Færsluflokkur: Spilling og siðferði

Látum ekki stela frá okkur landinu!

Ég skrifaði mína fyrstu bloggfærslu hér 1. nóvember 2007 með þessari sömu fyrirsögn. Bloggfærslan leit svona út og er líklega sú stysta sem ég hef skrifað. Og ég kunni ekki þá allt sem ég kann nú og nota í blogginu.:

1.11.2007

Látum ekki stela frá okkur landinu!

Kynnið ykkur fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir á Hengilssvæðinu og takið afstöðu.
www.hengill.nu

*******************************************

Ég byrjaði að blogga gagngert til að vekja athygli á þeirri tilgangslausu eyðileggingu á undursamlegri náttúru sem fyrirhuguð var - og er - með því að reisa gufuaflsvirkjun á Ölkelduhálsi, Bitruvirkjun. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og umbylting orðið í þjóðfélaginu - en ekkert hefur breyst hvað þetta mál varðar. Við vorum fjögur sem ýttum úr vör, höfðum öflugt bakland og fyrr en varði vatt þetta allt upp á sig svo um munaði. Baráttan gegn Bitruvirkjun varð öflug og ótalmargir tóku virkan þátt í henni á ýmsan hátt. Fjöldi fólks hefur farið um þær slóðir sem yrðu lagðar í rúst og mega ekki til þess hugsa. Í tvígang slógum við athugasemdamet. Fyrst í nóvember 2007 með athugasemdum við mat á umhverfisáhrifum og síðan í maí 2008 með athugasemdum við breytingu á deiliskipulagi þar sem óspjallaðri náttúru, að hluta til á náttúruminjaskrá, átti að breyta í iðnaðarsvæði. Skoðið myndirnar hér og hér.

Skipulagsstofnun sendi frá sér álit á fyrirhuguðum framkvæmdum 19. maí 2008. Þar sagði m.a.: "Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að bygging Bitruvirkjunar sé ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Um er að ræða lítt snortið, fjölsótt útivistarsvæði í nágrenni þéttbýlis/höfuðborgarsvæðisins og býr svæðið yfir stórbrotnu landslagi sem m.a. einkennist af fjölbreyttri hveravirkni. Fyrirhuguð Bitruvirkjun myndi breyta landslagsásýnd þessa lítt raskaða svæðis í ásýnd iðnaðarsvæðis."

Í framhaldi af þessu áliti Skipulagsstofnunar var fyrirhugaðri virkjun frestað um óákveðinn tíma af hálfu Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagið Ölfus sló skipulagsbreytingum á frest. Hér er stiklað á stóru um baráttuna gegn Bitruvirkjun 2007-2008:

Mér finnst allt of lítið gert af því að skoða og fjalla um fórnirnar sem færðar eru fyrir nokkra kerskála sem kallaðir eru álver. Hvað þarf til að keyra risaálver eins og fyrirhugað er að reisa í Helguvík. Og sem sumir vilja reisa á Bakka. Orkusóunina, náttúruspjöllin og fjárfestingar fyrir risastór erlend lán til þess eins að skapa örfá, rándýr störf í álverksmiðju sem flytur gróðann úr landi og borgar litla sem enga skatta. Til að knýja hið öfluga álver sem fyrirhugað er í Helguvík þarf alla fáanlega orku á suðvesturhorni landsins að neðri hluta Þjórsár viðbættum. Varla yrði eitt megavatt eftir í aðra atvinnustarfsemi. Sjáið bara þetta:

Fréttir Stöðvar 2 - 5., 6. og 9. janúar 2009

 

Hvaða vit er í svona nokkru? Það þarf að þurrausa alla orku á þéttbýlasta svæði landsins til að keyra eitt einasta álver! Svo er fólk að láta sig dreyma um gagnaver og alls konar aðra atvinnustarfsemi. Jafnvel bílaflota sem gengur fyrir rafmagni. Gleymið því. Orkan fer öll í álverið - ef af verður.

Næstu daga ætla ég að rifja upp það sem ég skrifaði í áður - því baráttan gegn Bitruvirkjun er hafin aftur. Sveitarfélagið Ölfus auglýsti enn á ný breytingu á skipulagi og rennur athugasemdafrestur út 3. október nk. - á laugardaginn. Brettum upp ermarnar og söfnum liði, gott fólk! Það er skammur tími til stefnu. Þeir sem voru með síðast kannast við ferlið.

Neðst í hverri einustu færslu út vikuna verða viðfestar tillögur að mismunandi athugasemdabréfum sem öllum er frjálst að nota að vild - annaðhvort óbreytt eða með eigin breytingum. Það þarf að prenta athugasemdabréfið út og senda það í pósti á tilgreint heimilisfang. Svo hengi ég líka við stórmerkilega úttekt Björns Pálssonar og Ingibjargar Elsu Björnsdóttur sem þau tóku saman og sendu frá sér í gær.

Úr fyrri baráttu - Fréttir Stöðvar 2 - 12. maí 2008

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Er þetta kóngablæti?

Ég er hér enn sjálf. Geir H. Haarde hefur ekki ennþá tekið við þessari síðu til að skrifa söguútgáfu þeirra Davíðs og ekki vitað hvenær það verður. Ætli ég noti þá ekki tækifærið og birti meira efni eftir sjálfa mig á meðan færi gefst. Skrifa mína eigin sögu.

Íslensk fjallasala - Andrés 1999 - Lesbók Morgunblaðisins 10. apríl 1999

Mér finnst umræðan um ráðningu Davíðs Oddssonar í stól ritstjóra Morgunblaðsins svolítið undarleg. Sumir eru fullir umburðarlyndis og finnst rétt að "gefa honum séns" og "leyfa honum að sanna sig". Sjá lítið sem ekkert athugavert við ráðninguna og segja að Davíð beri ekki einn ábyrgð á hruninu. Líkja henni saman við ráðningu Þorsteins Pálssonar sem ritstjóra Fréttablaðsins. Segja að eigendur Morgunblaðsins ráði því hvern þeir láti ritstýra blaðinu - og svo framvegis. Er aðdáun sumra á Davíð Oddssyni einhvers konar kóngablæti? Arfur frá liðinni tíð? Maður spyr sig...

Íslendingar hafa gefið Davíð Oddssyni sénsa í rúm 30 ár - endalausa sénsa. Hann hefur alltaf þegið laun sín frá skattborgurum. Fyrst sem skrifstofu- og framkvæmdastjóri Sjúkrasamlagsins frá 1976, síðan borgarstjóri, forsætisráðherra, utanríkisráðherra og að lokum seðlabankastjóri. Davíð hefur alltaf stjórnað því sem hann vill og farið fram af hörku. Hann innleiddi hér hræðsluþjóðfélag þar sem mönnum var refsað fyrir að vera ósammála honum, stofnanir lagðar niður ef þær reiknuðu gegn vilja hans, mönnum vísað úr nefndum fyrir smásagnaskrif sem hugnuðust honum ekki. Ótalmargt fleira mætti nefna og lesendur geta bætt við í athugasemdum.

Davíð Oddsson gerði íslenska þjóð ábyrga fyrir innrásinni í Írak 2003 og hörmungunum þar sem ekki sér fyrir endann á ennþá. Það var vægast sagt  umdeildur gjörningur og þar kom Davíð rækilega aftan að þjóðinni. Sumir hafa kallað hann stríðsglæpamann síðan. Þá sem ekki voru sáttir við áframhaldandi þátttöku í svokallaðri "endurhæfingu" Bandaríkjamanna í Írak kallaði Davíð afturhaldskommatitti í frægri ræðu á Alþingi. Þar talaði hann ekki bara niður til eins flokks, heldur stórs hluta þjóðarinnar sem hafði alla tíð verið andsnúinn veru Íslands á stríðslistanum. Það var og er stíll Davíðs að niðurlægja þá sem ekki eru á sömu skoðun og hann, hæðast að þeim og ljúga upp á þá - í þeim tilgangi að upphefja sjálfan sig.

Verjendur Davíðs og verka hans í íslensku samfélagi hamra gjarnan á því að hann sé ekki einn ábyrgur fyrir hruninu. Það er enginn að segja það. Mjög margir eru ábyrgir. En óumdeilanlegt er að Davíð Oddsson lék eitt af aðalhlutverkunum í frjálshyggju- og einkavinavæðingunni, sem og  aðdraganda hrunsins og fyrstu viðbrögðum við því. Sú staðreynd að fleiri voru þar að verki gerir ábyrgð hans engu minni. Að þessu leyti er ógerlegt að bera ráðningu Davíðs til Moggans nú saman við ráðningu Þorsteins Pálssonar til Fréttablaðsins. Þorsteinn var aldrei sami áhrifavaldur og Davíð í íslensku samfélagi og hafði hætt beinum afskiptum af pólitík mörgum árum áður en hann settist í ritstjórastól. Davíð hélt hins vegar bæði FLokknum og þjóðinni í járnkrumlum einvaldsins fram á síðasta dag og harðneitaði að sleppa.

Davíð Oddsson er ekki bara "einhver maður" og Morgunblaðið er ekki bara "eitthvert blað". Þó að til sanns vegar megi færa að eigendur blaðsins "megi ráða og reka þá sem þeim sýnist" er lágmarkskurteisi gagnvart þjóð sem liggur í blóði sínu í ræsi kreppunnar að ráða ekki manninn sem í huga þjóðarinnar er holdgervingur hrunsins. Það er lágmarkskrafa að fjölmiðlar axli samfélagslega ábyrgð og hjálpi þjóðinni að rísa á fætur í stað þess að hleypa í valdastól aftur manni, sem á eftir að henda sprengjum inn í samfélag sem þegar hefur verið sprengt í loft upp.

Við þekkjum Davíð Oddsson. Hann hefur fengið að margsanna sig í 30 ár. Við þekkjum eiturtunguna, ofsann, hrokann, ráðríkið og valdafíknina. Ég sé enga ástæðu til að gefa honum fleiri sénsa til að sanna sig enn frekar. Mig grunar að hlutverk Davíðs sem ritstjóri Morgunblaðsins verði að stýra stríði gegn vilja þjóðarinnar. Stríði gegn endurheimt þjóðarinnar á auðlindum til sjós og lands. Stríði gegn þeim vilja meirihlutans að halda grunnstoðum þjóðfélagsins í þjóðareigu. Enda fjallaði annar leiðari fyrsta blaðsins undir hans stjórn um ágæti einkasjúkrahúsa.

Stríð sjálfstæðismanna er hafið. Það sést á ýmsum vígstöðvum, ekki bara í ráðningu ritstjórans. Látum ekki blekkjast, þeir ætla að ná aftur völdum og við vitum hvað það þýðir. Við erum velflest fórnarlömb þessa fólks. Neitum að kyssa vöndinn.



Draugar og uppvakningar

Í sumar skrifaði ég þennan pistil - Ábyrgð fjölmiðla á umbrotatímum. Einn af mörgum sem ég hef skrifað um fjölmiðla og hlutverk þeirra. Í dag var einn fjölmiðill dæmdur úr leik í heiðarlegri, opinni og hlutlausri umræðu þótt enn séu eflaust fantagóðir blaðamenn eftir á Mogganum. En það er borin von að blaðið geti nokkurn tíma talist trúverðugt í ritstjórn Davíðs. Til þess fortíð hans allt of svört. Í landsfundarpistli í mars tileinkaði ég Davíð þessa gömlu vísu og mér finnst upplagt að bjóða hann velkominn til starfa með henni:

Mín að telja afrek öll
ekki' er nokkur vegur!
Ég hef ístru, ég hef böll
ég er guðdómlegur.

Mér finnst auk þess argasta siðleysi að segja upp mönnum á sjötugsaldri sem hafa alið nánast allan sinn starfsaldur á blaðinu og þjónað því dyggilega. Þeir eiga örfá ár í eftirlaun þegar þeim er sparkað út á guð og gaddinn. Það á að banna slíkt og þvílíkt framferði. Svona gera menn ekki!

Fréttir Stöðvar 2 og RÚV 24. september 2009

 

Óskar Magnússon í Kastljósi 26. febrúar 2009
Þetta sagði hann þá

 

Óskar Magnússon í Kastljósi 24. september 2009
Þetta segir hann nú

 

 Þóra Kristín Ásgeirsdóttir í Kastljósi 24. september 2009

 

Gísli málbein var með vísu dagsins eftir snillinginn K.N.

Góður, betri, bestur,
burtu voru reknir.
Illur, verri, verstur,
aftur voru teknir.

"Þá mun ég snúa aftur," hótaði Davíð 4. desember 2008. Hann stóð við hótunina.

Þá mun ég snúa aftur - Davíð Oddsson - 4.12.08


Dulinn vandi og hjálpartraust

Hér eru tvær góðar greinar með svipuðum skilaboðum: Ekkert hefur breyst. Og það sem verra er - það lítur ekki út fyrir að neitt muni breytast. Hvorki réttlæti né bætt siðferði í augsýn sem er kannski einmitt það sem almenningur á Íslandi þráir hvað heitast. Mér finnst einna sárast við þetta að enn skuli fólk hafa geð í sér til að koma svona fram við samborgara sína. Hvað er hægt að gera?

Þorvaldur Gylfason - Hjálpartraust - Fréttablaðið 24.9.09

Jóhann Hauksson - Dulinn vandi ríkisstjórnarinnar - DV 23.9.09


Mjór er mikils vísir

Ég þekki hann lítið sem ekkert, hef hitt hann tvisvar og þótti mikið til hans koma. Hann sagði sögu sína og ég horfði opinmynnt á hann og trúði varla mínum eigin eyrum. Nú hefur hann tekið til sinna ráða og ég óska honum, litlu fallegu fjölskyldunni hans og öðrum í sömu sporum alls hins besta. Takið eftir honum og baráttu hans. Um leið og við styðjum baráttu hans, styðjum við okkur öll. Samstaða og samheldni eru lykilorðin. Hann hefur nefnilega alveg rétt fyrir sér þegar hann segir að... "Í krafti fjöldans getum við allt."

Áfram Gandri!

Í krafti fjöldans getum við allt - DV 22.9.09

Guðmundur Andri Skúlason í Kastljósi 23. september 2009

 


Raðáfallastreituröskun

Er til eitthvað sem heitir raðáföll? Orðið finn ég að minnsta kosti ekki í orðabók. En íslensk þjóð hefur orðið fyrir hverju áfallinu á fætur öðru undanfarið ár og ósköpunum ætlar ekki að linna. Ef rétt reynist dynur enn eitt áfallið yfir þjóðina einhvern næstu daga. Holdgervingur hrunsins endurborinn. Fjölmargir hafa tjáð sig um málið og það er fróðlegt að sjá hvað sjónarhornin eru margvísleg. Lesið t.d. Illuga, Guðmund, Egil Helga, Björgvin Val, Ómar Ragnars, Andrés og söguskoðun Páls Baldvins. Svo heyrast líka mjóróma raddir eins og þessi en þær virðast vera ansi fáar.

Áfallastreita og áfallastreituröskun er ekkert grín. Þegar eitthvað kemur fyrir fólk er umsvifalaust boðin áfallahjálp. En íslenska þjóðin hefur ekki fengið neina áfallahjálp á þessu ári raðáfalla sem engan enda ætla að taka.

Ég neita að trúa því að Óskar Magnússon dembi enn einu áfallinu yfir þjóðina af fúsum og frjálsum vilja. Ég held að þetta sé eitthvað trix - afsprengi hins sérstaka skopskyns Óskars sem hann er þekktur fyrir. Láta skína í að einn aðalhöfundur og arkitekt hrunsins taki við Mogganum. Hann er að hræða úr fólki líftóruna svo það verði alsælt og dauðfegið þegar rétt nafn á nýja ritstjóranum verður gefið upp og taki honum fagnandi. Er það ekki, Óskar? Enda veit Óskar sem er, að hann ræður engu ef Davíð verður ráðinn ritstjóri. Davíð er ekki vanur því að lúta stjórn annarra.

Verður þetta tónninn í Reykjavíkurbréfunum á næstunni?
Klappliðið og viðhlæjendurnir einu áskrifendurnir?

 

Gunnar, skopmyndateiknari á Fréttablaðinu, hlýtur að vera forspár.
Eða hefur þetta verið svona um ómunatíð!

Davíðsópið - Gunnar - Fréttablaðið 12.12.08


Hvatt til dáða í gróðærinu

Egill sýndi þetta í Silfrinu í gær. Samanklippt pepp og auglýsingar frá gróðærinu. Við verðum að halda þessu öllu til haga og líta á þetta sem víti til varnaðar. Læra af reynslunni. Okkar eigin reynslu.

Fyrsta myndbandið er gert af Samtökum atvinnulífsins og hefur gengið manna á milli á netinu um skeið. Eflaust muna flestir eftir Kaupþingsauglýsingunum sem keyrðar voru gengdarlaust í sjónvarpinu ásamt auðvitað auglýsingum hinna bankanna. Ég hafði ekki séð kynningarmyndaröðina frá Háskólanum í Reykjavík anno 2007. Okkar tími kom - og fór snarlega. Spurning hvort verið sé að kenna unga fólkinu þetta ennþá. Ég setti saman myndirnar í ræmu hér fyrir neðan til glöggvunar. Kaupthinking-myndbandið vakti gríðarlega athygli þegar það komst í umferð um daginn - enda magnað.

Ég hef margoft spurt sjálfa mig hvort fólkið sem tók þátt í þessu hafi vitað hvað það var að gera og hvaða afleiðingar það myndi hafa fyrir íslensku þjóðina. Svarið er yfirleitt það sama: Eflaust ýmsir - en langt í frá allir.

Áróðursmyndbönd í Silfri Egils 20. september 2009

Myndaröðin frá Háskólanum í Reykjavík. Smellið ef þið viljið stækka.

HR-myndasyrpa 2007


Upplýsingar og gagnsæi - lífsnauðsyn

Ein af forsendum þess að unnt verði að gera upp hrunið og takast á við afleiðingarnar er að upplýsingar séu aðgengilegar og gagnsæi í þjóðfélaginu eins og best verður á kosið. Leynd og launung þjónar aðeins þeim sem hafa eitthvað að fela eða eru kannski með eitthvað misjafnt á prjónunum sem ekki má vitnast. Um daginn skrifaði ég pistil - Kerfisbundinn blekkingarvefur? - sagði þar frá hugbúnaði Jóns Jósefs Bjarnasonar og sýndi ótrúlegar tengslamyndir úr honum. Nokkrum dögum seinna var skrúfað fyrir upplýsingar hjá embætti Ríkisskattstjóra. Yfirlýsingar voru gefnar á báða bóga og málið virtist í hnút.

Fjölmiðlar hafa undanfarna daga fjallað mjög um hugbúnað Jóns Jósefs (IT ráðgjöf og hugbúnaðarþjónusta ehf.) sem sýnir tengsl milli eigenda og stjórnarmanna fyrirtækja á Íslandi. Hugbúnaðurinn getur á mjög einfaldan og gagnsæjan hátt teiknað upp eignarhald fyrirtækja á Íslandi. Hann er því mikilvægt tæki til að greina krosseignartengsl, samþjöppun valds, sem var ein af ástæðum bankahrunsins. Það kom því mörgum á óvart þegar lokað var á aðgang Jóns Jósefs að gagnagrunni Fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra sem hugbúnaðurinn byggir á.

Jón Jósef í Kastljósi 14. september 2009

 

Það mál er nú leyst. Eins og fram kom í kvöldfréttum fjölmiðlanna í gær og á vefsíðum þeirra sendi Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, frá sér svohljóðandi fréttatilkynningu undir kvöld:

"Að undanförnu hefur verið til umfjöllunar á opinberum vettvangi ósk forráðamanns IT Ráðgjafar- og hugbúnaðarþjónustu ehf. um að fá aðgang að gagnagrunni fyrirtækjaskrár. Ríkisskattstjóri taldi nauðsynlegt m.t.t. eðli gagnagrunnsins og fyrirhugaðar starfsemi, að afstaða Persónuverndar þyrfti að liggja fyrir.

Nú þegar afstaða Persónuverndar er ljós ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að forráðamaður hlutaðeigandi félags fái umbeðinn aðgang að uppfylltum viðeigandi öryggis- og formkröfum. Reiknað er með að unnt verði að ganga frá því á næstu dögum og skráin þá gerð aðgengileg.

Þá vill ríkisskattstjóri taka fram að öll verkfæri sem nýst geta eftirlitsaðilum og þar með skattyfirvöldum til að auðvelda störf þeirra og jafnframt við að stuðla að gagnsæi í viðskiptum og til að upplýsa um krosseignatengsl, eru mikils virði."

Hópur fólks sem vinnur að auknu gagnsæi upplýsinga fundaði með Jóni Jósef seinnipartinn í gær og niðurstaðan var sú að fá Skúla á fund með hópnum í gærkvöldi. Skúli skýrði fyrir hópnum þær ástæður sem lágu að baki þess að lokað var fyrir aðgang Jóns Jósefs að Fyrirtækjaskrá sem voru í stuttu máli þær, að embætti ríkisskattstjóra vildi hafa allt á hreinu og sýna ábyrgð. Enginn þrýstingur eða annarlegir hagsmunir hefðu legið þar að baki.

Skúli bað Jón Jósef afsökunar á ummælum sínum í fyrri tilkynningu og áréttaði að Jón Jósef hefði hvorki brotið lög né reglur og ekki gert neitt rangt. Þeir Skúli og Jón Jósef tókust í hendur og sættust heilum sáttum.

Ljóst var af framgöngu ríkisskattstjóra að hann er mjög meðmæltur gagnsæi upplýsinga svo framarlega sem farið er að lögum og mun leggja sitt lóð á vogarskálarnar til þess framvegis. Hann er áhugasamur um gagnagrunn Jóns Jósefs og þeir ætla að funda um framhaldið á mánudag.

Hér handsala þeir Skúli ríkisskattstjóri og Jón Jósef sættir í gærkvöldi.

Skúli Eggert Þórðarson og Jón Jósef Bjarnason handsala sættir - Ljósm.: Lára Hanna Einarsdóttir

Viðbót: Bendi á tvo nýja pistla um gagnsæi eftir Egil Jóhannsson og Hjálmar Gíslason.

Jón Jósef og Egill Jóhannsson í Silfrinu 20. september 2009

 


Ráðherrasamviskan og ábyrgðin

Ráðherrar og aðrir stjórnmálamenn virðast aldrei hafa neitt slæmt á samviskunni. Jafnvel þótt sýnt sé og sannað að samviska þeirra ætti að vera kolsvört. Þeir vita sem er, að pólitísk og siðferðileg ábyrgð tíðkast ekki á Íslandi og þeir eru ósnertanlegir - líka þótt þeir brjóti lög. Í krafti þeirrar vitneskju axla stjórnmálamenn aldrei ábyrgð á gjörðum sínum, sama hve fáránlegar, glannalegar, heimskulegar, hrokafullar og afdrifaríkar þær eru fyrir þjóðina. Þeir fara sínu fram hvað sem tautar og raular. Þessi staðreynd er stór hluti af vanda íslensks samfélags.

Geir H. Haarde var í viðtalsþætti í gærkvöldi sem sýndur var bæði í norska og sænska sjónvarpinu. Hann var með hreina samvisku. Illugi skrifaði kjarnyrtan pistil um málið og ég hef engu við hann að bæta.

Geir H. Haarde hjá Skavlan 18. september 2009

 Birgir Hermannssonum pólitíska ábyrgð í Silfrinu 7. desember 2008

Stutt umfjöllun RÚV um ábyrgð frá 29. desember 2008

Hér er frægt dæmi um alls konar framferði eins ráðherra frá í mars 2008. Augljóst var um hvað málið snerist og hvernig var staðið að því. Ráðherrann reif bara kjaft og sat sem fastast. Neðst í færslunni er viðfest hljóðskrá af Spegilsviðtali við Gunnar Helga Kristinsson, prófessor, þar sem hann segir framkomu ráðherra og aðdróttanir gagnvart Umboðsmanni Alþingis fordæmislausa. Ekkert var aðhafst og gjörningurinn stóð óhagganlegur.

Fréttir Stöðvar 2 og RÚV 27. og 28. mars 2008

Geir H. Haarde var gestaritstjóri (editor) í útvarpsþætti hjá BBC 18. ágúst sl. Það var fróðlegt, en jafnframt svolítið hrollvekjandi að hlusta á hann. Í sama þætti var stutt viðtal við Öldu Sigmundsdóttur, sem bloggar á ensku á Iceland Weather Report vegna einnar bloggfærslu hennar. Hljóðskrá úr þættinum viðfest neðst í færslunni.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skelfilegt sinnuleysi

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Ég veit ekki lengur mitt rjúkandi ráð. Hvernig er hægt að vekja mína ástkæru þjóð af  Þyrnirósarsvefninum? Hvernig er hægt að beina athygli fólks að því, hvernig verið er að fara með landið okkar, auðlindirnar og okkur sjálf - fólkið sem byggir þetta harðbýla en yndislega land? Er fólki virkilega sama? Ég vil ekki trúa því.

Hve margir horfðu á myndina í sjónvarpinu í fyrrakvöld - Afsökunarbeiðni efnahagsböðuls? En hve margir horfðu á myndina Einkavæðing og afleiðingar hennar sem sýnd var á RÚV í lok maí? Innihald þessara mynda passar bara vel við það sem er að gerast á Íslandi.

Ég fæ orðið klígju þegar alls konar spekingar nefna sem lausn á vanda þjóðarinnar: "... að við eigum svo miklar auðlindir". Við þurfum bara að nýta þær og þá er allur okkar vandi leystur. Auðlindum sjávar sé svo vel stjórnað og orkuauðlindirnar endurnýjanlegar og tandurhreinar. Þetta er blekking og þeir sem vita betur hafa ítrekað reynt að koma því á framfæri.

Fiskurinn í sjónum er bókfærð eign kvótakónga og veðsettur upp í rjáfur í erlendum bönkum af því strákana langaði svo að leika sér og kaupa einkaþotur, þyrlur og annan lúxus. Afganginn geyma þeir á leynireikningum í útlöndum og við borgum skuldirnar þeirra. Þó að ákvæði sé í lögum eða stjórnarskrá um að þjóðin eigi auðlindir sjávar er nákvæmlega ekkert að marka það. Nú eru þær í eigu erlendra banka eða erlendra kröfuhafa bankanna. Merkilegt að strákarnir skuli samt fá að halda kvótanum.

Orkuauðlindirnar - sem eru hvorki endurnýjanlegar né tandurhreinar eins og reynt er að telja þjóðinni og útlendingum trú um - er verið að einkavæða og selja frá þjóðinni fyrir slikk. Engu að síður er vitað að verðmæti þeirra getur ekki annað en aukist næstu ár og áratugi. Arðurinn af þeim fer úr landi og almenningur ber æ þyngri byrðar fyrir vikið. Hér á líka við að eignarhald þjóðarinnar á pappírunum er einskis virði ef nýtingarréttur og yfirráð eru í höndum einkaaðila.

John Perkins, fyrrverandi efnahagsböðull og aðalpersóna myndarinnar í fyrrakvöld, varaði okkur við. Hann sagði að þetta snerist allt um auðlindir. Hann sagði líka þetta: "Andstaðan verður að koma frá fólkinu. Við getum ekki búist við að leiðtogarnir búi yfir kjarki eða getu til að koma á breytingum nema við, fólkið, krefjumst þess. Hér á Íslandi verðið þið Íslendingar að krefjast þess að þið eigið auðlindirnar. Þetta er landið ykkar. Þið búið í því. Forfeður ykkar hafa verið hér í mörg hundruð ár og hugsað um það. Þið megið ekki selja auðlindirnar til annarra og láta arðræna ykkur svona. En það verður að koma frá ykkur." Sagði John Perkins.

Á þriðjudaginn fór fram auðlindasala í Ráðhúsi Reykjavíkur í boði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Það var rækilega auglýst í fjölmiðlum og á Netinu. Þegar mest var voru á annað hundrað manns að mótmæla auðlindasölunni. Hvenær gerir fólk sér grein fyrir því, að verið er að selja Ísland, éta okkur með húð og hári - beint fyrir framan nefið á okkur?

Sinnuleysi Íslendinga er skelfilegt.

**********************************************

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband