Færsluflokkur: Náttúra og umhverfi
Það má mikið gerast fyrir laugardaginn svo ég láti tónleika Bjarkar, Sigur Rósar og fleiri fram hjá mér fara. Líklega held ég til einhvers staðar í jaðri mannfjöldans því ég fæ innilokunarkennd í þvögum. Kannski ég mæti klukkan 17, því þá mun minn gamli samstarfsmaður, Finnbogi Pétursson, hljóðlistamaður, í samstarfi við Ghostigital (Einar Örn Benediktsson og Curver Thoroddsen) hefja tónlistarflutning og spila til kl. 19.
Mér er mjög minnisstætt þegar ég sat fund uppi á Stöð 2 endur fyrir löngu í litlu, gluggalausu fundarherbergi. Við vorum búin að sitja þar í smástund þegar við áttuðum okkur á lágværum hljóðum sem bárust einhvers staðar frá. Í ljós kom að Finnbogi hafði sett þar upp hljóðlistaverk sem samanstóð af mörgum, litlum hátölurum sem hengdir voru upp á vegg og frá þeim bárust lágvær hljóð í ákveðnu mynstri eða formi. Þetta var magnað og alveg ótrúlega þægilegt og róandi. Ég væri alveg til í að hafa svona hljóðlistaverk í stofunni heima hjá mér sem ég gæti kveikt og slökkt á að vild. En ég hlakka til að heyra hvað Finnbogi er að fást við núna í samstarfi við félaga sína.
Sigur Rós stígur svo á svið klukkan 19, Ólöf Arnalds er næst á eftir þeim og að lokum kemur Björk Guðmundsdóttir fram með sína mögnuðu rödd sem hefur fylgt mér síðan Björk var á barnsaldri eins og ég sagði frá hér. Hvað sem fólki finnst um tónlist þessara listamanna hvet ég alla til að mæta, þótt ekki sé nema til að sýna hug sinn til náttúru Íslands og sýna þeim sem ólmir vilja leggja hana í rúst að andstaðan sé mikil - kannski meiri en þeir ráða við. Öll erum við jú atkvæði fyrir kosningar, ekki satt?
En hér er brot úr Íslandi í dag frá í gærkvöldi fyrir þá sem voru til dæmis að horfa á boltann og misstu af öllu öðru. Þetta viðtal var einmitt sent út þegar fyrstu mörkin tvö voru skoruð - ég missti af þeim því ég hafði skipt yfir á Stöð 2!
Náttúra og umhverfi | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
19.6.2008
Innrás hvítabjarnanna!
Þetta er ekkert fyndið, einkum í ljósi örlaga hinna tveggja... en ég gat ekki annað en hlegið þegar ég sá fréttirnar af mögulegum þriðja birninum nálægt Hveravöllum. "Égersvoaldeilishissa!", sagði amma alltaf og skellti sér á lær. Nú geri ég það líka. Ég man sæmilega eftir landgöngu tveggja hvítabjarna á minni þokkalega löngu ævi, en nú hafa tveir og kannski þrír gengið á land á hálfum mánuði eða svo. Megi framtíð þess nýjasta, ef tilvera hans reynist rétt, verða bjartari en hinna.
En mig langar að benda þeim, sem ekki eru vissir um hvort segja á ísbjörn eða hvítabjörn, á þessa ágætu umfjöllun Morgunvaktar Rásar 1 í morgun. Þar er þetta rætt lauslega í sögulegu samhengi ásamt fleiru í sambandi við notkun tungunnar í tengslum við dýr. Skemmtilegar pælingar.
Náttúra og umhverfi | Breytt s.d. kl. 23:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Það var athyglisverð frétt í hádegisfréttum Stöðvar 2 í dag þar sem fram kom að íslenska þjóðin greiðir upp undir 30 milljarða á ári með stóriðjunni í landinu. Þetta mun vera niðurstaða atvinnulífshóps Framtíðarlandsins um ríkisstyrkta stóriðju. Ég hef ekki skýrslu hópsins undir höndum en hef beðið um hana til að geta kynnt mér betur forsendurnar að baki niðurstöðunni.
Þetta eru merkilegar niðurstöður og ég vænti þess að um þær verði rækilega fjallað í fjölmiðlum næstu daga. Ég reyni að fylgjast með, en þar sem ég er komin aftur út til Englands og er með mjög lélega og oft enga nettengingu veit ég ekki hver árangurinn og afraksturinn verður.
Á leiðinni hingað upp eftir frá flugvellinum í gær hlustaði ég á áhugaverðan þátt í útvarpinu - á hinni frábæru útvarpsstöð BBC 4 - sem fjallaði um endurvakinn áhuga hér á að opna aftur lokaðar kolanámur, aukna eftirspurn eftir kolum, verðið sem fer hækkandi og hugmyndir um að auka notkun kola til að vega á móti olíuverðshækkunum. Í þættinum kemur m.a. fram að um þriðjungur af orkuframleiðsu Breta er ennþá keyrður með kolum - innfluttum, því kolanámum hér hefur öllum verið lokað. Þátturinn heitir File on 4 og er hér ef einhver hefur áhuga á að hlusta, en ég er að basla við að taka hann upp og set hann í tónspilarann þegar og ef mér tekst það.
Viðbót: Þátturinn er kominn í tónspilarann - þar er hann merktur BBC 4 - File on 4 - um kol og aðra orkugjafa í Bretlandi.
En hér er fréttin úr hádegisfréttum Stöðvar 2 í dag - ég hvet fólk til að fylgjast grannt með umfjöllun fjölmiðla um þetta mál.
Náttúra og umhverfi | Breytt 29.6.2008 kl. 13:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Bakþanka Fréttablaðsins er oftast gaman að lesa og góðir pistlar þar á ferðinni. Margir munda þar pennann - eða lyklaborðið öllu heldur - sumir alltaf sömu vikudagana en aðrir óreglulegar. Í gær birtust bakþankar sem vöktu sérstaka athygli mína og var Karen Kristjánsdóttir, blaðamaður, þar á ferðinni.
Karen skrifar um meinta umhverfisvæna ímynd Íslendinga og fyrirhugaða olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Hún minnist á hinn sama Jón Sigurðsson og Ragnar Jörundsson sagði að myndi gleðjast yfir því, að horfa upp á eiturspúandi olíuhreinsistöð handan fjarðarins af hlaðinu á Hrafnseyri.
Ég ætla að taka mér það bessaleyfi að birta bakþanka Karenar hér og stilla þeim upp við hlið pistlanna hér á undan um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum og ummæli þeirra manna sem standa að henni.
Lengi trúðu Íslendingar að umheimurinn teldi okkur sannfærða umhverfisverndarsinna. Í útlöndum væri Ólafur Ragnar Grímsson, skapari hitaveitunnar, á hvers manns vörum; hér ækju allir á vetnisbílum, hús væru kynt með heitu vatni fyrst og fremst af umhverfisástæðum og sótbölvandi ýtustjórar, með þriggja daga skegg og sigggrónar hendur, legðu lykkju á leið sína til að hlífa álfum og huldufólki. Já, Íslendingar eru bragðarefir.
Það er kraftaverki líkast að okkur hafi tekist að halda í þessa sjálfsmynd á sama tíma og við veiðum hvali, drepum ísbirni, reisum álver, sýnum einlægan áhuga á því að byggja olíuhreinsunarstöðvar, eigum eyðslufrekasta bílaflota í heimi og höfum samið popplag gegn Grænfriðungum. Það er því ekki að undra þótt greinilegt sé að lygavefur þjóðarinnar sé farin að trosna.
Nú láta margir eins og fullvíst sé að Íslendingar farist allir úr eymd ef við reisum ekki olíuhreinsistöð við Arnarfjörð sem allra fyrst. Það þarf ekki spádómsgáfu til að átta sig á því að mjög fljótlega mun einhver halda því fram að því miður sé bara málið komið það langt að ekki sé hægt að hætta við það úr þessu.
Ég velti því fyrir mér hvað Jón Sigurðsson, sem Íslendingar kalla gjarnan forseta, hefði sagt um hugleiðingarnar um olíuhreinsistöðina væri hann uppi nú. Honum væri jú málið sérlega skylt því stöðina á að reisa við Arnarfjörð en í þeim firði stendur Hrafnseyri þar sem Jón fæddist og ólst upp. Hér á árum áður unnu Íslendingar Jóni svo mjög að ekki þótti annað hæfa en að fæðingardagur hans yrði þjóðhátíðardagur. Einnig má nefna að Hrafn sá sem eyrin er nefnd eftir er talinn fyrsti lærði læknir landsins en á Sturlungaöld framkvæmdi hann þar minniháttar uppskurði og þykir ekki fráleitt að halda því fram að í Arnarfirði hafi staðið fyrsta sjúkrahús landans.
Það er ég viss um að þessir fornu frumkvöðlar myndu ekki kunna því vel að ónefndum rússneskum auðjöfrum stæði til boða að reisa olíuhreinsistöð í Arnarfirði. Einhverjir gætu vissulega sagt að þessir tveir menn hefðu fyrst og fremst hugsað um hag og sjálfstæði þjóðarinnar. Hefðu þeir talið þeim hagsmunum best varið í faðmi Rússa hefðu þeir valið þann kostinn. Stóriðjulausu Vestfirðingarnir sem nú láta eins og óbyrja sem skyndilega eygir von á að eignast barn ættu ef til vill fyrst að líta til þeirrar þróunar sem orðið hefur á Austfjörðum. Fyrir austan var jú svolítið gaman á meðan á uppbyggingunni stóð og verksmiðjan var að taka til starfa en nú hafa skyndilega allir misst áhuga á Austfirðingum og álverinu. Flugfélög hætta að fljúga þangað, fjölmiðlar nenna ekki að segja af þeim fréttir og allt virðist komið í svipað far og var áður en verksmiðjan var reist.
Að þessu loknu bendi ég á Spegilsviðtal frá í gærkvöldi við Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, um rammaáætlun um nýtingu og verndun náttúrusvæða og olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Viðtalið setti ég í tónspilarann og þar er það merkt Spegillinn - Þórunn Sveinbjarnardóttir um m.a. olíuhreinsistöð. Eins og fram kom í þessum pistli virðist umhverfisráðuneytið ekki sjá ástæðu til að taka hugmyndirnar alvarlega. Ég vara við slíkum hugsunarhætti og geri þá kröfu til yfirvalda að þau haldi vöku sinni.
Þórunn segir m.a. í viðtalinu: "Ég hef enn ekkert séð um þetta verkefni sem lýsir því nákvæmlega. Þetta hafa verið frekar óljósar hugmyndir í umræðu í fjölmiðlum. Ef satt er, og menn hafa verkefnið á teikniborðinu og fjárfestana til taks, þá þurfa þeir aðilar væntanlega að fara að gera grein fyrir því - bæði fólkinu í Vesturbyggð og öðrum þeim sem hlut eiga að máli - hvað þeir ætlast fyrir. Það er ekki fyrr en þá sem öll þessi lögformlegu ferli sem slíkar stórframkvæmdir verða og þurfa að fara í gegnum... það er ekki fyrr en þá sem það getur hafist. En alveg burtséð frá því þá hef ég áður sagt, og get alveg ítrekað hér, að ég teldi það mikið óheillaskref fyrir Vestfirðinga og fyrir landsmenn alla ef við tækjum upp á því núna í upphafi 21. aldar að reisa olíuhreinsistöð hér á landi." Mæltu kvenna heilust, Þórunn.
Ég bendi í leiðinni á þennan bloggpistil Gríms Atlasonar um mál sem verið er að reyna að vinna á Vestfjörðum. Er nema von að fólk líti í aðrar áttir þegar svona hægt gengur með umfjöllun um annars konar uppbyggingu? Fleiri pistlar Gríms hafa reyndar fjallað um uppbyggingu á Vestfjörðum og hann heldur vonandi áfram að fjalla um þau mál.
Náttúra og umhverfi | Breytt 29.6.2008 kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
8.6.2008
Hverjir eiga íslenska náttúru?
Ég fékk bæði upphringingu og tölvupóst í gær út af síðasta pistli mínum þar sem mér var bent á að myndbandið sem ég hafði búið til og sett inn í lok hans gæti hafa farið fram hjá fólki af því textinn í pistlinum var svo massívur og langur.
Ég ætla því að setja myndbandið inn aftur, örlítið breytt og með textanum inni. Þetta er frumraun mín í myndbandagerð af þessu tagi svo vonandi tekur fólk viljann fyrir verkið.
Tilgangur minn með pistlinum og myndbandinu var að benda á í hverra höndum náttúra Íslands er, einfeldni þeirra og trúgirni, furðulega og óskiljanlega rökfærslu og fullkomið varnarleysi almennings og náttúrunnar gagnvart svona þenkjandi mönnum. Og ríkisstjórnin hefur engin ráð eins og fram kemur í niðurlagi viðtalsins í pistlinum. Þetta er með ólíkindum og óhugnanlegt að svona menn geti ráðskast með náttúru Íslands, fiskimiðin, fuglabjörgin og dýralífið og þurfa ekki að standa skil á gjörðum sínum gagnvart einum eða neinum.
Viðbót: Nokkrir bloggarar hafa tekið myndbandið upp á arma sína og sett það inn á sín blogg eins og Bryndís, Anna Ólafs, Ragnheiður og Harpa. Aðrir hafa vitnað og tengt í mína færslu og/eða helgað henni pláss hjá sér eins og Kristjana, Anna Einars og Svala... veit ekki um fleiri. Takk, stelpur.
Hverjir eiga íslenska náttúru? Viljum við láta stela henni frá okkur?
Náttúra og umhverfi | Breytt 11.6.2008 kl. 15:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)
7.6.2008
Getur einhver hjálpað mér að skilja?
Það mun vera hægt að mæla greindarvísitölu - og er gert. Ég hef ekki hugmynd um hver mín greindarvísitala er, en tel víst að hún sé í sæmilegu meðallagi. En í fyrradag hlustaði ég á viðtal sem ég botnaði ekkert í, þ.e. málflutningi viðmælandans og röksemdarfærslum hans. Hvort skilningsleysið hefur eitthvað með greindarvísitölu mína að gera veit ég ekki, en leita á náðir ykkar til að hjálpa mér að skilja manninn.
En þó að þið lesið ekki allan textann eða skrifið athugasemdir með túlkun á viðtalinu bið ég ykkur að spila samt myndbandið hér neðst í pistlinum, það segir líka sögu. Svo kemur seinni hluti uprifjunarinnar bráðum, hann er í vinnslu.
Viðtal þetta var í Morgunútvarpi Rásar 1, fimmtudaginn 5. júní. Viðmælandinn var Hilmar Foss, annar þeirra sem vinna að því að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Hinn er Ólafur Egilsson sem lét út úr sér gullkornið sem ég setti inn í þessari færslu og ýmis fleiri sem komið hafa fram í viðtölum við hann.
Ég hlustaði á viðtalið og botnaði ekki neitt í neinu. Ég hlustaði aftur og svo í þriðja sinn. Eins og ég kom inn á hér hef ég betra sjónminni en heyrnar þannig að ég tók á það ráð að skrifa viðtalið niður orð fyrir orð. Er svo búin að lesa það tvisvar og enn skil ég ekki hvað maðurinn er að fara. En ég neita að gefast upp. Þetta er nú einu sinni einn þeirra sem hafa fjöregg okkar allra í höndum sér, ómetanlega náttúru Íslands. Eins og fram kemur hjá útvarpsmanninum í lokin hefur ríkisvaldið engar lagaheimildir til afskipta af þessum mönnum nema með tilmælum og eftirliti með því að farið sé að lögum. Það eitt og sér er ótrúlegur og hrikalegur veruleiki. Mér finnst því afar mikilvægt að skilja hvað þeir eru að segja.
Getur einhver hjálpað mér að túlka þetta viðtal, benda á staðreyndir sem þar koma fram (ef einhverjar) og útskýra rökfærslur? Ég setti hljóðupptöku af viðtalinu í tónspilarann efst til vinstri - þar er það merkt "Morgunvaktin á Rás 1 - Hilmar Foss - Olíuhreinsistöð". Þið getið því hlustað um leið og þið lesið.
Útvarpsmaðurinn er Haukur Már Helgason.Haukur Már - Inngangur: Ísland er nú sagður fýsilegur staður fyrir olíuhreinsunarstöð vegna legu á milli rússneskra olíulinda og bandarískra fyrirtækja og neytenda. Enn hefur ekkert verið gefið upp um hvaða fyrirtæki eiga olíuna sem unnin yrði í stöðinni, en aðeins virðist um bandarísk eða rússnesk fyrirtæki að ræða. Vitað er að olían kæmi úr sjó norðan af Rússlandi.
Í Bandaríkjunum hefur ekki verið reist ný olíuhreinsistöð í 29 ár og afköst þeirra sem fyrir eru annar engan veginn eftirspurn. Þörfin fyrir fleiri olíuhreinsunarstöðvar jókst enn við fellibylinn Katrínu sem skaðaði iðnaðinn tilfinnanlega árið 2005.
Talað hefur verið um fjárfestingu og framkvæmdir upp á um 400 milljarða króna og Hilmar Foss, framkvæmdastjóri Íslensks hátækniiðnaðar, sagði að gera mætti ráð fyrir að stöðin sjálf myndi þurfa á um 500 manns til starfa auk þess sem vinnuafls væri þörf umleikis við hafnarvinnu og slíkt. Áhrifin á atvinnulíf Vestfjarða yrðu gríðarlega mikil, áhrifin á íslenskt hagkerfi veruleg og auk þess myndi Ísland með tilkomu stöðvarinnar teljast til olíuframleiðslulanda, eins og Hilmar orðar það, sem væntanlega hefði veruleg áhrif á ímynd og sjálfsmynd Íslendinga. Skemmst er að minnast skýrslu frá nefnd forsætisráðuneytisins um ímynd Íslands, þar sem Íslendingum er meðal annars lýst sem frjálslegum náttúrubörnum og náttúra landsins talin til lykilatriða í sjálfsmynd þjóðarinnar. Hilmar segist hins vegar ekki gera ráð fyrir að nein átök séu fram undan um málið.
Hilmar Foss: Kyoto-bókunin, eins og hún er kölluð, hún er tímabil eins og við þekkjum það frá 2008 til ársloka 2012. Hvað tekur við af því veit enginn. Það getur vel verið að einhverjir hafi hugmyndir um það að við eigum að gera þetta frekar en hitt og svo framvegis. En það er eitt sem er alveg ljóst, að það sem tekur við kemur ekki til með að snerta okkur með neinum öðrum hætti heldur en aðra. Þá á ég við jafnvel þig eða mig, álverið á þessum stað eða hinum staðnum, járnblendi hér eða járnblendi þar þar. Það vill meina að það sem tekur við kemur til með að ganga yfir alla á grundvelli jafnræðis. Ég get ekki séð það að það komi til með að snerta okkur með einhverjum verri hætti heldur en aðra ef að það verður tekin ákvörðun hér til dæmis að íslensk starfsemi þurfi að kaupa losunarkvóta frá erlendum ríkjum sem í raun er þá ekkert annað en erlend skattlagning á innlenda starfsemi. Og kannski ekki til neins annars fallin heldur en að láta einhverjum kannski líða betur eða... eða... eða að... ja, ég veit ekki alveg eða hvað.
Haukur Már: Náttúruverndarsamtök Íslands og Umhverfisráðuneytið hafa bæði látið hafa eftir sér að ummæli Hilmars Foss um Kyoto-bókunina séu fráleit. Eftir árið 2012 munu reglur vera þrengri en ekki rýmri en nú er. Árni Finnsson hjá Náttúruverndarsamtökunum segir Íslendinga hafa skuldbundið sig til að hlíta næstu bókun með samþykkt frá fundi á Balí í fyrra. Hins vegar sé ljóst að aðilar að olíuhreinsunarstöð geti keypt sér losunarheimildir. Hilmar segir eðlilegt að rætt sé um mikilvæg mál.
Hilmar Foss: En það hlýtur að þurfa að gera það af skynsemi og á vitrænan hátt og ekki bara af því. Það er allt í lagi og hið besta mál ef að einhver er á móti þessu eða á móti hinu. Ég get verið á móti einhverju bara af því. Það er ekkert að því. En ég á ekki að fara að búa mér til einhver rök þegar að grunnástæðan mín er bara af því. Sjáðu til dæmis með einhvern sem að kemur og segir: "Við þurfum að hugsa til þess að keyra minna eða gera þetta eða gera hitt og svo framvegis" og þú færir aðeins og skoðaðir hans umgjörð og þú spyrðir: "Áttu örbylgjuofn?" Hann myndi segja nei. "Horfirðu á sjónvarp?" Hann segir nei. "Áttu DVD?" Hann segir nei. "Drekkurðu te eða kaffi?" Nei. Gerirðu þetta eða gerirðu hitt og svo framvegis og þú sérð það að hans lífsumgjörð er sko gjörsamlega gjörólík öllu því sem að þú þekkir. Ekki bara hvað varðar þetta að keyra bílinn heldur það er á línuna. Og það er þetta sem að þarf að huga að. Við vitum það að sértrúarsöfnuður er öðruvísi heldur en eitthvað annað. Og það er fínt, við búum við frelsi og svo framvegis... til trúmála, til skoðana og svo framvegis.
Haukur Már: En ekki má gleyma, segir Hilmar, að tilkomu fyrirtækis af þessari stærð fylgi mörg störf sem tengjast fyrirtækinu ekki beint, nýir vegir sem fólk gæti ekið án þess að koma nálægt neinu sem tengist starfsemi olíuhreinsistöðvarinnar.
Hilmar Foss: Þannig að kostirnir geta verið gríðarlega miklir fyrir afar marga af allt öðru vísi ástæðum. Við fengum malbikaðan veg til Keflavíkur af því að Ameríkaninn borgaði hann. Það var "by-product" á sínum tíma af herstöðinni. Hefði ekki komið fyrr en löngu seinna því við hefðum ekki átt fyrir því. En svo voru margir sem vildu keyra eftir veginum en voru samt á móti hernum sko... sem er allt í lagi.
Haukur Már: Hilmar lætur líka í ljósi efasemdir um að losun koltvísýrings sé beinlínis mengun.
Hilmar Foss: Hluturinn er sá að þessi losun, sem margir kalla mengun, og sú umræða sem að við höfum séð og alveg eins ég eins og þú, hún hefur beinst að koldíoxíði eða koltvísýringi, en það hefur enginn verið að horfa til sko raunverulegrar mengunar, það er það sem lætur þig hósta ef þú andar því að þér. Það eru fiskvinnslur á Norðurlandi í dag sem að setja frá sér mengun - með emmi - á við 30.000 manna bæ. Það er enginn að horfa til þess. Það er bara frá fiskvinnslu, það er allt í lagi. En það er svakaleg mengun sem að rennur út um skolprör undir bryggju hvar haldin er dorgveiðikeppni á hátíð einu sinni á sumri... sem dæmi. Þannig að það þarf að vera annað hvort samhljómur og svo framvegis.
Haukur Már: Eins og fram kom í fréttum telur Anna Kristín Ólafsdóttir, aðstoðarkona umhverfisráðherra, enn ekki ástæðu til að taka hugmyndirnar alvarlega en ef af verður segir hún ríkisvaldið ekki hafa neinar lagaheimildir til afskipta nema með tilmælum og eftirliti með því að farið sé að lögum. Jarðnæði er fundið og sveitarfélagið velviljað. Það virðist því alfarið í höndum Hilmars Foss og viðskiptafélaga hans hvort Ísland verður olíuframleiðsluland á næstu árum eða ekki.
Svo mörg voru þau orð. Skilur einhver hvað Hilmar Foss er að fara? Skilur einhver rök hans og dæmisögur? Skilur einhver viðhorf hans til mengunar?
Ég hef fjallað um Skipulags- og byggingarlögin og gagnrýnt harðlega að fámenn sveitarfélög geti tekið ákvarðanir sem bitna á nágrannasveitarfélögunum og jafnvel landsmönnum öllum. Þannig er þessu máli háttað og fullyrt er af mörgum að Grímur Atlason, fyrrverandi bæjarstjóri í Bolungarvík, hafi verið látinn fjúka vegna þess að hann var ósáttur við vinnubrögðin í kringum fyrirhugaða olíuhreinsistöð.
Misvitrir bæjar- og sveitarstjórar með örfá atkvæði á bak við sig geta tekið gríðarlega stórar ákvarðanir og landsstjórnin virðist ekki geta spornað við því. Frumvarp umhverfisráðherra um ný lög þar að lútandi fór ekki í gegn á nýliðnu þingi. Í þessum pistli kom meðal annars fram að meirihluti bæjarstjórnar Vesturbyggðar er með heil 345 atkvæði á bak við sig og sú bæjarstjórn fer með skipulagsvald í Arnarfirði þótt flestir bæjarstjórnarmenn búi á Patreksfirði. Bæjarstjórinn heitir Ragnar Jörundsson og ég botna ekkert í honum frekar en í Hilmari Foss eða Ólafi Egilssyni. Eruð þið sátt við að fjöreggið okkar sé í höndum svona manna? Treystið þið þeim?
Ég setti saman myndband í kvöld og tileinka þessum mönnum, sem og sveitarstjóranum í Ölfusi og öðrum þeim, sem hafa náttúru Íslands í hendi sér. Aðgát skal höfð í nærveru sálar... og náttúran hefur svo sannarlega sál.
Halldór Laxness sagði: "Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu."
Ísland er land þitt
Ísland er land þitt, og ávallt þú geymir
Ísland í huga þér, hvar sem þú ferð.
Ísland er landið sem ungan þig dreymir,
Ísland í vonanna birtu þú sérð,
Ísland í sumarsins algræna skrúði,
Ísland með blikandi norðljósa traf.
Ísland er feðranna afrekum hlúði,
Ísland er foldin, sem lífið þér gaf.
Íslensk er þjóðin sem arfinn þinn geymir
Íslensk er tunga þín skír eins og gull.
Íslensk sú lind, sem um æðar þér streymir.
Íslensk er vonin, af bjartsýni full.
Íslensk er vornóttin, albjört sem dagur,
Íslensk er lundin með karlmennskuþor.
Íslensk er vísan, hinn íslenski bragur.
Íslensk er trúin á frelsisins vor.
Ísland er land þitt, því aldrei skal gleyma
Íslandi helgar þú krafta og starf
Íslenska þjóð, þér er ætlað að geyma
íslenska tungu, hinn dýrasta arf.
Ísland sé blessað um aldanna raðir,
íslenska moldin, er lífið þér gaf.
Ísland sé falið þér, eilífi faðir.
Ísland sé frjálst, meðan sól gyllir haf.
Magnús Þór Sigmundsson / Margrét Jónsdóttir
Náttúra og umhverfi | Breytt 29.6.2008 kl. 13:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (39)
6.6.2008
Kærar þakkir Björk og Sigur Rós!
Í þessum pistli, sem ég kalla fyrri Hveragerðispistilinn, sagði ég m.a.: "...eina leiðin sem virðist fær er að reyna að nota mátt orðanna. En mig þekkja fáir og enn færri hlusta á mig. Þótt ég þoli ekki athygli vildi ég stundum óska þess að vera fræg. Ef ég væri fræg myndu fjölmiðlar kannski hlaupa upp til handa og fóta þegar ég munda lyklaborðið, taka við mig djúpvitur viðtöl og allir myndu hlusta í mikilli andakt. Annað eins hefur nú gerst þegar fræga fólkið tjáir sig. En ég er ekki fræg og fáir hlusta. Því miður. Ég auglýsi hér með eftir frægu fólki til að tala máli mínu. Það er sama hvaðan gott kemur - en hér ætla ég að láta vaða og taka stórt upp í mig."
Þessi ósk mín hefur ræst - eða er að rætast - og ég er alsæl með það. Frægustu tónlistarmenn Íslandssögunnar ætla að halda tónleika til að vekja athygli á íslenskri náttúru og henni til verndar. Betri liðsauka er ekki hægt að hugsa sér í baráttunni fyrir náttúrunni og þau eru auk þess í miklu uppáhaldi hjá mér. (Lásu þau kannski bloggið mitt?)
Ég er búin að fylgjast með ferli Bjarkar frá því hún kom fyrst fram í sjónvarpinu (mér vitanlega) þegar hún var smástelpa í hvítum kjól með stífuðu skjörti og tíkarspena í hárinu. Ég man ekkert hvað hún söng en ég man hvað hún gerði það vel. Þar fangaði hún athygli mína og hefur haft hana síðan. Ekki hefur mér alltaf hugnast tónlistin sem Björk flytur, en röddin er engu lík - hvað sem hún syngur.
Strákarnir í Sigur Rós skelltu mér kylliflatri með fyrsta laginu sem ég heyrði með þeim. Þeir dáleiddu mig og gera enn. Það hefur engum öðrum af þeirra kynslóð tekist jafnrækilega. Ég á alla diskana sem þeir hafa gefið út og myndbandið Heima líka - þar sem þeir fóru um landið og spiluðu á ýmsum stöðum, m.a. í gömlu verksmiðjunni í Djúpuvík á Ströndum (systir mín og fleiri fjölskyldumeðlimir voru þar) og í Ásbyrgi (sonur minn var þar). Ég var sjálf í Laugardalshöll þegar þeir luku tónleikaferðalagi þar og ég var á Klambratúni þegar þeir spiluðu þar fyrir tveimur árum.
Ég tók sérstaklega eftir nærveru Guðmundar Páls Ólafssonar á blaðamannafundinum í fréttunum. Hann ættu nú flestir að þekkja, en ef ekki skal upplýst að hann er einn af merkustu, núlifandi baráttumönnum fyrir íslenskri náttúru. Guðmundur Páll er líffræðingur að mennt og hefur skrifað glæsilegar bækur um íslens
ka náttúru, s.s. Perlur í náttúru Íslands, Fuglar í náttúru Íslands, Ströndin í náttúru Íslands og margar, margar fleiri. Því miður hef ég aldrei haft efni á að kaupa mér þessar náttúruperlur en ég á nú vonandi nokkur stórafmæli eftir.
Upplýsingar um Guðmund Pál og bækur hans eru m.a. hér og rætt er stuttlega við hann í myndbrotinu hér að neðan úr Íslandi í dag. Ég ber takmarkalausa virðingu fyrir Guðmundi Páli og ævistarfi hans.
Ég fagna þessum liðsauka innilega og vildi óska þess að fleiri tónlistarmenn og aðrir listamenn myndu slást í hópinn og berjast fyrir íslenskri náttúru því öll list hefur áhrif. Hér með skora ég á alla sem vettlingi geta valdið að mæta á tónleikana í grasagarðinum 28. júní og sýna þar með hug sinn til náttúrunnar og verndunar hennar.
![]() |
Ísland verði áfram númer eitt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Náttúra og umhverfi | Breytt s.d. kl. 02:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Enn ætla ég að gera kröfur til lesenda, setja inn ítarefni og rifja upp fyrri umfjöllun. Tilefnið er frétt í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi um þá ótrúlegu hugmynd að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Þeir sem ekki hafa trúað þessum fyrirætlunum ættu að hugsa sig tvisvar um. Þótt ótrúlegt sé virðist mönnum vera fúlasta alvara með að troða þessum óskapnaði í einn fallegasta fjörð á Íslandi með allri þeirri mengun og slysahættu sem olíuhreinsistöð hefur í för með sér, svo ekki sé minnst á siglingar risastórra olíuskipa um stórhættulegt hafsvæði - enda vilja engar þjóðir reisa slíkar stöðvar heima hjá sér lengur. En þær eru Íslendingum bjóðandi - eða hvað? Ef fólki líst ekki á þessar fyrirætlanir og vill leggja sitt af mörkum til að sporna við þessari firru er ekki seinna vænna en að byrja strax.
Fréttatíminn var ekki búinn þegar Heiða hringdi í mig ævareið yfir þessari
gargandi vitleysu og við ákváðum að skrifa pistla um málið. Hennar pistill er hér. Heiða bendir m.a. á Náttúruverndarsamtök Vestfjarða sem stofnuð voru 5. apríl sl. og lesa má nánar um hjá formanni þeirra, Bryndísi Friðgeirsdóttur hér, og hjá Ólínu Þorvarðardóttur hér, en þær hafa báðar skrifað talsvert um fyrirhugaða olíuhreinsistöð. Sigríður Ragnarsdóttir, skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar, vann einnig ötullega með þeim að stofnun samtakanna. Allir geta gengið í Náttúruverndarsamtök Vestfjarða, hvar sem þeir búa á landinu. Sendið póst til Bryndísar (bryndis@isafjordur.is) eða Ólínu (olina@snerpa.is) og skráið ykkur í samtökin. Því fleiri sem taka þátt í baráttunni því líklegri er hún til árangurs. Lesið síðan endilega þennan pistil sem skrifaður var eftir fréttirnar í gærkvöldi - hann er beittur.
Viðbót: Haraldur, Púkinn og Einar skrifuðu líka pistla um málið og hér er firnagóður pistill Önnu vélstýru sem ég mæli eindregið með. Látið mig vita ef þið rekist á fleiri.
En fyrst er hér fréttin frá í gærkvöldi - hvernig líst ykkur á málflutning sveitarstjórans?
Ég skrifaði fyrsta pistilinn um þetta mál 15. febrúar sl. og lagði þar út frá grein Helgu Völu Helgadóttur í 24stundum þann sama dag og bar yfirskriftina Þetta er ekkert grín! Þar sagði ég m.a.:
"Íslendingar verða að átta sig á því, að mönnum sem haldnir eru virkjana- og stóriðjufíkn er fúlasta alvara. Þeim er ekkert heilagt. Þeim virðist vera nákvæmlega sama um hvers konar mengun af völdum framkvæmdanna og þeir hafa sannfært sjálfa sig um að þetta sé "þjóðhagslega hagkvæmt" (aur í eigin vasa?). Og að það þurfi "að skapa störf" í þjóðfélagi þar sem er ekkert atvinnuleysi og fluttir hafa verið inn um eða yfir 20.000 erlendir farandverkamenn á örfáum árum til að þræla á lágum launum svo græðgisvæðingin geti orðið að veruleika og sumir fengið meira í vasann."
Fólki er óhætt að trúa að þetta er ekkert grín sem hægt er að yppta öxlum yfir og hlæja að. Þessum mönnum er fúlasta alvara.
Svo kom annar pistill daginn eftir, 16. febrúar, og þar voru myndirnar látnar tala. Setti inn myndir af Arnarfirði með sínum undurfögru Ketildölum og myndir sem ég fann á netinu af olíuhreinsistöðvum svo fólk gæti reynt að ímynda sér umhverfi og aðstæður. Sagði m.a.:
En látum myndirnar tala. Reynið að ímynda ykkur landslagið með olíuhreinsunarstöð, olíutönkum og olíuskipum siglandi inn og út fjörðinn. Ég get ekki með nokkru móti séð fyrir mér slíkan óskapnað í þessum undursamlega fjallasal - og reyndar hvergi á okkar fagra landi. En sjón er sögu ríkari, dæmi nú hver fyrir sig."
Þriðji pistillinn er svo frá 20. febrúar og fyrirsögnin er Lögmál Murphys og stóriðja í íslenskri náttúru. Þar er mynd og myndband af nýlegum slysum í olíuhreinsistöðvum - því enginn skal ímynda sér að ekki verði slys í slíkri stöð á Íslandi, í sjálfum firðinum eða við ströndina enda geta veður verið æði válynd á þessum slóðum og hafsvæðið erfitt til siglinga.
Fjórða pistil skrifaði ég svo 15. apríl, en þá um kvöldið var von á Kompássþætti sem fjallaði um ýmsar hliðar fyrirhugaðrar olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum og væntanlega yrði afhjúpað leyndarmálið um hvaða aðilar stæðu á bak við þessa framkvæmd, en það höfðu íslensku olíufurstarnir tveir, Ólafur Egilsson og Hilmar Foss, ekki viljað upplýsa. Með þessum pistli fylgdi viðtal við Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðing, úr fréttum RÚV frá 22. febrúar og myndbrot með gullkorni sem Ólafur Egilsson lét út úr sér í viðtali við fréttamann Stöðvar 2 þann 24. febrúar. Set bæði myndböndin inn hér til fróðleiks.
Þá var komið að fimmta pistlinum, 17. apríl, og fjallaði hann um Kompássþáttinn sem sýndur var á Stöð 2 þann 15. apríl. Í þættinum kom fram að ráðherrar vita lítið um málið og ekkert hverjir standa á bak við framkvæmdina. Hvernig má það vera? Það á að fórna náttúru Íslands, fiskimiðum, fuglabjörgum og ímynd landsins fyrir rússneska olíurisa sem þurfa að flikka upp á eigin ímynd á Vesturlöndum og ráðherrar koma af fjöllum. Í pistlinum segir einnig:
"Ég ætla að vitna í orð Aðalbjargar Þorsteinsdóttur frá fyrirtækinu Villimey á Tálknafirði. Hún hefur haslað sér völl sem framleiðandi ýmissa jurtasmyrsla sem eru smám saman að komast á markað. Orð þessi lét hún falla á málþingi um nýsköpun og fleira sem fram fór í Hafnarfirði 28. apríl 2007. Aðalbjörg kvaðst ekki geta stillt sig um að benda fundinum á, að olíuhreinsistöð á Vestfjörðum myndi ekki laða Vestfirðinga til starfa, heldur byggja á farandverkamönnum. Það væri síðan deginum ljósara að fyrirtæki á borð við sitt myndi leggjast af.
Mig langar líka að biðja fólk að hugsa til þeirra hjóna, Maríu Bjarnadóttur og Víðis Hólm Guðbjartssonar, sem búa í Bakkadal, næsta dal í byggð fyrir utan Hvestu í Arnarfirði þar sem olíuhreinsunarstöðin yrði mögulega reist. Fyrir neðan myndböndin set ég inn viðtal við Víði sem birtist í Morgunblaðinu 2. febrúar sl. Reynið að ímynda ykkur hvernig þeim hjónum líður við að fá þennan óskapnað nánast í túnfótinn hjá sér. Ég vitnaði í Maríu í athugasemd við síðasta pistil. Orð sem hún skrifaði mér í tölvupósti og ég fékk gæsahúð þegar ég las. Þessi ungu hjón myndu hrekjast á brott, dalurinn þeirra fara í eyði og hvað kæmi í staðinn? Erlendir farandverkamenn sem staldra við í tvö eða þrjú ár?"
Það er full ástæða til að endurbirta hér Kompássþáttinn og umfjöllun úr Íslandi í dag 16. apríl, kvöldið eftir að þátturinn var sýndur.
Ég ætla að skjóta hér inn tilvitnun í þennan pistil, þótt hann fjalli aðeins óbeint um olíuhreinsistöðina. Þarna var skrifað um sannleikann í gríninu og grínið í veruleikanum og harmakvein sumra aðila í þjóðfélaginu vegna "yfirvofandi kreppu" og nauðsyn þess að fá fleiri erlenda fjárfesta og meiri stóriðju til landsins. Hér er vitnað í atriði í Spaugstofunni þar sem Pálmi lék vel klæddan mann sem barmaði sér mjög og sagði:
"Það er bara hreinlega að verða deginum ljósara að það er ekki búandi í þessu þjóðfélagi. Það virðast ekki vera nein takmörk fyrir því hvernig hægt er að fara með okkur þegnana. Ég er til dæmis nýbúinn að kaupa mér 8 milljón króna jeppa og hjólhýsi á afborgunum. Og þegar þetta bætist við afborganirnar af nýja eldhúsinu mínu og heita pottinum og hérna... já, og lánið af sumarbústaðnum... og flatskjáinn og snjósleðann minn og fjórhjólið og frúarbílana... þá bara ræð ég ekkert við þetta lengur! Og svo hækka þeir vextina til að gera endanlega út af við mann. Og hvað gera stjórnvöld? Ekki neitt! Þetta á ekki að líðast í siðmenntuðu þjóðfélagi!"
Það er einmitt fyrir svona menn sem verið er að leggja náttúruna í rúst og menga andrúmsloftið. Þeim er ekki bjóðandi að þurfa að draga saman seglin, fækka bílum og utanlandsferðum, minnka óhóf og munað. Flæðið í vasana þarf alltaf að vera jafnt og þétt til að halda í lífsstílinn, sama hverju fórna þarf af eigum og umhverfi okkar hinna. Til starfans eru svo fengnir erlendir farandverkamenn á lúsarlaunum (munið þið Kárahnjúka?) enda kallar Heiða þetta réttilega þrælakistu.
Framhaldsupprifjun í næsta eða þarnæsta pistli, þetta er aldeilis ekki búið.
Náttúra og umhverfi | Breytt 5.6.2008 kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
19.5.2008
Áfangasigur og áskorun !!!
Skipulagsstofnun var að birta álit sitt á mati á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar og leggst afdráttarlaust og eindregið gegn byggingu hennar. Þetta eru kærkomin tíðindi - gríðarlega mikilvægur áfangasigur í baráttunni fyrir náttúruperlunni á Ölkelduhálsi og raunar öllu Hengilssvæðinu.
Þetta ferli er búið að standa lengi yfir. Hengilssíðan var sett upp í lok október sl. og fólk hvatt til að senda inn athugasemdir við mat á umhverfisáhrifum. Sett var Íslandsmet - aldrei áður höfðu borist eins margar athugasemdir við neinni framkvæmd í Íslandssögunni - en athugasemdirnar voru hátt í 700. Skipulagsstofnun flokkaði og taldi þær en sendi síðan til Orkuveitu Reykjavíkur, framkvæmdaraðilans. Upp úr miðjum mars sl. sendi OR síðan lokamatsskýrslu sína til Skipulagsstofnunar sem var að kveða upp álit sitt fyrir stundu.
Skjalið, þar sem Skipulagsstofnun færir rök fyrir áliti sínu er langt, 43 síður. Ég festi það við þessa færslu ásamt matsskýrslunni og umsögnum og athugasemdum sem bárust. Þessi skjöl er einnig hægt að nálgast á heimasíðu Skipulagsstofnunar - hér. Ég ætla aðeins að hafa hér eftir kaflann "Helstu niðurstöður" úr álitinu. Hann hljóðar svo (leturbreytingar mínar):
"Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að bygging Bitruvirkjunar sé ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Um er að ræða lítt snortið, fjölsótt útivistarsvæði í nágrenni þéttbýlis/höfuðborgarsvæðisins og býr svæðið yfir stórbrotnu landslagi sem m.a. einkennist af fjölbreyttri hveravirkni. Fyrirhuguð Bitruvirkjun myndi breyta landslagsásýnd þessa lítt raskaða svæðis í ásýnd iðnaðarsvæðis.
Skipulagsstofnun telur ljóst að upplifun ferðamanna innan áhrifasvæðis Bitruvirkjunar myndi gerbreytast þegar horft er til umfangs fyrirhugaðra framkvæmda og þeirra ásýndarbreytinga sem þær hefðu í för með sér. Stofnunin telur að í ljósi þess yrði ferðaþjónusta og útivist eins og hún er stunduð í dag samkvæmt framlögðum gögnum ekki lengur möguleg innan áhrifasvæðis virkjunarinnar. Stofnunin telur að ráða megi bæði af umfjöllun í matsskýrslu sem og í umsögnum og athugasemdum að um verði að ræða mikil neikvæð, óafturkræf og varanleg áhrif á ferðaþjónustu og almenna útivist vegna breyttrar ásýndar svæðisins og verulegs ónæðis af völdum hávaða bæði á framkvæmda- og rekstrartíma.
Stofnunin telur að ekki sé gerlegt að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar á framangreinda umhverfisþætti með mótvægisaðgerðum þannig að hún teljist ásættanleg.
Þá telur stofnunin ljóst að ef litið er til samlegðaráhrifa Bitruvirkjunar með núverandi virkjunum, háspennulínum og fyrirhugaðri virkjun við Hverahlíð á Hengilssvæðið í heild sinni, nái þessi áhrif á landslag, útivist og ferðaþjónustu til enn umfangsmeira svæðis og áhrifin verði að sama skapi umtalsvert meiri og neikvæðari. Skipulagsstofnun telur ljóst að með auknu raski á Hengilssvæðinu fari verndargildi lítt snortinna svæða þar vaxandi.
Varðandi áhrif Bitruvirkjunar á aðra umhverfisþætti þá liggur fyrir að mikil óvissa er um áhrif á jarðhitaauðlindina, áhrif á lofgæði ráðast alfarið af virkni hreinsibúnaðar fyrir brennisteinsvetni sem fyrirhugað er að koma upp og áhrif á grunnvatn ráðast af því að skiljuvatni verði veitt um fóðraðar niðurrennslisholur niður fyrir grunnvatnsborð.
Óvissa er um breytingar á yfirborðsvirkni á áhrifasvæði virkjunar á Bitru. Skipulagsstofnun telur að komi til aukinnar virkni geti það leitt til neikvæðra áhrifa á jarðmyndanir, örverulíf hvera, gróður og smádýralíf.
Reykjavík, 19. maí 2008"
Svei mér ef þetta er ekki næstum eins og afritað upp úr pistlunum mínum á þessu bloggi. Mikið svakalega erum við innilega sammála, Skipulagsstofnun og ég! Og álit þeirra er ekki á neinni tæpitungu - þar er fast að orði kveðið, það er ákveðið og afdráttarlaust.
En baráttunni er engan veginn lokið, athugið það. Í mínum huga hljóta næstu skref að vera þau, að Orkuveita Reykjavíkur hætti alfarið við að reisa Bitruvirkjun og að Sveitarfélagið Ölfus dragi breytingu á aðalskipulagi - þar sem breyta á Bitru/Ölkelduhálssvæðinu í iðnaðarhverfi - til baka. Síðan kæmi til kasta þar til bærra aðila að friðlýsa svæðið.
Það er ástæða til að óska Skipulagsstofnun og þjóðinni allri til hamingju. Það er líka ástæða til að þakka öllum þeim tæplega 700 sem sendu inn athugasemdir við mat á umhverfisáhrifum í haust. Við getum haft áhrif ef við tökum höndum saman og notum samtakamáttinn.
Takið þátt í áskorun á Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagið Ölfus með því að setja inn athugasemd við þessa færslu!
"Við skorum á Orkuveitu Reykjavíkur að hætta við að reisa Bitruvirkjun og Sveitarfélagið Ölfus að hætta við að breyta svæðinu í iðnaðarsvæði!"
Fréttir Ríkissjónvarpsins í kvöld
Náttúra og umhverfi | Breytt s.d. kl. 20:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (73)
Það er með ólíkindum hvað viss öfl í þjóðfélaginu eru óskynsöm, fyrirhyggjulaus og svífast einskis til að fá sínu framgengt, hvað sem það kostar og hvaða afleiðingar sem það hefur fyrir núlifandi kynslóðir og þær sem á eftir koma - okkur og afkomendur okkar. Engu er eirt, siðferði er hunsað, sveigt fram hjá lögum og reglum með milljarðahagnaðinn að leiðarljósi. Þetta framferði hefur tíðkast lengi í íslensku þjóðfélagi. Fjármagn er vald og vald er fjármagn - eða eins og ég heyrði lítinn gutta segja í leik fyrir nokkrum árum: "Sá sem er ríkastur ræður auðvitað."
Sumir stjórnmálamenn spila með, hagræða og veita nauðsynlega fyrirgreiðslu til að allt gangi nú eins og smurt og sá sem raunverulega valdið hefur fái það sem hann vill og geti hagnast enn meira - því mikið vill alltaf meira. Það virðist vera lögmál. En greiðar eru ekki ókeypis og oft hef ég spáð í hvað hinn greiðasami stjórnmálamaður fái í sinn hlut - eitthvað fær hann, það er ég handviss um. Spilling og mútur? Aldeilis ekki! Það er engin spilling á Íslandi, er það?
Ég hef alltaf furðað mig á því af hverju Sjálfstæðismenn voru tilbúnir til að leggjast svo lágt sem raun bar vitni til að ná völdum aftur í borginni. Það var eitthvað á bak við þetta, eitthvað stórt sem enn hefur ekki komið fram í dagsljósið. Það er ég sannfærð um. Ég held að möguleg loforð gefin verktaka- og lóðabröskurum eða öðrum hafi ekki ráðið úrslitum. Ég held að það hafi verið Orkuveita Reykjavíkur. Tekið skal fram að ég hef ekkert fyrir mér í því annað en grun... tilfinningu sem ég losna ekki við. Engin skjöl, enga pappíra, engin orð hvísluð í eyra - ekkert. En það fyrsta sem nýr meirihluti gerði var að skipa Kjartan Magnússon formann Orkuveitu Reykjavíkur. Áður en skipað var í nokkrar nefndir var formennskan í OR á hreinu! Og samkvæmt fréttum var Kjartan Magnússon einn aðalhvatamaður valdayfirtökunnar. Hvað lá svona á að komast til valda... ekki í borginni endilega, heldur í Orkuveitu Reykjavíkur? Getur einhver upplýst mig um það?
Ég hlustaði á Spegilinn í gærkvöldi. Hef mikið dálæti á þeim þætti og reyni að missa ekki af honum. Spegillinn er einn af albestu fréttatengdu þáttunum í íslensku útvarpi og vinnubrögð umsjónarmanna vönduð, sama hvað fjallað er um og þeir kalla gjarnan sérfræðinga til skrafs. Fastir umsjónarmenn spegilsins eru fréttamennirnir Friðrik Páll Jónsson, Gunnar Gunnarsson og Jón Guðni Kristjánsson. Mér heyrðist það vera Jón Guðni sem ræddi í gærkvöldi við Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði við Háskóla Íslands um nýtingu jarðhita. Í inngangi viðtalsins sagði Jón Guðni:
"Við fjöllum að lokum um hvernig eigi að nýta jarðvarma - með hámarkshagnað í huga til skemmri tíma litið eða með það í huga að jarðvarminn nýtist komandi kynslóðum eins og okkur. Og hvað vitum við um nýtingarþol auðlindarinnar?"
Þarna er strax komið inn á einn stærsta þáttinn sem keyrir virkjanamálin áfram - græðgina og gróðasjónarmiðin. Hámarkshagnað á eins skömmum tíma og mögulegt er, sama hvað er í húfi og hvaða afleiðingar það hefur. Á vefsíðu Spegilsins stendur þetta um málið:
"Áætlanir um raforkuframleiðslu frá jarðvarmavirkjunum byggjast á takmörkuðum rannsóknum, hugmyndir um að nýta jarðhitasvæði í ákveðinn árafjölda og hvíla þau svo meðan þau jafna sig byggjast á ágiskunum en ekki þekkingu eða reynslu. Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði, telur affarasælast að virkja jarðhitann í smáum skrefum fremur en stórum, ef ætlunin er að varðveita auðlindina, komandi kynslóðum til afnota."
Ég hef gagnrýnt lögin um mat á umhverfisáhrifum, þar sem framkvæmdaraðilinn - í þessu tilfelli Orkuveita Reykjavíkur - sér um matið, fær til liðs við sig ráðgjafafyrirtæki sem getur haft beina hagsmuni af því að virkjunin verði reist og síðan sjá sömu aðilar um að meta athugasemdirnar, þ.e. dæma í eigin máli. Hvorugur aðilinn getur með nokkru móti verið hlutlaus. Ég vil að hlutlausir aðilar sjái um matið á umhverfisáhrifum framkvæmda, t.d. menn eins og Stefán og fleiri sem eiga engra hagsmuna að gæta og geta nálgast viðfangsefnið af þeirri hlutlægni og vísindalegu þekkingu sem nauðsynleg er.
Stefán segir "...að tvö sjónarmið séu ríkjandi um nýtingu jarðvarma. Annað er að nýta hann með hámarkságóða í huga yfir ákveðið tímabil og þá er gjarnan miðað við afskriftatíma mannvirkja sem nýta orkuna. Hitt er að nýta hann með sem næst sjálfbærum hætti þótt full sjálfbærni náist aldrei. Full sjálfbærni þýðir að nýting hefur engin umhverfisáhrif og þannig er ekki hægt að nýta auðlindir í jörðu. Það er hins vegar hægt að hafa það að leiðarljósi, að auðlindirnar nýtist sem lengst - ekki aðeins núlifandi kynslóðum, heldur komandi kynslóðum einnig. Þegar upp er staðið er það siðferðileg spurning hvort sjónarmiðið er haft að leiðarljósi."
Ég lýsi eftir siðferði stjórnarmanna Orkuveitu Reykjavíkur, sveitarstjórnar Ölfuss, borgarfulltrúa í Reykjavík, þingmanna, ráðherra í íslensku ríkisstjórninni og almennings á Íslandi.
Annaðhvort vita menn hjá Orkuveitunni þetta ekki eða þeir loka augunum fyrir því. Kannski er þeim uppálagt að gera það. Í virkjununum á Hengilssvæðinu og Hellisheiði er fyrirhuguð hámarksnýting og áætlað er að unnt sé að nýta jarðhitann þar í ja... segjum 30 til 40 ár. Síðan er sagt að það þurfi að hvíla svæðið á meðan það nær upp jarðhita að nýju - kannski í önnur 30-40 ár? Það er einfaldlega ekki vitað, en það á SAMT að gera það. Þeir viðurkenna að nýtingin sé ágeng en ætla SAMT að virkja. Í frummatsskýrslu OR og VSÓ um umhverfisáhrif af Bitruvirkjun segir: "Framkvæmdaraðili skilgreinir fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir á Bitru sem ágenga vinnslu en að vinnslustefnan sé engu að síður sjálfbær." (kafli 19.7, bls. 67). Ágeng en engu að síður sjálfbær? Hvernig kemur það heim og saman við það sem Stefán Arnórsson segir í viðtalinu? Endurnýjanleg orka???
Stefán segir að best sé að virkja í smáum skrefum en auðvitað séu það þarfir þeirra sem nýta orkuna sem á endanum ráða virkjanahraðanum. Þar komum við að spurningunni um þörfina. Til hvers þarf að virkja svona mikið? Fyrir hvað og hvern? Álver sem nú til dags eru nánast hvergi reist nema í fátækum þriðja heims ríkjum? Hverja vantar störf í þjóðfélagi sem þarf að flytja inn erlent vinnuafl í tugþúsundatali? Ég er svo treg að ég skil þetta ekki. Getur verið að áherslan sem lögð er á að virkja sem mest og sem hraðast og ganga eins mikið á auðlindina og hægt er sem fyrst tengist á einhvern hátt þeim þrýstingi sem var á Sjálfstæðisflokkinn að ná völdum aftur í Reykjavík og þar með yfir Orkuveitunni? Spyr sú sem ekki veit.
Undir lok viðtalsins kom Stefán inn á mengunina af jarðhitavirkjunum. Hann segir að efnamengun frá virkjunum og umhverfisáhrif þeirra yfirleitt hafi verið mjög vanmetin. Þar sé mest áhersla lögð á að draga úr sjónmengun og jarðraski virkjana á háhitasvæðum en að áhrifin séu engu að síður miklu, miklu víðtækari. Efnamenguninn sé í raun alvarlegust og erfiðust til langs tíma litið - bæði lofttegundir sem eru í jarðgufunni og fara út í andrúmsloftið og eins ýmis efni í vatninu sem geta blandast yfirborðsvatni eða skemmt grunnvatn. Þetta er fyrir utan hljóðmengun og margt, margt fleira. Hrein orka???
Í þessu sambandi minni ég á Hveragerðispistlana mína tvo frá í apríl, þennan og þennan. Þeir fjalla um brennisteinsvetnismengunina frá jarðhitavirkjununum sem verður gríðarleg og hefur áhrif á alla íbúa suðvesturhornsins, mest þó á Hvergerðinga. Ég minni líka á Spegilsviðtölin í tónspilaranum ofarlega til vinstri á þessari síðu - við Þorstein Jóhannssson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun og Sigurð Þór Sigurðarson, lækni og sérfræðing í öndunar- og umhverfissjúkdómum. Viljum við virkilega að þetta gerist við bæjardyrnar hjá okkur sem búum á suðvesturhorni landsins? (Við erum 2/3 landsmanna, gleymið því ekki. Það eru mörg atkvæði á landsvísu þegar þar að kemur.) Hvað knýr þessa menn áfram við að framkvæma í slíkri blindni? Er eftirsóknin eftir auði og völdum svo siðblind að öllu og öllum - ef ég væri nógu dramatísk segði ég landi og þjóð - sé fórnandi fyrir skyndigróða?
Ýmislegt fleira merkilegt kemur fram í viðtalinu við Stefán. Ég setti það í tónspilarann - það er næstefsta viðtalið - og hvet alla til að hlusta vandlega á það. Þarna talar maður með þekkingu og reynslu sem á engra hagsmuna að gæta.
Annars hef ég verið að lesa lög í dag. Það er leiðinlegasta og tyrfnasta lesning sem hugsast getur - en stundum þarf að gera fleira en gott þykir sagði mamma mín alltaf...
Náttúra og umhverfi | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)