Færsluflokkur: Spaugilegt

Engar áhyggjur, landsmenn!

Þessa skopmynd eftir snillinginn Halldór Baldursson fann ég í 24 stundum frá 29. desember 2007. Mér fannst hún passa prýðilega inn í þá umræðu sem á sér stað þessa dagana.

Halldór Baldursson - 24 stundir - 29. desember 2007


Heimildarmynd um Evu Joly á RÚV í kvöld

 Af vef RÚV - 3. júní 2009 


Sannleikur Svarthöfða - sterastyrkt sjálfsálit

Ég veit ekki hver(jir) er(u) á bak við Svarthöfðann í DV, en fjári er hann oft góður. Eins og skrifaður á mitt eigið lyklaborð núna síðast. Er það minnimáttarkennd sem fær Íslendinga til að halda sig besta, klárasta, flottasta og stórasta? Sjálfbirgingurinn ríður oft ekki við einteyming og ef engin er ástæðan til að berja sér á brjóst - þá er hún nánast búin til og síðan blásin upp. Baldur lýsir þessu þannig að margir Íslendingar séu eins og Pollýanna á sterum. En hér er Svarthöfðapistillinn og forsíðan sem hann vitnar í.

 EINSTAKUR ÁRANGUR

Einhverjir vilja meina að mikilmennskubrjálæði hafi komið Íslendingum í þá ömurlegu stöðu sem nú blasir við gjaldþrota þjóð. Þetta er alrangt eins og allir sem þekkja sitt heimafólk hljóta að gera sér grein fyrir. Frumforsendan fyrir hallærinu er alls ekki stórmennskubrjálæði heldur þvert á móti sígild íslensk minnimáttarkennd sem brýst því miður fram í sameiginlegri þjóðarfirringu um að Íslendingar séu sterkastir, fallegastir, snjallastir og bestir í öllu.

Þessi firnasterka sjálfsblekking sem auminginn fyllir heimsmynd sína með til þess eins að kikna ekki algerlega undan eigin vanmætti er svo yfirþyrmandi að Íslendingar telja sig alltaf vera sigurvegara og langbesta. Jafnvel þegar þeir ná aldrei lengra nema í allra besta falli að vera næstbestir.

Samkvæmt íslenskum mælikvörðum er annað sætið sigursæti og FL Group og deCODE verðmæti. Fólk með óskerta sjálfsmynd bölvar þegar það lendir í öðru sæti, spýtir svo í lófana og strengir þess heit að gera betur næst og vinna. Þetta hvarflar ekki að Íslendingum. Þeim nægir að vera næstbestir vegna þess að þá eru þeir bestir. Þetta hljómar eins og mikilmennskubrjálæði en undir kraumar minnimáttarkenndin og vissan um að þeir geti aldrei orðið bestir.

Fyrir skömmu krækti landslið Íslands í handknattleik í silfur á ólympíuleikum og þjóðin trylltist. Landið varð stórasta land í heimi og ekki hefði verið hægt að fagna ákafar þótt gullið hefði unnist.

Ísland var þó ekki stórasta landið lengi og nokkrum vikum seinna rann stund sannleikans upp. Við erum smáð þjóð í gjaldþrota landi. Því miður fengum við ekki að búa lengi við leiðrétta sjálfsmynd þar sem Jóhanna Guðrún varð næstbest í Júróvisjón og sjálfsblekkingin skaut aftur upp kollinum. Við erum best og nú er þetta allt að koma. Svarthöfði er kominn með svo mikið ógeð á þessum hugsunarhætti vegna þess að við munum ekki ná okkur á strik fyrr en við gerum okkur grein fyrir að við erum dvergar og meðalmenni á alþjóðlegan mælikvarða þrátt fyrir höfðatölu.

Svarthöfði seldi því bókstaflega upp þegar hann sá forsíðu Fréttablaðsins í gær þar sem greint var frá einstöku afreki Eiðs Smára. Á yfir- og aðalfyrirsögn mátti skilja að hann hefði nánast sigrað í meistaradeild Evrópu einn síns liðs fyrir Barcelona. Vissulega er einstakt að landa svona stórum titli með því að sitja á varamannabekk en fyrr má nú fyrr vera. Heimspressan hefur aðra og réttari sýn á málið og Eiður sést einungis fagna sigrinum á síðum íslenskra blaða þannig að úti í hinum stóra heimi virðist hann ekki vera þessi lykilmaður sem Íslendingar vilja vera láta.

Við erum í svakalega vondum málum ef fjölmiðlar ætla ekki að fara að hysja upp um sig og byrja að endurspegla raunveruleikann frekar en búa til heimsmynd sem er lesendum þeirra og áhorfendum þóknanleg og í takt við landlæga minnimáttarkennd.

Fréttablaðið 28.5.09 - Forsíða

Ætla mætti miðað við þessa umfjöllun að Eiður Smári hafi unnið Meistaradeildina einn síns liðs og hjálparlaust. En eins og allir vita sem fylgst hafa með boltanum hefur hann sáralítið fengið að spila með um langa hríð og á því lítinn þátt í titlinum. Enda hefur mikið verið rætt um að hann skipti um lið. En þetta er dæmigerð þjóðrembuumfjöllun og svona hugsunarháttur stendur okkur fyrir þrifum í ýmsum málum - nú sem endranær.


Kolbrún og smásálirnar

Sú var tíðin að Kolbrúnu Bergþórsdóttur tókst hvað eftir annað að koma mér á óvart í pistlum sínum. Það var einkum mannfyrirlitning hennar sem mér fannst undarleg, sem og sýn hennar á íslensku þjóðarsálina. En ei meir, ei meir. Ég hef líklega metið Kolbrúnu rangt - á einn eða annan hátt. Svona hljóðar pistill hennar í Mogga dagsins. Nú er þjóðarsál í kreppu orðin smásál dauðans að hennar mati. Æ, æ, Kolla...

Kolbrún Bergþórsdóttir - Moggi 17.5.09

Svona skrifaði Kolbrún í desember.

Kolbrún Bergþórsdóttir - Moggi 21.12.08

Og hér ver Kolbrún ofurlaunin - réttlætir þau m.a. með ábyrgð. Hvaða ábyrgð?

Kolbrún Bergþórsdóttir - Moggi 9.6.08

Fleiri pistla Kolbrúnar má sjá hér. Ég uppfæri öðru hvoru.


Frumgerðir, eftirlíkingar og klassískur Júrósmellur

Frumgerðin frá 1991 (þarna er hljómsveitin ennþá - allt annað líf!)

 

Eftirlíkingin - norskur húmor 2008 (góðir!) - Lagið er greinilega klassík

 


Besta Júróvisjónatriðið - douze points

Ég sé á Fésbókinni að fólk er yfirkomið af tilfinningaþrunginni gleði yfir velgengni Jóhönnu og íslenska lagsins. Karlar (og konur) játa að hafa fellt tár, sem sumir vilja meina að þýði að þeir séu farnir að reskjast óhóflega. Og allir virðast hafa horft - eða flestir. En ekki ég.

Ég er greinilega kaldlynd og gjörsamlega laus við evrópska föðurlandsást. Nennti ekki að horfa á keppnina en sat fyrir úrslitunum og haggaðist ekki þegar Ísland datt inn í restina. Var slétt sama. Mér hefur alltaf fundist stigagjöfin skemmtilegust og mikil þjóða- og þjóðernisstúdía. Varð fyrir vonbrigðum að fá ekki þetta hefðbundna: "Cinq points, douze points..."

En svo sá ég þetta atriði í tölvunni og þarna fann ég mitt tólf stiga lag. Þetta er sko almennileg músík en ekki evrópskt glimmergaul, yfirgnæft af hálfberu, spriklandi plastfólki!


Fyrirmyndarframbjóðandi með allt á hreinu

Ég þurfti að spóla hvað eftir annað til baka þegar ég horfði á þetta viðtal. Bíðum við... hvað var hann að enda við að segja? Og nú segir hann þetta! Hann var í mótsögn við sjálfan sig hvað eftir annað og tvískinnungurinn hrópaði á mig nánast í hverri setningu. Burtséð frá málefninu var þetta ótrúlegt viðtal. Ég gat ekki stillt mig um að hlæja þótt málefnið væri í raun grafalvarlegt.

Ástþór Magnússon hefur farið mikinn og kennt öllum öðrum en sjálfum sér um afspyrnulélegt fylgi Lýðræðishreyfingarinnar, einkum RÚV og Agli Helgasyni. Eflaust hefur verið ágætisfólk í framboði fyrir hreyfingu Ástþórs en ég óttast að Geiri á Goldfinger hafi ekki laðað að hreyfingunni mörg atkvæði. Ég er ósköp sátt við að þessi þriðji maður á lista Lýðræðishreyfingarinnar í Suðvesturkjördæmi mun ekki sitja á Alþingi Íslendinga alveg á næstunni.

Viðtal ársins í Íslandi í dag 28. apríl 2009

 

Á að banna nektardansstaði á Íslandi? - fólkið á götunni og ráðherrann

 


Skýjum ofar í boði Framsóknar

Félagsskapur skiptir miklu máli, ekki síst á mótunarárum unglinga. Ekki er svo verra að trítla lífið á enda í eðalkompaníi við klárt og skemmtilegt fólk. Ég hef verið lánsöm að þessu leyti og nú bætti heldur betur í lukkuna hjá mér. Vegsaukinn kom þó úr óvæntri átt - frá Framsóknarflokknum. Þar sit ég nú á lista með þvílíku sómafólki að það hálfa væri nóg. Ég er að springa úr stolti og veit ekki hvernig ég get þakkað Framsókn upphefðina og dv.is fyrir að birta þennan frábæra lista. Öfundsjúkir eru hvattir til að reyna að kæra sig inn á listann með því að senda tölvupóst á framsokn@framsokn.isW00t   Ætli Sjálfstæðisflokkurinn sé með svona lista líka? Mikið væri gaman að komast á hann.

Viðbót: Lesið bréf Baldurs McQueen til Framsóknarflokksins í tilefni listans og öfundarpistil Illuga Jökuls með tilraun til að komast á listann.

Óvinir Framsóknarflokksins - dv.is 22.4.09


SÁÁ, dulnefni og reynslusögur

SÁÁMér er afar hlýtt til SÁÁ enda er ég stofnfélagi samtakanna. Árið 1977 gekk undirskriftalisti um vinnustað minn þar sem fólki var boðið að gerast stofnfélagar. Ég held að flestir ef ekki allir hafi skrifað nafnið sitt á listann. Mikið vatn er runnið til sjávar síðan og samtökin hafa bjargað mörgu mannslífinu. Sem betur fer hef ég aldrei þurft á aðstoð þeirra að halda, líklega vantar í mig tilheyrandi gen. En enginn veit þó sína ævina fyrr en öll er.

Mér þykir líka afar vænt um nafnið mitt, Lára Hanna - í þessari röð. Ég er skírð í höfuðið á tveimur ömmum mínum, þeim Láru og Jóhönnu. Þar til fyrir rúmum 10 árum var ég eini Íslendingurinn með þessu nafni. Til voru fjölmargar Hönnu Lárur en bara ein Lára Hanna enda er nafninu mínu oft snúið við og ég kölluð Hanna Lára - mér til mikils ama. Svo uppgötvaði ég fyrir 9 árum að ég átti litla nöfnu, alls óskylda mér, sem nú er nýorðin 10 ára dama. Ég hef ekki hitt hana ennþá, en það má alltaf bæta úr því. En við erum semsagt bara tvær á Íslandi, Láru Hönnurnar.

Dulnefni hafa alltaf tíðkast. Til dæmis í dagblöðum (Svarthöfði, Víkverji o.fl.) og tímaritum (dálkar þar sem fólk segir sögu sína undir dulnefni og fær ráðgjöf misviturra "sérfræðinga"). Rithöfundar skrifa jafnvel heilu bækurnar undir dulnefni. Notkun dulnefna hefur farið ört vaxandi eftir að bloggið kom til sögunnar og fleira þvíumlíkt á netinu. Opinskáar reynslusögur eru oft sagðar undir dulnefni og er þá notast við ýmist tilbúin nöfn eða algeng nöfn eins og Sigga, Palli, Nonni, Gunna eða eitthvað slíkt þar sem ekki er nokkur leið að finna út hver viðkomandi er - a.m.k. ekki út frá nafninu.

Það kom mér því á óvart þegar ég fékk tölvupóst frá kunningja mínum með slóð að reynslusögum spilafíkla - svona lítur síðan út:

Reynslusögur spilafíkla - SÁÁ

Siggi, Nonni, Sigga og - viti menn - Lára Hanna! Þetta sjaldgæfa nafn sem aðeins tveir Íslendingar bera er notað sem dulnefni við reynslusögu spilafíkils sem hafði leitað ásjár SÁÁ og segir sögu sína á vef samtakanna. Ég varð eiginlega hálf hvumsa og 14. apríl sendi ég tölvupóst á netfangið saa@saa.is til að spyrjast fyrir um hvort einhverjar reglur giltu hjá samtökunum um notkun dulnefna á vefsíðum þeirra.

Í dag er 20. apríl og ekkert svar hefur borist. Mér svosem alveg sama um þetta þótt ég hafi orðið steinhissa í fyrstu. Þetta er í besta falli fyndið og í versta falli afar ósmekklegt. En samt er nú alltaf skemmtilegra að fá svör við fyrirspurnum, er það ekki?


Spaugstofan

Ég sakna Spaugstofunnar sárt og skil ekki af hverju hún hætti svona snemma í ár. Mánuði fyrr en árið 2008 þótt kosningar séu fram undan og gott hefði verið að hafa þá til að skerpa á hlutunum. Hér er viðtal DV við Karl Ágúst frá 8. apríl sl. þar sem hann tjáir sig meðal annars um vinnu við þættina í vetur.

Kveðjulagið Yfir til þín 26. apríl 2008

 

Kveðjulagið Yfir til þín 28. mars 2009

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband