hefur ennþá vinnu og hefur kannski ekki yfir mörgu að kvarta að mati þeirra sem verr eru staddir.

Ég held að okkur líði flestum eins, að minnsta kosti mjög svipað. Það var brotið gróflega á okkur. Við vitum hverjir gerðu það en þar til bær yfirvöld virðast ætla að láta brotamennina sleppa án refsingar. Svo virðist sem réttlætinu verði ekki fullnægt - þjófarnir og nauðgararnir fá að sleppa án svo mikils sem yfirheyrslu. Eða hvað? Fimm mánuðir eru liðnir frá fullnustu glæpsins og hinir seku eru enn frjálsir menn. Þeir ganga um á meðal okkar og láta eins og ekkert sé. Sumir krefja meira að segja þjóðina um hundruð milljarða í viðbót við það sem þeir stálu frá henni vegna gengismunar - sem þeir sjálfir áttu mesta sök á. En hlustið á það sem Egill Helgason segir hér í heimsókn hjá stelpunum í þættinum Mér finnst á ÍNN.

Ég hef heyrt þetta áður - eða lesið. Þeir bjuggust við frystingu eigna - eða einhverju. Meðal annars þess vegna skráðu þeir eignir á eiginkonurnar. Er eitthvert yfirvald að skoða þau mál núna og athuga hvort forsendur séu til að ógilda þá gjörninga eins og gera má ef þeir eru sannanlega til málamynda? Ekki hef ég heyrt um það.

Munið þið hvað Sölvi Tryggvason sagði hér? EITT mál til athugunar hjá Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra rétt fyrir miðjan febrúar, 4 og hálfum mánuði eftir hrun! Þetta er með ólíkindum og vakti gríðarlega athygli. Heil þjóð sett á hausinn, enginn yfirheyrður og engin mál einu sinni til athugunar.

Þetta er meðal annars það sem fer svo illa í fólk og fyllir það reiði, sárindum, vonleysi og sálarangist. Það er ekkert réttlæti í augsýn. Ekki verið að yfirheyra neinn eða rannsaka nein mál. Almennt er réttlætiskennd fólks mikil og við viljum öll sjá réttlætið ná fram að ganga. Það er eitt af grunngildum samfélagsins sem yfirleitt er nokkuð góð sátt um. Við sjáum dópsala, þjófa og ofbeldismenn dæmda og fangelsaða - jafnvel fyrir minniháttar mál - en stærstu þjófar Íslandssögunnar eru látnir í friði. En menn reyndu. Sáuð þið þessa frétt?

Kafla Indriða um skattaskjól hafnað - Fréttablaðið 26.2.09

Hér stendur að Tryggvi Þór Herbertsson, nú frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og fyrrverandi efnahagsráðgjafi Geirs Haarde og Vilhjálmur Egilsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins - tveir sjálfstæðismenn - hafi einna helst lagst gegn tillögum Indriða. Indriði tjáði sig um þessi mál í Silfri Egils og Kastljósi.

Þá kem ég aftur að mikilvægi réttlætisins fyrir sálarheill þjóðarinnar. Flestir kannast orðið við Andrés Magnússon, geðlækni. Hann hefur komið fram í Silfri Egils, fréttum, haldið ræður á Austurvelli og á Borgarafundi og verið mikið niðri fyrir. Þetta sagði hann um áhrif réttlætis á geðheilsuna 3. febrúar sl.

Og hér er hann í Silfri Egils tveimur dögum áður, eða 1. febrúar.

En við þurfum svosem ekki landlækni, Indriða eða Andrés til að segja okkur þetta. Við finnum það sjálf. Okkur þyrstir eftir réttlæti. Síðasta ríkisstjórn veitti okkur enga von um slíkt og lét sem hún heyrði ekki neyðaróp okkar og spurning hvort núverandi stjórn nái að gera eitthvað í málinu. Þess vegna er mjög mikilvægt að við íhugum sem þjóð og sem einstaklingar með réttlætiskennd hvernig stjórn við viljum eftir næstu kosningar. Spyrjum frambjóðendur gagnrýnna spurninga og tökum hvorki blaður né þvaður trúanlegt. Hugsum sjálfstætt, höfum skoðanir og verum minnug þess að okkar skoðanir eru ekkert minna virði en þeirra. Sálarheill þjóðarinnar er í húfi.

Viðbót: Þessi pistill birtist á vef Þjóðkirkjunnar í dag. Þarna eru átta guðfræðingar að fjalla mikið til um þetta sama málefni út frá sínum forsendum. Best að halda þessu til haga.


Ræður dagsins

Hér eru ræðumenn dagsins frá fundinum á Austurvelli í dag og ræðurnar þeirra.

Heiða B. Heiðarsdóttir

 

 

 

      Heiða B. Heiðarsdóttir

Valgeir Skagfjörð

 

 

                                Valgeir Skagfjörð 


Athyglisverð grein til íhugunar

Ekki get ég nú tekið undir allt sem Gunnar segir hér, en mér finnst þó vert að íhuga ýmislegt sem hann setur hér fram.

Gunnar Karlsson - Fréttablaðið 25.2.09

Þessu tengt festi ég við hér að neðan brot úr Krossgötuþætti Hjálmars Sveinssonar frá í dag þar sem hann minnist m.a. á grein Gunnars og ræðir við Svan Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, um lýðræðið og hve það er brothætt. Allur þátturinn í samhengi hér þar sem einnig er rætt við Sigrúnu Davíðsdóttur og Einar Mar Þórðarson auk þess sem vitnað er í Biederman og brennuvargana og hliðstæðna við atburði hér.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Símtal Árna og Darling

Hér er umfjöllun Kastljóss frá 23. október 2008 um símtal Árna Mathiesen og Alistairs Darling.

RÚV fjallaði um málið í seinni fréttum sama kvöld.

Björgvin G. Sigurðsson var spurður um fund sinn með Darling í Kastljósi daginn eftir, 24. október.


Óþekkjanlegur sannleikur Davíðs

Davíð OddssonÞað var nú meira hvað Davíð togaði og teygði sannleikann út og suður í þessu volaða viðtali í Kastljósi. Mér finnst hann alltaf tala eins og hlustendur/áhorfendur séu fífl og hálfvitar. Kannski eru þeir sem trúa honum, dá hann og dýrka fífl og hálfvitar - en ekki við hin. Heldur hann virkilega að hann sé trúverðugur? Til er viss manngerð sem upphefur sjálfa sig ævinlega á kostnað annarra. Niðurlægir fólk með hnyttni og spaugsemi í þeim tilgangi að bera lof á sjálfa sig. Davíð Oddsson er slík manngerð. Fólk sem er óöruggt með sjálft sig, uppburðarlítið og hefur ómótaðar skoðanir dáir þannig menn og gerir skoðanir þeirra að sínum - hverjar sem þær eru.

Davíð réðst hvað eftir annað á Sigmar, gerði lítið úr honum (og þar með áhorfendum sem vildu svör) og sagði hann ráðast á sig. Davíð skilur greinilega ekki hlutverk spyrilsins. Einhverjir segja eflaust að hann hafi "varist fimlega" en ég segi að hann hafi endanlega sannað veruleikafirringu sína, mikilmennskuóra og fullkomið vanhæfi. Hann gat ekki einu sinni sýnt almenna kurteisi.

Hann sagði að "þetta væri nú afskaplega almennt hjá þér sagt" þegar Davíð og útrásarvíkingur - Ljósm. Mbl. KristinnSigmar nefndi gagnrýni á Seðlabankann í aðdraganda hrunsins. Þá las Sigmar upp fjölmörg nöfn virtra innlendra og erlendra sérfræðinga, fyrirtækja og stofnana sem hafa gagnrýnt Davíð og Seðlabankann. Davíð gaf lítið fyrir það og sagði m.a.: "Þetta eru fræðimenn sem þú nefnir sem gjarnan vildu vera í Seðlabankanum." Þvílík mótrök! Svo var hann sjálfur með dylgjur og aðdróttanir og ýjaði að þessu og hinu um menn og málefni - án þess að nefna nein nöfn.

Meginþemað í máli Davíðs var að réttlæta sjálfan sig. "Ég varaði við" segir hann ítrekað. Hvern eða hverja varaði hann við? Af hverju lét hann hafa eftir sér í viðtölum að allt væri í stakasta lagi nánast fram á síðasta dag, kvittar fyrir skýrslu Seðlabankans í maí 2008 þar sem bankarnir eru sagðir traustir - en segist engu að síður hafa varað við? Í hvaða eyru hvíslaði hann þeim viðvörunum? Hvaða lausnir kom Davíð með? Hvaða ráð gaf hann? Þess lét hann ógetið

Davíð segir menn hafa komið til sín í hrönnum (maður sér fyrir sér biðröð þar sem allir taka númer) til að segja sér að hann væri eini maðurinn sem hægt væri að treysta. Eini maðurinn sem var á móti þessari vitleysu allan tímann, talað um þetta allan tímann, barðist gegn þessu allan tímann. Eini maðurinn sem hafði verið sjálfum sér samkvæmur allan tímann og varað við þessu allan tímann. Eins og hann gerir hér, til dæmis.

Ætli Davíð sé kannski að meina þetta viðtal þegar hann segist hafa varað við því sem var í aðsigi?

Hér er úrklippa úr viðtalinu með honum einum.

Eða átti hann kannski við þetta viðtal, sem tekið var 11 dögum áður en hann ákvað að taka yfir Glitni. Hver varar hvern við hverju hér?

Þetta Kastljósviðtal var eflaust kærkomið í herbúðum aðdáenda Davíðs - en hjá okkur hinum floppaði hann algjörlega og endanlega. Svo einfalt er það.


 
Niðurstaða mín eftir viðtalið er að Davíð eigi mjög bágt og þarfnist hjálpar. Þjóðin á líka bágt og þarf að losna við Davíð.

Maðurinn sem vill kaupa Ísland

Þessi Ástrali vill greinilega kaupa Ísland eins og það leggur sig - eða því sem næst. Er þetta allt saman til sölu? Ég vissi að minnsta kosti ekki að orkuauðlindirnar okkar og virkjanirnar væru falar. Misskilur maðurinn eitthvað... eða geri ég það?


Góð grein í Mogga í dag

Gauti Kristmannsson - Moggi 24.2.09

Sannfæring eða...

Höskuldur Þórhallsson

Ég verð að gera játningu. Ég hafði ekki hugmynd um að framsóknarmenn hefðu sannfæringu. Að minnsta kosti sannfæringu sem ekki væri föl. Jú... kannski Bjarni Harðar og nýju stelpurnar. Ég vissi heldur ekki að sjálfstæðis- og framsóknarmönnum væri svona annt um skoðanir ESB. Lengi má manninn/Flokkinn reyna. Við erum jú í EES en hvorki í ESB né myndbandalagi Evrópu. Umsögn Seðlabanka Evrópu um frumvarpið var hafnað í síðustu viku. Hvaða stóridómur er þetta sem verið er að bíða eftir? Hvað sagði þessi ágæti útlendingur við nefndina í gærmorgun sem varð til þess að tveir framsóknarmenn, sem berjast um 1. sætið á lista Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi, skilja hann út og suður. Hvernig er tungumálakunnátta þeirra?

Ríkisstjórnin vildi að Seðlabankafrumvarpið færi í efnahags- og skattanefnd. Í henni sitja 9 þingmenn, þar af 5 úr stjórnarflokkunum og 1 framsóknarmaður. Framsóknarflokkurinn neyddi frumvarpið í viðskiptanefnd. Í henni sitja líka 9 þingmenn, þar af 3 úr stjórnarflokkunum og 2 framsóknarmenn. Í viðskiptanefnd skiptir samþykki Framsóknar meira máli en í efnahags- og skattanefnd. Það skiptir öllu máli - og svo fór sem fór.

Framsóknarþingmaður "fylgir sannfæringu sinni" og tefur afgreiðslu frumvarpsins. Frumvarps, sem gerir ráð fyrir því að einn mesti og hrokafyllsti skaðvaldur íslensku þjóðarinnar víki. Samkvæmt skoðanakönnunum vill 90% þjóðarinnar hann burt - en ekki hugumstóri framsóknarmaðurinn. Og hann ræður - eða hvað? Er þetta flétta? Var erindi Alfreðs í Seðlabankann um daginn að semja við Davíð? Þessir tveir flokkar hafa samið, plottað og skipt landinu á milli sín svo lengi að þeir ættu að kunna það. Eða eru strákarnir kannski bara í prófkjörsslag á kostnað þjóðarinnar?

Mikið væri gaman að vita hverjir stjórna á bak við tjöldin - og nota framagjarna drengi í skítverkin. Ekki er nóg með að Sjálfstæðisflokkurinn leggi stein í götu ríkisstjórnarinnar í góðum málum eins og komið hefur fram á fundum Alþingis, heldur gerir Framsóknarflokkurinn það ítrekað líka - flokkurinn sem lofaði stuðningi.

Viðtalið við Höskuld Þórhallsson í Kastljósi var sorglegur farsi. Ég fór hjá mér þegar ég horfði á það og vissi ekki hvort ég ætti að vorkenna Höskuldi. Ákvað þó að gera það ekki - hann kom sér í þetta sjálfur, drengurinn. Höskuldur var ítrekað í mótsögn við sjálfan sig, hikaði, tafsaði, talaði um "skynsemi og fagleg vinnubrögð". Hann var eins ósannfærandi og frekast gat verið. Hefur kannski ekki farið á nógu mörg námskeið hjá Eggerti Skúla í framkomu í fjölmiðlum en hafði greinilega vondan málstað að verja og maður fékk á tilfinninguna að "sannfæringin" væri ekki hans eigin. Framsóknarflokkurinn þarf að bjóða fram betra fólk ef hann vill bæta ímyndina.


Nýtt framboð loks í uppsiglingu?

Loksins gerist eitthvað, vonandi kemur eitthvað gott út úr þessu. Ég skora á áhugasama að mæta á fund Borgarahreyfingarinnar í Borgartúni 3 klukkan 20 í kvöld. Ég hef hitt Herbert Sveinbjörnsson og líst vel á hann þótt ekki geti ég sagt að ég þekki hann. En hér eru tvö nýleg myndbönd þar sem Herbert kom fram.

Silfur Egils 11. janúar 2009

 

Borgarafundur í Háskólabíói 12. janúar 2009

 


mbl.is Borgarahreyfingin býður fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snilldarsilfur að venju

Mér finnst hann Egill toppa Silfrið á hverjum sunnudegi. Hvar endar þetta eiginlega? Viðmælendur frábærir og umræðuefnin í þætti dagsins koma okkur öllum við eins og venjulega. Vettvangur dagsins var svo fjölmennur og langur að ég skipti honum í tvennt. Marinó G. Njálsson hélt fína ræðu á Austurvelli í gær og ég hengi hana neðst í færsluna. Hann fjallar um vanda heimilanna, sem er gríðarlega mikilvægur málaflokkur. Það gerir Ingólfur H. Ingólfsson líka og það var athyglisvert að heyra sögu hans um viðbrögð bankanna - bæði fyrir og eftir hrun. Egill talaði við Gauta B. Eggertsson í síma um tillögu sænska ráðgjafans og formanns nefndar um endurreisn fjármálakerfisins - sjá hér - sem Vilhjálmi hjá SA líst ekkert á.

Í seinni hluta Vettvangsins voru þau Atli Gíslason, Björg Eva Erlendsdóttir og Einar Már Guðmundsson. Atli og Björg Eva töluðu um fjárflutninga auðmanna úr landi og meint peningaþvætti hér og takið eftir hvað Atli segir: "Það þarf ekki nema venjulegan mann með þokkalega réttlætiskennd til að sjá að það er eitthvað galt í Danmark." Einar Már talar m.a. um tillögur sínar í greininni sem ég birti hér. Ræðu forsetans sem Einar Már minnist á setti ég í bloggfærslu í nóvember ásamt Kastljósviðtalinu við hann.

Sigrún Davíðsdóttir hefur flutt marga stórfína pistla í Speglinum á RÚV um fjárböðun, fjárflutninga og þvíumlíkt. Ég held að hægt sé að lesa og hlusta á þá alla - eða flesta - hér. Sigrún var einmitt tilnefnd til verðlauna Blaðamannafélagsins fyrir pistla sína um daginn. Ábending: Sigrún minnist oft á fyrirtækið Novator, sem er í eigu Björgólfs Thors. Fyrir ári keypti ég mig frá því að auglýsa fyrir hann á bloggsíðunni minni. Nú er auglýsingin komin aftur inn og ég ætla að kaupa mig frá henni aftur ef þess gerist þörf. Ég kæri mig ekki um að auglýsa fyrir Björgólf Thor eða aðra auðkýfinga af hans sort. En þið hin? 

Svo kom einn af mínum uppáhaldsfjölmiðlamönnum, Hjálmar Sveinsson. Þátturinn hans á Rás 1, Krossgötur, sem útvarpað er klukkan 13 á laugardögum, finnst mér með því albesta sem ég heyri í útvarpi. Enda hef ég tekið upp nokkurn veginn hvern einasta þátt. Hjálmar hefur mikið fjallað um skipulagsmál í Reykjavík og víðar og hann hlaut verðlaun fyrir þá umfjöllun fyrr í vetur, verðskulduð mjög. Þeir sem ekki þekkja Krossgötuþættina ættu endilega að kynna sér þá hér.

Síðastur var Eiríkur Tómasson, lagaprófessor, og talaði um breytingar á stjórnarskránni og stjórnlagaþing. Auðvitað þarf að endurnýja stjórnarskrána, þó það nú væri. Hlustið vel á Eirík. Hlustið líka á hljóðskrá sem ég festi við hér að neðan þar sem Eiríkur talar í Spegilsviðtali frá 5. febrúar sl. um hve einfalt sé að breyta kosningalögunum svo unnt sé að taka upp persónukjör. Um viðtalið segir á vefsíðu Spegilsins: "Það þarf ekki stjórnarskrárbreytingu til að koma á persónukjöri í alþingiskosningum, segir Eiríkur Tómasson lagaprófessor. Með einfaldri breytingu á kosningalögum má heimila flokkum að stilla upp óröðuðum framboðslistum. Kjósendur myndu þannig sjálfir velja þá frambjóðendur sem þeim hugnast best og prófkjör eins og við þekkjum þau í dag yrðu úr sögunni. Rætt verður við Eirík í Speglinum." Mjög athyglisvert eins og Spegilsins er von og vísa.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nýr og flottur bloggari

Valgeir Skagfjörð

 

Um daginn birti ég frábæran pistil eftir Valgeir Skagfjörð sem mér hafði borist í tölvupósti. Fékk leyfi fyrir birtingunni eftirá, sem betur fer. Nokkrum dögum síðar fór Valgeir að blogga hér á Moggablogginu og er búinn að skrifa nokkra dúndurpistla síðan. Ég hvet alla til að lesa bloggið hans Valgeirs, aðrir pistlar hans eru hreint ekki síðri en sá sem ég birti um daginn!


Kjölfestubandalagið

Í Mogganum í dag, sunnudag, birtist loks ný grein eftir Einar Má Guðmundsson sem hann kallar Kjölfestubandalagið. Einar Már hefur látið okkur bíða í tæpan mánuð eftir nýrri grein, sú síðasta birtist 25. janúar. En greinarnar hans eru þess virði að bíða eftir þeim. Fleiri greinar eftir Einar Má eru hérKjölfestubandalagið - smellið þar til læsileg stærð fæst.

Kjölfestubandalagið - Einar Már - Moggi 22.2.09


Við megum ekki gefast upp!

Ég ætla ekki að skrifa um siðlausa reikninga manna í skilanefndum og jafnsiðlausar lúxusferðir þeirra á kostnað almennings sem á ekki fyrir nauðsynjum og er með kvíðahnút yfir morgundeginum. Ég ætla heldur ekki að skrifa um fleipur forsetans sem hefur valdið þjóðinni ómældu tjóni á erlendri grundu. Ég lít á það mál sem létta smjörklípu, alvarlega þó, en vil taka á því seinna og einbeita mér að því að koma frá manninum sem hefur valdið okkur enn meira tjóni og enginn treystir, hvorki innanlands né utan, hvers rass hvílir enn í mjúkum stól á okkar kostnað í Svörtuloftum.

Ég ætla að skrifa um það sem ég mótmæli á Austurvelli í dag klukkan þrjú. Ég hef alltaf sagt að ég mæti á mótmælafundina á mínum eigin forsendum. Lít þannig á að með nærveru minni þar sé ég að mótmæla því ranglæti sem hefur átt sér stað í þjóðfélaginu undanfarin ár og olli efnahagshruninu og hvernig tekið hefur verið á því - eða bara alls ekki tekið á því. Mikill árangur hefur náðst en ennþá er óralagt í land og margt sem þarf að gera.

Að þessu sinni ætla ég til dæmis að krefjast þess, að tekið verði á málum auðmannanna sem rændu okkur. Þessara "þrjátíumenninga" sem settu heila þjóð á hausinn með fullkomlega siðlausum athöfnum og sérgæsku. Ég ætla að krefjast þess að lagt verði hald á eignir þeirra, þeir handteknir og yfirheyrðir með réttarstöðu grunaðra. Við vitum að rökstuddur grunur er fyrir því að þeir hafi allir haft rangt við og flutt stórar fjárhæðir úr landi og inn á einkareikninga í skattaparadísum úti í heimi. Í því sambandi minni ég á, að einn alræmdasti glæpamaður Bandaríkjanna, Al Capone, var loks dæmdur fyrir skattsvik en ekki morð, sprúttsölu eða aðra glæpi. Sáuð þið þetta?

Segið svo að þeir eigi ekki nægar eignir til að leggja hald á. Ég hlusta ekki á þá rökleysu að ekki megi hrófla við þeim af því það væri brot á mannréttindum þeirra. Brutu þeir ekki á mannréttindum okkar með því að ræna okkur aleigunni, stoltinu og ærunni? Af hverju ættu mannréttindi 30+ auðkýfinga að vega þyngra en mannréttindi, afkoma og framtíð heillar þjóðar - 300.000 manns? Yfirvöld eiga aldrei í neinum vandræðum með að haldleggja alls kyns góss sem þau grunar að sé þýfi eða stinga mönnum inn fyrir "rökstuddan grun" um fíkniefnasmygl eða -sölu, innbrot eða þjófnað á lifrarpylsu úr matvöruverslun. Hvers vegna má ekki snerta við þessum mönnum sem hafa stolið hundruðum ef ekki þúsundum milljarða? Hverjir vernda þá og af hverju? Það vil ég vita.

Ég flokka bankamennina með þessum hópi. Þeir bera gríðarlega ábyrgð á efnahagshruninu og eins og sést á myndbandinu hér að ofan lifðu þeir í vellystingum praktuglega - og gera væntanlega enn. Tortólaþýfið verður að endurheimta og nú hefur stærsti banki Sviss, UBS, ákveðið að aflétta bankaleynd og greiða Bandaríkjastjórn 780 milljónir dollara í bætur fyrir að hafa aðstoðað bandaríska skattgreiðendur við að svíkja undan skatti. Á móti fellur Bandaríkjastjórn frá ákæru fyrir aðstoð við skattsvik. Hlustið hér. Þetta er hægt - er einhver að vinna í þessu máli fyrir íslenskan almenning? Af hverju má ekki aflétta bankaleynd á Íslandi til að upplýsa stórfellda glæpi þegar meira að segja svissneskur banki ætlar að gera það?

Í myndbandinu hér að ofan er minnst á Enron-málið fræga í Bandaríkjunum. Ótrúleg svikamylla sem skaðaði fjölda manns. Þar voru menn handteknir, yfirheyrðir, dæmdir og fangelsaðir. Hvernig í ósköpunum stendur á því að slíkt er ekki gert hér? Heil þjóð sett á hausinn og enginn einu sinni yfirheyrður, hvað þá annað! Ég hlakka til að sjá myndina á RÚV 1. mars með íslenskum texta og hvet alla til að sitja um hana - en þangað til er hún hér í þremur hlutum - ótextuð. Takk, Unnsteinn, fyrir að benda mér á hana um daginn þótt það hafi kostað mig blóð, svita og tár að koma henni hingað inn.

Enron - The Smartest Guys in the Room
Fyrsti hluti

 

Annar hluti

 

Þriðji hluti

 

Annað mál sem ég vil leggja áherslu á og mæti á Austurvöll til að krefjast er kvótinn. Margir halda því fram að upphaf ógæfu Íslands hafi verið að einkavæða auðlindina í hafinu og heimila síðan að veðsetja kvótann og braska með hann á allan hátt. Nú er svo komið að kvótinn er veðsettur mörg ár fram í tímann. Bankarnir eiga hann því í raun og þjóðin á bankana. Ég vil endurheimta kvótann, gera hann aftur að þjóðareign, úthluta honum aftur og dreifa á sanngjarnan hátt um landið. Ég vil að óheimilt verði að framselja hann eða veðsetja. Þessi auðlind á að skapa atvinnu allt í kringum landið og vera í heimabyggð til frambúðar. Munið þið hvað Ingólfur sagði hér?

Ég ætla líka að krefjast þess að eitthvað mikið verði gert í verðtryggingunni. Þegar þjóðarsáttin var gerð í kringum 1990 var talað um að afnema hana þegar verðbólgan hefði lækkað og efnahagurinn kæmist í jafnvægi. Það var þó aldrei gert. Ég er af þeirri kynslóð sem er að lenda í klóm verðtryggingarinnar í annað sinn á ævinni. Neyddist til að selja ofan af mér fyrir um 18 árum vegna verðtryggingar og nú hækkar húsnæðislánið mitt með stjarnfræðilegum hraða - aftur. Ef verðtryggingin tengist beinlínis gjaldmiðlinum okkar vil ég skipta um gjaldmiðil sem fyrst. Hvaða máli skiptir hvað gjaldmiðillinn heitir ef við losnum við verðtrygginguna? Rifjum upp hvað Gunnar Tómasson sagði. Hann byrjar að tala um hana um mitt viðtal. Þar á eftir talar Gunnar um kvótann. Hlustið vel.

Ég mæti á fundinn á Austurvelli í dag á þessum forsendum - meðal annarra. Réttlætiskennd minni hefur verið misboðið árum saman en aldrei sem nú.  Eru fleiri sammála mér? Gerið þið sömu kröfur og ég - og svo margir aðrir? Mætið þá á Austurvöll klukkan þrjú í dag. Stöndum saman og gefumst ekki upp. Við erum að berjast fyrir framtíð okkar, barnanna okkar og barnabarnanna. Það gerir það enginn fyrir okkur. Sjáumst á Austurvelli, við megum ekki gefast upp!


Opið bréf til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar

Lítill tími hefur gefist til að skoða blöðin upp á síðkastið, hvað þá að klippa úr þeim greinar og slíkt. En þar sem ég er að undirbúa sérstaka færslu las ég þessa grein í Mogganum á miðvikudag. Gaman verður að sjá hvort svar berst á sama vettvangi og hvernig það hljóðar. Greinin sem vitnað er í eftir Jón Ásgeir er í tvennu lagi hér og hér.

Opið bréf til JÁJ - Moggi 18.2.09


Djöflast gegn persónukjöri

Ég heyrði þetta í hádegisfréttum á Bylgjunni og sá svo á Vísi áðan. Ég legg til að fólk taki eftir því hvaða þingmenn leggjast gegn persónukjöri í kosningunum - þvert á háværar kröfur og vilja almennings. Ég legg líka til að frumvarp stjórnarinnar þar að lútandi gangi lengra og að flokkunum verði það ekki í sjálfsvald sett hvort þeir taki þátt í því. Að lokum legg ég til að þið lesið þennan pistil Andrésar Jóns um þetta mál. Ég fæ ekki betur séð en að Andrés sé reiður. Það er ég líka.

Djöflast gegn persónukjöri


Ég stenst ekki mátið...

Nú dynja á okkur fréttir um nýja frambjóðendur í öllum flokkum sem og um þingmenn og ráðherra sem ætla að hætta og fara að gera eitthvað annað. Einar Mar  heldur utan um hverjir ætla að hætta eða reyna aftur. Mér líst misvel á nýja frambjóðendur flokkanna, sumum fagna ég en öðrum vantreysti ég. Enn aðra þekki ég ekki neitt og get engan veginn metið. Ekkert bólar enn á nýjum framboðum, enda er tíminn naumur og ekki víst að það náist að koma neinu saman. Ég vona það samt, ekki veitir af.

XMér leist ekkert á blikuna þegar Þráinn Bertelsson lýsti yfir framboði fyrir Framsókn í Reykjavík og ég hafði á orði einhvers staðar að þar færi góður biti í hundskjaft. Samt var leiðinlegt að lesa þetta í gær þótt það hafi ekki komið mér neitt sérlega á óvart. Einkum hlýtur þetta að vera skítt fyrir reykvíska framsóknarmenn og varla verða svona vinnubrögð flokknum til framdráttar.

Nú sakna ég þess að tillaga Vilmundar Gylfasonar og Bandalags jafnaðarmanna frá 1983 um persónukjör þvert á lista sé ekki enn orðin að veruleika. Sú tillaga var á þá leið að kjósendur gætu valið frambjóðendur af öllum listum - X marga alls - sama hvar á listunum þeir væru. Ég gæti nefnilega alveg hugsað mér að kjósa einhverja af öllum listum því alls staðar leynist gott fólk - en líka síðra. Svo raðast fólk ekkert endilega í þau sæti sem manni finnst að það ætti að gera.

Ekki ætla ég að kynna sérstaklega frambjóðendur neinna flokka á þessari síðu - með einni undantekningu þó. Ég hef kynnst Bergi Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Landverndar, í gegnum baráttuna gegn Bitruvirkjun og ég hoppaði hæð mína í loft upp þegar ég heyrði að hann ætlaði í framboð. Mér hefði verið slétt sama fyrir hvaða flokk þótt þetta val hans komi samt ekki á óvart. Bergur er heiðarlegur og heilsteyptur maður sem ég treysti mjög vel til góðra verka fyrir land og þjóð auk þess sem hann er einlægur umhverfis- og náttúruverndarsinni. Bergur býður sig fram í Suðurkjördæmi og ég skora á kjósendur að velja hann. Takið eftir því að ekki þarf að vera búsettur eða eiga lögheimili í kjördæminu til að geta tekið þátt í prófkjörinu - það þarf bara að skrá sig í VG félag í Suðurkjördæmi fyrir klukkan 17 föstudaginn 20. febrúar - semsagt strax. 

Ég óska Bergi Sigurðssyni alls hins besta í prófkjörinu og vona innilega að hann nái árangri.

Bergur Sigurðsson í framboð


Siðleysi, spilling eða siðspilling?

Flestir muna eftir þessari þekktu ráðningu, eða hvað? Þingmaður ræður sér aðstoðarmann í nóvember - mánuði eftir efnahagshrun þegar sýnt var að niðurskurður á öllu væri framundan.

Einar Bárðarson ráðinn aðstoðarmaður Kjartans Ólafssonar - Fbl. 6.11.08

En þremur mánuðum seinna, í lok janúar, gerði göfuglyndi vart við sig og aðstoðarmaðurinn afþakkaði launin sín ganske pent. Góður, fórnfús gæi, ha?

Einar Bárðarson afþakkar laun - Mbl. 27.1.09

En viti menn! Hálfum mánuði síðar gerist þetta:

Einar Bárðarson fær Offiseraklúbbinn - Víkurfréttir 16.2.09

Einskær tilviljun eða "pólitísk greiðasemi" = spilling? Maður spyr sig... Og sjáið bara hvað Smugan er umburðarlynd og ó-kaldhæðin! Annars er þetta nú ótrúlega gegnsætt og viðkomandi aðilar virðast treysta alfarið á gullfiskaminni almennings. Og skyldi svosem engan furða eftir niðurstöður skoðanakönnunar um fylgisaukningu Sjálfstæðisflokksins. Þeir sem vilja komast á spenann hafa öllu gleymt nema eigin skinni - og vilja "vera memm"... eða hvað? Hver er skýringin á fylgisaukningunni?


Dæmigerð siðblinda

Heyrðuð þið í Óskari Bergssyni í Kastljósi í kvöld? Við fengum sýnishorn af dæmigerðum, siðblindum stjórnmálamanni. Ég dáðist að stillingu Þóru. Hún reyndi hvað eftir annað að koma Óskari í skilning um að einkaboð fyrir samflokksmenn væru eitt og almenn boð á vegum borgarstjórnar væri allt annað. Óskar annað hvort skildi hana ekki eða kaus að leiða þessa augljósu staðreynd hjá sér.

Eins og sá sanni framsóknarmaður sem Óskar er, sér hann ekkert athugavert við að láta Reykvíkinga borga áfengi og snittur ofan í 25 framsóknarmenn úr hópi sveitarstjórnarmanna á fundi um sparnað og þrengingar í efnahagsmálum.

Réttlæting 1: Hann er forseti borgarstjórnar og má bjóða þeim sem honum sýnist í móttökur.
Réttlæting 2: Einhver annar flokkur gerði þetta árið 2004.

Eftir efnahagshrun og í miðjum niðurskurði á öllum sviðum hefur Óskar Bergsson ekki nægilegt siðferði til að átta sig á að auðvitað átti þessi framsóknarmannafundur að vera í boðið Framsóknarflokksins, ekki útsvarsgreiðenda í Reykjavík. Í því sambandi bendi ég á þennan pistil þar sem fram kemur m.a., að af 64.895 atkvæðum Reykvíkinga í síðustu sveitarstjórnarkosningum hlaut flokkur Óskars aðeins 4.056 atkvæði. Óskar Bergsson hafði lent í 3. sæti og strangt til tekið er umboð hans til valda nánast ekkert.

Ég vona að Óskari Bergssyni detti ekki í hug að bjóða sig aftur fram í Reykjavík eða annars staðar. Svona stjórnmálamenn með hans tegund af siðferði eru einmitt sú sort sem verið er að mótmæla hástöfum, almenningur hefur fyrirlitningu á og sem við viljum ekki sjá í pólitík framtíðarinnar - hvar í flokki sem þeir hreiðra um sig.


Basil fursti fallinn og Öldungaráð Eiríks

Eiríkur Guðmundsson - Öldungaráðið - Pistlar

Enn og aftur bendi ég á Víðsjárpistil eftir Eirík Guðmundsson. Þessi er frá í gær og Eiríkur kallar hann Öldungaráðið. Hér er Eiríkur með tillögu að lausn á vissu vandamáli í íslensku þjóðfélagi. Pistillinn er í tónspilaranum, næst neðst, merktur Víðsjá - Öldungaráðið - Eiríkur Guðmundsson. Hann er líka viðfestur neðst í færslunni. Takið sérstaklega eftir laginu á eftir pistlinum.

Öldungaráðið

Hvað er hægt að bjóða einni þjóð upp á mikið? Hvað er hægt að leggja á eitt stykki landslýð? Hvað er annars í fréttum, ég hef ekkert heyrt af Íslandi, hverjir fá sýslurnar og hvað um brauðveitingar, hvað um skólann og alþing, og hvurnig var haustið, og hvernig hefur heyjast? Málaferli, hvalrekar, nýjar uppgötvanir, draugar og svo framvegis?

Adenauer - De Gaulle - Deng XiaopingÍ fréttum, kæri Jónas, þú spyrð, hvað er í fréttum? Ég veit ekkert um það, ég hef engan hitt og ekkert heyrt, ekkert Heklugos og enginn manndauði hér, en nú er svo komið að þjóðin sameinast ekki um annað en eitt: einhvers konar andúð á einum manni, sem neitar að hætta í vinnunni sinni, þótt búið sé að reka hann. Sameiningartákn þjóðarinnar er maður sem neitar að standa upp úr stólnum sínum, við höfum hér annan mann í hárri stöðu sem hefur ekki við að leiðrétta skrif erlendra blaðamanna, sá þriðji, er afgamall orðinn en með fiðring og vill ólmur verða forsætisráðherra, að minnsta kosti formaður í flokki.

Mikla raun höfum við nú af vorum gömlu mönnum; mönnum hinna gömlu flokka sem þeir kenndu ýmist við alþýðu eða sjálfstæði. Getur verið að Ólafur Ragnar Grímsson, Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson séu orðnir elliærir? Nei, til þess eru þeir varla nógu gamlir. En ef maður dregur ályktun af því sem birtist í fjölmiðlum, þá haga þeir sér eins og elliærir menn. Einn segir tóma vitleysu við erlenda blaðamenn, annar heldur að hann sé til skiptis De Gaulle og Deng Sjaó Ping, sá þriðji neitar að standa upp, þótt allir vilji að hann standi upp, og gott betur en það. Og ég spyr mig: Getur verið að þessir gömlu hrókar úr pólitíkinni, these old dudes, hafi allir misst vitið, sirkabát á sama augnablikinu; að þeir séu hreinlega orðnir geggjaðir? Öldungar hafa gefist vel, sagði Jón Baldvin um helgina, þegar hann boðaði endurkomu í pólitík; Adenauer hafi verið 69 ára þegar hann varð kanslari, De Gaulle um áttrætt og Deng Sjaó Ping um nírætt - og gafst vel, sagði Jón.

Nei, engu illu vill maður trúa; en stundum læðist að manni sá grunur, að allir þessir menn lifi í heimi sem snýst öðru fremur um þá sjálfa, töfra þeirra, og visku, pólitíska fortíð, framtíð, arfleifð, virðingu, urðu þeir allir glórulausir árið 1991, og hafa þeir, verið spirillíbúbb, allar götur síðan, í heil 18 ár? - þú mátt ekki misskilja mig, Jónas, ég hef gaman af þessum mönnum, sérstaklega Jóni, mér finnst þeir segja margt spaugilegt, án þess endilega að þeir ætli sér það. En það sorglega, er að þjóðin má varla við meira spaugi en orðið er; þetta er komið gott. Við þolum ekki meira grín, ekki meiri Matthildi; við erum sem hengd upp á þráð, út af ástandinu, sjáðu til.

En það er kunnara en frá þurfi að segja að fólk sem á við geðræn vandamál að stríða, heldur gjarnan að það sé einhver annar en það er, gjarnan verður Jesús Kristur fyrir valinu, og það er eðlilegt. Sagan segir að gárungarnir kalli Davíð Oddsson Winston Light, með tilvísun í gamla bretatröllið, Winston Churchill. Og kannski upplifa vorir gömlu herrar sig sem nett stórmenni sem þeir hafa lesið um í sögubókum, og spegla sig í slíkum góðum degi; De Gaulle Ligth, Abraham Lincoln, Ghengis Kahn, Maó, Lenín, og Thatcher; það er árið 2009 og við erum enn að fást við þessa gömlu herra, sem sigldu með hatta út í Viðey fyrir löngu, og virðast halda að þeir séu hitt og þetta; við erum enn að fást við Alþýðubandalagsmann sem breyttist í fursta, manninn sem innleiddi frjálshyggjuna á Íslandi, og náungann sem heldur að hann sé til skiptis De Gaulle og Deng Sjaó Ping! Og við þurfum enn að hlusta á náunga sem verja vitleysuna, á meðal þeirra eru karakterar sem ætlast til að þeir verði kosnir á alþingi í vor.

En héðan er svosem ekkert að frétta, annað en það að Davíð - Jón Baldvin - Ólafur RagnarSjálfstæðisflokkurinn íhugar að bjóða fram til Alþingis í vor, engin tíðindi, önnur en þau að ég hef lausn: það þarf ekki stórt fley undir vora gömlu herra, varla meira en skektu, setjum á þá hatta, og sendum þá aftur út í Viðey, þar sem þetta byrjaði allt saman; Ólafur getur fengið að vera forseti ... Viðeyjar, Jón Baldvin sá forsætisráðherra sem hann hefur alltaf dreymt um að vera, forsætisráðherra ... í Viðey, og Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, ...Viðeyjar! Við sendum þessa dára úr landi, sail away, ekki of langt, þannig að við getum áfram fylgst með þeim, úr fjarlægð, og haft af þeim nokkuð gaman, þegar aftur hýrnar yfir okkur hér á fróni, eftir allt helvítis fokkings fokkið!

Fylgismenn þeirra mega fylgja þeim út í eyjuna, og geta sest þar að, unað þar glaðir við sitt, þarna eru húsakynni frá miðri 18. öld. Þar geta vorir gömlu herrar haft sína aðstoðarmenn og einkabílstjóra, þeir geta skipað í allar þær stöður sem þeim hentar, það má jafnvel senda til þeirra einn og einn blaðamann, við og við, ljósmyndara, það má jafnvel láta þessa blaðamenn tala erlend mál, svo að vorir gömlu herrar haldi áfram að finna til sín, og það er sjálfsagt að borga þeim einhver laun, úr gamla útvegsspilinu, matadorpeninga, það er hvort eð er ekki svo mikill munur á krónunni og spilapeningum. Þarna mætti jafnvel prenta dagblað, það er hefð fyrir prentsmiðju í Viðey; það mætti jafnvel prenta þrjú blöð, Mogga, Þjóðvilja og Alþýðublað, svo allir fái nú eitthvað kunnuglegt fyrir sig. Davíð getur hækkað og lækkað stýrivexti að vild, jafnvel hótað að fara aftur út í pólitík! Jón Baldvin getur gengið inn og út úr Evrópusambandinu, alveg eins og honum hentar; hann getur vaknað á morgnana sem De Gaulle, leikið Adenauer um miðjan dag, og lagst til svefns sem Deng Sjaó Ping, og Ólafur Ragnar, hann getur myndað margar ríkisstjórnir á dag, eins margar og hann vill, og ráðið ríkisstjórnarsáttmálunum í þeim öllum, rifjað upp sögu Alþýðubandalagsins og útrásarinnar, verið í senn heimsborgari með hatt í húsakynnum Skúla Magnússonar, og sveitamaður, búandkarl í fámennu landi, eyju, og húðskammað einhverja konu, fyrir að segja sannleikann - þetta verður allt í lagi, og mun ekkert káfa upp á okkur, hér uppi á fastalandinu.

Jón Baldvin sagðist um helgina ekkert vera gamall miðað við marga aðra - og það er rétt hjá Jóni! ég hef séð eldri menn en þá Jón Baldvin, Ólaf Ragnar og Davíð Oddsson. En enginn þessara gömlu manna hélt að hann væri De Gaulle, Adenauer eða Deng Sjaó Ping, ekki einu sinni í hinsta óráðinu!

Hvað er að frétta? Engin tíðindi, ég skrifa þér á morgun, með bréfpósti, ég er frískur, Bryndís segir að ég sé við hestaheilsu, en heimilislæknirinn minn er löngu dauður, þú lasinn, vesalingur, gleddu þig við vorið og góða von. En ég segi: Öldungana út í Viðey! Bye bye, good old boys!

Við hin getum reynt að halda eitthvað áfram, tekið einhver hænuskref, ég veit reyndar ekki hvert, en eitthvað þurfum við að gera.

Víðsjá, 16. febrúar, 2009


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Flokkurinn lagði undir sig Ísland

DV - 17. feb. 2009

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband