Færsluflokkur: Spilling og siðferði
9.10.2009
Ég fann mikið til...
...með Birni Þorra, alveg eins og Marinó, þegar hann sat andspænis samfylkingarþingmanninum Magnúsi Orra Schram í Kastljósi í gærkvöldi til að ræða aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimilanna. Það er erfitt að vera í þeirri aðstöðu. Ætla mátti að Magnús Orri neitaði að skilja. Hann ruddi út úr sér utanbókarlærðum frösum og maður fékk á tilfinninguna að hann hefði ekki grænustu glóru um hvað hann var að tala. Hann heyrði ekki í Birni Þorra, skildi hann líklega ekki, og hélt bara áfram í frasafílingnum. Minnti óhugnanlega á Árna Pál.
Veit Magnús Orri ekki hvað höfuðstóll er? Skilur hann ekki að vextir og kostnaður er reiknaður af höfuðstóli lána? Fattar hann ekki að verðtryggingin bætist við höfuðstólinn? Veit hann ekki að húsnæðis- og bílalán í erlendri mynt líta allt öðruvísi út í dag en fyrir rúmu ári, hvað þá tveimur? Nær hann ekki að það er ekki sök lántakenda, heldur auðmanna, bankamanna, fyrri ríkisstjórna og annarra gráðugra áhættufíkla? Sama má segja um vísitölutryggðu lánin þótt þau hafi ekki hækkað nándar nærri eins mikið. Skilur Magnús Orri ekki að það er grundvallaratriði að leiðrétta höfuðstólinn? Meira að segja ég skil það - og er ég þó ekki efnahagslega vaxin. Ég beini þeim tilmælum til Samfylkingarinnar að senda næst einhvern sem veit hvað hann er að tala um þegar mál, sem eru lífsspursmál fyrir mestalla þjóðina, eru til umfjöllunar. Ekki smástrák á rangri hillu sem vanvirðir heilbrigða skynsemi. Eru kannski "lausnir" ríkisstjórnarinnar í stíl?
Hagsmunasamtök heimilanna hafa unnið gríðarlega mikilvægt og óeigingjarnt starf fyrir skuldsettar fjölskyldur í landinu - hvað allir athugi! Samtökin ályktuðu um "lausnir" ríkisstjórnarinnar. Þar innanborðs er fólk sem hefur mikla þekkingu á því sem við hin og botnum ekkert í. Einn af þeim er Marinó G. Njálsson sem skrifaði bloggpistil eftir Kastljósið og bókstaflega valtaði yfir Magnús Orra og málflutning hans. Ég hvet alla til að lesa pistil Marinós sem er skýr og skilmerkilegur eins og allt sem hann lætur frá sér fara. Lesið líka styttri pistil Baldvins Jónssonar. Þarna er Baldvin að tala um niðurfærslu lána milli gömlu og nýju bankanna.
Ef einhver veit ekki hvað þar fór fram er hér dæmi: Jósafat skuldaði gamla Landsbankanum 20 milljónir í húsnæðislán. Nýi Landsbankinn "kaupir" skuldina af þeim gamla á 10 milljónir. Það er 50% niðurfærsla eða afskrift. EN... Nýi Landsbankinn rukkar Jósafat ekki um 10 milljónirnar, heldur 20 eins og upprunalega skuldin kvað á um. Jósafat nýtur því í engu niðurfærslunnar eða afskriftarinnar, heldur ætlar nýi bankinn að innheimta skuldina sem hann fékk á hálfvirði í topp. Mér skilst að þannig sé farið um öll húsnæðislán bankanna.
Á meðan þessu fer fram fá vildarvinir skilanefnda gömlu bankanna afskrifaðar milljarðaskuldir og halda fyrirtækjum sínum og eignum. Er nema von að fólki sé misboðið?
Kastljós 8. október 2009
Viðbót: Talað var við Marinó G. Njálsson og Árna Pál Árnason í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Marinó skrifaði pistil um málflutning Árna Páls og ég hengi upptöku með viðtölunum við þá hér fyrir neðan.
Spilling og siðferði | Breytt s.d. kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
7.10.2009
Við borgum ekki!
Alltaf er hollt og nauðsynlegt að rifja upp. Það er nefnilega gert ráð fyrir því að við gleymum og höfum ekki aðgang að upplýsingum. Nú er það Kastljósviðtalið fræga 7. október 2008. Í tengslum við þetta bendi ég á bloggfærslur Vilhjálms Þorsteinssonar og Egils Helgasonar og athyglisverðar umræður í athugasemdakerfum þeirra.
Kastljós 7. október 2008
Spilling og siðferði | Breytt 8.10.2009 kl. 01:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
6.10.2009
Í tilefni dagsins
Ógleymanlegur dagur, ógleymanlegt ávarp og lokaorðin greypt í vitund flestra landsmanna.
Ávarp forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, 6. október 2008
129 dögum síðar - 12. febrúar 2009
Tvær ekkjur, þrjú föðurlaus börn og ef til vill fleiri fjölskyldumeðlimir sem treystu á vinnu og tekjur þessara manna. Andlát þeirra var í fréttum í ágúst 2008 en við höfum aldrei fengið að vita dánarorsökina. Rannsókn málsins var í höndum lögreglunnar á Selfossi og Vinnueftirlitið kom þar líka við sögu. Eftir því sem ég best veit hafa engir blaða- eða fréttamenn fylgt þessu máli eftir og reynt að grafast fyrir um hvað gerðist. Ég varð heldur ekki vör við mikla umræðu um málið á þessum tíma. En ég klippti þetta saman þá og hélt til haga því ég tók þetta nærri mér og vil vita hvað varð mönnunum að bana. Fá sannleikann. Fengu fjölskyldur þeirra bætur? Var skuldinni skellt á hina látnu? Hver er saga þessa hörmulega máls? Hafa rannsóknarblaða- og fréttamenn áhuga á að komast að því?
Andlát tveggja manna í Hellisheiðarvirkjun - Fréttir Stöðvar 2 og RÚV 20.-25. ágúst 2008
Fjölmiðlafólk er duglegt þessa dagana við að reka hljóðnema framan í menn eins og Vilhjálm Egilsson hjá SA og Jón Steindór Valdimarsson hjá SI - talsmenn ofvaxins verktakabransa og steinsteypuaðals sem hefur blásið út undanfarin ár og neitar að draga saman seglin. Þeir eru fastir í gróðærishjólfarinu og sjá engar lausnir nema virkjanir og stóriðju. Þeir eru talsmenn yfirgangssamra og frekra þrýstihópa, lobbýistar dauðans. En aldrei fá andstæð sjónarmið að koma fram. Fólkið sem veit betur og veit sannleikann um orkuauðlindirnar; áhrifin á efnahaginn og umhverfið. Ég held að flestir Íslendingar séu nógu skynsamir til að gera sér grein fyrir því, að virkjanir og stóriðja er engin lausn - þvert á móti. Hvernig væri að hlusta á sérfræðinga í stað hinna freku, tillitslausu þrýstihópa og lobbýista gróðapunganna? Ég lýsi eftir mótvæginu í fjölmiðlaumfjölluninni.
Og fyrst ég er hér að ávarpa fjölmiðlafólk langar mig að beina athygli þess að skjalinu sem er viðfest hér að neðan. Um er að ræða sérlega vandaða athugasemd við fyrirhugaðri Bitruvirkjun sem samin er af Birni Pálssyni, fyrrverandi héraðsskjalaverði, og Ingibjörgu Elsu Björnsdóttur, umhverfisefnafræðingi m.m. Þungavigtarumsögn, sagði kunningi minn. Það þarf ekki mikla sérþekkingu á málefninu eða aðstæðum til að renna í gegnum skjalið, sem er langt en mjög auðlesið og auðskiljanlegt öllum. Þar sem ég hef m.a. verið að fjalla um eiturmengun af völdum brennisteinsvetnis á íbúa suðvesturhornsins, en þó einkum Hvergerðinga í sambandi við Bitruvirkjun, ætla ég að klippa út brot af athugasemdinni (af bls. 9) og niðurstöðuna (bls. 11). Ég minni í leiðinni á að það sem þarna kemur fram á við allar jarðhitavirkjanir, ekki bara Bitruvirkjun, þótt hún sé miklu nær þéttbýli en aðrar virkjanir.
Hvergerðingar tilraunadýr - bls. 9
Niðurstaða - bls. 11
Að lokum langar mig að minna á þessar fréttir frá í desember sl. um mengun af völdum brennisteinsvetnis. Þetta skiptir alla íbúa suðvesturhorns landsins gríðarlega miklu máli - og það vill svo til að um er að ræða 2/3 af íbúum Íslands. Viljum við láta eitra fyrir okkur, börnunum okkar og barnabörnunum?
Fréttir RÚV 10. og 11. desember 2008
Spilling og siðferði | Breytt 6.10.2009 kl. 01:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Það er með ólíkindum hvað viss öfl í þjóðfélaginu eru óskynsöm, fyrirhyggjulaus og svífast einskis til að fá sínu framgengt, hvað sem það kostar og hvaða afleiðingar sem það hefur fyrir núlifandi kynslóðir og þær sem á eftir koma - okkur og afkomendur okkar. Engu er eirt, siðferði er hunsað, sveigt fram hjá lögum og reglum með milljarðahagnaðinn að leiðarljósi. Þetta framferði hefur tíðkast lengi í íslensku þjóðfélagi. Fjármagn er vald og vald er fjármagn - eða eins og ég heyrði lítinn gutta segja í leik fyrir nokkrum árum: "Sá sem er ríkastur ræður auðvitað."
Sumir stjórnmálamenn spila með, hagræða og veita nauðsynlega fyrirgreiðslu til að allt gangi nú eins og smurt og sá sem raunverulega valdið hefur fái það sem hann vill og geti hagnast enn meira - því mikið vill alltaf meira. Það virðist vera lögmál. En greiðar eru ekki ókeypis og oft hef ég spáð í hvað hinn greiðasami stjórnmálamaður fái í sinn hlut - eitthvað fær hann, það er ég handviss um. Spilling og mútur? Aldeilis ekki! Það er engin spilling á Íslandi, er það?
Ég hef alltaf furðað mig á því af hverju Sjálfstæðismenn voru tilbúnir til að leggjast svo lágt sem raun bar vitni til að ná völdum aftur í borginni. Það var eitthvað á bak við þetta, eitthvað stórt sem enn hefur ekki komið fram í dagsljósið. Það er ég sannfærð um. Ég held að möguleg loforð gefin verktaka- og lóðabröskurum eða öðrum hafi ekki ráðið úrslitum. Ég held að það hafi verið Orkuveita Reykjavíkur. Tekið skal fram að ég hef ekkert fyrir mér í því annað en grun... tilfinningu sem ég losna ekki við. Engin skjöl, enga pappíra, engin orð hvísluð í eyra - ekkert. En það fyrsta sem nýr meirihluti gerði var að skipa Kjartan Magnússon formann Orkuveitu Reykjavíkur. Áður en skipað var í nokkrar nefndir var formennskan í OR á hreinu! Og samkvæmt fréttum var Kjartan Magnússon einn aðalhvatamaður valdayfirtökunnar. Hvað lá svona á að komast til valda... ekki í borginni endilega, heldur í Orkuveitu Reykjavíkur? Getur einhver upplýst mig um það?
Ég hlustaði á Spegilinn í gærkvöldi. Hef mikið dálæti á þeim þætti og reyni að missa ekki af honum. Spegillinn er einn af albestu fréttatengdu þáttunum í íslensku útvarpi og vinnubrögð umsjónarmanna vönduð, sama hvað fjallað er um og þeir kalla gjarnan sérfræðinga til skrafs. Fastir umsjónarmenn spegilsins eru fréttamennirnir Friðrik Páll Jónsson, Gunnar Gunnarsson og Jón Guðni Kristjánsson. Mér heyrðist það vera Jón Guðni sem ræddi í gærkvöldi við Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði við Háskóla Íslands um nýtingu jarðhita. Í inngangi viðtalsins sagði Jón Guðni:
"Við fjöllum að lokum um hvernig eigi að nýta jarðvarma - með hámarkshagnað í huga til skemmri tíma litið eða með það í huga að jarðvarminn nýtist komandi kynslóðum eins og okkur. Og hvað vitum við um nýtingarþol auðlindarinnar?"
Þarna er strax komið inn á einn stærsta þáttinn sem keyrir virkjanamálin áfram - græðgina og gróðasjónarmiðin. Hámarkshagnað á eins skömmum tíma og mögulegt er, sama hvað er í húfi og hvaða afleiðingar það hefur. Á vefsíðu Spegilsins stendur þetta um málið:
"Áætlanir um raforkuframleiðslu frá jarðvarmavirkjunum byggjast á takmörkuðum rannsóknum, hugmyndir um að nýta jarðhitasvæði í ákveðinn árafjölda og hvíla þau svo meðan þau jafna sig byggjast á ágiskunum en ekki þekkingu eða reynslu. Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði, telur affarasælast að virkja jarðhitann í smáum skrefum fremur en stórum, ef ætlunin er að varðveita auðlindina, komandi kynslóðum til afnota."
Ég hef gagnrýnt lögin um mat á umhverfisáhrifum, þar sem framkvæmdaraðilinn - í þessu tilfelli Orkuveita Reykjavíkur - sér um matið, fær til liðs við sig ráðgjafafyrirtæki sem getur haft beina hagsmuni af því að virkjunin verði reist og síðan sjá sömu aðilar um að meta athugasemdirnar, þ.e. dæma í eigin máli. Hvorugur aðilinn getur með nokkru móti verið hlutlaus. Ég vil að hlutlausir aðilar sjái um matið á umhverfisáhrifum framkvæmda, t.d. menn eins og Stefán og fleiri sem eiga engra hagsmuna að gæta og geta nálgast viðfangsefnið af þeirri hlutlægni og vísindalegu þekkingu sem nauðsynleg er.
Stefán segir "...að tvö sjónarmið séu ríkjandi um nýtingu jarðvarma. Annað er að nýta hann með hámarkságóða í huga yfir ákveðið tímabil og þá er gjarnan miðað við afskriftatíma mannvirkja sem nýta orkuna. Hitt er að nýta hann með sem næst sjálfbærum hætti þótt full sjálfbærni náist aldrei. Full sjálfbærni þýðir að nýting hefur engin umhverfisáhrif og þannig er ekki hægt að nýta auðlindir í jörðu. Það er hins vegar hægt að hafa það að leiðarljósi, að auðlindirnar nýtist sem lengst - ekki aðeins núlifandi kynslóðum, heldur komandi kynslóðum einnig. Þegar upp er staðið er það siðferðileg spurning hvort sjónarmiðið er haft að leiðarljósi."
Ég lýsi eftir siðferði stjórnarmanna Orkuveitu Reykjavíkur, sveitarstjórnar Ölfuss, borgarfulltrúa í Reykjavík, þingmanna, ráðherra í íslensku ríkisstjórninni og almennings á Íslandi.
Annaðhvort vita menn hjá Orkuveitunni þetta ekki eða þeir loka augunum fyrir því. Kannski er þeim uppálagt að gera það. Í virkjununum á Hengilssvæðinu og Hellisheiði er fyrirhuguð hámarksnýting og áætlað er að unnt sé að nýta jarðhitann þar í ja... segjum 30 til 40 ár. Síðan er sagt að það þurfi að hvíla svæðið á meðan það nær upp jar ðhita að nýju - kannski í önnur 30-40 ár? Það er einfaldlega ekki vitað, en það á SAMT að gera það. Þeir viðurkenna að nýtingin sé ágeng en ætla SAMT að virkja. Í frummatsskýrslu OR og VSÓ um umhverfisáhrif af Bitruvirkjun segir: "Framkvæmdaraðili skilgreinir fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir á Bitru sem ágenga vinnslu en að vinnslustefnan sé engu að síður sjálfbær." (kafli 19.7, bls. 67). Ágeng en engu að síður sjálfbær? Hvernig kemur það heim og saman við það sem Stefán Arnórsson segir í viðtalinu? Endurnýjanleg orka???
Stefán segir að best sé að virkja í smáum skrefum en auðvitað séu það þarfir þeirra sem nýta orkuna sem á endanum ráða virkjanahraðanum. Þar komum við að spurningunni um þörfina. Til hvers þarf að virkja svona mikið? Fyrir hvað og hvern? Álver sem nú til dags eru nánast hvergi reist nema í fátækum þriðja heims ríkjum? Hverja vantar störf í þjóðfélagi sem þarf að flytja inn erlent vinnuafl í tugþúsundatali? Ég er svo treg að ég skil þetta ekki. Getur verið að áherslan sem lögð er á að virkja sem mest og sem hraðast og ganga eins mikið á auðlindina og hægt er sem fyrst tengist á einhvern hátt þeim þrýstingi sem var á Sjálfstæðisflokkinn að ná völdum aftur í Reykjavík og þar með yfir Orkuveitunni? Spyr sú sem ekki veit.
Undir lok viðtalsins kom Stefán inn á mengunina af jarðhitavirkjunum. Hann segir að efnamengun frá virkjunum og umhverfisáhrif þeirra yfirleitt hafi verið mjög vanmetin. Þar sé mest áhersla lögð á að draga úr sjónmengun og jarðraski virkjana á háhitasvæðum en að áhrifin séu engu að síður miklu, miklu víðtækari. Efnamenguninn sé í raun alvarlegust og erfiðust til langs tíma litið - bæði lofttegundir sem eru í jarðgufunni og fara út í andrúmsloftið og eins ýmis efni í vatninu sem geta blandast yfirborðsvatni eða skemmt grunnvatn. Þetta er fyrir utan hljóðmengun og margt, margt fleira. Hrein orka???
Í þessu sambandi minni ég á Hveragerðispistlana mína tvo frá í apríl, þennan og þennan. Þeir fjalla um brennisteinsvetnismengunina frá jarðhitavirkjununum sem verður gríðarleg og hefur áhrif á alla íbúa suðvesturhornsins, mest þó á Hvergerðinga. Ég minni líka á Spegilsviðtölin í tónspilaranum ofarlega til vinstri á þessari síðu - við Þorstein Jóhannssson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun og Sigurð Þór Sigurðarson, lækni og sérfræðing í öndunar- og umhverfissjúkdómum. Viljum við virkilega að þetta gerist við bæjardyrnar hjá okkur sem búum á suðvesturhorni landsins? (Við erum 2/3 landsmanna, gleymið því ekki. Það eru mörg atkvæði á landsvísu þegar þar að kemur.) Hvað knýr þessa menn áfram við að framkvæma í slíkri blindni? Er eftirsóknin eftir auði og völdum svo siðblind að öllu og öllum - ef ég væri nógu dramatísk segði ég landi og þjóð - sé fórnandi fyrir skyndigróða?
Ýmislegt fleira merkilegt kemur fram í viðtalinu við Stefán. Ég setti það í tónspilarann - það er næstefsta viðtalið - og hvet alla til að hlusta vandlega á það. Þarna talar maður með þekkingu og reynslu sem á engra hagsmuna að gæta.
Annars hef ég verið að lesa lög í dag. Það er leiðinlegasta og tyrfnasta lesning sem hugsast getur - en stundum þarf að gera fleira en gott þykir sagði mamma mín alltaf...
1.10.2009
Sjónarspil eða svikamylla - breytir engu

Ég sé mig knúna til að taka aftur til máls í tilefni af sumum athugasemdunum við færsluna hér á undan, jafnvel þótt ég þurfi að endurtaka bæði það sem ég skrifaði í færslunni, sem og eigin svörum í athugasemdunum þar. Sumir virðast bara ekki lesa það sem á undan er komið, eða skauta svo hratt yfir að kjarninn fer fram hjá þeim og þeir misskilja allt - viljandi eða óviljandi. Þetta málefni er einfaldlega of mikilvægt til að hægt sé að leiða slíkt hjá sér. Ég var búin að skrifa þetta mestallt í athugasemdakerfið en minnug orða bloggvinar míns, Sæmundar Bjarnasonar, sem segir að maður eigi ekki að sólunda löngu máli í athugasemdir heldur nota það frekar í nýja færslu, ætla ég að gera það. Þeir sem lesa þessa færslu þurfa því að lesa þessa fyrst - og allar athugasemdirnar við hana - til að skilja hvað ég er að fara.
Það gladdi mig mjög að sjá og heyra Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, tjá sig um gjörninginn í Helguvík í fréttum aðeins nokkrum klukkustundum eftir að ég setti inn síðustu færslu. Hún kallaði þetta sjónarspil og vafasama stjórnvaldsákvörðun og var varkárari í orðum en ég, en meining okkar var nákvæmlega sú sama. Enn er því von.
Ég finn ekki til með þeim sem vilja virkja og nýta orkuauðlindir, Örvar Þór. Þeim er engin vorkunn nema kannski að því leytinu til að þeir virðast hafa misst af þeirri upplifun sem að mínu mati er nauðsynleg og ómetanleg - að kunna að meta ósnortna náttúru landsins síns, sérstöðu hennar og mikilvægi þess fyrir efnahag, framtíðina og komandi kynslóðir að ganga hægt um gleðinnar stóriðjudyr og gá að sér. Auðvitað þarf alltaf að virkja eitthvað, skynsamleg og hófstillt nýting auðlinda er nauðsynleg. En það sem hefur einkennt virkjanaæði og stóriðjufíkn undanfarinna ára er hve menn einblína á stundarhagsmuni og skyndigróða, sýna fullkomið fyrirhyggjuleysi í framkvæmdum og vanvirðingu við afkomendur okkar. Það á ekki að skilja neitt eftir handa þeim. Því get ég ekki með nokkru móti verið sammála. Þetta er kallað rányrkja þegar auðlindir hafsins eru annars vegar og fordæmt harðlega. Nákvæmlega sama máli gegnir um orkuauðlindirnar.
Stóriðja er ekki, getur ekki verið og má ekki vera eina lausn Íslendinga á byggðavanda. Margt annað kemur til sem þarf að skoða betur áður en stokkið er til og plantað álverum eða olíuhreinsistöðvum í firði og flóa þessa fallega lands. Sjáið bara hvað Hornfirðingar eru að gera! Þeir eru frábærir og hugmyndaríkir.
Í einhverjum athugasemdum er ég kölluð, að því er virðist mér til hnjóðs, "menntakona", "vel lærð á bókina" (eins og það skipti einhverju máli hér) og sögð sýna "menntahroka". Í því sambandi er vert að geta þess að ég er algjörlega ómenntuð. Ekki einu sinni með stúdentspróf. Eina prófgráðan sem ég get státað mig af er próf úr Leiðsöguskóla Íslands þar sem sú ást og aðdáun á náttúru Íslands sem ég hlaut í uppeldi mínu fékk aukinn byr undir báða vængi og gott ef ekki stél líka. Að öðru leyti hefur lífið verið minn skóli og ég endurtek það sem ég sagði í athugasemd minni (nr. 12) við síðustu færslu: "...ég hef enga fordóma gagnvart starfsfólki í neinni atvinnugrein. Ég var alin þannig upp að það sé sama hvað fólk gerir - ef það er heiðarlegt og sinnir sínu af alúð og samviskusemi." Ég hef haft þann boðskap foreldra minna í heiðri hingað til og hyggst gera hér eftir." Ég endurtek líka, að ég sagði að ég þekkti engan sem langaði að vinna í álveri. Það þýðir síður en svo að enginn vilji gera það - aðeins að ég væri ókunnug þeim sem hefðu þær hugmyndir um framtíðina. Sjálf hef ég aldrei verið hálaunakona. Útgjöldin sem fylgja aukinni þenslu, vaxtaokri og verðbólgu, m.a. vegna stóriðjuframkvæmda, eru að sliga mig. En ég hafna því algjörlega að fórna náttúrunni til að ég geti fengið nokkrum krónum meira í budduna, keypt mér nýrri bíl eða farið í fleiri utanlandsferðir. Mér finnst það einfaldlega ekki þess virði og ég vil skila landinu eins ósnortnu og gjöfulu og frekast er unnt til komandi kynslóða.
Þorsteinn Valur talar um "sovét hugsun" um stofnun og rekstur fyrirtækja og að Norðurál starfi samkvæmt lögum og sé frjálst að hefja framkvæmdir og eitthvað fleira sem ég fæ ekki almennilegt samhengi í. Þorsteinn Valur virðist ekki átta sig á því frekar en Árni Árnason, að álver í Helguvík er alls ekki einkamál Reyknesinga, Suðunesjamanna eða erlendra auðhringa sem vilja græða meiri peninga. Síður en svo. Því til stuðnings vísa ég í færsluna sjálfa og svör mín í athugasemdakerfinu - og reyndar athugasemdir annarra s.s. Eggerts Vébjörnssonar og Gunnars Jónssonar - þar sem bent er á að tengdar framkvæmdir og neikvæðar afleiðingar þeirra snerta hvorki meira né minna en 2/3 landsmanna, íbúa alls suðvesturlands. Meðal annars þess vegna er svo mikilvægt að fram fari umhverfismat á öllum tengdum framkvæmdum sem einni heild eins og ég minnist á í færslunni. Þess vegna lagði Landvernd fram kæru sem á eftir að úrskurða um og þess vegna átti Árni Sigfússon að bíða þess úrskurðar en ekki að einblína á eigin pólitíska framtíð. Þess í stað kjósa álverssinnar á Suðurnesjum að ana út í óvissuna, sannfærðir um að þrýstingurinn sem þeir skapa með því nægi til að þagga niður í þeim sem átta sig á óhæfuverkinu.
Það virðist vera einhver lenska um þessar mundir að stóriðjusinnar á landsbyggðinni segi að okkur hér í Reykjavík komi ekkert við það sem þeir eru að bralla í sínum landshlutum. Þeir geti bara gert það sem þeim sýnist og "liðið í 101" eigi ekkert með að hafa skoðanir á því, hvað þá að skipta sér af. Engu að síður fá Reykvíkingar reglulega skilaboð eins og nú síðast frá bæjarráði Fljótsdalshéraðs, þar sem þess er krafist að borgarstjórn heimili uppbyggingu á aðstöðu við Reykjavíkurflugvöll því Reykjavík sé fyrir landsmenn alla. Ég efast reyndar um að landsbyggðarfólk átti sig á álaginu sem fylgir því að hafa flugvélagný yfir höfðinu daga og nætur inni í miðri íbúðabyggð, en það er önnur saga.
Ég er alin upp við mikla ást og aðdáun á Íslandi og móðir mín þreyttist aldrei á að tala um hve heppin við værum að vera Íslendingar, eiga þetta dásamlega land með hreinu lofti, tæru vatni og óviðjafnanlegri náttúru. Aldrei vottaði fyrir þeirri hugsun hjá henni að einn landshluti væri betri eða fallegri en annar, þótt sterkustu taugarnar væru til Vestfjarða þar sem hún fæddist og ólst upp. Þangað var farið á hverju ári og auk þess í a.m.k. eina eða tvær hálendisferðir á sumri með Ferðafélagi Íslands. Þessa hugsun hlaut ég í arf og er mjög þakklát fyrir. Ég hrekk í kút og mér sárnar þegar því er slengt framan í mig að mér komi ekki við þegar Austfirðingar, Vestfirðingar, Norðlendingar eða Reyknesingar ætla að leggja dásamlega náttúru Íslands í rúst til að reisa eiturspúandi verksmiðjur í fallegum fjörðum í þágu erlendrar stóriðju. Í mínum huga er Ísland okkar allra, rétt eins og Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna eins og bæjarráð Fljótsdalshéraðs bendir réttilega á. Við höfum öll ástæðu og leyfi til að hafa skoðanir á því hvað gert er við landið og náttúru þess, við eigum þar öll hagsmuna að gæta.
Misvitrir stjórnmálamenn hafa í gegnum tíðina att landshlutunum hverjum gegn öðrum með eigin hagsmuni í huga, meðal annars í krafti misvægis atkvæða í kosningum. Nýjasta dæmi um slíkt er t.d. sú ákvörðun að í kjölfar Héðinsfjarðarganga skuli byrjað á Vaðlaheiðargöngum. Með fullri virðingu fyrir Norðlendingum hefði ég heldur kosið að þeim peningum væri varið í uppbyggingu samgangna á sunnanverðum Vestfjörðum og íbúum þar gert kleift að ferðast á milli norður- og suðurhluta kjálkans svo þeir geti orðið eitt atvinnusvæði. En mönnum virðist svo tamt að hugsa bara um naflann á sjálfum sér og telja hann miðju alheimsins en gleyma því að aðgerðir þeirra hafa áhrif á ótalmarga utan þeirrar miðju - oftar en ekki alla landsmenn á einn eða annan hátt.
1.10.2009
Svikamyllan á Suðurnesjum
Það er hreint með ólíkindum að hlusta á málflutning Árna Sigfússonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, þessa dagana og vikurnar. Hann slær um sig með stórkarlalegum yfirlýsingum um fyrirhugað álver í Helguvík, framkvæmdaleyfi, útboð og fleira án þess að nokkur innistæða sé fyrir kokhreystinni. Það vantar bara upp á að sjá hann með skóflu í hönd að taka fyrstu stunguna með glott á vör.
Staðreyndin er nefnilega sú að lausir endar eru enn svo margir og svo gríðarlega mikilvægir, að það er fullkomið ábyrgðarleysi og sóun á skattpeningum íbúa Reykjanesbæjar og Garðs að stinga skóflu í svörð eins og staðan er. Þótt Árni segi þeim ekkert að vanbúnaði að hefja framkvæmdir er sannleikurinn engu að síður sá, að enn sem komið er hlýtur framkvæmdin að teljast fullkomlega óraunhæf. Stundum er sagt að hlutirnir séu "talaðir niður" en í þessu tilfelli er verið að "tala upp", þ.e. láta líta út eins og allt sé í lagi þótt álversmenn á Suðurnesjum séu með allt niðrum sig.
Lítum nánar á málið.
Í fréttum í gær kom fram að búið væri að samþykkja nauðsynlegt deiliskipulag, bæði í Garði og Reykjanesbæ, til að framkvæmdir gætu hafist við að reisa álverið í Helguvík. Gott og vel. En varla er nú skynsamlegt að reisa álver án þess að hafa tryggt sér tilskylda orku. Til að hægt sé að reka skepnuna þarf gríðarlega mikla orku og hana þarf að flytja frá viðkomandi virkjunum. Ekki nema lítið brot af nauðsynlegri orku fæst úr virkjunum á Reykjanesi. Af þeim 260 MW sem talin eru upp í töflu Skipulagsstofnunar um "líklegustu virkjunarkosti Hitaveitu Suðurnesja" eru líklega að minnsta kosti um 115 MW óraunhæf sökum umdeildra orkuflutninga og/eða andstöðu við markmið Suðurlinda, sem er að nýta orkuna heima í héraði. Raunhæf orkuöflun í héraði er því í besta falli 145 MW - en til að keyra skrímslið þarf 435 MW. Eftir er þá að afla 290 MW - sem er nákvæmlega tvöfalt það magn sem Reyknesingar geta sjálfir skenkt sér í álverið.
Álversfíklar Suðurnesja hyggjast þá leita á náðir Reykvíkinga með orkuöflun og þiggja orku frá Orkuveitu Reykjavíkur, einkum úr virkjunum sem hvorki er búið að veita leyfi fyrir né byrjað að reisa. Þar er fyrst að nefna Bitruvirkjun sem rísa myndi á Ölkelduhálsi, skammt fyrir norðan Hellisheiði. Gríðarleg andstaða er gegn þeirri virkjun, bæði meðal almennings, fjölmargra borgarfulltrúa í Reykjavík og þingmanna. Ölkelduháls og umhverfi hans er náttúruperla sem væri glæpur að hrófla við. Í því sambandi er vert að nefna, að í viðtali í 24 stundum 16. febrúar sl. sagði Ásta Þorleifsdóttir, varaformaður stjórnar OR: "Ég mun ekki styðja neitt sem ógnar Ölkelduhálsi og Klambragili og þessum mjög svo mikilvægu útivistar- og fræðslusvæðum." Á forsíðu Fréttablaðsins 22. febrúar sl. sagði forstjóri OR að fyrirtækið selji ansi mikla orku til álvera og ekki sé heppilegt að hafa öll eggin í sömu körfu. Í áformum Norðuráls er gengið út frá því, að 175 MW fáist frá OR en aðeins hefur verið samið um 100 MW. Ef marka má orð forstjóra OR verður ekki samið um meira á þeim bænum.
Gríðarlega umdeildir orkuflutningar í gegnum mörg sveitarfélög gera alla orku á Hengilssvæðinu að óraunhæfum valkosti fyrir álver í Helguvík. Mörg þessara sveitarfélaga hafa þegar lýst því yfir að engar háspennulínur verði lagðar í þeirra landi.
Ég hef áður skrifað um þann reginmisskilning sem sífellt er hamrað á, að jarðgufu- eða jarðvarmavirkjanir séu hrein og mengunarlaus orkuöflun. Nú þegar hefur brennisteinsvetnismengun frá Hellisheiðarvirkjun einni farið yfir hættumörk á höfuðborgarsvæðinu. Verði af fleiri virkjunum á Hengilssvæðinu og Hellisheiði eykst sú mengun til mikilla muna. Fram hefur komið, m.a. í Speglinum á Rás 1 þann 7. nóvember sl. að ef Bitru- og Hverahlíðarvirkjanir bætist við verði losun brennisteinsvetnis frá þessum þremur virkjunum orðin ríflega FIMMFALT meiri en öll náttúruleg losun brennisteinsvetnis frá jarðvarmasvæðum landsins. Langtímaáhrif á heilsu fólks eru ekki þekkt svo þarna væri rennt staurblint í sjóinn og jafnvel tekin óviðunandi áhætta með líf og heilsu íbúa á suðvesturhorni landsins.
Í þessum sama Spegli, þar sem rætt er við Þorstein Jóhannsson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun, kemur einnig fram að óæskilegt sé að beina ferðafólki inn á þessi svæði ef virkjanirnar verða að veruleika. Þorsteinn segir að þessi mikla losun brennisteinsvetnis fari ekki saman við ferðamennsku með tilliti til mögulegra áhrifa á heilsufar fólks. Og sama er sagt gilda um náttúruna og fólkið - langtímaáhrif mengunarinnar eru ekki kunn. Þetta ættu að vera fullkomlega nægjanleg rök gegn þeirri fullyrðingu virkjana- og álversfíkla að allt sé þetta nú gert í fullri sátt við umhverfið, því hvað er umhverfi annað en náttúran og fólkið sem vill njóta hennar?
Sem sagt - Árni Sigfússon og félagar ætla samt að byrja að reisa álver og æða áfram með frekju og yfirgangi, enda þótt þeir séu langt í frá búnir að tryggja sér þá orku sem til þarf til að reka það. Væntanlega er þeim líka slétt sama um þótt þeir stefni mögulega heilsu ríflega helmings landsmanna í hættu með brennisteinsvetnismengun og leggi ósnortnar náttúruperlur í rúst. Í mínum huga heitir þetta glæpsamlegt athæfi óforsjálla manna, sem eins og sannir fíklar hugsa ekki um neitt nema fix dagsins í dag og skyndigróðann á kostnað bæði okkar og komandi kynslóða.
Árni Sigfússon hefur oft lýst því yfir í fjölmiðlum að álver í Helguvík sé lífsspursmál fyrir Suðurnesjamenn því það vanti svo sárlega störf eftir að herinn fór. Þetta er bull sem mjög auðvelt er að hrekja. Atvinnuleysi á Suðurnesjum er í lágmarki og þar, eins og á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið flutt inn erlent vinnuafl í stórum stíl því heimamenn anna ekki þeim störfum sem í boði eru. Fram kom í frétt 4. mars sl. að samkvæmt samantekt Hagstofunnar hafi íbúum fjölgað mest á Suðurnesjum af öllum landshlutum í fyrra. Ekki bendir það beinlínis til að erfitt sé að fá vinnu við hæfi á svæðinu. Það er nóg annað um að vera á Suðurnesjum. Eins og fram kom í grein eftir Berg Sigurðsson, framkvæmdastjóra Landverndar, í Morgunblaðinu 23. febrúar sl. drýpur smjör af hverju strái á Suðurnesjum. Hann nefnir t.d. 200 störf tengd nýju hóteli við Bláa lónið, 90 störf við fyrirhugaða kísilverksmiðju, nokkur hundruð störf til að þjónusta hið nýja háskólasamfélag á flugvallarsvæðinu, 150 störf við netþjónabú auk 60-70 nýrra starfa á ári í tengslum við aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli. Bergur telur að fjöldi þessara starfa samsvari starfsmannafjölda u.þ.b. þriggja ávera.
Árni hefur nú gert sér grein fyrir því að hjalið um skort á störfum og atvinnuleysi er ósannfærandi þvættingur. Hann veit sem er að ekki þýðir að ljúga þessu lengur og er nýlega búinn að skipta um plötu á fóninum. Nú heitir þetta "að skapa vel launuð störf", eins og hann sagði í viðtali í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær. Aldrei hef ég heyrt minnst á að almennt starfsfólk álvera sé hátekjufólk. Það er að minnsta kosti ekki talið upp með skattakóngum og -drottningum landsins. Ja... kannski forstjórarnir. Aukið menntunarstig íslensku þjóðarinnar hefur aukinheldur leitt til þess að fæstir geta hugsað sér að eyða vinnuævinni í álveri, hvað þá að þar sé framtíð barna okkar og barnabarna.
Hverjir halda menn að starfi við að reisa álverin og virkjanirnar? Eru það vel launuðu störfin handa Suðurnesjamönnum og öðrum Íslendingum? Ef marka má framkvæmdir undanfarinna ára verða fluttir inn erlendir farandverkamenn í þúsundatali til að vinna við byggingarframkvæmdirnar við misjafnar undirtektir heimamanna. Þessir verkamenn búa við óviðunandi aðbúnað eins og margoft hefur komið fram, þar sem þeim er hrúgað saman í hesthús eða iðnaðarhúsnæði eins og sauðfé og ekki hirt um annað en að kreista út úr þeim sem mesta vinnu fyrir ómannsæmandi laun. Þetta er ekkert annað en nútíma þrælahald sem við ættum að skammast okkar fyrir.
Ég gæti haldið endalaust áfram að tína til alls konar atriði sem hanga í lausu lofti og eru ókláruð en VERÐA að vera í lagi áður en hafist er handa við að reisa álver í Helguvík. Umhverfisráðherra á til dæmis eftir að úrskurða um kæru Landverndar þar sem farið er fram á heildstætt umhverfismat á áhrifum álvers í Helguvík. Þetta þýðir einfaldlega að Landvernd fer fram á að öll framkvæmdin verði metin í einu lagi - allar tengdar framkvæmdir metnar sem ein heild - virkjanir, raflínur og álver. Slíkt heildarmat ætti vitaskuld að vera sjálfsagt og eðlilegt, því allt hangir þetta saman og myndar órjúfanlega heild.
Norðurál hefur ekki fengið úthlutað mengunarkvóta eða losunarheimild fyrir álver í Helguvík, við eigum hann ekki aflögu. Nóg mengum við samt og erum næstum búin með kvótann sem okkur er heimilaður. Getur "hreina, græna Ísland" vera þekkt fyrir að menga andrúmsloftið svo gríðarlega að það þurfi að kaupa mengunarkvóta til viðbótar við þann sem við höfum? Hvaða áhrif ætli það hefði á sívaxandi ferðaþjónustu sem dælir peningum inn í þjóðarbúið?
Annan álíka pistil mætti skrifa um efnahagsleg áhrif framkvæmdarinnar. Um þann þátt berast mjög misvísandi skilaboð þar sem ljóst er að stóriðjusinnar ætla að tala yfir okkur kreppu - ef ekki verði reist nokkur álver og helst olíuhreinsistöð líka. Sú hlið á málinu er rannsóknarefni út af fyrir sig sem ég fer ekki út í hér.
Niðurstaða:
Starfsleyfi fyrir álver í Helguvík liggur ekki fyrir. Breytt skipulag allra þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli liggur ekki fyrir. Leyfi þeirra til orkuflutnings og lagningar háspennulína liggur ekki fyrir. Losunarheimild liggur ekki fyrir. Starfa við álver er ekki þörf, hvorki við byggingu né rekstur. Úrskurður um umhverfismat virkjana og heildarmat álversframkvæmda liggur ekki fyrir. Æðibunugangur Árna Sigfússonar og Norðuráls er óskiljanlegur í ljósi þess að nánast ekkert af því sem til þarf er í höfn. Menn eru með allt niðrum sig, næstum allt er óklárt. Hver er þá tilgangurinn með þessu háværa gaspri? Af hverju láta fréttamenn Árna komast upp með bullið án þess að upplýsa sannleikann um á hve miklum brauðfótum yfirlýsingagleðin stendur? Hér er verið að blekkja almenning á svívirðilegan hátt, láta fólk halda að allt sé klárt, ekkert til fyrirstöðu, bara kýla á þetta þótt engin nauðsynleg leyfi eða heimildir séu fyrir hendi. Svo þegar byrjað er að framkvæma verður sagt: "Það er of seint að snúa við!" Þá verður beitt óbærilegum þrýstingi til að fá hlutina í gegn og helst á hraða ljóssins sem gerir öðrum hagsmunaaðilum ókleift að láta rödd sína heyrast í öllum gauraganginum. Ef orðið "stjórnsýsluofbeldi" er til á það prýðilega við hér.
Er það þetta sem kallað er "klækjastjórnmál"? Ég veit það ekki, en hitt veit ég að það er óbærileg skítalykt af þessu máli. Það er blekkingarleikur og svikamylla í gangi á Suðurnesjum.
Hér fyrir neðan er samkomulag það, sem Orkuveita Reykjavíkur og Sveitarfélagið Ölfus gerðu með sér í apríl 2006 þar sem OR kaupir blygðunarlaust samvinnu sveitarstjórnar og loforð þess efnis að framkvæmdaleyfi verði veitt fyrir virkjunum og greitt fyrir flýtimeðferð gegn því að OR kosti ýmsar framkvæmdir í Ölfusi. Samkomulagið er gert löngu áður en lögbundið ferli hófst við umhverfismat og breytingu aðalskipulags sem krafist er við svona miklar framkvæmdir, svo ekki sé minnst á hvað þær eru umdeildar.
Samkomulagið er metið á 500 milljónir króna sem eru greiddar úr vasa Reykvíkinga - þeir eiga jú Orkuveitu Reykjavíkur. Ekki lækka orkureikningar þeirra við það. Matsupphæðin er fengin úr fundargerð Sveitarfélagsins Ölfuss sem sjá má hér undir lið g.
Í viðtali í kvöldfréttum Sjónvarpsins 1. desember sl. gagnrýndi Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, sveitarstjórnir harðlega fyrir að taka ekki nægilegt tillit til náttúruverndarsjónarmiða við skipulagsákvarðanir. Hún sagði jafnframt að náttúrunni væri of oft fórnað fyrir atvinnusjónarmið. Orðrétt sagði Þórunn einnig: "Ég fæ ekki séð hvernig fyrirtæki, hvort sem það er ríkisfyrirtæki eða annað, geti lofað þjónustubótum sem eru í raun á hendi ríkisins."
Samkomulag OR og Ölfuss er nákvæmlega svona. Þarna er opinbert fyrirtæki í eigu Reykvíkinga að lofa sveitarfélagi ljósleiðara, uppgræðslu, hesthúsum, raflýsingu á þjóðvegum og fleiru og fleiru til að horft verði fram hjá skaðsemi framkvæmdanna og öllu ferlinu flýtt eins og kostur er.
Nú þegar hefur verið bent á gríðarlega lyktarmengun sem hljótast mun af þessu virkjanaæði. Ólíft getur orðið í Hveragerði 70 daga á ári. Reykvíkingar hafa nú þegar fundið fyrir töluverðri lyktarmengun og magn brennisteinsvetnis í mælingum við Grensásveg hefur farið yfir hættumörk þótt enn sé aðeins búið að reisa tvær virkjanir af fimm eða sex fyrirhuguðum. Virkjanirnar endast ekki nema í 40 ár, nýting þeirra einungis 12-15% þannig að 85-88% fer til spillis og aðeins er fyrirhugað að framleiða rafmagn, ekki heitt vatn til húshitunar eða annarra verkefna. Þetta eru því jarðgufuvirkjanir, ekki jarðvarmavirkjanir.
En hér er samkomulagið - dæmið sjálf hvort þetta séu siðlausar mútur eða eðlileg meðferð á fjármunum Reykvíkinga. Ég ætla að taka fyrir einstakar greinar í seinni færslum og kryfja þær nánar. Allar frekari upplýsingar, studdar gögnum, væru vel þegnar.
Samkomulag milli Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagsins Ölfuss um ýmis mál sem tengjast virkjun á Hellisheiði
1. grein
Orkuveita Reykjavíkur er að reisa fyrsta áfanga Hellisheiðarvirkjunar og stefnir að enn frekari uppbyggingu orkuvera á Hellisheiði og Hengilssvæðinu. Um er að ræða framkvæmdir vegna stækkunar virkjunar og framkvæmdir vegna nýrra virkjana til raforku- og varmaframleiðslu. Fyrirséð eru mannvirki tengd vélbúnaði og stjórnstöð, borteigar, safnæðar, skiljustöðvar, aðveituæðar, kæliturnar og önnur mannvirki aukist á svæðinu. Framkvæmdin felur í sér vinnslu jarðhita, vegi, borholur, vatnsöflun, gufuveitu, stöðvarhús, kæliturna, niðurrennslisveitu og efnistökusvæði. Framkvæmdatími getur numið allt að 30 árum og stærð virkjana orðið samtals um 600 - 700 MW.
2. grein
Bæjarstjórn Ölfuss veitir framkvæmdaleyfi og greiðir fyrir skipulagsmálum eins hratt og unnt er vegna umræddra framkvæmda enda byggi þær á lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrir hvern áfanga og viðkomandi verkþætti. Orkuveita Reykjavíkur greiðir Sveitarfélaginu Ölfuss skv. 11. grein fyrir aukið álag og vinnu sem framkvæmdirnar kalla á hjá sveitarfélaginu. Þetta gerir sveitarfélaginu kleift að hraða öllum umsögnum og leyfisveitingum sem þörf er á.
3. grein
Orkuveita Reykjavíkur sér um og ber allan kostnað af hugsanlegum málaferlum og skaðabótakröfum sem rekstur og framkvæmdir tengdar Orkuveitu Reykjavíkur leiða til, sama hvaða nafni þær nefnast. Þetta á einnig við um hugsanleg skaðabótamál á hendur Sveitarfélaginu Ölfuss sem rekja má til virkjunarframkvæmda og orkuvera á Hellisheiði.
4. grein
Aðilar eru sammála um að sérstök ráðgjafanefnd sem skipuð verði um uppgræðsluverkefni skili tillögum til beggja aðila um uppgræðslu í Sveitarfélaginu Ölfusi. Ráðgjafanefndin verði skipuð þremur aðilum, einum frá Orkuveitu Reykjavíkur, einum frá Sveitarfélaginu Ölfusi og aðilar koma sér saman um einn fulltrúa eftir nánara samkomulagi. Fulltrúi Sveitarfélagsins Ölfuss verður formaður nefndarinnar. Um er að ræða uppgræðsluverkefni í sveitarfélaginu, til að mæta bæði því raski sem verður vegna virkjana og til almennra landbóta. Miðað er við að Orkuveita Reykjavíkur verji til þessa verkefnis 12,5 milljónum á ári fram til 2012. Þá verði leitast við að fá fleiri aðila að verkinu. Þá mun Orkuveita Reykjavíkur leggja að auki til starf unglinga til landbóta í sveitarfélaginu. Haft verður í huga í landgræðsluverkefnunum að vinna gegn losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi.
5. grein
Vegna framkvæmda Orkuveitu Reykjavíkur tekur hún að sér að byggja upp nýja fjárrétt og hesthús við Húsmúla sem notuð er til smölunar á afrétti Ölfusinga skv. fyrirliggjandi teikningum. Orkuveita Reykjavíkur mun annast viðhald þessara mannvirkja. Þessi aðstaða nýtist fyrir ferðamennsku á svæðinu í annan tíma. Þá sér Orkuveita Reykjavíkur um að byggja upp og lagfæra það sem snýr að smölun og afréttarmálum sem virkjunarframkvæmdirnar hafa áhrif á. Miða skal að 1. áfanga verksins þ.e.a.s. bygging fjárréttar, verði lokið fyrir göngur haustið 2006.
6. grein
Orkuveita Reykjavíkur gerir Sveitarfélaginu Ölfuss tilboð í lýsingu vegarins um Þrengsli, frá Suðurlandsvegi í Þorlákshöfn fyrir 14 milljónir á ári (verðtryggt með neysluvísitölu, janúar 2007). Innifalið er lýsing á veginum með ljósum sem eru með 50 m millibili, allur fjármagnskostnaður, orka og viðhald er innifalið í tilboðinu. Fylgt verður kröfum og reglum Vegagerðarinnar. Verkinu verði lokið á árinu 2006 að því tilskyldu að öll leyfi liggi tímanlega fyrir.
7. grein
Orkuveita Reykjavíkur mun greiða Sveitarfélaginu Ölfuss fyrir jarðhitaréttindi í afréttinum á Hellisheiði samkvæmt sömu reglum og notaðar voru við önnur landa- og réttinda kaup af landeigendum í Ölfusi. Þetta verður gert ef og þegar óbyggðanefnd eða eftir atvikum dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að afrétturinn sé fullkomið eignarland sveitarfélagsins, allur eða að hluta. Náist ekki samkomulag um bætur skal úr skorið af 3 manna gerðardómi þar sem hvor aðili skipar einn mann en oddamaður verði tilnefndur af sýslumanni Árnessýslu.
8. grein
Verði niðurstaða óbyggðanefndar, eftir atvikum dómstóla, sú að afrétturinn allur eða að hluta sé þjóðlenda mun Orkuveita Reykjavíkur bæta tjón vegna jarðrasks, missi beitilanda, umferðarréttar, og röskunar á afréttinum eftir nánara samkomulagi. Náist ekki samkomulag um bætur skal úr skorið af þriggja manna gerðardómi þar sem hvor aðili um sig skipi einn mann en oddamaður verði tilnefndur af sýslumanni Árnessýslu.
9. grein
Á árinu 2008 hafi Orkuveita Reykjavíkur lokið lagningu ljósleiðara um þéttbýli í Þorlákshöfn og fyrir árið 2012 verði lagningu ljósleiðara lokið um aðgengilegan hluta dreifbýlis Ölfuss skv. nánara samkomulagi er liggi fyrir áramót 2006/2007.
10. grein
Kannað verði til hlítar hvort aðkoma Orkuveitu Reykjavíkur að Sunnan 3 sé áhugaverður kostur fyrir verkefnið og þá aðila sem að verkefninu standa. Markmið verkefnisins er að nota rafrænar lausnir til að efla búsetuskilyrði á svæðinu.
11. grein
Aðilar eru sammála um að bæjarstjórn Ölfuss þurfi að fylgjast með reglubundnum hætti með virkjunarframkvæmdum innan sveitarfélagsins m.a. til að geta svarað spurningum sem upp kunna að koma og beint verður til bæjarstjórnar. Í þessu skyni koma aðilar sér saman um að halda reglulega fundi á framkvæmdatíma, allt að 4 fundum á ári, þar sem m.a. verður farið í skoðunarferðir um vinnusvæðið. Aðilum er ennfremur ljóst að umsvif og álag á bæjarstjórn og bæjarstjóra Ölfuss mun fyrirsjáanlega aukast meðan framkvæmdir við virkjanir á Hengilssvæðinu standa yfir í sveitarfélaginu. Samkomulag er um að Orkuveita Reykjavíkur greiði Sveitarfélaginu Ölfusi fyrir þann kostnað sem af þessu hlýst með fastri heildargreiðslu, kr. 7,5 milljónir á ári árin 2006 til 2012, 1. september ár hvert. Þessar greiðslur verða notaðar til að kappkosta við að afgreiðsla umsagna og leyfa verði eins hröð og hægt er.
Ölfusi 28. apríl 2006
Ég kref Orkuveitu Reykjavíkur svara við því, hvernig hún telur sig þess umkomna að gefa Sveitarfélaginu Ölfusi 500 milljónir - hálfan milljarð - af peningum Reykvíkinga. Orkuveita Reykjavíkur er opinbert fyrirtæki í eigu útsvarsgreiðenda í Reykjavík og þeir eiga heimtingu á að fá skýr svör frá OR.
Svo væri einnig mjög fróðlegt að vita nákvæmlega í hvað gjafaféð sem þegar hefur verið reitt af hendi hefur farið. Það þykir mér forvitnilegt og nú stendur upp á sveitarstjórn Ölfuss að gefa nákvæmar skýringar á hverri einustu krónu.
Eins og fram kom í einni af fyrri færslum mínum er meirihlutinn í Sveitarstjórn Ölfuss skipaður 4 einstaklingum sem hafa alls 495 atkvæði á bak við sig. Athugasemdir við og mótmæli gegn fyrirhugaðri Bitruvirkjun voru rétt um 700. Ef allt er talið snertir ákvörðunin um virkjanir á Hellisheiði og Hengilssvæðinu um það bil 200.000 manns beint í formi spilltrar náttúru, lyktar-, loft- og sjónmengunar og alla landsmenn í formi ofurþenslu, verðbólgu og vaxtahækkana.
Ég lýsi eftir lýðræðinu í þessum gjörningi.
Spilling og siðferði | Breytt s.d. kl. 21:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.9.2009
Úr útivistarsvæði í iðnaðarsvæði?
Petra Mazetti, upphafsmaður Hengilssíðunnar sem beint er gegn Bitruvirkjun haustið 2007 og sem er enn á fullu í baráttunni, bjó til þetta plakat hér fyrir neðan með aðstoð okkar hinna. Við létum prenta nokkur þúsund eintök og sendum í pósti inn á heimili allra íbúa í Sveitarfélaginu Ölfusi og Hveragerði. Helst hefðum við viljað senda það inn á heimili allra landsmanna en höfðum ekki efni á því. Þetta kemur okkur öllum við og allir, hvar sem þeir búa á landinu, geta sent inn athugasemd!
Mig langar að biðja lesendur að láta plakatið ganga - hvort sem er að senda slóðina að þessari færslu, benda á hana í bloggum, setja hana á Facebook eða vista plakatið, birta það hjá sér, senda það áfram í tölvupósti eða á annan hátt. Smellið til að stækka.
Spilling og siðferði | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2009