Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Innihaldið í sænsku skúffunni

Á morgun mun borgarstjórn Reykjavíkur ætla að taka endanlega ákvörðun um hvort skúffufyrirtækinu Magma Energy Sweden verður seldur hlutur Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku. Samkeppnisyfirvöld, með Pál Gunnar Pálsson Péturssonar framsóknarforkólfs frá Höllustöðum í forystu, höfðu Magma Energyúrskurðað að OR mætti ekki eiga nema 3% í HS Orku. Samkeppnisyfirvöld eru því að þvinga fram sölu á hlutnum - og mér er spurn: Eru líka framsóknarmenn á bak við kaupin? Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að siðlausir auðjöfrar séu á bak við einkavæðingu auðlindanna - samanber REI-málið - og ekkert hefur komið fram sem hefur haggað þeirri skoðun minni. Þeir eru innihaldið í skúffunni í Svíþjóð.

Nú er deilt um hvort salan til Magma Sweden sé lögleg, því ekki megi selja aðilum utan EES virkjunarrétt vatnsfalla og jarðhita. Þó sagði sérfræðingur í HR í RÚV-fréttum í kvöld að aðferð Magma í Kanada til að komast yfir auðlindir Íslendinga sé ekki ólögleg, þ.e. heimilisfesti skiptir máli, en ekki ríkisfang eigandans. Samkvæmt því geta hverjir sem er stofnað skúffufyrirtæki hvar sem er í EES eða ESB löndum og keypt sig inn í hvað sem er hér á landi, eða hvað? Engin starfsemi þarf að vera í skúffunni. Einmitt þannig fóru útrásardólgarnir að og gera væntanlega enn. Þeir notuðu skúffufyrirtæki grimmt til að ræna okkur.

Þetta minnti mig á Spegilsviðtal frá 30. apríl 2008 við Rafael Baron, rússneskan ráðgjafa í olíumálum, sem aðstoðaði íslensku olíufurstana sem vildu reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum - og vilja kannski enn. Viðtalið er viðfest neðst í færslunni, en í því segir Baron m.a. að Rússarnir hafi stofnað skúffufyrirtæki á Írlandi með sáralítið hlutafé til að fara í kringum lög og reglur á Íslandi. Hann reyndi ekkert að leyna því. Hlustið bara á viðtalið.

Í tilfelli Magma er augljóst að um skúffufyrirtæki er að ræða, stofnað til að komast í kringum íslensk lög. Gott ef gerendur hafa ekki viðurkennt það og þeir neituðu að veita veð í móðurfyrirtækinu í Kanada. Þá er stóra spurningin hvort stjórnvöld ætli að láta það óátalið án þess einu sinni að reyna að hindra það. Ætla stjórnvöld að láta hinn nauma meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks komast upp með að selja stóran hluta í arðbæru orkufyrirtæki til skúrka sem ætla að græða á okkur - eða stöðva siðleysið hið snarasta. Þau geta það nefnilega.

Í 12. grein laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri nr. 34/1991 stendur m.a. þetta: "Nú telur viðskiptaráðherra að tiltekin erlend fjárfesting ógni öryggi landsins eða gangi gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði eða ef upp koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, og getur hann þá stöðvar slíka fjárfestingu, enda kunngjöri hann ákvörðun sína innan átta vikna frá því að honum berst tilkynning um hlutaðeigandi fjárfestingu, sbr. 7. gr." Gylfi Magnússon getur semsagt stöðvað söluna samkvæmt þessu.

Vilmundur heitinn Gylfason er gjarnan sagður síðasti hugsjónamaðurinn á þingi. Hann mun fyrstur hafa talað um að eitthvað væri löglegt en siðlaust, en hann barðist fyrir bættu siðferði á þingi og í stjórnsýslunni. Vilmundur lést fyrir rúmum 26 árum og siðferðið hefur bara versnað ef eitthvað er. Það er sorgleg staðreynd. Eftir efnahagshrunið hrópaði almenningur hátt á betra siðferði - og gerir enn. Er ekki tími til kominn að hætta að einblína á lagatæknileg atriði og huga að siðferðinu? Ef eitthvað er fullkomlega siðlaust þá er það sala OR á hlutnum í HS Orku til skúffufyrirtækis sem stofnað er til að klekkja á íslenskum lögum og það fyrir opnum tjöldum. Miklar sögur ganga um hverjir eru ofan í skúffunni og opinberlega hafa tveir menn verið nefndir, annar úr Framsóknarflokknum og hinn fyrrverandi bankamaður. Báðir auðguðust gríðarlega á að féfletta þjóðina.

En skoðum fréttirnar frá í kvöld.

Og svo er ekki úr vegi að hlusta á myndbrotið sem Egill Helga sýndi í Silfrinu á sunnudaginn - hlustið á hvað Joseph Stiglitz segir um auðlindirnar og takið vel eftir viðbrögðunum. Það er augljóst að meirihluti þjóðarinnar vill að auðlindirnar - og nýtingarrétturinn - sé á hendi hins opinbera, ekki einkaaðila og ALLS EKKI þeirra sem féflettu þjóð sína og komu landinu á vonarvöl. Minnumst þess hvernig þeir ætluðu að spila í REI-málinu og af hverju þeir höfðu augastað á orkufyrirtækjunum. Til að græða. Sá gróði á að renna til þjóðarinnar, ekki örfárra auðmanna.

Joseph Stiglitz í Háskóla Íslands 7. september 2009 - úr Silfri Egils

 



Ég veit að borgarfulltrúar hafa fengið ótal tölvupósta frá fólki sem vill afstýra þessum gjörningi. Ég hvet alla til að senda þeim póst - aftur ef þið eruð búin að því. Nöfnin og netföngin eru hér. Lesið líka stórfínt bréf Agnars til borgarfulltrúa og magnaðan pistil Salvarar. Mér virðist að borgarfulltrúar geri sér ekki grein fyrir afleiðingum gjörða sinna fyrir framtíðarkynslóðir á Íslandi. Ég bendi á frábæran fréttaauka Eyjunnar eftir Sigrúnu Davíðsdóttur - 2007 eða framtíðin. Einnig pistil Sigrúnar á RÚV - Má Magma eiga í HS Orku. Hljóðskrá í viðhengi neðst í færslunni.

Borgarstjórn tekur málið fyrir á morgun, þriðjudag, og hefst fundurinn klukkan 14. Ég minni á orð Johns Perkins um að andstaðan við afsal á auðlindunum verði að koma frá fólkinu. Þetta er landið okkar, við búum í því. Forfeður okkar hafa verið hér í mörg hundruð ár og hugsað um það. Við megum ekki selja auðlindirnar til annarra og láta arðræna okkur svona. En andstaðan verður að koma frá okkur, fólkinu í landinu. Mætum öll á pallana í ráðhúsinu á morgun, stöndum úti, berjum á potta og pönnur eða gerum hvaðeina til að lýsa andstöðu okkar við auðlindasöluna. Sameinuð sigrum við!

Að lokum langar mig að sýna ykkur nokkrar myndir sem ég klippti og skeytti saman af netinu um Magma Energy Sweden AB. Hér er deginum ljósara að engin starfsemi er í þessu fyrirtæki þótt útrásardólgar og spilltir stjórnmálamenn leynist í skúffum þess. Þarna sést m.a. að "fyrirtækið" er ekki skráð með neina skattskylda starfsemi og fulltrúar þess eru starfsmenn lögfræðistofu í Gautaborg. Aðalmaðurinn, Lyle Emerson Braaten, er sagður búsettur utan EES, enda einn af starfsmönnum Magma í Kanada eins og sjá má hér. Þetta minnir óhugnanlega á vinnubrögð þeirra manna sem féflettu Ísland.

Magma Energy Sweden AB


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Megi réttlætið sigra að lokum

Ég er búin að skrifa svo mikið um þöggunina og hræðsluþjóðfélagið að mér fannst varla á það bætandi. Ég bætti nú samt á það í föstudagspistlinum á Morgunvakt Rásar 2 - og viti menn! Daginn eftir var skrúfað fyrir aðgang Jóns Jósefs að Fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra þegar hann var að uppfæra gagnagrunn sinn. Án viðvörunar eða skýringa. Þó er gagnagrunnurinn í notkun hjá opinberum rannsóknaraðilum og Persónuvernd búin að hafa hálft ár til að skoða málið. Engu að síður herma nýjustu fréttir að lokað hafi verið fyrir aðganginn því skort hafi leyfi frá Persónuvernd. Maður spyr sig því hvort Persónuvernd hafi vald til að bregða fæti fyrir rannsókn á hruninu... eða hvort það sé bara fjölmiðlar og almenningur sem ekkert megi vita. Þetta hlýtur að koma í ljós við rannsókn fjölmiðla á málinu - en ég sakna þess mjög að heyra ekkert um þetta mál hjá Mogga, Stöð 2, Fréttablaðinu og Vísi.is. Mér finnst þetta grafalvarlegt mál sem allir fjölmiðlar ættu að veita mikla athygli.

En hér er pistill föstudagsins. Í tilefni nafnlausu umræðunnar í síðustu viku var pistillinn alveg nafnlaus. Ég þakka hagyrðingnum, Gísla Ásgeirssyni, kærlega fyrir hans innlegg og vonast til að hann botni kvæðabálkinn í ljósi frávísunar Björns betri. Botninum verður þá náð og vitanlega bætt við. Hljóðskrá er hengd við neðst að venju ef fólk vill hlusta líka.

Morgunvakt Rásar 2
Ágætu hlustendur...

Áður en lengra er haldið skal tekið fram, að þessi pistill er nafnlaus. Þeim, sem telja sig þekkja röddina, skjátlast hrapallega.

Við höfum búið svo lengi í hræðsluþjóðfélagi þöggunar þar sem sannleikurinn hefur aldrei verið vel séður ef hann hróflar á einhvern hátt við ráðandi stéttum þjóðfélagsins, sjálfu valdinu. Lýðræðisleg, opin og gagnrýnin umræða hefur ævinlega verið í skötulíki á Íslandi. Upplýsingum er leynt fyrir fjölmiðlum og almenningi og beinlínis logið til um óþægilegar staðreyndir. Fólk sem býr yfir upplýsingum þorir ekki að greina frá þeim af ótta við hefndaraðgerðir - til dæmis yfirvalda eða vinnuveitenda. Og Alþingi segir upp áskrift að DV ef menn þar á bæ eru ágengir og upplýsandi. Svona andrúmsloft er líka kjörlendi fyrir Gróu kerlinguna á Leiti, sem kvartað er undan nú sem endranær.

Það vakti mikla ólgu í samfélaginu þegar Fjármálaeftirlitið kærði nokkra blaða- og fréttamenn fyrir að birta upplýsingar. Sérstakur saksóknari, sem víða er kallaður hinu notalega gælunafni Óli spes, vildi ekki aðhafast og þá var kært til setts ríkissaksóknara, Björns L. Bergssonar. Þær fréttir bárust í fyrradag að Björn hefði vísað málinu frá. Ég legg til að hann verði kallaður Björn betri. Ekki veit ég til þess að Óli spes og Björn betri krefjist nafnleyndar, þrátt fyrir að neita að draga sannleiksleitandi fjölmiðlafólk fyrir dóm.

Hagyrðingurinn Gísli Ásgeirsson, sem kýs að vera nafnlaus í þessum pistli eins og ég, orti eftirfarandi kvæði í tilefni af forgangsröð Fjármálaeftirlitsins.

Auðmannahjörðin okkar fól
erlendis mesta þýfið
í aflandsbankanna skattaskjól
skreppa þeir fyrir næstu jól.
Þar verður ljúfa lífið.

Rannsóknarnefndir rembast við
að rekja slóðir til baka
en þeir sem ætla að leggja lið
og leka gögnum í sjónvarpið
eru sóttir til saka.

Bíður og vonar barin þjóð
að búinn verði til listinn
yfir menn sem í okkar sjóð
auðinn sóttu af græðgismóð.
En fyrst þarf að kæra Kristin.

Fangelsið eigum fyrir þá
fúl er á Hrauninu vistin
en nú liggur ákæruvaldinu á
Agnesi að dæma og koma frá.
Helst þarf að hengja Kristin.

Ég óska Óla spes, Birni betri, fjölmiðlafólki, lýðræðinu, sannleikanum og íslenskum almenningi til hamingju með frávísanirnar og hvet uppljóstrara til dáða.

Megi réttlætið sigra að lokum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skrúfað fyrir upplýsingar

Ég skrifaði um gagnagrunn Jóns Jósefs Bjarnasonar fyrir nokkrum dögum og birti ótrúlegar myndir sem sýna tengsl nokkura auðjöfra sem hafa kafsiglt efnahagskerfið. DV skrifaði um gagnagrunninn og birti upplýsingar og Kristinn Hrafnsson hjá RÚV gerði frétt um Jón Jósef og upplýsingarnar sem hann hefur safnað og skráð árum saman.

Jón hefur verið að uppfæra grunninn undanfarna daga þar sem hann náði aðeins til 1. ágúst 2007 og ljóst er að margt hefur gerst á þessum tveimur árum sem upp á vantaði. Upplýsingar sem Jón notar eru opinberar, og hann segir að fyrirtækið Creditinfo selji gestum og gangandi víðtækari og persónulegri upplýsingar en gagnagrunnurinn hans geymir. Sjálf þekki ég ekki til upplýsingagjafar Creditinfo, en það gera eflaust aðrir. Persónuvernd hefur haft aðgang að gagnagrunninum í hálft ár og ekki gert neinar athugasemdir við hann.

Nú hefur embætti Ríkisskattstjóra lokað á aðgang Jóns Jósefs að upplýsingum úr fyrirtækjaskrá. Hann segist hafa náð að uppfæra fyrirtækin en í gær, föstudag, var aðgangi hans lokað en þá átti hann eftir að uppfæra upplýsingar um þær persónur sem tengjast þeim. Þetta var gert án þess að láta hann vita þótt hann hafi greitt 180.000 krónur fyrir aðganginn og átti eftir tíma til áramóta. Þar sem hann var í miðri uppfærslu þegar hin óvænta lokun átti sér stað olli þetta talsverðum vandræðum.

Starfsmaður Ríkisskattstjóra sagði Jóni Jósef að yfirmaður þar á bæ hefði gefið þessi fyrirmæli. Ekki er vitað hvar þau eru upprunnin, en einhver vill greinilega ekki að upplýsingar komist inn í gagnagrunninn og beitir valdi til að skrúfa fyrir þær. Þetta getur komið sér afar illa fyrir ýmsa rannsóknaraðila sem nota gagnagrunn Jóns Jósefs, bæði hér heima og erlendis. Svo ekki sé minnst á upplýsingaflæði til almennings sem hafið var með vísan í gagnagrunninn.

Ég reikna fastlega með því að fjölmiðlar taki þetta mál upp á sína arma og grafist fyrir um ástæðu þess að skrúfað var fyrir opinberar upplýsingar sem búið var að greiða fyrir. Þær hafa líka rannsóknargildi og eru stór þáttur í að auka gagnsæi og upplýsingaflæði til almennings. Mig langar að vita hvort þetta sé lögleg aðgerð og nákvæmlega hver fyrirskipaði lokunina.

Fréttir RÚV 12. september 2009

Fréttir RÚV 8. september 2009

 

DV 8. september 2009 - Smellið þar til læsileg stærð fæst

Tengsl Finns og Kristins - DV 8.9.09

DV 9. september 2009 - Smellið þar til læsileg stærð fæst

Tengsl Jóns Ásgeirs og Pálma - DV 9.9.09


Hrammur græðgi og heimsku

Mikið ofboðslega er ég orðin þreytt á yfirgangi stjórnmála-, stóreignamanna og verktaka í skipulagsmálum í nánasta umhverfi mínu. Árum saman höfum við nágrannar mínir háð baráttu við skipulagsyfirvöld Reykjavíkur til að reyna að verja eignir okkar og umhverfi fyrir eyðileggjandi hrammi græðgi og heimsku. Með  misjöfnum árangri. Ég bý alveg við miðborgina og í umhverfi mínu eru ein elstu og jafnframt viðkvæmustu hús borgarinnar, heillegustu götumyndirnar og saga við hvert fótmál. Ég hef megnustu fyrirlitningu á gráðugum, smekklausum frekjuhundum sem beita valdníðslu og fjámagni til að valta yfir samborgara sína, hunsa siðferði og sanngirni og sýna sögunni - grunninum sem við byggjum á - fullkomið skeytingarleysi og vanvirðingu.

Þetta er lýjandi barátta, tímafrek og getur verið mjög kostnaðarsöm. Og það er svo sárt að þurfa að standa í svona málum. Horfa á uppbyggingu forfeðranna og söguna sem þeir skópu með tilvist sinni troðna í svaðið. Það er alltaf verið að minnka hjarta og sál miðborgarinnar. Skemmdarverkin í borginni eru engu minni en þegar verktakar fara með stórvirkar vinnuvélar inn í náttúruperlur og leggja allt í rúst.

Nú á að ráðast á Ingólfstorg og Nasa, sem í mínum huga og jafnaldra minna heita Hallærisplanið og Sigtún. Þeir sem eldri eru kalla þetta eflaust ennþá Steindórsplanið og Sjálfstæðishúsið. Sigtún er undurfallegt hús með mikla sögu, ómetanlegan sal og stórfenglega sál sem geymir mörg leyndarmál mannlegra samskipta og ástarfunda í áranna rás. Staðið hefur til alllengi að breyta þessu svæði og við skulum líta á fréttir af fyrirhuguðum framkvæmdum frá júní og júlí 2008.

Ég tek undir með þeim sem segja að Ingólfstorg sé ljótt eins og það lítur út núna. Það er grátt og kalt og forljót hús gera umhverfið ekki aðlaðandi, s.s. Miðbæjarmarkaðurinn, TM-húsið, Plaza-hótelið og gamla Morgunblaðshúsið. Til hvers að bæta einu slíku við til að gera illt verra? Torginu er hreint ekki alls varnað og hægur vandi að breyta því ef vilji er fyrir hendi. Ef öll steypan væri upprætt, tyrft og bætt við blómum og trjám yrði þetta yndislegur staður í hjarta borgarinnar.

Til stendur að færa hús inn á torgið og byggja 5 hæða hótel (sem gæti vel orðið 6 hæðir eða meira - slíkt er kallað "breytingar á byggingartíma" hjá skipulaginu). Torgið er eign Reykvíkinga, en það á að klípa af þeirri eign til að hygla lóðareigandanum, Pétri Þór Sigurðssyni, eiginmanni Jónínu Bjartmarz fyrrverandi þingmanns og ráðherra Framsóknarflokksins. Pétur Þór á semsagt að fá að byggja stórt og almenningur á að víkja svo hann geti athafnað sig. Svona vinnubrögð geta engan veginn kallast eðlileg, hvað þá sanngjörn. Hér eru nokkrar fréttir frá undanförnum dögum um málið.

Aðalstræti er elsta gata Reykjavíkur og var, eins og nafnið bendir til, aðalgatan í þorpinu forðum. Hún er mjög þröng og öll aðkoma að henni líka. Fyrir ofan og vestan götuna er Grjótaþorpið, elsta byggð borgarinnar, og út frá Aðalstrætinu liggja - eðli málsins samkvæmt - fleiri götur á svipuðum aldri og með mikla sögu. Nú þegar standa tvö, stór hótel við Aðalstræti. Hótelum fylgir mjög mikil umferð bifreiða af öllum stærðum og gerðum - á öllum tíma sólarhrings. Rútur að sækja og skila erlendum ferðamönnum í eða úr flugi og/eða skoðunarferðum, leigubílar og ótölulegur fjöldi bílaleigubíla sem þurfa stæði. Auk þess þurfa hótel alls konar aðföng og þar vinnur fullt af fólki. Að ætla að bæta allri þessari umferð á þetta þrönga, viðkvæma svæði er ekki verjandi. Ef einhver hefur á annað borð hugsað út í slíkt hjá borginni.

Kastljós var með umfjöllun um málið 1. september og talaði m.a. við Júlíus Vífil Ingvarsson, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem var fullur hrifningar á fyrirhugðum framkvæmdum. Um Nasa sagði Júlíus m.a. "...að húsið væri ekki hluti af skemmtanalífinu því þarna væru tónleikar." Ansi er ég hrædd um að fáir taki undir með Júlíusi. Horfið og hlustið sjálf.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom heim úr námi með flottar hugmyndir og ákveðnar skoðanir á skipulagsmálum, enda skipulagshagfræðingur. Ég sat með stjörnur í augunum og hlustaði á hann. Tók undir hvert orð sem hann sagði. En svo fór hann í pólitík og hefur ekki minnst á skipulagsmál síðan. Rifjum upp frammistöðu Sigmundar Davíðs í skipulagsmálum.

Silfur Egils 13. janúar 2008 - um skipulag

 Silfur Egils 27. apríl 2008 - um fasteignaverð og skipulag

 Fréttir Stöðvar 2 og Ísland í dag 31. júlí 2008 - um staðsetningu Listaháskóla

Fínar hugmyndir hjá stráknum, vel fram settar og frábærlega rökstuddar. Hann hefði gjarnan mátt halda áfram í skipulagsmálunum, þar var hann eins og fiskur í vatni. Íhugum orð Sigmundar Davíðs með Ingólfstorg og Nasa í huga.

Eins og fram kemur í fréttaklippunum hér að ofan rennur frestur til að skila inn athugasemdum við breytingarnar á skipulaginu og niðurrifi salarins á Nasa út í dag, föstudaginn 11. september. Mig langar að hvetja alla sem vilja ekki að þessi tillaga fari í gegn til að senda inn athugasemd - mótmæla þessari vitleysu. Þetta kemur okkur ÖLLUM við, líka ykkur á landsbyggðinni og Íslendingum erlendis. Um er að ræða torg og sögulegan skemmtistað í hjarta höfuðborgar allra landsmanna - og við eigum landið okkar og höfuðborgina öll saman. Aðgerðarhópurinn Björgum Ingólfstorgi og Nasa er með heimasíðuna bin.is - og þar er hægt að fá allar upplýsingar um málið og senda athugasemd í gegnum síðuna. Kynnið ykkur heimasíðuna og hjálpumst nú að við að afstýra þessu slysi. Ef fólk vill senda athugasemdir sínar sjálft í pósti er netfangið: skipulag@rvk.is.

Líf á Ingólfstorgi - af bin.is

Ályktun stjórnar Torfusamtakanna 5. september 2009:

Torfusamtökin vara við því hættulega fordæmi um ráðstöfun almannaeigna sem gefið er með samþykkt fyrirliggjandi deiliskipulags um uppbyggingu við Ingólfstorg og Vallarstræti. Í slíkri samþykkt felst að réttur eins lóðareiganda eru settur í forgang fram yfir breiða hagsmuni nágranna og almennings á grundvelli löngu úreltra skipulagshugmynda um miðbæ Reykjavíkur. Þó tillagan taki í vissum atriðum mið af sjónarmiðum húsverndar þá er hæð og umfang fyrirhugaðrar nýbyggingar við Vallarstræti á skjön við þá 101 hús í hættu - Torfusamtökinfarsælu endurreisn sögulegrar götumyndar Aðalstrætis og Grófar, sem borgaryfirvöld hafa unnið að af miklum metnaði og með glæsilegum árangri á undanförnum árum. Með nýbyggingunni yrðu fest í sessi eldri skipulagsmistök er heimild var veitt fyrir hækkun Aðalstrætis 9, en gluggalaus gafl þess húss varpar mestum skugga á sunnanvert Ingólfstorg og spillir ásýnd þess. Í því máli voru fjárhagslegir hagsmunir eins húseiganda teknir fram yfir tækifæri borgarbúa að eignast sólríkt og fallegt torg í hjarta miðbæjarins.

Nýjar upplýsingar um eðli og umfang minja frá fyrstu árum Íslandsbyggðar á svæðinu við Aðalstræti og Kirkjustræti breyta forsendum um uppbyggingu á þeim lóðum sem deiliskipulagið tekur til. Ljóst er að gera þarf umfangsmiklar rannsóknir á svæðinu áður en framkvæmdir geta hafist. Í þessum fornleifum kann að vera fólgið einstakt tækifæri fyrir Reykjavík sem ekki má gefa sér fyrirfram að moka megi burt.  Þær fornleifar geta reynst Reykjavík, sögustaðnum við sund, menningarborginni og ferðamannastaðnum verðmætari en eitt hótel.  Þá kann hugmynd um að „jarða" hinn sögulega merka og um margt einstæða sal gamla Sjálfstæðishússins að vera í uppnámi, fari svo að merkar minjar finnist á lóð hússins.

Torfusamtökin árétta mikilvægi þess að borgaryfirvöld samþykki endurskoðaða heildarstefnu um húsvernd í elsta hluta Reykjavíkur og geri hana að lögformlegum hluta aðalskipulags borgarinnar.  Í því eru fólgnir ríkir almannahagsmunir fyrir alla íbúa borgarinnar um langa framtíð. 

Meðan húsverndarstefna Reykjavíkur er ekki hluti af aðalskipulagi borgarinnar mun uppbygging hins sögulega kjarna borgarinnar verða tilviljunarkennd, ómarkviss og borginni dýr.  Mörkuð vafasömum þrætumálum eins og því sem hér fer. 

Stjórn Torfusamtakanna


Kerfisbundinn blekkingavefur?

DV skúbbar hægri-vinstri þessa dagana og stendur sig með afbrigðum vel. RÚV var líka með frétt um sama mál í gærkvöldi. Um er að ræða gagnagrunninn hans Jóns Jósefs Bjarnasonar sem er vægast sagt magnaður og ætti að vera til á hverju heimili. Svo ekki sé minnst á fjölmiðla, rannsóknaraðila hrunsins og ýmsar opinberar stofnanir.

Ég hef fengið að skoða hann og ætla að sýna hér tvennt sem DV og RÚV fjölluðu um. Enn sem komið er nær gagnagrunnurinn aðeins til 1. ágúst 2007, en verið er að uppfæra hann svo kannski get ég skipt myndunum út á morgun eða hinn og sett inn uppfærðar myndir.

Að þessu sinni er um að ræða tengslanet annars vegar milli Jóns Ásgeirs og Pálma Haraldssonar - hins vegar milli Jóns Ásgeirs og Þorsteins Metúsalems Jónssonar sem kenndur er við Kók. Þetta eru þrír þeirra manna sem hafa leikið sér með efnahag íslensku þjóðarinnar undanfarin ár. Myndirnar af tengslunum eru eins og flókinn köngulóarvefur og svo umfangsmiklar að stóra iðnaðarprentara þyrftir til að prenta þetta út með sæmilega stóru letri. Dagblöðin geta það ekki einu sinni, þau eru ekki nógu stór. Er nokkur furða að erfitt hafi verið - og sé - að ná utan um blekkingavefinn?

Hér er frétt RÚV frá í gærkvöldi (ég finn ekki fréttina í vefútgáfunni). Þar er fjallað um Finn Ingólfsson og síðan tengslanet Jóns Ásgeirs og Þorsteins í Kók. Heilar línur þýða gildandi tengsl (m.v. 1.8.07), brotnar línur fyrri/rofin tengsl (m.v. 1.8.07).

RÚV 8. september 2009

Hér er tengslavefur Jóns Ásgeirs og Þorsteins.
Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Tengslanet Jóns Ásgeirs og Þorsteins M. - Smellið þar til læsileg stærð fæst

DV.is 9. september 2009 - meira í blaðinu sjálfu.

DV - Tengsl Pálma Haralds og Jóns Ásgeirs
Tengslavefur Pálma Haraldssonar og Jóns Ásgeirs.
Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Tengslanet Pálma Haralds og Jóns Ásgeirs - Smellið þar til læsileg stærð fæst


Að vera eða ekki vera... á Gíslandi

Systursonur minn sendi mér slóð að bréfi sem birtist í Lúgunni á Eyjunni í fyrradag. Bréfritarinn, Brynleifur Siglaugsson, stendur frammi fyrir erfiðri ákvörðun og skrifar þetta einlæga og blátt áfram bréf, sem stærstur hluti þjóðarinnar getur eflaust tekið undir. Sársaukinn nísti og mig verkjaði í hjartað.

Ég hugsaði með mér hvort þingmenn og ráðherrar læsu það og rynni blóðið til skyldunnar. Hvort útrásardólgar, bankastjórnendur, skilanefndarmenn, auðlindasalar, spilltir stjórnmálamenn og aðrir sem bera ábyrgð á örvæntingu þjóðarinnar, læsu það og skömmuðust sín. Ég spurði sjálfa mig hvort íslenska prestastéttin, sem á að heita sálgæslustéttin okkar en hefur þagað þunnu hljóði að mestu eftir hrunið, læsi það. Hvort forseti Íslands, sem hefði átt að stappa stálinu í þjóðina og sameina hana, læsi það.

Ekkert bólar á stuðningi við almenning sem hefur þurft að sæta eignaupptöku, er að kikna nú þegar undan aukinni skuldabyrði, skattahækkunum, almennum kostnaðarhækkunum og blöskrar svívirðilegt óréttlætið. Á meðan eru skuldir auðmanna afskrifaðar, kvótakóngar sleppa undan skuldum, skipta jafnvel bara um kennitölu og halda kvótanum. Við horfum upp á siðspillta braskara selja frá okkur hænuna góðu sem verpir auðlindagulleggjunum. Þetta er veruleiki almennings á Íslandi í dag. Það er verið að gera okkur að öreigum á meðan auðjöfrarnir sleppa, halda öllu sínu og fá restina á brunaútsölu.

Ég ákvað að gera mitt til að láta rödd Brynleifs hljóma, fletti honum upp í skránni og hringdi í hann með kökk í hálsi. Hann veitti mér góðfúslegt leyfi til að gera það sem ég vildi með bréfið. Ég bið alla sem vettlingi geta valdið að dreifa þessu bréfi - helst að tryggja að það komi fyrir sjónir allra Íslendinga. Rödd Brynleifs verður að hljóma hátt, snjallt og víða því hann talar fyrir munn svo ótalmargra Íslendinga með brostnar vonir og blæðandi hjarta. Almennings sem hrópar á réttlæti.

Ég las bréfið hans Brynleifs í pistlinum mínum á Morgunvaktinni í morgun. Hljóðskrá viðfest neðst að venju.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Ég las bréf á netmiðlinum Eyjunni í fyrradag. Eftir lesturinn sat ég sem lömuð og tárin trilluðu niður kinnarnar. Bréfritarinn heitir Brynleifur Siglaugsson og hann gaf mér leyfi til að lesa bréfið fyrir ykkur. Yfirskriftin er:

Að vera eða ekki vera... á Gíslandi

dag tek ég ákvörðun sem ég hef mikið og lengi hugsað um, ætla ég að vera eða ekki vera. Ég asnaðist á sínum tíma til að læra og ná mér í öll réttindi í þeirri atvinnugrein sem ég hafði mest gaman af. Vinnu sem ég naut og skapaði í eitthvað sem ég gæti verið stoltur af á efri árum. Ég hef unnið við þetta fag síðan ég var 16 ára, alls í 23 ár. Aldrei skort verkefni og aldrei verið í þeirri stöðu sem ég er í núna. Ég kann ekki á kerfið og vil ekki læra hvernig ég get haft það "gott" á bótum.

Í dag þarf ég að ákveða hvort ég sé syni mína, sem eru mér kærari en allt annað í lífinu, eingöngu í gegnum tölvuskjá næstu mánuðina og árin. Hvort ég get ekki boðið þeim góða nótt með kossi og fylgst með lífi þeirra og leik nema í gegnum símtöl við þá og móður þeirra. Þeir munu ekki getað leitað til mín með sínar spurningar eða fengið að hitta mig nema á margra vikna fresti. Það á eftir að vera erfitt, bæði fyrir þá og mig. En ef ég vil skapa þeim bjartari framtíð en við sjáum fram á hér, verð ég að fara. Fara burt frá fólkinu, landinu og lífinu sem ég á hér.

Það eru svo sem engin endalok, en það er samt ekki það sem við eigum að þurfa að gera. Að geta ekki séð fram á að hafa vinnu, geta séð fyrir sér og börnunum. Að horfa fram á að lífskjörin fari sífellt niður á við, aukning á drykkju og fíkniefnaneyslu, horfa uppá eldra fólk og öryrkja snupraða með endalausum niðurskurði til þeirra sem byggðu upp þetta land okkar.  Brynleifur og strákarnir hans sumarið 2009Menntun skorin niður og heilbrigðiskerfið skemmt og niðurlægt. Það er bara ekki það sem ég hef áhuga á. Ég gæti líka farið út á land og fengið mér vinnu þar í fiski eða öðru, það er ekkert að því, en þá get ég ekki gert það sem mér er mikilvægast - að byggja upp og skapa. Launin myndu örugglega vera þokkaleg með mikilli vinnu, en með sífellt hækkandi sköttum og meiri dýrtíð yrði það ekki það líf sem ég kýs. 

Ég hef engan áhuga á, að láta misvitra og misdrukkna menn og konur á þingi taka ákvörðun um framtíð barnanna minna. Ég hef engan áhuga á, að láta þetta sama fólk skerða öll lífskjör í landinu til þess eins að halda áliti erlendra kröfuhafa og stjórnvalda, þar sem peningar eru mælikvarði á allt. Horfa uppá landið selt burt, horfa uppá sömu glæpamennina sitja áfram við kjötkatlana í bönkunum og pota bitlingum til vina og vandamanna. Álit umheimsins á Íslandi er einfalt: Við fórum fram úr okkur, létum gráðuga glæpamenn vaða uppi og skuldsetja skerið svo svakalega að við munum aldrei geta greitt skuldir þeirra - og við eigum ekki einu sinni að reyna það. Allt traust er farið á peningastjórnun hér. Það kemur ekki til baka þó að skrifað sé uppá lán sem við erum ekki og verðum aldrei borgunarmenn fyrir. Frekar á það eftir að halda áfram að versna í hvert sinn sem það verður fréttnæmt að Íslendingar standi ekki við samninginn.

Það hefur löngum verið landlægt hér að fresta skuldunum, lengja í þeim og ýta öllu aftur fyrir. Er ekki komið nóg af því? Ég er viss um að álit umheimsins á okkur myndi stóraukast ef við bara viðurkenndum staðreyndir og horfðum á  hlutina eins og þeir eru og viðurkennum vanmátt okkar. Tökum skellinn núna og notum næstu ár í að byggja upp trúverðugleika sem byggir á staðreyndum en ekki enn einni bólunni. Það verður erfitt en við getum þá allavega byrjað með hreint borð en ekki langan ósigrandi hala á eftir okkur.

Hreinsum til í yfirbyggingunni sem er að sliga stjórnkerfið, opnum það og höfum það gagnsætt. Losum okkur við sníkjudýrin sem eru búin að hreiðra um sig í kerfinu. Þetta er lítið land, byggt af mjög duglegu fólki en ekkert fyrirtæki getur gengið með þvílíku magni af smábossum og afætum sem skapa ekkert nema heimatilbúin vandamál. Ég ætla ekki að bjóða mínum börnum uppá að gerast þrælar fyrir erlenda fjármagnseigendur, það er ekki í boði. Og ég veit að það sama á við um mjög marga aðra. Frekar fer ég burt og byggi mína og þeirra framtíð þar sem yfirvöld þekkja sín takmörk, þar sem fólk er metið, ekki eftir greiðslugetu heldur líka sem lifandi verur."

Brynleifur tók ákvörðun - hann er að flytja úr landi.

*********************************************

Ég óska Brynleifi alls hins besta og vona að ástandið batni fljótt svo hann geti komið sem fyrst aftur til strákanna sinna. En ég er ekki mjög vongóð miðað við hvernig verið er að fara með landið okkar.

Sorglegt, en satt - Halldór Baldursson í Mogganum 1. september 2009

Túristar - Halldór Baldursson - Moggi 1.9.09


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fáránlegur farsi

Sala Orkuveitu Reykjavíkur á hlut sínum í HS Orku til Magma Energy verður æ farsakenndari eftir því sem fleiri tjá sig um hana og reyna að verja hana. Mér finnst skelfilegt að horfa upp á þennan fáránleika. Það er deginum ljósara að þjóðin vill alls ekki einkavæða orkuframleiðsluna, sem er ein af grunnstoðum þjóðfélagsins. Að minnsta kosti ef marka má hljóðið í þeim sem tjá sig um málið. Þeir eru æfir.

Nú reynir á borgarstjórn Reykjavíkur. Þar ræður Sjálfstæðisflokkurinn ríkjum í hrossakaupasamstarfi við Framsóknarflokkinn. Sá örflokkur var næstum dottinn út úr borgarstjórn í síðustu kosningum en slefaði einum manni inn út á 4.056 atkvFólksfjölgun 1950-2050 - Smellið til að stækkaæði (af 64.895), eða rétt rúm 6%. Upphaflega var Óskar Bergsson aðeins í 3. sæti listans, en vegna óánægju eins og spillingar annars lenti hann í efsta sætinu og var til í að verða viðhald Sjálfstæðisflokksins - gegn gjaldi, vitaskuld. Meðal gullmolanna í  herfangi Framsóknarmanna var að endurheimta Orkuveitu Reykjavíkur sem er, að því er virðist, akfeitur  pólitískur bitlingur. Óskar skipaði vin sinn og flokksfélaga, sem var í 14. sæti á lista flokksins í Reykjavík, stjórnarformann OR og sá er nú að ráðskast með verðmætar eigur borgarbúa að eigin vild og flokksins. Við getum rétt ímyndað okkur hvað maður í 14. sæti hjá flokki með 6% atkvæða í kosningum hefur sterkt umboð frá kjósendum. En flokksbræður hans græða á orku og virkjunum - þeir eru margir í þeim bransa - og þá er ekkert spurt hvað sé almenningi fyrir bestu, eða hvað?

Ég sá frétt á Sky sjónvarpsstöðinni í gær þar sem rætt var við skuggaráðherra orkumála í Bretlandi. Hann var ómyrkur í máli og sagði að orkuskortur gæti Eftirspurn eftir orku 1980-2030 - Smellið til að stækkafarið að hrjá Breta innan 8 ára. Verið er að loka kolaorkuverum þar í landi vegna gróðurhúsaáhrifa og deilt er um hvað eigi að koma í staðinn. Ég horfði líka á viðtal á netinu, sem lesandi síðunnar benti mér á, við mann að nafni John Beddington, sem er vísindalegur ráðgjafi stjórnarinnar í Bretlandi og las svo líka viðtal við hann. Framtíðarsýn hans er ófögur og hann tengir saman fólksfjölgun í heiminum, fæðu- og vatnsskort, hnattræna hlýnun og - en ekki hvað - orkuskort.

John Beddington segir að eftirspurn eftir ferskvatni muni aukast um 30% og orku um 50% á næstu 20 árum. Getið þið ímyndað ykkur hvað verðið á eftir að hækka mikið á vatninu okkar og orkunni ef eftirspurnin eykst svona mikið og svona hratt? Svo eru nokkrir stjórnmála- og embættismenn að selja bæði vatnið og orkuna á tombóluverði - og lána meira að segja fyrir því líka! Við verðum að stöðva þetta fólk með öllum ráðum. Hér eru fréttir gærkvöldsins á RÚV. Þarna geislar fólk bókstaflega af útblásnum valdhroka. Þetta fólk hefur ekkert lært.

Eins og áður sagði reiknar John Beddington með því að eftirspurn eftir ferskvatni og orku aukist gríðarlega næstu áratugina. Hér er stuttur viðtalsbútur við hann sem fylgdi með netfréttinni. Hlustið á manninn!

BBC News - 24. ágúst 2009

Það er augljóst að auðlindir Íslendinga eiga eftir að verða verðmætari með hverju árinu sem líður, hvað þá hverjum áratugnum. En óhæfir og gjörspilltir flokksgæðingar enn spilltari stjórnmálaflokka ætla að svipta þjóðina arðinum af þessum auðlindum um ókomna framtíð með fáránlegum samningum við gráðuga menn. Nú þegar er búið að semja við álrisa um orkukaup á útsölu og alls kyns forréttindum. Og hverjir ætli borgi svo brúsann þegar upp er staðið nema almenningur þessa lands. Hvað þarf mikið til að fólki ofbjóði sukkið?

Hér er annað viðtal við John Beddington frá 13. ágúst í þættinum HardTalk á BBC. Sama þætti og Geir var í, munið þið? Þetta viðtal er mun lengra og ítarlega en hitt og hér fer Beddington nánar í svipaða hluti.

HardTalk á BBC - 13. ágúst 2009

Í Kastljósi í gærkvöldi var okkur sýndur farsakenndur fáránleiki málsins þar sem Guðlaugur stjórnarformaður OR og Dagur B. létu ljós sitt skína. Satt að segja var ég nákvæmlega engu nær eftir þennan farsa. Dagur var óundirbúinn og greinilega illa að sér í málinu. Ég hefði miklu heldur viljað sjá þarna Sigrúnu Elsu eða Þorleif, sem bæði sitja í stjórn OR, og hafa meiri þekkingu á þessu máli en Dagur virtist hafa. Og ég get ekki með nokkru móti sætt mig við að Guðlaugur sitji í þessu embætti og fremji slíka gjörninga umboðslaus með öllu.

Kastljós 1. september 2009

 

Í athugasemd sem Birgir Gíslason gerði við þennan pistil kom m.a. fram: " Miðað við það sem fram hefur komið í fjölmiðlum varðandi efni sölusamnings OR til Magma má draga saman þessa niðurstöðu um áhrif hans á rekstur OR.  Það skal tekið fram að ég er ekki endurskoðandi, en það væri fróðlegt að fá álit endurskoðanda með þekkingu á uppgjörsreglum orkufyrirtækja.

Beint sölutap OR af þessum samningi er lauslega áætlað 4,211 milljarðar.  Inn í þeirri upphæð er sölutap upp á 743 milljónir vegna kaupa OR og framsals á hlutum Hafnarfjarðarbæjar (95% hlutur þeirra í HS Orku).

Vaxtaberandi skuldir OR bera allt að 9.325% vexti á ári (sjá árshlutauppjör þeirra 30.06.2009). Miðað við þá vaxtabirgði félagsins má áætla að nettó
vaxtakostnaður OR á hverju ári vegna láns á 70% kaupverðsins sé 657 milljónir á ári, eða 4,601 milljarður næstu 7 árin. OR er mjög skuldsett félag og þar sem kaupverðið er að meirihluta lánað þá getur OR ekki greitt niður aðrar skuldir sínar á móti, eru í raun að taka lán til að lána Magma,
ergo: Nettó vaxtakostnaður OR næstu Orkuveita Reykjavíkur7 árin 4,601 milljarður.

Heildartap OR á sölu hlut sínum í HS Orku er því varlega áætlað 8,813 milljarðar króna eða 54% af heildarverðmæti hlutanna beggja (bókfært verð hlutanna beggja er 16,211 milljarðar en söluverðið er sagt vera 12 milljarðar).

Gengisáhætta OR af 8,4 milljarða (ca. 66.9 milljónir USD) láni til Magma er eftirfarandi: Ef gengi íslensku krónunnar styrkist um 10% gegn US dollar, þá þýðir það tap upp á 840 milljónir. Ef krónan styrkist um 20% er upphæðin 1,680 milljarðar. Það skal tekið fram að mjög miklar líkur eru á því að gengi krónunnar styrkist næstu 7 árin, út á það miðar efnahagsáætlun ríkisins og IMF.

Ég óska eftir því að stjórn OR og/eða fulltrúar eigenda félagsins (borgarfulltrúar) leiðrétti mína útreikninga ef þeir eru rangir, en svona lítur málið út miðað við þær fréttir sem stjórn OR hefur gefið út vegna þessarar sölu.

Ég spyr, ef útreikningar mínir eru réttir, eru hagsmunir eigenda OR borgið með sölu hlutabréfanna til Magma Energy núna, heildartap upp á 8,813 milljarð króna auk hugsanlegs gengistap ef krónan styrkist?

Að lokum vil ég benda á að óbeint eignarhald OR í HS Orku vegna veðs í hlutabréfunum er 22%. Samræmist það kröfu Samkeppnisstofnunar um að OR megi ekki eiga meira en 10% í félaginu? Er samningurinn því ekki brot á úrskurði Samkeppnisstofnunar og þar með ólögmætur? Hvernig hyggst stjórn OR tryggja að veðið rýrni ekki í virði?"

Ef við gefum okkur að Birgir hafi rétt fyrir sér er þetta með ólíkindum. Gengið þarf ekki að styrkjast nema um 10% til að OR tapi 840 milljónum! Talað hefur verið um stöðutöku gegn krónunni. Getur þetta ekki fallið undir það - og verið stöðutaka gegn OR, verðmætasta fyrirtæki Reykvíkinga, um leið?

Fjallað var um samninginn á borgarstjórnarfundi í dag. Baráttukonan Heiða B. Heiðars fór á pallana og sagan sem hún segir á blogginu sínu er mjög athyglisverð. Lýsir algjöru áhugaleysi sumra kjörinna fulltrúa borgarbúa á stórmálum eins og þessu. Heiða gat ekki orða bundist og lagði orð í belg á fundinum. Ég hengi hljóðskrá með athugasemd Heiðu af pöllunum neðst í færsluna. Það verða sveitarstjórnarkosningar næsta vor. Ef þessi samningur verður samþykktur í borgarstjórn verð ég fyrst til að minna á hann þegar kosningabaráttan hefst. Ég læt ekki stela af mér, samborgurum mínum og afkomendum okkar þegjandi og hljóðalaust. Mig grunar að ég verði ekki ein um það.

Viðbót: Þessi pistill Stefáns Snævarr er nauðsynleg og umfram allt holl lesning.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Rifjum aðeins upp...

Þóra Arnórsdóttir um Enron : The Smartest Guys in the Room
Silfur Egils 1. mars 2009

 

Enron : The Smartest Guys in the Room

1. hluti

 

2. hluti

 

3. hluti

 


Landráð af vítaverðu gáleysi?

Magma Energy Corp.Í dag rennur út frestur sá er Magma Energy veitti ríkinu til að íhuga sölu á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku. Mér er fyrirmunað að skilja af hverju nokkrir Reykvíkingar, Hafnfirðingar og Reyknesingar geta ekki sest niður og samið um málið sín á milli í stað þess að ganga að fráleitu kauptilboði Magma. Hafa samráð við Samkeppnisstofnun og leysa málið. Þetta eru jú allt Íslendingar fyrst og fremst og þeim ber skylda til að halda auðlindinni í þjóðareigu. Ég hef skrifað mikið um þetta mál í sumar og síminn hefur ekki stoppað hjá mér og tölvupósti rignt yfir mig. Fólk er að vakna til vitundar um hvað er að gerast þarna - og það eru skelfilegir hlutir.

Skoðanir fólks á málinu má til dæmis sjá í fréttum Eyjunnar sem hefur verið duglegt að fjalla um auðlindasöluna undanfarið. Ég bendi t.d. á þessa frétt, þessa, þessa og þessa. Og ég hvet alla til að lesa athugasemdirnar við allar þessar fréttir. Í þeim kemur ótalmargt fróðlegt fram. Flokksráð VG ályktaði um að HS Orka ætti að vera í samfélagslegri eigu, en Samfylkingin virðist ekkert skipta sér af málinu eða veita ráðherrum sínum nokkurt aðhald. Einstaklingar innan flokksins hafa tjáð sig um það, t.d. Ólína og Dofri. Að öðru leyti virðist Sigrún Elsa, fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn OR, fá lítinn stuðning við sinn málflutning, a.m.k. opinberlega. 

Tveir af yngri kynslóð Samfylkingar skrifuðu hvor sína greinina um Samfylkinginmálið fyrir helgi. Magnús Orri telur að þrátt fyrir samning á ystu nöf ef ekki beinlínis ólöglegan milli Reykjanesbæjar og HS Orku, eigi ríkið ekki að stíga inn í kaup Magma og hindra söluna. Skúli Helgason skrifar bloggpistil í sama dúr og athyglisvert er að lesa athugasemdirnar við hann. Þar endurspeglast skoðun fólks á þessum gjörningi prýðilega. Skúli ber því m.a. við að ríkið eigi ekki þessa 12 milljarða sem um ræðir. Bíðum við... Hér kemur fram að það kosti 13-14 milljarða að ljúka við tónlistarhúsið. En það eru ekki til 12 milljarðar til að halda afnotum af einni gjöfulustu orkuauðlind Íslendinga í meirihlutaeigu almennings. Er ekki eitthvað öfugsnúið við þennan forgang? Má ég þá heldur biðja um að tónlistarhúsinu verði frestað og haldið verði í auðlindir okkar, þótt ekki sé nema vegna komandi kynslóða. Við höfum ekkert leyfi til að einkavæða eða selja þær frá afkomendum okkar. Samfylkingin vill selja.

Svo er mérGeysir Green Energy hugleikin sú spurning hver á Geysir Green Energy, hinn eiganda HS Orku sem mun líklega sameinast Magma ef af kaupunum verður. Hér fór ég yfir eignarhald GGE og fæ ekki betur séð en þetta sé skel utan um gjaldþrota menn og fyrirtæki, væntanlega í umsjá skilanefnda bankanna. Við vitum að margt er undarlegt við skilanefndirnar og þær virðast frekar hafa hagsmuni vina, vandamanna, klíkubræðra og samflokksmanna að leiðarljósi en hagsmuni þjóðarinnar. Hvernig í ósköpunum stendur á því að skilanefndirnar eru ekki búnar að ganga að veðum eigenda Geysis Green Energy og yfirtaka reksturinn? Hvernig í ósköpunum stendur á því að gjaldþrota auðmönnum er leyft að ráðskast með auðlindirnar okkar og selja þær til að redda sjálfum sér fyrir horn og halda í sveitasetrin, snekkjurnar og ljúfa lífið? Getur einhver svarað því? Vill einhver rannsóknaraðili svo gjöra svo vel að fara ofan í saumana á fjármálum vissra stjórnmálamanna, bæjarstjóra, forstjóra og fleira fólks sem að auðlindasölunni standa? Athuga bankareikninga þeirra hérlendis og erlendis, möguleg skúffufyrirtæki í þeirra eigu og fleira í þeim dúr? Takk fyrir.

Forstjóri Magma Energy, Ross Beaty, var í Kastljósviðtali í síðustu viku. Hann skrúfaði frá kanadíska sjarmanum, elskaði land og þjóð og vildi endilega hafa hagsmuni okkar að leiðarljósi þegar hann, og skúffufyrirtækið sem hann notar til að komast bakdyramegin inn, fengi kúlulánið hjá OR til að kaupa HS Orku. Ég var búin að lesa mér svo mikið til um manninn og málefnið að mér varð beinlínis óglatt við að hlusta á hjalið í honum. Og ég hefði viljað fá miklu gagnrýnni spurningar. Ef ég hef einhvern tíma séð úlf í sauðargæru var það þegar ég horfði og hlustaði á þetta viðtal.

Kastljós 26. ágúst 2009

 

Ég skrifaði Bréf til Beaty og flutti það á Morgunvakt Rásar 2 á föstudaginn. Vonandi hefur einhver þýtt það fyrir hann en ef það hefur farið fram hjá hinum íslensku aðstoðarmönnum hans þá bæti ég úr því hér. Ross Beaty segist nefnilega vilja kaupa auðlindirnar í sátt við íslensku þjóðina. Ekki vera í stríði við neinn. Ef aðstoðarmenn hans eru starfi sínu vaxnir þýða þeir allar athugasemdir við fréttirnar sem ég benti á hér að ofan, sem og annað sem skrifað hefur verið um málið. Hljóðskrá er viðfest neðst að venju.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Ef ykkur er sama ætla ég ekki að tala til ykkar í dag. Ég ætla að ávarpa Ross Beaty, forstjóra Magma Energy, sem vill ólmur krækja í orkuauðlindirnar okkar. Hann var í viðtali í Kastljósinu í fyrrakvöld og ég fékk ofbirtu í augun frá geislabaugnum sem hann hafði fest yfir höfði sér fyrir viðtalið. En hér er bréf til Beaty.

Sæll vertu, Ross,

Þú varst flottur í Kastljósinu, maður. Tungulipur, ísmeygilegur og útsmoginn. Örugglega hafa einhverjir látið glepjast af sjarmerandi yfirborðinu og fagurgalanum. En ekki náðirðu að hrífa mig. Ég sá bara úlf í sauðargæru. Einhver virðist hafa sagt þér frá andstöðunni gegn áætlunum þínum í íslensku samfélagi. Ummæli þín um að þú hafir heillast af Íslandi frá fyrstu sýn voru afar ósannfærandi. Haft er eftir þér í viðtölum erlendis að þú njótir þess að skapa auð fyrir þig og hluthafana þína. Að þú farir fram úr á morgnana til að græða. Vertu bara ærlegur og segðu eins og er: að þú hafir heillast af gróðamöguleikum auðlindanna á Íslandi. Það væri bæði heiðarlegra og sannara.

Yfirlýsingar þínar um jarðhitaorku í ýmsum viðtölum eru alveg ótrúlegar. Sem jarðfræðingur áttu til dæmis að vita, að jarðvarmi er ekki endalaus og eilífur eins og þú segir í einu viðtalinu og nú hef ég eftir þér í lauslegri þýðingu: "...Ég held að jarðvarmi sé eitt besta svarið við orkuskortinum. Hann er hreinasta form orku, ódýrasta, hann er stöðugur og forðinn er ókeypis... Þetta er bara ofboðslega frábær bissness. Jarðvarminn er eilífur og tiltækur víða í heiminum." Ross þó! Maður með jarðfræðimenntun á að vita að endurnýjanleikinn er háður jarðfræðilegri óvissu og endingin fer eftir því hve mikið og hratt auðlindin er nýtt. Og af því þú lifir fyrir að gera sjálfan þig og vini þína ríka, áttu líka að vita að enginn verður ríkur á að nýta orkuna eins og á að gera - skynsamlega.

Einn af okkar fremstu jarðvísindamönnum, Stefán Arnórsson, sagði í útvarpsviðtali fyrir nokkru að tvö sjónarmið væru ríkjandi um nýtingu jarðvarma. Annað er að nýta hann með hámarkságóða í huga yfir ákveðið tímabil og þá er gjarnan miðað við afskriftatíma mannvirkja sem nýta orkuna. Hitt er að nýta hann með sem næst sjálfbærum hætti þótt full sjálfbærni náist aldrei. Það er hins vegar hægt að hafa það að leiðarljósi, að auðlindirnar nýtist sem lengst - ekki aðeins núlifandi kynslóðum heldur komandi kynslóðum einnig. Þegar upp er staðið er það siðferðileg spurning hvort sjónarmiðið er haft að leiðarljósi. Þetta sagði Stefán. Kjarni málsins er siðferði, Ross, og við vitum að græðgina skortir allt siðferði.

Þú ert ekki kominn til Íslands til að vera eins og þú sagðir í Kastljósi. Þú vinnur ekki þannig. Þú ert hingað kominn til að gera viðskiptasamning sem tryggir þér afnot af verðmætri auðlind til 130 ára. Þú ætlar að búa til söluvarning - eftirsóknarvert viðskiptamódel - selja svo hæstbjóðanda og græða feitt. Kannski selurðu Kínverjunum sem keyptu námurnar þínar, hver veit? Mér þætti líka fróðlegt að vita hvort það er tilviljun að þú hefur verið með námur í ýmsum löndum þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur verið að væflast.

Nei, ég hreifst ekki af hjali þínu í Kastljósi og bið þig lengst allra orða að hverfa af landi brott tómhentur sem allra fyrst. Hér mun aldrei ríkja friður um auðlindakaup þín. Við Íslendingar höfum fengið meira en nóg af spákaupmönnum og gróðapungum og græðgi þeirra.

Vertu blessaður.

**********************
Nokkrir pistlar um málið:
Hugleiðingar um einkavæðingu - áríðandi skilaboð
Eru auðlindirnar okkar ekki sexí?
VARÚÐ - Nýtt REI-mál í uppsiglingu
Svikamyllan á Suðurnesjum

Hin fallna þjóð og afsal auðlinda
Fjöregginu fórnað
Auðlindir á tombólu
"Þetta snýst allt um auðlindir"
Salan á auðlindum Íslendinga er hafin
Hafa ráðamenn ekkert lært?
Stórslys í uppsiglingu á Suðurnesjum

Agnar Kristján:
Einka(vina?)væðing HS
Skuggaverk á Suðurnesjum I
Skuggaverk á Suðurnesjum II
Spurningar varðandi tilboð Magma og ársreikning HS

Alda Sigmundsdóttir:
While we're looking the other way...
More on that ludicrous Magma HS Orka deal
Magma Energy and the second coming

Ótal pistlar hjá Hannesi Friðrikssyni

Ég stóðst ekki mátið að hafa orðið landráð í fyrirsögn þessa pistils, þótt það sé mér ekki tamt í munni, vegna þessarar bloggfærslu Egils Helga og athugasemdanna þar. Mér finnst enda kominn tími til að skilgreina þetta orð og hvað það raunverulega merkir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Með kveðju frá Bakkabræðrum

Hvað ætli slíkt hið sama eigi við um marga útrásardólga? Hvað kallar maður svona framkomu?

Kæru skattgreiðendur...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband