Færsluflokkur: Spaugilegt
30.9.2008
Konur, þekkið takmörk ykkar!
Úff, erfiður mánudagur að baki sagði breski leikarinn og grínistinn Harry Enfield og tók til sinna ráða.
Konur, þekkið takmörk ykkar!
Konur eiga ekki að aka bifreiðum
Þetta myndband er sérstaklega sett inn fyrir Zteingrím Arsenal og Önnu Liverpool
Kennslustund í sjálfsvörn
22.9.2008
Athyglisvert endurlit
Við ættum að líta oftar um öxl og rifja upp söguna, hversu langt eða stutt aftur sem við förum. Það hefur gjarnan vantað mjög mikið upp á að við lærum af reynslunni - kannski gerum við það aldrei. Við eyðum allt of miklum tíma og orku í að karpa um aðferðafræði og áherslur í þessu örþjóðfélagi sem ætti að vera hægt að reka í sátt og samlyndi öllum til góðs.
Hér er svolítil upprifjun frá árinu 2007 þegar nokkrir "djarfhuga" Íslendingar virtust vera að kaupa heiminn - eða sigra hann - og var hampað af ýmsum. Áhugavert í ljósi stöðunnar eins og hún er nú. Þá er bara spurning hvort við lærum af þeim mistökum sem gerð hafa verið í efnahagsstjórn landsins undanfarinn áratug eða svo eða leyfum mönnum áfram að hafa frítt spil með eignir, afkomu og gjaldmiðil þjóðarinnar.
Frelsi er vandmeðfarið og getur reynst okkur öllum skeinuhætt ef menn kunna ekki með það að fara, hugsa einungis um eigin buddu og láta örlög allra hinna lönd og leið. Einhvers staðar sá ég þetta kallað að einkavæða gróðann og þjóðnýta tapið. Það er líklega mjög nærri sanni.
Markaðsannáll Stöðvar 2 - 28. desember 2007
Spaugilegt | Breytt 23.9.2008 kl. 01:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Ísland
Ísland! farsældafrón
og hagsælda, hrímhvíta móðir!
Hvar er þín fornaldarfrægð,
frelsið og manndáðin best?
Allt er í heiminum hverfult
og stund þíns fegursta frama
lýsir sem leiftur um nótt
langt fram á horfinni öld.
Landið var fagurt og frítt
og fannhvítir jöklanna tindar,
himinninn heiður og blár,
hafið var skínandi bjart.
Þá komu feðurnir frægu
og frjálsræðishetjurnar góðu
austan um hyldýpishaf,
hingað í sælunnar reit.
Reistu sér byggðir og bú
í blómguðu dalanna skauti,
ukust að íþrótt og frægð,
undu svo glaðir við sitt.
Hátt á eldhrauni upp,
þar sem ennþá Öxará rennur
ofan í Almannagjá,
alþingið feðranna stóð.
Þar stóð hann Þorgeir á þingi,
er við trúnni var tekið af lýði.
Þar komu Gissur og Geir,
Gunnar, Héðinn og Njáll.
Þá riðu hetjur um héruð,
og skrautbúin skip fyrir landi
fluttu með fríðasta lið,
færandi varninginn heim.
Það er svo bágt að standa í stað,
og mönnunum munar
annaðhvort aftur á bak
ellegar nokkuð á leið.
Hvað er þá orðið okkar starf
í sex hundruð sumur?
Höfum við gengið til góðs
götuna fram eftir veg?
Landið er fagurt og frítt
og fannhvítir jöklanna tindar,
himinninn heiður og blár,
hafið er skínandi bjart.
En á eldhrauni upp,
þar sem ennþá Öxará rennur
ofan í Almannagjá,
alþing er horfið á braut.
Nú er hún Snorrabúð stekkur,
og lyngið á lögbergi helga
blánar af berjum hvert ár,
börnum og hröfnum að leik.
Ó, þér unglinga fjöld
og Íslands fullorðnu synir!
Svona er feðranna frægð
fallin í gleymsku og dá!
Jónas Hallgrímsson
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
7.9.2008
Ádeilan í skopinu
Í skopmyndum getur falist hárbeitt ádeila. Skopmyndateiknurum er sem betur fer ekkert heilagt og þeir skjóta á allt og alla eins og vera ber. Að öðrum ólöstuðum finnst mér Halldór Baldursson bera af. Honum tekst dag eftir dag að ná kjarna sérhvers máls sem hann fjallar um í myndum sínum og verst finnst mér að 24stundir, þar sem teikningar Halldór birtast, koma bara út fimm daga í viku.
Svona var mynd Halldórs í gær.
Dónald er líka í 24stundum og einmitt í gær birtist þessi teikning eftir hann um sama efni, hvort sem það er tilviljun eða ekki.
3.9.2008
Stórskemmtilegt framtak...
...og vettvangurinn við hæfi. Sumir eru nefnilega jafnari en aðrir!
29.8.2008
Sveitabrúðkaup
Ég fór í bíó í gærkvöldi sem telst til tíðinda í mínu lífi því það geri ég ekki oft í seinni tíð. Við fórum saman mæðginin að sjá Sveitabrúðkaup og skemmst er frá því að segja að við skemmtum okkur bæði konunglega. Við fórum brosandi út með góða tilfinningu og það var mjög notalegt.
Eins og kemur fram í viðtölum við Valdísi Óskarsdóttur í myndbandinu hér að neðan er þetta fyrsta mynd hennar sem leikstjóra og handritshöfundar - ef handrit skal kalla því leikhópurinn spann víst talsvert eftir hendinni. Sú aðferð sem Valdís lýsir (og hefur verið notuð í öðrum myndum) að nota margar upptökuvélar og að leikararnir viti í raun aldrei hvenær þeir eru í mynd eða ekki er bráðskemmtileg og útkoman eftir því.
Leikarahópurinn var frábær, Herdís Þorvaldsdóttir stal senunni hvað eftir annað og ef einhverjum hefur fundist presturinn ótrúverðugur eru til fjölmargar sögur um hið gagnstæða - reyndar frá fyrri tíð þar sem þeir misstu margir hempuna fyrir drykkjuskap og/eða kvennafar. Það er væntanlega fátítt nú til dags... vona ég.
En þessu kvöldi var vel varið.
Viðtöl við Valdísi Óskarsdóttur í Kastljósi og Íslandi í dag í gærkvöldi, 28. ágúst.
Hér er kynningarmyndband um Sveitabrúðkaup
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 20:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.8.2008
Það er svo gott að hlæja
Ég get endalaust hlegið að þessum tveimur náungum. Þeir eru yndislega óborganlegir. Þetta eru breskir leikarar, John Bird og John Fortune. Það sem mér finnst einna skemmtilegast þegar ég horfi og hlusta á þá, er að finna samnefnara viðmælandans hér á landi... sem tekst yfirleitt. Nefni engin nöfn.
Bird og Fortune byrjuðu með grínþátt sinn árið 1999 og eru enn að. Þessir tveir kumpánar eru bara eitt atriði í þáttunum þeirra. Þeir skiptast á að leika viðmælandann og fara á kostum. Ég hef áður sett hér inn eitt eða tvö myndbönd með þeim og vona að ég sé ekki að endurtaka mig. Njótið...
Íhaldsþingmaðurinn
Sendiráðunautur í Washington
Aðmíráll í breska flotanum
Ráðgjafi Gordons Brown, forsætisráðherra
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.7.2008
Miðborgarrölt í hitasvækju
Ég fattaði fyrir löngu af hverju ég valdi að fæðast á Íslandi... ja, sumir segja að maður velji sér foreldra og fæðingarstað, hvað svo sem til er í því. Ástæðan hlýtur að vera sú að ég þoli ekki hita. Um leið og hitastigið er komið yfir 20 gráður verður mér ómótt, ég verð máttlaus, finnst ég ekki geta andað og heilastarfsemin hrynur. Sellurnar bráðna líklega. Þetta er ekki þægilegt. Maður getur þó klætt af sér fjárans kuldann.
Mér var of heitt í gær og ég fann fyrir verulegri vanlíðan og heiladoða. Ég gat ekki með nokkru móti unnið og viftan sem ég hef alltaf í gangi í vinnuherberginu gerði ekkert gagn. Það endaði með því að ég fór út og tók Kötlu hvolp með mér. Katla er Vestfirðingur, alsystir Skutuls, flutti til mín 4. júlí og er að venjast borgarlífinu. Ég hélt að kannski yrði auðveldara að anda úti. Það reyndist tálvon.
Ég kippti myndavélinni með og tók nokkrar myndir af því sem á vegi mínum varð í hverfinu mínu, miðbænum.
Það er mikið rætt um nýjan Listaháskóla og hve illa byggingin passar inn í götumyndina við Laugaveg. Hér er slíkt dæmi sem er langt komið - skrímslið á bak við Naustið við Vesturgötuna. Ég mun aldrei skilja af hverju þetta var leyft.
Þegar búið var að rífa kofaskriflin sem voru á bak við Naustið kom í ljós einstaklega falleg bakhlið sem ég vonaði að fengi að vera í friði. En svona lítur svo bakhlið nýbyggingarinnar út - norðurhliðin Tryggvagötumegin, og felur hina fallegu bakhlið Naustsins. Mikið er Reykjavík að verða grá, svört og glerjuð. Allur sjarmi að hverfa.
Hann Hjálmtýr V. Heiðdal sendi mér nokkrar myndir sem hann tók af bakhlið Naustsins sem ég minnist á að ofan. Hér sést svo greinilega hvað hún er skemmtileg - með kvistum, kýraugum og ég sé ekki betur en að grunnar allra húsanna séu hlaðnir. Er þetta nú ekki fallegri sjón og betur við hæfi í þessum borgarhluta en svarta báknið í myndinni á undan?
Við gerðum okkur ferð inn í Alþingisgarðinn. Hann er mjög gróinn og fallegur, algjör vin í miðbænum. Þar sat einn maður á bekk og las. Á Austurvelli sást hins vegar varla í gras, svo þéttsetið var þar. Inn í garðinn kom svo fólk sem var að leita að bekk í skugga... á Íslandi.
Þetta fólk horfði út um gluggann á Alþingishúsinu í átt að Ráðhúsi Reykjavíkur og hugsaði sjálfsagt sitt í hitasvækjunni.
Öndum og gæsum við Ráðhúsið virtist standa alveg á sama um borgarstjórnarraunir mannfólksins og voru afslappaðar við sólböð undir suðurgluggum hússins.
Hér hefur hjólreiðamaður komið sér vel fyrir á bekk í Fógetagarðinum og fengið sér lúr. Þetta er sjaldgæf sjón í Reykjavík.
Katla gerði sér dælt við hjólabrettastráka á Ingólfstorgi og einn vildi leyfa henni að prófa. Hún þorði ekki og forðaði sér bara í skuggann. Henni var líka heitt.
Í Fischersundi gerði svart villidýr árás úr launsátri á Kötlu. Það var með naumindum að mér tókst að bjarga henni frá klóm fnæsandi, svarta kattarins sem virðist ráða þar ríkjum. Við vorum báðar dauðskelkaðar og ætlum að muna að fara ekki aftur á þessar slóðir.
Við enduðum göngutúrinn á Landakotstúni sem oftar. Þótt Kristskirkja sé falleg bygging finnst mér gamla kirkjan eiginlega fallegri - á sinn hátt.
Að lokum - Katla að spóka sig á Austurvelli.
Spaugilegt | Breytt 4.8.2008 kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
Bretar eru miklir húmoristar, það held ég að sé nokkuð óumdeilt. Við sjáum allt of lítið af bresku efni í íslensku sjónvarpi. Amerískir veruleikaþættir hafa tröllriðið dagskrá flestra sjónvarpsstöðva undanfarin ár. Það er helst Ríkissjónvarpið sem býður upp á breskt efni, bæði drama og grín, og það er geysivinsælt. En meðalaldur sjónvarpsáhorfenda er að hækka eins og fram kom í þessari frétt, svo væntanlega endurspeglar dagskráin það fljótlega með þáttum fyrir fullorðna.
Bretar ganga oft mjög langt í sínu gríni og miðað við viðbrögð sumra við gríni hérlendis yrðu þeir líklega snarvitlausir ef okkar grínistar myndu hamast jafn miskunnarlaust á jafnvel viðkvæmum málum og þeir bresku gera gjarnan. Þeim virðist fátt vera heilagt.
Ekki hafa Bretar farið varhluta af efnahagskreppunni sem geisað hefur þótt þær vaxta- og verðbólgutölur sem þeir glíma við séu snöggtum lægri en þær sem við Íslendingar sjáum hér. Í ljósi þess er kannski skiljanlegt að eitt stærsta fyrirtæki landsins hafi séð sér leik á borði og flutt aðsetur sitt til Englands þótt ekki sé það stórmannlegt. Eigendurnir fleyttu rjómann af góðærinu en stinga svo af þegar kreppir að. Þannig lítur málið út í mínum augum, en ég viðurkenni að vera illa að mér í völundarhúsi fjárfestinga og Group-mála, svo vel má vera að þetta sé rangt mat.
Bankar, verktakar og ýmis fyrirtæki emja líka sáran. Á meðan græðgin réð för og allt lék í lyndi, bankar græddu á tá og fingri, verktakar færðust allt of mikið í fang og fyrirtækin slógu lán á báða bóga var íhlutun eða afskipti ríkisvaldsins harðlega fordæmd. Allt átti að vera svo einkavætt og frjálst, öllum heimilt að gera það sem þeim sýndist í opnu hagkerfi og frjálsu samfélagi. Ríkisvaldið mátti hvergi koma þar nærri - ekki einu sinni til að vara menn við því að óráðsían væri feigðarflan og farin úr böndunum. Ríkinu kom þetta bara ekkert við... þá.
Svo sprakk blaðran eins og hún hlaut auðvitað að gera eftir allt sukkið. Þá kom skyndilega allt annað hljóð í strokkinn. Nú á ríkið (við skattborgarar) að redda hlutunum, slá erlend lán upp á hundruð milljarða á gengi dagsins, bjarga óforsjálum verktökum frá gjaldþroti vegna offjárfestinga, breyta gjaldmiðlinum, ganga í ESB og síðast en ekki síst - virkja allar orkuauðlindir okkar strax til að byggja verksmiðjur ("mannaflsfrekar framkvæmdir", svokallaðar). Fyrirhyggjuleysið kristallast í orðum talsmanns greiningardeildar Glitnis sem lesa má í þessu morgunkorni þar sem fyrirhuguð eyðilegging á íslenskri náttúru er dásömuð af því hún færir aur í kassann hjá bönkunum:
"Segja má að álframleiðsla og annar orkufrekur iðnaður sé leið Íslendinga til að flytja út orku með hliðstæðum hætti og olíuríki selja afurðir sínar á heimsmarkaði, og hátt orkuverð er að öðru óbreyttu jákvætt fyrir arðsemi af slíkum orkuútflutningi. Í því ljósi, og með hliðsjón af því hversu fjárfestingarstig í hagkerfinu virðist nú lækka hratt, má segja að ofangreindar framkvæmdir séu heppilegar og líklegar til þess að vega gegn verulegum samdrætti í innlendri eftirspurn á næstu misserum."
Takið eftir niðurlaginu - það er verið að tala um misseri, ekki ár eða áratugi. Framtíðarsýn peningaaflanna er aðeins nokkur misseri. Bankarnir bara að bjarga sjálfum sér fyrir horn. Þetta er óhugnanlega dæmigert fyrir íslenskan hugsunarhátt og pólitík. Stjórnmálamenn hugsa í kjörtímabilum, þá helst aðeins um sitt eigið kjördæmi og eru á stanslausum atkvæðaveiðum. Hagsmunir og framtíð heildarinnar hverfa í skuggann á pólitískum skammtímaframa stjórnmálamanna. Bankar og önnur fyrirtæki - og reyndar almenningur líka - hugsa bara um morgundaginn, í besta falli næsta ársuppgjör eða næstu mánaðamót. Ég vildi óska að hér ríkti meiri langtímahugsun í stjórn landsins, viðhorfi banka, fyrirtækja og almennings og umhyggja fyrir heildarhagsmunum í stað sérhagsmuna. Það er ekki vænlegt til árangurs að hugsa alltaf eingöngu um rassinn á sjálfum sér.
En ég ætlaði ekki að skrifa svona mikið heldur koma með sýnishorn af breskum húmor. Þau tengjast öll efnahagskreppunni og þarfnast ekki frekari skýringa. Þriðja og síðasta myndbandið birti ég hér fyrir nokkrum mánuðum - en góð vísa er sjaldan of oft kveðin.
Spaugilegt | Breytt 6.7.2008 kl. 00:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.7.2008
Húmor á Mogganum - nú hló ég!
Hinn nafnlausi Víkverjapistill í Morgunblaðinu sl. sunnudag vakti óskipta athygli mína. Þar var fjallað um hve blogg er ómerkilegt og illa skrifað. Ég tók pistlinum sem argasta gríni og minn gamli vinur, Sigurður Þór Guðjónsson, skrifaði um hann litla bloggfærslu í sínum persónulega stíl.
Mér fannst pistillinn svo skondinn að ég sendi Víkverja dagsins tölvupóst og þakkaði fyrir í þeim anda sem ég tók skrifum hans. Ekki bjóst ég við að fá svar, en rakst svo á það í morgun að bréfið mitt var birt í blaðinu - í Velvakanda á bls. 27. Ég skellihló þegar ég sá þetta og kann vel að meta húmorinn sem í því felst að birta bréfið frá mér.
En hver var þessi Víkverji sunnudagsins? Á Morgunblaðinu vinna margir eðalblaðamenn og sjálfsagt eru fjölmargir þeirra húmoristar. Var þetta Agnes? Ragnhildur? Kolbrún Bergþórs? Freysteinn? Steinþór? Marga fleiri mætti nefna. Hver er "snyrtipinni og safnar ekki drasli"? Ég hef ekki hugmynd um það - og mér er svosem slétt sama. Það sem mér finnst mest um vert er að Morgunblaðið hafi húmor og leyfi okkur hinum að njóta hans. Nóg er af alvörumálum í samfélaginu. Það er gott að fá að brosa og hlæja líka.
En Mogginn sleppti að birta hluta af undirskrift minni sem mér finnst auðvitað alveg ótækt, því þar kemur fram að ég er sjálf bloggari og fell augljóslega undir hina málefnalegu og skemmtilegu alhæfingu Víkverja, sem og eigið háð. Ég undirritaði bréfið nefnilega svona:
Lára Hanna Einarsdóttir
www.larahanna.blog.is
hvar hún hefur ekkert fram að færa
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)