Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Draumsýn einfeldningsins

Eftir að bankarnir hrundu og ríkið tók þá yfir (munið að við erum ríkið) hélt ég að auðvelt yrði að virða vilja og ákvarðanir ríkisstjórnar og ráðherra. Ég hélt að loforð þeirra og fögur orð um að hjálpa skuldsettum almenningi og heimilunum í landinu yrðu efnd. Meðal annars í þeim tilgangi að fólk yrði ekki gjaldþrota í hrönnum og til að hindra landflótta.

Ég hélt líka að tekið yrði hart á útrásardólgum og fyrirtækjum, þar sem óbeisluð græðgi hafði verið í fyrirrúmi. Þar sem tekin höfðu verið alls konar lán, eignir veðsettar upp í rjáfur og peningunum, afrakstri græðginnar, jafnvel í einhverjum tilfellum stungið í vasa stjórnenda eða eigenda fyrirtækjanna og komið fyrir í skattaskúmaskotum.

Þetta virðist hafa verið draumsýn einfeldningsins.

Allir vita um kröfu eða ósk Björgólfsfeðga um að fella niður helming af útistandandi skuld þeirra vegna kaupa á Landsbankanum áramótin 2002-2003. Og allir vita líka að krafa þeirra er enn óafgreidd í höndum m.a. Huldu Styrmisdóttur stjórnarformanns Nýja Kaupþings, dóttur Styrmis Gunnarssonar vinar Björgólfs eldri (vandi Íslands í hnotskurn). En  Morgunblaðið, DV og fleiri fjölmiðlar hafa sagt frá tveimur fyrirtækjum sem hafa flúið skuldir sínar og skilið þær eftir í gömlu bönkunum (les.: hjá okkur skattgreiðendum), en flutt eignir og verðmæti yfir á nýjar kennitölur með vitund og vilja bankanna. Semsagt - kennitöluflakk og byrjað með hreint borð, skuldlaus. Þetta eru bara tvö dæmi af... hve mörgum? Maður spyr sig...

Hér er umfjöllun Agnesar um hið dularfulla fyrirtæki Stím.
(Smellið þar til læsileg stærð fæst.)
Morgunblaðið 23. nóvember 2008

Hér segir svo DV frá kennitöluflakki eigenda Stíms, sem neita þó að Stím komi málinu við.
(Smellið þar til læsileg stærð fæst.)

DV 10. júlí 2009

Hér segir Agnes frá fyrirtækinu Soffaníasi Cecilssyni á Grundarfirði og gríðarlegri skuldsetningu þess.
(Smellið þar til læsileg stærð fæst.)

Morgunblaðið 31. maí 2009

Og hér segir frá kennitöluflakki Soffaníasar Cecilssonar og hvernig þeir komu sér undan skuldum.
(Smellið þar til læsileg stærð fæst.)

Morgunblaðið 14. júní 2009

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar, spurði viðskiptaráðherra á Alþingi í gær um kennitöluflakk með vitund og vilja bankanna. Ráðherra sagði engar reglur til um slíkt flakk, en að kennitöluskipti væri oft eðlileg leið til að bjarga verðmætum og tryggja áframhaldandi rekstur.

Þetta er athyglisvert svar - bjarga verðmætum - í ljósi fréttar sem birtist í Morgunblaðinu í morgun og sagði frá hjónum í fjárhagsvanda sem fengu enga fyrirgreiðslu hjá bankanum sínum. Þeirra saga er ekki frábrugðin allmörgum sögum sem ég hef heyrt og er gjarnan ástæða þess að fólk hefur flúið land.

Ég má til með að spyrja í þessu samhengi hvernig við metum verðmæti. Hvað eru verðmæti? Ég hefði haldið að gríðarleg verðmæti fælust í fólkinu sjálfu og því mikilvægt að koma málum þannig fyrir að það geti lifað hörmungarnar af. En svo virðist ekki vera. Verðmætin felast í fyrirtækjunum og eigendum þeirra, ekki almenningi. Hann má éta það sem úti frýs og borga síðan skuldir fyrirtækjanna.

Vissulega er mikilvægt að fyrirtæki geti lifað af til að veita fólki atvinnu. En það er gagnslaust að bjarga fyrirtækjunum ef fólkið sem á að vinna hjá þeim hefur flúið land. Er ekki rétt að ríkisstjórnin - eða þeir fulltrúar hennar sem stjórna bönkunum - fari að taka hlutverk sitt gagnvart skuldsettum almenningi alvarlega? Að farið verði að huga að réttlætinu og grundvelli samfélagssáttmálans sem getur ekki falist í viðlíka hrópandi óréttlæti. Er ekki tímabært að endurskoða verðmætamatið?

Morgunblaðið í dag -  Hjón fá enga lausn í bankanum.
(Smellið þar til læsileg stærð fæst.)

Morgunblaðið 14. júlí 2009


Svikamyllan á Suðurnesjum

Í mars 2008 skrifaði ég pistil með þessari sömu fyrirsögn, Svikamyllan á Suðurnesjum. Í pistlinum fór ég yfir svikamyllu Árna Sigfússonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, forkastanleg vinnubrögð hans og endalausar blekkingar. Næsti pistill, Sjónarspil eða svikamylla - breytir engu, var beint framhald af hinum fyrri.

Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf.Enn er Árni Sigfússon í blekkingarleik, en nú snýst málið um að redda rassinum á sjálfum sér, pólitískri framtíð sinni og þar með öllum launuðu bitlingunum. Og væntanlega buddu nokkurra vina í hópi útrásardólga - á kostnað Reyknesinga og annarra Íslendinga. Árni er búinn að fara illa með fjárhag Reykjanesbæjar og bæjarfélagið mun vera ansi illa statt. Hann seldi t.d. húseignir bæjarins inn í Eignarhaldsfélagið Fasteign, þar sem hann  situr sjálfur sem stjórnarformaður. Nú þarf Reykjanesbær að borga stórfé í leigu mánaðarlega til Fasteignar sem, þrátt fyrir fögur fyrirheit, mun vera í miklum fjárhagskröggum og hefur ekki staðið við skuldbindingar sínar eins og sjá má t.d. hér og hér.

Fasteign ehf. var, eins og sjá má í tilvísuðum fréttum, í samkrulli við gamla Glitni banka, sem lánaði Fasteign 100 milljónir af peningum Reykvíkinga án leyfis borgarstjórnar. Sjóður í vörslu Glitnis var líka annar af stærstu hluthöfunum í hugarfóstri útrásardólganna í Geysi Green Energy, sem er á brauðfótum en ætlar samt í milljarðaviðskipti við Árna fyrir hönd Reykjanesbæjar. DV fjallaði um tengsl manna og völdin í Geysi Green hér. Það er ekki bara mér sem finnst skítalykt af málinu - og það stæk. Ég hélt satt að segja að REI-málið hefði verið mönnum víti til varnaðar. Sjálfri finnst mér þetta lykta af spillingu þar sem nokkrir félagar ætla að maka krókinn. Annað eins hefur nú gerst undanfarin ár.

Nokkuð hefur verið skrifað um þessar sjónhverfingar bæjarstjórans og vina Árni Sigfússon, Ásgeir Margeirsson, Böðvar Jónsson, Júlíus Jónssonhans í blöð og netmiðla. Ég tók saman nokkur sýnishorn r og birti samanklipptar sjónvarpsfréttir um málið hér og vísaði í vefsíður og skrif annarra um málið.

Nýjasti farsinn í svikamyllunni á Suðurnesjum er, að bæjarstjórinn boðar til íbúafundar eða borgarafundar í Reykjanesbæ. Fundurinn er boðaður í gærmorgun - á sunnudagsmorgni og er strax í kvöld, mánudagskvöld. Fyrirvarinn er enginn. Þá á að "kynna" fyrir íbúum Reykjanesbæjar eina stærstu og mikilvægustu ákvörðun sem tekin hefur verið fyrir þeirra hönd - framsal orkuauðlindarinnar á Reykjanesi, sem ætti að vera þjóðareign, til a.m.k. 65 ára með mögulegri framlengingu um önnur 65, eða til 130 ára. Það er heil öld og 30 ár að auki! Fimm kynslóðir! Hinir heppnu, sem eiga að fá að græða á auðlindinni, eru Geysir Green Energy og kanadíska fyrirtækið Magma Energy. Útrásardólgar og erlendir fjárfestar (eða leppar innlendra?).  Var frekari einkavæðing auðlindanna inni í hugmyndum Íslendinga um Nýja Ísland? Ekki minnist ég þess.

Og bæjarstjórinn er ekkert að spá í jafnvægið í málflutningnum. Framsögumenn eru 5, þar af Árni og fjórir félagar hans og skoðanabræður - en aðeins einn maður sem er andsnúinn gjörningnum. Meðmælendurnir, auk Árna, eru Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green, Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku og Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs og aðstoðarmaður Árna Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra. Andmælandi einkavæðingarinnar og framsals orkuauðlindanna á fundi bæjarstjórans er aðeins einn, Guðbrandur Einarsson. Er þetta lýðræðishallinn í Reykjanesbæ í hnotskurn?

Íbúar Reykjanesbæjar eru engir kjánar. Þeir hljóta að vera farnir að sjá í gegnum grímu og fagurgala  bæjarstjórans og taglhnýtinga hans. Þessir menn eru ennþá fastir í frjálshyggju-einkavæðingarbrjálinu og sjást ekki fyrir. Það verður að  stöðva þá áður en þeim auðnast að glata auðlindum Reykjaness og ofurselja íbúa þess óþekktum, gráðugum fjárfestum. Er ekki komið nóg af slíku á Íslandi? Ég skora á alla Reyknesinga - og aðra Íslendinga - að fjölmenna á íbúafund bæjarstjórans og stöðva þessa fásinnu.

Ég fékk leyfi Guðbrands Einarssonar til að birta grein eftir hann úr prentútgáfu Víkurfrétta 2. júlí sl. Lesið það sem Guðbrandur hefur fram að færa:

***********************************

Skemmdarverk
-fyrir hverja vinna sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ

Í fréttatilkynningu sem komin er fram segir að Reykjanesbær og Geysir Green Energy eigi nú í viðræðum um kaup bæjarins  á landareignum og auðlindum HS Orku til  að tryggja að auðlindin verði í opinberri eigu eins og segir í svo fallegum orðum í  þessari fréttatilkynningu. Ef að þetta væri nú eini tilgangur viðræðnanna milli þessara aðila væri manni rótt, en á bak við þennan fagurgala á að ráðast í milljarða viðskipti með eignarhluti sem munu hafa afdrifaríkar afleiðingar marga áratugi fram í tímann eða á maður kannskiGuðbrandur Einarsson að segja um aldir.

Auðlindir í okkar eigu?
Reykjane
sbær ætlar að kaupa landið sem hefur að geyma þær auðlindir sem Hitaveitan hefur verið að nýta og hefur verið í hennar eigu. Fyrir það ætlar Reykjanesbær að borga tólfhundruð milljónir króna. Til þess að þetta nái fram að ganga ætla þessir snillingar sem þessu stjórna að gefa út skuldabréf til 10 ára með 5% vöxtum. Greiðslur af slíku skuldabréfi myndu, í 5 % verðbólgu, verða frá 150 milljónum upp í 230 milljónir á ári.

Mikil ánægja virðist ríkja meðal sjálfstæðismanna með að við skulum geta haft 50 milljónir upp í þetta með leigutekjum af auðlindunum, en hvar ætla sjálfstæðismenn að taka mismuninn svo að hægt verði að standa í skilum? Ætla þeir kannski að hækka leikskólagjöld?

Kaup á landi er feluleikur
Að minni hyggju er sala á þessu landi til Reykjanesbæjar ekkert nema feluleikur. Það stendur til að gera samning við GGE um að þeir hafi nýtingarréttinn á auðlindunum í 65 ár og því til viðbótar hafa þeir (eða þeir sem eiga allt dótið á þeim tíma) rétt til þess að framlengja í 65 ár í viðbót. Við Suðurnesjamenn ætlum því að afsala okkur nýtingarrétti á auðlindum okkar til einkaaðila í a.m.k 130 ár. Var það nokkuð til umræðu á þeim íbúafundum sem bæjarstjóri stóð fyrir nýverið?

Hvernig á svo að borga fyrir herlegheitin?
Skv. framkomnum upplýsingum er meiningin að borga fyrir allt þetta með eftirfarandi hætti. Þrír milljarðar eiga að koma í peningum. Skv. upplýsingum sem ég hef undir höndum, er gert ráð fyrir að sú greiðsla geti verið að berast fram á næsta ár. Svo ætlum við Reyknesingar að kaupa meira í HS veitum fyrir u.þ.b 4 milljarða af GGE.

En ég verð að spyrja að því hvers vegna í ósköpunum ættum við að greiða 4 milljarða til þess að eignast meira í HS veitum sem er fyrirtæki sem sér um dreifingu á orku og vatni  til margra byggðarlaga. Nægir ekki að eiga þriðjung í því fyrirtæki eins og við eigum nú? Eða er að koma í ljós það sem ég hef áður sagt að verið sé að koma því þannig fyrir að við munum að endingu eiga bara rörin?

Skuldabréf fyrir restinni
Meiningin er síðan að gefa út skuldabréf fyrir restinni. Það skuldabréf á
Jarðorkuvirkjunsamt ekki að vera á sömu vöxtum og við verðum að greiða vegna landakaupanna heldur mun GGE njóta betri kjara í viðskiptum sínum við okkur heldur en RNB við þá. Það má síðan spyrja að því hverjum Reykjanesbær ætlar að lána 6 milljarða til 7 ára.

Er um stöndugt fyrirtæki að ræða sem líklegt er að muni vaxa og dafna í framtíðinni? Eftir því sem ég best veit stendur GGE á brauðfótunum einum. Þeir aðilar sem stóðu að fyrirtækinu eru annað hvort orðnir gjaldþrota eða komir í greiðslustöðvun. Eru einhverjar líkur á því að staðið verði við þessar skuldbindingar nema því aðeins að erlendir aðilar eignist GGE að stórum hluta eða öllu leyti og þá um leið nýtingarréttinn til orkuöflunar á  Suðurnesjum til næstu 130 ára. Ég vissi ekki betur en að þeir Geysismenn hefðu viljað eignast lítinn hlut í Hitaveitunni svona til þess að geta sýnt hana í útrásinni sem þeir ætluðu sér að leggjast í. En nú virðist ekkert annað eftir hjá þeim en að leggja undir sig orkuhluta Hitaveitu Suðurnesja með dyggri aðstoð Árna Sigfússonar bæjarstjóra í Reykjanesbæ.

Eignir Reykjanesbæjar að klárast
Það eru margir til að spyrja hvort ekki sé réttlætanlegt að selja við þessar aðstæður sem nú eru í efnahagslífi þjóðarinnar. Það er auðvitað gild spurning, en ég vil leyfa mér að spyrja á móti hvort  það sé ásættanlegt að núverandi meirihluti sem ráðið hefur ríkjum í Reykjanesbæ frá árinu 2003, skuli leyfa sér að ganga svona á eigur bæjarins. Þess er skammt að bíða að eigið fé sveitarfélagsins, sem orðið hefur til með sparnaði undangengna áratugi verði uppurið, vegna algjörs getuleysis  þessara aðila til þess að hafa heimil á útgjaldafýsn sinni.

Hvaða leyfi hafa þeir gagnvart komandi kynslóðum til þess setja sveitarfélagið í þessa stöðu?  

Nýtt REI-mál í uppsiglingu
Þessir aðilar sem nú höndla með eignir Reykjanesbæjar höfðu aðkomu að REI málinu svokallaða á sínum tíma. Bæði bæjarstjórinn í Reykjanesbæ og forstjóri GGE sátu við hringborðið og véluðu um að Hitaveita Suðurnesja færi inn í REI. Sem betur fer stöðvuðu Reykvíkingar það. Nú er hins vegar annað REI-mál í uppsiglingu komið af stað með hluta leikenda úr því leikriti. Verður þetta keyrt í gegn án þess að íbúar hafi eitthvað um þetta að segja? 

Var það þetta sem sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ buðu uppá í síðustu kosningum?

Guðbrandur Einarsson
oddviti A-listans í Reykjanesbæ


VARÚÐ - Nýtt REI-mál í uppsiglingu!

Öðrum pistlinum mínum var útvarpað í gærmorgun á Morgunvaktinni á Rás 2. Sá fyrsti er hér. Aftur kom athugasemd frá tæknimanni eftir prufurennsli: "Þú ert ekki að flytja þetta í fyrsta sinn, er það?" Nei, ég hafði rennt yfir þetta heima með vinkonu mína í símanum og skeiðklukku til að tímamæla. Var innan tímamarka í fyrstu tilraun og ánægð með það. Tæknimanninum fannst flutningurinn leikrænn, kannski af því mér er mikið niðri fyrir.

Morgunvaktin á Rás 2

Kjarni pistilsins er einkavæðing og útsala orkuauðlindanna okkar. Spilltir stjórnmálamenn að reyna að redda eigin klúðri og þeir halda áfram að hygla sér og sínum. Útrásarauðjöfrar eru enn á ferðinni - í dulargervi að því er virðist. Ég er búin að skrifa nokkra pistla undanfarið um auðlindamálin, virkjanirnar og náttúruna, auk fjölmargra pistla 2007 og 2008. Við verðum að vera vel vakandi og standa vörð um aleigu okkar, náttúruna og auðlindir hennar. En hér er pistillinn - hljóðskrána hengi ég neðst í færsluna fyrir þá sem vilja hlusta líka:

*****************************

Ágætu hlustendur...

The best way to rob a bank is to own one - William K. BlackÉg ætla ekki að tala um hin stórfelldu, meðvituðu og skipulögðu bankarán sem framin voru á Íslandi. Bankaránin, sem framin voru innan frá af eigendum og stjórnendum bankanna með vitund, vilja og jafnvel aðstoð handónýtra embættismanna og spilltra stjórnmálamanna. Bankarán, sem við - almenningur og skattgreiðendur á Íslandi - þurfum nú að bera skaðann af, meðal annars í formi hærri skatta, verðhækkana og skertrar þjónustu.

Bankaránin, sem ég ætla ekki að tala um, eru líkast til einu bankarán mannkynssögunnar þar sem vitað er hverjir bankaræningjarnir eru, en þeim leyft að lifa í friði og vellystingum praktuglega fyrir ránsfenginn, án þess að hróflað sé við þeim eða reynt að gera téðan ránsfeng upptækan. Enda líklega löngu búið að koma honum í öruggt skjól. Til þess hafa ræningjarnir haft nægan tíma.

Ég ætla heldur ekki að tala um öll hin ránin sem framin hafa verið undanfarin ár. Til dæmis rán, þar sem gráðugir fjárhættuspilarar keyptu gamalgróin fyrirtæki - sum með digrum sjóðum. Fjárhættuspilararnir ryksuguðu úr þeim hvern eyri til að leika sér með á alþjóðlegum testosterón-mörkuðum þar sem keppnin um hver átti dýrustu einkaþotuna, snekkjuna eða glæsihöllina hljóp með menn í gönur. Og enn borgum við brúsann, íslenskur almenningur.

Ég ætla ekki að minnast á minni ránin, sem eru þó ekki síður alvarleg. Ránin, þar sem fólk svindlar á náunganum - til dæmis með því að svíkja undan skatti eða þiggja atvinnuleysisbætur þrátt fyrir að vera í fullri vinnu... á svörtu. Á Íslandi hefur alltaf þótt svolítið  flott að svíkja undan skatti eða spila á kerfið - sjálfum sér til framdráttar. Sá sem dáist að slíkum svikum áttar sig líklega sjaldnast á því, að svikarinn er um leið að leggja þyngri byrðar á hann, náungann. Heiðarlega manninn sem er kannski svo heppinn - eða óheppinn, það fer eftir hugarfari og siðferði - að geta ekki svikið undan skatti eða spilað á kerfið sjálfur. Fólk verður að átta sig á, að við erum ríkið. Sá sem stelur af ríkinu stelur af okkur.Útrásarauðmenn og bæjarstjórinn

Nei, ég ætla að tala um annars konar rán og engu skárra. Rán á ómetanlegri náttúru okkar og auðlindum, hvort sem er í formi jarðhita, fallvatna eða hreina og tæra vatnsins okkar. Auðlindirnar eru aleiga okkar Íslendinga og við verðum að standa vörð um þær. Okkur ber skylda til að varðveita aleiguna fyrir komandi kynslóðir.

Á Suðurnesjum stendur nú bæjarstjóri nokkur fyrir einkavæðingu auðlinda og sölu á þeim til innlendra og erlendra gróðapunga. Hann er búinn að klúðra fjármálum sveitarfélagsins, vantar pening og þarf að redda sér fyrir kosningarnar á næsta ári. Það hvarflar ekki að mér að kanadíski jarðfræðingurinn, sem auðgaðist gríðarlega á silfurnámum, meðal annars í Suður-Ameríku, ætli að fjárfesta í jarðorkufyrirtæki á Íslandi sér til ánægju og yndisauka. Ó, nei, maðurinn ætlar að græða á auðlindinni okkar og stinga gróðanum í eigin vasa. Og hinir kaupendurnir líka.

Nýtt REI-mál virðist vera í uppsiglingu á Suðurnesjum. Spilltir stjórnmálamenn og aðrir gráðugir siðleysingjar ætla að selja auðlindina okkar í hendur manna, sem hugsa um það eitt að græða peninga - og við borgum brúsann. Erum við til í það - enn og aftur?

Íslendingar verða að ákveða sig. Viljum við eiga, nýta og njóta arðsins af auðlindum okkar sjálf - eða viljum við láta innlenda eða erlenda gróðapunga og fjárglæframenn arðræna okkur?

Okkar er valið.

***************************

Hér er svo að lokum úrklippa úr 24 stundum frá 12. október 2007 - til umhugsunar.

Útrásin er áróður - 24 stundir - 12. október 2007


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Eru auðlindirnar okkar ekki sexí?

Óþekktur hverUm daginn var ég að ræða við mann sem er vel heima í fjölmiðlabransanum og hann sagði að það væri erfitt að gera auðlindamálin okkar sexí. Þetta þýðir einfaldlega að fjölmiðlar eiga erfitt með að fanga athygli fólks og áhuga á sumum málum. Þeirra á meðal er málið sem ég ætla að fjalla um - og mér finnst alveg rosalega sexí. Enda hef ég skrifað um það óteljandi pistla og kafað djúpt í þau mál. Þið ráðið hvort þið lesið áfram, en ég fullvissa ykkur um að mál af þessum toga skiptir okkur öll alveg gríðarlega miklu máli. Einmitt þess vegna geta þau ekki verið annað en sexí.

Áður en lengra er haldið tek ég fram að frásögnin sem hér fer á eftir er mín eigin túlkun á atburðum. Ég styðst við þær upplýsingar sem fram hafa komið í fjölmiðlum, ýmsar vefsíður, blogg og annað tiltækt efni. Ég tel mig hafa lært á reynslu undanfarinna mánaða og dreg miskunnarlaust ályktanir út frá þeirri reynslu og þeim heimildum sem ég hef og finn.

Við munum flest eftir REI-málinu frá haustinu 2007. Sjálfsagt dæsa margir bara við tilhugsunina því málið var svo stórt og flókið og mikið um það fjallað á sínum tíma að maður var kominn með upp í kok og botnaði orðið ekki neitt í neinu. En svo skýrðist málið betur þegar frá leið og mjög upplýsandi fréttaskýring birtist í Morgunblaðinu 4. nóvember 2007 sem ég hef birt tvisvar hér á blogginu, síðast hér. Í næstu færslu á eftir birti ég samanklippta fréttaumfjöllun um málið sem skýrir það enn betur.

Einhvern veginn á maður betra með að átta sig á málinu núna, eftir allt sem hefur gengið á. Persónur, leikendur og hlutverk þeirra í farsanum eru í stórum dráttum þannig: Spilltir stjórnmálamenn ætluðu að afhenda útrásardólgum orkuauðlindirnar okkar á silfurfati og allir ætluðu að græða feitt. Skítt með þjóðina og afkomendur okkar. Auðvitað er þetta einföldun,  málið er flókið. Fólk verður að kynna sér það og draga eigin ályktanir.

Nú virðist nýtt REI-mál vera í uppsiglingu sem verður að stöðva í einum grænum. Fleira skiptir máli en Icesave, ESB og skuldaniðurfelling Björgólfsfeðga.

HS OrkaÞegar REI-málið var í bígerð var Geysir Green Energy stofnaðHS Veitur og það keypti þriðjung í Hitaveitu Suðurnesja í júní 2007, en gríðarlega mikill jarðhiti er á Reykjanesskaganum. Til stóð hjá auðmönnunum að sameina GGE og REI en sá gjörningur varð aldrei að veruleika. Þeir ætluðu nefnilega að leggja undir sig auðlindirnar á öllu suðvesturhorninu, útrásarsnillingarnir.

Nú hefur Hitaveitu Suðurnesja verið skipt í HS Orku og HS Veitur. Í grófum dráttum má segja, að HS Orka sjái um orkuframleiðsluna og söluna en HS Veitur um dreifinguna og vatnið. Það er semsagt Orkan sem nýtir auðlindina og framleiðir en Veitan sér bara um að dreifa afurðinni, þ.e. rafmagninu og vatninu. Peningarnir - gróðinn - eru í framleiðslunni og sölunni. Þess vegna er verið að braska með HS Orku. Eignarhald HS Orku er nú svona:

HS Orka - eignarhald

Og hverjir eru að braska með auðlindina? Jú, bæjarstjórinn í Reykjanesbæ - sjálfstæðismaðurinn snoppufríði sem er búinn að koma bænum sínum í stórfelld fjárhagsvandræði - og Geysir Green Energy, fyrirtæki í óljósri einkaeigu hvers forstjóri getur ekki gefið upp fjárhagsstöðu fyrirtækisins (sjá fréttaviðtal hér að neðan) en hermt er að GGE sé í gjörgæslu bankanna og sé mun minna virði en forstjórinn vill vera láta (sjá grein hér). Forstjórinn segir eitt, endurskoðendur allt annað.

Eigendur GGE eru þrír: Atorka (41%), Glacier Renewable Energy Fund - í umsjón Íslandsbanka (40%) og Mannvit sem hét áður VGK (9%). Við höfum væntanlega öll lært í vetur að kanna hvað býr að baki svona upplýsingum. Á vefsíðu Atorku eru taldir upp 20 stærstu hluthafarnir miðað við 30. júní 2009:

20 stærstu hluthafar í Atorku

Þarna eru m.a. talin upp þræltraust fyrirtæki eins og FL Group og Landsbankinn í Luxembourg, nú ríkisbankinn Nýi Glitnir (væntanlega Íslandsbanki eftir nýjustu breytingar) og Sameinaði lífeyrissjóðurinn sem mun hafa tapað töluverðum fjárhæðum á áhættufjárfestingum. Samkvæmt frétt í AtorkaViðskiptablaðinu frá 16. október sl. var Atorka afskráð úr Kauphöllinni og hafði verðmæti félagsins þá lækkað um 90% frá áramótum. Í fréttinni er rætt við Þorstein Vilhelmsson, sem yfirgaf Samherja fyrir nokkrum árum með nokkur hundruð milljónir upp á vasann. Féð var afrakstur sölu annarrar auðlindar landsmanna, fiskjarins í sjónum, sem Þorsteinn og félagar hans í Samherja höfðu fengið endurgjaldslaust eða -lítið þegar sú auðlind var einkavædd. Mér var sagt af fróðum að flest félög á ofangreindum hluthafalista Atorku væru að meira eða minna leyti í eigu Þorsteins.

Engar upplýsingar er að fá á vefsíðu Íslandsbanka um eigendur eða hluthafa í Glacier Renewable Energy Fund. Ef einhver getur veitt upplýsingar um þann sjóð væru þær vel þegnar.

DV var með umfjöllun um þetta mál sl. föstudag og þar er sagt að Finnur Ingólfsson sé meðal hluthafa Mannvits. DV fann semsagt Finn enda er blaðið er aftur með stórfróðlega umfjöllun um málið í dag og þar er sagt að S-hópurinn alræmdi fari með völd í Geysi Green þrátt fyrir minnihlutaeign.

Svo er komið inn í myndina kanadískt fyrirtæki, Magma Energy, sem sagt Magma Energyer að hafi áhuga á að kaupa hlut í HS Orku. Forstjóri Magma er jarðfræðingurinn Ross Beaty, sem auðgaðist gríðarlega á silfurnámum, m.a. í Suður Ameríku. Hann stofnaði fyrirtækið í byrjun árs 2008, svo það er ekki nema eins og hálfs árs. Engin reynsla komin á starfsemi þess og siðferði stjórnenda í umgengni við jarðhitaauðlindir. Hér má sjá umfjöllun Bloomberg um hlutafjárútboð Magma í júní, sem var það stærsta í Kanada í 13 mánuði.

Eins og gefur að skilja, og allir Íslendingar ættu að vera með á hreinu eftir uppljóstranir undanfarinna 9 mánaða, kaupir kanadískt fyrirtæki sig ekki inn í jarðorkufyrirtæki á Íslandi nema til þess að græða á því og það rækilega. Forsvarsmenn GGE og Reykjanesbæjar fagna ógurlega, því þá vantar aur í kassann til að bjarga eigin skinni.

Í nóvember sl. var stofnað nýtt ráðgjafafyrirtæki, Arctica Finance. Eins og sjá má á þessari frétt eru stofnendur þess fyrrverandi starfsmenn gamla Landsbankans. Traustvekjandi? Fyrirtækinu var falið að selja hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku eins og sjá má t.d. hér. Engar hömlur - hvað sem það þýðir.

Gallinn er bara sá að verið er að braska með auðlindir þjóðarinnar og einkavæða þær. Það gildir einu hvort auðlindin sé formlega í umsjón einhvers sveitarfélags - auðlindirnar okkar eru og eiga ávallt að vera sameign þjóðarinnar og spilltir stjórnmálamenn og aðrir siðlausir gróðapungar hafa ekkert leyfi til að selja innlendum eða erlendum fjárglæframönnum afnot af henni margar kynslóðir fram í tímann.

Til allrar hamingju eru fjölmiðlar á verði... sumir og upp að vissu marki. Og sumum fjölmiðlamönnum finnst þessi mál nógu sexí til að fjalla um þau. Fremstir í flokki eru Þórður Snær Júlíusson á Mogganum, sem hefur staðið vaktina með sóma, Jóhann Hauksson á DV og Hallgrímur Indriðason, Guðfinnur Sigurvinsson og Björn Malmquist á RÚV. Ég hef safnað saman greinum um þetta mál úr DV, Mogganum, mbl.is og 24 stundum hér og klippt saman fréttaumfjöllun RÚV - auk einnar fréttar á Stöð 2. Bloggararnir Hannes Friðriksson og Agnar Kristján Þorsteinsson hafa líka fjallað um þessi mál af mikilli innsýn og þekkingu.


Hagur lands og þjóðar

Aftur ætla ég að rifja upp áður en lengra er haldið. Í þetta sinn er það pistill í pistli sem ég birti 11. ágúst í fyrra undir heitinu Máttur athugasemdanna - einlægur pistill ungrar konu. Að gefnu tilefni. Pistillinn í pistlinum er verðugt umhugsunarefni þegar við íhugum hvort við kærum okkur um að láta auðlindir okkar eða nýtingu þeirra af hendi til misviturra, gráðugra einkaaðila eða óþekktra, erlendra fyrirtækja og auðhringa sem eru á höttunum eftir gróða - engu öðru. Náttúran og auðlindirnar eru aleiga okkar. Viljum við fórna þeim þjóðargersemum um ókomna tíð á altari græðgi og skammtímahagsmuna? Ekki ég.

Kjarni pistilsins í pistlinum er hagur lands og þjóðar. Ég fæ ekki séð að einkavæðing t.d. bankanna hafi skilað landi og þjóð öðru en tæknilegu gjaldþroti, versnandi lífskjörum, skömm og svívirðu. Eða hvað? Ég hef ekki heldur orðið vör við að einkavæðing hafi lækkað verð eða bætt kjör neinna annarra en gráðugra manna sem svífast einskis í ásókn sinni í peninga, sjálfum sér til handa. Skítt með hag lands og þjóðar. En hér er pistillinn í pistlinum eins og hann var birtur í ágúst 2008.

*********************************

Á þessum níu mánuðum sem ég hef bloggað hafa verið skrifaðar ótalmargar, stórkostlegar athugasemdir við pistlana mína. Sumar langar, aðrar stuttar en svo innihaldsríkar margar hverjar að þær ættu heima sem sjálfstæðir pistlar. Svo dettur maður stundum inn á pistla annarra sem skrifa athugasemdir við manns eigin - og þannig var það í þessu tilfelli.

Þann 28. júní sl. skrifaði ég pistilinn Var "Fagra Ísland" tálvon eða blekking? og birti þar myndband sem ég hafði klippt saman. Örstutt athugasemd við hann leiddi mig áfram að þessum sem ég birti hér. Ég ætlaði að birta hann fyrir löngu og fékk leyfi höfundar, en tíminn hefur hlaupið ansi hratt í sumar og annir verið miklar svo ég er núna fyrst að drífa í þessu.

Dagný ReykjalínHöfundur pistilsins er ung kona, Dagný Reykjalín. Í tölvupósti sem hún sendi mér þegar ég bað um leyfi til að birta pistilinn sagði hún m.a.: "Þessi grein er reyndar skrifuð út frá sjálfri mér og minni túlkun á þessari kynslóð og því hvernig ég þekkti afa minn. Ég er ekki að reyna að leggja honum orð í munn og ég vona að enginn túlki það þannig. Það er hins vegar hollt að hugsa til þess hvernig kynslóðin sem byggði landið hugsaði um framtíðina og horfa svo á það hvernig við erum að fara með hana."

En pistill Dagnýjar, sem eins og sjá má er skrifaður daginn eftir náttúrutónleika Bjarkar og Sigur Rósar, hljóðaði svona:

Framtíðin sem byggir á fortíðinni

Ég vaknaði eldsnemma í býtið, allt var með kyrrum kjörum hérna heima en ég gat ekki sofnað aftur. Tónleikarnir í gærkvöldi voru í fersku minni, ég fylgdist með þeim á netinu. Tónlistin var frábær, stemmningin greinilega skemmtileg en mér fannst samt pínulítið vanta uppá að þau segðu milli laga hver áherslan í baráttunni væri. Kannski var nægur áróður á staðnum sem skilaði sér ekki yfir netið, og líklega voru þessi 30.000 manns nokkuð viss á málstaðnum. En árla morguns fór ég eitthvað að hugsa, og setti saman þessa færslu:

Afi minn var Haraldur Guðmundsson, rafvirki á Dalvík. Hann var maður síðustu aldar, einna mestu tæknibreytinga og framfara í Íslandssögunni. Hann var fæddur í Skagafirði þann 28. apríl 1920, menntaður í Iðnskólanum á Akureyri og var um tíma kallaður Halli Edison fyrir færni sína við að gera við ýmis rafmagnstæki.

Hann var samtímamaður Halldórs Laxness og um tíma herbergisfélagi Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Hann var sjálfstæðismaður í gegn enda sjálfstæðisbarátta Íslendinga í algleymi á mótunarárum hans. Sjálfstæðisbaráttan snerist um að vera óháður skilningssljóu yfirvaldi og það að nýta krafta einstaklingsins í þágu allrar þjóðarinnar. Í þá daga var þjóðernishyggjan nauðsynleg í baráttunni fyrir sjálfstæði.

Í sjálfstæðisbaráttunni endurspeglaðist stolt yfir náttúrunni og auðmýkt yfir kröftum hennar. Þegar við náðum að tendra rafmagnsljós komumst við út úr vetrarmyrkrinu og þar var einn sigur á náttúrunni unninn. Margir sigrar fylgdu í kjölfarið; heita vatnið úr jörðinni kynti húsin okkar og betri farartæki gerðu okkur kleift að klífa fjöll og sigla firði. Maðurinn vann sífellt nýja sigra á annars ógnarvaldi náttúrunnar. Þetta ógnarvald bar með sér óttablandna virðingu.

Gullfoss á frímerkiHalli afi var virkjunarsinni af gamla skólanum. Á ferðum sínum um landið mat hann ár og vatnsföll í megavöttum, sama hversu litlar sprænurnar væru. Hann starfaði m.a. við að reisa Blönduvirkjun á sínum tíma og virkjaði einnig bæjarlækinn sem enn í dag veitir æskuheimili hans orku til daglegra starfa. Öll nýting á landsins gæðum átti hins vegar að fela í sér virðingu fyrir náttúrunni og öflum hennar. Þess vegna var hann ekki síður ákaflega mikið og einlægt náttúrubarn, og jafnvægi í náttúrunni var honum mikilvægt. Það fól í sér hógværa nýtingu. Hann var veiðimaður, sem lá bæði á greni í marga sólarhringa til að vernda fuglavarpið og veiddi hæfilegt magn af rjúpu í jólamatinn.

Ég er sannfærð um að þrátt fyrir að Halli afi hafi verið hlynntur því að nýta náttúrunnar gæði fyrir fólkið í landinu þá gæti hann í engu móti samþykkt svo gerræðislegar framkvæmdir sem framundan eru.

Í fyrsta lagi vegna þess að þær hafa ekki þjóðarhag að leiðarljósi heldur þjóna fyrst og fremst fjárhagslegum hvötum alþjóðlegra stórfyrirtækja sem í eðli sínu leita þangað sem orkan er ódýrust. Það þýðir að íslenska þjóðin fær eins lítið og mögulegt er fyrir orkuna en fórnar því sem er henni verðmætast af öllu, því sem mótaði sjálfsmynd hennar.

Í öðru lagi vegna þess að þær sýna hvorki hógværð né virðingu fyrir íslenskri náttúru eða landslagi. Frá hinu stærsta til hins smæsta.

Í þriðja lagi vegna þess að þær rýra framtíðarmöguleika komandi kynslóða og binda þær til þjónustu við alþjóðleg stórfyrirtæki sem eru ekki þekkt fyrir að aumka sig yfir litla manninn ef það þjónar ekki hagsmunum þeirra. Hvers vegna ættum við að vera eitthvað öðruvísi í þeirra augum en aðrir, annarsstaðar í heiminum.

Þegar ég hugsa um öll þau ferðalög um landið sem ég fór með afa og ömmu, þar sem afi þekkti nærri hverja þúfu, skil ég betur hvernig 20. aldar þjóðin hugsaði. Við í nútímanum erum hins vegar komin langt úr takti við þennan hugsunarhátt og erum að missa tengslin við það sem mótaði okkur.

Kannski er náttúruvernd of rómantískt hugtak fyrir okkur nútímafólkið sem erum knúin áfram af efnislegum gæðum, þrátt fyrir að það hafi verið helsti drifkraftur sjálfstæðisbaráttunnar á síðustu öld og gerði okkur að því sem við erum í dag.

Halli afi lést á þjóðhátíðardaginn 17. júní árið 2000, daginn sem íslensk jörð skalf undir fótum okkar.

 --------------------------------------------------------------------

Í seinni athugasemd sinni, þegar ég var búin að svara henni, segir Dagný m.a.: "... ég er ekki í nokkrum vafa um hvað 20. aldar sjálfstæðismaðurinn hefði valið stæði hann frammi fyrir þessum spurningum núna. Hann hefði hugsað laaaangt fram í tímann, miklu lengra en það sem er verið að gera núna, og hefði hugsað um hag afkomenda sinna langt framar síns eigin.

En þetta væri samt sem áður erfitt vegna þess að krafan um praktískar skyndilausnir er svo rík. Glópagullinu er veifað framan í okkur. En við eigum ekki að hlusta á vælið í þeim sem halda því fram að allt falli hérna í eymd og volæði ef við förgum ekki Íslandi. Þeir sem hafa sterka sjálfsmynd, hafa val og kunna að forgangsraða ná að bjarga sér sjálfir. Ef við virkjum allt sem hægt er að virkja fyrir alþjóðleg stórfyrirtæki sem senda gróðann úr landi, höfum við ekki aðeins misst þetta val heldur líka fórnað því sem býr til sjálfsmyndina. Hvar verðum við þá?

Við höfum alltaf verið rík af því stoltið yfir landinu og fólkinu okkar höfum við ekki getað metið til fjár, og sennilega ekki kært okkur um það fyrr en núna. Þetta eru allt siðferðilegar spurningar eins og Stefán segir í viðtalinu góða."

Þarna í lokin er Dagný að vísa í Spegilsviðtalið við Stefán Arnórsson (sjá tónspilara) sem ég nefndi meðal annars í síðasta pistli. Á meðan við eigum ungt fólk sem hugsar og skrifar eins og Dagný er enn von.


Ólafur Hannibalsson um Icesave

Þessi grein Ólafs Hannibalssonar er afskaplega áhugaverð. Morgunblaðið birti aðeins hluta hennar í prentútgáfu sinni í morgun en greinin er í heild birt hér. Greinin Icesave-hamfarirnar í Hollandi eftir Þórð Snæ Júlíusson sem Ólafur vitnar í er hér og skýrsla Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoega, Hagkerfi bíður skipbrot, er hér. Auk þessara greina segist Ólafur hafa byggt grein sína á bókunum Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson og Sofandi að feigðarósi eftir Ólaf Arnarson.

Ólafur Hannibalsson - Icesave - Moggi 6.7.09


Við vitum þetta...

Ég veit ekki alveg hvað ég er búin að koma mér í. Samþykkti um daginn að vera pistlahöfundur hjá nýrri Morgunvakt Rásar 2... veit ekki hve lengi. Ég held bara í sumar. Ég verð með pistla á föstudögum... eða spjall. Þetta er í mótun. Orkuboltinn og kjarnakonan Lára Ómarsdóttir fékk mig í þetta og fyrsti pistillinn var tekinn upp hjá RÚV á Akureyri í gær. Bjössi tæknimaður var mjög góður við byrjandann og allt gekk eins og í sögu. Eftir prufurennslið sagði hann að þetta yrði ekkert betra svo við létum það bara standa.

Morgunvaktin á Rás 2

"NOOOHHH!", heyrði ég í heyrnartólunum þegar ég var búin að flytja pistilinn. "Hvað þýðir það?", spurði ég. "Þú tekur djúpt í árinni," sagði Bjössi. "Það er full ástæða til þess," sagði ég. En mér fannst ég ekkert taka of djúpt í árinni, síður en svo. Reyndar var ég búin að ákveða allt annað umfjöllunarefni en skipti um skoðun eftir fréttirnar á miðvikudagskvöldið.

Svo tók það mig miklu lengri tíma að stytta pistilinn en að semja hann. Mátti vera hámark 4 mínútur en upphaflegur pistill var 7 mínútur. Þegar þetta gerist - og ég hef reynslu af að reyna að stytta skrif mín úr 10-15.000 slögum í 5.000 slög sem er blaðagreinalengdin - finnst mér allt kjöt horfið af beinunum og skrifin/pistillinn vera komin(n) í einkennilegan skeytastíl. Þess vegna gafst ég upp á sínum tíma við að stytta pistlana mína og senda í dagblöðin. Ég er einfaldlega plássfrekari en leyfilegt er.

En hér er pistillinn, frumraun mín á þessum vettvangi - hljóðskrá hengd við neðst ef fólk vill hlusta líka.

************************

Ágætu hlustendur...

Íslenska efnahagsundrið - flugeldahagfræði fyrir byrjendurÉg er að lesa hryllingssögu í tíu köflum. Bókin heitir Íslenska efnahagsundrið og er eftir Jón F. Thoroddsen. Í henni er farið yfir aðdraganda íslenska efnahagshrunsins og persónur og leikendur í þjóðarharmleik Íslendinga. Þetta er skelfileg lesning og segir mikla sögu. Skúrkarnir eru margir og með sótsvarta samvisku. Spillingin, siðleysið og græðgin bókstaflega skvettist framan í mann af hverri síðu.

Önnur bók, Sofandi að feigðarósi eftir Ólaf Arnarson, var ekki síður fróðleg en sjónarhornið annað. Þriðja bókin, Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson, er samantekt sagnfræðingsins. Þessar þrjár bækur ættu að vera skyldulesning. Námsbækur í framhaldsskólum og framhaldsögur í útvarpi. Við verðum öll að vita sannleikann, þekkja forsöguna, vita hvernig á ekki að gera hlutina, hverjum má ekki treysta og læra af reynslunni. Fleiri bækur koma út með meiri upplýsingum sem við verðum að lesa til að vita sannleikann um það sem gerðist og hverjir bera ábyrgð á hruninu mikla, sem mun fylgja íslenskri þjóð um ókomna tíð og setja svartan blett á sögu hennar.

Við vitum ýmislegt nú þegar. Við vitum hvaða flokkar voru við völd. Við Sofandi að feigðarósivitum hvaða flokkar einkavinavæddu auðlindina í sjónum, bankana og fleiri fyrirtæki og stofnanir í eigu almennings. Og buðu okkur svo jafnvel að kaupa hlut í fyrirtækjunum sem við höfðum sjálf átt áratugum saman. Við vitum hvaða flokkar afnumdu höft og reglur sem gerðu spilltum og siðlausum bankamönnum kleift að setja okkur á hausinn. Við vitum hvaða flokkar prédikuðu frjálshyggju, einkavæðingu, græðgi og sérgæsku sem gróf undan réttlæti, jafnræði, samvinnu og samhjálp í þjóðfélaginu og ýtti undir misskiptingu og óréttlæti. Og við vitum að þessir flokkar hafa ekkert breyst.

Af því ég veit að við vitum þetta öll fékk ég létt áfall yfir niðurstöðu nýrrar Gallupkönnunar í fyrradag. Flokkarnir tveir, sem bera höfuðábyrgð á græðgisvæðingunni og hruninu, höfðu aukið fylgi sitt og ríkisstjórnin tapað fylgi. Erum við virkilega svona gleymin? Við vitum að leiðtogar beggja flokkanna eru auðmenn. Þeir eru líka gasprarar sem lofa upp í bæði ermar og skálmar eins og heyrist á málflutningi þeirra á Alþingi. Ég sé þá ekki fyrir mér vinna að endurheimt jafnræðis eða samfélagslegri ábyrgð í íslensku þjóðfélagi. Ég sé flokkana þeirra ekki heldur stuðla að réttlæti og alls ekki að rannsókn á hruninu. Það er af og frá. Til þess eru þeir allt of stórir leikendur í aðdraganda þess.

HruniðVið erum kannski ekki alveg sátt við núverandi stjórn. Kvörtum yfir skorti á upplýsingum og margir gagnrýna Icesave-samninginn. Fleiri atriði má nefna, eins og fáránlega sérhagsmunagæslu samgönguráðherra. En þrátt fyrir allt held ég að stjórnin sem nú situr sé skásti kosturinn. Hún er ekki öfundsverð af að taka við hrundu þjóðarbúi og skafa grómtekinn skítinn eftir fyrri stjórnir. Engar ráðstafanir eru vinsælar undir þeim kringumstæðum en látum okkur ekki detta í hug að fyrrverandi ríkisstjórnarflokkar myndu gera betur. Og núverandi stjórn virðist að auki vera alvara með að leita réttlætis - þótt hægt gangi. Réttlæti er grundvallaratriði og vegur mjög þungt. Er ekki rétt að gefa Jóhönnu og Steingrími tækifæri til að halda áfram að moka flórinn? Við vitum að þau gera það af heilum hug og leggja nótt við dag í þágu þjóðarinnar.

Ekki vildi ég vera í þeirra sporum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Orðheingilsháttur og titlíngaskítur

Halldór Laxness"Því hefur verið haldið fram að íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls." Mér komu þessi orð Halldórs Laxness úr Innansveitarkroníku í hug þegar ég skoðaði viðbrögðin við frásögn minni af útifundinum og óvæntri heimsókn til fjármálaráðherra sem ég sagði frá í síðasta pistli. Nokkrir netmiðlar fjölluðu um málið auk Bylgjunnar og bloggara.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með viðbrögðunum. Það kom mér á óvart hvað þau voru mikil og sterk. Túlkun manna er ólík og jafnvel er hártogað út og suður það, sem ég taldi einfalda og skýra frásögn. Afskaplega misjafnt hvað fólki fannst vera kjarni málsins og það finnur jafnvel engan kjarna. Kannski er hér við sjálfa mig að sakast - kannski ekki.

Ég get ekki með nokkru móti svarað öllu sem sagt hefur verið, reyni það ekki. Enda öllum frjálst að hafa sínar skoðanir og tilfinningar. Mér finnst aftur á móti verra þegar verið er að gera mér upp skoðanir og leggja mér orð í munn. Segja mig meina eitthvað sem ég hef ekki einu sinni gefið í skyn, hvað þá sagt og fráleitt hugsað. Svo er alltaf talsvert um að fólk lesi ekki einu sinni textann eða hafi svo afleitan lesskilning að ætla mætti að það hafi villst á bloggpistlum þegar það tjáir sig.

Ég kallaði þá sem mættu á fundinn hetjur. Sagði að hetjurnar hefðu mætt.  Þýðir það að allir aðrir séu gungur? Ekki aldeilis. Ég mæti t.d. sjálf ekki á útifundinn næsta laugardag. Líkast til ekki þarnæsta heldur. Er ég þá gunga? Nei, ég bara kemst ekki, svo einfalt er það. Ef maður segir að einhver sé fallegur - eru þá allir aðrir ljótir? Eða ef hópur fólks er talinn gáfaður - eru þá allir aðrir heimskir? Nei, alls ekki. Lífið er ekki svo svart-hvítt eða pólaríserað og því hef ég aldrei haldið fram. Þótt ég hafi skýrt málið enn frekar í athugasemd nr. 8 við pistilinn virðist fólk ekki hafa tekið eftir því og heldur áfram í hártogunum. Ég skrifaði ekki ósvipaða ádeilu hér - í janúar - en minnist þess ekki að hafa séð viðlíka útúrsnúninga þá. Meira að segja gáfumennið, uppáhaldið mitt og rithöfundurinn Guðmundur Andri fellur í þessa gryfju hér. Orðheingilsháttur og titlíngaskítur? Maður spyr sig...

Mikið var gert úr því, að Steingrímur J. skyldi leggjast svo lágt að fá einhvern bloggara til að birta tölvupóstana. "Lauma bréfasnifsum að Steingrímur J. Sigfússoneinstaklingum til að birta á bloggi..." Ég tek hjartanlega undir með þeim sem gagnrýna Steingrím fyrir að hafa ekki birt þá fyrr, og þá í útbreiddum fjölmiðlum bæði hefðbundnum og á netinu. Og ég spyr hvort fjölmiðlamenn hafi beðið Steingrím um skjöl máli sínu til stuðnings. Hitt er svo annað mál að Steingrímur bað mig ekki að birta póstana. Ég bað hann um að fá að birta þá. Á þessu er grundvallarmunur. Steingrímur hafði ekki hugmynd um að ég kæmi með Herði Torfa, ég tók fram í pistlinum að ég hefði verið boðflenna, svo varla var þetta vandlega undirbúið stönt eins og sumir hafa látið að liggja. Gengur þeim eitthvað til sem kjósa að mistúlka hlutina á þennan hátt? Maður spyr sig...

Einhverjir sögðu að Hörður hafi verið "tekinn á teppið". Það fannst mér bráðfyndið, sérstaklega af því það voru öfgahægrimennirnir hjá "fremsta fréttaskýringavef landsins", AMX sem sögðu það. Ég hef lært, ef ekki á langri ævi þá að minnsta kosti í ölduróti vetrarins, að spyrja sjálfa mig ævinlega: Hver segir hvað? Af hvaða hvötum? Í þágu hvaða hagsmuna? Í umboði hvaða stjórnmálaafla? Það hefur reynst mér nokkuð vel í tilraunum mínum til að skilja hina ómálefnalegu og þröngsýnu umræðu sem einkennist af... jú, einmitt... orðheingilshætti og titlíngaskít.

Að gefnu tilefni vil ég taka fram að ljósritið af tölvupóstunum sem ég fékk í hendur var með nöfnum og netföngum allra viðkomandi aðila. Ég var ekki beðin um að klippa textann þannig að þau kæmu ekki fram. Það tók ég algjörlega upp hjá sjálfri mér. Miðað við andrúmsloftið í samfélaginu óttaðist ég að fólk í slæmu jafnvægi myndi senda þessum mönnum tölvupósta með miður notalegum athugasemdum. Þótt púkanum í mér hafi fundist það bara gott á þá komst ég að þeirri niðurstöðu, að slíkt væri íslensku þjóðinni ekki til framdráttar um þessar mundir.

Það sem mér finnst einna verst við umræðuna um þennan pistil er, að þrumuræða Jóhannesar Þ. Skúlasonar virðist hafa fallið í skuggann. Hana birti ég í pistlinum en fáir virðast hafa tekið eftir henni. Ég vil því hvetja fólk til að kíkja aftur á pistilinn og lesa ræðu Jóhannesar.

Að lokum langar mig að biðja lesendur að hlusta á Krossgötuþáttinn sem ég hengi neðst í pistilinn. Þar ræða þau Páll Skúlason og Vigdís Finnbogadóttir meðal annars um skort á almennilegri rökræðu og rökræðuhefð á Íslandi, hræðslu við að ástunda gagnrýna hugsun og hættSjö töframenn - Halldór Laxnessulegt vald stjórnmálanna.

Ég lýk máli mínu með annarri tilvitnun í Halldór Laxness, lýsingu á íslensku þjóðarsálinni um aldir - að þessu sinni úr Sjö töframönnum. Ósigur ítalska loftflotans í Reykjavík 1933: "Það er álitið að fáar þjóðir hafi þolað kúgun og yfirgang af meiri kurteisi en Íslendingar. Um aldaraðir alt fram á þennan dag lifðu þeir í skilníngsríkri sáttfýsi við kúgun, án þess að gera nokkru sinni tilraun til uppreistar. Eingri þjóð var byltíngarhugtakið jafn hulið. Ævinlega voru Íslendingar reiðubúnir að kyssa þann vöndinn er sárast beit og trúa því að kaldrifjaðasti böðullinn væri sönnust hjálp þeirra og öruggast skjól."


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Útifundur og óvænt heimsókn til ráðherra

Fundurinn á Austurvelli í gær var fámennari en ég bjóst við. Og þó... Vonin dregur mann alltaf á asnaeyrunum. Af hverju ætti fólk svosem að nenna niður í bæ í klukkutíma til að berjast fyrir framtíð sinni og barnanna sinna þegar hægt er að dúlla sér í Kringlunni, Smáralind, sumarbústaðnum eða bara liggja í sófanum og horfa á sjónvarpið? Það er svo þægilegt að láta aðra um púlið og njóta bara afrakstursins. Jakkalakkarnir úr Sjálfstæðisflokki og Framsókn létu auðvitað ekki sjá sig. Svona fundir eru fyrir neðan þeirra virðingu. En hetjurnar mættu.

Fundurinn var góður og ræðurnar stórfínar. Andrea Ólafsdóttir flutti þrumuræðu með álfahúfu á höfði og litla barnið sitt í poka á maganum. Jóhannes Þ. InDefence var seinni ræðumaðurinn og flutti glæsilega tölu sem fundargestir tóku undir hvað eftir annað. Ég birti hana hér að neðan. Og hér eru fréttir kvöldsins samanklipptar. Tölum ber að sjálfsögðu ekki saman frekar en venjulega og ég heyrði að lögreglan hefði talið 100 manns.

Eftir fundinn sat stór og skemmtilegur hópur fólks á spjalli á Thorvaldsen þegar Hörður Torfa fékk upphringingu og gekk frá til að tala í símann. Kom svo og sagðist vera á leið til fjármálaráðherra sem vildi leiðrétta eitthvað sem komið hafði fram í máli Harðar og ráðherra sagði misskilning. Ég bauðst samstundis til að fara með honum og gerðist boðflenna á fundinum. Steingrími J. og Indriða H., sem hitti okkur líka, fannst það bara í góðu lagi og við sátum og ræddum við þá í hálftíma eða svo. Ég hafði hvorugan hitt áður.

Það sem þeim lá á hjarta var að leiðrétta þær fullyrðingar að Hollendingar og Bretar hafi ekkert haft á móti því að gera Icesave-samningana opinbera. Þeir sýndu okkur tölvupósta á milli Indriða H. og embættismanna í Hollandi og Bretlandi og ég bað um ljósrit af þeim til að birta úr hér máli þeirra til sönnunar. Fyrsti pósturinn er frá Indriða og er dagsettur 11. júní. Þar segir Indriði:

Indriði H. - tölvupóstur - 1

Í íslenskri snörun: "Samningurinn hefur verið ræddur í nokkrum þingnefndum og þeir hafa krafist þess að fá afrit af samningunum í hendur líka. Ég held að mjög erfitt sé að verða ekki við óskum þeirra en við myndum fara fram á trúnað. Hvað segið þið um það?" Þá kemur svar frá Bretanum, einnig frá 11. júní:

Indriði H. - tölvupóstur - 2

"Ég býð fólki gjarnan að lesa skjalið inni á skrifstofu/ í herbergi en leyfi þeim ekki að fá afrit. Það þýðir að þeir verða að segja fólki frá innihaldinu en skjalið sjálft er ekki gert opinbert. Gæti það gengið á Íslandi?" Hollendingurinn svarar ekki fyrr en 12. júní og afsakar töfina. Hann segir:

Indriði H. - tölvupóstur - 3

"Ef tillaga G (Bretans) er möguleg hreyfi ég engum mótmælum. Ég hef áhyggjur af því, að ef allt verður gert opinbert hellist yfir okkur utanaðkomandi athugasemdir sem flækja umræðuna. En ef þú telur eina möguleikann vera að opinbera samningana væri ég tilbúinn til að íhuga það. En það verður að vera ljóst að við getum ekki endursamið."

Svo mörg voru þau orð. Greinilegt er á þessum orðaskiptum að Bretar og Hollendingar vildu ekki gera samningana opinbera. Ekki einu sinni þingmönnum, hvað þá þjóðinni. Hvað gerðist milli 12.  og 17. júní þegar hollensku útgáfunni var lekið í fjölmiðla veit ég ekki. Ef áhugasamir koma með spurningar í athugasemdum er mögulegt að Indriði geti gefið sér tíma til að svara. Maður veit aldrei. Þeir lesa þetta væntanlega og vonandi athugasemdirnar líka. Einmitt þess vegna vil ég benda Steingrími J. sérstaklega á þessa bloggfærslu Teits Atlasonar. Þetta er málið eins og við ræddum, Steingrímur. Ekki bara mín skoðun. Koma svo!

Viðbót: Illugi skrifaði líka pistil á sömu nótum og Teitur í morgun.

Ég legg líka til að Steingrímur og Indriði lesi ræðu Jóhannesar sem ég sagði þeim frá. Hún var ansi mögnuð og mjög vel flutt. Hér er hún:

**************

Austurvöllur, 20. Júní 2009.

Góðir Íslendingar.

Í gær birti ríkisstjórn Íslands undirritaðan samning við Breta og Hollendinga um lausn ICESAVE deilunnar.

ICESAVE málið varðar stærstu fjárskuldbindingar íslensku þjóðarinnar frá upphafi. Það er mikilvægasta mál sem Alþingi hefur fjallað um frá lýðveldisstofnun. Og það er gríðarlega áríðandi að fjallað verði um þetta mál af skynsemi og samkvæmt efnisinnihaldi því að án þess að það gerist eigum við Íslendingar ekki möguleika á því að komast út úr þessu máli sem heil þjóð. 

InDefence hópurinn, sem ég er hluti af, er ópólitískur og óháður hópur fólks sem á það eitt sameiginlegt að bera hagsmuni Íslands fyrir brjósti. Hópurinn afhenti í mars breska þinginu 83 þúsund undirskriftir gegn hryðjuverkalögunum og hefur síðustu 8 mánuði ítrekað bent stjórnvöldum á þær hættur sem Íslendingar stæðu frammi fyrir og þörfina fyrir aðgerðir.

 Hópurinn hefur frá því að skrifað var undir ICESAVE samninginn barist fyrir því að vekja athygli á fjölmörgum atriðum sem tengjast samningnum og sem skipta öllu máli fyrir framtíð Íslands. Meðal þessara grundvallaratriða eru eftirfarandi:

Nr. 1. Afsal fullveldisréttar og eignir íslenska ríkisins

Mikið hefur verið rætt um 16. grein samningsins, sem fjallar um afsal Jóhannes Þ. Skúlason á Austurvelli 20. júní 2009fullveldisréttar íslenska ríkisins. Lögfræðingar InDefence, sem hafa mjög víðtæka reynslu af því að fjalla um þjóðréttarsamninga, eru sammála um að þetta ákvæði feli í sér víðtækt afsal friðhelgisréttinda sem leiðir til þess að mun auðveldara verður að ganga að eignum íslenska ríkisins. Þegar ákvæðið er lesið kemur ekki fram í texta samningsins nein takmörkun á hugtakinu „eign".

Ríkisstjórn Íslands hefur sakað okkur um hræðsluáróður fyrir að benda á þessa augljósu staðreynd. En ef sú fullyrðing stjórnvalda er rétt að þessi tilvísan taki ekki til eigna á Íslandi - af hverju stendur það þá ekki skýrt í ákvæðinu?

Það er rétt að benda á að fyrst þegar þetta ákvæði komst í almenna umræðu á 17. júní, þá héldu stjórnvöld því blákalt fram að þarna væri aðeins átt við eignir Landsbankans. Nú hefur verið sýnt fram á, meðal annars af sérfræðingi í þjóðarétti, að þessi skilningur stjórnvalda var rangur.  

Íslenskur almenningur á kröfu til þess að öll réttaráhrif sem felast í þessari grein séu skýrð af stjórnvöldum á tæmandi hátt. Að benda á staðreyndir og að kalla eftir nákvæmum útskýringum er ekki hræðsluáróður.

Nr. 2. Engar efnahagslegar forsendur

Samkvæmt útreikningum InDefence hópsins hefur íslenska ríkið engar efnahagslegar forsendur til þess að greiða lánið samkvæmt þessum samningi.  Samninganefnd Íslands gefur sér að á næstu 7 árum muni eignir Landsbankans seljast fyrir 75% af upphæðinni.  Það þýðir að eftir 7 ár koma íslendingar til með að sitja uppi með skuld sem með vöxtum og vaxtavöxtum verður milli 450-500 milljarðar króna. Þessa upphæð þarf að greiða á næstu 8 árum eftir það.  Til að setja þessa tölu í samhengi þá jafngildir þetta því að íslendingar borgi að minnsta kosti þrjár Kárahnjúkavirkjanir á 8 árum.  Ef eignir Landsbankans gefa minni heimtur en 75% hækkar þessi upphæð hratt.

Vaxtagreiðslur af þessu láni eru einnig gríðarlega erfiðar fyrir ísland.  Miðað við forsendur samninganefndarinnar eru vextirnir um 36 milljarðar króna á hverju ári. Til að eiga fyrir þessum vaxtagreiðslum verður íslenska ríkið að eiga 36 milljarða af erlendum gjaldeyri í afgang á hverju ári, því að lánið er í evrum og pundum. En hvernig er hægt að búast við því þegar mesti gjaldeyrisafgangur síðustu 25 ára var aðeins 30 milljarðar?  Þetta þýðir að Ísland þarf að gera betur en besta gjaldeyrisjöfnuð síðustu 25 ára bara til að geta borgað vextina samkvæmt þessum samningi.  Og það þarf að gerast á hverju ári, næstu 15 ár.

Nr 3. Lánshæfismat Íslands mun mögulega lækka.

Það skiptir gríðarlegu máli að staðfesting fáist frá óháðum aðilum á því að lánshæfismat Íslenska ríkisins muni ekki lækka í kjölfarið á þessum samningi. Það myndi hafa skelfilegar afleiðingar fyrir ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og heimilin í landinu. Slík staðfesting hefur ekki fengist.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra lýsti sjálfur yfir áhyggjum af lánshæfismati íslenska ríkisins í erlendum fjölmiðlum í gær. Það hlýtur því að vera alger forsenda að áður en ríkisábyrgð á þessum samningi er lögð fyrir Alþingi sé fengið álit á stöðu Íslands frá alþjóðlegum lánshæfismatsfyrirtækjum.

Nr. 5.  Samningsmarkmið Íslendinga eru þverbrotin

Það er algerlega ljóst að samningurinn er ekki í neinu samræmi við þau viðmið sem samninganefndir landanna þriggja voru bundnar af og fram Andrea Ólafsdóttir á Austurvelli 20. júní 2009koma í þingsályktun Alþingis frá 5. desember 2008. Þessi samningsviðmið voru mikilvægur hluti af pólitískri lausn málsins, þannig að íslendingar samþykktu að taka á sig skuldbindingar gegn því að samið yrði um þær þannig að „tekið skyldi tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og ... ákveða ráðstafanir sem gerðu Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt".

Það er ljóst að samningur sem er ekki í neinu samræmi við þessi viðmið er óásættanlegur fyrir Alþingi Íslendinga. Í 3. grein samningsins er tekið skýrt fram að samningurinn tekur ekki gildi ef ríkisábyrgðinni verður hafnað á Alþingi. Þetta er eina útleið Íslendinga.  Ef þessi samningur tekur gildi með samþykki Alþingis er hann algerlega skotheldur. Eina leiðin er að hafna ríkisábyrgðinni núna og knýja þannig á um að Bretar og Hollendingar setjist aftur niður að samningaborðinu, til að gera samning við Íslendinga sem er í samræmi við markmið Alþingis eða svokölluð Brüssel viðmið.  Samning sem gerir okkur kleift að standa við skuldbindingar okkar.  Það gerir þessi samningur ekki. Sá fyrirvari sem talað er um af hálfu stjórnvalda, að setjast niður og ræða vandann, er máttlaus því engin skylda er lögð á viðsemjendur okkar að breyta neinu í þeim viðræðum.

Svavar Gestsson hefur ítrekað haldið því fram að tvö atriði gerðu það að verkum að þetta væri góður samningur fyrir Ísland: Annars vegar að hryðjuverkalögunum yrði aflétt og hins vegar að Ísland kæmist í sjö ára skjól.  Hvort tveggja er ofmetið. 

Í fyrsta lagi lá það fyrir allan tímann, eins og InDefence fékk staðfest á fundi með fulltrúa breska utanríkisráðuneytisins í mars síðastliðnum, að um leið og einhvers konar samningur um ICESAVE lægi fyrir yrði hryðjuverkalögunum aflétt. Það er því ekki þessum samningi að þakka sérstaklega. Það lá alltaf fyrir hvort eð var.

 Í öðru lagi er lítið hald í þessu sjö ára skjóli þegar Bretar og Hollendingar geta, samkvæmt 11. grein samningsins, gjaldfellt allt lánið hvenær sem er á lánstímanum, til dæmis á grundvelli þess að Alþingi breyti lögum eða að Íslendingar geta ekki borgað önnur erlend lán á réttum tíma. Þessi gjaldfellingarákvæði binda hendur Alþingis og íslenska ríkisins á óvenjulegan hátt, meðal annars takmarka þau rétt Alþingis til að setja lög.  Ef Ísland uppfyllir eitthvað af þessum gjaldfellingarákvæðum þá skiptir engu máli hvort liðin eru sjö ár eða ekki. Allt tal um sjö ára skjól er því orðum aukið.

Svavar Gestsson og Jóhanna Sigurðardóttir hafa bæði fullyrt að Bretar og Hollendingar séu að kaupa eignir Landsbankans eða taka þær upp í greiðslu.  Þetta er algerlega rangt. Hið rétta er að Íslendingum er gefið færi á því að selja eignirnar áður en við greiðum Bretum og Hollendingum peninga. Ef okkur tekst ekki að selja eignirnar og fá andvirðið upp í ICESAVE mun Íslenska þjóðin þurfa að borga mismuninn. Svona rangfærslur hjá forsætisráðherra og aðal samningamanni Íslands gefa tilefni til að spyrja hvort þau hreinlega skilja ekki þann samning sem þau ætlast til að Alþingi samþykki?

Mikið hefur verið rætt um þann þrýsting sem liggur á Íslendingum að samþykkja ríkisábyrgð á ICESAVE samningnum. En gleymum því ekki að það hefur áður legið þrýstingur á Íslendingum og í hvert sinn risu Íslendingar upp sem einn maður undir einkunnarorðum Jóns Sigurðssonar: Eigi víkja!  Og þeirrar samstöðu þörfnumst við í dag.

Litli, stórskuldugi aðstoðarræðumaðurinnÞví fyrir Breta og Hollendinga getur það ekki talist neins konar ósigur að þurfa, samkvæmt samningnum sjálfum, að lúta vilja lýðræðislega kjörins þjóðþings Íslendinga. Það gefur hins vegar tækifæri til að setjast niður á nýjan leik og endurmeta samningsstöðuna á grundvelli þess að Alþingi telur forsendur þessa samnings of óhagstæðar fyrir Íslenska ríkið. 

Það er staðreynd að í þessum samningi gefur íslenska ríkið frá sér allar varnir gegn því að vera dregið fyrir dómstóla vegna þessa samnings. Það er skýrt afsal á fullveldisrétti Íslenska ríkisins. Og hvort sem fjármálaráðherra telur það vera „eðlilegt" ákvæði eða ekki, þá er það algerlega ljóst að fyrir Íslensku þjóðina, sem barðist fyrir fullveldi sínu í heila öld, er ekkert „eðlilegt" við að afsala því með einu pennastriki. Þó við Íslendingar búum í fullvalda lýðræðisríki megum við aldrei gleyma því að jafnvel enn í dag eru fullveldi og lýðræði ekki sjálfsögð réttindi. Við búum við lýðræði, en við verðum samt að búa það til á hverjum degi.

Fyrir þrem dögum síðan fögnuðu Íslendingar fæðingardegi Jóns Sigurðssonar og stofnun íslenska lýðveldisins. Og við skulum aldrei gleyma því að það er engin tilviljun að mynd Jóns Sigurðssonar er staðsett hér á Austurvelli.  Í nærri heila öld hefur Jón staðið hér og minnt Alþingismenn Íslendinga á skyldur sínar gagnvart því fjöreggi þjóðarinnar sem hann og fjölmargir aðrir börðust fyrir alla sína daga, fullveldi Íslands. Í nærri heila öld hafa íslenskir Alþingismenn aðeins þurft að líta út um glugga Alþingishússins til að vera minntir á að í eina tíð þótti fullveldi Íslands ekki sjálfsagður hlutur í samfélagi þjóða. Að afsala fullveldisrétti þjóðarinnar getur því aldrei talist eðlileg ráðstöfun sem embættismenn skrifa undir í skjóli nætur. Aldrei.

Góðir Íslendingar.

Þetta er vondur samningur fyrir Ísland. Alþingismenn verða að gera sér grein fyrir því að eina svarið er að hafna ríkisábyrgðinni núna og freista þess að ná betri kjörum við Breta og Hollendinga í kjölfarið. Það er ljóst að þegar Alþingi hafnar þessum samningi munu verða erfiðar afleiðingar af því fyrir Ísland í skammtímanum. En allt tal um áralanga útilokun úr alþjóðasamfélaginu, það er hræðsluáróður og hræðsluáróður bítur ekki á þá sem vita að þeir hafa réttlátan málstað að verja. Það er öllum aðilum í hag að semja upp á nýtt. En til þess að það geti gerst verðum við að standa saman núna. Eigi víkja. Því það er betra að taka slaginn núna en að komast að því eftir sjö ár að við höfum skrifað upp á dýrustu mistök Íslandssögunnar.

Jóhannes Þ. Skúlason


Hugsað upphátt um Icesave, réttlæti og mótmæli

Til að byrja með langar mig að leiðrétta leiðan misskilning sem ég hef orðið vör við. Icesave-samningurinn er ekki flokkspólitískt mál heldur þverpólitískt eða ópólitískt. Hann er harmleikur þjóðar, afleiðing taumlausrar græðgi nokkurra siðlausra manna og meðvirkra meðreiðarsveina sem kunnu sér ekkert hóf. Og spilltra, vanhæfra og sinnulausra stjórnmála- og embættismanna. Það er fáránlegt að einhverjir flokkar, einkum þeir sem eru í raun arkitektar hrunsins, eigni sér andstöðu við samninginn. Þess vegna þurfa þeir sem vilja mæta á mótmælafundinn á Austurvelli klukkan 15 í dag ekki að hafa áhyggjur af því að þeir lýsi þar með yfir stuðningi við einhverja stjórnmálaflokka. Þeir lýsa yfir stuðningi við sjálfa sig, samvisku sína og þjóðina - og andstöðu við óréttlæti.

Ég veit varla lengur hvað snýr upp eða niður á Icesave-samningnum. Hvort ég er samþykk honum eða ekki. Ég les og les, hlusta, horfi og tala við fólk - og snýst í hringi. Við höfum loksins fengið að sjá samninginn (sjá viðhengi neðst í færslu) en enginn hefur ennþá séð eignirnar sem eiga að fara upp í. Hvorki samninganefndin né ríkisstjórnin, hvað þá þingmenn eða þjóðin. Ku vera mest lánasöfn og slík söfn eru ekki traustustu eignirnar nú til dags. Og ómögulegt að segja hvað gerist á næstu 7 árum. Þeir voru ekki beint sammála, Indriði H. og Eiríkur Indefence í Kastljósinu á fimmtudagskvöld.

Auðvitað vil ég standa í skilum við mitt. Það er óheiðarlegt að borga ekki skuldir sínar. En þetta eru ekki mínar skuldir. Ég er í nógu rammgerðu skuldafangelsi fyrir þótt Icesave-skuldirnar bætist ekki við. Íslenska ríkið líka. Og þær bætast ekki bara við mínar skuldir heldur einnig afkomenda minna. Á meðan er ekki hróflað við þeim sem stofnuðu til þessara skulda. Þeir lifa enn í fáheyrðum lúxus víða um heim og gefa skít í okkur þrælana sem eigum að borga. Ég er ekki sátt.

Auðvitað eiga allir sparifjáreigendur að sitja við sama borð. Íslenskir, breskir og hollenskir. Ég skil vel að fólkið vilji fá peningana sína. Það myndi ég líka vilja. En hvað kostar það okkur Íslendinga? Mér virðist að það muni kosta okkur ógnvænlegar þrengingar, skattahækkanir, niðurskurð á allri grunnþjónustu, lækkuð laun, skertan lífeyri, lakari menntun barnanna okkar, landflótta... og fleira og fleira. Íslenska þjóðin verður í skelfilegu skuldafangelsi um ókomin ár. Nema þeir sem rændu okkur, því þeir fá að hafa þýfið í friði og ró.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, segir hér frá fundi þeirra Þórs Saari við konu í hollensku samninganefndinni. Þau spurðu hvort hún myndi samþykkja svona samning í þeirra sporum. Hún sagði nei.

Hvað gerist ef við borgum ekki? Tvennum sögum fer af því. Sumir mála skrattann á vegginn, aðrir segja þrengingar í örfá ár og síðan ekki söguna meir. Hvernig hefur upplýsingagjöf til útlanda verið háttað? Er búið að gera t.d. Bretum og Hollendingum grein fyrir því hvað samningurinn kostar íslenskan almenning? Hvaða afleiðingar hann hefur fyrir okkur um ókomin ár? Er búið að biðja breskan og hollenskan almenning um stuðning, höfða til samvisku hans og sanngirni? Ég held ekki. Upplýsingaflæðið innanlands er afleitt, svo ég geri ekki ráð fyrir að það sé neitt skárra út á við.

Ég minni á þá Michael Hudson og John Perkins sem voru í Silfri Egils í byrjun apríl. Byrjum á Hudson. DV talaði við hann í gær.

Michael Hudson um Icesave - dv.is 19.6.09

Og þetta sagði hann í Silfrinu 5. apríl.

John Perkins sagði þetta í sama Silfri.

Eins og áður sagði er ég búin að fara í marga hringi með þetta mál. Reyna að vera skynsöm, sanngjörn, raunsæ og með kalt mat. En það er alveg sama hvað ég reyni - hjartað segir NEI. Réttlætiskenndin segir NEI. Alveg sama hvernig ég hugsa þetta, frá hvaða hlið - og þær eru margar - mér finnst einhvern veginn að verið sé að byrja á öfugum enda. Hengja bakara fyrir smið. Ég get ekki samþykkt það.

Ég ætla því að mæta á Austurvöll klukkan þrjú í dag. Ekki aðeins til að mótmæla Icesave-samningnum heldur líka til að krefjast þess að tekið verði á vanda heimilanna. Okkar, sem sjáum skuldirnar okkar rjúka upp, skattana hækka, verðlagið fara upp úr öllu valdi á meðan bankar og innheimtustofnanir - jafnvel ríkisins - ganga hart að skuldurum í vanda.

Síðast en ekki síst ætla ég að krefjast réttlætis. Krefjast þess að tekið verði á sökudólgunum, þeim sem bera ábyrgð á ástandinu. Að íslenskt réttarkerfi hafi döngun í sér til að gera það sem Danirnir gerðu við Bagger - láta þá sem brutu af sér sæta ábyrgð. Ekki okkur sem alsaklaus erum.

Viðbót: Bendi á tvær góðar greinar í prentmiðlum dagsins - Herdís Þorgeirsdóttir í Fréttablaðinu og Árni Þórarinsson í Lesbók Morgunblaðsins.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband