Afleitar fréttir af frábærum bloggara

Einn af mörgum samfélagsrýnum og gæðabloggurum sem ég hef lesið lengi segist vera hættur að blogga og skýrir ástæður þess í síðasta pistli sínum. Þetta eru afleitar fréttir því ekki veitir af röddum eins og hans, ekki síst nú. Þegar búið er að leggja niður eitt dagblað og sameina hin tvö - eða setja undir sama hatt - verður netið mikilvægari miðill en nokkru sinni og nauðsynlegt að raddir eins og hans heyrist hátt og snjallt. Kveðjupistillinn hljóðar svona:

Bloggari fellur í valinn

11/10 2008 17:41

Ég hef nú haldið úti bloggi á íslensku í nokkur ár, fyrst á ókeypis lénum, en frá 2005 hér á baldurmcqueen.com. Tilgangurinn hefur verið tvíþættur.  Annars vegar viðhald íslenskrar tungu; hins vegar sú von að mjóróma rödd mín gæti, í samsöng með öðrum, breytt einhverju.

Nú er svo komið að ég sætti mig við að seinna markmiðið hefur mistekist.  Jafnvel í dag, þegar þjóðin glímir við alvarlegustu kreppu sem upp hefur komið í lífi flestra, sættir hún sig við að þeir leiði sem valdið hafa mestum skaða. Ekki einn einasti haus hefur fengið að fjúka á Íslandi og hafa þó tilefnin verið fleiri en flestar þjóðir myndu sætta sig við. Það sýnir betur en flest annað að árangur hefur ekki náðst.

Íslensk þjóð er nú stödd á stað sem mér líkar ekki.  Hér á ég ekki við meint gjaldþrot, heldur viðbrögðin við því.  Smátt og smátt hefur djúp samúð breyst í reiðiblandað vonleysi.  Það sætti ég mig ekki við.

Sérstaklega þegar sú reiði hittir fyrir vini sem mér þykir vænt um og þann stóra hluta þjóðarinnar sem fátt vildi annað en lifa hófsömu lífi í fögru landi.

Læt ég nú bloggi þessu lokið; síður en svo í sjálfsvorkunn, heldur töluverðri tilhlökkun.  Nú mun ég nota tímann í að lifa lífinu þar sem ég bý, með mínum ástvinum, laus undan bloggkvöð og lestri íslenskra fjölmiðla.  Þessi vefur mun hugsanlega hverfa - hugsanlega rísa upp með allt öðrum efnistökum.

Íslensk þjóð mun aldrei vakna. 
Ég hef gefist upp.
Kærar þakkir til þeirra sem lásu.
Ég vona menn skilji hví athugasemdum hefur verið lokað á öllum færslum.
Þrasinu er lokið.

_________________________________________________

Mér líst ekkert á að rödd Baldurs McQueen hljóðni en samt skil ég hann mjög vel. Sjálfri líður mér oft einmitt svona og skil ekkert í mér að eyða ómældum tíma og orku í að reyna að vekja, þótt ekki sé nema brot af þjóðinni, af því sinnuleysismóki sem hún hefur legið í allt of lengi. Um þetta fjallar meðal annars þetta og þetta og reyndar flest sem ég hef skrifað og birt á síðunni þetta tæpa ár sem ég hef bloggað.

Kannski fer ég sömu leið og Baldur, fell í vonleysisvalinn og gefst upp - kannski ekki. Þetta er alltaf spurning um í hvað maður vill verja tíma sínum og hversu lengi hægt er að leyfa sér að láta baráttuna bitna illilega á lifibrauðinu.

Ég held að minnsta kosti ennþá í þá von að margar mjóróma raddir geti breyst í öflugan kór og haft áhrif. Ég skora á Baldur að skipta um skoðun og halda áfram að láta rödd sína heyrast. Vonandi taka fleiri undir þá áskorun mína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Sammála ég hef lesið Baldur og kommentin hans inni hjá Agli höfða alltaf til mín.

Voðalega er langt síðan ég hef "séð" þig og heyrt.

Er búið að kippa mér út úr erfðaskránni?

Takk fyrir undanfarna pistla.

Jenný Anna Baldursdóttir, 12.10.2008 kl. 00:17

2 Smámynd: Steingrímur Helgason

Mér þykir nú þetta bara sem að enn ein 'dramaqvínin' hafi sopið eitthvað súrt.

Bloggarar eru sérlega sjálfhverfur skríll, sama af hvaða bloggsetrum þeir stunda sitt mal.

Ég á mér nokkur ágætis lén líka, en ég moggablogga bara um mitt mal, sem að mázke breytir ekki heiminum, enda ekki til þess stofnað.

Þitt bloggerí á mogganum, er hins vegar að hreyfa við fólki & fá það til að hugza um hluti á annann hátt & virkandi, truzd mí.

'snögglega einhver skuggabaldur hvað'

Ef hann nennir ekki, leggzt í vælið, só ?

Aldrei lesið hann, því öngvinn 'Söknuður'.

Steingrímur Helgason, 12.10.2008 kl. 00:49

3 identicon

Sæl Lára Hanna

Vil byrja á að þakka þér fyrir góða pistla, les þig oft og sífellt oftar. Get vel skilið að finnist hlutirnir gerast hægt og stundum næstum hugfallist. En gildir ekki sem fyrr að "oft veltir lítil þúfa þungu hlassi". Ég held að mikilla breytinga sé að vænta í íslensku samfélagi, það er hins vegar kannski of snemmt að biðja alla um að sameinast ákkúrat núna. Meirihluti þjóðarinnar er í "mega sjokki", fyrir nokkrum vikum hélt þjóðin "að við værum ein ríkasta þjóð í heimi, með öfundsverðar langtímahorfur, sterka banka með eitt hæsta eiginfjárhlutfall í heiminum, etc etc etc".

Það er því mikið áfall að komast allt í einu að því að raunveruleikinn er allt annar og ekki bara aðeins annar, heldur allt allt annar. Við verðum að gefa þjóðinni færi á að ganga í gegnum hið eðlilega "sorgar- / áfallaferli", fyrst er afneitun, doði, reiði, etc. En að lokum kemur að tíma uppbyggingar og þá verður fólk eins og þú að vera til staðar og hjálpa til við að vísa veginn. Svo "please hang in there"

Ég hef líka lesið Baldur og fundist hann mjög góður penni með margt gott og þarft að segja. Verð þó að viðurkenna að ekki alveg skilið "ofsa" hans síðustu daga né skil fullkomlega rök hans fyrir að hætta. A.m.k. get ég ekki séð á þeim athugasemdum sem birst á bloggi hans að hann hafi orðið fyrir miklu aðkasti, langt í frá, sjaldan séð athugasemdir sem í raun jafn jákvæðar að upplagi. Flestir aðrir fá mun hærra % hlutfall að skiptum skoðunum í sínar athugasemdir. Svo geri því skóna að hann hafi fengið meira "mótmæli" við sínar skoðanar í athugasemdum annarra blogga sem ekki rekist á.

Og þar sem hann býr erlendis (eins og ég reyndar líka, og við reyndar samlandar) þá sjáum við án efa hlutina í aðeins öðru ljósi en þeir landar okkar sem staddir í miðri hringiðunni og með allt sitt undir. Og á þessum tímapunkti hefði ég kosið sjá aðeins meiri "samhug" og "nærgætni" í skrifum Baldurs, aðeins meiri skilning á að tvær hliðar á öllum málum. Ekki bara breska hliðin og sú íslenska heldur sennilega einhver hlið þar mitt á milli. En þar sem "allur heimur" Íslendinga að hrynja núna en a.m.k. eins og "bara fjármálakerfi" Breta að hrynja þá kannski skiljanlegt að tilfinningarnar hrárri á Íslandi í augnablikinu. En því miður hef ég þá ónotalegu tilfinningu að Bretar munu skilja okkur Íslendinga mun betur áður en yfir lýkur og kannski ekki innan of langs tíma. En ég óska Baldurs innilega góðs gengis, og eins og þú vona að hann hætti við að hætta og komi bara sterkari og öflugri inn og aðstoði við að vísa veginn fram á við.

Baráttukveðjur til allra "heima" og megi allir góðir vættir vaka yfir okkur öllum

AS (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 00:58

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég er nú bara töluvert sammála Steingrími Helgasyni. Hef sjaldan lesið skrif Baldurs og sakna hans ekki mjög. Finnst líka óþarfi að vera að stofna sérstök lén til þess eins að spúa speki sinni yfir saklaust fólk. Moggabloggið hentar mér ágætlega.

Sæmundur Bjarnason, 12.10.2008 kl. 01:19

5 identicon

Sæl Lára Hanna

Ég er einn af mörgum (2235 síðasta sólarhr.) sem les skrif þín reglulega, þó ekki skrifi ég athugasemdir og hef sterkan grun um að síða þín sé mjög áhrifaríkur miðill.

Í skjóli þerrar kreppu sem skollin er á og mun ríkja um óákveðinn tíma, er mjög líklegt að stórsókn hefjist í virkjanir og önnur náttúruspjöll. Framundan er gríðarlega hörð barátta fyrir náttúruvernd. Í þeirri baráttu er nauðsynlegt að hafa verulega öfluga baráttumenn. þú ert einn af þeim.

"kannsi fer ég sömu leið"..... - Ég hrökk í kút þegar ég las þetta. Við náttúruverndasinnar megum alls ekki við því að missa þig úr bloggheiminum og vona svo sannarlega að þú "fallir ekki í vonleysisvalinn og gefist upp". Það má bara ekki ske!

með kveðju og þökkum

sigurvin (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 02:06

6 Smámynd: Páll Gröndal

Kæra Lára Hanna,

Aðeins nokkrar línur og þá helst til þess að stappa í þig stálinu ef svo ólíklega vildi til að þér dytti í hug að fara að hætta blogginu þínu. Þú ert hluti af samvisku þjóðarinnar og rödd þín má aldrei þagna og allra síst þegar illa gengur. Hvert innlegg til vakningar er eins og lítið frækorn og fræ hafa mislangan gerjunartíma og maður veit ekki hvar eða hvenær þau skjóta rótum.

Ég er tiltölulega nýbyrjaður á að fylgjast með bloggsíðum hér á mbl.is og hefi ekki lesið Baldur og get þessvegna ekki saknað hans. Það er leitt að hann skuli hafa ákveðið að hætta, því það er ekki hægt að tapa á þessum vetvangi, s.br. líkinguna með frækornin.

Kominn á áttræðis aldur og búinn að búa hér úti í nær þrjátíu ár og þótt ég hafi nær enga reynslu í skrifum, þá stóðst ég ekki mátinn fyrir stuttu að opna bloggsíðu. Ástæðan var frumvarp til Alþingis sem opna mun leiðina að einkavæðingu á heilsuþjónustu í landinu. Það má aldrei verða! Mér finnst ég skulda gamla landinu mínu og mun því leggja eitthvað pínulítið til málanna með því að upplýsa um hvernig heilsukerfinu hér í USA er háttað og hverskonar afleiðinga megi vænta af einkavæðingu á þeim geira.

Að lokum, þakka þér fyrir vefsíðuna þína. Þú ert samviska þjóðarinnar og rödd þín má aldrei þagna.

Páll Gröndal, 12.10.2008 kl. 02:50

7 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Að fólk sætti sig við sömu stjórnendur. Er eitthvað annað í boði?

Sigurður Þórðarson, 12.10.2008 kl. 08:22

8 identicon

Ég er búin að lesa Baldur og þig daglega frá því í vor. Það hefur verið ómetanlegt að geta fengið svo góðar upplýsingar um það sem var að gerast.

Mér þykir miður að Baldur sé hættur. Það veitir ekki af að hafa svo skelegga málsvara fólksins.

Hugmynd: að einhver opni stórt kaffihús (ekkert fancy), fólk mæti og tali saman. Mæk opinn fyrir alla. Grasrótin þarf vettvang. Það þarf að sýna stjórnvöldum að við látum ekki lengur bjóða okkur hvað sem er. Bloggheimar eru stjórnvöldum ekki nægilegt aðhald.

Rósa (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 09:01

9 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Rósa er með flotta hugmynd.

Mér finnst furðulegt hvað sumir hérna eru fljótir að afgreiða Baldur.  Þó svo þeir hafi ekki lesið hann.  Eins og Rósa segir þá er Baldur einn af þeim sem maður finnur samsömun með.  Ergo: Hann talar mál sem við skiljum og hann er svipaður þér LH, hefur verið óþreytandi málsvari þess sem skiptir máli og allir flokkar (flestir amk.) hafa gleymt að skiptir máli.

Svo er það skortur á heiðarleika í karlasamfélaginu sem ráðið hefur landinu allt of lengi.

Það ganga allir um ljúgandi undir réttlætingarfrasanum: Málið er á svo viðkvæmu stigi að það þolir ekki sannleikann.

Þá segi ég: Er þá ekki betra að þegja.  Minn magi þolir vondan sannleika betur en lygina.  Alltaf.

Jenný Anna Baldursdóttir, 12.10.2008 kl. 09:16

10 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Skil afstöðu Baldurs vel - bloggið og umræðan öll virðist ætla að snúast uppí almenna gremju og skítkast á alla bóga. Það er samt mín trú, að ef e-ð getur komið þjóðinni til bjargar, þá er það einmitt Netið. Nú reynir á almenning að veita Davíð/Geir & Co. og öllu batteríinu stöðugt aðhald á vitrænan og yfirvegaðan hátt.

Þetta er ekki lengur neinn barnaleikur, þetta er FULLORÐINS...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 12.10.2008 kl. 10:02

11 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Hey Lára! Ekkert svona "sömu leið" neitt.

Mér finnst fúlt af Baldri að hætta akkúrat núna.. uppgjöf og ekkert annað. Og hana nú!

Þeir sem vilja breytingar stinga ekki hausnum í sandinn þó á móti blási

Heiða B. Heiðars, 12.10.2008 kl. 10:30

12 Smámynd: Neo

Einn bloggari farinn, annar kemur í staðinn. Ég setti inn mína fyrstu færslu í dag í "Láru Hönnu" stíl

Neo, 12.10.2008 kl. 11:25

13 Smámynd: Neo

Gleymdi hlekknum... http://neo.blog.is/blog/neo/

Neo, 12.10.2008 kl. 11:26

14 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Öll hrökkvum við af og til í vonsleysisgírinn. Nú í vikunni taldirðu í mig kjarkinn og sagðir að við GÆTUM látið rödd okkar heyrast, það væri mjög mikilvægt. Þín rödd er mjög mikilvæg og þú telur einnig kjarkinn í okkur hin með þínum athugasemdum.

Hvað umræddan bloggara varðar þá las ég hann stundum, skil ekki alveg forsendur fyrir því að hætta að láta rödd sína heyrast, ef málið er að málin hér á landi þróist á einhvern hátt öðruvísi en hann hefði viljað, er þá ekki margföld ástæða til að halda áfram? Rödd eins bloggara breytir ekki heiminum en dropinn holar................ gleymum því ekki.

Það er einnig mjög mikilvægt að verða þess áskynja að það er fullt af fólki þarna úti sem hugsar eins og maður sjálfur, það gefur mér mikið. Því er rödd þín Lára gríðarlega mikilvæg, þú þorir að segja það sem margir hugsa og með því að lesa það hjá þér þá eykst okkur hinum þor.

ÁFRAM Lára.

Kristjana Bjarnadóttir, 12.10.2008 kl. 11:50

15 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Kristjana er með þetta.

Jenný Anna Baldursdóttir, 12.10.2008 kl. 11:52

16 Smámynd: Rannveig H

Lára Hanna! Ég er ein af þeim þúsundum sem alltaf les bloggið þitt,ég er einig ein af þeim þúsundum sem finnst þú vandaður penni ,sem finnst þú ein af þeim sem bera af í bloggheimum. Rödd þín er mikilvæg. Það hefur komið tvisvar upp að ég hef lent í ströggli um málefni á mínum vinnustað, í báðum tilfellum hef ég flett upp á blogginu þínu til að sanna kenninguna í báðum tilfellum hafði ég rétt fyrir mér á þinn kostnað.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að það hlýtur að fara mikil vinna í svona vandað blogg,, en ekki hætta þú átt efti að hafa árangur sem erfiði.

Rannveig H, 12.10.2008 kl. 12:19

17 identicon

Ég er hjartanlega sammála þessu með vonleysið, það er ekkert "víkingablóð" eftir í íslendingum nema þá kannski þessum örfáu sem vaða yfir allt sem heitir lýðræði í þessu landi, s.b.r stuðning við innrásina í Írak og yfirtöku Glitnis, og sjálfsagt margt fleira, mér finnst þetta bara standa upp úr á síðustu árum. 

En ég er hrifin að þessu með "grasrótar kaffihús" það yrði mögulega til þess að þeir einstaklingar sem ekki eru flokksbundnir stjórnmálaflokki gætu haft einhver áhrif í þjóðfélaginu.  

Þar af leiðandi =>  Skora ég hér með á íslendinga að koma saman og gera það að prófmáli grasrótar hreyfingarinnar að Davíð Oddson segi af sér sem seðlabankastjóri. 

Takmarka skaðan af stóriðju og virkjanaframkvæmdum við það sem þegar er búið að samþykkja og neita að bæta við, nema í mesta lagi vindmyllum. 

Sýnið hvað í okkur býr sem heitir almenningur en ekki stjórnmálaflokkur X-égogminnrassímínumstól. 

Kveðja,

Katala (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 12:57

18 Smámynd: Einar Indriðason

Þú veist það, Lára Hanna (eða amk þá veistu það núna) ... Þér er bannað að hætta að blogga eins og þú gerir.  Það er full þörf á því sem þú ert að tjá þig um.  Rökföst, og ekkert auðvelt að afvegaleiða þig.  Mátt ekki hætta!

Annars er þetta bara lítið jákvætt innlitskvitt hjá mér.

Einar Indriðason, 12.10.2008 kl. 14:25

19 identicon

Þinna skrifa væri sárt saknað ef þú hættir að blogga.  Það er þörf á þér, ekki hætta.

alva (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 15:09

20 identicon

Ekki er víst að þetta sé rétt hjá Baldri. Gott fólk þarf að láta til sína taka. Ofríkið sækir alltaf á. Jónas hefur lög að mæla:

"12.10.2008
Þrasinu lýkur aldrei
Baldur McQueen er hættur að blogga vegna sinnuleysis þjóðarinnar um velferð sína. Hefur lengi verið einn bezti bloggari tungunnar og jafnframt einn sá vinsælasti. Telur greinilega, að þessu ættu að fylgja áhrif, farið yrði að hugmyndum hans. Ég hef lengri reynslu en Baldur. Skrifaði leiðara í nærri fjóra áratugi og hef síðan bloggað. Er mikið lesinn enn í dag. Samt hef ég aldrei tekið eftir, að ég hefði nein áhrif. Ekki hefur það svælt mig burt af velli. Mér finnst þjóðin vera fremur heimsk og einstaklega þýlynd. Sé samt enga ástæðu til að gefast upp eins og Baldur. Þrasinu lýkur aldrei." 

Rómverji (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 23:13

21 identicon

Sammála þeim sem segja að þú mátt ekki hætta. Það er svo margt áhugavert og lærdómsríkt sem þú skrifar, margt af því hefði ég annars misst af. Hef ekki lesið Baldur en... ekki gefast upp!

Petra Mazetti (IP-tala skráð) 13.10.2008 kl. 10:16

22 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæl Lára Hanna

Við þær aðstæður sem nú hafa skapast þá er það mikilvægasta sem við getum gert hvort fyrir annað næstu vikurnar og mánuðina er að halda áfram okkar striki og halda áfram að gera það sem við höfum verið að gera, hvort sem það er að blogga, fara á líkamsræktarstöðvarnar, fara í bíó og svo framvegis. Framundan eru erfiðir tímar, hugsanlega mjög erfiðir tímar. Fjöldi fólks á um sárt að binda, hér er komin upp staða sem við höfum aldrei lent í áður. Á tímum eins og þessum væri dapurlegt ef vinsælustu bloggararnir fara að henda handklæðinu inn í hringinn og gefast upp. Hinsvegar er ljóst að þú leggur mikla vinnu í þetta blogg þitt og ég skil það vel að það taki í að búa til svona færslur daglega.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 13.10.2008 kl. 18:14

23 Smámynd: H G

þakka þér. Lára Hanna. fyrir alla þá vinnu sem þú leggur í þessa, mjög svo gagnlegu, upprifjun. Þó þetta sé allt grafalfarlegt, get ég ekki annað en brosað útí annað yfir hroka Sigurðar Þorsteinssonar í 'gamalli' athugasemd við skrif þín um fjárfestana sælu.     Ekki er sjánlegt innlegg frá Sigurði hér - þar sem hann viðkennir einfaldlega mistök sín! Lítið um sliíkt!

H G, 25.10.2008 kl. 21:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband