Færsluflokkur: Dægurmál

Ragnar Önundarson í Silfri Egils

Ragnar ÖnundarsonEgill Helgason boðar á bloggi sínu að Ragnar Önundarson verði í Silfrinu á sunnudaginn. Ragnar skrifaði greinaflokk í Morgunblaðið og ljóst er, að þeir sem segja að ástandið sem nú hefur dunið yfir hafi ekki verið fyrirsjáanlegt lásu ekki greinar Ragnars. Hann sá ýmislegt fyrir og reyndi að vara við því - eins og reyndar ýmsir aðrir - en þeir sem höfðu vald til að taka á málunum hlustuðu ekki. Fyrir viku, þegar ég birti eldri viðtöl úr Silfrinu við efnahagssérfræðinga, varð ég vör við að efnahagsmálin horfa allt öðruvísi við fólki nú en bara fyrir mánuði, hvað þá í ársbyrjun. Það er því áreiðanlega mjög fróðlegt fyrir marga að rifja upp greinar Ragnars - eða frumlesa þær.

Ég get ekki annað en vonað að ein af þeim lexíum sem lærast á þeim hamförum sem nú ganga yfir verði sú, að stjórnvöld taki framvegis meira mark á sérfræðingum sem leggja jafnvel mikið á sig til að vara við hvert stefnir. Það hefur vantað talsvert upp á það - og vantar reyndar enn, merkilegt nokk.

Ég safnaði greinunum eftir því sem þær birtust, átti allar nema eina í fórum mínum og setti þær inn í myndaalbúm hér á blogginu. Greinarnar eru 12, hver annarri athyglisverðari. Þær eru listaðar hér á eftir í dagsetningaröð ásamt útdrætti úr hverri grein. Smellið á nafn greinarinnar og haldið áfram að smella þar til læsileg stærð fæst. Ég minni líka á eldra viðtal Egils við Ragnar sem ég birti hér ásamt fleiri viðtölum.

Þjóð án verðskyns er auðlind

Lánakreppan kallar á nýja hagstjórn

 

Þjóð án verðskyns er auðlind - 6.12.07

 

Lánakreppan kallar á nýja hagstjórn - 7.1.08

 

Oftrú á afskiptaleysi

 

Oftrú á afskiptaleysi - 24.1.08

Vöxtur eða þensla

 

 

 

Vöxtur eða þensla? - 18.2.08

 


Neyðaraðstoð við banka?

 

 

Með ósýnilega hönd og blá augu

Neyðaraðstoð við banka? - 4.3.08

 

 

Með ósýnilega hönd og blá augu - 4.4.08

Ósjálfbjarga bankar

 

 

 

Ósjálfbjarga bankar - 15.4.08

Er frjálshyggjan að bregðast?

 

 


Leitin að Nýja sáttmála

Er frjálshyggjan að bregðast? - 4.5.08

 

Leitin að Nýja sáttmála - 31.7.08

 

Frjálshyggja og forréttindi

 

Frjálshyggja og forréttindi - 10.8.08

Að færast of mikið í fang

 

 

 


Um bókstafstrú og mistök í hagstjórn

 

Að færast of mikið í fang - 27.8.08

 

Um bókstafstrú og mistök í hagstjórn - 14.9.08


Viltu verða ríkur? Svona gerum við...

Þátturinn The Greed Game sem sýndur var á BBC nýverið vakti mikla athygli. Í honum er farið yfir aðferðir hinna ofurríku við að græða peninga, ótrúlegar fjárhæðir, aðstöðunni sem þeir hafa skapað sér með aðstoð góðra manna og í hvað þeir eyða peningunum. Þátturinn virðist vera gerður eftir að "efnahagshrunið mikla" hófst og í honum kemur ýmislegt fram sem er fróðlegt að vita. Gera má ráð fyrir að hinir íslensku auðmenn eða "útrásarvíkingar" hafi notað svipaðar aðferðir þegar þeir komu ár sinni fyrir borð um leið og þeir stóðu að hruni íslensku bankanna og  þjóðarinnar allrar.

Lokaorð þáttarstjórnanda eru athyglisverð: "So there are still plenty of opportunities for the super-rich to increase their fortunes. Even though the global financial system is in intensive care and our prosperity is threatened. With the Greed Game still being played, if we're not going to end up losers again, the rules will need to be rewritten." Það sem á undan kom sýndi fram á að þessir menn geta haldið áfram græðgisleiknum nánast  endalaust miðað við þann skort á regluverki sem ríkir. Er ekki rétt að benda íslenskum stjórnvöldum á þetta?

Þátturinn er hér í 7 hlutum svo fólk getur farið rólega í þetta og tekið einn í einu. Neðst er síðan skýringarmynd úr sænsku netblaði sem sýnir a.m.k. hluta eignatengsla íslensku auðjöfranna. Mér finnst nú samt að einhverja og eitthvað vanti inn í þetta net. En hvað varð af þessum mönnum? Geta þeir nokkurn tíma látið sjá sig á landinu framar?

1. hluti

  2. hluti

 

3. hluti

 

4. hluti

 

5. hluti

 

6. hluti


7. hluti

 

 Eignatengsl íslenskra auðmanna


Íslensk þjóðarsál í hnotskurn

Spegill, spegill, herm þú mér...

Íslenska þjóðin er skrýtin skepna. Hún veður áfram í dugnaði; er framsækin, menntuð, nútímaleg, tæknivædd og vinnusöm. Í útlöndum heyrir maður að Íslendingar séu eftirsóttir í vinnu, og það finnst íslensku þjóðinni gott að heyra - eins og allt annað hrós um sjálfa sig.

Það er ekki nóg að fá að vera með hinum þjóðunum í leik og starfi; það er stutt í pirringinn ef Íslendingurinn er ekki bestur í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Íslenska þjóðin stærir sig af landinu sínu; blámanum, hreina vatninu og náttúrufegurðinni, fiskinum og lambinu og öllum framkvæmdunum sem fleyta henni í röð mest velmegandi þjóða heims.

Samt er eitthvað að.

SpegillÍslendingar eiga erfitt með að tjá sig og andmæla sjaldan þegar yfir þá er vaðið. Þeir lúffa fyrir valdinu og þora ekki eða nenna ekki að hafa sig í frammi þegar þeim er innst inni misboðið. Þeir trúa því að glæpur sé ekki glæpur segi valdið það. Þeir gapa af undrun þegar einkabankarnir fá óvart gefin listaverkin þeirra - gera samt ekkert. Þeir hneykslast á dómum í dómskerfinu en hafa ekki döngun í sér til að þrýsta á um breytingar. Þeir vinna eins og vitleysingar og undrast svo þegar óuppalin börn þeirra lenda í hremmingum. Þeir hafa ekki neytendavitund, láta okur og óréttmæta viðskiptahætti yfir sig ganga. Þeir fyrtast við þegar lítið er gert úr heimsfrægum listamönnum þeirra og móðgast yfir því að kona í Alaska skuli ekki vita að forseti Íslands er þjóðhöfðingi. Þeir tala fjálglega og fallega um allt jafnréttið, sem lítið er. Þeir bölva, en eru fljótir að gleyma. Sumir skola mannasiðunum niður með áfengi um helgar, fleygja leikreglum samfélagsins á fylleríi í miðbænum, míga utan í hús og eðla sig í görðum, en mæta keikir og brosandi í vinnuna sem þeir elska á mánudagsmorgni. Ókey, svona erum við bara, er eina andsvarið. Þeir agnúast út í stjórnvöld en kjósa sífellt annað eins yfir sig aftur.

Kannski að kreppan bjargi Íslendingum!

Þetta á maður sennilega ekki að segja í alvöru, en víst er að það þarf eitthvað stórt og mikið til að hrista drómann af íslensku þjóðinni. Hún er eins og brjáluð maskína sem er við það að bræða úr sér en enginn getur gert við, því hún fer svo hratt.

Kannski að kreppan bjargi okkur.Spegill

Getur verið að við höfum haft það of gott? Getur verið að við séum að missa fótanna í taumlausri neysluhyggju og græðgi sem á endanum gefur okkur ekkert annað en streitu, vanlíðan og sljóleika? "Það er ekki mitt að kvarta, ég hef það svo gott," sagði kona við mig um daginn. Jú, gott og vel, en það að hafa það gott er ekki skiptimynt fyrir heilbrigða gagnrýni og almenna meðvitund.

Smám saman þaggar velmegunin niður í okkur, engin óþægindi, takk, ekkert vesen, nægjusemi hvað? skynsemi hvað? vertu ekki með þetta nöldur, við höfum það svo frábært, og erum svo æðisleg - við Íslendingarnir.

Kannast einhver við þennan pistil? Já, einmitt... þetta er pistill Bergþóru Jónsdóttur sem birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 28. september sl. undir fyrirsögninni Íslendingar. Mér fannst hann svo frábær að ég klippti hann út og birti hér. Í síðasta pistli mínum bað ég fólk að lesa þessi skrif Bergþóru aftur... og aftur - og líta svo í spegil. Það gerði ég - bókstaflega. Mér fannst rétt að birta hann í þessu formi líka til vonar og vara - ef einhver skyldi ekki hafa smellt á slóðina og lesið hann - aftur... og aftur.

Hvað erum við tilbúin til að leggja á okkur til að breyta því sem við viljum breyta? Lítum í eigin barm.


Ábyrgð stjórnvalda og þýlund þjóðar

Skjaldarmerki ÍslandsÍslenska þjóðin á að: "Standa saman, slíðra sverðin, þreyja þorrann og góuna, sýna stillingu og yfirvegun, bíta á jaxlinn og bölva í hljóði, hugsa í lausnum en ekki vandamálum, láta ekki hugfallast, styðja hvert annað með ráðum og dáð, bíta í skjaldarrendur, sýna æðruleysi, snúa bökum saman, halda ró sinni, ekki horfa um öxl og leita að sökudólgum, sýna samstöðu..." En síðast en ekki síst megum við ekki bregðast trausti stjórnvalda. Kanntu annan, Gísli Marteinn?

Þessi orð hafa dunið á okkur undanfarna daga í sjónvarpi, útvarpi, blöðum og á bloggsíðum og ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta. Eiginlega er þetta bara fyndið, í það minnsta grátbroslegt. Það er búið að brjótast inn hjá okkur og stela öllu steini léttara, við stöndum eftir berstrípuð - í besta falli á brókinni - en það er ætlast til þess að við þegjum, látum okkur bara hafa það og brosum í gegnum tárin. Svona eins og þegar við vorum þegnar Danakonungs sem hirti af okkur allt fémætt til að heyja stríð eða byggja hallir á meðan við horfðum upp á börnin okkar svelta heilu hungri og deyja drottni sínum.

Þessi sömu stjórnvöld hafa brugðist þjóðinni hrapallega. Þau nánast gáfu bankana okkar pólitískum vinum sínum, seldu frá okkur m.a. Landssímann með grunnetinu inniföldu og eru nú hægt og bítandi að einkavæða heilbrigðis- og menntakerfið sem forfeður okkar og formæður börðust fyrir með blóði, svita og tárum. Allt í boði frjálshyggjunnar.

Nú heyrist mér stjórnvöld ætla að redda málunum í hvelli með því að fórna framtíð komandi kynslóða, stunda rányrkju Íslenski fáninná orkuauðlindum okkar, fórna náttúrunni, virkja allt sem hægt er eða bara selja allt klabbið úr landi eins og Pétur Blöndal og fleiri hafa stungið upp á. Nú skal gjörnýta orkuauðlindirnar, kýla á nýtt fyllerí í timburmönnunum, og væntanlega verður fólk sem kemur til með að berjast gegn eyðileggingunni og rányrkjunni með kjafti og klóm kallað landráðamenn. Það kæmi mér ekkert á óvart. Við eigum nefnilega að slíðra sverðin og láta allt sem stjórnvöldum dettur í hug yfir okkur ganga. Nú á aldeilis að nota tækifærið á meðan þjóðin er eins og barinn harðfiskur og sjálfsagt er einhverja farið að klæja í loðna lófana.

Framsóknarflokkurinn ber fulla ábyrgð á þessum ósköpum ásamt Sjálfstæðisflokknum eftir 12 ára stjórnarsetu þrátt fyrir kolryðgaða geislabauga Guðna og Valgerðar sem þau grófu upp á einhverju saggafullu háalofti og nú virðist Samfylkingin hafa slegist í einkavæðingar-, virkjana- og stóriðjuhópinn gagnrýnislaust.

Ég kaupi þetta ekki. Ansi er ég hrædd um að þetta fólk geri það ekki heldur. Eða grunlausir hluthafar bankanna og aðrir, sem fjárfestu ævilangan sparnað en hafa nú misst aleiguna. Stjórnvöld brugðust öllu þessu fólki og líka okkur hinum sem ekkert áttum og missum því ekkert. Þessi kona slapp, enda með góð sambönd. Kannski fleiri sem við vitum ekki um. Láta stjórnvöld rannsaka svona mál? Það efa ég.

Halldór Baldursson - Útsala á orkuFlestir hafa eflaust tekið eftir að í viðtölum við stjórnmálamenn og forkólfa atvinnulífsins undanfarna daga er talað um verðmætar orkuauðlindir okkar, að nú verði að hraða virkjana- og stóriðjuframkvæmdum, Árni Sigfússon er búinn að bretta upp ermarnar og heitir álveri með hraði ef næg orka fæst (les.: Bitruvirkjun verði að veruleika) og Óli Björn Kárason vill láta afnema lög um mat á umhverfisáhrifum. Eins og þau séu undirrót vandans eða komi honum nokkurn skapaðan hlut við! Og ég sem hélt að Óli Björn væri klár strákur.

Þetta sama fólk talar fjálglega um að aðgerðir í efnahagsmálum núna séu aðallega fyrir komandi kynslóðir. Við megum ekki láta þær sitja uppi með skuldir sem þær ráða ekki við en það er tilbúið til að ræna af þessum sömu komandi kynslóðum auðlindum og náttúru landsins síns og rusla upp mengandi stóriðju úti um allar koppagrundir. Þetta heitir á læknamáli að vera kleyfhugi (schizophrenic).

Gerð hafa verið mistök á mistök ofan í efnahagsstjórn landsins en ennþá hefur enginn þurft að taka pokann sinn, hvorki stjórnmálamenn né bankastjórar. Enginn er ábyrgur fyrir blóðsúthellingum heillar þjóðar. Þvílíkur farsi! Hvenær ætla Íslendingar að vakna af sinnuleysisdvalanum og hætta að kyssa vöndinn? Lesum pistilinn hennar Bergþóru aftur... og aftur og lítum svo í spegil.

Ég skal svo sannarlega vera með og leggja mitt af mörkum, en ekki á þessum forsendum.

Svo kom Davíð í Kastljósið í gærkvöldi og fór mikinn eins og honum er Davíð skuggilagið. Var sjálfum sér líkur og ekkert vantaði upp á mælskuna. Hann er einn aðalhöfundur handritsins og hafði a.m.k. einn fínan ráðgjafa við skriftirnar. En nú vill hann lítið kannast við króann, finnst ekki sanngjarnt að hann beri ábyrgð og þótt hann sé minntur á pólitískan feril sinn virðist hann engu að síður líta á sig sem vitran höfðingja á friðarstóli sem horfir með ástúð og dálitlum votti af vorkunn á þegna sína steypa sér í glötun. Hann lemur höfðinu við steininn og þekkir ekki sinn vitjunartíma þrátt fyrir ótal skilaboð frá Íslendingum jafnt sem útlendingum. Nú segist hann hafa varað við þessu en enginn hlustað. Af hverju talaði hann þá ekki hærra eða hrópaði ef þess þurfti? Nógu er hann mælskur, blessaður. Ef hann væri ekki svona blindur á sjálfan sig þætti mér líklega svolítið vænt um hann, þótt ekki sé nema vegna þess hvað hann hefur fylgt mér lengi í lífinu. En ég finn til með honum. Niðurlæging hans verður mikil í sögubókum framtíðarinnar.

Ég skil vel að Davíð sé vonsvikinn. Frjálshyggjan virkaði ekki, hún er gjaldþrota. Fall hennar er stórt. Alveg sama hve hátt Hans hægri hönd, Hannes Hólmsteinn, hrópar á torgum að "Kapítalismi er ekki það sama og kapítalistar". Kjaftæði. "Í draumi sérhvers manns er fall hans falið" orti Steinn Steinarr sem Egill ætlar að fjalla um í Kiljunni í kvöld í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá fæðingu Steins. Draumur Davíðs og Hannesar gekk ekki upp frekar en draumur annarrar útópíu, sósíalismans. Einfaldlega vegna þess að í slíkum útópíum eða hugmyndakerfum er aldrei gert ráð fyrir mannlegu eðli. Ekki frekar en í hagtölum.

Steinn orti líka:

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil
með spekingslegum svip og taka í nefið.

Og allt með glöðu geði
er gjarnan sett að veði.

Og þótt þú tapir það gerir ekkert til
því það er nefnilega vitlaust gefið.

Það var einmitt vitlaust gefið og getið þið hver gaf...


Áfellisdómur að utan

Nú er mikið skrifað og skrafað um viðvaranir allra mögulegra aðila í útlöndum sem reyndu að benda Íslendingum á hvernig komið væri fyrir efnahag þjóðarinnar og hvert stefndi. Þeir voru umsvifalaust úthrópaðir sem öfundarmenn og illgjarnir með afbrigðum. En komið hefur í ljós að flestir höfðu þeir rétt fyrir sér og yfirvöld hefðu betur lagt eyrun við viðvörunum þeirra.

Fyrir rúmum þremur mánuðum, nánar til tekið 2. júlí sl., skrifaði breski hagfræðiprófessorinn Robert Wade grein í Financial Times undir yfirskriftinni "Iceland pays price for financial excess" þar sem hann gagnrýndi óhóf í efnahagsmálum á Íslandi. Hann spáði stjórnarslitum sem enn hafa þó ekki orðið hvað sem síðar verður. Ég skrifaði um þetta lítinn pistil sem sjá má hér.

Meðal annars sagði Wade þá "leiðréttingu" sem nú ætti sér stað afleiðingu hraðrar einkavæðingar og léttvægs lagaramma. Einkavæðingin hafi verið lituð af pólitík, kaupendurnir nátengdir stjórnvöldum en haft lítið vit á bankastarfsemi. Þetta eru blákaldar staðreyndir og sannleikur sem allir vita og hafa fordæmt harðlega - nema þeir sem á því græddu og fylgismenn flokkanna sem að einka(vina)væðingunni stóðu. Er ekki rétt að halda þessu til haga, þótt ekki sé nema til að afstýra því að slíkt gerist aftur?

Hér er frétt RÚV um grein Wades 2. júlí sl.

Þegar Þorfinnur Ómarsson innti forsætisráðherra eftir viðbrögðum við grein Wades í Íslandi í dag 3. júlí sagði hann orðrétt: "Það er bara einhver pólitísk skoðun þessa manns sem skrifar þessa grein og ég er auðvitað ekkert sammála því. Þetta er bara eins og hver önnur aðsend grein í DV eða einhverju slíku blaði." Geir lagði þarna að jöfnu DV og Financial Times. Þetta má sjá og heyra í þessu myndbandi.

Í fréttum Sjónvarpsins í kvöld var viðtal við Robert Wade og hann var myrkur í máli. Ætli einhver vilji hlusta í þetta sinn? Eða metur forsætisráðherra málið þannig að RÚV sé bara gul pressa eða slúðurfjölmiðill með annarlegar hvatir? En kannski var hann bara að hrósa DV með fyrrnefndum ummælum.


Forsætisráðherra ávarpar íslensku þjóðina


Klukkan 16:00 - 6. október 2008

Þorgerður Katrín, Steingrímur J., Guðjón Arnar og Össur

 

Ólafur Ísleifsson, Vilhjálmur Bjarnason og Hreiðar Már Sigurðsson

Beinar útsendingar frá Alþingi hér.


Brotasilfur

Ætli Silfur Egils hafi nokkurn tíma fengið jafnmikla athygli og áhorf og í gær, ég efast um það. En þátturinn er að mörgu leyti á afleitum tíma dags þegar fólk er ekki í "sjónvarpsstellingum". Yfirleitt horfi ég á þáttinn á netinu síðdegis eða undir kvöld - nema núna sem betur fer - því vefur RÚV bilaði og er ekki kominn inn enn þegar þetta er skrifað.

En hvað um það - ég klippti tvö myndbönd úr Silfrinu og reyndi stytta eins og ég gat. Það var úr vöndu að velja. En til þess að brotasilfrið yrði ekki of langt gerði ég sérúrklippu með áhugaverðum gesti, Kristjáni L. Guðlaugssyni. Egill kannaðist greinilega við hann frá fyrri tíð. Ég man ekkert eftir honum en fannst innlegg hans í þáttinn mjög gott og gerði honum ítarlegri skil en öðrum. Jónínu Ben set ég svo inn þegar vefur RÚV verður kominn í lag. Bendi að lokum á fínan pistil Péturs Tyrfingssonar.

Brotasilfrið

 Kristján L. Guðlaugsson



Efnahagsumræða í Silfri Egils

Í framhaldi af síðasta pistli, þar sem hagtölur og hagfræði var til umfjöllunar, fór ég í gegnum nokkra þætti af Silfri Egils frá því fyrr á árinu með það fyrir augum að finna efnahagsumræður við sérfræðinga. Af nógu var að taka og ég klippti út nokkur viðtöl, tvö þeirra hef ég birt áður. Þau eru hér í tímaröð, það fyrsta er frá 24. febrúar og það síðasta frá 7. september.

Það er athyglisvert að hlusta á þetta spjall og bera saman við vangavelturnar í síðasta pistli og ástandið eins og við upplifum það í dag, allt að 7 mánuðum seinna.

Viðmælendur Egils eru Jón Baldvin Hannibalsson, Ólafur Ísleifsson, Ársæll Valfells, Vilhjálmur Bjarnason, Ragnar Önundarson, Þorvaldur Gylfason og Jónas Haralz. Þorvaldur verður aftur í Silfrinu í dag og ég skýt honum væntanlega aftan við síðdegis. Bendi í leiðinni á fjörlega umræðu á bloggsíðu Egils hér.

Síðasta myndbandið er örlítið stílbrot. Það er frá 10. febrúar sl. og þar fjallar Vilhjálmur Bjarnason um kaupréttar- og starfslokasamninga með tilliti til hlutafélagalaga. Mjög áhugaverðar upplýsingar sem þar koma fram.

Jón Baldvin Hannibalsson - Silfur Egils 24. febrúar 2008


 Ólafur Ísleifsson og Ársæll Valfells - Silfur Egils 2. mars 2008



Vilhjálmur Bjarnason - Silfur Egils 16. mars 2008


Ragnar Önundarson - Silfur Egils 6. apríl 2008


Þorvaldur Gylfason - Silfur Egils 13. apríl 2008


Jónas Haralz - Silfur Egils 7. september 2008 - meira hér


Vilhjálmur Bjarnason um kaupréttar- og starfslokasamninga
- Silfur Egils 10. febrúar 2008


Hetjusaga sjálfstæðiskonu

Flestum er sjálfsagt í fersku minni það ægivald sem Davíð Oddsson hafði yfir Sjálfstæðisflokknum um árabil. Og ekki bara Flokknum heldur nánast öllu samfélaginu. Hér ríkti undarlegt hræðsluástand þar sem fólk þorði ekki að tjá skoðanir sínar ef þær voru í einhverju frábrugðnar skoðunum Foringjans. Heilmikið eimir eftir af þessum ótta og kannski hefur hann alltaf verið til staðar í þjóðfélaginu í einhverri mynd.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, er hetja. Í alvöru. Ég tek ofan fyrir henni. Það kæmi mér ekki á óvart að flokkssystkin hennar væru nú græn af öfund vegna dirfsku hennar og vildu nú flest Lilju kveðið hafa. Líklega sagði hún upphátt það sem þau hugsa öll og muldra í barminn.

Á Íslandi er nefnilega hvorki raunverulegt málfrelsi né lýðræði. Ekki þingræði heldur. Ríkisstjórnin ræður öllu og óbreyttir þingmenn eru bara upp á punt. Þeirra þingmál eru látin hverfa, hversu þörf og nauðsynleg sem þau eru. Það á við þingmenn allra flokka, ekki bara stjórnarandstöðunnar. Það er greinilega ekki sama hvaðan gott kemur á Alþingi Íslendinga og fjölmörg þjóðþrifamál eru látin daga uppi í nefndum eða ofan í skúffum. Sumir þingmenn kalla þetta lýðræðishalla. Ég kalla þetta skort á alvöru lýðræði. Svo er smjaðrað grimmt fyrir almenningi (kjósendum) í örfáa mánuði fyrir kosningar, öllu fögru lofað upp í báðar ermar og skálmar líka, en svo má þessi sami almenningur éta það sem úti frýs þess á milli. Það furðulegasta er að alltaf lætur fólk blekkjast - aftur og aftur og aftur - trúir fagurgalanum og kýs yfir sig sömu hörmungarnar þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað - og eyðir svo næstu fjórum árum í að kvarta og kveina. Ég skil þetta ekki.

Ég setti saman stutt myndband með yfirlýsingum gærkvöldsins til heiðurs Þorgerði Katrínu. Í dag er hún hetja í mínum augum. Hún sagði það sem allir hefðu viljað sagt hafa. Og allri alvöru verður að fylgja eitthvert gaman.

 




Viðbót:  Fréttablaðið í dag
 
Fréttablaðið 3. okt. 2008 - bls. 4

Þetta var nú meira rifrildið!

Agnes Bragadóttir og Sigurður G. Guðjónsson rifust hressilega í Íslandi í dag í gærkvöldi og ekki við öðru að búast miðað við deiluefnið og vel kunna afstöðu þeirra beggja. Hér kemur ýmislegt athyglisvert fram.

Og aldrei þessu vant var Einari Kárasyni óvenju mikið niðri fyrir í Mannamáli á sunnudagskvöldið - og hann var fjári góður! Einar fjallaði um fífl og kverúlanta og hvort ólíkar skoðanir væru skammarlegt lýðskrum.



« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband