Færsluflokkur: Bloggar
24.10.2009
Vísdómsorð sem vega þungt
Þessum vísdómsorðum ætla ég að beina til alþingismanna og ráðherra af báðum kynjum og þakka Sólveigu Ólafsdóttur kærlega fyrir þetta frábæra innlegg í athugasemd við þennan pistil.
Í bókinni Stríð og söngur, eftir Matthías Viðar Sæmundsson, sem kom út hjá Forlaginu árið 1985 er viðtal við Guðrúnu Helgadóttur þar sem Vilmundur kemur við sögu. Guðrún hefur orðið:
"Stjórnmálalmenn eru haldnir þeirri villutrú, að tilfinningalíf og stjórnviska fari ekki saman. Flestu fólki hættir raunar til þess að skipta daglegu lífi sínu í hólf þar sem ekki er innangegnt á milli. Á daginn nota menn vitið, á nóttunni ástina, og listina við sýningaropnun á laugardagseftirmiðdögum. En vit ástar og lista er engin viska, ekki heldur stjórnviska.
Þær konur sem ganga inn í heim þeirra stjórnmála, sem karlmenn hafa búið sér til, ættu að forðast þetta sundurhólfaða líf. Við eigum einmitt að opna á milli hólfanna. Það er engin ástæða til að vera eins og heil hreppsnefnd í framan þó að maður sé á þingi. Því síður er það fólk traustvekjandi sem misst hefur lífsneistann úr augunum.
En lífsneistinn er kulnaður, af því að allir eru að þykjast. Auðvitað eru allir að skrökva, að sjálfum sér og öðrum. Engri manneskju er þetta líf eðlilegt, en fæstir þora að opna á milli. Hvers vegna skyldi ekki geta verið gaman að sitja á Alþingi? Alþingi ætti að vera staður gleði og tilhlökkunar. Til hvers erum við þarna? Til þess að gera líf fólksins gott og fallegt. Eða hvað?
Nei. Aðallega eru þarna ábúðarmiklir karlar að lesa hver öðrum tölur úr Fjárhagstíðindum og skýrslum Þjóðhagsstofnunar, dauðir í augunum. Orð eins og börn, konur, list, ást hamingja, fá menn til að fara hjá sér, þau bera tilfinningasemi vott. Og tilfinningar eiga ekki heima á Alþingi. Innst inni finnst þeim konur ekki eiga að vera þar heldur. Þeir eru svo hræddir um að við gleymum vitinu heima á morgnana og komum með ástina með okkur í vinnuna.
Stundum sakna ég Vilmundar. Hann átti það til að taka vitlausa tösku."
Mér finnst við hæfi eftir þessi vísdómsorð Guðrúnar að setja inn lagið Elska þig af plötunni Von með Mannakornum sem flutt var í Kastljósi fyrir skemmstu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.10.2009
Einar Már og Kjarni málsins
Mörgum eru greinarnar hans Einars Más í fersku minni - þessar sem birtust í Morgunblaðinu í fyrravetur og urðu undirstaðan í Hvítu bókinni góðu. Einar Már er kominn á kreik aftur og þar sem þessi grein er merkt númer 1 er væntanlega von á fleirum. Þótt flestir séu hættir að lesa Morgunblaðið er sumt einfaldlega skyldulesning. Þessi birtist í dag - smellið þar til læsileg stærð fæst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
23.10.2009
Svívirða, sársauki, sorg og söknuður
Ég hef verið að velta ýmsu fyrir mér, rifja upp, pæla í þjóðarsálinni, merkingu orðanna, skilning okkar á þeim og samhengi hlutanna. Ég hef verið að hugsa um fólk og hvernig það upplifir kreppuna. Ég hitti lítinn hóp af góðu fólki eitt kvöldið í vikunni. Þar sagði ung kona: "Þetta er velmegunarkreppa". Það má til sanns vegar færa - a.m.k. hjá sumum. Önnur kona sagði reynslusögu. Hún var í apóteki og fyrir framan hana í röðinni var gömul kona að sækja lyfin sín. Þegar verið var að afgreiða gömlu konuna fór hún að skjálfa - hún grét. Þarna stóð hún með aleiguna í höndunum, 12.000 krónur. Lyfin kostuðu 9.000. Átti hún að borga lyfin og eiga bara 3.000 krónur til að lifa af út mánuðinn eða...? Þessi gamla kona var ekki að upplifa velmegunarkreppu.
Eflaust er þetta veruleiki margra þótt eldri borgarar séu kannski í meirihluta af því þeir hafa ekki tök á að auka tekjur sínar á neinn hátt. En þetta er gömul saga og ný. Það hefur alltaf verið til fátækt á Íslandi og alltaf hefur verið stéttskipting í okkar "stéttlausa", litla þjóðfélagi. Kannski er þetta meira áberandi nú en alla jafna, ég veit það ekki. Maður spyr sig hvers vegna í ósköpunum ekki er hægt að jafna lífsgæðin betur í örsamfélagi eins og okkar - af hverju þeir sem hafa yfrið nóg og gott betur geta ekki hunskast til að hjálpa sínum minnstu bræðrum og systrum. Af hverju nokkrum einstaklingum finnst bara sjálfsagt að velta sér upp úr peningum eins og Jóakim aðalönd á meðan aðrir eiga ekki til hnífs og skeiðar.
Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki slíkan þankagang - hef aldrei gert og mun aldrei gera. Mér finnst þetta svívirðilegt og óafsakanlegt.
Svo er það sársaukinn. Við vorkennum okkur alveg óskaplega. Okkur finnst illa með okkur farið af alþjóðasamfélaginu svokallaða. Fólk, sem fætt er með silfur- eða jafnvel gullskeiðar í munni og hefur ekki hugmynd um hvað það er að líða skort eða þurfa að neita sér um nokkurn hlut, lætur eins og heimurinn sé að farast af því það fær ekki sínum prívatvilja framgengt í öllum málum svo það geti hlaðið enn meira undir sig og sína.
Mér hefur æ oftar, í öllum ósköpunum sem hafa gengið á, orðið hugsað til forsíðumyndar á tímariti sem ég kom auga á fyrir margt löngu. Ég keypti tímaritið og geymdi forsíðumyndina. Ég gerði það til að minna sjálfa mig á hvað ég hef það helvíti gott - hvað sem á gengur og þrátt fyrir allt og allt. Til að minna sjálfa mig á hve kvartanir okkar Íslendinga yfir léttvægum, efnislegum lífsgæðum eru í raun fáránlegar þegar upp er staðið. Þetta var í ágúst árið 1992 og myndin var á forsíðu The Economist. Stríðið í Bosníu var í algleymingi og þar átti fólk um sárt að binda. Ég gróf þessa forsíðu upp og skannaði hana inn í tölvuna. Sjáið þið það sem ég sá þá og sé enn? Hvað erum við að kvarta?
Ég hef líka verið að hugsa um stjórnmálin og stjórnmálamennina og -konurnar. Reyni öðru hvoru að fylgjast með umræðunum á Alþingi en gefst alltaf upp. Þvílíkur farsi! Þvílíkar gervimanneskjur og gervimálstaður sem þar er á ferðinni! Hvaða fólk er þetta eiginlega sem kosið var til að leiða þjóðina á erfiðum tímum? Gjammandi gelgjur og útblásnar blaðurskjóður? Það er undantekning ef einhver kemur í ræðustól og talar af hugsjón, skynsemi og sannfæringu. Þá hugsa ég til Vilmundar Gylfasonar og hans stutta en minnisstæða ferils á þingi. Og ég sakna heiðarlegra hugsjónamanna og -kvenna sem hægt er að treysta.
Vilmundur lést langt fyrir aldur fram og hans var sárt saknað af ótalmörgum. Blöðin voru uppfull af minningargreinum um hann, en ein er mér minnisstæðust þeirra allra. Það var persónulegasta og stórkostlegasta minningargrein sem ég hafði lesið á þeim tíma, og hún var eftir Guðrúnu Helgadóttur sem þá sat á þingi fyrir Alþýðubandalagið.
Guðrún sagði m.a. í minningargrein sinni, sem bar hinn einfalda titil Til Vilmundar og birtist í Þjóðviljanum á útfarardegi Vilmundar 28. júní 1983: "Þú þoldir svo miklu meira en ætla mátti, vegna þess að þú varst svo heiðarlegur og sanntrúaður á málstað þinn, og svo ótrúlega lítið kænn. Fyrir þá eiginleika kveðja þig í dag þúsundir Íslendinga í einlægri sorg. Þeir vita að við eigum kappnóg af kænu fólki." Svo segir Guðrún seinna: "Sannleikann í þér tókst þér aldrei að dylja. Þess vegna þótti svo mörgum vænt um þig, og þess vegna var ýmsum ekkert hlýtt til þín. Sannleikurinn er ekki öllum fýsilegur fylgisveinn." (Af hverju tengi ég þessi orð við Bjarna Ben og Sigmund Davíð... og fleiri af þeirri sort?) Í grein sinni minnist Guðrún á ræðu ræðanna á Alþingi - ræðu sem enn þann dag í dag er talin sú besta sem þar hefur verið flutt. Takið eftir ummælum Vilmundar um nýja stjórnarskrá og varðhunda valdsins. Ég hengi ræðuna neðst í færsluna.
Það er þetta með stjórnmálamenn, heiðarleikann og sannleikann. Hve marga stjórnmálamenn sem nú sitja á þingi væri hægt að skrifa slík eftirmæli um?
Bloggar | Breytt 24.10.2009 kl. 01:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
22.10.2009
Á að reka eða raka?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.10.2009
Nýr vettvangur fyrir Egil Helga
Mikið hefur verið rætt og ritað í dag um orð Björns Bjarnasonar um Egil Helgason og meinta hlutdrægni hans. Á undan Birni tjáðu sig einnig tveir flokksbræður hans, þeir Hannes Hólmsteinn og Sturla Böðvarsson um Egil, Silfrið hans og bloggið. Þessum mönnum hugnast ekki að sannleikurinn komi upp á yfirborðið og almenningur fái tækifæri til að gagnrýna það sem honum þykir gagnrýnivert.
En Egill þarf engu að kvíða. Í fyrsta lagi verður ekki hlustað á þessi skelfingarviðbrögð fyrrverandi valdamanna sem þrá það eitt að halda áfram að stýra umræðunni, eins og þeir hafa gert um árabil, og beita þöggun að eigin geðþótta. Í öðru lagi sýndi Egill í gærkvöldi að hans bíður nýr og glæstur ferill kjósi hann að skipta um vettvang. Það er aldrei of seint að prófa eitthvað nýtt.
Afmælisskaup - Skjár 1 - 20. október 2009
Hér er sama lag flutt af Willy Nelson og Ray Charles
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
21.10.2009
Réttur karla sem vilja ríða konum
Nú hljóma fréttir um mansal og glæpaklíkur því tengdu í öllum fjölmiðlum. Það fer um mann nístandi hrollur við tilhugsunina um að konur neyðist eða séu neyddar til að selja sig - hver sem ástæðan er og hver sem á því hagnast fjárhagslega. En þetta er gömul saga og ný og alltaf eru einhverjir sem mæla vændi bót eins og Una Sighvatsdóttir bendir á í stórfínum pistli í Mogganum í dag. Í honum bendir Una m.a. á hina göfugu frjálshyggjumenn og -konur í Frjálshyggjufélaginu sem standa vörð um réttindi karla sem vilja ríða konum. "Tilraunir til að stjórna lífi borgaranna..." er eitur í beinum frjálshyggjunnar eins og sást t.d. á afnámi regluverks í fjármálaheiminum, sem varð efnahag Íslands að fjörtjóni. Kannski er það misskilningur hjá mér, en mér virðast frjálshyggjumenn vera mestu anarkistarnir af öllum.
Þessi sena úr kosningaþætti á RÚV 20 apríl sl. er ógleymanleg. Hér er það Ragnheiður Elín sjálfstæðiskona sem virðist bera óblandna virðingu fyrir því sem hún minnir á að sé "elsta atvinnugreinin". Flokkur Ragnheiðar Elínar hefur aldrei beitt sér af neinni alvöru gegn vændi eða reynt að sporna við því. Maður spyr sig af hverju... Ekki má skerða "frelsi" einstaklingsins til athafna, jafnvel þótt það frelsi leiði til helsis annarra. Það á miklu frekar að reka Egil Helgason fyrir að hampa sannleikanum og taka afstöðu með honum. Sannleikanum verður enda hver sárreiðastur.
Að lokum bendi ég á stórfurðulegt, mótsagnakennt viðtal við súlukóng Íslands sem ég birti hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
20.10.2009
Óskar Bergsson og Eyktin hans
Það var fróðlegt að fylgjast með athugasemdum á Fésinu þegar Kastljósið var sent út fyrr í kvöld og fjallað um Óskar Bergsson og vinnubrögðin sem hann er þekktur fyrir. Ég ætla ekki að hafa það eftir sem sagt var en ekki fór á milli mála hvaða skoðun fólk hefur á siðlausri hagsmunapólitík Óskars. Ég ætla heldur ekki að hafa eftir hvað kollegar hans og samstarfsfólk víða í borgarkerfinu segir, það verður að koma fram annars staðar.
Það eru einmitt svona stjórnmálamenn sem fólk vill ekki lengur. Þeim er ekki treyst og þeir eru holdgervingar spillingarinnar sem kom okkur á kaldan klakann. Ég minni á þetta aftur fyrir kosningar í vor.
Kastljós 20. október 2009
Munið þið eftir þessu viðtali þar sem Þóra reyndi hvað eftir annað að benda honum á siðblinduna, en án árangurs. Ég skrifaði nokkur orð um þetta hér.
Kastljós 17. febrúar 2009
Bloggar | Breytt 21.10.2009 kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
20.10.2009
Brátt verða hliðin opnuð
Kunningjakona mín kom heim eftir stutta dvöl í útlöndum fyrir rúmri viku. Hún hafði ekki farið út fyrir landsteinana um nokkurt skeið og henni brá þegar hún kom aftur. Þetta er næm kona og hún sagðist hafa fundið svo neikvæða orku þegar hún steig á íslenska grund. Þetta kom mér ekkert á óvart. Neikvæðnin er nánast áþreifanleg í samfélaginu. Og það á sér vitaskuld ofureðlilegar skýringar.
Þótt ég ætli ekki að fara náið út í saumana á margslungnu andrúmsloftinu á Íslandi hér og nú er ég sannfærð um að hin neikvæða orka sem kunningjakona mín fann við heimkomuma er nátengd réttlætinu. Ef það er eitthvað sem okkar þjakaða og þjáða þjóðarsál þarfnast um þessar mundir er það réttlæti.
Búið er að skrifa undir Icesave-samning sem skuldsetur okkur í marga áratugi - en þeir sem höfuðábyrgðina bera ganga lausir og baða sig í illa fengnu fé eins og Jóakim aðalönd. Réttlæti?
Seðlabankinn henti nokkur hundruð milljörðum í gjaldþrota bankana dagana fyrir hrun og ríkissjóður öðru eins til að bjarga fjármagnseigendum. Vanhæfur seðlabankastjórinn og einn af arkitektum hrunsins, sem loks tókst að losna við úr embætti með lagasetningu í febrúar, þeytir nú skítabombum út um víðan völl sem ritstjóri um leið og hann reynir að hvítþvo sjálfan sig og þátt sinn í hruninu. Réttlæti?
Virkjana- og stóriðjusinnar fara nú mikinn og heimta að allt verði virkjað, orkuauðlindir þurrausnar í margar kynsóðir, til að breiða yfir gróðærisklúður einkavinavæddra bæjarstjóra sem seldu sér og vinum sínum opinberar eigur og settu bæjarfélögin sín á hausinn. Auðlindum kynslóðanna á að fórna á altari græðgi nokkurra manna og frasarnir fljúga. Álver eða dauði! Minnir óhugnanlega á æðið sem reið yfir þegar fjármálabólan var að þenjast út. Réttlæti?
Þetta eru bara þrjú dæmi af ótalmörgum sem varpa kannski einhverri ljóstýru á hina neikvæðu orku sem svífur yfir vötnunum á Íslandi. Eygjum við einhverja von? Vonandi - en eitt er víst: Ef hrunflokkarnir ná aftur völdum getum við, sem krefjumst réttlætis og þráum það umfram allt, pakkað saman og farið. Þá verða allir hrunvaldar hvítþvegnir og haldið áfram þar sem frá var horfið í einkavinavæðingar- og spillingarferlinu. Þá verður réttlætinu ALDREI fullnægt, sannið þið til. "Alting bliver igen som för", eins og segir í textanum með myndinni af Jóakim hér að ofan.
Pistillinn minn á Morgunvaktinni síðasta föstudag fjallaði ekki nema óbeint um þetta. Jú, kannski ljóðið hans Eyþórs. Ég kaus alltént að skilja það þannig að ljónið í búrinu væri réttlætið - og að brátt verði hliðin opnuð og ljónið brjótist út. Guðir allra trúarbragða hjálpi þeim sem á vegi þess verða. Hljóðskrá er viðfest neðst. Pistlunum er útvarpað svo snemma að það er enginn vaknaður - ja... að minnsta kosti ekki ég.
Ágætu hlustendur...
Einu sinni, endur fyrir löngu, var ég stolt af að vera Íslendingur. Spáði ekkert of mikið í pólitík en fylgdist samt með. Las blöðin, horfði á fréttir, lagði saman tvo og tvo og dró mínar ályktanir. Muldraði í barminn, tautaði og tuðaði, skammaðist yfir misvitrum ákvörðunum ráðamanna en hafðist ekki að. Reyndi ekki að fá greinar birtar í dagblöðum eða leggja orð í belg á annan hátt. En ég hugsaði mitt og safnaði í hugarsarpinn.
Hvað ætli þessi lýsing eigi við marga Íslendinga? Hve margir hafa hingað til beygt sig af þýlyndi undir hið lífseiga ofbeldi stjórnmálaflokkanna, sem kveður á um að við megum bara tjá skoðanir okkar með atkvæðinu á fjögurra ára fresti? Við eigum að þegja og hafa okkur hæg þess á milli. Ekki hafa skoðanir og leyfa stjórnmálaflokkunum að athafna sig í friði - hvort sem þeir eru að efna eða svíkja kosningaloforðin, láta þjóðina styðja innrásir og stríð eða gefa eigur hennar vinum sínum. Er þetta lýðræði? Ja... að minnsta kosti ekkert venjulegt lýðræði.
Já, ég var stoltur Íslendingur. Stolt af landinu mínu og þjóðinni minni. Menntaða fólkinu, náttúrunni, hreina loftinu, tæra vatninu og jafnvel eldgosum og jarðskjálftum. Slíkt tilheyrði því að vera Íslendingur. Árið 1983 var ég á leið heim eftir stutta heimsókn til Frakklands. Þegar ég fór í gegnum vegabréfaskoðun á flugvellinum í París sagði maðurinn sem þar vann: "Ah... Ísland! Ekkert sjónvarp á fimmtudögum og í júlí - og enginn bjór!" Ég var þessu vön en honum fannst þetta skemmtileg sérkenni og við hlógum dátt saman. Ekki varð ég vör við að hann vissi fleira um Ísland. En það gerði ekkert til, ég var örugg í þeirri fullvissu, að það væri gott að vera Íslendingur.
Nú er öldin önnur. Þegar Íslendingar viðurkenna þjóðerni sitt erlendis nú um stundir - ef þeir þora því á annað borð - fá þeir glósur um að við séum þjófar og glæpamenn. Ekki er talað lengur fallega um land og þjóð, bara minnst á hrunið og spurt af hverju ekki sé enn búið að handtaka neinn fyrir að ræna þjóðina. Fyrir að rýja hana inn að skinni - ekki aðeins af fé heldur líka sjálfsvirðingu, stolti og reisn. Og við spyrjum líka: "Af hverju? Hvað dvelur réttlætinu?"
Stundum finnst mér ég vera eins og dýr í búri. Ég æði um, öskra svolítið á blogginu, en finnst ég vera innilokuð á svo margan hátt. Kefluð með hendur bundnar í skuldafangelsi og sé ekki ennþá von um betra líf eða réttlæti, almenningi til handa. En svo las ég lítið ljóð í nýútkominni ljóðabók eftir Eyþór Árnason, hið kunna ljúfmenni sem fékk verðlaun Tómasar Guðmundssonar á þriðjudaginn fyrir sitt fyrsta verk. Ljóðið heitir Dagar og það veitti mér örlitla von:
Dagar
Dagarnir eru
eins og ljón
í búri
Ég bíð í hringnum
Brátt verða
hliðin opnuð
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
19.10.2009
Fleiri "faldar" myndavélar
Ég setti inn tvö myndbönd hér sem óvíst er hvaðan eru og í hvaða tilgangi eru gerð. Það mun þó koma í ljós fljótlega, skilst mér. Sem og boðskapur þeirra. En hér er þriðja myndbandið og mér duttu strax í hug fréttirnar um aðbúnað erlendra farandverkamanna þegar gróðærið stóð sem hæst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.10.2009
Álverin og auðlindin
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)