Færsluflokkur: Fjölmiðlar
17.4.2009
Spaugstofan
Ég sakna Spaugstofunnar sárt og skil ekki af hverju hún hætti svona snemma í ár. Mánuði fyrr en árið 2008 þótt kosningar séu fram undan og gott hefði verið að hafa þá til að skerpa á hlutunum. Hér er viðtal DV við Karl Ágúst frá 8. apríl sl. þar sem hann tjáir sig meðal annars um vinnu við þættina í vetur.
Kveðjulagið Yfir til þín 26. apríl 2008
Kveðjulagið Yfir til þín 28. mars 2009
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.4.2009
Okkur vantar Kompás aftur
Ég hef oft minnst á nauðsyn þess að efla fjölmiðlana og styðja betur við bakið á sjálfstætt þenkjandi fjölmiðlafólki sem þorir að taka á erfiðum málum og stunda rannsóknarblaðamennsku. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Í þeim ósköpum sem dunið hafa yfir þjóðina þurfum við enn frekar en nokkru sinni á öflugum fjölmiðlum og góðu fjölmiðlafólki að halda. Þess í stað hefur verið skorið niður og - eins og ég nefndi t.d. hér - margt reynslumesta fólkið rekið og óreyndum, illa talandi og óskrifandi ungmennum haldið eftir. Á þessu eru þó heiðarlegar undantekningar.
Ég sakna Kompáss mjög. Þótt margt hafi örugglega mátt gagnrýna í efnistökum og umfjöllun þeirra Kompássmanna var ótalmargt líka framúrskarandi og þeir tóku á ýmsum málum af fagmennsku og festu. Upplýstu, fræddu og komu við kaun. Sú ákvörðun 365 miðla að hætta með þáttinn og reka þáttagerðarmenn rúmum 3 mánuðum eftir hrun er fullkomlega óskiljanleg. Nánast ósiðleg.
En eins og fram kom í Spjallinu með Sölva við Kompássmenn um daginn eru þeir enn að vinna að málum. Hafa bara ekki fundið þættinum stað ennþá. Ekki fundið kaupendur að honum enda ekki um auðugan garð að gresja í fjölmiðlaflórunni - aðeins tvær sjónvarpsstöðvar koma til greina eftir brottreksturinn af Stöð 2. Spurning um netið... en svona vinna kostar peninga og hver vill borga - eða getur það?
Ég ætlaði að vera löngu byrjuð að birta brot úr Spjallinu með Sölva á Skjá einum en hef lent í endalausum hremmingum með þáttinn. Fyrst í upptökuferlinu, síðan úrvinnslunni og nú síðast harðneitaði eitt forritið að vista skrána þegar búið var að klippa hana. Ég þurfti að gera allt upp á nýtt í öðru forriti. Endalausar hindranir en lærdómsríkar. Nú vona ég að þetta sé komið.
Annars finnst mér Spjallið alls ekki hafa hlotið þá athygli sem það verðskuldar. Auðvitað getur fólk sett út á hitt og þetta og sitt sýnist hverjum um val á viðmælendum. En á heildina litið er þetta mjög fínn þáttur og vel þess virði að horfa á hann. Svo eru allir svona þættir afskaplega góðar, sagnfræðilegar heimildir.
6.4.2009
Ærandi þögn
Ég réðst glaðbeitt á prentmiðlana í morgun og bjóst við safaríkri umfjöllun í Fréttablaðinu eða Mogganum um Michael Hudson og John Perkins. Ekki átti ég von á löngum viðtölum, þau þarfnast meiri tíma og úrvinnslu. En í ljósi þess hvað mennirnir sögðu í Silfrinu í gær bjóst ég við einhverjum viðbrögðum. Að ráðamenn þjóðarinnar væru spurðir út í fullyrðingar þeirra - eitthvað. Af nógu var að taka. Ég sá enga umfjöllun á vefmiðlunum eftir þáttinn í gær, nema RÚV. Svo sá ég að Rakel og Birgitta höfðu skannað vefmiðlana eins og þær segja frá á bloggum sínum.
En ég varð fyrir miklum vonbrigðum með Fréttablaðið og Moggann (DV kemur ekki út á mánudögum).
Þar með var sú umfjöllun upptalin. Þunnur þrettándinn þar. Hvort það eiga eftir að koma viðtöl við Hudson og Perkins í þessum blöðum veit ég ekki, en ég ætla rétt að vona það. Orð þeirra í Silfrinu voru gríðarlega alvarleg og framtíðarsýnin skelfileg ef rétt reynist.
Ég hef tekið eftir því, að það er allt annar hópur fólks sem les blöðin annars vegar og netmiðla og blogg hins vegar. Það sem birtist í prentmiðlum nær ekki til nethópsins og öfugt. Svo er upp og ofan hver horfir á fréttir og fréttatengda þætti - og Silfrið. Sigurveig Eysteinsdóttir skrifaði athugasemd við síðustu færslu mína sem hljóðaði efnislega svona: Áhugaleysi fólks er mikið. Það kom t.d. kona til mín í heimsókn í kvöld. Hún vissi ekki hvað ég var að tala um þegar ég nefndi efnahagsástandið, Davíð og Landsfundinn. Vissi ekki hvað G20 var og svona mætti lengi telja. Þessi manneskja er ekki vitlaus, gáfuð ef eitthvað er. Hún horfir bara ekki á fréttir eða fréttatengda þætti. Það sem skelfir mig mest er að svo fer þetta fólk í kjörklefann eftir nokkra daga og kýs af gömlum vana.
Eins skelfilega og þetta hljómar á það á við stóran hóp Íslendinga. Allt of margir fylgjast ekki með einu eða neinu, hvernig svo sem það er hægt, og hafa ekki hugmynd um hvað er að gerast í þjóðfélaginu. Hvað sem við hin reynum að upplýsa, benda á og ræða hlutina er stór (?) hluti þjóðarinnar steinsofandi og flýtur þannig að feigðarósi. Við verðum að taka höndum saman og reyna að ná til þessa fólks. Gera því grein fyrir hverjir eru að gera hvað og hvaða flokkar vilja selja okkur í hendur erlendum auðhringum og fjárglæframönnum. Þetta er grafalvarlegt mál og ef við ekki bregðumst við strax getur það orðið um seinan.
Að lokum - mest lesna efnið á DV rétt fyrir hádegi í dag:
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Ég veit ekki hverjir aðrir verða í Silfrinu á morgun, en ég hlakka til að heyra i þessum tveimur.
Rætt er við Perkins í mynd Andra Snæs og Þorfinns Guðnasonar, Draumalandinu, sem frumsýnd verður á þriðjudaginn. Hann tekur einnig þátt í málþingi í Háskóla Íslands á mánudag, sjá hér.
Michael Hudson - sjá einnig þessa grein
3.4.2009
Leikhús fáránleikans
2.4.2009
Hvað er í gangi?
Getur einhver útskýrt fyrir mér hvað þetta á að þýða? Hvers vegna FME reynir að hindra upplýsingagjöf til almennings. Þetta eru upplýsingar um hvernig farið var með peningana OKKAR - hvernig VIÐ vorum svikin og blekkt. Loksins þegar Fjármálaeftirlitið gerir eitthvað þá ræðst það á fjölmiðlamenn sem upplýsa það, sem eftirlitið átti að vera búið að taka á fyrir löngu! Er FME með þessu að þrýsta á stjórnvöld að afnema bankaleynd eða er pólitík á bak við þetta í þeim tilgangi að vernda einhverja? Skilur þetta einhver? Ég geri það ekki. Það er eitthvað öfugsnúið við þetta.
Morgunblaðið í dag - Sjá grein Agnesar hér og hér og Þorbjörns hér
Eyjan í dag - Sjá blogg Egils Helgasonar
Fréttir Stöðvar 2 í kvöld
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
2.4.2009
"Stjórnmálin líða fyrir valdhroka"
Fjölmiðlarnir skipta gríðarlega miklu máli. "Einn djúpstæðasti vandi íslensks lýðræðissamfélags eru fjölmiðlarnir," sagði Vilhjálmur Árnason, heimspekingur og prófessor við Háskóla Íslands. Þetta eru stór orð, en Vilhjálmur skýrir þau og rökstyður prýðilega í viðtali sem Bergljót Baldursdóttir tók við hann og sýnt er á kosningavef RÚV sem vert er að vekja athygli á. Þar kennir nú þegar ýmissa grasa sem fólk ætti að kynna sér og fylgjast svo með.
Bergljót spyr líka í upphafi hvort ekki þurfi eitthvað mikið meira en kosningar til að breytingar eigi sér stað á Íslandi. Góð spurning - og mitt svar er tvímælalaust jú. Það þarf hugarfarsbyltingu, siðferðisbyltingu, miklar atferlisbreytingar hjá almenningi, þingmönnum, í stjórnsýslunni... ja, bara um allt þjóðfélagið. Það þarf líka miklu meiri samlíðun með náunganum, tillitssemi og viðurkenningu á því, að við búum hér öll saman og rassinn á manni sjálfum er enginn gullrass sem sjálfsagt er að hlaða undir á kostnað annarra. Við myndum samfélag sem þarf nú að endurskoða gildismat sitt frá grunni. Og við þurfum margfalt meira aðhald - ekki síst af hendi fjölmiðla.
Í fyrsta bloggi sínu á kosningavefnum segir Óðinn Jónsson, fréttastjóri RÚV, að fréttamenn séu hliðverðir lýðræðisins, hversu flókið, þvælið, tafsamt og þreytandi sem það geti verið. Vonandi bera þeir allir gæfu til að standa sig í þessu Lykla-Péturshlutverki, á hvaða miðli sem þeir starfa. Við hin, sem á þá horfum og hlustum, gerum miklar kröfur til þeirra og reynum að vera sanngjörn. En mig grunar að viðhorf fólks almennt sé margfalt gagnrýnna nú en nokkru sinni áður. Það er gott.
Ég mæli eindregið með þessu viðtali Bergljótar við Vilhjálm Árnason.
Vilhjálmur var líka í Silfrinu 9. nóvember sl.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
31.3.2009
Ólíkt hafast þeir að
Eignarhald fjölmiðla hefur verið mikið rætt og áhrif þess eignarhalds á umfjöllunarefni í miðlunum. Eins og ástandið er í þjóðfélaginu þurfum við bráðnauðsynlega á góðum, heiðarlegum fjölmiðlum að halda sem fjalla á gagnrýninn hátt um það sem aflaga hefur farið, fletta ofan af misgjörðum, svikum, falsi og öllu því sem átti þátt í efnahagshruninu. Mogginn hefur staðið sig ótrúlega vel, sem og ýmsir netmiðlar eins og Smugan og Eyjan. Fréttablaðið/Vísir.is á líka góða spretti og DV hefur verið að gera marga mjög góða hluti. RÚV er svo alveg sérkapítuli og stendur sig einna best í ljósvakafréttamiðluninni með fjölbreytta þætti í útvarpi og sjónvarpi. En ég hef þó á tilfinningunni að sameining fréttastofa útvarps og sjónvarps eigi eftir að slípast betur. Og þótt vefur RÚV hafi lagast mjög vantar mikið upp á að hann sé eins og ég vil hafa hann a.m.k.
Við eigum ógrynni af frábærum blaða- og fréttamönnum sem nú gætu notið sín sem aldrei fyrr ef þeim væru skapaða aðstæður til að vinna og rannsaka mál ofan í kjölinn. Fjöldi reyndra og góðra blaða- og fréttamanna hefur fengið reisupassann á meðan haldið er í ung, óreynd, ótalandi og óskrifandi ungmenni sem varla geta flutt fréttir af öðru en hneykslismálum um Britney Spears, kynsjúkdóm kærasta Parísar Hilton eða afturenda Kirstie Alley. Þetta er nokkuð sem ég skil ekki. Má ég heldur biðja um alvörufréttamenn sem flytja alvörufréttir.
Við höfum tvær sjónvarpsstöðvar, hvora með sinni fréttastofunni og um hálftíma löngum fréttatengdum þætti á eftir fréttum. Sú var tíðin að maður varð var við samkeppni milli Kastljóss og Íslands í dag og jafnvel milli fréttastofanna en sú samkeppni virðist vera - ef ekki dauð þá í dauðateygjunum. Heyrst hefur jafnvel að til standi að leggja fréttastofu Stöðvar 2 niður. Hvort það er af sparnaðarástæðum eða vegna þess að einhverjir stjórarnir haldi að "fólk hafi ekki áhuga" á slíkum óþarfa sem fréttum veit ég ekki.
Ótalin er litla sjónvarpsfréttastofan hjá Mogganum - Mbl-Sjónvarp - þar sem Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, Magnús Bergmann og fleiri vinna vinnuna sína og það frábærlega vel. Ef fréttastofa Stöðvar 2 leggur upp laupana, sem vonandi verður aldrei, mætti stórefla Mbl-Sjónvarp í staðinn.
En tökum dæmi frá í kvöld með innskotum úr Fréttablaðinu og Mogganum. Hvað var efst á baugi og hvernig eru málin meðhöndluð? Höfum í huga að fjölmiðlar eru mjög skoðanamyndandi og margir fá alla sína heimsmynd úr þeim.
Fréttir RÚV
Fréttablaðið
Kastljós - Ríkisskattstjóri um skattaskjól, lagaumhverfi o.fl. Viðtal við Aðalstein Hákonarson hjá RSK frá í desember er hér og desember-Tíundin hér.
Mbl-Sjónvarp - Steingrímur J. um Samson
Rúsínan í pylsuendanum er Ísland í dag. Á meðan aðrir fjölmiðlar eru með vitræna umræðu og upplýsingar sem skipta máli var Ísland í dag með... Já, notalega Nærmynd af Björgólfi Thor, þeim hinum sama og fjallað er með einum eða öðrum hætti um í hinum fjölmiðlunum - en á gjörólíkum nótum. Áður hafa verið sýndar notalegar Nærmyndir af Róberti Wessman og Ólafi Ólafssyni. Er það þetta sem fólk vill sjá, auðjöfrana sem komu okkur á hausinn gljáfægða, pússaða og mærða af vinum og vandamönnum? Eða er það út af þessu sem enginn horfir á Ísland í dag lengur og þátturinn fær ekkert áhorf? Maður spyr sig...
Fjölmiðlar | Breytt 1.4.2009 kl. 01:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
21.3.2009
Skáldið skrifar um Sturlun
Stundum ættu sumir bara að þegja í stað þess að þenja sig og sýna innri auðn. Það á við um manninn sem skrifaði þessa makalausu grein og Skerjafjarðarskáldið Kristján Hreinsson tætir verðskuldað í sig í helgarblaði DV.
1.3.2009
Sölvi spjallar við áhættufjárfesti
Sölvi Tryggvason, sjónvarpsmaðurinn klári sem ég sakna mjög úr Íslandi í dag er kominn með eigin þátt á Skjá einum - Spjallið með Sölva. Þættirnir eru á laugardagskvöldum klukkan 19:55. Annar þátturinn var sendur út í gærkvöldi og þar spjallaði Sölvi m.a. við áhættufjárfestinn Jón Hannes Smárason. Ætli þetta sé almennur þankagangur áhættufjárfesta...?
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)