Færsluflokkur: Fjölmiðlar
28.2.2009
Athyglisverð grein til íhugunar
Ekki get ég nú tekið undir allt sem Gunnar segir hér, en mér finnst þó vert að íhuga ýmislegt sem hann setur hér fram.
Þessu tengt festi ég við hér að neðan brot úr Krossgötuþætti Hjálmars Sveinssonar frá í dag þar sem hann minnist m.a. á grein Gunnars og ræðir við Svan Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, um lýðræðið og hve það er brothætt. Allur þátturinn í samhengi hér þar sem einnig er rætt við Sigrúnu Davíðsdóttur og Einar Mar Þórðarson auk þess sem vitnað er í Biederman og brennuvargana og hliðstæðna við atburði hér.
14.2.2009
Blaðamannaverðlaunin 2008
Mikið svakalega fylgist ég illa með! Hef ekki séð eða heyrt nema smábrot af þessu. Enda DV ekki selt hjá kaupmanninum á horninu mínu - að frumkvæði DV, ekki kaupmannsins. Og ég kaupi aldrei nein tímarit - nema Söguna alla.
En sú umfjöllun sem ég þekki af þessu sem hér er talið - Sigrún Davíðs, Þóra Kristín og RAX og Önundur Páll - eru vel að tilnefningunum komin. Ég bara get ekki tjáð mig um hina því ég þekki það ekki. En samt... mér finnst eitthvað vanta í þetta... En ykkur?
Dómnefnd Blaðamannaverðlaunanna hefur komið sér saman um þrjár tilnefningar í hverjum af hinum þremur flokkum verðlaunanna. Á laugardaginn eftir viku, þann 21. febrúar verður síðan tilkynnt um hverjir verðlaunahafarnir eru í hinum einstöku flokkum, en einn hinna tilnefndu í hverjum flokki fær verðlaunin.
Tilnefningar dómnefndar eru þessar:
Blaðamannaverðlaun ársins 2008
Jóhann Hauksson, DV, fyrir fréttaskrif og umfjöllun um mikilvæg þjóðfélagsmál sem báru vitni um mikil tengsl, reynslu og skilning, og voru iðulega fyrstu fréttum af málum. Dæmi um slíkt voru skrif Jóhanns um samkomulag íslenskra stjórnvalda og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.
Sigrún Davíðsdóttir, RÚV -Spegillinn, fyrir pistla þar sem nýjum hliðum á fjölmörgum málum - m.a. í tengslum við bankahrunið og áhrif þess erlendis - var velt upp og þau sett í nýtt og upplýsandi samhengi.
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, mbl.is, fyrir vandaðar fréttir á mbl.is þar sem hún nálgaðist frumlega málefni líðandi stundar og netmiðillinn var nýttur með nýjum hætti í íslenskri fjölmiðlun.
Rannsóknarblaðamennska ársins 2008
Atli Már Gylfason og Trausti Hafsteinsson, DV, fyrir ítarlega og afhjúpandi umfjöllun um kynþáttafordóma meðal ungs fólks á Suðurnesjum og margvísleg áhrif þeirra.
Brynjólfur Þór Guðmundsson og Erla Hlynsdóttir, DV, fyrir ítarleg og samfelld skrif og greiningu á eftirlaunum ráðamanna og áhrifum eftirlaunafrumvarpsins.
Sigurjón M. Egilsson, Mannlíf og Bylgjan, fyrir vandaðar og ítarlegar greinar um íslenskt efnahagsástand í Mannlífi, þar sem mál voru krufin með ítarlegri hætti en títt er í íslenskum fjölmiðlum. Samhliða stýrði Sigurjón útvarsþætti á Bylgjunni, þar sem íslensk þjóðmál voru í brennidepli.
Besta umfjöllun ársins 2008
Baldur Arnarson, Morgunblaðið, fyrir greinaflokkinn Ný staða í norðri, þar sem farið var yfir þær náttúrufarslegu, efnahagslegu, félagslegu og pólitísku breytingar, sem hlýnun andrúmslofts og breytt staða á norðurslóðum hefur í för með sér.
Brjánn Jónasson, Fréttablaðið, fyrir upplýsandi og vel fram sett skrif um framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þar sem fjallað var um málið og aðdraganda þess.
Ragnar Axelsson og Önundur Páll Ragnarsson, Morgunblaðið, fyrir umfjöllun um virkjunarkosti á Íslandi. Þar voru dregnir fram með öflugri samvinnu texta og mynda kostir og gallar hvers virkjunarkosts um sig og málið sett í skipulagt samhengi.
8.2.2009
Undanfari Silfurs - upprifjun
Á meðan ég er að klippa, vista og hlaða upp Silfri dagsins - sem er óheyrilega tímafrek og seinleg vinna - langar mig að minna á nokkur atriði sem komið hafa fram í Silfrinu áður og tengjast þættinum í dag.
Fyrst er að nefna þetta viðtal Egils við Jón Ásgeir Jóhannesson. Mér er í fersku minni lætin sem urðu vegna þess. Agli var úthúðað fyrir yfirgang, frekju, dylgjur, róg og fleira miður skemmtilegt og margir dáðust að Jóni Ásgeiri fyrir hvað hann var rólegur og kúl. Mikið vatn hefur til sjávar runnið og heilmargt verið upplýst síðan þetta var - 12. október sl. - eða rétt eftir hrunið. Ég er sannfærð um að margir sem áfelldust Egil þá og/eða hrifust af framgöngu Jóns Ásgeirs hafi skipt um skoðun. Ég hafði um þetta nokkur orð á sínum tíma hér.
Jón Ásgeir Jóhannesson í Silfri Egils 12. október 2008
Svo eru það viðtöl Egils við Ragnar Önundarson. Fyrr viðtalið við Ragnar er frá 6. apríl 2008 - fyrir hrun. Seinna viðtalið er úr sama þætti og viðtalið við Jón Ásgeir, eða 12. október - eftir hrun. Greinar Ragnars eru hér - vonandi hef ég ekki misst af neinni.
Ragnar Önundarson í Silfri Egils 6. apríl 2008
Ragnar Önundarson í Silfri Egils 12. október 2008
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.1.2009
Hlutverk fjölmiðla á óvissutímum
29.1.2009
Hvalablástur Kristjáns í Kastljósi
Hvaða skoðun sem maður hefur svosem á hvalveiðum og hinni furðulegu og umdeilanlegu reglugerð sjávarútvegsráðherra á síðustu starfsdögum sínum verður þetta efni að teljast makalaust. Mér leikur forvitni á að vita hvernig Sigmari leið... hvernig honum tókst að halda andlitinu. Kristján er verri en ruddalegasti pólitíkus og ómálefnalegri en ergilegustu sjálfstæðismenn og -konur þessa dagana... nefnum engin nöfn. Ég fann til með Sigursteini. Sennilega hefði ég bara þagað til að mótmæla svona forkastanlegum yfirgangi.
Til gamans má geta þess að í desember sl. var frétt á Vísi um að kjöt af langreyðum sem veiddar voru haustið 2006, rúmum tveimur árum áður, væri loks komið í dreifingu á markaði í Japan. Greinilega roksala í hvalkjötinu - það er bara rifið út. Eða hvað? Ég hef það alltaf á tilfinningunni að hvalveiðileyfi séu gefin út fyrir pyngju örfárra manna, en í þetta sinn bætist hefndarhugur við.
Hvað eru hinir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins að dunda sér við á lokasprettinum?
28.1.2009
Kompássprengjur í Kastljósi
Vonandi hafa sem flestir séð Kastljósið í gærkvöldi. Ef ekki þá er brotið sem ég vísa í hér fyrir neðan. En eins og allir muna var Kompás tekinn af dagskrá Stöðvar 2 sl. fimmtudag, 22. janúar og aðstandendum þáttarins sagt upp störfum um leið og Sigmundi Erni og Elínu, konu hans. Ég hef áður skorað á RÚV að ráða Sölva Tryggvason sem var látinn hætta í Íslandi í dag um áramótin. Ekkert bólar á þeirri ráðningu og ég veit ekki hvað varð um Sölva.
Enn skora ég á RÚV og nú að sýna Kompássþáttinn og jafnvel taka þættina upp á arma sína. Ef með þarf er skorað á væntanlegan menntamálaráðherra að veita fé til RÚV í þeim tilgangi einum saman - og til að efla fréttastofu og rannsóknarfréttamennsku í fréttum og Kastljósi. Ég vil sjá þennan Kompás. Ef ég ætti eintak gæti ég sýnt hann hér.
Lokaorð Kristins Hrafnssonar voru alveg hárrétt: "Maður spyr sig náttúrulega bara um ábyrgðarhlut og ábyrgðarsýn eigenda Stöðvar 2 á þjóðfélagslegt hlutverk og stöðu fjölmiðilsins inni í samfélaginu á þessum ögurstundum sem við lifum á... Að draga þarna úr fréttaþjónustu og draga úr getu Stöðvarinnar til þess að sinna gagnrýnni umfjöllun." Oft var þörf en nú er algjör nauðsyn á að efla allan hlutlausan fréttaflutning og rannsóknarblaða- og -fréttamennsku til að upplýsa þjóðina um sannleikann á bak við efnahagshrunið og kreppuna.
Því verður ekki á móti mælt að ábyrgð fjölmiðla er gríðarleg, jafnvel meiri en starfsfólk þeirra gerir sér almennilega grein fyrir. Ábyrgð þeirra er mikil undir venjulegum kringumstæðum en margföld eins og málum háttar þessa dagana, vikurnar og mánuðina. En hér er Kompás í Kastljósi.
Vísir bar blak af eigendum sínum í gærkvöldi og birti þetta klukkan rúmlega ellefu:
Gömul frétt??? Fimm daga gömul frétt um mögulegan stórþjófnað eða fjársvik og jafnvel landráð sem ekki er búið að taka á - gömul frétt?! Við megum ekki hugsa svona! Þetta er ekki gömul frétt fyrr en málið er upplýst. Og svo er þetta ekki nema hálfsannleikur. Upphæðir eru allt aðrar og margfalt lægri í frétt Stöðvar 2, ekkert er minnst á skattaskjól á bresku Jómfrúreyjum og fleira nefndi Kristinn sem fréttin tekur ekki á eins og heyra og sjá má hér í tilvitnaðri frétt:
Í viðtali seinna í Kastljósi dró Jón Daníelsson í efa að hægt væri að frysta eigur auðmanna og ná í skottið á þeim - sjá hér. Erfitt, flókið, alþjóðlegt vandamál eða eitthvað í þá áttina. Þá spyr ég, því ég er ekki í neinum vafa um að sukkið í bönkunum var ólöglegt: Til hvers er Interpol? Eins og sjá má á þessari síðu kemur Interpol víða við. Bendi sérstaklega á undirsíðurnar Corruption og Financial and high-tech crime.
Undir "Corruption" segir m.a. þetta: "INTERPOL, in partnership with the StAR Initiative, is working towards the recovery and return of stolen assets. This project allows INTERPOL to actively engage national law enforecement bodies in co-ordinated efforts to trace, seize, confiscate and return public funds to victim countries". Ég fann til undarlegrar samsömunar þegar ég las þetta. "Financial and high-tech crimes" tekur m.a. á fjárböðun (money laundering). Var ekki verið að tala um fjárböðun Rússagulls í gegnum Landsbankann á Íslandi í boði rússnesku mafíunnar? Á ekkert að rannsaka það mál?
Ísland er aðili að Interpol. Bað fráfarandi ríkisstjórn þá um aðstoð við að finna peningana okkar? Mun ríkisstjórnin sem er í burðarliðnum gera það? Eða verðum við, almenningur, að senda Interpol póst og fara fram á aðstoð. Líkast til eru þúsundir milljarða í húfi - og okkur munar heldur betur um minna.
Að lokum: Lesið þetta - og takið eftir þessu.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
21.1.2009
Er byltingin hafin?
Ég var að springa af stolti í dag - og svo aftur í kvöld. Er nýkomin heim eftir mótmælastöðu númer tvö. Þetta getum við, Íslendingar! Við erum búin að mótmæla þúsundum saman í 15 vikur. Í dag gerðist eitthvað stórt og mikið. Eitthvað brast sem getur ekki endað með neinu öðru en að ríkisstjórnin fari frá. Annað væri bara algjörlega út í hött. Enn eru þúsundir fyrir framan Alþingi og væntanlega stendur fólk vaktir. Gefið ykkur endilega fram ef þið getið tekið þátt í því.
Inni í Alþingishúsinu sat ríkisstjórn með tindátum sínum og talaði um hvort selja eigi áfengi í matvöruverslunum, vátryggingastarfsemi, greiðslur til líffæragjafa og fleira spennandi - sjá hér. Og forsætisráðherra kvartaði yfir að fá ekki vinnufrið! Á hvaða plánetu ætli hann búi? Ég tók saman fréttaumfjöllun sjónvarpsstöðvanna í dag og kvöld. Þetta er magnað. Og aftur beitti lögreglan efnavopnum af mjög vafasömu tilefni.
Bein útsending RÚV sem hófst klukkan 14:10
Stöð 2 klukkan 17
Morgunblaðið Sjónvarp
Kvöldfréttir Stöðvar 2
Kvöldfréttir RÚV
Kastljós
Morgunblaðið Sjónvarp
Tíufréttir RÚV
13.1.2009
Áskorun til fjölmiðlafólks
Ég er forviða á fjölmiðlum landsins, flestum hverjum. Nú fékk ég í fyrsta sinn að upplifa það, að komast ekki á mótmæla- eða borgarafund vegna veikinda. Varð að sitja heima og treysta á upplýsingar fjölmiðla og fyrst fundinum var hvorki sjónvarpað né útvarpað beint fær maður aðeins eftiráupplýsingar. Hamrað hefur verið á því undanfarna mánuði að góðar, ítarlegar og gegnsæjar upplýsingar til almennings skipti sköpum við að afhjúpa, fræða, skýra og fá þjóðina með í að byggja upp framtíðina.
Skemmst er frá því að segja, að eini miðillinn sem hefur staðið sig sæmilega sómasamlega er RÚV. Í gærkvöldi var bæði sagt frá fundinum í fréttum kl. 19 og 22, sem og viðtal við Robert Wade í Kastljósi. Ekki var minnst á fundinn í hádegisfréttum Bylgjunnar eða kvöldfréttum Stöðvar 2. Ísland í dag fjallaði um Idolið og kjólana á Golden Globe. Kompás fjallaði um krabbamein í hundum. Örsmáar fréttir um að húsfyllir væri í Háskólabíói birtust á mbl.is og visir.is.
Eftir að fundi lauk var ég friðlaus. Í tíufréttum RÚV hafði verið ýjað að sprengjum sem varpað var á fundinum og smátt og smátt, eftir lestur bloggs fundargesta, varð mér ljóst að það var sprengjuregn. Ég þaut milli netmiðlanna en fann smánarlega lítið. Allar aðrar upplýsingar varð ég að fá úr bloggum og tölvupósti. Þetta var á dv.is og þetta á Smugunni. Eyjan birti líka umfjöllun og tengdi í Smuguna. RÚV-vefurinn er dyntóttur í meira lagi og ég komst ekki inn á útvarpsfréttirnar.
Í morgun bjóst ég við ítarlegri umfjöllun prentmiðlanna, Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, um fundinn og allar sprengjurnar sem þar var varpað. En viti menn... Þetta er það eina sem kom um fundinn í Mogganum - engin efnisleg umfjöllun.
Og þessi agnarsmáa klausa var í Fréttablaðinu, sem er örþunnt í dag í stað þess að vera stútfullt af greinum og fréttaskýringum af atburðum undanfarinna daga. Það liggur við að þeir hefðu allt eins getað sleppt þessu alveg. Aumara verður það varla.
Aftur á móti var viðtal við Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur á Morgunvakt Rásar 1 í morgun og RÚV tók fundinn upp og boðaði sýningu á honum eftir tíufréttir á miðvikudagskvöld. Blaða- og fréttamenn fjölmiðlanna eru á nákvæmlega sama báti og við hin - þeim líður eins og okkur. Þeir eru auk þess upp til hópa heiðarlegir, klárir og vilja gera vel. Af hverju láta þeir þagga niður í sér? Hverju er þeim hótað? Hver hótar þeim?
Ég skora á íslenska fjölmiðlamenn og -konur að stíga fram, standa með þjóðinni og sjálfum sér og upplýsa okkur um það sem er að gerast í þjóðfélaginu, á bak við tjöldin og í forarpyttum stjórnmála, stjórnsýslu og fjármála. Láta ekki múlbinda sig lengur. Ráðherra hótaði Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur í gær. Hún sýndi hugrekki, lét það sem vind um eyrun þjóta og lét þjóðinni í té mikilvægar upplýsingar. Ég treysti því að hún standi við orð sín og fylgi þeim eftir. Segi allri þjóðinni sögu sína, ekki bara þeim sem voru í Háskólabíói. Ef allir sem eitthvað vita, bæði fjölmiðlafólk og viðmælendur þess, feta í fótspor hennar með heiðarleika og hugrekki, eigum við von.
Að lokum tek ég ofan minn ímyndaða hatt fyrir RÚV, útvarpi og sjónvarpi.
Viðtal við Robert Wade í Kastljósi
Umfjöllun í RÚV-fréttum um borgarafundinn í gærkvöldi
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Ég er núna fyrst að hraðlesa blöð undanfarinna daga. Það er mikið verk og seinlegt - enda situr það oft á hakanum hjá mér. Slangur af blaðagreinum hér, uppfært slitrótt og af handahófi. Þetta var í laugardagsblaði Moggans - frábær Halldór að venju og pælingar Víkverja dagsins:
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 23:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.1.2009
Lítil hugvekja um lýðræði
Það er í mörg horn að líta á fréttavaktinni þegar hvert stórmálið á fætur öðru skýtur upp kollinum daglega, oft mörg á dag. Alltaf er eitthvað sem fer fram hjá manni og ekki nokkur leið að henda reiður á öllu sem fram kemur í fjölmiðlum, á netsíðum og bloggi. Hjá mér verður alltaf eitthvað út undan og þá helst kannski blöðin. Ég er löngu hætt að geta lesið prentuðu eintökin út af sjóninni og verð að treysta á blöðin á netinu. Þar get ég sjálf stjórnað textastærðinni.
Ég hef klippt út greinar, dálítið handahófskennt þó vegna tímaskorts, og sett inn í myndaalbúm eins og sjá má vinstra megin á síðunni, og búið til séralbúm fyrir ýmislegt. Oft fæ ég ábendingar í tölvupósti sem eru alltaf vel þegnar.
En í gær var pistill í Mogganum eftir Þröst Helgason, blaðamann, sem ég sé ástæðu til að vekja athygli á. Hann fjallar um lýðræði fámennra og fjölmennra þjóða og er skrambi góður.