Hvað er í gangi á Íslandi í dag?

Ferðaþjónusta á Íslandi er stórlega vanmetin atvinnugrein og tekjulind fyrir þjóðina, enda litið á hana af stjórnvöldum sem "hliðaratvinnugrein" og hún geymd í skúffum ráðuneyta hér og hvar í kerfinu. Það vantar mikið upp á að hún sé metin til fjár til jafns við aðrar atvinnugreinar á Íslandi. Samt sem áður er áætlað að hálf milljón erlendra ferðamanna sæki Ísland heim á þessu ári og gjaldeyristekjur af þeim verði um 60 milljarðar króna - sjá færsluna hér á undan um mótmæli Samtaka ferðaþjónustunnar gegn Bitruvirkjun.

Ég man mjög vel eftir því þegar fjöldi erlendra ferðamanna fór fram úr íbúafjölda landsins. Það var árið 2000. Á aðeins 7 árum hefur þeim fjölgað úr 300 þúsundum í 500 þúsund. Það er gríðarleg fjölgun á mjög skömmum tíma. Og af hverju? Kannanir hafa sýnt svo ekki verður um villst að erlendir ferðamenn sækjast fyrst og fremst eftir að upplifa ósnortna náttúru Íslands... víðáttuna... þögnina... hreinleikann... jarðfræðina...  Náttúra Íslands er svo einstök upplifun fyrir íbúa iðnvæddra, fjölmennra ríkja að ef við viðhöldum henni eins ósnortinni og mögulegt er verður hún vaxandi tekjulind um ókomna tíð. Hér tala ég af eigin reynslu sem leiðsögumaður erlendra ferðamanna til margra ára.

Engu að síður keppast menn við að leggja forsendur ferðaþjónustunnar í rúst - ósnortna íslenska náttúru. Og til hvers? Okkur vantar ekki störf, að minnsta kosti ekki hér á stór-suðvesturhorninu. Við þurfum að flytja inn tugþúsundir útlendinga til að sinna þeim störfum sem skapast hafa í ofurþenslunni undanfarin ár. Hvað með öll störfin við ferðaþjónustu sem við fórnum um leið og við fórnum náttúrunni - til að reisa virkjanir - til að afla orku til að keyra álver eða aðra stóriðju - til að veita fleiri útlendingum vinnu? Ætlar enginn að meta þann fórnarkostnað til fjár?

Okkur vantar ekki peninga - við erum með ríkustu þjóðum heims og eins og allir vita sem fylgst hafa með t.d. opnun leikfangaverslana undanfarnar vikur og fréttum um að nýlegir bílar séu settir í brotajárn og nýir keyptir ef smábilun finnst benda til þess að neysluæðið sé orðið gjörsamlega stjórnlaust. Hvar endar þessi geðveiki?

Hver verður arfleifð okkar sem nú lifum? Hverju ætlum við að skila komandi kynslóðum? Hvernig munu afkomendur okkar upplifa ljóð Jónasar Hallgrímssonar - sem við höfum tileinkað einn dag á ári -  og annarra þjóðskálda sem ortu upphafin ljóð um náttúru Íslands? Munu þeir halda að þessir gæjar hafi bara verið á sýrutrippi? Ætlum við að búa þannig um hnútana að börnin okkar og barnabörnin hafi ekki hugmynd um hvað þessi stórskáld voru að yrkja um? Ætlum við að vera búin að ganga svo freklega á allar auðlindir landsins að það verður ekkert eftir handa þeim?

Spyr sú sem ekki skilur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Sæl Lára Hanna

 Það eru fleira en virkjanagræðgi sem að stendur íslenskri ferðaþjónustu fyrir þrifum. Áhrifamáttur annara atvinnugreina virðist vera mun meiri þegar að stjórnvöld taka ákvarðanir um efnahagsmál, atvinnumál og viðskiptamál.  Rakst á góða grein um daginn sem er reyndar ekki um Ísland en um Ermasundseyjarnar sem að hafa barist við erfiðleika í sambýli milli atvinnugreina. Fjármálastarfsemi er ríkjandi grein þar og líkt og við nú erum að upplifa á Íslandi er sambýlið við sístækkandi fjármálageira að hafa truflandi áhrif á aðrar greinar, ekki síst ferðaþjónustu. Ég var að gera könnun meðal erlendra ferðakaupa-aðila (þeir sem senda hingað erlenda ferðamenn frá um 11 löndum og skipta við íslensk ferðaþjónustufyrirtæki) og ein af niðurstöðunum var að þar sem nokkrum fannst að skóinn kreppti í íslenskum ferðamálum var - Ofuráhersla stjórnvalda á stóriðju og virkjanaframkvæmdir sem væru að eyðileggja orðspor Íslands sem náttúruparadísar. Það er auðvitað ekki glæsilegt.

Anna Karlsdóttir, 15.11.2007 kl. 10:40

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Sæl, Anna og þakka þér fyrir þetta innlegg.

Já, það er oftast eins og ferðaþjónustan sé ekki til sem atvinnugrein og lítið sem ekkert tekið tillit til hennar eða höfð hliðsjón af henni þegar verið er að taka afdrifaríkar ákvarðanir. Samt er henni flaggað á tyllidögum.

Orðspor Íslands sem náttúruparadísar er ómetanlegt en það virðist langt í að stjórnvöld átti sig á því.

Lára Hanna Einarsdóttir, 15.11.2007 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband