Löglegt en siðlaust... eða kolólöglegt og siðlaust í þokkabót?

Ég hef ekki endurbirt pistil áður en nú er ærið tilefni. Þennan skrifaði ég í desember sl. og hef sett tengil á hann í nokkrum öðrum pistlum. En þar sem málið er í brennidepli einmitt núna ætla ég að endurbirta þann hluta hans sem felur í sér samning þann, sem ég fjallaði um í síðasta pistli og örlítinn inngang og lokaorð. Fyrirsögn pistilsins er sú sama og á þessum. Athugasemdirnar sem um er rætt í lokaorðum eru athugasemdir við mat á umhverfisáhrifum. Þær athugasemdir sem fólk er hvatt til að senda inn núna eru við breytingu á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss, annað mál en sama framkvæmd.

Dæmi nú hver fyrir sig hvað honum finnst um að opinbert fyrirtæki í meirihlutaeigu skattgreiðenda í Reykjavík geri slíka samninga um "fyrirgreiðslu". Ólæsilega rithöndin sem minnst er á mun vera Alfreðs Þorsteinssonar, þáverandi stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur.

Spurning hvort samningurinn misbjóði ekki réttlætiskennd fólks. Hann misbýður að minnsta kosti minni.

----------------------------------------------------------

Hér fyrir neðan er samkomulag það, sem Orkuveita Reykjavíkur og Sveitarfélagið Ölfus gerðu með sér í apríl 2006 þar sem OR kaupir blygðunarlaust samvinnu sveitarstjórnar og loforð þess efnis að framkvæmdaleyfi verði veitt fyrir virkjunum og greitt fyrir flýtimeðferð gegn því að OR kosti ýmsar framkvæmdir í Ölfusi. Samkomulagið er gert löngu áður en lögbundið ferli hófst við umhverfismat og breytingu aðalskipulags sem krafist er við svona miklar framkvæmdir, svo ekki sé minnst á hvað þær eru umdeildar.

Samkomulagið er metið á 500 milljónir króna sem eru greiddar úr vasa Reykvíkinga - þeir eiga jú Orkuveitu Reykjavíkur. Ekki lækka orkureikningar þeirra við það. Matsupphæðin er fengin úr fundargerð Sveitarfélagsins Ölfuss sem sjá má hér undir lið g.

-----------------------------------------------------------------------------


Samkomulag milli Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagsins Ölfuss um ýmis mál sem tengjast virkjun á Hellisheiði

1. grein
Orkuveita Reykjavíkur er að reisa fyrsta áfanga Hellisheiðarvirkjunar og stefnir að enn frekari uppbyggingu orkuvera á Hellisheiði og Hengilssvæðinu.  Um er að ræða framkvæmdir vegna stækkunar virkjunar og framkvæmdir vegna nýrra virkjana til raforku- og varmaframleiðslu.  Fyrirséð eru mannvirki tengd vélbúnaði og stjórnstöð, borteigar, safnæðar, skiljustöðvar, aðveituæðar, kæliturnar og önnur mannvirki aukist á svæðinu.  Framkvæmdin felur í sér vinnslu jarðhita, vegi, borholur, vatnsöflun, gufuveitu, stöðvarhús, kæliturna, niðurrennslisveitu og efnistökusvæði.  Framkvæmdatími getur numið allt að 30 árum og stærð virkjana orðið samtals um 600 - 700 MW.

2. grein
Bæjarstjórn Ölfuss veitir framkvæmdaleyfi og greiðir fyrir skipulagsmálum eins hratt og unnt er vegna umræddra framkvæmda enda byggi þær á lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrir hvern áfanga og viðkomandi verkþætti.  Orkuveita Reykjavíkur greiðir Sveitarfélaginu Ölfuss skv. 11. grein fyrir aukið álag og vinnu sem framkvæmdirnar kalla á hjá sveitarfélaginu.  Þetta gerir sveitarfélaginu kleift að hraða öllum umsögnum og leyfisveitingum sem þörf er á.

3. grein
Orkuveita Reykjavíkur sér um og ber allan kostnað af hugsanlegum málaferlum og skaðabótakröfum sem rekstur og framkvæmdir tengdar Orkuveitu Reykjavíkur leiða til, sama hvaða nafni þær nefnast.  Þetta á einnig við um hugsanleg skaðabótamál á hendur Sveitarfélaginu Ölfuss sem rekja má til virkjunarframkvæmda og orkuvera á Hellisheiði.

4. grein
Aðilar eru sammála um að sérstök ráðgjafanefnd sem skipuð verði um uppgræðsluverkefni skili tillögum til beggja aðila um uppgræðslu í Sveitarfélaginu Ölfusi.  Ráðgjafanefndin verði skipuð þremur aðilum, einum frá Orkuveitu Reykjavíkur, einum frá Sveitarfélaginu Ölfusi og aðilar koma sér saman um einn fulltrúa eftir nánara samkomulagi.  Fulltrúi Sveitarfélagsins Ölfuss verður formaður nefndarinnar.  Um er að ræða uppgræðsluverkefni í sveitarfélaginu, til að mæta bæði því raski sem verður vegna virkjana og til almennra landbóta.  Miðað er við að Orkuveita Reykjavíkur verji til þessa verkefnis 12,5 milljónum á ári fram til 2012.  Þá verði leitast við að fá fleiri aðila að verkinu.  Þá mun Orkuveita Reykjavíkur leggja að auki til starf unglinga til landbóta í sveitarfélaginu.  Haft verður í huga í landgræðsluverkefnunum að vinna gegn losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

5. grein
Vegna framkvæmda Orkuveitu Reykjavíkur tekur hún að sér að byggja upp nýja fjárrétt og hesthús við Húsmúla sem notuð er til smölunar á afrétti Ölfusinga skv. fyrirliggjandi teikningum.  Orkuveita Reykjavíkur mun annast viðhald þessara mannvirkja.  Þessi aðstaða nýtist fyrir ferðamennsku á svæðinu í annan tíma.  Þá sér Orkuveita Reykjavíkur um að byggja upp og lagfæra það sem snýr að smölun og afréttarmálum sem virkjunarframkvæmdirnar hafa áhrif á.  Miða skal að 1. áfanga verksins þ.e.a.s. bygging fjárréttar, verði lokið fyrir göngur haustið 2006.

6. grein
Orkuveita Reykjavíkur gerir Sveitarfélaginu Ölfuss tilboð í lýsingu vegarins um Þrengsli, frá Suðurlandsvegi í Þorlákshöfn fyrir 14 milljónir á ári (verðtryggt með neysluvísitölu, janúar 2007).  Innifalið er lýsing á veginum með ljósum sem eru með 50 m millibili, allur fjármagnskostnaður, orka og viðhald er innifalið í tilboðinu.  Fylgt verður kröfum og reglum Vegagerðarinnar.  Verkinu verði lokið á árinu 2006 að því tilskyldu að öll leyfi liggi tímanlega fyrir.

7. grein
Orkuveita Reykjavíkur mun greiða Sveitarfélaginu Ölfuss fyrir jarðhitaréttindi í afréttinum á Hellisheiði samkvæmt sömu reglum og notaðar voru við önnur landa- og réttinda kaup af landeigendum í Ölfusi.  Þetta verður gert ef og þegar óbyggðanefnd eða eftir atvikum dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að afrétturinn sé fullkomið eignarland sveitarfélagsins, allur eða að hluta.  Náist ekki samkomulag um bætur skal úr skorið af 3 manna gerðardómi þar sem hvor aðili skipar einn mann en oddamaður verði tilnefndur af sýslumanni Árnessýslu.

8. grein
Verði niðurstaða óbyggðanefndar, eftir atvikum dómstóla, sú að afrétturinn allur eða að hluta sé þjóðlenda mun Orkuveita Reykjavíkur bæta tjón vegna jarðrasks, missi beitilanda, umferðarréttar, og röskunar á afréttinum eftir nánara samkomulagi.  Náist ekki samkomulag um bætur skal úr skorið af þriggja manna gerðardómi þar sem hvor aðili um sig skipi einn mann en oddamaður verði tilnefndur af sýslumanni Árnessýslu.

9. grein
Á árinu 2008 hafi Orkuveita Reykjavíkur lokið lagningu ljósleiðara um þéttbýli í Þorlákshöfn og fyrir árið 2012 verði lagningu ljósleiðara lokið um aðgengilegan hluta dreifbýlis Ölfuss skv. nánara samkomulagi er liggi fyrir áramót 2006/2007.

10. grein
Kannað verði til hlítar hvort aðkoma Orkuveitu Reykjavíkur að Sunnan 3 sé áhugaverður kostur fyrir verkefnið og þá aðila sem að verkefninu standa.  Markmið verkefnisins er að nota rafrænar lausnir til að efla búsetuskilyrði á svæðinu.

11. grein
Aðilar eru sammála um að bæjarstjórn Ölfuss þurfi að fylgjast með reglubundnum hætti með virkjunarframkvæmdum innan sveitarfélagsins m.a. til að geta svarað spurningum sem upp kunna að koma og beint verður til bæjarstjórnar.  Í þessu skyni koma aðilar sér saman um að halda reglulega fundi á framkvæmdatíma, allt að 4 fundum á ári, þar sem m.a. verður farið í skoðunarferðir um vinnusvæðið.  Aðilum er ennfremur ljóst að umsvif og álag á bæjarstjórn og bæjarstjóra Ölfuss mun fyrirsjáanlega aukast meðan framkvæmdir við virkjanir á Hengilssvæðinu standa yfir í sveitarfélaginu.  Samkomulag er um að Orkuveita Reykjavíkur greiði Sveitarfélaginu Ölfusi fyrir þann kostnað sem af þessu hlýst með fastri heildargreiðslu, kr. 7,5 milljónir á ári árin 2006 til 2012, 1. september ár hvert.  Þessar greiðslur verða notaðar til að kappkosta við að afgreiðsla umsagna og leyfa verði eins hröð og hægt er. 

Ölfusi 28. apríl 2006 

Undir skrifa Ólafur Áki Ragnarsson og Hjörleifur Brynjólfsson fyrir hönd Ölfuss og Guðmundur Þóroddsson og ólæsileg rithönd fyrir hönd OR.

_________________________________________________


Ég kref Orkuveitu Reykjavíkur svara við því, hvernig hún telur sig þess umkomna að gefa Sveitarfélaginu Ölfusi 500 milljónir - hálfan milljarð - af peningum Reykvíkinga. Orkuveita Reykjavíkur er opinbert fyrirtæki í eigu útsvarsgreiðenda í Reykjavík og þeir eiga heimtingu á að fá skýr svör frá OR.

Svo væri einnig mjög fróðlegt að vita nákvæmlega í hvað gjafaféð sem þegar hefur verið reitt af hendi hefur farið. Það þykir mér forvitnilegt og nú stendur upp á sveitarstjórn Ölfuss að gefa nákvæmar skýringar á hverri einustu krónu.

Eins og fram kom í einni af fyrri færslum mínum er meirihlutinn í Sveitarstjórn Ölfuss skipaður 4 einstaklingum sem hafa alls 495 atkvæði á bak við sig. Athugasemdir við og mótmæli gegn fyrirhugaðri Bitruvirkjun voru rétt um 700. Ef allt er talið snertir ákvörðunin um virkjanir á Hellisheiði og Hengilssvæðinu um það bil 200.000 manns beint í formi spilltrar náttúru, lyktar-, loft- og sjónmengunar og alla landsmenn í formi ofurþenslu, verðbólgu og vaxtahækkana.

Ég lýsi eftir lýðræðinu í þessum gjörningi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Þú ert ekkert nema frábær.

Hólmdís Hjartardóttir, 12.5.2008 kl. 01:25

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er sjálfsagt að krefjast skýringa á því fyrir hvað er verið að borga (ekki gefa)

Hefur aldrei hvarflað að þér Lára Hanna, að greiðslurnar sem talað er um í 11. grein séu vegna aukins kostnaðar sveitarfélagsins vegna framkvæmdanna og OR sé að koma til móts við þann kostnað?

Vegna 5. greinar. Getur verið að OR sé að greiða fyrir raskið sem framkvæmdin hefur á aðstöðu til smölunar o.þ.h.? Er um nýja rétt að ræða í staðin fyrir aðra gamla sem fer forgorðum? Er ekki bara um bætur fyrir land að ræða?

Vegna 3. greinar hefði ég spurt hvaða hugsanlegu málaferli sveitarfélagið er að fría sig frá og hvaða skaðabætur gæti verið um að ræða.

Það er sjálfsagt mál (auðvitað, hvað annað?) að spyrja gagnrýnna spurninga varðandi þennan samning, en ekki að gefa sér svörin fyrirfram. Og heldur ekki að grundvalla áróður gegn virkjuninni á svörum sem þú gefur sjálfri þér.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.5.2008 kl. 02:54

3 identicon

Þó svo að þessir peningar hafa verið notaðir vegna aukins vinnuálags hjá sveitarstjórninni - sem er skýringin sem þeir gefa - þá er ekki rétt að gera svona samning - og þar með ákveða að þeir ætla að láta þessa virkjun risa - áður en búið er að ljúka við ferlið sem er í gangi núna, og var í gangi í haust, þar sem almenningi er gefinn möguleika á að gera athugasemdir við breytingu á aðalskipulagi úr útivistarsvæði í iðnaðarsvæði og við mat á umhverfisáhrifum. Samt hvet ég fólk til að ekki hugsa "það þýðir ekkert að gera athugasemd"! Enn og aftur munið að fresturinn til að gera athugasemd við breytingu á aðalskipulagi rennur út á morgun 13. maí - póststimpill gildir þannig að við höfum morgundaginn líka!

Petra Mazetti (IP-tala skráð) 12.5.2008 kl. 08:12

4 Smámynd: Þórir Kjartansson

Þvílík lágkúra. Þetta fólk myndi selja ömmu sína ef það gæti.

Þórir Kjartansson, 12.5.2008 kl. 09:31

5 Smámynd: Þórir Kjartansson

Þetta sýnir svo ekki verður um villst,  að ákvarðanir um þessi mál eiga ekki alfarið að vera í höndum heimamanna.  Þetta varðar alla landsmenn um ókomna framtíð.

Þórir Kjartansson, 12.5.2008 kl. 09:39

6 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Það er fróðlegt að sjá svona svart á hvítu hvernig kaupin gerast á eyrinni. Mig grunar nú að þetta sé aðeins dropi í hafið sem hér er talið upp. Það má víða velta við steini í okkar samfélagi þar sem svipað er fyrirkomið. Ekki er heldur gott að rugga bátnum á meðan ekki sekkur. Gaman væri að vera lítil fluga á vegg þar sem háttvirtir stjórnarmenn í svona fyrirtæki sitja sveittir við að semja svona texta :)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 12.5.2008 kl. 13:01

7 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Ég tek undir með Kjartani. Þetta var sérdeilis fróðlegt.

Steingerður Steinarsdóttir, 12.5.2008 kl. 13:19

8 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ómar Ragnarsson er í þessu tilfelli "fóðrari" Hellisheiðavirkjannasinna því að frá honum er þetta fíflalega hugtak komið inn í uræðuna ,,óafturkræf" og þá væntanlega ,,afturkræf" og á meðan fólk, t.d. VG, tekur þetta vera afturkræfa aðgerð þá gengur ekki vel að fá fólk til að vera á móti þessari virkjun.

Mér persónulega er alveg sama þó Bitruvirkjun verði að veruleika, en teldi það árangursríkast að fara þess á leit við OR að gengið yrði þannig frá virkuninni að "úrgangefnum" öllum yrði fyrirkomið á staðnum.

Það á að vera hægt að kæla afgangsgufu niður og láta hana fara í til þess gerða borholu aftur niður í jörð.

Ég tek heilshugar undir að það sé nú alveg í lagi að einhverjir fari nú að kafa ofan í hin ýmsu textasmíð og að við förum bara að láta heyrast í okkur rétt eins og þið eruð að gera hér.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 12.5.2008 kl. 14:41

9 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Þetta er ástæðan fyrir því að við verðum að halda í blandað hagkerfi. Það er ekki gott ef allar náttúrulegar auðlindir einnrar þjóðar lenda í höndum fyrirtækja í einkaeign. Mannauður er aftur annað mál.

Ég treysti ekki Sjálfstæðismönnum til að skilja og virða þessi grundvallarmannréttindi okkar Íslendinga að auðlindirnar eigi að vera sameiginleg eign okkar allra. Það er búið að gefa fiskinn og nú er jarðvarminn og vatnsorkan að fara líka. Ég hélt ég gæti treyst Samfylkingunni en það var líklega misskilningur.

Virkjanirnar á Suðurlandi skipta mig persónulega miklu máli. Ég er Hvergerðingur og skil þess vegna hvaða verðmæti eru í hættu á svæðinu. Hins vegar eru mínir hagsmunir ekki aðalatriðið heldur það að í þessu tilfelli falla þeir saman við almannahagsmuni þjóðarinnar. Þess vegna er ég sorgmædd og finn fyrir vanmætti frammi fyrir þeirri einkennilegu ákvörðun Íslendinga að láta siðblinda græðgisvædda hægrimenn fara með ákvarðanavaldið hvert kjörtímabilið á fætur öðru. Þessu verður að linna hvort sem það er orðið of seint að stöðva Bitruvirkjun eða ekki.

Soffía Valdimarsdóttir, 12.5.2008 kl. 15:03

10 identicon

Takk fyrir þetta, mjög svo fróðlegt, Lára, ó hvað ég vildi að við færum að gara eitthvað róttækt í þessu, þetta er svo rosalegt.  Mikið vona ég að við öll  hættum að kjósa þessi hægriöfl í landinu sem hafa afskræmt landið okkar og halda áfram fram í rauðan dauðann.

Takk fyrir að garast bloggvinur :)

alva (IP-tala skráð) 12.5.2008 kl. 15:19

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Högni, framkvæmdin ER afturkræf. Eins ef orkan færi minnkandi í borholunum, þá er talið öruggt að hvíld á þeim myndi lagfæra það. Um affall og afgangsgufu, þá minnir mig að frá henni sé gengið á umhverfisvænan hátt.

Og já, um að gera að láta spurningunum rigna yfir alla sem að málinu koma. Það má nefnilega, það er það dásamlega við hið nánast óspillta Ísland 

Veðurblíðukveðjur frá Reyðarfirði.

Ps. Enginn verður var við mengun hér frá álverinu í þröngum og lognværum firðinum (eins og andstæðingar álversins héldu fram)

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.5.2008 kl. 15:34

12 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég trúi því Gunnar að nú sé blíða á austfjörðum. 

Ég sé nú bara ekki muninn "þannig lagað" á því hvort að Hellisheiðin sé virkjuð og bara gengið frá fjandans gufunni, það er nefnilega bara fjandi dýrt fyrir okkur Hvergerðinga nú þegar að halda gleri hreinu og svo hinsvegar fossi inn á hálendi sem enginn fór að og einginn var á leiðinni að, en nú allar leiðir færar að, það er líka alveg hægt að taka manngerða stíflu í burtu ef vill og ganga aftur frá nánasta umhverfi ef vilji er fyrir því - jú það kostar en það er hægt.

Mannvirki virkjanna eiga að geta verið í umhverfinu í sátt og samlyndi, það er bara þannig að hvar sem maðurinn stígur niður fæti sést spor.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 12.5.2008 kl. 15:57

13 Smámynd: Bergþóra Jónsdóttir

Fróðlegt að lesa þessa greinargerð þína og bloggið - og viðtalið í Mogganum var virkilega flott.  Þú átt örugglega fleiri stuðningsmenn en þig grunar. 

Bergþóra Jónsdóttir, 12.5.2008 kl. 16:22

14 Smámynd: Víðir Benediktsson

Mikið assgotti tókstu þig vel út í sjónvarpinu.

Víðir Benediktsson, 12.5.2008 kl. 19:37

15 Smámynd: Óðinn Þórisson

Ég styð fólkið þarna og þann lýðræðislega kjörna meirihluta að taka sínar ákvaðanir.
Lýðræðið er þannig að fólkið þarna valdi sér fulltrúa til að fara með sín mál.
Að reyna að leggja stein í götu framtíðar þessa fólks er mér ekki að skapi.

Óðinn Þórisson, 12.5.2008 kl. 21:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband