Færsluflokkur: Fjölmiðlar
6.9.2009
Stórhættuleg þöggun
Ég las þetta á Fésinu seint á föstudagskvöldið og fékk hroll. Hin veika von um að réttlætinu verði einhvern tíma fullnægt - þótt ekki sé nema að einhverju leyti - dofnaði til muna. Forgangsröðin og málatilbúnaðurinn í þessu máli er með slíkum ólíkindum. Ég sá áðan að Egill Helgason hafði birt þessa frásögn og ætla að taka mér sama bessaleyfi. "For the record", eins og sagt er. Um er að ræða kærurnar á hendur fjórum fjölmiðlamönnum og Eyjunni - fyrir að segja okkur sannleikann.
Flestir ættu að muna eftir þessum atburði sem fjallað var um í byrjun apríl. Ef ekki skulum við rifja upp nokkur atriði. Hér er grein Agnesar sem kærð var. Hér er pistill Egils sem hann og Eyjan voru kærð fyrir. Takið sérstaklega eftir öllum dagsetningum í ljósi þess sem síðar upplýsist.
Kristinn Hrafnsson var kærður fyrir þessi orð í Kastljósi 27. janúar 2009
Fréttir Stöðvar 2 - 2. apríl 2009
Agnes Bragadóttir og Kristinn Hrafnsson í Silfrinu 5. apríl 2009
Á föstudagskvöldið birti svo Kristinn Hrafnsson þennan pistil á Fésinu:
"Nú hef ég fengið staðfest að fyrsta sakamálið sem kom til lögreglurannsóknar hjá Ólafi Haukssyni, sérstökum saksóknara, var meint brot mitt á lögum um bankaleynd. Einnig hef ég fengið staðfest að sama mál er það fyrsta sem kemur til afgreiðslu hjá Birni L. Bergssyni, settum sérstökum ríkissaksóknara. Ég vona að það gefi ekki tóninn um starf þessara embætta sem stofnuð voru til þess að rannsaka og ákæra í málum sem tengjast bankahruninu. Ekki held ég að þeim hinum ,,sérstöku", Ólafi og Birni, hafi þótt neitt sérstaklega skemmtilegt að byrja hreinsunarstarfið á því að eltast við mig auman.
Til upprifjunar skal þess getið að meint brot fólst í því að upplýsa í viðtali í Kastljósi undir lok janúar um stórfelldar lánveitingar Kaupþings til Róberts Tchenguiz sem var hluthafi og stjórnarmaður í Existu - sem aftur var stærsti einstaki eigandi Kaupþings. Til skemmtunar skal þess getið að Róbert þessi er sonur Íraka sem tók sér nafnið Tchenguiz en það ku vera persneska útgáfan af fornafni Gengis Kan. Upplýsingarnar um Róbert Tchenguiz áttu að birtast í Kompásþætti í lok janúar en ég og félagar mínir vorum reknir og þátturinn sleginn af fjórum dögum fyrir sýningardag.
Í vor nánar tiltekið 2. apríl fæ ég boðsent bréf frá FME þar sem því er lýst yfir að ég hafi brotið bankaleyndarákvæði laga um fjármálafyrirtæki. Ég fékk svigrúm til andmæla og lögmaður minn sendi svarbréf þar sem m.a. var bent á þá augljósu staðreynd að ég ynni ekki fyrir fjármálafyrirtæki. Mér kæmi bankaleynd því ekki við.
Í gær fékk ég svo staðfest að Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari var þá, löngu áður, búinn að afgreiða mitt mál. Hann tilkynnti FME þá ákvörðun sína að aðhafast ekkert frekar í mínu máli með bréfi sem sent var stofnuninni 18. febrúar. Jafnframt benti Ólafur FME á að stofnunin gæti kært þessa ákvörðun hans til ríkissaksóknara innan mánaðar ef hún vildi ekki una henni. FME lét þann frest líða án þess að kæra.
Þrátt fyrir þetta heldur FME áfram að narta í hælana á mér og fjórum öðrum blaðamönnum sem fjallað hafa um upplýsingar úr bankakerfinu. Samkvæmt lögum á FME að ljúka málum annað hvort með stjórnvaldssekt eða með því að vísa alvarlegum brotum til lögreglu. Í mínu tilfelli var FME búin að velja seinni kostinn og lögreglan neitaði að aðhafast í málinu. Ef til vill þótti lögregluvaldinu, Ólafi sérstaka - eins og mér - að brýnni verkefni biðu.
FME vildi ekki gefast upp í þessari baráttu við blaðamennina. Í júní fékk stofnunin Eirík Tómasson, lögmann til þess að semja álitsgerð um það hvað ætti að gera við þessa ,,brotamenn" - blaðamennina fimm. Á grundvelli þessarar álitsgerðar (sem ekki fæst opinberuð) tók FME það til bragðs, í byrjun ágúst, að senda mál okkar til Valtýs Sigurðssonar, ríkissaksóknara.
Valtýr var ekki lengi að henda þessari heitu kartöflu frá sér og skilaði því snemmendis til Björns L. Bergssonar, sérstaks setts ríkissaksóknara. Þetta er sum sé fyrsta úrlausnarmál Björns. Hann hefur annars það hlutverk að ákæra í málum sem eru rannsökuð hjá Ólafi Þór Haukssyni, sérstökum saksóknara.
Hvað á Björn svo að gera við málið mitt? Ólafur Þór, lögregluarmur Björns, ákvað fyrir sex mánuðum að aðhafast ekkert frekar í mínu máli. Fresturinn til að kæra þá ákvörðun rann út fyrir fimm mánuðum. En FME gefst ekki upp.
Maður ætti auðvitað ekki að gera annað en hlægja að þessum skrípaleik. Ég hef ekki í annan tíma séð jafn einbeittan brotavilja hjá stjórnvaldi gagnvart málsmeðferðarreglum og heilbrigðri skynsemi. Það sem vekur reiði hjá mér er að þessi mál eru sett í forgang þegar samfélagið allt er enn lamað eftir verstu hörmungar sem hafa dunið yfir í hagsögu lýðveldisins. Maður hallast að því að þessum mönnum sé ekki viðbjargandi.
Ég hef þurft að eyða tíma í þessa helvítis vitleysu á meðan ég ætti að vera að sinna öðrum og brýnni verkefnum. Hver ætlar að borga mér fyrir þá vinnu? Hver ætlar að axla ábyrgð á þeim lögmannskostnaði sem fylgt hefur þessu stússi? Þess utan: Hver ber ábyrgð á því að þessi skrípaleikur hefur skaðað tiltrú á Fjármálaeftirlitinu og mögulega einnig embættum sérstaks saksóknara og sérstaks ríkissaksóknara?
Ég set þessa nótu hérna inn til að halda þessu til haga en þessi brandari er fyrir löngu hættur að vera fyndinn."
Já, þessi brandari er vissulega löngu hættur að vera fyndinn - sem og aðrir "brandarar" sem lúta að þöggun fjölmiðla. Svo virðist sem margir aðilar sameinist um að kæfa sannleikann í fæðingu, líklega vegna þess hve hroðalega ljótur hann er og hvað hann getur komið mörgum illa. Skemmst er að minnast þegar 365-miðlar ákváðu að krefja stjórnendur fréttastofa og ritstjórna um bætur sem dæmdar eru í málsóknum gegn fjölmiðlunum. Það á að gera boðbera sannleikans ábyrga fyrir brotinu sem þeir segja frá - þannig horfir þetta við mér.
Björgólfsfeðgar, ábyrgðarmenn Icesafe og fleiri hörmunga, voga sér að stefna fyrir fréttir af meintum brotum þeirra gegn íslensku þjóðinni og Wernersbræður, sem rústuðu meðal annars Sjóvá og höguðu sér eins og hér er lýst, dirfast að gera slíkt hið sama. Ef horft er til dóma í t.d. meiðyrðamálum klámkóngsins Geira á Goldfinger sem hefur nú ekki mikinn orðstír að verja, gegn fjölmiðlafólki þar sem honum hafa verið dæmdar ótrúlega háar bætur miðað við t.d. bætur sem fórnarlömbum nauðgana og misþyrminga eru dæmdar - ja... þá er ekki von á góðu frá íslensku dómskerfi. Höfum í huga í því sambandi hvernig skipað hefur verið í dómaraembætti undanfarna áratugi.
Hvernig getum við varið málfrelsið, tjáningarfrelsið - og sannleikann? Hvernig er komið fyrir samfélagi sem hindrar fjölmiðla í að gera skyldu sína: Segja sannleikann? Enn og aftur minni ég á orð Aidans White, framkvæmdastjóra alþjóðasamtaka blaðamanna, um þátt fjölmiðla í aðdraganda efnahagshrunsins, ábyrgð þeirra og hlutverk í uppbyggingunni: "Ein aðallexían sem á að koma út úr öllu þessu hræðilega ferli er sú, að fjölmiðlar eiga að tala máli þjóðfélagsins í heild. Þeir eiga að gegna þjóðfélagslegu hlutverki, vernda hagsmuni fólksins." Hvernig geta þeir það ef þeir eru beittir þöggun eins og lýst er hér að ofan - bæði af stjórnkerfinu og dómstólunum?
Aidan White í Kastljósi 28. maí 2009
Aidan White í fréttum Stöðvar 2 - 28. maí 2009
Fjölmiðlar | Breytt 13.9.2009 kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (40)
23.8.2009
Framtíð lýðræðis og fjölmiðlarnir
Þátturinn Framtíð lýðræðis er nú fjórða sumarið í röð á Rás 1 í umsjón hins góðkunna útvarpsmanns Ævars Kjartanssonar og Ágústs Þórs Árnasonar, lektors við Háskólann á Akureyri. Í sumar hafa efnistök þáttarins eðlilega litast mjög af hruninu, aðdraganda þess og afleiðingum. Ég var að enda við að hlusta á þáttinn frá í morgun sem var jafnfrábær og hinir. Ævar og Ágúst Þór fá til sín einn viðmælanda í hverjum þætti og að öllum öðrum eðalútvarpsþáttum ólöstuðum er innihald þessara þátta með því málefnalegasta í útvarpi.
Ég þekki af eigin reynslu hvernig þeir Ævar og Ágúst Þór vinna, því ég var hjá þeim í einum þættinum. Mér fannst allsendis fráleitt að ég ætti nokkurt erindi í þennan þátt þegar Ágúst Þór hringdi í mig í maí. Hló bara í símann og sagði furðu lostin: "ÉG?!" Ég hafði hlustað á nokkra þætti undanfarin sumur og sá engan flöt á því að ég hefði neitt til málanna að leggja. En ég lét sannfærast og þegar við settumst niður í stúdíói í Efstaleitinu með ferðagræjurnar hans Ævars hafði ég þann vara á að ég gæti örugglega ekki talað í þær 50 mínútur sem þátturinn stæði yfir. Svo hófst notalegt spjall við þá félaga um hinn nýja vettvang skoðanaskipta sem netið og bloggið er og þátt þess vettvangs í framtíð lýðræðisins. Fyrr en varir voru mínúturnar 50 liðnar, það var svo gaman að tala við þá. Og ég sem átti svo margt eftir ósagt! Þegar þættinum var útvarpað 19. júlí og ég hlustaði á hann fannst mér ég alls ekki hafa svarað nægilega vel, einkum tveimur eða þremur spurningum Ágústs Þórs. Bæti kannski úr því seinna en hengi þáttinn neðst í færsluna.
Gestur þeirra í morgun var Jón Ólafsson, heimspekiprófessor. Hann var alveg frábær. Kom víða við og talaði meðal annars um skotgrafarhernað stjórnmálamanna. Jón sagði t.d.: "Kannski er ég bara svona bjartsýnn, en ég held að það sé meiri tilfinning fyrir þessari nauðsyn að pólitík sé ekki bara hanaslagur þar sem hlakkar í andstæðingnum yfir ákvörðun sem hann veit að á eftir að koma þeim sem tekur hana illa - jafnvel þó að það sé líka mjög slæmt fyrir þjóðina að svo sé. Þarna erum við að sjá, að mínu mati, breytingu á pólitískum kúltúr." Ég er bæði sammála og ósammála þessari fullyrðingu Jóns. Ég held að tilfinningin fyrir þessari nauðsyn sé vissulega mjög mikil hjá almenningi, en minni hjá þeim sem hafa verið fastir á klafa flokkanna - og eru enn. Bæði stjórnmálamönnum og helstu áhangendum trúarkenninga þeirra. En vonandi leiðir tíminn í ljós að Jón hafi rétt fyrir sér.
Í síðasta hluta þáttarins talaði Jón um fjölmiðlana - skort á fagmennsku í fjölmiðlum, hlutverk þeirra í fortíð, nútíð og framtíð - og hvernig þeir hafa spilað með í hanaslag stjórnmálamanna. Og hræðsluna. Hvort sem maður tekur undir skoðanir Jóns eða ekki er þetta mjög umhugsunarverð umræða. Ég klippti þann kafla úr þættinum og hengi við hér neðst í færslunni. Þátturinn allur er hér. Mér finnst að allir fjölmiðlamenn eigi að hlusta sérstaklega á þennan kafla viðtalsins - helst allt viðtalið svo ekki sé minnst á alla þætti þeirra félaga um Framtíð lýðræðis. Rifjum líka upp viðtal Egils í Silfrinu við þennan sama Jón Ólafsson frá 18. janúar sl.
Jón Ólafsson í Silfri Egils 18. janúar 2009
Svo er hægt að hlusta á þættina Framtíð lýðræðis aftur í tímann á hlaðvarpi RÚV hér.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.8.2009
Spilling og öðruvísi umræða
Ég þreytist seint á að tala og skrifa um spillinguna á Íslandi. Spillingu, sem er svo djúpstæð og inngróin í samfélagið að fjandanum erfiðara verður að uppræta hana - ef það tekst þá nokkurn tíma. Við höfum nefnilega vanist henni svo rækilega, alist upp með henni og litið á hana sem óumflýjanlegan hluta af tilverunni. Eða hvað?
Umræðan í þjóðfélaginu hefur breyst og opnast mjög með netmiðlum og bloggi, það held ég að allir geti verið sammála um. Gallinn er sá að umræðan sem þar fer fram nær ekki til nema hluta þjóðarinnar. Allt of margir líta ennþá niður á blogg og halda að þar komi ekkert fram sem vert er að íhuga. Sumir segjast ekki hafa tíma til að lesa blogg en lesa þó prentblöðin upp til agna á hverjum degi og hlusta/horfa á alla fréttatíma ljósvakamiðlanna. Fjöldi fólks lítur þannig á þjóðfélagsumræðuna að ekkert sé raunverulegt eða satt nema það birtist á síðum Morgunblaðsins eða í fréttatíma RÚV. Þetta er vitaskuld mikill misskilningur.
Einhverjum stjórnmálamönnum er í nöp við netið og þá opnu umræðu sem þar fer fram. Hún gerir þeim erfiðara fyrir að fela hlutina, fara sínu fram í skjóli upplýsingaskorts og þöggunar. Egill Helga hefur eftir 'glöggum stjórnmálaskýranda' í nýjustu bloggfærslu sinni að... "Samfylkingarmaður sem ég talaði við hélt því er virtist fram í fullri alvöru að umræðan á netinu væri einn aðalsökudólgurinn í því hve illa gengur að koma á úrbótum og lausnum. Allur tími ráðamanna færi í það að verjast þessu leiðindafyrirbæri sem netið er..." Ef þetta er almennt sýnishorn af áliti stjórnmálamanna á skoðunum almennings er ansi langt í að við fáum þá opnu og heiðarlegu stjórnsýslu sem kallað var eftir í vetur - og það hátt og snjallt.
Þetta er langur formáli að litlum pistli - Morgunvaktarpistlinum fá 14. ágúst. Hljóðskrá fylgir neðst í færlsunni.
Um árabil var okkur talin trú um að á Íslandi væri engin spilling. Því til sönnunar birtust reglulega niðurstöður Transparency International, sem gæti útlagst á íslensku Alþjóða gagnsæisstofnunin. Þar var Ísland ofarlega, jafnvel á toppnum, yfir MINNST spilltu þjóðir heims. Ég minnist þess ekki að fjölmiðlar, sem birtu niðurstöðurnar, hafi nokkurn tíma skoðað þær eða forsendur þeirra nánar. Stjórnmálamenn vitnuðu gjarnan í þessar kannanir til að bera af sér áburð um spillingu og réttlæta jafnvel spilltustu athafnir sínar.
Þjóðin glotti alltaf þegar þetta hreinleika- og gagnsæisvottorð birtist því hún vissi betur. Við vissum öll að á Íslandi var gjörspillt stjórnkerfi þar sem frændsemi, klíkuskapur og eiginhagsmunir réðu ríkjum. Það mátti bara ekki segja það upphátt og alls ekki minnast á mútur. Slíkur ósómi tíðkaðist bara í útlöndum. Á Íslandi var þannig greiðasemi kölluð 'fyrirgreiðsla' eða eitthvað ámóta huggulegt. Í versta falli 'samtrygging'. Alls ekki spilling og mútur. Það var eitthvað svo... óíslenskt.
Eftir efnahagshrunið í haust hafa ótrúlegustu hlutir komið upp á yfirborðið og upplýsingar um alls konar spillingu gefið okkur utan undir hvað eftir annað af svo miklu afli að undan hefur sviðið. Og enn hellast spillingarmálin yfir okkur, nú síðast í fréttum af skilanefndum gömlu bankanna. Þar blandast líka inn í einn angi spillingarinnar - hagsmunaárekstrar og vanhæfi. Ótrúlega mikið þarf til að menn viðurkenni hagsmunaárekstra eða eigið vanhæfi, jafnvel þó að það blasi við öllum öðrum. Og það undarlega er, að menn eru látnir í friði með að ákveða sjálfir hvort þeir eru vanhæfir eða ekki.
Umræðan um spillinguna og fjölmiðlun á Íslandi hefur breyst mjög eftir að netið og bloggið komu til sögunnar. Nú þarf ekki lengur að bíða kvöldfrétta eða prentblaðanna að morgni til að fá upplýsingar. Þær birtast oftast fyrst á netinu - í netmiðlum eða á bloggi. Netið er upplýsingaveita nútímans og framtíðarinnar. Það er annars eðlis en hefðbundnir fjölmiðlar og getur leyft sér meira - eða gerir það að minnsta kosti.
Þótt hefðbundnir fjölmiðlar séu bráðnauðsynlegir og ágætir fyrir sinn hatt finnst mér alltaf skrýtið að hitta fólk sem snýr upp á sig þegar blogg ber á góma og segir snúðugt með misskildum menningarhroka: "Nei, ég les ALDREI blogg." Í tóninum felst að því þyki afskaplega ófínt að blogga og enn ófínna að lesa blogg. Þetta fólk er á villigötum ef það heldur að ekkert sé satt nema það birtist í kvöldfréttum ljósvakans eða á síðum prentmiðlanna. Það hefur ekki nema örlitla nasasjón af sannleikanum því upplýsingaflæðið er margfalt meira, ferskara og frjórra í netmiðlum og á bloggi. Þar er líka hægt að fletta upp öllu mögulegu langt aftur í tímann til að hressa upp á minnið og setja atburði í samhengi.
Jafnvel blaðamenn hafa viðurkennt að lesa aldrei blogg eins og Víkverji dagsins á Mogganum sem skrifaði meðal annars þetta fyrir rúmu ári: "Víkverji sér ansi oft vitnað í blogg í fjölmiðlum. Hann getur ekki séð að menn hafi þar ýkja mikið fram að færa. Það er eitthvað sérlega dapurlegt við það að fólk sé farið að eyða mörgum tímum á dag í að kynna sér þessi ómerkilegu skrif." Víkverji þessi sagði fleira niðrandi um bloggið í pistli sínum, en honum hefur vonandi snúist hugur því annars veit hann ekki allan sannleikann frekar en aðrir sem ekki lesa blogg og netmiðla.
Sannleikurinn leynist nefnilega víðar en í Mogganum og Ríkisútvarpinu.
16.8.2009
Ótrúlegur andskoti
Eitt af því sem talið er hafa valdið efnahagshruninu er andvaraleysi almennings á Íslandi. Almenningi til varnar skal rifjað upp að hann var blekktur og dreginn á asnaeyrunum. Aðallega af banka- og stjórnmálamönnum sem og eftirlitsaðilum sem fólk treysti til að vinna vinnuna sína.
En fjölmiðlar spiluðu þar stórt hlutverk. Ég minni á viðtölin við Aidan White, framkvæmdastjóra alþjóðasamtaka blaðamanna, um þátt fjölmiðla í aðdraganda efnahagshrunsins sem sjá má neðst í þessum pistli. Þar segir White m.a.: "Ein aðallexían sem á að koma út úr öllu þessu hræðilega ferli er sú, að fjölmiðlar eiga að tala máli þjóðfélagsins í heild. Þeir eiga að gegna þjóðfélagslegu hlutverki, vernda hagsmuni fólksins."
Því fylgir ábyrgð að reka fjölmiðil - ýmiss konar þjóðfélagsleg ábyrgð. Líka hjá þeim einkareknu. Í vetur hefur mikið verið kallað eftir fleiri fréttaskýringaþáttum í fjölmiðlum. Öflugri rannsóknarblaða- og -fréttamennsku. Fjárskorti er venjulega kennt um vöntun á slíku. Mér var því mjög brugðið þegar ég sá þessa frétt á DV.is í dag.
Ég þekkti ekki þættina sem þarna er vísað í - Wipeout. Leitaði á YouTube og fann t.d. þetta sýnishorn.
Er þetta álit 365 miðla á andlegu atgervi íslensku þjóðarinnar? Hafa þeir rétt fyrir sér? Vill fólk frekar svona sjónvarpsefni en t.d. efni á borð við Kompás eða Ísland í dag eins og sá þáttur var? Um áramótin var Ísland í dag lagt niður sem fréttaskýringaþáttur og léttmetið hefur ráðið þar ríkjum síðan með örfáum undantekningum. Kompási var hent út í janúar. 365 ver gríðarlegum fjárhæðum í enska boltann og annað íþróttaefni. Og samkvæmt frétt DV á nú að senda 120 manna hóp til Suður-Ameríku til að taka upp fíflalæti.
Þetta finnst mér undarlegur skilningur á þjóðfélagslegu hlutverki og ábyrgð fjölmiðla - og furðuleg meðferð á fjármunum.
29.7.2009
Dagar Kompáss taldir?
Fyrir nokkrum dögum skrifaði ég pistil um ábyrgð fjölmiðla á umbrotatímum og birti auk þess pistil um sama efni af Morgunvakt Rásar 2. Í honum fór ég fram á við mennta- og fjármálaráðherra að veitt yrði fé til að stofna og reka sjálfstæðan og óháðan rannsóknar- og upplýsingahóp fjölmiðla. Þetta ætti að vera auðsótt mál og oft var þörf en nú er nauðsyn. Ríkisstjórnin hefur ekkert að fela, er það? Þótt fréttastofur og hefðbundnir fjölmiðlar séu góðra gjalda verðir svo langt sem þeir ná, er ekki nóg að fá aðeins 2 mínútna frétt eða þriggja dálka grein af stórmálum og síðan ekki söguna meir. Fréttirnar þarf að setja í samhengi, grafa og grufla, tengja og skýra, finna orsakir og afleiðingar, komast að niðurstöðu og fylgja fréttunum eftir.
Ég, eins og svo ótalmargir aðrir, hef beðið eftir að Kompás kæmi aftur á skjáinn en ekkert hefur bólað á honum. Silfur Egils hætti í maí, kemur væntanlega ekki aftur fyrr en í september og Kastljósið fór skyndilega í sumarfrí. Um þessar mundir er því engar fréttaskýringar að fá í sjónvarpi og þótt Spegillinn standi sannarlega fyrir sínu vantar myndrænu útfærsluna. Þetta er fáránleg staða sem almenningi er boðið upp á af fjölmiðlunum. Við þurfum á miklu öflugri fjölmiðlun að halda en hægt er að sinna nú miðað við samdrátt og niðurskurð. Eða er kannski eitthvað galið við forganginn hjá miðlunum? Það skyldi þó aldrei vera.
Í Mogganum í dag er sagt að dagar Kompáss séu taldir. Ég neita að trúa því. Skortur á gagnrýnni fjölmiðlun á gróðærisárunum og í aðdraganda hruns hefur orðið okkur dýrkeyptur. Við verðum að læra af þeirri reynslu og efla fjölmiðlunina ef eitthvað er. Hlustið á Aidan White, framkvæmdastjóra alþjóðasamtaka blaðamanna, í myndböndunum neðst í þessum pistli. Við getum ekki haft miklar væntingar til einkarekinna fjölmiðla í eigu sjálfra útrásarauðmannanna sem eiga risastóran þátt í stöðu okkar í dag og því sem rannsaka þarf. En við getum gert miklar kröfur til Ríkisfjölmiðilsins sem við eigum og kostum sjálf. Og til ríkisstjórnarinnar sem fer með fjárveitingarvaldið.
Hér fyrir neðan er greinin úr Mogganum í dag (smellið þar til læsileg stærð fæst) og valin sýnishorn af umfjöllun Kompáss um mikilvæg mál í íslensku samfélagi. Ég vil fá meira af slíku - ekki er vanþörf á um þessar mundir! Set líka inn umfjöllun um Kompás og viðtöl úr Kastljósi og Spjalli Sölva.
Morgunblaðið 29. júlí 2009
Kompás 20. nóvember 2007 - um Seðlabankann, vexti og verðbólgu
Kompás 13. október 2008 - um efnahagskreppuna
Kompás 20. október 2008 - um útrásina
Kompás 15. apríl 2008 - um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum
Kompás 29. apríl 2008 - um olíuslys
Kompásmál í Kastljósi 27. janúar 2009
Sölvi Tryggva spjallar við Kompássmenn - Skjár 1 - 3. apríl 2009
25.7.2009
Ábyrgð fjölmiðla á umbrotatímum
Mér eru fjölmiðlarnir hugleiknir og finnst ansi mikið vanta upp á að þeir sinni því sem má kalla skyldu þeirra - upplýsingagjöf, rannsóknarfréttamennsku og skýringum á atburðum fyrir almenning. Blaða- og fréttamenn komust sjálfir að þeirri niðurstöðu að þeir hafi brugðist í aðdraganda hrunsins, ef ég man rétt. Ekki verið nógu vakandi og of trúgjarnir - eins og við hin.
Mér hættir til að verja þá, því ég veit við hvaða aðstæður þeir búa - gríðarlegan tímaskort, ómanneskjulegt vinnuálag og í mörgum tilfellum skítalaun. Viðmælendur svara ekki spurningum þeirra og stundum gátu (geta?) ágengar, beittar spurningar jafngilt uppsögn viðkomandi blaða/fréttamanns. Hátt settir stjórnmálamenn töluðu ekki við gagnrýna blaða/fréttamenn og vildu sjálfir ráða spurningunum. Allt mögulegt hefur viðgengist. En sumir voru líka nátengdir persónum og leikendum í atburðum gróðærisins - og eru enn.
Kannski er ekki við blaða- eða fréttamennina sjálfa að sakast að öllu leyti, heldur vinnuveitendur þeirra, sjálfa fjölmiðlana. Einkum fyrir að skapa þeim ekki þær aðstæður sem nauðsynlegar eru til að geta sinnt starfinu almennilega, sérhæfa sig í málaflokkum og gefa þeim pláss eða tíma til að koma upplýsingunum á framfæri. Vissulega er þó ýmislegt mjög vel gert og bæði vilji og geta fyrir hendi bæði í stéttinni og utan hennar.
Mér finnst að í vetur, á þessum gríðarlegu umbrotatímum í íslensku samfélagi, hafi mestu upplýsingarnar, málefnalegasta umræðan og bestu fréttaskýringarnar verið á netinu - þar af mikið á blogginu. Og um þessar mundir er eiginlega einn helsti rannsóknarblaðamaðurinn okkar hún Sigrún Davíðsdóttir í Speglinum á RÚV og á Eyjunni. Sigrún hefur verið óþreytandi við að segja frá ýmsum vafasömum viðskiptum og fleiru sem viðkemur hruninu. Lesið og hlustið t.d. á pistla hennar í vikunni um Endurreista og efalausa banka og Bruðl og sjónhverfingar.
Ég sakna Kompáss mjög. Hef sagt það áður og segi enn. Okkur bráðvantar svona þátt og ég skil ekki af hverju RÚV hefur ekki tekið þáttinn upp á arma sína en mig grunar að um fjárskort sé að ræða. Eins og ég kem inn á í pistlinum hér að neðan vil ég að ríkisstjórnin veiti ríflegri upphæð til að koma saman sjálfstæðum, óháðum rannsóknarhópi fjölmiðlafólks sem hefði það hlutverk að rannsaka, afhjúpa, upplýsa og útskýra. Frá upphafi hruns hafa fjölmargir sérfræðingar, reynsluboltar og leikmenn hamrað á því, að upplýsingar séu grundvallaratriði til að almenningur geti skilið og tekið þátt í þeirri hugarfarsbreytingu og uppbyggingu sem verður að eiga sér stað á Íslandi. Slík fjárveiting ætti að vera jafnsjálfsögð og fjárveiting til annars konar rannsókna á hruninu. Upplýsingar eru nefnilega nátengdar réttlætinu.
En hér er pistillinn minn á Morgunvakt Rásar 2 í gær - hljóðskrá hengd við neðst.
Ágætu hlustendur...
Í tæpt ár hefur mér fundist ég vera stödd í hræðilegri martröð. Stundum hef ég verið þess fullviss, að einn daginn ranki ég við mér og komist að raun um, að þetta hafi bara verið vondur draumur. En martröðin heldur áfram og verður sífellt skelfilegri eftir því sem fleiri spillingarmál koma upp á yfirborðið. Þeim virðist ekki ætla að linna og botninum er greinilega ekki náð ennþá.
Ég er orðin kúguppgefin á martröðinni og þrái heilbrigt samfélag, lausnir, heiðarleika, réttlæti og von. En það eina sem blasir við er meiri spilling, hræðileg vanhæfni, undarleg leynd og endalausar deilur um allt. Stundum finn ég varla heila brú í þjóðfélagsumræðunni, alveg sama hvernig ég leita. Sérfræðingar karpa, einn segir þetta og sá næsti eitthvað allt annað. Þeim virðist jafn fyrirmunað að finna sameiginlega lausn á vandamálum þjóðarinnar og alþingismönnum. Það er sárt að horfa upp á þetta og enginn fjölmiðill hefur ennþá tekið að sér að skýra út ólík viðhorf, fólkið á bak við þau, bera saman skoðanir, orsakir og afleiðingar - og reyna að komast að niðurstöðu. Er það kannski ekki hægt? Maður spyr sig...
Ég hef komist rækilega að raun um, að það er miklu meira en full vinna að reyna að fylgjast með öllu sem hefur gerst síðan hrunið varð, halda því til haga og reyna að tengja saman menn og málefni. Hvað þá að fylgja málum eftir og halda þeim lifandi í umræðunni. Ef vel ætti að vera þyrfti einhver fjölmiðill að hafa hóp fólks í vinnu sem gerir ekkert annað en einmitt þetta. En sú er aldeilis ekki raunin.
Í mestu hamförum af mannavöldum sem íslenska þjóðin hefur upplifað hafa fjölmiðlar einmitt neyðst til að bregðast þveröfugt við. Skera niður og segja upp fólki þegar þjóðin þarf á öflugum fjölmiðlum að halda sem aldrei fyrr. Eini fréttaskýringaþátturinn í sjónvarpi, Kastljós, fór meira að segja í frí í júlí á meðan fjallað er um tvö umdeildustu málin um þessar mundir á Alþingi, ESB og Icesave. Væntanlega er fríið til komið vegna niðurskurðar og sparnaðar í rekstri RÚV.
Ekki hefur fjarvera Kastljóss náð að fylla Stöð 2 innblæstri og hvatt til dáða á þeim bænum. Frá áramótum hefur Ísland í dag verið undirlagt af yfirborðskenndu léttmetishjali - með örfáum undantekningum. Léttmetið er fínt í bland - en er það svo miklu ódýrara í vinnslu en alvörumálin? Því fylgir ábyrgð að reka fjölmiðla og eigendur þeirra ættu að sjá sóma sinn í, að huga að upplýsingagildi efnisins ekki síður en skemmtanagildi þess.
Mig langar að beina máli mínu til ríkisstjórnarinnar, einkum mennta- og fjármálaráðherra, og fara fram á að veitt verði rausnarlegri upphæð til reksturs rannsóknarhóps fjölmiðla sem hefði það hlutverk að rannsaka og upplýsa þjóðina um öll helstu mál hrunsins. Í hópnum gætu verið valdir fulltrúar frá öllum fjölmiðlum - og alls ekki má gleyma netmiðlum og bloggi. Oftar en ekki hafa langbestu upplýsingarnar komið fram á netinu og málefnalegustu umræðurnar farið fram þar. En netfjölmiðlun nær bara ekki til nema takmarkaðs fjölda landsmanna.
Fyrir utan fræðslu- og upplýsingagildi þessa fjölmiðlahóps fyrir almenning, gæti vinna hans örugglega gagnast rannsóknaraðilum hrunsins. Vinna hópsins væri líka aðhald við embættin, því upplýsingar hans um alvarleg mál hljóta óhjákvæmilega að koma inn á borð hjá þeim.
Upplýsingar og réttlæti kostar peninga - en er þjóðinni lífsnauðsynlegt.
Í tengslum við þessar pælingar minni ég á viðtöl við Aidan White, framkvæmdastjóra alþjóðasamtaka blaðamanna, sem var hér á ferð í lok maí. Hann lýsir m.a. hvernig útrásardólgar höfðu áhrif á skrif blaðamanna í Bretlandi þegar verið var að markaðssetja Icesave og fleira. Og fyrst þeir gátu blekkt breska blaðamenn gátu þeir vitaskuld blekkt þá íslensku líka - enda voru (og eru) þeir í mörgum tilfellum vinnuveitendur þeirra. Sorglegt en satt. Takið sérstaklega eftir þessum orðum Aidans White: "Ein aðallexían sem á að koma út úr öllu þessu hræðilega ferli er sú, að fjölmiðlar eiga að tala máli þjóðfélagsins í heild. Þeir eiga að gegna þjóðfélagslegu hlutverki, vernda hagsmuni fólksins."
Aidan White í Kastljósi 28. maí 2009
Aidan White í fréttum Stöðvar 2 - 28. maí 2009
Fjölmiðlar | Breytt 17.8.2009 kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Icesave er mál málanna þessa dagana, vikurnar og mánuðina. Það væri að æra óstöðugan að bæta á umfjöllun um það volaða mál sem er í öllum fjölmiðlum og allir hafa einhverja skoðun á. En það eru helst skoðanir alþingismanna og sérfræðinga sem komast að í fjölmiðlunum. Við hin látum okkur nægja netið og bloggið. Stuðningur við Icesave-samninginn á þingi er óljós í meira lagi þessa dagana og sífellt eru nýir fletir á málinu afhjúpaðir - enginn góður.
Afstaða stjórnarþingmanna er óskýr - en afstaða stjórnarandstöðu alveg klár. Stjórnarandstöðuflokkarnir vilja ekki samþykkja samninginn. En hvað vilja þeir gera? Hver er þeirra lausn?
Hinn nýi formaður Sjálfstæðisflokksins er sterkur og ákveðinn leiðtogi sem hlýtur að vera dáður af flokksmönnum sínum eins og hefð er fyrir í flokknum - með nokkrum undantekningum þó. Í fréttum RÚV í kvöld var hann spurður hvað hann og flokkurinn hans vildi gera í Icesave-málinu. Svar formannsins var afdráttarlaust, ákveðið og afgerandi eins og hans er von og vísa. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi beðið hugmyndafræðilegt gjaldþrot með falli frjálshyggjunnar er nýi leiðtoginn greinilega sá, sem mun hífa flokkinn úr öldudalnum með vasklegri framgöngu sinni, ákveðni, hugmyndauðgi, málefnalegum svörum og frábærum lausnum.
Það sem mér finnst eiginlega verst við þetta viðtal, er að fréttakonan lét hann komast upp með þetta svar - ef svar skal kalla.
20.7.2009
Orsök og lausn kreppunnar
Það virðist sama hver vandinn er - þetta er alltaf meint lausn, ef lausn skal kalla. Sama hverjir eru við völd hverju sinni. Sama hvort um er að ræða endurreisn bankakerfisins, rándýrar virkjanir fyrir erlenda auðhringa eða hvað annað sem stjórnvöldum og þrýstihópum samfélagsins hugnast að bjóða þjóðinni upp á í það skiptið.
17.7.2009
Lífsgildi þjóðar
Algengara er að tala um lífsgildi einstaklinga en lífsgildi þjóða. En Páll Skúlason flutti erindi með þessu heiti á jóladag í fyrra auk þess að tala við Evu Maríu Jónsdóttur þremur dögum síðar í sjónvarpinu. Ég lagði svolítið út frá viðtali þeirra Páls og Evu Maríu í pistlinum mínum á Morgunvakt Rásar 2 í morgun. Í þetta sinn tók ég pistilinn upp hér heima þar sem ég hef aðstöðu og tæki til þess - nema hljóðeinangrun. Slökkti á símum og vonaði að engin flugvél þyrfti að lenda eða fara í loftið rétt á meðan og var heppin. Hljóðskrá hangir neðst í færslunni auk nokkurra þátta þar sem Páll Skúlason kemur við sögu og deilir með okkur hugmyndum sínum. Og hér er mjög gott viðtal við Pál sem birtist í Mogganum rétt eftir hrun, 10. október.
Ég held að það sé tímabært að vinda ofan af þeirri gengdarlausu græðgis- og einstaklingshyggju sem nýfrjálshyggjustefna hrunflokkanna hefur hamrað á undanfarin 20 ár eða svo. Kannski skjátlast mér - en ég hef á tilfinningunni að sú vonda hyggja sé andstæð mannlegu eðli, geri ekki annað en ýta undir firringu, einangra fólk og gera það vansælt og einmana. Mér dettur þessi frábæri pistill Írisar Erlingsdóttur í hug í því sambandi. Við eigum að hlusta vandlega á fólk eins og Pál Skúlason og sameinast um að byggja upp manneskjulegt samfélag.
Ágætu hlustendur...
Ég hef verið að velta fyrir mér hugtökunum siðferði, réttlæti, samkennd og fleiru, sem frjálshyggja og einstaklingshyggja hafa rutt úr vegi í íslensku samfélagi undanfarin ár - jafnvel áratugi. Af því tilefni dró ég fram sjónvarpsviðtal Evu Maríu Jónsdóttur við hugsuðinn og heimspekinginn Pál Skúlason. Eflaust muna margir eftir viðtalinu, sem sýnt var milli jóla og nýárs. Ég birti það á bloggsíðunni minni seinna í dag ef einhver vill rifja það upp.
Þetta er stórmerkilegt viðtal þar sem Páll veltir meðal annars fyrir sér mögulegum orsökum og afleiðingum hrunsins, skoðar málið frá ýmsum hliðum og spáir í framtíðina. Í viðtalinu kemur fram að eitt af því sem olli efnahagshruninu, var að við höfðum frjálsan markað, en hvorki lög né reglur sem dugðu. Páll hefur sérstaklega gagnrýnt stjórnmálamenn fyrir að hafa ekki veitt viðnám og spilað bara með. Það sýni að eitthvað mikið sé að í íslenskum stjórnmálum. Hann vill hafa þar fólk með heilbrigða skynsemi sem þekkir þjóðlífið. Fólk, sem áttar sig á því hvernig almenningur hugsar... skilur hvernig fólk hugsar til dæmis í atvinnulífinu og menningarheiminum. Páll segir atvinnustjórnmálamenn einangrast frá þessum veruleika og líta svo á, að þeir eigi að hugsa fyrir fólk.
En hugsum við ekki sjálf? Þarf að hugsa fyrir okkur? Hvernig myndum við okkur skoðun? Jú... við lesum, horfum, hlustum, fylgjumst með - og fáum heildarmynd. Síðan drögum við ályktanir út frá öllu mögulegu, eins og reynslu, þroska, tilfinningum og skynjun okkar á því, hvernig samfélagi við viljum búa í.
Það er reyndar staðreynd, að sumir vilja láta hugsa fyrir sig. Þeir fylgja leiðtoga lífs síns, hvort sem hann er af þessum heimi eða öðrum, gapa upp í hann gagnrýnislaust, trúa hverju orði sem af vörum hans hrýtur - hversu fáránleg sem þau eru - og gera skoðanir leiðtogans að sínum - hversu heimskulegar sem þær eru. Það er sorglegt að horfa upp á þetta og ég vildi óska þess að allir sem byggja okkar litla land gætu fylgt þeirri ágætu reglu að ástunda ævinlega gagnrýna hugsun, leggja saman tvo og tvo upp á eigin spýtur og gæta þess að láta ekki ljúga sig fulla.
Er ekki rétt að við spyrjum okkur öll hvernig samfélag við viljum byggja upp á rústum þess sem hrundi. Viljum við endurtaka leikinn og hafa græðgina að leiðarljósi? Græðgina, sem viðheldur stöðugri löngun, sem aftur veldur því að við upplifum aldrei ánægju - því græðgin vill alltaf meira. Hún fær aldrei nóg og í sinni verstu mynd, sem við kynntumst rækilega hér á Íslandi, svífst hún einskis í eilífri ásókn eftir meiru. Græðgin ýtir síðan undir ójöfnuð og óeðlilega samkeppni á kostnað samvinnu.
Eða viljum við annars konar samfélag? Samfélag sem byggist á samkennd, virðingu, samvinnu, jöfnuði og samhjálp. Samfélag, þar sem allir geta notið heilsugæslu og menntunar, þar sem annast er vel um börn og eldri borgara og þar sem traust ríkir manna á milli. Viljum við samfélag þar sem fólk fær mannsæmandi laun, þar sem lög og reglur ná yfir alla, ekki bara suma - og þar sem sumir eru ekki jafnari en aðrir? Viljum við samfélag þar sem grunngildi samfélagssáttmálans, réttlætið, er í hávegum haft?
Er ekki kominn tími til að draga fram það sem sameinar okkur, í stað þess að einblína á það sem sundrar okkur? Að stjórnmálamenn og við, fólkið í landinu, stígum upp úr skotgröfunum og förum að vinna saman.
Hugsum málið.
Spjall þeirra Páls Skúlasonar og Evu Maríu vakti mikla athygli eftir útsendingu þáttarins 28. desember. Ekki síst orð Páls um landráð af gáleysi - sem hann viðhafði reyndar líka í erindi sínu, Lífsgildi þjóðar, á jóladag (viðfest hér að neðan). Miðað við alvarleika málsins vil ég gjarnan taka dýpra í árinni og kalla gjörningana landráð af vítaverðu gáleysi - og dæma samkvæmt því. Svo finnst mér rétt að rifja upp þetta frábæra viðtal Evu Maríu við Pál. Ég fékk leyfi þeirra beggja til birtingar strax daginn eftir útsendingu, en þetta hefur dregist dálítið hjá mér.
Eins og þið vitið öll er hrópað á réttlæti - og það hátt. Eitt af því sem veldur andstöðu almennings við Icesave-samninginn er að höfundar hans og ábyrgðarmenn ganga allir lausir og baða sig í ríkidæmi - fé sem þjóðin lítur á sem illa fengið. Þó að bresk stjórnvöld séu kannski ekki hátt skrifuð hjá öllum um þessar mundir, hvort sem þau verðskulda það eður ei, má ýmislegt læra af þeim engu að síður.
Ég legg til að þið lesið og hlustið á pistil Sigrúnar Davíðsdóttur sem hún flutti í Speglinum á föstudaginn, þann 3. júlí. Hljóðskráin er viðfest neðst í færslunni. Ég ætla að leyfa mér að birta hann hér og feitletra sérstaka kafla til áhersluauka. Pistillinn fjallar um frystingu eigna. Ég legg líka til að þið lærið af þessu og útvegið ykkur heiðarlega lögfræðinga sem ekki eru tengdir vafasömum mönnum til að semja og/eða útfæra lög um frystingu eigna. Nú þegar. Slík aðgerð myndi strax slá eitthvað á ólguna í samfélaginu.
Frysting eigna er svo öflug aðgerð að meðal enskra lögfræðinga er henni líkt við kjarnorkuvopn - og þeim er að sjálfsögðu ekki beitt af neinu kæruleysi. Frysting eigna fæst með dómsúrskurði. Þegar eignir Landsbankans hér voru frystar var það gert með dómsúrskurði.
Frystingu eigna er þó hægt að beita við ýmis tækifæri, bæði í málum sem einstaklingar höfða, í málum sem hið opinbera höfðar - og svo er frysting eigna notuð þegar felldir hafa verið dómar til að koma í veg fyrir að dæmdir glæpamenn geti áfram notað illa fengið fé.
Tökum fyrst dæmi um þetta síðasta: nýlega var lögfræðingur dæmdur fyrir innherjaviðskipti ásamt tengdaföður sínum. Lögfræðingurinn vann í fyrirtæki og frétti þar að verið væri að selja fyrirtækið. Það var því ljóst að hlutabréf í fyrirtækinu ættu eftir að hækka verulega. Tveimur dögum áður en tilkynnt var um kaupin keypti tengdafaðir lögfræðingsins hluti í fyrirtækinu. Tengdafaðirinn hafði aldrei áður keypt hlutabréf og græddi 50 þúsund pund, rúmar tíu milljónir króna.
Nokkrum mánuðum síðar fékk lögfræðingurinn ávísun upp á helming þeirrar upphæðar frá tengdaföðurnum. Fjármálaeftirlitið lét frysta afrakstur hlutabréfakaupanna meðan málið var í rannsókn. Í vor voru tengdafeðgarnir á endanum dæmdir í átta mánaða fangelsi - já hvorki meira né minna - fyrir þessi innherjaviðskipti.
Dómurinn þykir mjög strangur en er liður í því að taka innherjaviðskipti og annað markaðssvindl föstum tökum. Afraksturinn var gerður upptækur á endanum. Viðkomandi menn eru engir stórkarlar í ensku viðskiptalífi svo fréttir um fangelsun þeirra lenti ekki á neinum forsíðum. Það er hins vegar athyglisvert hvað dómurinn er þungur: átta mánaða fangelsi fyrir innherjaviðskipti í eitt skipti og illa fengnar tíu milljónir króna. Fjármálaeftirlitið hér hefur lýst því yfir að dómurinn og fleiri innherjaviðskipti sem eru í rannsókn sé ábending um að eftirlitið ætli að taka hvers lags markaðsmisnotkun mjög föstum tökum.
Einkaaðilar sem fara í mál geta farið fram á frystingu eigna rétt eins og opinberir aðilar. En svona kjarnorkuvopni má ekki veifa af neinni léttúð. Það eru ýmislegar kringumstæður sem getur leitt til þess að þetta öfluga vopn er notað. Þegar verið er að höfða mál gegn aðilum sem áður hafa orðið uppvísir að svikum eða glæpsamlegu athæfi, eða sem hafa sýnt tilburði til að koma eignum undan er þessi leið farin. Þá er viðkomandi einfaldlega ekki treyst.
En þar sem frysting getur valdið fjárhagslegum skaða verður sá sem fer fram á eignafrystingu að borga kostnaðinn sem hlýst af ef í ljós kemur að frystingin var ekki réttmæt. Og vei þeim sem brýtur gegn eignafrystingu! Það fellur undir að sýna dómstól fyrirlitningu og er einfaldlega mjög alvarlegur glæpur.
Það hefur vakið athygli að eignir bandaríska svikahrappsins Bernard Madoff voru frystar meðan mál hans var í rannsókn. Nú verða eignirnar gerðar upptækar þar sem hann hefur verið dæmdur, í 150 ára fangelsi eins og kunnugt er. Kona hans fær þó að halda eftir eignum sem eiga að duga henni til framfærslu.
Hér í Englandi hafa ekki komið upp nein svona stór fjársvikamál svo það er ekki hægt að benda á neinar hliðstæður. En kjarnorkuvopnið er til og það er notað. Lögunum var breytt fyrir nokkrum árum sem gera það að verkum að það er auðveldara en áður að bæði frysta eignir og síðan að gera þær upptækar. Áður var það flókið og seinlegt ferli að fá dómsúrskurð. Nú er þetta aðgerð sem hægt er að fá skorið úr með hröðum og einföldum hætti. Það hefur því haft í för með sér að það er nú orðið algengara að frystingu sé beitt.
Og frysting gildir ekki aðeins eignir sem viðkomandi á þegar frystingu er komið á heldur eignir sem hann fær eftir það. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir að viðkomandi hafi minnsta möguleika á að selja eða eiga önnur viðskipti með eignir sem grunur er á að séu annaðhvort fengnar með sviksamlegum hætti eða eigi að fara upp í gjaldþrotakröfur eða aðrar kröfur.
Það sem menn hérlendis verða að taka með í reikninginn er að eignir þeirra geta verið frystar meðan mál eru í rannsókn. Þeir geta því vel átt von á því að einn góðan veðurdag birtist fulltrúar laganna og taki eignir eins og bíla, loki bankareikningum og öðrum aðgangi að eigum. Saksóknari þarf aðeins að færa rök fyrir að eignirnar séu hugsanlega afrakstur ólöglegrar starsemi. Þau rök þurfa ekki að vera jafn veigamikil og forsendur sem eru notaðar í rétti.
Eins og áður er nefnt eru engin stór fjársvikamál hér sem gætu verið hliðstæður mála sem hugsanlega gætu komið upp á Íslandi. Serious Fraud Office, stofnunin sem rannsakar viðamikil efnahagsafbrot, nýtir óspart frystingu eigna þar sem það þykir eiga við.