Færsluflokkur: Fjölmiðlar
Þetta viðtal Þóru Kristínar við Bjarna Harðarson verða allir að sjá. Þarna staðfestir Bjarni almannaróm og það svo um munar og kallar það alvarlega spillingu. Játar sök á sinn flokk, hvað þá annað.
Það var ekki auðmýktinni fyrir að fara hjá Björgvin G. í viðtali í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Gott að fá innslagið þegar Björgvin spurði snúðugt: "Hvaða mál eru það sérstaklega"? Heldur hann að fólk hafi SVONA mikið gullfiskaminni?
Þetta var í tíufréttum RÚV í kvöld - hagur af útrásinni lítill og peningum komið undan í erlend skattaskjól. Ísland, eitt landa, hunsaði tilmæli OECD um herta löggjöf. Skyldi þetta mál tengjast því sem Bjarni var að segja? Reyni svo einhver að segja að ábyrgð stjórnvalda sé léttvæg! Það er ansi aum aðgerð að skipta bara út nokkrum ráðherrum!
Svo var fjallað meira um Reynismál Traustasonar og DV í Kastljósi. Fín eftirfylgni og mikið svakalega var ég sammála Þóru Kristínu - í einu og öllu. Hún glansar í hverju málinu á fætur öðru. Agnes Braga og Sigurður G. ræddu þetta mál líka meðal annarra í Íslandi í dag, sjá hér.
Hér er yfirlýsingin frá Reyni Traustasyni sem þau voru með og vitnuðu í.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.12.2008
Enn eitt upplýsingavígið fallið með skömm
Ég tek undir með Þórhalli hér. Þetta símaviðtal átti fullt erindi við almenning. Ýjað hefur verið að undirlægjuhætti einstakra ritstjóra eða blaðamanna gagnvart eigendum sínum eða öðrum fjársterkum aðilum sem eru í aðstöðu til að skaða þá en engin konkret dæmi komið upp á yfirborðið - fyrr en núna. Mér fannst þetta koma úr hörðustu átt, frá manninum sem hefur talað af kokhreysti um sjálfstæða ritstjórn sína og hvers sonur skrifaði þetta 10. október sl. Eftir fyrri yfirlýsingar er fall Reynis himinhátt og trúverðugleikinn gjörsamlega horfinn. Þetta er þyngra en tárum taki.
Þetta var nefnilega ekkert smámál. Að Sigurjón hafi enn verið með krumlurnar í Landsbankanum á einn eða annan hátt, kippandi í spotta fyrir aðalskuldarana, Jón Ásgeir og Stoðir - það er stórmál sem enginn fjölmiðill hefur ennþá grafið almennilega upp. Hver hótaði Reyni? Hver grátbað Reyni? Ég held ekki að það hafi verið Björgólfur. Frekar Jón Ásgeir, Hreinn, Sigurjón eða... ja, koma fleiri til greina? Eflaust. Hver er/var viðskiptabanki DV eða rekstraraðila þess? Var hótað að gjaldfella lán? Loka sjoppunni? Reynir talar ekki nógu skýrt út um það. En hann verður að gera það. Allra hluta vegna - ekki síst fólksins í landinu. Við VERÐUM að geta treyst einhverjum og það eru ansi fáir eftir. Og ef Reynir gerir alvöru úr þeirri hótun sinni að lögsækja Jón Bjarka og/eða RÚV gengur hann endanlega frá orðstír sínum dauðum.
Og viðbrögð hins óþekkta, grátbiðjandi og hótandi manns bera þess síður en svo merki að þetta sé smámál. Þvert á móti. Þá hefði kannski ekki verið svona hart lagt að ritstjóranum að birta ekki frétt sem áður hafði þó birst á Eyjunni. Hverjir aðrir en Sigurjón, sem Jón Bjarki talaði við í síma, vissu að verið væri að vinna fréttina?
Ég þurfti að vinna í kvöld en hef ekki getað það. Mér hefur verið líkamlega illt, mér er ennþá bumbult og ég er óendanlega sorgmædd. Mér finnst einhvern veginn að allir séu í því að svíkja þjóðina, ljúga að henni og gefa skít í hana. En ekki Jón Bjarki. Ég tek ofan fyrir stráknum - þetta heitir að vera ærlegur og láta stjórnast af sannfæringu sinni. Það mættu fleiri gera, ekki síst þingmennirnir. Ég vona að fleiri blaðamenn feti í fótspor Jóns Bjarka og þeim veitir greinilega ekkert af því að vera með upptökutæki á sér í framtíðinni.
Kastljósið 15. desember 2008 - útskrift af samtalinu er hér
Sýn Henrýs Þórs á málið
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 02:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
15.12.2008
Gjaldþrot sem skiptimynt
Í Kompási kvöldsins á að fjalla um óprúttna aðila sem notfæra sér neyðarástand fólks til að græða. Ég veit ekki meira en fram kemur í þessari stiklu hér að neðan en þetta hljómar ótrúlega. Þátturinn er í opinni dagskrá á Stöð 2 klukkan 19.20.
En ég var að reka augun í frétt á Vísi þar sem lögmaður hótar málssókn ef þátturinn verður sendur út. Ég hef trú á að Kompássmenn láti það sem vind um eyru þjóta. Og ég sé ekki betur en að þetta sé sami lögmaður og varði annan náungann í handrukkunar- og líkamsárásarmálinu sem Kompás fjallaði um nýverið.
14.12.2008
Dagur hins gljáfægða Silfurs
Sunnudagar eru dagar Silfurs sem ég er að horfa og hlusta á í þessum skrifuðu orðum. Þar eru núna þessir líka flottu kverúlantar eins og Þráinn Bertelsson, Magnús Þór Sigmundsson og fleiri þótt þátturinn sé rétt nýbyrjaður.
Þegar ég sá þetta sandkorn í DV fauk í mig í fyrstu en fljótlega rann mér reiðin og mér fannst þetta bara fyndið. Þetta var einmitt þvert á það sem fólk talar og skrifar um þar sem öllum finnst fjarvera "málsmetandi manna" alveg dásamleg. Ég kynnti mér uppruna orðanna "kverúlant" og "málsmetandi" og hló enn meira að DV. Leit síðan yfir þessa færslu Egils og skildi enn betur hvaða hagsmunir voru á bak við sandkornið og var stolt af veru minni meðal kverúlantanna. En ég varð fyrir vonbrigðum með DV því það hefur verið að gera góða hluti. Þetta var ótrúleg lágkúra og eins rangt og frekast gat verið. Annars getur fólk dæmt sjálft - hér er hægt að horfa á allt Silfur vetrarins og meira til.
Tveimur dögum seinna dró DV svolítið í land og hrósaði Agli fyrir Kiljuna. Sagði meira að segja að margir sem koma í Silfrið séu ekki "kverúlantar". Ég varð fyrir vonbrigðum - aftur. Það var nefnilega orðið flott að vera Silfurkverúlant - alveg eins og mótmælaskríll. En allt er í heiminum hverfult.
Henrý Þór hefur skilning á þessu og kom með sína túlkun á tilgangi DV með kverúlantastimplinum á Silfrið og gesti þess. Ég held að hann hafi alveg hárrétt fyrir sér.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.11.2008
Silfur dagsins - hljóð og mynd
Þeir hjá RÚV náðu að laga hljóðið á vefnum rétt áður en Silfrinu lauk í dag. En hvort sem það var þess vegna eða af öðrum ástæðum hef ég aldrei lent í öðru eins klandri og að klippa það og vinna í dag. Þurfti að fara með það í gegnum "endur-indexun" og nota tvær tölvur til að klára vinnsluna. Þau Sigríður Ingibjörg og Gunnar Axel reyndust erfiðust viðfangs en mér tókst að vinna bug á þeim fyrir rest.
Enn hef ég ekki haft tök á að horfa á allt Silfrið en það sem ég er búin að sjá var hreint frábært. Ekki einn einasti stjórnmálamaður. Ég hef sagt það áður og segi það enn - því færri stjórnmálamenn, því betra Silfur. Bendi á færslu Jennýjar í þessu sambandi, hún orðar þetta svo ágætlega. En hér er Silfur dagsins í bútum að venju.
Vettvangur dagsins 1 - Margrét, Gunnar, Haukur Már og Sigríður
Vettvangur dagsins 2 - Sigríður Ingibjörg og Gunnar Axel
Hallbjörn Karlsson
Vilhjálmur Bjarnason
Þorvaldur Gylfason
Gunnar Páll Tryggvason
23.11.2008
Silfur dagsins - í lit
Svona er Silfur dagsins. Nú skil ég betur hvernig heyrnarlausum líður þegar þeir horfa á t.d. beinar útsendingar í sjónvarpi sem er í sjálfu sér fróðlegt. Þeir sem vilja æfa sig enn betur í varalestri geta prófað fréttirnar, Spaugstofuna og Gott kvöld frá í gær hér. Allt hljóðlaust ennþá.
En ég get ekki haft neina skoðun á því sem þarna var sagt því ég kann ekki varalestur. Ég er ekki viss um að þeir hjá RÚV séu búnir að átta sig á því hve margir treysta á útsendingar á netinu því þar virðist ekki vera vefvakt á kvöldin og um helgar.
Vettvangur dagsins 1 - Margrét, Gunnar, Haukur Már, Sigríður
Vettvangur dagsins 2 - Sigríður Ingibjörg og Gunnar Axel
Ég held að það sé tilgangslaust að setja meira inn að sinni. Set þáttinn inn þegar búið er að laga þetta. Þeir mega þó eiga það hjá RÚV að netútsendingar eru ennþá í lit.
Viðbót: Nokkrum mínútum eftir að ég birti færsluna var hljóðið komið á netútsendinguna þannig að síðustu tíu mínúturnar eða svo eru með hljóði. Einnig er komið hljóð á a.m.k. fréttir gærkvöldsins. Ég er mjög þakklát.
_________________________________________
Viðbót 2: Mér barst tölvupóstur kl. 13:41 í dag og ég var rétt í þessu að fá heimild bréfritara til að birta innihald póstsins hér:
Sæl Lára Hanna
Þakka þér kærlega fyrir frábæra bloggsíðu. Þú stendur þig betur en bæði RÚV og 365 til samans.
Ég bý í Asíu og næ nánast aldrei að horfa á íslenskt efni vegna gallaðra útsendinga. Þetta er ömurlegt alveg. Nú þegar Silfrið er í gangi þá get ég séð mynd en fæ ekkert hljóð. Hélt fyrst að þetta væri tölvan mín og fór í bæinn á internetstofu og það var það sama.
Það ganga hamfarir yfir heima og maður er rosalega einangraður svona úti og treystir á RÚV og að þeir geri manni kleift að fylgjast með en svo er ekki. Ég er brjálaður alveg og þetta kostar alveg helling því maður verður að frá fréttir og fær þá símleiðis sem er ekki það sama og geta hlustað og horft.
Ég treysti því að þú framsendir þetta á starfsmenn RÚV. Það eru ömurlegt að ná ekki svona grunnþjónustu á tímum sem þessu. Geturðu gefið mér upp e-mail hjá einhverjum þungavigtarmanni hjá RÚV sem myndi láta sig þetta varða?
Ég veit um fólk sem er að reyna senda póst á kerfisstjóra RÚV víðsvegar úr heiminum til að gera athugarsemd við lélega þjónustu og það fær póstinn strax aftur í hausinn. Maðurinn tekur ekki einu sinni við póstinum!
Hvað er í gangi? Ótrúlega lélegt og til háborinnar skammar.
Friðrik
________________________________________________
Því er við þetta að bæta að RÚV er í miklu fjársvelti og hefur líklega ekki bolmagn til að veita betri þjónustu. Það er stutt síðan þar gekk yfir niðurskurður, uppsagnir og samdráttur. Mér finnst að í svona ástandi sem nú er í þjóðfélaginu sé ekki vanþörf á að efla ríkisfjölmiðilinn og leyfa honum að starfa óáreittum fyrir pólitísku valdi og þrýstingi. RÚV er fjölmiðill allrar þjóðarinnar og yfirvöldum ber að haga málum þannig að hann geti gegnt skyldu sinni gagnvart almenningi.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
21.11.2008
Stórustu pissudúkkur í heimi
Hér er tíu mínútna myndband með viðtali við John Mynderup, blaðamann á Ekstrablaðinu í Danmörku. Hann leiddi lítinn hóp rannsóknarblaðamanna sem fór ofan í saumana á eignamyndun og -tengslum íslenskra fyrirtækja og banka. Blaðið birti svo samantekt sína við lítinn fögnuð þessara fyrirtækja og ráðamanna á Íslandi eins og frægt varð.
Þetta er dæmi um einkaframtak Íslendings sem varði bæði fé og miklum tíma í að kanna mál sem honum fannst vanta umfjöllun um í íslenskum fjölmiðlum. Viðtalið var miklu lengra og vonandi fáum við að sjá meira á einhverri sjónvarpsstöðinni.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
20.11.2008
Spilling á spillingu ofan
Ég renndi yfir Moggann og viðskiptablað Moggans í morgun. Þar kennir ýmissa grasa og ég set hér inn nokkrar greinar sem enginn má missa af og ég mæli með að fólk lesi vandlega. Hve lengi ætla yfirvöld að haga sér svona? Hve lengi komast þau upp með þetta? Þrjár greinar þarf að smella á til að fá læsilega stærð.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 14:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
18.11.2008
Við hverju bjóstu?
Ég glopraði út úr mér í síðustu færslu í gærkvöldi, líklega í bjartsýniskasti, að væntanlega yrði fjallað ítarlega um það sem gerðist á borgarafundinum í gærkvöldi í öllum fjölmiðlum í dag. Af nógu var að taka, því þarna var troðfullt hús af fólki, fjórir frábærir frummælendur, fjölmargir fulltrúar fjölmiðla í pallborði og ótalmargt bar á góma. Þeir landsmenn sem ekki komust á fundinn af einhverjum ástæðum bíða væntanlega í ofvæni eftir fréttum af honum - skiljanlega. Þeir geta ekki upplifað stemmninguna eða spurt spurninga, en það hlýtur að vera hlutverk fjölmiðlanna að miðla til þeirra því sem þarna gerðist.
Í ástandi eins og nú ríkir á landinu þar sem fólk er hrætt, reitt og jafnvel örvæntingarfullt, er mjög mikilvægt að allir fái vitneskju um andann sem þarna ríkti, samstöðuna sem viðstaddir upplifðu, gagnrýnina sem fram kom og viðbrögð við henni. Alveg eins og gerðist á laugardaginn þegar fólk um allt land horfði á beina útsendingu frá fundinum á Austurvelli og grét. Það grét af því það upplifði það sama og við sem þar vorum - mikinn samhug, ljós í myrkrinu og örlitla von. Við þurfum öll á slíku að halda núna og það hlýtur að vera hlutverk fjölmiðlanna að miðla því til allra landsmanna. Vonandi verður bein útsending frá næstu fundum, bæði á Austurvelli á laugardaginn og Háskólabíói á mánudaginn.
Svo eru fjölmiðlar alltaf svolítið sjálfhverfir og hafa gaman af að fjalla um sjálfa sig og hvern annan. Ég bjóst í einlægni við þó nokkuð ítarlegri umfjöllun. En nú er ég búin að leita með logandi ljósi í Mogga og Fréttablaði og þetta hér fyrir neðan er allt og sumt sem ég finn. DV fæst ekki nálægt mér - salan hjá kaupmanninum á horninu mínu þykir víst of lítil til að það taki því að henda þangað blaðabunka svo ég sé það aldrei.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
16.11.2008
Bjarni Harðar í Mannamáli
Bjarni Harðar var í Mannamáli hjá Sigmundi Erni í kvöld. Eftir spjall þeirra var skyndilega klippt á útsendinguna á netinu. Ég minnist þess ekki að það hafi gerst áður á Stöð 2 og er ég þó orðin ansi sjóuð í þessum netútsendingum á báðum stöðvum og hef miklar skoðanir á þeim. En hlustum á Bjarna...