Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Stundum er erfitt að halda ró sinni...

...og höggva ekki mann og annan." Þannig hófst sá fyrri af tveimur pistlum sem ég kalla Hveragerðispistlana. Þar fjalla ég um þá hættu sem Hvergerðingum - og reyndar öllu suðvesturhorninu ef ekki verður brugðist við - stafar af eiturspúandi borholum við bæjardyrnar. Brennisteinsvetni er nefnilega eitur.

************************************************

23.4.2008

Stundum er erfitt að halda ró sinni...

...og höggva ekki mann og annan. Stundum langar mig að hrista fólk, taka á því eins og óknyttastrákum eða -stelpum og lesa því pistilinn ómengaðan. Stundum langar mig að vera einræðisherra á Íslandi og taka til hendinni, henda rusli og sópa úr skúmaskotum. En það er draumsýn og eina leiðin sem virðist fær er að reyna að nota mátt orðanna. En mig þekkja fáir og enn færri hlusta á mig. Þótt ég þoli ekki athygli vildi ég stundum óska þess að vera fræg. Ef ég væri fræg myndu fjölmiðlar kannski hlaupa upp til handa og fóta þegar ég munda lyklaborðið, taka við mig djúpvitur viðtöl og allir myndu hlusta í mikilli andakt. Annað eins hefur nú gerst þegar fræga fólkið tjáir sig. En ég er ekki fræg og fáir hlusta. Því miður. Ég auglýsi hér með eftir frægu fólki til að tala máli mínu. Það er sama hvaðan gott kemur - en hér ætla ég að láta vaða og taka stórt upp í mig.

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri Hvergerðinga Ég fór á íbúafund í Hveragerði á mánudagskvöldið, þar var verið að fjalla um málefni sem ég hef mikinn áhuga á, fyrirhugaða Bitruvirkjun við Ölkelduháls og möguleg áhrif hennar á lífsgæði og heilsu Hvergerðinga. Reyndar á alla íbúa suðvesturhornsins, en Hvergerðingar eru næstir svæðinu. Salurinn var fullur út úr dyrum, um 100 manns mættu og það var spenna í loftinu. Augljóst að málið hvílir þungt á Hvergerðingum - skiljanlega. Það á nefnilega að eitra fyrir þeim og þeir geta enga björg sér veitt. Lesið pistil bæjarstjóra Hvergerðinga um fundinn hér.

Það væri allt of langt mál að tíunda allt sem gerðist á fundinum, en þarna voru þrír frummælendur - frá Orkuveitunni, Hveragerði og Landvernd. Fulltrúi Orkuveitunnar virtist hálfþreyttur, áhugalítill og var lítt sannfærandi, bæði í pistli sínum og þegar hann svaraði hinum fjölmörgu fyrirspurnum sem beint var til hans frá fundargestum. Mín tilfinning var sú að honum fyndist þetta óþarfa bögg og afskiptasemi. Okkur kæmi þetta ekkert við.

Um daginn var ég byrjuð að skrifa pistil um brennisteinsvetni, búin að afla mér heimilda um víðan völl og lesa mér til, en forgangsröðin breyttist stöðugt og alltaf frestuðust pistilskrifin. Nú er ég komin á þá skoðun að best sé að einfalda umfjöllunina og vera ekkert að flækja málið. En ég tek skýrt fram að þetta er miklu flóknara mál en hér kemur fram og langt í frá að ég viti eða skilji allt sem hægt er um efnið. En ég skil samt ýmislegt.

Borholur á Skarðsmýrarfjalli Í Wikipediu stendur þetta: "Brennisteinsvetni eða vetnissúlfíð (H2S) er litlaus, eitruð gastegund. Megn lykt er af brennisteinsvetni þó magn þess sé lítið í andrúmsloftinu, það er brennisteinsvetni sem veldur lykt af fúleggjum og jöklafýlu sem gjarnan fylgir hlaupum í jökulsám. Lyktin hverfur hins vegar þegar styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti eykst og það verður lífshættulegt. Það eykur einnig á hættu að brennisteinsvetni er þyngra en andrúmsloftið og getur því lagst í dældir eða safnast fyrir í botnum á geymum og tönkum..." Þar segir ennfremur: "Um 10% af losun á H2S í heiminum er af mannavöldum. Í iðnaði er það einkum í olíuhreinsunarstöðvum. H2S finnst þar sem brennisteinn kemst í samband við lífrænt efni, sérstaklega ef um er að ræða hátt hitastig." Læt þetta nægja í bili en slóðin á þennan og meiri fróðleik er hér.

Semsagt... prumpufýlan sem maður finnur þegar farið er fram hjá t.d. skíðaskálanum í Hveradölum og víðar er brennisteinsvetni að kenna. Líka sú sem við finnum þegar við skrúfum frá heita vatninu í krananum hjá okkur - eftir því hvar við búum. Við erum vön þessari lykt, höfum alist upp við hana og finnst hún bara frekar fyndin. Erlendir gestir hafa gjarnan orð á lyktinni því hún er þeim framandi. En þótt brennisteinsvetni sé eitur er það ekki alvont efni. Það gerir sitt gagn í náttúrunni og jafnvel fyrir mannslíkamann - í hóflegu, náttúrulegu magni.

Við erum nú með fjórar jarðhitavirkjanir (samheiti mitt yfir jarðgufu- og Borhola á Skarðsmýrarfjalli jarðvarmavirkjanir sem eru ólíks eðlis) á suðvesturhorni landsins. Svartsengi og Reykjanesvirkjun á Reykjanesi, Nesjavallavirkjun við Þingvallavatn og hina nýju Hellisheiðarvirkjun við rætur Hellisheiðar. Allar losa þær gríðarlegt magn af brennisteinsvetni út í andrúmsloftið, vitanlega umfram allt sem náttúrulegt getur talist. Reykvíkingar eru þegar farnir að finna fyrir útblæstrinum úr Nesjavalla- og Hellisheiðarvirkjunum. Fólk í eystri byggðum Reykjavíkur finnur fyrir áhrifum hans á augu, lungu og öndunarfæri. Bloggvinkona mín, Lilja Guðrún, skrifaði fínan pistil um barnabörnin sín og sjálfa sig í andnauð og kenndi um svifryki af völdum nagladekkja. Fleiri taka undir og lýsa sinni reynslu, sumir eflaust í austurhluta borgarinnar. Það er örugglega alveg rétt að svifryk eigi sinn þátt í andnauðinni, en gætu þessi áhrif á öndunarfærin verið í bland frá brennisteinsvetni? Spyr sú sem ekki veit.

Neðst í pistlinum eru, auk fréttaumfjöllunar um fundinn í Hveragerði, tveir pistlar úr Speglinum frá í nóvember. Í öðrum er talað við Þorstein Jóhannsson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun og í hinum Sigurð Þór Sigurðarson, lækni og sérfræðing í lungna-, atvinnu og umhverfissjúkdómum. Báðir fjalla um hættuna sem getur skapast af of miklu brennisteinsvetni í andrúmsloftinu. Hlustið á þá.

HveragerðiStyrkur brennisteinsvetnis í Reykjavík er aðeins mældur á Grensás. Það er nú því sem næst í miðri Reykjavík. Engir mælar eru austar og nær Hellisheiðarvirkjun þar sem tugþúsundir búa. Enginn mælir er í Hveragerði. Eins og fram kemur í máli Þorsteins er styrkurinn ekki orðinn mikill ennþá, en langtímaáhrif af litlum styrk eru ekki þekkt, hvað þá af miklum styrk. Þorsteinn segir einnig að það sé alls ekki sjálfgefið að fólk stundi útivist nálægt blásandi borholum. Í máli Þorsteins kemur fram að hægt sé að hreinsa útblástur brennisteinsvetnis frá virkjununum. Upphaflega stóð ekki til hjá Orkuveitu Reykjavíkur að hreinsa hann, en nú hafa þeir vent kvæði sínu í kross og segjast ætla að hreinsa útblásturinn.

Á því loforði Orkuveitu Reykjavíkur eru þrír stórkostlegir gallar. Í fyrsta lagi sá, að þeir þurfa þess ekki og það er kostnaðarsamt. Engin lög ná yfir takmörkun á losun brennisteinsvetnis út í andrúmsloftið. Því verður að breyta. Í öðru lagi kom greinilega fram í máli fulltrúa OR á fundinum í Hveragerði að hreinsun brennisteinsvetnisins er á tilraunastigi. Þeir vita semsagt ekki ennþá hvort það tekst og hafa ekki prófað aðferðina sem þeir hyggjast nota. Samt á að virkja og treysta á guð og lukkuna. Í þriðja lagi kom líka fram að brennisteinsvetni verður ekki hreinsað úr útblæstri neinna borhola á framkvæmdatímanum - það eru mörg ár og fjölmargar holur. Aldrei verður heldur hreinsaður útblástur úr holum sem þarf stöðugt að bora og láta "blása", eins og þeir orða það (ég kann ekki tækniskýringu á því).

Hellisheiðarvirkjun Á fundinum í Hveragerði kom fram að suð-austasta borholan á áætluðu virkjanasvæði Bitruvirkjunar er aðeins 4.560 metra frá efstu húsunum í Hveragerði. Bitruvirkjun yrði í um 4 ár í byggingu og allan þann tíma myndu borholur spúa eitri yfir Hvergerðinga og aðra íbúa suðvesturhornsins, því ekki verður hreinsað á framkvæmdatíma. Svo verða um 3 holur látnar blása í einu, óhreinsaðar, næstu áratugina - ef ég skil þetta rétt - og spúa meira brennisteinsvetni yfir okkur. Miðað við orð Þorsteins og Sigurðar í Spegilsviðtölunum og óvissuna um langtímaáhrif brennisteinsvetnis í andrúmloftinu, jafnvel í litlu magni, geta t.d. astma-, lungna- og öndunarfærasjúklingar - og barnafólk - ekki búið í Hveragerði og jafnvel ekki í austurhluta Reykjavíkur. Ekki væri æskilegt að beina ferðafólki nálægt svæðinu svo Reykjadalurinn fagri fyrir norðan Hveragerði legðist af sem útivistarsvæði, svo og allt svæðið í kringum náttúruperluna Ölkelduháls. Þetta er ófögur framtíð fyrir fallegan, lítinn bæ í fögru umhverfi og áhyggjur Hvergerðinga skiljanlegar.

En á fundinum var dreift tillögu til þingsályktunar um takmörkun á losun brennisteinsvetnis af mannavöldum í andrúmslofti. Fyrsti flutningsmaður er Álfheiður Ingadóttir og þetta er mjög þarft framtak, það verður að koma böndum á losunina. Vonandi bera þingmenn allra flokka gæfu til að samþykkja þingsályktunartillöguna hið snarasta.

Reykvíkingar fá þetta eitur líka yfir sig áfram, því auk Bitruvirkjunar er enn ein jarðhitavirkjunin áætluð í Hverahlíð, sunnan við þjóðveg nr. 1 sem liggur um Hellisheiðina. Þá væru virkjanir á svæðinu orðnar fjórar og tvær í viðbót á teikniborðinu, alls sex jarðhitavirkjanir á sama blettinum.

Fjölmargt fleira kom fram á fundinum í Hveragerði, ég hef eingöngu fjallað um einn þátt af mörgum sem þar var minnst á. Íbúar eru felmtri slegnir og alls ekki að ástæðulausu. Að sumu leyti eru þeir að berjast fyrir lífi sínu - en hafa engin vopn. Þeir eru algjörlega berskjaldaðir. Reykvíkingar líka.

Mig langar stundum að missa mig, hrista virkjanasinna duglega og lesa Frá Ölkelduhálsi þeim pistilinn. Hvað á svona nokkuð að þýða? Hvernig dettur þeim í hug að fara svona með náungann... og sjálfa sig? Og hvernig voga þeir sér að sýna slíkt fyrirhyggjuleysi gagnvart afkomendum okkar og komandi kynslóðum? Hvernig stendur á því að óspillt náttúra er ekki metin að verðleikum? Af hverju á að göslast áfram og ana út í óvissu sem getur stofnað heilsu og jafnvel lífi samborgaranna í hættu og stela frá okkur náttúruperlum sem enginn hefur haft rænu á að meta til fjár?

Svarið er í raun einfalt: Til að framleiða raforku fyrir eiturspúandi, erlenda stóriðju og græða peninga.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Andað léttar

Mikið var ég fegin þegar ég heyrði í fréttunum í kvöld að ummælin um ónýtu spólurnar hafi verið villandi. Þar af leiðandi er færslan hér á undan líka villandi - eða texti hennar - þó að myndbrotin standi vitaskuld fyrir sínu. En rétt skal vera rétt og hér með leiðréttist þetta. Um leið vil ég benda á fína athugasemd (nr. 25) frá Gunnlaugi Lárussyni sem hafði spurst fyrir um málið og sent Páli Magnússyni tölvupóst. Gunnlaugur birtir ekki sinn póst til Páls en fékk þetta svar: "Þakka þér kærlega fyrir hressilega áminningu - þetta verður athugað!"

Svo fékk Gunnlaugur svohljóðandi póst frá Óðni Jónssyni, fréttastjóra:

"Því miður var frásögn fréttamanns villandi. Það er rétt að sérstakar upptökur stúdíói misfórust þessa daga sem um ræðir. Flestar fréttir voru síðan keyrðar af klippistæðum og inn á harðan disk og band þegar mistökin uppgötvuðust. Nánast allar frumtökur úti á vettvangi á þessu tímabili eru til á millisafni fréttastofu. Aðalatriðið er þó að allt efnið er til á DVD, ekkert er glatað eða týnt! Öll útsending RÚV er til á DVD, beinar útsendingar o.s.frv. Hitt er svo annað mál að varðveislumál okkar mættu vera betri, vegna fjárskorts erum við ekki enn að fullu komin inn í stafrænu öldina. Þá er ég sammála þér um það að fréttaupptökur þyrftu að vera aðgengilegar miklu lengur á netinu. Vonandi fáum við úrbætur á því fljótlega."

Við þetta vil ég bæta að það væri skömm að því ef nefskatturinn skilar sér ekki allur til að reka RÚV eins og ýjað hefur verið að.

Hin villandi ummæli og leiðréttingin - RÚV 27. og 28. september 2009


Litið um öxl - ár liðið frá hruninu

Undanfarna daga hefur fréttastofa RÚV rifjað upp ársgamlar fréttir af aðdraganda hrunsins. Þórdís Arnljótsdóttir sagði í fréttunum í kvöld að engin upptaka væri til af fréttum þessarar örlagaríku helgar í fyrra því spóla hafi eyðilagst. Þótt mínar netupptökur séu ekki tækar á sjónvarpsskjáinn geta þær kannski fyllt aðeins í einhverjar eyður. Það er geysilega fróðlegt að rifja upp þessar fréttir af efnahagsmálunum - sem reyndust vera hrunfréttir þótt við höfum ekki vitað það þá - í kringum þessa helgi í lok september fyrir ári. Set Kastljósið þann 29. inn líka.

Fréttir RÚV föstudaginn 26. september 2008

 

Fréttir RÚV laugardaginn 27. september 2008

 

Fréttir RÚV sunnudaginn 28. september 2008

 

Fréttir RÚV mánudaginn 29. september 2008

 

Tíufréttir RÚV mánudaginn 29. september 2008

 

Kastljós 29. september 2008 - Geir H. Haarde

 

Kastljós 29. september 2008 - Stoðir, Hreiðar Már, Gylfi Magnússon

 

Kastljós 29. september 2008 - Ögmundur Jónasson og Árni Páll Árnason

 


Er þetta mögulegt... eða ekki?

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Ég lýsi eftir samfélagsvitund og samstöðu þjóðar. Þeirri hugsun, að við búum hér saman og eigum að skipta lífsins gæðum og arði af auðlindum á milli okkar á sanngjarnan og sem jafnastan hátt. Eftir hrunið heyrðust bjartsýnisraddir sem sögðu að hörmungarnar myndu þjappa þjóðinni saman líkt og eftir náttúruhamfarir, allir myndu hjálpast að, fagmennska verða tekin fram yfir flokksskírteini, siðleysið hverfa og siðferðisstaðlarnir verða eðlilegir eða viðunandi.

En nei - ó, nei. Þvílíkur endemis barnaskapur! Ekkert slíkt hefur gerst, að minnsta kosti ekki meðal þeirra sem enn vaða uppi í bönkum, skilanefndum, stjórnsýslu og stjórnmálum. Þar eru ennþá sérvaldir menn í hverju rúmi sem hygla vinum, vandamönnum, klíku- og flokksbræðrum á kostnað skattborgaranna og maka krókinn. Þeir afskrifa skuldir forríkra, skattlausra glæpamanna um leið og þeir setja þumalskrúfu á skattpíndan almenning og fangelsa smákrimma. Þeir selja eignarhluti þjóðarinnar í auðlindum hennar og komandi kynslóða til valdra braskara í heilu lagi eða hlutum. Svo ekki sé minnst á útrásardólgana sem allir ganga lausir. Þeir senda þjóðinni fingurinn, segja ábyrgðarleysi að borga skuldir sínar við hana, fá sér dæetkók með glott á vör og siðblinduglampa í augum og hækka verð á matvöru meira en góðu hófi gegnir til að fá nú örugglega nóg í sína vasa.

Eva Joly sagði að mjög mikilvægt væri að komast að sannleikanum, taka á vandanum og leita réttlætis. Öðru vísi yrði mjög erfitt að byggja upp og búa við samfélagssáttmála í framtíðinni. En Eva Joly sagði líka að réttarkerfi Vesturlanda væri sniðið til að halda hlífiskildi yfir þeim ríku og valdamiklu en dæma aðeins almenning í lægri lögum samfélagsins. Hún sagði að efnahagsglæpamenn væru mjög sjaldan teknir og látnir svara til saka. Þetta hljómar eins og óyfirstíganlegur vítahringur og súrrealískur veruleiki í eyrum fólks með óbrenglaða réttlætiskennd.

En hvað er til ráða? Hvernig er hægt að efla samstöðu þjóðarinnar, samfélags- og siðferðisvitund hennar og fá hin svokölluðu efri lög samfélagsins - þá sem stjórna og ráðskast með eigur og auðlindir þjóðarinnar - til að hafa hagsmuni okkar allra í huga í stað örfárra, gírugra einstaklinga?

Fjölmiðlarnir eiga að leika stórt hlutverk í þessu ferli því vald þeirra er mikið og áhrifin gríðarleg. En vegna fjárskorts og niðurskurðar hafa mörg vopn verið slegin úr höndum þeirra. Og nú er ljóst að eitt elsta og áður virtasta dagblað landsins, Morgunblaðið, er úr leik í opinni, heiðarlegri umræðu þar sem fjölmörgum reyndum og góðum fagmönnum úr blaðamannastétt hefur verið fórnað á altari gjörspilltra flokkshagsmuna, yfirgangs og sérhagsmuna þeirra sem græða stórfé á auðlind sjávar - á kostnað þjóðarinnar.

Ég skora á brottrekið fjölmiðlafólk allra miðla að stofna öflugan, ópólitískan og heiðarlegan fjölmiðil sem beiti sér í þágu þjóðarinnar allrar.

************************************************

 Hljóðskrá viðfest hér fyrir neðan.

************************************************

Hlustum á Pál Skúlason í Silfrinu 13. september sl.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Er þetta kóngablæti?

Ég er hér enn sjálf. Geir H. Haarde hefur ekki ennþá tekið við þessari síðu til að skrifa söguútgáfu þeirra Davíðs og ekki vitað hvenær það verður. Ætli ég noti þá ekki tækifærið og birti meira efni eftir sjálfa mig á meðan færi gefst. Skrifa mína eigin sögu.

Íslensk fjallasala - Andrés 1999 - Lesbók Morgunblaðisins 10. apríl 1999

Mér finnst umræðan um ráðningu Davíðs Oddssonar í stól ritstjóra Morgunblaðsins svolítið undarleg. Sumir eru fullir umburðarlyndis og finnst rétt að "gefa honum séns" og "leyfa honum að sanna sig". Sjá lítið sem ekkert athugavert við ráðninguna og segja að Davíð beri ekki einn ábyrgð á hruninu. Líkja henni saman við ráðningu Þorsteins Pálssonar sem ritstjóra Fréttablaðsins. Segja að eigendur Morgunblaðsins ráði því hvern þeir láti ritstýra blaðinu - og svo framvegis. Er aðdáun sumra á Davíð Oddssyni einhvers konar kóngablæti? Arfur frá liðinni tíð? Maður spyr sig...

Íslendingar hafa gefið Davíð Oddssyni sénsa í rúm 30 ár - endalausa sénsa. Hann hefur alltaf þegið laun sín frá skattborgurum. Fyrst sem skrifstofu- og framkvæmdastjóri Sjúkrasamlagsins frá 1976, síðan borgarstjóri, forsætisráðherra, utanríkisráðherra og að lokum seðlabankastjóri. Davíð hefur alltaf stjórnað því sem hann vill og farið fram af hörku. Hann innleiddi hér hræðsluþjóðfélag þar sem mönnum var refsað fyrir að vera ósammála honum, stofnanir lagðar niður ef þær reiknuðu gegn vilja hans, mönnum vísað úr nefndum fyrir smásagnaskrif sem hugnuðust honum ekki. Ótalmargt fleira mætti nefna og lesendur geta bætt við í athugasemdum.

Davíð Oddsson gerði íslenska þjóð ábyrga fyrir innrásinni í Írak 2003 og hörmungunum þar sem ekki sér fyrir endann á ennþá. Það var vægast sagt  umdeildur gjörningur og þar kom Davíð rækilega aftan að þjóðinni. Sumir hafa kallað hann stríðsglæpamann síðan. Þá sem ekki voru sáttir við áframhaldandi þátttöku í svokallaðri "endurhæfingu" Bandaríkjamanna í Írak kallaði Davíð afturhaldskommatitti í frægri ræðu á Alþingi. Þar talaði hann ekki bara niður til eins flokks, heldur stórs hluta þjóðarinnar sem hafði alla tíð verið andsnúinn veru Íslands á stríðslistanum. Það var og er stíll Davíðs að niðurlægja þá sem ekki eru á sömu skoðun og hann, hæðast að þeim og ljúga upp á þá - í þeim tilgangi að upphefja sjálfan sig.

Verjendur Davíðs og verka hans í íslensku samfélagi hamra gjarnan á því að hann sé ekki einn ábyrgur fyrir hruninu. Það er enginn að segja það. Mjög margir eru ábyrgir. En óumdeilanlegt er að Davíð Oddsson lék eitt af aðalhlutverkunum í frjálshyggju- og einkavinavæðingunni, sem og  aðdraganda hrunsins og fyrstu viðbrögðum við því. Sú staðreynd að fleiri voru þar að verki gerir ábyrgð hans engu minni. Að þessu leyti er ógerlegt að bera ráðningu Davíðs til Moggans nú saman við ráðningu Þorsteins Pálssonar til Fréttablaðsins. Þorsteinn var aldrei sami áhrifavaldur og Davíð í íslensku samfélagi og hafði hætt beinum afskiptum af pólitík mörgum árum áður en hann settist í ritstjórastól. Davíð hélt hins vegar bæði FLokknum og þjóðinni í járnkrumlum einvaldsins fram á síðasta dag og harðneitaði að sleppa.

Davíð Oddsson er ekki bara "einhver maður" og Morgunblaðið er ekki bara "eitthvert blað". Þó að til sanns vegar megi færa að eigendur blaðsins "megi ráða og reka þá sem þeim sýnist" er lágmarkskurteisi gagnvart þjóð sem liggur í blóði sínu í ræsi kreppunnar að ráða ekki manninn sem í huga þjóðarinnar er holdgervingur hrunsins. Það er lágmarkskrafa að fjölmiðlar axli samfélagslega ábyrgð og hjálpi þjóðinni að rísa á fætur í stað þess að hleypa í valdastól aftur manni, sem á eftir að henda sprengjum inn í samfélag sem þegar hefur verið sprengt í loft upp.

Við þekkjum Davíð Oddsson. Hann hefur fengið að margsanna sig í 30 ár. Við þekkjum eiturtunguna, ofsann, hrokann, ráðríkið og valdafíknina. Ég sé enga ástæðu til að gefa honum fleiri sénsa til að sanna sig enn frekar. Mig grunar að hlutverk Davíðs sem ritstjóri Morgunblaðsins verði að stýra stríði gegn vilja þjóðarinnar. Stríði gegn endurheimt þjóðarinnar á auðlindum til sjós og lands. Stríði gegn þeim vilja meirihlutans að halda grunnstoðum þjóðfélagsins í þjóðareigu. Enda fjallaði annar leiðari fyrsta blaðsins undir hans stjórn um ágæti einkasjúkrahúsa.

Stríð sjálfstæðismanna er hafið. Það sést á ýmsum vígstöðvum, ekki bara í ráðningu ritstjórans. Látum ekki blekkjast, þeir ætla að ná aftur völdum og við vitum hvað það þýðir. Við erum velflest fórnarlömb þessa fólks. Neitum að kyssa vöndinn.



Draugar og uppvakningar

Í sumar skrifaði ég þennan pistil - Ábyrgð fjölmiðla á umbrotatímum. Einn af mörgum sem ég hef skrifað um fjölmiðla og hlutverk þeirra. Í dag var einn fjölmiðill dæmdur úr leik í heiðarlegri, opinni og hlutlausri umræðu þótt enn séu eflaust fantagóðir blaðamenn eftir á Mogganum. En það er borin von að blaðið geti nokkurn tíma talist trúverðugt í ritstjórn Davíðs. Til þess fortíð hans allt of svört. Í landsfundarpistli í mars tileinkaði ég Davíð þessa gömlu vísu og mér finnst upplagt að bjóða hann velkominn til starfa með henni:

Mín að telja afrek öll
ekki' er nokkur vegur!
Ég hef ístru, ég hef böll
ég er guðdómlegur.

Mér finnst auk þess argasta siðleysi að segja upp mönnum á sjötugsaldri sem hafa alið nánast allan sinn starfsaldur á blaðinu og þjónað því dyggilega. Þeir eiga örfá ár í eftirlaun þegar þeim er sparkað út á guð og gaddinn. Það á að banna slíkt og þvílíkt framferði. Svona gera menn ekki!

Fréttir Stöðvar 2 og RÚV 24. september 2009

 

Óskar Magnússon í Kastljósi 26. febrúar 2009
Þetta sagði hann þá

 

Óskar Magnússon í Kastljósi 24. september 2009
Þetta segir hann nú

 

 Þóra Kristín Ásgeirsdóttir í Kastljósi 24. september 2009

 

Gísli málbein var með vísu dagsins eftir snillinginn K.N.

Góður, betri, bestur,
burtu voru reknir.
Illur, verri, verstur,
aftur voru teknir.

"Þá mun ég snúa aftur," hótaði Davíð 4. desember 2008. Hann stóð við hótunina.

Þá mun ég snúa aftur - Davíð Oddsson - 4.12.08


Dulinn vandi og hjálpartraust

Hér eru tvær góðar greinar með svipuðum skilaboðum: Ekkert hefur breyst. Og það sem verra er - það lítur ekki út fyrir að neitt muni breytast. Hvorki réttlæti né bætt siðferði í augsýn sem er kannski einmitt það sem almenningur á Íslandi þráir hvað heitast. Mér finnst einna sárast við þetta að enn skuli fólk hafa geð í sér til að koma svona fram við samborgara sína. Hvað er hægt að gera?

Þorvaldur Gylfason - Hjálpartraust - Fréttablaðið 24.9.09

Jóhann Hauksson - Dulinn vandi ríkisstjórnarinnar - DV 23.9.09


Mjór er mikils vísir

Ég þekki hann lítið sem ekkert, hef hitt hann tvisvar og þótti mikið til hans koma. Hann sagði sögu sína og ég horfði opinmynnt á hann og trúði varla mínum eigin eyrum. Nú hefur hann tekið til sinna ráða og ég óska honum, litlu fallegu fjölskyldunni hans og öðrum í sömu sporum alls hins besta. Takið eftir honum og baráttu hans. Um leið og við styðjum baráttu hans, styðjum við okkur öll. Samstaða og samheldni eru lykilorðin. Hann hefur nefnilega alveg rétt fyrir sér þegar hann segir að... "Í krafti fjöldans getum við allt."

Áfram Gandri!

Í krafti fjöldans getum við allt - DV 22.9.09

Guðmundur Andri Skúlason í Kastljósi 23. september 2009

 


Raðáfallastreituröskun

Er til eitthvað sem heitir raðáföll? Orðið finn ég að minnsta kosti ekki í orðabók. En íslensk þjóð hefur orðið fyrir hverju áfallinu á fætur öðru undanfarið ár og ósköpunum ætlar ekki að linna. Ef rétt reynist dynur enn eitt áfallið yfir þjóðina einhvern næstu daga. Holdgervingur hrunsins endurborinn. Fjölmargir hafa tjáð sig um málið og það er fróðlegt að sjá hvað sjónarhornin eru margvísleg. Lesið t.d. Illuga, Guðmund, Egil Helga, Björgvin Val, Ómar Ragnars, Andrés og söguskoðun Páls Baldvins. Svo heyrast líka mjóróma raddir eins og þessi en þær virðast vera ansi fáar.

Áfallastreita og áfallastreituröskun er ekkert grín. Þegar eitthvað kemur fyrir fólk er umsvifalaust boðin áfallahjálp. En íslenska þjóðin hefur ekki fengið neina áfallahjálp á þessu ári raðáfalla sem engan enda ætla að taka.

Ég neita að trúa því að Óskar Magnússon dembi enn einu áfallinu yfir þjóðina af fúsum og frjálsum vilja. Ég held að þetta sé eitthvað trix - afsprengi hins sérstaka skopskyns Óskars sem hann er þekktur fyrir. Láta skína í að einn aðalhöfundur og arkitekt hrunsins taki við Mogganum. Hann er að hræða úr fólki líftóruna svo það verði alsælt og dauðfegið þegar rétt nafn á nýja ritstjóranum verður gefið upp og taki honum fagnandi. Er það ekki, Óskar? Enda veit Óskar sem er, að hann ræður engu ef Davíð verður ráðinn ritstjóri. Davíð er ekki vanur því að lúta stjórn annarra.

Verður þetta tónninn í Reykjavíkurbréfunum á næstunni?
Klappliðið og viðhlæjendurnir einu áskrifendurnir?

 

Gunnar, skopmyndateiknari á Fréttablaðinu, hlýtur að vera forspár.
Eða hefur þetta verið svona um ómunatíð!

Davíðsópið - Gunnar - Fréttablaðið 12.12.08


Upplýsingar og gagnsæi - lífsnauðsyn

Ein af forsendum þess að unnt verði að gera upp hrunið og takast á við afleiðingarnar er að upplýsingar séu aðgengilegar og gagnsæi í þjóðfélaginu eins og best verður á kosið. Leynd og launung þjónar aðeins þeim sem hafa eitthvað að fela eða eru kannski með eitthvað misjafnt á prjónunum sem ekki má vitnast. Um daginn skrifaði ég pistil - Kerfisbundinn blekkingarvefur? - sagði þar frá hugbúnaði Jóns Jósefs Bjarnasonar og sýndi ótrúlegar tengslamyndir úr honum. Nokkrum dögum seinna var skrúfað fyrir upplýsingar hjá embætti Ríkisskattstjóra. Yfirlýsingar voru gefnar á báða bóga og málið virtist í hnút.

Fjölmiðlar hafa undanfarna daga fjallað mjög um hugbúnað Jóns Jósefs (IT ráðgjöf og hugbúnaðarþjónusta ehf.) sem sýnir tengsl milli eigenda og stjórnarmanna fyrirtækja á Íslandi. Hugbúnaðurinn getur á mjög einfaldan og gagnsæjan hátt teiknað upp eignarhald fyrirtækja á Íslandi. Hann er því mikilvægt tæki til að greina krosseignartengsl, samþjöppun valds, sem var ein af ástæðum bankahrunsins. Það kom því mörgum á óvart þegar lokað var á aðgang Jóns Jósefs að gagnagrunni Fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra sem hugbúnaðurinn byggir á.

Jón Jósef í Kastljósi 14. september 2009

 

Það mál er nú leyst. Eins og fram kom í kvöldfréttum fjölmiðlanna í gær og á vefsíðum þeirra sendi Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, frá sér svohljóðandi fréttatilkynningu undir kvöld:

"Að undanförnu hefur verið til umfjöllunar á opinberum vettvangi ósk forráðamanns IT Ráðgjafar- og hugbúnaðarþjónustu ehf. um að fá aðgang að gagnagrunni fyrirtækjaskrár. Ríkisskattstjóri taldi nauðsynlegt m.t.t. eðli gagnagrunnsins og fyrirhugaðar starfsemi, að afstaða Persónuverndar þyrfti að liggja fyrir.

Nú þegar afstaða Persónuverndar er ljós ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að forráðamaður hlutaðeigandi félags fái umbeðinn aðgang að uppfylltum viðeigandi öryggis- og formkröfum. Reiknað er með að unnt verði að ganga frá því á næstu dögum og skráin þá gerð aðgengileg.

Þá vill ríkisskattstjóri taka fram að öll verkfæri sem nýst geta eftirlitsaðilum og þar með skattyfirvöldum til að auðvelda störf þeirra og jafnframt við að stuðla að gagnsæi í viðskiptum og til að upplýsa um krosseignatengsl, eru mikils virði."

Hópur fólks sem vinnur að auknu gagnsæi upplýsinga fundaði með Jóni Jósef seinnipartinn í gær og niðurstaðan var sú að fá Skúla á fund með hópnum í gærkvöldi. Skúli skýrði fyrir hópnum þær ástæður sem lágu að baki þess að lokað var fyrir aðgang Jóns Jósefs að Fyrirtækjaskrá sem voru í stuttu máli þær, að embætti ríkisskattstjóra vildi hafa allt á hreinu og sýna ábyrgð. Enginn þrýstingur eða annarlegir hagsmunir hefðu legið þar að baki.

Skúli bað Jón Jósef afsökunar á ummælum sínum í fyrri tilkynningu og áréttaði að Jón Jósef hefði hvorki brotið lög né reglur og ekki gert neitt rangt. Þeir Skúli og Jón Jósef tókust í hendur og sættust heilum sáttum.

Ljóst var af framgöngu ríkisskattstjóra að hann er mjög meðmæltur gagnsæi upplýsinga svo framarlega sem farið er að lögum og mun leggja sitt lóð á vogarskálarnar til þess framvegis. Hann er áhugasamur um gagnagrunn Jóns Jósefs og þeir ætla að funda um framhaldið á mánudag.

Hér handsala þeir Skúli ríkisskattstjóri og Jón Jósef sættir í gærkvöldi.

Skúli Eggert Þórðarson og Jón Jósef Bjarnason handsala sættir - Ljósm.: Lára Hanna Einarsdóttir

Viðbót: Bendi á tvo nýja pistla um gagnsæi eftir Egil Jóhannsson og Hjálmar Gíslason.

Jón Jósef og Egill Jóhannsson í Silfrinu 20. september 2009

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband