Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ráðherrasamviskan og ábyrgðin

Ráðherrar og aðrir stjórnmálamenn virðast aldrei hafa neitt slæmt á samviskunni. Jafnvel þótt sýnt sé og sannað að samviska þeirra ætti að vera kolsvört. Þeir vita sem er, að pólitísk og siðferðileg ábyrgð tíðkast ekki á Íslandi og þeir eru ósnertanlegir - líka þótt þeir brjóti lög. Í krafti þeirrar vitneskju axla stjórnmálamenn aldrei ábyrgð á gjörðum sínum, sama hve fáránlegar, glannalegar, heimskulegar, hrokafullar og afdrifaríkar þær eru fyrir þjóðina. Þeir fara sínu fram hvað sem tautar og raular. Þessi staðreynd er stór hluti af vanda íslensks samfélags.

Geir H. Haarde var í viðtalsþætti í gærkvöldi sem sýndur var bæði í norska og sænska sjónvarpinu. Hann var með hreina samvisku. Illugi skrifaði kjarnyrtan pistil um málið og ég hef engu við hann að bæta.

Geir H. Haarde hjá Skavlan 18. september 2009

 Birgir Hermannssonum pólitíska ábyrgð í Silfrinu 7. desember 2008

Stutt umfjöllun RÚV um ábyrgð frá 29. desember 2008

Hér er frægt dæmi um alls konar framferði eins ráðherra frá í mars 2008. Augljóst var um hvað málið snerist og hvernig var staðið að því. Ráðherrann reif bara kjaft og sat sem fastast. Neðst í færslunni er viðfest hljóðskrá af Spegilsviðtali við Gunnar Helga Kristinsson, prófessor, þar sem hann segir framkomu ráðherra og aðdróttanir gagnvart Umboðsmanni Alþingis fordæmislausa. Ekkert var aðhafst og gjörningurinn stóð óhagganlegur.

Fréttir Stöðvar 2 og RÚV 27. og 28. mars 2008

Geir H. Haarde var gestaritstjóri (editor) í útvarpsþætti hjá BBC 18. ágúst sl. Það var fróðlegt, en jafnframt svolítið hrollvekjandi að hlusta á hann. Í sama þætti var stutt viðtal við Öldu Sigmundsdóttur, sem bloggar á ensku á Iceland Weather Report vegna einnar bloggfærslu hennar. Hljóðskrá úr þættinum viðfest neðst í færslunni.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skelfilegt sinnuleysi

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Ég veit ekki lengur mitt rjúkandi ráð. Hvernig er hægt að vekja mína ástkæru þjóð af  Þyrnirósarsvefninum? Hvernig er hægt að beina athygli fólks að því, hvernig verið er að fara með landið okkar, auðlindirnar og okkur sjálf - fólkið sem byggir þetta harðbýla en yndislega land? Er fólki virkilega sama? Ég vil ekki trúa því.

Hve margir horfðu á myndina í sjónvarpinu í fyrrakvöld - Afsökunarbeiðni efnahagsböðuls? En hve margir horfðu á myndina Einkavæðing og afleiðingar hennar sem sýnd var á RÚV í lok maí? Innihald þessara mynda passar bara vel við það sem er að gerast á Íslandi.

Ég fæ orðið klígju þegar alls konar spekingar nefna sem lausn á vanda þjóðarinnar: "... að við eigum svo miklar auðlindir". Við þurfum bara að nýta þær og þá er allur okkar vandi leystur. Auðlindum sjávar sé svo vel stjórnað og orkuauðlindirnar endurnýjanlegar og tandurhreinar. Þetta er blekking og þeir sem vita betur hafa ítrekað reynt að koma því á framfæri.

Fiskurinn í sjónum er bókfærð eign kvótakónga og veðsettur upp í rjáfur í erlendum bönkum af því strákana langaði svo að leika sér og kaupa einkaþotur, þyrlur og annan lúxus. Afganginn geyma þeir á leynireikningum í útlöndum og við borgum skuldirnar þeirra. Þó að ákvæði sé í lögum eða stjórnarskrá um að þjóðin eigi auðlindir sjávar er nákvæmlega ekkert að marka það. Nú eru þær í eigu erlendra banka eða erlendra kröfuhafa bankanna. Merkilegt að strákarnir skuli samt fá að halda kvótanum.

Orkuauðlindirnar - sem eru hvorki endurnýjanlegar né tandurhreinar eins og reynt er að telja þjóðinni og útlendingum trú um - er verið að einkavæða og selja frá þjóðinni fyrir slikk. Engu að síður er vitað að verðmæti þeirra getur ekki annað en aukist næstu ár og áratugi. Arðurinn af þeim fer úr landi og almenningur ber æ þyngri byrðar fyrir vikið. Hér á líka við að eignarhald þjóðarinnar á pappírunum er einskis virði ef nýtingarréttur og yfirráð eru í höndum einkaaðila.

John Perkins, fyrrverandi efnahagsböðull og aðalpersóna myndarinnar í fyrrakvöld, varaði okkur við. Hann sagði að þetta snerist allt um auðlindir. Hann sagði líka þetta: "Andstaðan verður að koma frá fólkinu. Við getum ekki búist við að leiðtogarnir búi yfir kjarki eða getu til að koma á breytingum nema við, fólkið, krefjumst þess. Hér á Íslandi verðið þið Íslendingar að krefjast þess að þið eigið auðlindirnar. Þetta er landið ykkar. Þið búið í því. Forfeður ykkar hafa verið hér í mörg hundruð ár og hugsað um það. Þið megið ekki selja auðlindirnar til annarra og láta arðræna ykkur svona. En það verður að koma frá ykkur." Sagði John Perkins.

Á þriðjudaginn fór fram auðlindasala í Ráðhúsi Reykjavíkur í boði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Það var rækilega auglýst í fjölmiðlum og á Netinu. Þegar mest var voru á annað hundrað manns að mótmæla auðlindasölunni. Hvenær gerir fólk sér grein fyrir því, að verið er að selja Ísland, éta okkur með húð og hári - beint fyrir framan nefið á okkur?

Sinnuleysi Íslendinga er skelfilegt.

**********************************************

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Andstaðan og sinnuleysið

Það tilkynnist hér með að þetta er ekki "eiginlegt blogg" og ég ekki bloggari - samkvæmt ummælum merkra álitsgjafa. Ég datt inn á umræðu um bloggara hjá Jens Guð áðan og las þar skemmtilegar upplýsingar um sjálfa mig og bloggið mitt. Þar segir t.d. bloggarinn Matthías Ásgeirsson í athugasemd nr. 113: "Ég get tekið undir með þér að Lára Hanna er ágætur bloggari, ef bloggara má kalla. Hún er náttúrulega fyrst og fremst í því að afrita efni annarra. Ég myndi eiginlega frekar kalla hana (ágætis)vefbókasafn." Og íhaldsmaðurinn Emil Örn Kristjánsson tekur undir í athugasemd nr. 115 og segir: "Ég get svo tekið undir með Matthíasi að 'blogg' Láru Hönnu er ekki eiginlegt 'blogg'. Það er frekar, eins og hann segir, nk. vefbókasafn... þar sem allar bækurnar eru reyndar mjög á einn veg."

Þessi ummæli skutu mér skelk í bringu og fengu mig til að líta um öxl yfir farinn veg. Samkvæmt teljaranum í stjórnborðinu hef ég birt 647 færslur á tæpum tveimur árum. Ekki nenni ég nú að telja orðin sem skipta líklega hundruðum þúsunda. Engum sem þekkir skrif mín dylst að ég skrifa oftast langa pistla með miklu ítarefni. En nú er ég farin að efast... Hver skrifaði þetta allt saman fyrst það er ekki ég? Hver afritaði allan þennan texta og hvar? Er ég kannski sjálf afrit? Hvaða hugleiðingum og skoðunum hef ég verið að lýsa - ef ekki mínum eigin? Ég hef satt að segja svolitlar áhyggjur af þessu því varla fara örvitar og íhaldsmenn með fleipur, eða hvað?

En nú vita alltént lesendur þessarar síðu að þetta er ekki "eiginlegt blogg" - hvað svosem það er. Hér birtist bara "afrit af efni annarra" - ekki mín eigin orð, hugleiðingar eða skoðanir. Mér er hulin ráðgáta hvaðan allt það sem ég hef skrifað undanfarin tæp tvö ár er komið. Spurning um að kalla til miðil...

Ég hef ekki orku í að bæta við öllu sem ég þurfti að sleppa í pistlinum á Morgunvaktinni í morgun vegna tímatakmarkana. Sumt hef ég sagt áður, annað ekki. En nú er bara spurning hver samdi þetta og flutti og hvaðan þetta er allt saman afritað. Veit það einhver? Matthías kannski... eða Emil Örn...?

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Ég veit ekki lengur mitt rjúkandi ráð. Hvernig er hægt að vekja mína ástkæru þjóð af  Þyrnirósarsvefninum? Hvernig er hægt að beina athygli fólks að því, hvernig verið er að fara með landið okkar, auðlindirnar og okkur sjálf - fólkið sem byggir þetta harðbýla en yndislega land? Er fólki virkilega sama? Ég vil ekki trúa því.

Hve margir horfðu á myndina í sjónvarpinu í fyrrakvöld - Afsökunarbeiðni efnahagsböðuls? En hve margir horfðu á myndina Einkavæðing og afleiðingar hennar sem sýnd var á RÚV í lok maí? Innihald þessara mynda passar bara vel við það sem er að gerast á Íslandi.

Ég fæ orðið klígju þegar alls konar spekingar nefna sem lausn á vanda þjóðarinnar: "... að við eigum svo miklar auðlindir". Við þurfum bara að nýta þær og þá er allur okkar vandi leystur. Auðlindum sjávar sé svo vel stjórnað og orkuauðlindirnar endurnýjanlegar og tandurhreinar. Þetta er blekking og þeir sem vita betur hafa ítrekað reynt að koma því á framfæri.

Fiskurinn í sjónum er bókfærð eign kvótakónga og veðsettur upp í rjáfur í erlendum bönkum af því strákana langaði svo að leika sér og kaupa einkaþotur, þyrlur og annan lúxus. Afganginn geyma þeir á leynireikningum í útlöndum og við borgum skuldirnar þeirra. Þó að ákvæði sé í lögum eða stjórnarskrá um að þjóðin eigi auðlindir sjávar er nákvæmlega ekkert að marka það. Nú eru þær í eigu erlendra banka eða erlendra kröfuhafa bankanna. Merkilegt að strákarnir skuli samt fá að halda kvótanum.

Orkuauðlindirnar - sem eru hvorki endurnýjanlegar né tandurhreinar eins og reynt er að telja þjóðinni og útlendingum trú um - er verið að einkavæða og selja frá þjóðinni fyrir slikk. Engu að síður er vitað að verðmæti þeirra getur ekki annað en aukist næstu ár og áratugi. Arðurinn af þeim fer úr landi og almenningur ber æ þyngri byrðar fyrir vikið. Hér á líka við að eignarhald þjóðarinnar á pappírunum er einskis virði ef nýtingarréttur og yfirráð eru í höndum einkaaðila.

John Perkins, fyrrverandi efnahagsböðull og aðalpersóna myndarinnar í fyrrakvöld, varaði okkur við. Hann sagði að þetta snerist allt um auðlindir. Hann sagði líka þetta: "Andstaðan verður að koma frá fólkinu. Við getum ekki búist við að leiðtogarnir búi yfir kjarki eða getu til að koma á breytingum nema við, fólkið, krefjumst þess. Hér á Íslandi verðið þið Íslendingar að krefjast þess að þið eigið auðlindirnar. Þetta er landið ykkar. Þið búið í því. Forfeður ykkar hafa verið hér í mörg hundruð ár og hugsað um það. Þið megið ekki selja auðlindirnar til annarra og láta arðræna ykkur svona. En það verður að koma frá ykkur." Sagði John Perkins.

Á þriðjudaginn fór fram auðlindasala í Ráðhúsi Reykjavíkur í boði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Það var rækilega auglýst í fjölmiðlum og á Netinu. Þegar mest var voru á annað hundrað manns að mótmæla auðlindasölunni. Hvenær gerir fólk sér grein fyrir því, að verið er að selja Ísland, éta okkur með húð og hári - beint fyrir framan nefið á okkur?

Sinnuleysi Íslendinga er skelfilegt.

*****************************************************

Hljóðskráin er hér fyrir neðan. Ég verð að leiðrétta Láru og Frey - þau kynna mig alltaf sem bloggara.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hver seldi Ísland?

Hvað þarf til að vekja íslenskan almenning til vitundar um að verið er að selja okkur í ánauð? Þetta er engin dramatísering - bara svellkaldur veruleiki, því miður. Í síðasta pistli benti ég á mynd sem sýnd var á RÚV í gærkvöldi - Afsökunarbeiðni efnahagsböðuls. Ég viðurkenni fúslega að tárin trilluðu niður kinnarnar þegar ég horfði á myndina og nokkuð lengi á eftir. Einmitt það sem þar var lýst er að gerast hér. Nákvæmlega þetta. Ég verð með ónotatilfinninguna enn um sinn. Og maður spurði sig: Hve mikið fékk Óskar borgað? Var Hönnu Birnu hótað? Hvað með síðustu ríkisstjórn? Valgerði, Halldór, Davíð og þau öll? Getur verið að eilífar frestanir AGS núna stafi af því að Jóhanna og Steingrímur neiti að spila með? Hvað veit maður? Enginn segir okkur neitt. Hver seldi Ísland?

Afsökunarbeiðni efnahagsböðuls
Fyrri hluti

 

Seinni hluti

 

Hér eru nokkrar athugasemdir við síðustu færslu þar sem ég vakti athygli á sýningu myndarinnar:

Það var fróðleg fréttin sem birtist í hádegisfréttum RUV. Þar var haft eftir Tómasi Má Sigurðssyni, forstjóra Alcoa, að þeir þyrftu tryggingu fyrir því að fá orku fyrir 350.000 tonna álver.

Þetta þýðir óútfylltan tékka til Alcoa,  um aðgang að orkuauðlindum sem ná frá Þeistareykjum og til Herðubreiðar og Skjálfandafljóts.

Má finna samsvörun í tali forstjórans og því sem kemur fram í myndinni?

____________________

Stórkapítallinn í BNA hefur áorkað meira til sósíalismans en kenningar Marxista og annara sósíalista samanlagt. Misskipting auðs er að sjálfssögðu helsta vandamál heimsins í dag og undanhald millistéttarinnar endar með einhverskonar uppgjöri þjóðfélagshópa í öllum samfélögum.

Menn eins og John Perkins lýsa þessu mjög vel og þarf fólk að hlusta á hann með opnum huga.

Saga t.d. Suður Ameríku er að öllu leyti sorgleg þar sem hún tengist imperíalisma BNA svo náið. Því hvers vegna ættu innfæddir íbúar þessara svæða að njóta góðs af auðlindum landsins?

Þetta er í raun sáraeinfalt en vandamálið er að maður þarf að hugsa um þetta eins og maður sé staddur í James Bond mynd. Maður á oft einfaldlega erfitt með að trúa að 'siðmenntaðir' íbúar, 'siðmenntaðra' landa hegði sér á þennan hátt.

____________________

Fyrsti hluti láns AGS til okkar fór á reikning í banka í New York og það stemmir við það sem Perkins segir í Játningunum.

Öll efnahagsaðstoð við Austur Tímor fór inn á banka í USA og bókstaflega ekkert skilaði sér þangað. Það stemmir við það sem Perkins segir.

Uppbyggingin í Indónesíu eftir flóðbylgjuna byggðist á „aðstoð" sem fólst í því að Bandarísk fyrirtæki fengu pening til að byggja hótel og koma upp túristagildrum þar sem þorp innfæddra stóðu. Það stemmir við Perkins.

____________________

Það er vonandi að ráðamenn og almenningur fari að tengja varðandi bolabrögð AGS hér og svo þessa útsölu auðlindanna, sem dulin er með því að við eigum auðlindirnar, en njótum einskis af þeim. Með hjáleiðum, klókindum og skúffufyrirtækjum er farið á snið við lög og reglur á meðan menn í öllum flokkum draga lappirnar í lagasetningum og stjórnarskrárbreytingum til að tryggja okkur yfirráðin.

Menn mega líka spyrja sig hvort það veki ekki spurningar að yfirmaður AGS (governor) á Bretlandi, var á tímum hryðjuverkalaganna og er enn enginn annar en Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta. Hringir það virkilega engum bjöllum? Hringir það engum bjöllum að AGS skuli ekki svo mikið sem hafa okkur á dagskrá fyrr en við höfum gengið frá ICESAVE? Þeir sem gáfu það opinberlega út að þeir væru aðeins ráðgefandi og að málið væri "none of their business". Nú merja þeir líftóruna úr okkur með að teygja gjaldeyrishöftin á langinn um leið og þeir halda aftur af neyðarláni sínu.

Og af hverju samanstendur þetta neyðarlán?  Í nóvember í fyrra lofaði frú Kristin Halvorssen um 100 milljarða láni til okkar, frá Norðmönnum, sem þing þeirra samþykki. AGS stígur inn í ferlið og stöðvar það. Norðmenn samþykkja að breyta láninu þannig að það verði hluti af lánapakka AGS. Þeir lánuðu svo AGS 600 milljarða, svo þeir gætu lánað okkur. Sama gerðist með Rússalánið. AGS, stöðvaði bæði þessi lán, svo þeir sætu einir að kverkatakinu. Það sem hefur gerst í Suður-Ameríku og víðar í þróunarlöndum er að gerast hér, en þeir hafa bara tekið upp betur duldar og sívílíseraðri aðferðir til að ná sama marki.

Menn skulu ekki gleyma að AGS er að 51% í eigu USA, eða réttara sagt Federal reserve/Wall Street, sem er ekki meira federal en federal express, heldur hreint og klárt tæki auðhringa til að komast yfir auðlindir (resources). 

Þótt vilji þjóða sé fyrir hendi að hjálpa okkur í þessari kreppu, þá er það AGS, sem kemur í veg fyrir það með klókindum, eða jafnvel hótunum. Allt skal fara í gegnum þá. They call the shots here.

Það sem Ísland á að gera, ef svo ólíklega vill til að Bretar og Hollendingar fallist ekki á fyrirvara okkar, er að vísa málinu fyrir dómstóla og í beinu framhaldi af því að henda AGS út og taka slaginn sjálf. Það er raunar nóg fyrir fólk að lesa um sjóðinn á wikipedia (sértaklega seinni hlutann) til að sjá hvað þessi glæpahringur stendur fyrir.

Verið á útkikki eftir böðlum og sjakölum. Ekki vera of viss um að þeir séu endilega útlendingar.

Fólk skyldi svo hafa í huga þegar minnst er á hina hugumprúðu útlendinga, sem eru að koma hingað til að "aðstoða við uppbyggingu orkufreks iðnaðar" að það er aðeins annað orð yfir arðrán. Það skal enginn halda að það séu þeir, sem virki og búi í haginn fyrir þetta. Það erum við. Enn höfum við ekkert annað upp úr álvæðingunni haft en botnlausar skuldir og gjaldþrota Landsvirkjun og það er algerlega ljóst að við getum reiknað það í öldum, hvenær það yrði að veruleika. Þótt hvert einasta andskotans kílówatt yrði virkjað fyrir þessar samsteypur, og álver byggð til að fullnýta það, þá myndi það skapa störf fyrir 2% þjóðarinnar.

Það er verið að éta ykkur með húð og hári og máltíðin hefur verið talsvert lengi í ofninum.

____________________

Afsökunarbeiðni efnahagsböðuls

Ég vek athygli á mynd sem sýnd verður strax á eftir Tíufréttum á RÚV í kvöld - Apology of an Economic Hit Man eða Afsökunarbeiðni efnahagsböðuls upp á ylhýra. Þarna er um að ræða kunningja okkar Íslendinga, John Perkins, sem var í viðtali í Silfrinu í byrjun apríl og kom einnig fram í Draumalandi Andra Snæs Magnasonar með afar eftirminnilegum hætti. Sumum finnst Perkins trúverðugur - öðrum ekki.

Apology of an Economic Hit Man - RÚV 16.9.09

Það verður athyglisvert að sjá myndina við getum rifjað upp sitthvað sem John Perkins hefur sagt undanfarið - byrjum á Silfrinu.

Silfur Egils 5. apríl 2009

 Ísland í dag 7. apríl 2009

 

 Draumalandið - kynningarmyndband

Fyrirlestur Johns Perkins í Háskóla Íslands 6. apríl 2009
Fyrri hluti

 

Seinni hluti

 

 John Perkins - How to destabilize countries legally

 

John Perkins er sannfærður um að Ísland hafi orðið fyrir árás efnahagsböðla. Það er Michael Hudson, hagfræðingur, líka. Bendi í því sambandi á tvær greinar eftir Hudson sem birtust í Fréttablaðinu í byrjun apríl: Alheimsstríð lánadrottna og Stríðið gegn Íslandi. Hefur eitthvað komið í ljós sem bendir til að við ættum EKKI að trúa þessum mönnum?


Súrrealískur og sögulegur fundur

Fundurinn í Ráðhúsinu í dag var súrrealískur. Fjölmenni var á pöllunum og fólk lét í sér heyra svo um munaði. Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðingur, kallaði slíkt óhefðbundna stjórnmálaþátttöku eða borgarlega óhlýðni. Ég þurfti að fara til læknis svo ég varð ekki vitni að kosningunni og mótmælunum þeim tengdum. En átti í staðinn skemmtilegar samræður við lækninn.

Sá góði maður sagði að í dag hafi sú örlitla von um að eftir væru skynsamir, heiðarlegir stjórnmálamenn (í Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki) sem hægt væri að treysta, endanlega dáið. Hann sagðist alltaf hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn þótt stundum hafi hann þurft að halda fyrir nefið og loka augunum á meðan hann exaði við Déið. En hann hefur heitið sjálfum sér að kjósa þá aldrei, aldrei framar. Ef ég þekki hann rétt stendur hann við það. Framferði sjálfstæðismanna í borgarstjórn í dag gerði útslagið.

Ég tók upp hljóðútsendingu fundarins. Upptakan rúllaði í tölvunni á meðan ég var í burtu. Svo klippti ég brot úr fréttatímum sjónvarpsstöðvanna og Mbl.is við kaflann með kosningunni og mótmælunum. Hljóð og mynd passa semsagt ekki saman nema að mjög litlu leyti. Skaut líka inn nokkrum myndum sem ég tók á fundinum. Hljóðskrá með allri umræðunni um OR-Magma málið er viðfest neðst í færslunni ef fólk vill hlusta á öll ósköpin.

Þessi borgarstjórnarfundur er sögulegur og verður svo sannarlega rifjaður upp frá ýmsum hliðum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor, það efast ég ekki um eitt augnablik. Nú eru kjósendur í þeirri aðstöðu að geta rifjað allt upp, engu verður gleymt.

Óskar Bergsson er framsóknarmaður eins og þeir gerast einna sannastir. Nú fagnar hann niðurstöðu dagsins með félögum sínum sem munu græða á gjörningnum á einn eða annan hátt. Skömmu eftir að hann hóf mál sitt á fundinum stóð fullorðinn maður meðal áheyrenda upp og gekk fram. Konan hans hvíslaði að mér: "Maðurinn minn getur ekki hlustað á Óskar Bergsson. Hann fullyrðir að Óskar hafi aldrei á ævinni sagt satt orð." Ég vissi nákvæmlega hvað bóndi hennar var að tala um. Óskar Bergsson og Þorleifur Gunnlaugsson voru í Kastljósi. Þar kom fram að Óskari finnst bara í góðu lagi að dularfullt skúffufyrirtæki, sem stofnað er til að komast í kringum íslensk lög, eignist nýtingarrétt á orkuauðlindum okkar. Siðferðið í góðu lagi á þeim bænum. Munið þið eftir þessu, til dæmis?

Kastljós 15. september 2009


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innihaldið í sænsku skúffunni

Á morgun mun borgarstjórn Reykjavíkur ætla að taka endanlega ákvörðun um hvort skúffufyrirtækinu Magma Energy Sweden verður seldur hlutur Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku. Samkeppnisyfirvöld, með Pál Gunnar Pálsson Péturssonar framsóknarforkólfs frá Höllustöðum í forystu, höfðu Magma Energyúrskurðað að OR mætti ekki eiga nema 3% í HS Orku. Samkeppnisyfirvöld eru því að þvinga fram sölu á hlutnum - og mér er spurn: Eru líka framsóknarmenn á bak við kaupin? Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að siðlausir auðjöfrar séu á bak við einkavæðingu auðlindanna - samanber REI-málið - og ekkert hefur komið fram sem hefur haggað þeirri skoðun minni. Þeir eru innihaldið í skúffunni í Svíþjóð.

Nú er deilt um hvort salan til Magma Sweden sé lögleg, því ekki megi selja aðilum utan EES virkjunarrétt vatnsfalla og jarðhita. Þó sagði sérfræðingur í HR í RÚV-fréttum í kvöld að aðferð Magma í Kanada til að komast yfir auðlindir Íslendinga sé ekki ólögleg, þ.e. heimilisfesti skiptir máli, en ekki ríkisfang eigandans. Samkvæmt því geta hverjir sem er stofnað skúffufyrirtæki hvar sem er í EES eða ESB löndum og keypt sig inn í hvað sem er hér á landi, eða hvað? Engin starfsemi þarf að vera í skúffunni. Einmitt þannig fóru útrásardólgarnir að og gera væntanlega enn. Þeir notuðu skúffufyrirtæki grimmt til að ræna okkur.

Þetta minnti mig á Spegilsviðtal frá 30. apríl 2008 við Rafael Baron, rússneskan ráðgjafa í olíumálum, sem aðstoðaði íslensku olíufurstana sem vildu reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum - og vilja kannski enn. Viðtalið er viðfest neðst í færslunni, en í því segir Baron m.a. að Rússarnir hafi stofnað skúffufyrirtæki á Írlandi með sáralítið hlutafé til að fara í kringum lög og reglur á Íslandi. Hann reyndi ekkert að leyna því. Hlustið bara á viðtalið.

Í tilfelli Magma er augljóst að um skúffufyrirtæki er að ræða, stofnað til að komast í kringum íslensk lög. Gott ef gerendur hafa ekki viðurkennt það og þeir neituðu að veita veð í móðurfyrirtækinu í Kanada. Þá er stóra spurningin hvort stjórnvöld ætli að láta það óátalið án þess einu sinni að reyna að hindra það. Ætla stjórnvöld að láta hinn nauma meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks komast upp með að selja stóran hluta í arðbæru orkufyrirtæki til skúrka sem ætla að græða á okkur - eða stöðva siðleysið hið snarasta. Þau geta það nefnilega.

Í 12. grein laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri nr. 34/1991 stendur m.a. þetta: "Nú telur viðskiptaráðherra að tiltekin erlend fjárfesting ógni öryggi landsins eða gangi gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði eða ef upp koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, og getur hann þá stöðvar slíka fjárfestingu, enda kunngjöri hann ákvörðun sína innan átta vikna frá því að honum berst tilkynning um hlutaðeigandi fjárfestingu, sbr. 7. gr." Gylfi Magnússon getur semsagt stöðvað söluna samkvæmt þessu.

Vilmundur heitinn Gylfason er gjarnan sagður síðasti hugsjónamaðurinn á þingi. Hann mun fyrstur hafa talað um að eitthvað væri löglegt en siðlaust, en hann barðist fyrir bættu siðferði á þingi og í stjórnsýslunni. Vilmundur lést fyrir rúmum 26 árum og siðferðið hefur bara versnað ef eitthvað er. Það er sorgleg staðreynd. Eftir efnahagshrunið hrópaði almenningur hátt á betra siðferði - og gerir enn. Er ekki tími til kominn að hætta að einblína á lagatæknileg atriði og huga að siðferðinu? Ef eitthvað er fullkomlega siðlaust þá er það sala OR á hlutnum í HS Orku til skúffufyrirtækis sem stofnað er til að klekkja á íslenskum lögum og það fyrir opnum tjöldum. Miklar sögur ganga um hverjir eru ofan í skúffunni og opinberlega hafa tveir menn verið nefndir, annar úr Framsóknarflokknum og hinn fyrrverandi bankamaður. Báðir auðguðust gríðarlega á að féfletta þjóðina.

En skoðum fréttirnar frá í kvöld.

Og svo er ekki úr vegi að hlusta á myndbrotið sem Egill Helga sýndi í Silfrinu á sunnudaginn - hlustið á hvað Joseph Stiglitz segir um auðlindirnar og takið vel eftir viðbrögðunum. Það er augljóst að meirihluti þjóðarinnar vill að auðlindirnar - og nýtingarrétturinn - sé á hendi hins opinbera, ekki einkaaðila og ALLS EKKI þeirra sem féflettu þjóð sína og komu landinu á vonarvöl. Minnumst þess hvernig þeir ætluðu að spila í REI-málinu og af hverju þeir höfðu augastað á orkufyrirtækjunum. Til að græða. Sá gróði á að renna til þjóðarinnar, ekki örfárra auðmanna.

Joseph Stiglitz í Háskóla Íslands 7. september 2009 - úr Silfri Egils

 



Ég veit að borgarfulltrúar hafa fengið ótal tölvupósta frá fólki sem vill afstýra þessum gjörningi. Ég hvet alla til að senda þeim póst - aftur ef þið eruð búin að því. Nöfnin og netföngin eru hér. Lesið líka stórfínt bréf Agnars til borgarfulltrúa og magnaðan pistil Salvarar. Mér virðist að borgarfulltrúar geri sér ekki grein fyrir afleiðingum gjörða sinna fyrir framtíðarkynslóðir á Íslandi. Ég bendi á frábæran fréttaauka Eyjunnar eftir Sigrúnu Davíðsdóttur - 2007 eða framtíðin. Einnig pistil Sigrúnar á RÚV - Má Magma eiga í HS Orku. Hljóðskrá í viðhengi neðst í færslunni.

Borgarstjórn tekur málið fyrir á morgun, þriðjudag, og hefst fundurinn klukkan 14. Ég minni á orð Johns Perkins um að andstaðan við afsal á auðlindunum verði að koma frá fólkinu. Þetta er landið okkar, við búum í því. Forfeður okkar hafa verið hér í mörg hundruð ár og hugsað um það. Við megum ekki selja auðlindirnar til annarra og láta arðræna okkur svona. En andstaðan verður að koma frá okkur, fólkinu í landinu. Mætum öll á pallana í ráðhúsinu á morgun, stöndum úti, berjum á potta og pönnur eða gerum hvaðeina til að lýsa andstöðu okkar við auðlindasöluna. Sameinuð sigrum við!

Að lokum langar mig að sýna ykkur nokkrar myndir sem ég klippti og skeytti saman af netinu um Magma Energy Sweden AB. Hér er deginum ljósara að engin starfsemi er í þessu fyrirtæki þótt útrásardólgar og spilltir stjórnmálamenn leynist í skúffum þess. Þarna sést m.a. að "fyrirtækið" er ekki skráð með neina skattskylda starfsemi og fulltrúar þess eru starfsmenn lögfræðistofu í Gautaborg. Aðalmaðurinn, Lyle Emerson Braaten, er sagður búsettur utan EES, enda einn af starfsmönnum Magma í Kanada eins og sjá má hér. Þetta minnir óhugnanlega á vinnubrögð þeirra manna sem féflettu Ísland.

Magma Energy Sweden AB


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Megi réttlætið sigra að lokum

Ég er búin að skrifa svo mikið um þöggunina og hræðsluþjóðfélagið að mér fannst varla á það bætandi. Ég bætti nú samt á það í föstudagspistlinum á Morgunvakt Rásar 2 - og viti menn! Daginn eftir var skrúfað fyrir aðgang Jóns Jósefs að Fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra þegar hann var að uppfæra gagnagrunn sinn. Án viðvörunar eða skýringa. Þó er gagnagrunnurinn í notkun hjá opinberum rannsóknaraðilum og Persónuvernd búin að hafa hálft ár til að skoða málið. Engu að síður herma nýjustu fréttir að lokað hafi verið fyrir aðganginn því skort hafi leyfi frá Persónuvernd. Maður spyr sig því hvort Persónuvernd hafi vald til að bregða fæti fyrir rannsókn á hruninu... eða hvort það sé bara fjölmiðlar og almenningur sem ekkert megi vita. Þetta hlýtur að koma í ljós við rannsókn fjölmiðla á málinu - en ég sakna þess mjög að heyra ekkert um þetta mál hjá Mogga, Stöð 2, Fréttablaðinu og Vísi.is. Mér finnst þetta grafalvarlegt mál sem allir fjölmiðlar ættu að veita mikla athygli.

En hér er pistill föstudagsins. Í tilefni nafnlausu umræðunnar í síðustu viku var pistillinn alveg nafnlaus. Ég þakka hagyrðingnum, Gísla Ásgeirssyni, kærlega fyrir hans innlegg og vonast til að hann botni kvæðabálkinn í ljósi frávísunar Björns betri. Botninum verður þá náð og vitanlega bætt við. Hljóðskrá er hengd við neðst að venju ef fólk vill hlusta líka.

Morgunvakt Rásar 2
Ágætu hlustendur...

Áður en lengra er haldið skal tekið fram, að þessi pistill er nafnlaus. Þeim, sem telja sig þekkja röddina, skjátlast hrapallega.

Við höfum búið svo lengi í hræðsluþjóðfélagi þöggunar þar sem sannleikurinn hefur aldrei verið vel séður ef hann hróflar á einhvern hátt við ráðandi stéttum þjóðfélagsins, sjálfu valdinu. Lýðræðisleg, opin og gagnrýnin umræða hefur ævinlega verið í skötulíki á Íslandi. Upplýsingum er leynt fyrir fjölmiðlum og almenningi og beinlínis logið til um óþægilegar staðreyndir. Fólk sem býr yfir upplýsingum þorir ekki að greina frá þeim af ótta við hefndaraðgerðir - til dæmis yfirvalda eða vinnuveitenda. Og Alþingi segir upp áskrift að DV ef menn þar á bæ eru ágengir og upplýsandi. Svona andrúmsloft er líka kjörlendi fyrir Gróu kerlinguna á Leiti, sem kvartað er undan nú sem endranær.

Það vakti mikla ólgu í samfélaginu þegar Fjármálaeftirlitið kærði nokkra blaða- og fréttamenn fyrir að birta upplýsingar. Sérstakur saksóknari, sem víða er kallaður hinu notalega gælunafni Óli spes, vildi ekki aðhafast og þá var kært til setts ríkissaksóknara, Björns L. Bergssonar. Þær fréttir bárust í fyrradag að Björn hefði vísað málinu frá. Ég legg til að hann verði kallaður Björn betri. Ekki veit ég til þess að Óli spes og Björn betri krefjist nafnleyndar, þrátt fyrir að neita að draga sannleiksleitandi fjölmiðlafólk fyrir dóm.

Hagyrðingurinn Gísli Ásgeirsson, sem kýs að vera nafnlaus í þessum pistli eins og ég, orti eftirfarandi kvæði í tilefni af forgangsröð Fjármálaeftirlitsins.

Auðmannahjörðin okkar fól
erlendis mesta þýfið
í aflandsbankanna skattaskjól
skreppa þeir fyrir næstu jól.
Þar verður ljúfa lífið.

Rannsóknarnefndir rembast við
að rekja slóðir til baka
en þeir sem ætla að leggja lið
og leka gögnum í sjónvarpið
eru sóttir til saka.

Bíður og vonar barin þjóð
að búinn verði til listinn
yfir menn sem í okkar sjóð
auðinn sóttu af græðgismóð.
En fyrst þarf að kæra Kristin.

Fangelsið eigum fyrir þá
fúl er á Hrauninu vistin
en nú liggur ákæruvaldinu á
Agnesi að dæma og koma frá.
Helst þarf að hengja Kristin.

Ég óska Óla spes, Birni betri, fjölmiðlafólki, lýðræðinu, sannleikanum og íslenskum almenningi til hamingju með frávísanirnar og hvet uppljóstrara til dáða.

Megi réttlætið sigra að lokum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skrúfað fyrir upplýsingar

Ég skrifaði um gagnagrunn Jóns Jósefs Bjarnasonar fyrir nokkrum dögum og birti ótrúlegar myndir sem sýna tengsl nokkura auðjöfra sem hafa kafsiglt efnahagskerfið. DV skrifaði um gagnagrunninn og birti upplýsingar og Kristinn Hrafnsson hjá RÚV gerði frétt um Jón Jósef og upplýsingarnar sem hann hefur safnað og skráð árum saman.

Jón hefur verið að uppfæra grunninn undanfarna daga þar sem hann náði aðeins til 1. ágúst 2007 og ljóst er að margt hefur gerst á þessum tveimur árum sem upp á vantaði. Upplýsingar sem Jón notar eru opinberar, og hann segir að fyrirtækið Creditinfo selji gestum og gangandi víðtækari og persónulegri upplýsingar en gagnagrunnurinn hans geymir. Sjálf þekki ég ekki til upplýsingagjafar Creditinfo, en það gera eflaust aðrir. Persónuvernd hefur haft aðgang að gagnagrunninum í hálft ár og ekki gert neinar athugasemdir við hann.

Nú hefur embætti Ríkisskattstjóra lokað á aðgang Jóns Jósefs að upplýsingum úr fyrirtækjaskrá. Hann segist hafa náð að uppfæra fyrirtækin en í gær, föstudag, var aðgangi hans lokað en þá átti hann eftir að uppfæra upplýsingar um þær persónur sem tengjast þeim. Þetta var gert án þess að láta hann vita þótt hann hafi greitt 180.000 krónur fyrir aðganginn og átti eftir tíma til áramóta. Þar sem hann var í miðri uppfærslu þegar hin óvænta lokun átti sér stað olli þetta talsverðum vandræðum.

Starfsmaður Ríkisskattstjóra sagði Jóni Jósef að yfirmaður þar á bæ hefði gefið þessi fyrirmæli. Ekki er vitað hvar þau eru upprunnin, en einhver vill greinilega ekki að upplýsingar komist inn í gagnagrunninn og beitir valdi til að skrúfa fyrir þær. Þetta getur komið sér afar illa fyrir ýmsa rannsóknaraðila sem nota gagnagrunn Jóns Jósefs, bæði hér heima og erlendis. Svo ekki sé minnst á upplýsingaflæði til almennings sem hafið var með vísan í gagnagrunninn.

Ég reikna fastlega með því að fjölmiðlar taki þetta mál upp á sína arma og grafist fyrir um ástæðu þess að skrúfað var fyrir opinberar upplýsingar sem búið var að greiða fyrir. Þær hafa líka rannsóknargildi og eru stór þáttur í að auka gagnsæi og upplýsingaflæði til almennings. Mig langar að vita hvort þetta sé lögleg aðgerð og nákvæmlega hver fyrirskipaði lokunina.

Fréttir RÚV 12. september 2009

Fréttir RÚV 8. september 2009

 

DV 8. september 2009 - Smellið þar til læsileg stærð fæst

Tengsl Finns og Kristins - DV 8.9.09

DV 9. september 2009 - Smellið þar til læsileg stærð fæst

Tengsl Jóns Ásgeirs og Pálma - DV 9.9.09


Hrammur græðgi og heimsku

Mikið ofboðslega er ég orðin þreytt á yfirgangi stjórnmála-, stóreignamanna og verktaka í skipulagsmálum í nánasta umhverfi mínu. Árum saman höfum við nágrannar mínir háð baráttu við skipulagsyfirvöld Reykjavíkur til að reyna að verja eignir okkar og umhverfi fyrir eyðileggjandi hrammi græðgi og heimsku. Með  misjöfnum árangri. Ég bý alveg við miðborgina og í umhverfi mínu eru ein elstu og jafnframt viðkvæmustu hús borgarinnar, heillegustu götumyndirnar og saga við hvert fótmál. Ég hef megnustu fyrirlitningu á gráðugum, smekklausum frekjuhundum sem beita valdníðslu og fjámagni til að valta yfir samborgara sína, hunsa siðferði og sanngirni og sýna sögunni - grunninum sem við byggjum á - fullkomið skeytingarleysi og vanvirðingu.

Þetta er lýjandi barátta, tímafrek og getur verið mjög kostnaðarsöm. Og það er svo sárt að þurfa að standa í svona málum. Horfa á uppbyggingu forfeðranna og söguna sem þeir skópu með tilvist sinni troðna í svaðið. Það er alltaf verið að minnka hjarta og sál miðborgarinnar. Skemmdarverkin í borginni eru engu minni en þegar verktakar fara með stórvirkar vinnuvélar inn í náttúruperlur og leggja allt í rúst.

Nú á að ráðast á Ingólfstorg og Nasa, sem í mínum huga og jafnaldra minna heita Hallærisplanið og Sigtún. Þeir sem eldri eru kalla þetta eflaust ennþá Steindórsplanið og Sjálfstæðishúsið. Sigtún er undurfallegt hús með mikla sögu, ómetanlegan sal og stórfenglega sál sem geymir mörg leyndarmál mannlegra samskipta og ástarfunda í áranna rás. Staðið hefur til alllengi að breyta þessu svæði og við skulum líta á fréttir af fyrirhuguðum framkvæmdum frá júní og júlí 2008.

Ég tek undir með þeim sem segja að Ingólfstorg sé ljótt eins og það lítur út núna. Það er grátt og kalt og forljót hús gera umhverfið ekki aðlaðandi, s.s. Miðbæjarmarkaðurinn, TM-húsið, Plaza-hótelið og gamla Morgunblaðshúsið. Til hvers að bæta einu slíku við til að gera illt verra? Torginu er hreint ekki alls varnað og hægur vandi að breyta því ef vilji er fyrir hendi. Ef öll steypan væri upprætt, tyrft og bætt við blómum og trjám yrði þetta yndislegur staður í hjarta borgarinnar.

Til stendur að færa hús inn á torgið og byggja 5 hæða hótel (sem gæti vel orðið 6 hæðir eða meira - slíkt er kallað "breytingar á byggingartíma" hjá skipulaginu). Torgið er eign Reykvíkinga, en það á að klípa af þeirri eign til að hygla lóðareigandanum, Pétri Þór Sigurðssyni, eiginmanni Jónínu Bjartmarz fyrrverandi þingmanns og ráðherra Framsóknarflokksins. Pétur Þór á semsagt að fá að byggja stórt og almenningur á að víkja svo hann geti athafnað sig. Svona vinnubrögð geta engan veginn kallast eðlileg, hvað þá sanngjörn. Hér eru nokkrar fréttir frá undanförnum dögum um málið.

Aðalstræti er elsta gata Reykjavíkur og var, eins og nafnið bendir til, aðalgatan í þorpinu forðum. Hún er mjög þröng og öll aðkoma að henni líka. Fyrir ofan og vestan götuna er Grjótaþorpið, elsta byggð borgarinnar, og út frá Aðalstrætinu liggja - eðli málsins samkvæmt - fleiri götur á svipuðum aldri og með mikla sögu. Nú þegar standa tvö, stór hótel við Aðalstræti. Hótelum fylgir mjög mikil umferð bifreiða af öllum stærðum og gerðum - á öllum tíma sólarhrings. Rútur að sækja og skila erlendum ferðamönnum í eða úr flugi og/eða skoðunarferðum, leigubílar og ótölulegur fjöldi bílaleigubíla sem þurfa stæði. Auk þess þurfa hótel alls konar aðföng og þar vinnur fullt af fólki. Að ætla að bæta allri þessari umferð á þetta þrönga, viðkvæma svæði er ekki verjandi. Ef einhver hefur á annað borð hugsað út í slíkt hjá borginni.

Kastljós var með umfjöllun um málið 1. september og talaði m.a. við Júlíus Vífil Ingvarsson, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem var fullur hrifningar á fyrirhugðum framkvæmdum. Um Nasa sagði Júlíus m.a. "...að húsið væri ekki hluti af skemmtanalífinu því þarna væru tónleikar." Ansi er ég hrædd um að fáir taki undir með Júlíusi. Horfið og hlustið sjálf.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom heim úr námi með flottar hugmyndir og ákveðnar skoðanir á skipulagsmálum, enda skipulagshagfræðingur. Ég sat með stjörnur í augunum og hlustaði á hann. Tók undir hvert orð sem hann sagði. En svo fór hann í pólitík og hefur ekki minnst á skipulagsmál síðan. Rifjum upp frammistöðu Sigmundar Davíðs í skipulagsmálum.

Silfur Egils 13. janúar 2008 - um skipulag

 Silfur Egils 27. apríl 2008 - um fasteignaverð og skipulag

 Fréttir Stöðvar 2 og Ísland í dag 31. júlí 2008 - um staðsetningu Listaháskóla

Fínar hugmyndir hjá stráknum, vel fram settar og frábærlega rökstuddar. Hann hefði gjarnan mátt halda áfram í skipulagsmálunum, þar var hann eins og fiskur í vatni. Íhugum orð Sigmundar Davíðs með Ingólfstorg og Nasa í huga.

Eins og fram kemur í fréttaklippunum hér að ofan rennur frestur til að skila inn athugasemdum við breytingarnar á skipulaginu og niðurrifi salarins á Nasa út í dag, föstudaginn 11. september. Mig langar að hvetja alla sem vilja ekki að þessi tillaga fari í gegn til að senda inn athugasemd - mótmæla þessari vitleysu. Þetta kemur okkur ÖLLUM við, líka ykkur á landsbyggðinni og Íslendingum erlendis. Um er að ræða torg og sögulegan skemmtistað í hjarta höfuðborgar allra landsmanna - og við eigum landið okkar og höfuðborgina öll saman. Aðgerðarhópurinn Björgum Ingólfstorgi og Nasa er með heimasíðuna bin.is - og þar er hægt að fá allar upplýsingar um málið og senda athugasemd í gegnum síðuna. Kynnið ykkur heimasíðuna og hjálpumst nú að við að afstýra þessu slysi. Ef fólk vill senda athugasemdir sínar sjálft í pósti er netfangið: skipulag@rvk.is.

Líf á Ingólfstorgi - af bin.is

Ályktun stjórnar Torfusamtakanna 5. september 2009:

Torfusamtökin vara við því hættulega fordæmi um ráðstöfun almannaeigna sem gefið er með samþykkt fyrirliggjandi deiliskipulags um uppbyggingu við Ingólfstorg og Vallarstræti. Í slíkri samþykkt felst að réttur eins lóðareiganda eru settur í forgang fram yfir breiða hagsmuni nágranna og almennings á grundvelli löngu úreltra skipulagshugmynda um miðbæ Reykjavíkur. Þó tillagan taki í vissum atriðum mið af sjónarmiðum húsverndar þá er hæð og umfang fyrirhugaðrar nýbyggingar við Vallarstræti á skjön við þá 101 hús í hættu - Torfusamtökinfarsælu endurreisn sögulegrar götumyndar Aðalstrætis og Grófar, sem borgaryfirvöld hafa unnið að af miklum metnaði og með glæsilegum árangri á undanförnum árum. Með nýbyggingunni yrðu fest í sessi eldri skipulagsmistök er heimild var veitt fyrir hækkun Aðalstrætis 9, en gluggalaus gafl þess húss varpar mestum skugga á sunnanvert Ingólfstorg og spillir ásýnd þess. Í því máli voru fjárhagslegir hagsmunir eins húseiganda teknir fram yfir tækifæri borgarbúa að eignast sólríkt og fallegt torg í hjarta miðbæjarins.

Nýjar upplýsingar um eðli og umfang minja frá fyrstu árum Íslandsbyggðar á svæðinu við Aðalstræti og Kirkjustræti breyta forsendum um uppbyggingu á þeim lóðum sem deiliskipulagið tekur til. Ljóst er að gera þarf umfangsmiklar rannsóknir á svæðinu áður en framkvæmdir geta hafist. Í þessum fornleifum kann að vera fólgið einstakt tækifæri fyrir Reykjavík sem ekki má gefa sér fyrirfram að moka megi burt.  Þær fornleifar geta reynst Reykjavík, sögustaðnum við sund, menningarborginni og ferðamannastaðnum verðmætari en eitt hótel.  Þá kann hugmynd um að „jarða" hinn sögulega merka og um margt einstæða sal gamla Sjálfstæðishússins að vera í uppnámi, fari svo að merkar minjar finnist á lóð hússins.

Torfusamtökin árétta mikilvægi þess að borgaryfirvöld samþykki endurskoðaða heildarstefnu um húsvernd í elsta hluta Reykjavíkur og geri hana að lögformlegum hluta aðalskipulags borgarinnar.  Í því eru fólgnir ríkir almannahagsmunir fyrir alla íbúa borgarinnar um langa framtíð. 

Meðan húsverndarstefna Reykjavíkur er ekki hluti af aðalskipulagi borgarinnar mun uppbygging hins sögulega kjarna borgarinnar verða tilviljunarkennd, ómarkviss og borginni dýr.  Mörkuð vafasömum þrætumálum eins og því sem hér fer. 

Stjórn Torfusamtakanna


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband