Athyglisvert sjónarhorn

Svend-Aage Malmberg, haffræðingur, er einn þeirra fjölmörgu sem hafa sent inn athugasemd við fyrirhugaðri Bitruvirkjun á Ölkelduhálsi.

Talsmenn Orkuveitu Reykjavíkur tala af fyrirlitningu um að flestar athugasemdirnar séu staðlað bréf sem tekið sé af vefsíðunni www.hengill.nu rétt eins og eitthvað sé minna að marka það. Þeir gera sér augljóslega ekki grein fyrir, að fólk hefði ekki fyrir því að afrita bréfið, skrifa undir það og senda ef það væri ekki sammála því sem í því stendur.

Nokkrir hafa sent afrit af athugasemdum sínum til okkar sem að vefsíðunni standa og þar kennir ýmissa grasa. Ég hef þegar bent á athugasemd Gunnlaugs H. Jónssonar í fyrri færslu. Einnig birtir Sigurður Hr. Sigurðsson sína ljómandi góðu athugasemd á bloggsíðu sinni.

Svend-Aage veitti mér góðfúslegt leyfi til að birta sína athugasemd hér og er sjónarhorn hans mjög athyglisvert.

Reykjavík, 8. nóvember 2007

Málefni:  Hugleiðingar vegna gufuaflsvirkjana á Reykjanesskaganum eins og á Hengilssvæðinu, Hellisheiði, Ölkelduhálsi og víðar.

Reykjanesskaginn í held er merkilegur og einstakur á heimsmælikvarða. Hann er hluti af neðansjávarhrygg, sem spannar öll heimshöfin, og er hvergi jafn sýnilegur ofansjávar og á Íslandi. Hryggurinn er brotabelti á flekaskilum landreks og þannig sérstakur í sinni mynd (jarðhiti, eldvirkni, hraun) og einn bakhjarla þekkingar á jarðskorpunni (landrek). Það var svo seint sem upp úr 1960 að jarðvísindin leiddu það í ljós með nokkuð óyggjandi hætti með mælingum á Reykjaneshrygg suðvestur af Íslandi.

Náttúrumyndanir á Reykjanesskaga eru því merkar á heimsvísu svo ekki sé höfðað til náttúrulegrar fegurðar hans.

Reykjanesskaginn býður þannig upp á einstakt umhverfi, ekki eingöngu fyrir jarðvísindin heldur og fyrir m.a. þéttbýlið í næstu nánd, þar sem læra má að lesa í jarðsögu landsins og njóta útivistar.

Þarna er m.a. að finna skíðaland höfuðborgarinnar (Bláfjöll) og einnig lögformlegan fólkvang (Reykjanesfólkvangur) með ákveðnum nýtingarreglum. Önnur svæði eru á náttúruminjaskrá og skilgreind sem útivistarsvæði á aðalskipulagi Ölfuss (Ölkelduháls, Bitra). Það er því mikið í húfi að vel sé vandað til verka á þessu merka svæði og að mið sé tekið af ásýnd landsins og þeim náttúrumyndunum sem ríkja á Reykjanesskaganum við ásókn í orkulindir landsins og landnám fyrir mengandi stóriðju.
 Flýtum okkur hægt í þeim efnum og stöndum vörð um ómanngerða ásýnd og víðáttur landsins.

Svo má að lokum vitna í nýjan og gamlan draum. Rætt hefur verið um að koma þeim hluta Reykjanesskagans sem liggur út í sjó - Reykjaneshryggur - á heimsminjaskrá UNESCO. Þá vaknar gamall draumur um að tengja hrygginn og fólkvanginn á Reykjanesskaga við þjóðgarðinn á Þingvöllum á einn eða annan hátt. Það væri nú aldeilis stórkostlegt.

Svo mörg vor þau orð.

Þegar þetta er skrifað eru ennþá rúmir þrír klukkutímar þar til frestur til að skila inn athugasemdum við fyrirhugaða Bitruvirkjun rennur út.

Farið inn á hengill.nu
og skoðið leiðbeiningar um hvernig og hvert senda má athugasemd!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband