Óskar Bergsson, Hanna Birna og eiturgufurnar

Eins og allir muna var gerð hallarbylting í borgarstjórn Reykjavíkur í ágúst 2008. Herfang Framsóknarflokksins var Orkuveitan eins og Illugi skrifaði svo skilmerkilega um og ímyndaði sér ferlið. Eitt fyrsta verk nýs meirihluta var að draga upp áætlanir um Bitruvirkjun aftur. Við fengum ekki frið lengi - og náttúran ekki heldur. En smáupprifjun og pistill kom 18. september.

************************************************

"Bitruvirkjun er brjálæði" sagði starfsmaður orkufyrirtækis fyrir nokkrum mánuðum við vinkonu mína - að gefnu tilefni. Hann útskýrði það ekkert nánar, því miður. Fyrir 10 dögum birtist frétt á mbl.is þar sem sagt var frá gróðureyðingu í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar. Í fréttinni er rætt við Sigurð H. Magnússon, gróðurvistfræðing hjá Náttúrufræðistofnun, og hann þykist fullviss um að gróðurinn hafi drepist vegna brennisteinsvetnismengunar frá virkjuninni. Mér þóttu þetta mikil tíðindi, þ.e. að vísindamaður fullyrti eitthvað, því þeir eru svo yfirgengilega orðvarir og varkárir. Ég birti frétt mbl.is og fleira tengt efni, m.a. grein um áhrif loftmengunar á heilsuna, í pistli hér. Umfjöllun um málið á vef Náttúrufræðistofnunar er hér.

Ég grennslaðist svolítið fyrir um Sigurð og í tölvupósti sagði annar varkár vísindamaður um hann: "Sigurður Magnússon hjá NÍ sem viðtalið var við hjá mbl var mjög viss í sinni sök um að þetta væri mengun en ekki t.d. út af veðri. Hann er afskaplega hógvær og nákvæmur vísindamaður og það hvað hann var afgerandi fannst mér athyglisvert." Þetta staðfesti reynslu mína af vísindamönnum - sem hefur oft pirrað mig því ég vil gjarnan fá ákveðnari svör og álit frá þeim. Hér er frétt mbl.is aftur til upprifjunar:

Það sem kom mér mest á óvart var að hvorug sjónvarpsstöðin sinnti þessari frétt. Fréttastofa Ríkisútvarpsins var með hana í kvöldfréttum sama dag en síðan ekki söguna meir. Þó er þetta stórfrétt og þarf að setja í samhengi við það, að jarðgufuvirkjanirnar á Hellisheiði og Hengilssvæðinu spúa eitri yfir höfuðborgarsvæðið og Hveragerði. Fréttamenn og fréttastjórar verða að átta sig á því, alveg eins og við hin, að verið er að eitra fyrir þeim, börnunum þeirra og barnabörnunum.

Óskar Bergsson Eitt af aðalmálunum þegar nýjasti meirihlutinn hrifsaði völdin í Reykjavík virtist vera að slengja Bitruvirkjun aftur upp á borðið. Ég hef beðið þolinmóð eftir rökum fyrir því feigðarflani en ekki séð eða heyrt nein rök. Engar skýringar, ekkert. Ekki einu sinni orðróm um hvaða hvatir liggja að baki, hvaða verktakar eiga að fá sneið af þeirri orkuköku. Þetta virðist vera svona "afþvíbara" mál hjá Óskari Bergssyni, sem frá upphafi var mótfallinn því að hætta við Bitruvirkjun og rökstuddi það meðal annars svona: "...það er alveg ljóst að ýmsar háhitavirkjanir og ýmsar virkjanir sem við Íslendingar eigum hafa verið heilmikið aðdráttarafl fyrir ferðaþjónustuna og ekki færri ferðamenn sem koma til að skoða það hvernig við nýtum okkar hreinu, endurnýjanlegu orku en líka til þess að sjá og upplifa ósnortna náttúru." Þetta gullkorn lét hann út úr sér á fundi borgarstjórnar 20. maí sl. - orðrétt.

Þetta er náttúrulega bara fíflalegt og þolinmæði mín er á þrotum. Ég krefst Hanna Birna Kristjánsdóttir þess að fá rök og skýringar meirihlutans í borgarstjórn á því, að þrátt fyrir fjölda athugasemda frá almenningi og öðrum, afar neikvætt álit Skipulagsstofnunar á framkvæmdum við Bitruvirkjun og þá staðreynd að jarðgufuvirkjanir valda gríðarlegri og hætturlegri loftmengun (auk annars konar mengunar og náttúruspjalla) - þá vilja þau Óskar og Hanna Birna samt reisa Bitruvirkjun. Það er ekki sannfærandi að Hanna Birna kalli til fjölmiðla og svari alþýðlega í símann hjá borginni á margföldum símadömulaunum með annarri og eitri fyrir borgarbúum með hinni - en haldi því leyndu fyrir fjölmiðlum. Hvort ætli skipti meira máli?

Ég hef skrifað ótal pistla um Bitruvirkjun og fært margvísleg rök fyrir því að ekki eigi að reisa þá virkjun. Bent á spillingu, mútur og annan ósóma sem viðgengst í orku- og virkjanamálunum. Fleiri hafa tjáð sig og mér er minnisstæð athugasemd við mat á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar sem ég fékk leyfi til að birta 7. nóvember sl. Hún er eftir Gunnlaug H. Jónsson, eðlisfræðing, og hljóðaði svona:

"Sem íbúi Árbæjarhverfis geri ég alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir Orkuveitu Reykjavíkur á Hengilssvæði og sérstaklega Bitruvirkjun með eftirfarandi atriði í huga:

1. Loftmengun af völdum brennisteinsvetnis er orðin óásættanleg í Árbæjarhverfi í hægum austlægum áttum vegna athafna Orkuveitu Borholur á Skarðsmýrarfjalli Reykjavíkur á Hengilssvæðinu. Sem dæmi má taka fimmtudaginn 19. september 2006. Undirritaður fór í ferð austur fyrir fjall um kl 18. Þegar ekið var fram hjá Kolviðarhóli barst áberandi brennisteinslykt inn í bifreiðina. Við heimkomu að Árbæjarkirkju um kl 22 var brennisteinsmengunin það megn að undirritaður fékk óstöðvandi hósta er hann gekk fram hjá Árbæjarskóla og er þó ekki með asma eða annan alvarlegan lungnasjúkdóm. Undirritaður hefur heimsótt margar menguðustu stórborgir heimsins, Peking, Los Angeles, Tokyo og London, vann í síldarverksmiðju og við mælingar á hitastigi borhola Hitaveitu Reykjavíkur og háhitahola í Hveragerði á 7. áratugnum fyrir tíma mengunarvarna en þetta er versta loftmengun sem hann hefur upplifað. Þetta mikil loftmengun er óásættanleg fyrir íbúa Árbæjarhverfis og raunar hvern sem er.


2. Þegar ekið var yfir Hellisheiðina blasa við ryðgaðir burðarstaurar raflína Landsvirkjunar. Þetta er eini staðurinn frá Búrfelli að Geithálsi þar sem veruleg tæring hefur orðið á staurunum. Líklegasta orsökin er brennisteinssýrlingur sem berst frá borholum Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta er aðeins ein af mörgum sýnilegum afleiðingum þeirrar mengunar sem fylgir borholum og jarðvarmavinnslu Orkuveitu Reykjavíkur á Hengilssvæðinu.

3. Undirritaður hefur iðulega farið gangandi um Hengilssvæðið og Hellisheiðina og þá einkum á gönguskíðum að vetri til. Gufur úr borholum á svæðinu valda miklum óþægindum og nauðsynlegt er að forðast þau svæði sem gufa frá borholum leikur um. Þessi svæði hafa stækkað ár frá ári.

4. Orkuvinnslan á Hengilssvæðinu er þegar orðin langt umfram náttúrlegt varmastreymi á svæðinu. Það er því gengið á varmaforðann. Þessu má líkja við olíuvinnslu. Orkan á svæðinu mun minnka jafnt og þétt og eftir tiltölulega fáa áratugi mun aflið minnka þannig að virkjanirnar ganga ekki á fullu afli. Fleiri virkjanir munu flýta fyrir því að orkan og aflið minnki. Verði Borholur á Skarðsmýrarfjalli áformaðar 4 virkjanir allar byggðar á svæðinu í tiltölulega lítilli fjarlægð hver frá annarri, 10 km, munu áhrifasvæði þeirra (áhrif á gufu og jarðvatnsþrýsting) skarast og þær keppa hvor við aðra um jarðhitavökvann. Það leiðir til þess að þrýstingurinn minnkar fyrr en ella. Eftir standa fjórar virkjanir með tilheyrandi umverfisspjöllum sem ekki geta framleitt raforku á fullum afköstum. Það þarf að leiða í lög að lágmarksfjarlægð milli jarðvarmavirkjana til raforkuvinnslu sé um 20 km til þess að tryggja að jarðvarminn, orka og afl, endist lengur. Ekki viljum við sitja uppi með tugi af jarðvarmavirkjanalíkum um allt eldvirka beltið frá Reykjanestá að Kelduhverfi eftir öld eða svo. (Djúpboranir gætu leyft fleiri virkjanir).

5. Með því að framleiða þetta mikla raforku nú þegar verður ekki hægt að nýta lághitann (undir 80°C) nema að (litlum) hluta í hefðbundna hitaveitu. Mestum hluta orkunnar um 90% er því kastað út í loftið með kæliturnum. Þetta er sóun á orku sem að öðrum kosti myndi nýtast höfuðborginni og raunar höfuðborgarsvæðinu öllu næstu aldirnar.

6. Meðan endurnýjanleg vatnsorka rennur ónýtt til sjávar er siðferðilega rangt að sóa jarðhita til raforkuframleiðslu í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins með mikilli mengun og umhverfisáhrifum. Jarðhitann má geyma til betri tíma til nota í hitaveitu vaxandi höfuðborgar með raforkuframleiðslu sem búbót og með margfaldri nýtingu á orkunni (90%).

Niðurstaða: Þar til Orkuveita Reykjavíkur hefur ekki sýnt fram á að fyrirhuguð raforkuvinnsla á Hengilssvæðinu sé endurnýjanleg og sjálfbær og sýnt fram á að hún geti dregið verulega úr brennisteinsmenguninni frá því sem þegar er orðið ber skipulagsyfirvöldum og viðkomandi sveitarfélögum að stöðva frekari virkjun jarðvarma á Hengilssvæðinu til raforkuframleiðslu. Heilsa og velferð íbúa höfuðborgarsvæðisins, einkum þeirra er búi austan Elliðaáa, er í húfi."

Ég hef ekkert heyrt frá Gunnlaugi síðan í haust en við upprifjun á Bitruvirkjunarpistlum mínum datt ég aftur inn á bloggið hans og rakst þá á pistil sem hann skrifaði daginn sem nýi borgarstjórnarmeirihlutinn tók við völdum og skutlaði Bitruvirkjun fyrirvaralaust aftur upp á borðið. Pistill Gunnlaugs 21. ágúst sl. hljóðaði svona:

"Jóhannes Zoëga, fyrrverandi hitaveitustjóri, markaði þá stefnu að virkja Hengilssvæðið fyrir hitaveituna og nýta jafnframt háþrýsta gufu til raforkuframleiðslu sem aukaafurð. Með þessu móti nýtist um 90% af varmanum í hitaveituna og um 10% til raforkuframleiðslu. Lítið fer til spillis.

Gunnlaugur_H_Jónsson Á síðustu árum hefur Orkuveita Reykjavíkur markað nýja stefnu þar sem raforkuvinnsla er orðin ráðandi þátturinn í virkjun Hengilssvæðisins. Hitaveitan getur því ekki nýtt allan lághitavarmann og hann fer út í andrúmsloftið um kæliturna. Mestur hluti varmaorkunnar, um 90%, fer til spillis.

Með þessu er verið að eyða þeirri orku sem er í Henglinum á nokkrum áratugum. Eftir situr Orkuveitan með fjórar óstarfhæfar raforkuvirkjanir á Hengilssvæðinu sem minnismerki um skammsýni mannanna og græðgi stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur.

Þrýstingur jarðhitasvæðisins á Nesjavöllum hefur þegar fallið sem nemur meira en 100 metrum og kominn niður fyrir sjávarmál. Þrýstingurinn fellur um tvo metra á ári. Við aukna orkuvinnslu Hellisheiðarvirkjunar mun þrýstingurinn falla enn hraðar. Ef Birtuvirkjun verður að veruleika herðir enn á þrýstifallinu. Þessar virkjanir eru aðeins í 5 km fjarlægð hvor frá annarri og því í raun að nýta sama háhitasvæðið.

Með því að stinga fleiri göt á blöðru fær maður meira loft úr blöðrunni en þeim mun fyrr tæmist blaðran. Sama lögmál gildir um háhitasvæði. Orkan í Hengilssvæðinu er takmörkuð og náttúrulegur varmastraumur úr iðrum jarðar aðeins brot af þeirri vinnslu sem ráðgerð er á Hengilssvæðinu. Rónarnir koma óorði á brennivínið. Það á ekki að tæma flöskuna í einum teig.

Vona að núverandi stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur hugsi lengur en eitt kjörtímabil og dreifi orkuvinnslunni. Næsta jarðvarmavirkjun þarf að vera góðri fjarlægt frá Henglinum, ekki minna en 15 til 20 km gæti látið nærri.

Orkuveitan mætti huga að vatnsaflsvirkjunum. Þær nýta úrkomuna sem annars rennur ónotuð til sjávar á hverju ári en ekki uppsafnaðan varmaforða síðustu alda. Markmið með þessu bloggi er að stuðla að aukinni en skynsamlegri nýtingu orkulindanna."

***********************************************************

Gunnlaugur er greinilega hlynntari vatnsaflsvirkjunum en jarðhitavirkjunum en fer ekki út í umræðuna um fyrir hverja er verið að virkja og í hvaða tilgangi. Það er atriði sem mér finnst skipta mjög miklu máli í allri virkjanaumræðu.


Vor hreina, baneitraða orka

Næstur er pistill frá 9. september 2008 og enn er fjallað um hina "hreinu og endurnýjanlegu" orku í tilefni þess að fréttir bárust af gróðurskemmdum í kringum Hellisheiðarvirkjun. Gróður, sem hafði tekið 1000 ár að myndast, var skemmdur eða dauður eftir 2 ár í námunda við virkjunina. Hengi útvarpsfréttir um málið neðst í færsluna, svo og fréttir um sams konar gróðurskemmdir hjá Svartsengi. Viljum við fara svona með landið okkar?

****************************************************

Þessi stórfrétt birtist fyrst á mbl.is klukkan 13:49 í gær, mánudag. Hún kom í örmynd í fimmfréttum Ríkisútvarpsins en lengri umfjöllun var í kvöldfréttunum klukkan 18 (sjá neðst í færslu). Hvorug sjónvarpsstöðin var með fréttina í gærkvöldi.



Í tengslum við þessa frétt varð ég vör við, bæði á blogginu og í samtölum við fólk, að þetta kom á óvart. Þekking á jarðhita og jarðhitavirkjunum er ekki mjög almenn og því hefur orkufyrirtækjum, virkjanasinnum og stjórnvöldum reynst auðvelt að telja fólki trú um að jarðhitavirkjun sé hrein, endurnýjanleg og jafnvel sjálfbær - en ekki er minnst á hve mikið er virkjað, hve ágengt og hvernig. Þessi fullyrðing er alröng. Lítum á svolítinn fróðleik úr Veðurmolum Sigga storms sem ég klippti saman og birti hér á blogginu mínu í lok apríl sl.



Eins og þarna kemur fram skiptir máli hvort jarðhitinn er á lághita- eða háhitasvæði. Það sem ekki kemur fram er, að það skiptir líka máli í sambandi við efnamengunina hvort gufan er nýtt til að hita upp kalt vatn til húshitunar auk þess að framleiða rafmagn (Nesjavellir - jarðvarmavirkjun) eða hvort eingöngu er framleitt rafmagn í virkjuninni og efnamengaðri gufunni allri sleppt beint út í andrúmsloftið (Hellisheiðarvirkjun - jarðgufuvirkjun). Að auki er nýting jarðgufuvirkjana ekki nema um 12-13% og 87-88% orkunnar fer því til spillis. Það getur engan veginn talist forsvaranleg nýting á verðmætri orku. Ýmsum hugmyndum hefur verið hent á lofti til að nýta umframorkuna en engin orðið að veruleika ennþá.
 
En hvernig getur það gerst að gróðureyðing hjá jarðgufuvirkjun sé að koma upp núna? Var ekki framkvæmt mat á umhverfisáhrifum Hellisheiðarvirkjunar? Jú, vissulega, en eins og lög um mat á umhverfisáhrifum gera ráð fyrir er það framkvæmdaraðilinn sjálfur sem sér um matið og kostar það, og það er honum að sjálfsögðu mikið í mun að ekki komi neitt fram sem hindrað gæti framkvæmdina. Aðilar sem hann fær til liðs við sig gætu síðan fengið hluta af verkefnunum við framkvæmdirnar svo varla eru þeir hlutlausir heldur, eða hvað? Þetta er svo flókið ferli að það hálfa væri nóg. Svo er Skipulagsstofnun nú aðeins álitsgjafi, ekki úrskurðaraðili, svo þótt hún leggist gegn virkjun af umhverfisástæðum eins og raunin varð með Bitruvirkjun er sveitarfélagi/framkvæmdaraðila og öðrum sem að málinu koma í raun í sjálfsvald sett hvort virkjað er eða ekki.

Svo er það hraðinn - allt þarf að gerast svo hratt af því hitt eða þetta sveitarfélagið er búið að eyða svo miklum peningum Hellisheiðarvirkjun í undirbúning sinnar draumaálverksmiðju að það má engan tíma missa í aukaatriði eins og mat á umhverfisáhrifum og slíka endaleysu. Hvað þá að bíða eftir að fram fari heildarmat á téðum umhverfisáhrifum eins og fyrir norðan. Þar er einmitt áætlað að reisa fleiri en eina - kannski fleiri en tvær jarðgufuvirkjanir til viðbótar við Kröflu. Það gæti hindrað áform þeirra ef í ljós kemur við heildstætt mat á umhverfisáhrifum að samlegðaráhrif eitrunar af völdum brennisteinsvetnis gæti deytt gróður og ógnað heilsu stórs hluta Þingeyinga. Annaðhvort gera menn sér ekki grein fyrir þessu eða þeim er alveg sama. Það liggur lífið á að skapa störf þar sem ekkert er atvinnuleysið og innflutt vinnuafl vinnur verkin.
 
Draumur nýja meirihlutans í Reykjavík er að virkja meira, setja Bitruvirkjun aftur á dagskrá. Óskar Bergsson og Hanna Birna kysstust upp á það þrátt fyrir afar neikvætt álit Skipulagsstofnunar á virkjuninni sem varð til þess að hætt var við hana í maí sl. Einnig á að reisa Hverahlíðarvirkjun sunnan þjóðvegar nr. 1 á Hellisheiði. Þá verða saman komnar á mjög litlu svæði þrjár jarðgufuvirkjanir og ein jarðvarmavirkjun sem allar spúa eiturefninu brennisteinsvetni yfir íbúa á suðvesturhorni landsins sem teljast vera um 200.000.
 
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, sem orðinn er einn helsti virkjana- og stóriðjusinni í ríkisstjórninni, ber sér á brjóst í bloggpistli og segir að í grein um jarðhita og umhverfisvernd sem muni birtast í Morgunblaðinu einhvern næstu daga komi fram að þeir hjá iðnaðarráðuneytinu séu alltaf á tánum... Þar er hann að tala um verkefni við rannsóknir á aðferðum til að ná brennisteini úr gufunni. Þessar aðferðir eru ennþá aðeins á tilraunastigi og kannski mörg herrans ár þar til þær verða að veruleika - ef nokkurn tíma. Á meðan er boruð hver holan á fætur annarri og Hengilssvæðið og Hellisheiðin orðin eins og gatasigti eða svissneskur ostur, gróður deyr sem hefur tekið 1000 ár að ná sér upp á ósléttu hrauni og heilsu 2/3 þjóðarinnar jafnvel stefnt í voða með sívaxandi efnamengun.
 
Þessi tafla birtist með grein í Fréttablaðinu 22. febrúar sl. Hér er mæling á brennisteinsvetni í andrúmsloftinu á einu mælingarstöðinni við Grensás um það leyti sem Hellisheiðarvirkjun var gangsett. Tekið skal fram að enginn mælir er annars staðar í borginni, enginn við virkjunina og enginn mælir í Hveragerði sem þó yrði aðeins í 4.600 metra fjarlægð frá suð-austustu borholu Bitruvirkjunar. Miklu nær en mælirinn á Grensás er Hellisheiðarvirkjun.

Brennisteinsvetni - Grensás - 2006
Í greininni  sem um er rætt segir: "Engin heilsuverndarmörk eru til fyrir almenning á Íslandi um brennisteinsvetnismengun og slík mengun er yfirleitt einungis metin á vinnustöðum. Mengunin í Reykjavík hefur þó margoft farið yfir erlend viðmið, til dæmis þau sem eru í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum, og einnig yfir heilsuverndarmörk Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar." Finnst íbúum á höfuðborgarsvæðinu og Hvergerðingum þetta viðunandi? En Þingeyingum? Er fólk almennt sátt við að láta eitra fyrir sér, börnunum sínum og barnabörnunum?
 
Þetta er grafalvarlegt mál sem ég er búin að skrifa talsvert um. Ég nefni í því sambandi pistla eins og þennan, þennan og þennan. Ég nefni líka Spegilsviðtöl í tónspilaranum ofarlega vinstra megin á síðunni, t.d. við Þorstein Jóhannsson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun, Sigurð Þór Sigurðarson, lækni og sérfræðing í öndunar- og atvinnusjúkdómum og ekki síst Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði. Hlustið á þessi viðtöl.
 
Að lokum ætla ég að setja inn grein sem birtist í Morgunblaðinu 14. ágúst sl. og er eftir Pálma Stefánsson, efnaverkfræðing. Pálmi er hér að fjalla um áhrif loftmengunar á heilsuna. Hugsið málið og takið afstöðu áður en það verður of seint.

Pálmi Stefánsson, efnaverkfræðingur

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Áfangasigur og áskorun

Áfangasigur vannst 19. maí 2008 þegar Skipulagsstofnun birti álit sitt á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar. Stofunin lagðist eindregið gegn því. Ekkert hefur breyst síðan í maí 2008. Ekki hefur farið fram nýtt mat á umhverfisáhrifum svo hið gríðarlega neikvæða álit Skipulagsstofnunar stendur enn. Sendið athugasemd í pósti í dag, sjá neðst í færslunni!

*******************************************

Skipulagsstofnun var að birta álit sitt á mati á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar og leggst afdráttarlaust og eindregið gegn byggingu hennar. Þetta eru kærkomin tíðindi - gríðarlega mikilvægur áfangasigur í baráttunni fyrir náttúruperlunni á Ölkelduhálsi og raunar öllu Hengilssvæðinu.

Frá Ölkelduhálsi Þetta ferli er búið að standa lengi yfir. Hengilssíðan var sett upp í lok október sl. og fólk hvatt til að senda inn athugasemdir við mat á umhverfisáhrifum. Sett var Íslandsmet - aldrei áður höfðu borist eins margar athugasemdir við neinni framkvæmd í Íslandssögunni - en athugasemdirnar voru hátt í 700. Skipulagsstofnun flokkaði og taldi þær en sendi síðan til Orkuveitu Reykjavíkur, framkvæmdaraðilans. Upp úr miðjum mars sl. sendi OR síðan lokamatsskýrslu sína til Skipulagsstofnunar sem var að kveða upp álit sitt fyrir stundu.

Skjalið, þar sem Skipulagsstofnun færir rök fyrir áliti sínu er langt, 43 síður. Ég festi það við þessa færslu ásamt matsskýrslunni og umsögnum og athugasemdum sem bárust. Þessi skjöl er einnig hægt að nálgast á heimasíðu Skipulagsstofnunar - hér. Ég ætla aðeins að hafa hér eftir kaflann "Helstu niðurstöður" úr álitinu. Hann hljóðar svo (leturbreytingar mínar):

"Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að bygging Bitruvirkjunar sé ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa Frá Ölkelduhálsi á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Um er að ræða lítt snortið, fjölsótt útivistarsvæði í nágrenni þéttbýlis/höfuðborgarsvæðisins og býr svæðið yfir stórbrotnu landslagi sem m.a. einkennist af fjölbreyttri hveravirkni. Fyrirhuguð Bitruvirkjun myndi breyta landslagsásýnd þessa lítt raskaða svæðis í ásýnd iðnaðarsvæðis.

Skipulagsstofnun telur ljóst að upplifun ferðamanna innan áhrifasvæðis Bitruvirkjunar myndi gerbreytast þegar horft er til umfangs fyrirhugaðra framkvæmda og þeirra ásýndarbreytinga sem þær hefðu í för með sér. Stofnunin telur að í ljósi þess yrði ferðaþjónusta og útivist eins og hún er stunduð í dag samkvæmt framlögðum gögnum ekki lengur möguleg innan áhrifasvæðis virkjunarinnar. Stofnunin telur að ráða megi bæði af umfjöllun í matsskýrslu sem og í umsögnum og athugasemdum að um verði að ræða mikil neikvæð, óafturkræf og varanleg áhrif á ferðaþjónustu og almenna útivist vegna breyttrar ásýndar svæðisins og verulegs ónæðis af völdum hávaða bæði á framkvæmda- og rekstrartíma.

Stofnunin telur að ekki sé gerlegt að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar á framangreinda umhverfisþætti með mótvægisaðgerðum þannig að hún teljist ásættanleg.

Frá Ölkelduhálsi Þá telur stofnunin ljóst að ef litið er til samlegðaráhrifa Bitruvirkjunar með núverandi virkjunum, háspennulínum og fyrirhugaðri virkjun við Hverahlíð á Hengilssvæðið í heild sinni, nái þessi áhrif á landslag, útivist og ferðaþjónustu til enn umfangsmeira svæðis og áhrifin verði að sama skapi umtalsvert meiri og neikvæðari. Skipulagsstofnun telur ljóst að með auknu raski á Hengilssvæðinu fari verndargildi lítt snortinna svæða þar vaxandi.

Varðandi áhrif Bitruvirkjunar á aðra umhverfisþætti þá liggur fyrir að mikil óvissa er um áhrif á jarðhitaauðlindina, áhrif á lofgæði ráðast alfarið af virkni hreinsibúnaðar fyrir brennisteinsvetni sem fyrirhugað er að koma upp og áhrif á grunnvatn ráðast af því að skiljuvatni verði veitt um fóðraðar niðurrennslisholur niður fyrir grunnvatnsborð.

Óvissa er um breytingar á yfirborðsvirkni á áhrifasvæði virkjunar á Bitru. Skipulagsstofnun telur að komi til aukinnar virkni geti það leitt til neikvæðra áhrifa á jarðmyndanir, örverulíf hvera, gróður og smádýralíf.

Reykjavík, 19. maí 2008"

Svei mér ef þetta er ekki næstum eins og afritað upp úr pistlunum mínum á þessu bloggi. Mikið svakalega erum við innilega sammála, Skipulagsstofnun og ég! Og álit þeirra er ekki á neinni tæpitungu - þar er fast að orði kveðið, það er ákveðið og afdráttarlaust.

En baráttunni er engan veginn lokið, athugið það. Í mínum huga hljóta næstu skref að vera þau, að Orkuveita Reykjavíkur hætti alfarið við að reisa Bitruvirkjun og að Sveitarfélagið Ölfus dragi breytingu á aðalskipulagi - þar sem breyta á Bitru/Ölkelduhálssvæðinu í iðnaðarhverfi - til baka. Síðan kæmi til kasta þar til bærra aðila að friðlýsa svæðið.

Það er ástæða til að óska Skipulagsstofnun og þjóðinni allri til hamingju. Það er líka ástæða til að þakka öllum þeim tæplega 700 sem sendu inn athugasemdir við mat á umhverfisáhrifum í haust. Við getum haft áhrif ef við tökum höndum saman og notum samtakamáttinn.

Takið þátt í áskorun á Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagið Ölfus með því að setja inn athugasemd við þessa færslu! 

"Við skorum á Orkuveitu Reykjavíkur að hætta við að reisa Bitruvirkjun og Sveitarfélagið Ölfus að hætta við að breyta svæðinu í iðnaðarsvæði!"

Fréttir Ríkissjónvarpsins í kvöld

 

************************************************

Daginn eftir sló Orkuveita Reykjavíkur áformum um Bitruvirkjun á frest. Hætti ekki alfarið við eins og nú hefur komið í ljós. Munið að athugasemdafresturinn er að renna út - hafið hraðar hendur!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Er þetta spurning um siðferði þegar upp er staðið?

Þegar hér er komið sögu í þessari upprifjun er kominn 15. maí 2008, fresturinn til að skila athugasemdum runninn út og í þessum pistli er sagt frá afhendingu undirskriftarlista, mótmælabréfa og athugasemda í máli og myndum. Aldrei var gefin upp nákvæm tala, en giskað á að athugasemdirnar hafi verið milli 12 og 13 hundruð. Ég hélt áfram að skrifa um virkjanirnar - þessar "hreinu og endurnýjanlegu" - og nú koma fram athyglisverðar upplýsingar frá einum virtasta og reyndasta jarðvísindamanni Íslendinga, Stefáni Arnórssyni, prófessor í jarðefnafræði. Viðtalið sem vitnað er í hengi ég neðst í færsluna og hér er glærusýning úr fyrirlestri sem Stefán hélt í maí sl. um endurnýjanleika orkuauðlindarinnar.  Og hér er önnur glærusýning úr fyrirlestri Þorsteins Jóhannssonar, jarðfræðings og sérfræðings hjá Umhverfisstofnun, um brennisteinsvetnið í útblæstri jarðgufuvirkjana. Er ekki kominn tími til að yfirvöld og sveitastjórnarmenn hlusti á þessa sérfræðinga? En svona hljóðaði pistillinn:

***********************************************

Money makes the world go around... Það er með ólíkindum hvað viss öfl í þjóðfélaginu eru óskynsöm, fyrirhyggjulaus og svífast einskis til að fá sínu framgengt, hvað sem það kostar og hvaða afleiðingar sem það hefur fyrir núlifandi kynslóðir og þær sem á eftir koma - okkur og afkomendur okkar. Engu er eirt, siðferði er hunsað, sveigt fram hjá lögum og reglum með milljarðahagnaðinn að leiðarljósi. Þetta framferði hefur tíðkast lengi í íslensku þjóðfélagi. Fjármagn er vald og vald er fjármagn - eða eins og ég heyrði lítinn gutta segja í leik fyrir nokkrum árum: "Sá sem er ríkastur ræður auðvitað."

Sumir stjórnmálamenn spila með, hagræða og veita nauðsynlega fyrirgreiðslu til að allt gangi nú eins og smurt og sá sem raunverulega valdið hefur fái það sem hann vill og geti hagnast enn meira - því mikið vill alltaf meira. Það virðist vera lögmál. En greiðar eru ekki ókeypis og oft hef ég spáð í hvað hinn greiðasami stjórnmálamaður fái í sinn hlut - eitthvað fær hann, það er ég handviss um. Spilling og mútur? Aldeilis ekki! Það er engin spilling á Íslandi, er það?Kjartan Magnússon

Ég hef alltaf furðað mig á því af hverju Sjálfstæðismenn voru tilbúnir til að leggjast svo lágt sem raun bar vitni til að ná völdum aftur í borginni. Það var eitthvað á bak við þetta, eitthvað stórt sem enn hefur ekki komið fram í dagsljósið. Það er ég sannfærð um. Ég held að möguleg loforð gefin verktaka- og lóðabröskurum eða öðrum hafi ekki ráðið úrslitum. Ég held að það hafi verið Orkuveita Reykjavíkur. Tekið skal fram að ég hef ekkert fyrir mér í því annað en grun... tilfinningu sem ég losna ekki við. Engin skjöl, enga pappíra, engin orð hvísluð í eyra - ekkert. En það fyrsta sem nýr meirihluti gerði var að skipa Kjartan Magnússon formann Orkuveitu Reykjavíkur. Áður en skipað var í nokkrar nefndir var formennskan í OR á hreinu! Og samkvæmt fréttum var Kjartan Magnússon einn aðalhvatamaður valdayfirtökunnar. Hvað lá svona á að komast til valda... ekki í borginni endilega, heldur í Orkuveitu Reykjavíkur? Getur einhver upplýst mig um það?

Spegillinn Ég hlustaði á Spegilinn í gærkvöldi. Hef mikið dálæti á þeim þætti og reyni að missa ekki af honum. Spegillinn er einn af albestu fréttatengdu þáttunum í íslensku útvarpi og vinnubrögð umsjónarmanna vönduð, sama hvað fjallað er um og þeir kalla gjarnan sérfræðinga til skrafs. Fastir umsjónarmenn spegilsins eru fréttamennirnir Friðrik Páll Jónsson, Gunnar Gunnarsson og Jón Guðni Kristjánsson. Mér heyrðist það vera Jón Guðni sem ræddi í gærkvöldi við Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði við Háskóla Íslands um nýtingu jarðhita. Í inngangi viðtalsins sagði Jón Guðni:

"Við fjöllum að lokum um hvernig eigi að nýta jarðvarma - með hámarkshagnað í huga til skemmri tíma litið eða með það í huga að jarðvarminn nýtist komandi kynslóðum eins og okkur. Og hvað vitum við um nýtingarþol auðlindarinnar?"

Þarna er strax komið inn á einn stærsta þáttinn sem keyrir virkjanamálin áfram - græðgina og gróðasjónarmiðin. Hámarkshagnað á eins skömmum tíma og mögulegt er, sama hvað er í húfi og hvaða afleiðingar það hefur. Á vefsíðu Spegilsins stendur þetta um málið:

"Áætlanir um raforkuframleiðslu frá jarðvarmavirkjunum byggjast á Stefán Arnórsson, prófessor takmörkuðum rannsóknum, hugmyndir um að nýta jarðhitasvæði í ákveðinn árafjölda og hvíla þau svo meðan þau jafna sig byggjast á ágiskunum en ekki þekkingu eða reynslu. Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði, telur affarasælast að virkja jarðhitann í smáum skrefum fremur en stórum, ef ætlunin er að varðveita auðlindina, komandi kynslóðum til afnota."

Ég hef gagnrýnt lögin um mat á umhverfisáhrifum, þar sem framkvæmdaraðilinn - í þessu tilfelli Orkuveita Reykjavíkur - sér um matið, fær til liðs við sig ráðgjafafyrirtæki sem getur haft beina hagsmuni af því að virkjunin verði reist og síðan sjá sömu aðilar um að meta athugasemdirnar, þ.e. dæma í eigin máli. Hvorugur aðilinn getur með nokkru móti verið hlutlaus. Ég vil að hlutlausir aðilar sjái um matið á umhverfisáhrifum framkvæmda, t.d. menn eins og Stefán og fleiri sem eiga engra hagsmuna að gæta og geta nálgast viðfangsefnið af þeirri hlutlægni og vísindalegu þekkingu sem nauðsynleg er.

Stefán segir "...að tvö sjónarmið séu ríkjandi um nýtingu jarðvarma. Annað er að nýta hann með hámarkságóða í huga yfir ákveðið tímabil og þá er gjarnan miðað við afskriftatíma mannvirkja sem nýta orkuna. Hitt er að nýta hann með sem næst sjálfbærum hætti þótt full sjálfbærni náist aldrei. Full sjálfbærni þýðir að nýting hefur engin umhverfisáhrif og þannig er ekki hægt að nýta auðlindir í jörðu. Það er hins vegar hægt að hafa það að leiðarljósi, að auðlindirnar nýtist sem lengst - ekki aðeins núlifandi kynslóðum, heldur komandi kynslóðum einnig. Þegar upp er staðið er það siðferðileg spurning hvort sjónarmiðið er haft að leiðarljósi."

Ég lýsi eftir siðferði stjórnarmanna Orkuveitu Reykjavíkur, sveitarstjórnar Ölfuss, borgarfulltrúa í Reykjavík, þingmanna, ráðherra í íslensku ríkisstjórninni og almennings á Íslandi.

Annaðhvort vita menn hjá Orkuveitunni þetta ekki eða þeir loka augunum fyrir því. Kannski er þeim uppálagt að gera það. Í virkjununum á Hengilssvæðinu og Hellisheiði er fyrirhuguð hámarksnýting og áætlað er að unnt sé að nýta jarðhitann þar í ja... segjum 30 til 40 ár. Síðan er sagt að það þurfi að hvíla svæðið á meðan það nær upp jar Borholur á Skarðsmýrarfjalli ðhita að nýju - kannski í önnur 30-40 ár? Það er einfaldlega ekki vitað, en það á SAMT að gera það. Þeir viðurkenna að nýtingin sé ágeng en ætla SAMT að virkja. Í frummatsskýrslu OR og VSÓ um umhverfisáhrif af Bitruvirkjun segir: "Framkvæmdaraðili skilgreinir fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir á Bitru sem ágenga vinnslu en að vinnslustefnan sé engu að síður sjálfbær." (kafli 19.7, bls. 67). Ágeng en engu að síður sjálfbær? Hvernig kemur það heim og saman við það sem Stefán Arnórsson segir í viðtalinu? Endurnýjanleg orka???

Stefán segir að best sé að virkja í smáum skrefum en auðvitað séu það þarfir þeirra sem nýta orkuna sem á endanum ráða virkjanahraðanum. Þar komum við að spurningunni um þörfina. Til hvers þarf að virkja svona mikið? Fyrir hvað og hvern? Álver sem nú til dags eru nánast hvergi reist nema í fátækum þriðja heims ríkjum? Hverja vantar störf í þjóðfélagi sem þarf að flytja inn erlent vinnuafl í tugþúsundatali? Ég er svo treg að ég skil þetta ekki. Getur verið að áherslan sem lögð er á að virkja sem mest og sem hraðast og ganga eins mikið á auðlindina og hægt er sem fyrst tengist á einhvern hátt þeim þrýstingi sem var á Sjálfstæðisflokkinn að ná völdum aftur í Reykjavík og þar með yfir Orkuveitunni? Spyr sú sem ekki veit.

Undir lok viðtalsins kom Stefán inn á mengunina af jarðhitavirkjunum. Borholur á Skarðsmýrarfjalli Hann segir að efnamengun frá virkjunum og umhverfisáhrif þeirra yfirleitt hafi verið mjög vanmetin. Þar sé mest áhersla lögð á að draga úr sjónmengun og jarðraski virkjana á háhitasvæðum en að áhrifin séu engu að síður miklu, miklu víðtækari. Efnamenguninn sé í raun alvarlegust og erfiðust til langs tíma litið - bæði lofttegundir sem eru í jarðgufunni og fara út í andrúmsloftið og eins ýmis efni í vatninu sem geta blandast yfirborðsvatni eða skemmt grunnvatn. Þetta er fyrir utan hljóðmengun og margt, margt fleira. Hrein orka???

Í þessu sambandi minni ég á Hveragerðispistlana mína tvo frá í apríl, þennan og þennan. Þeir fjalla um brennisteinsvetnismengunina frá jarðhitavirkjununum sem verður gríðarleg og hefur áhrif á alla íbúa suðvesturhornsins, mest þó á Hvergerðinga. Ég minni líka á Spegilsviðtölin í tónspilaranum ofarlega til vinstri á þessari síðu - við Þorstein Jóhannssson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun og Sigurð Þór Sigurðarson, lækni og sérfræðing í öndunar- og umhverfissjúkdómum. Viljum við virkilega að þetta gerist við bæjardyrnar hjá okkur sem búum á suðvesturhorni landsins? (Við erum 2/3 landsmanna, gleymið því ekki. Það eru mörg atkvæði á landsvísu þegar þar að kemur.) Hvað knýr þessa menn áfram við að framkvæma í slíkri blindni? Er eftirsóknin eftir auði og völdum svo siðblind að öllu og öllum - ef ég væri nógu dramatísk segði ég landi og þjóð - sé fórnandi fyrir skyndigróða?

Ýmislegt fleira merkilegt kemur fram í viðtalinu við Stefán. Ég setti það í tónspilarann - það er næstefsta viðtalið - og hvet alla til að hlusta vandlega á það. Þarna talar maður með þekkingu og reynslu sem á engra hagsmuna að gæta.

Annars hef ég verið að lesa lög í dag. Það er leiðinlegasta og tyrfnasta lesning sem hugsast getur - en stundum þarf að gera fleira en gott þykir sagði mamma mín alltaf... Wink


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Svo má deigt járn brýna

Ég var svo vitlaus - eða feimin - eða eitthvað - að ég birti aldrei þetta viðtal hér á blogginu. Freysteinn Jóhannsson, nú brottrekinn blaðamaður á Morgunblaðinu, heimsótti mig eina eftirmiðdagsstund, krotaði nokkur orð á blað í löngu spjalli og út kom viðtal sem birtist í sunnudagsblaði Moggans 11. maí 2008. Tveimur dögum áður en skila átti athugasemdum við þá skipulagsbreytingu Ölfuss að gera dásamlegri útivistarparadís að iðnaðarsvæði. Aftur skora ég á fólk að bregðast snöfurlega við og senda inn athugasemd. Fresturinn rennur út laugardaginn 3. október. Tillögur að athugasemdarbréfum eru viðfest neðst í færslunni. Athugasemdir þarf að senda í venjulegum pósti.

(Smellið þar til læsileg stærð fæst.)

Svo má deigt járn brýna - Morgunblaðið 11. maí 2008

 Í liði með landinu


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 2. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband