Máttur athugasemdanna - einlægur pistill ungrar konu

Á þessum níu mánuðum sem ég hef bloggað hafa verið skrifaðar ótalmargar, stórkostlegar athugasemdir við pistlana mína. Sumar langar, aðrar stuttar en svo innihaldsríkar margar hverjar að þær ættu heima sem sjálfstæðir pistlar. Svo dettur maður stundum inn á pistla annarra sem skrifa athugasemdir við manns eigin - og þannig var það í þessu tilfelli.

Þann 28. júní sl. skrifaði ég pistilinn Var "Fagra Ísland" tálvon eða blekking? og birti þar myndband sem ég hafði klippt saman. Örstutt athugasemd við hann leiddi mig áfram að þessum sem ég birti hér. Ég ætlaði að birta hann fyrir löngu og fékk leyfi höfundar, en tíminn hefur hlaupið ansi hratt í sumar og annir verið miklar svo ég er núna fyrst að drífa í þessu.

Dagný ReykjalínHöfundur pistilsins er ung kona, Dagný Reykjalín. Í tölvupósti sem hún sendi mér þegar ég bað um leyfi til að birta pistilinn sagði hún m.a.: "Þessi grein er reyndar skrifuð út frá sjálfri mér og minni túlkun á þessari kynslóð og því hvernig ég þekkti afa minn. Ég er ekki að reyna að leggja honum orð í munn og ég vona að enginn túlki það þannig. Það er hins vegar hollt að hugsa til þess hvernig kynslóðin sem byggði landið hugsaði um framtíðina og horfa svo á það hvernig við erum að fara með hana."

En pistill Dagnýjar, sem eins og sjá má er skrifaður daginn eftir náttúrutónleika Bjarkar og Sigur Rósar, hljóðaði svona:

Framtíðin sem byggir á fortíðinni

Ég vaknaði eldsnemma í býtið, allt var með kyrrum kjörum hérna heima en ég gat ekki sofnað aftur. Tónleikarnir í gærkvöldi voru í fersku minni, ég fylgdist með þeim á netinu. Tónlistin var frábær, stemmningin greinilega skemmtileg en mér fannst samt pínulítið vanta uppá að þau segðu milli laga hver áherslan í baráttunni væri. Kannski var nægur áróður á staðnum sem skilaði sér ekki yfir netið, og líklega voru þessi 30.000 manns nokkuð viss á málstaðnum. En árla morguns fór ég eitthvað að hugsa, og setti saman þessa færslu:

Afi minn var Haraldur Guðmundsson, rafvirki á Dalvík. Hann var maður síðustu aldar, einna mestu tæknibreytinga og framfara í Íslandssögunni. Hann var fæddur í Skagafirði þann 28. apríl 1920, menntaður í Iðnskólanum á Akureyri og var um tíma kallaður Halli Edison fyrir færni sína við að gera við ýmis rafmagnstæki.

Hann var samtímamaður Halldórs Laxness og um tíma herbergisfélagi Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Hann var sjálfstæðismaður í gegn enda sjálfstæðisbarátta Íslendinga í algleymi á mótunarárum hans. Sjálfstæðisbaráttan snerist um að vera óháður skilningssljóu yfirvaldi og það að nýta krafta einstaklingsins í þágu allrar þjóðarinnar. Í þá daga var þjóðernishyggjan nauðsynleg í baráttunni fyrir sjálfstæði.

Í sjálfstæðisbaráttunni endurspeglaðist stolt yfir náttúrunni og auðmýkt yfir kröftum hennar. Þegar við náðum að tendra rafmagnsljós komumst við út úr vetrarmyrkrinu og þar var einn sigur á náttúrunni unninn. Margir sigrar fylgdu í kjölfarið; heita vatnið úr jörðinni kynti húsin okkar og betri farartæki gerðu okkur kleift að klífa fjöll og sigla firði. Maðurinn vann sífellt nýja sigra á annars ógnarvaldi náttúrunnar. Þetta ógnarvald bar með sér óttablandna virðingu.

Gullfoss á frímerkiHalli afi var virkjunarsinni af gamla skólanum. Á ferðum sínum um landið mat hann ár og vatnsföll í megavöttum, sama hversu litlar sprænurnar væru. Hann starfaði m.a. við að reisa Blönduvirkjun á sínum tíma og virkjaði einnig bæjarlækinn sem enn í dag veitir æskuheimili hans orku til daglegra starfa. Öll nýting á landsins gæðum átti hins vegar að fela í sér virðingu fyrir náttúrunni og öflum hennar. Þess vegna var hann ekki síður ákaflega mikið og einlægt náttúrubarn, og jafnvægi í náttúrunni var honum mikilvægt. Það fól í sér hógværa nýtingu. Hann var veiðimaður, sem lá bæði á greni í marga sólarhringa til að vernda fuglavarpið og veiddi hæfilegt magn af rjúpu í jólamatinn.

Ég er sannfærð um að þrátt fyrir að Halli afi hafi verið hlynntur því að nýta náttúrunnar gæði fyrir fólkið í landinu þá gæti hann í engu móti samþykkt svo gerræðislegar framkvæmdir sem framundan eru.

Í fyrsta lagi vegna þess að þær hafa ekki þjóðarhag að leiðarljósi heldur þjóna fyrst og fremst fjárhagslegum hvötum alþjóðlegra stórfyrirtækja sem í eðli sínu leita þangað sem orkan er ódýrust. Það þýðir að íslenska þjóðin fær eins lítið og mögulegt er fyrir orkuna en fórnar því sem er henni verðmætast af öllu, því sem mótaði sjálfsmynd hennar.

Í öðru lagi vegna þess að þær sýna hvorki hógværð né virðingu fyrir íslenskri náttúru eða landslagi. Frá hinu stærsta til hins smæsta.

Í þriðja lagi vegna þess að þær rýra framtíðarmöguleika komandi kynslóða og binda þær til þjónustu við alþjóðleg stórfyrirtæki sem eru ekki þekkt fyrir að aumka sig yfir litla manninn ef það þjónar ekki hagsmunum þeirra. Hvers vegna ættum við að vera eitthvað öðruvísi í þeirra augum en aðrir, annarsstaðar í heiminum.

Þegar ég hugsa um öll þau ferðalög um landið sem ég fór með afa og ömmu, þar sem afi þekkti nærri hverja þúfu, skil ég betur hvernig 20. aldar þjóðin hugsaði. Við í nútímanum erum hins vegar komin langt úr takti við þennan hugsunarhátt og erum að missa tengslin við það sem mótaði okkur.

Kannski er náttúruvernd of rómantískt hugtak fyrir okkur nútímafólkið sem erum knúin áfram af efnislegum gæðum, þrátt fyrir að það hafi verið helsti drifkraftur sjálfstæðisbaráttunnar á síðustu öld og gerði okkur að því sem við erum í dag.

Halli afi lést á þjóðhátíðardaginn 17. júní árið 2000, daginn sem íslensk jörð skalf undir fótum okkar.

 --------------------------------------------------------------------

Í seinni athugasemd sinni, þegar ég var búin að svara henni, segir Dagný m.a.: "... ég er ekki í nokkrum vafa um hvað 20. aldar sjálfstæðismaðurinn hefði valið stæði hann frammi fyrir þessum spurningum núna. Hann hefði hugsað laaaangt fram í tímann, miklu lengra en það sem er verið að gera núna, og hefði hugsað um hag afkomenda sinna langt framar síns eigin.

En þetta væri samt sem áður erfitt vegna þess að krafan um praktískar skyndilausnir er svo rík. Glópagullinu er veifað framan í okkur. En við eigum ekki að hlusta á vælið í þeim sem halda því fram að allt falli hérna í eymd og volæði ef við förgum ekki Íslandi. Þeir sem hafa sterka sjálfsmynd, hafa val og kunna að forgangsraða ná að bjarga sér sjálfir. Ef við virkjum allt sem hægt er að virkja fyrir alþjóðleg stórfyrirtæki sem senda gróðann úr landi, höfum við ekki aðeins misst þetta val heldur líka fórnað því sem býr til sjálfsmyndina. Hvar verðum við þá?

Við höfum alltaf verið rík af því stoltið yfir landinu og fólkinu okkar höfum við ekki getað metið til fjár, og sennilega ekki kært okkur um það fyrr en núna. Þetta eru allt siðferðilegar spurningar eins og Stefán segir í viðtalinu góða."

Þarna í lokin er Dagný að vísa í Spegilsviðtalið við Stefán Arnórsson (sjá tónspilara) sem ég nefndi meðal annars í síðasta pistli. Á meðan við eigum ungt fólk sem hugsar og skrifar eins og Dagný er enn von.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Frábær lestur og svo djúp sannindi. Í velsældinni virðist sjónsvið okkar þrengjast, arkmiðin verða skemmri og afraksturinn skammlífari. Víðara samhengi eiga menn erfitt að sjá, þegar þeir hugsa sem mest um að troða í budduna sína. Menn safna ekki lengur eldiviði til vetrarins heldur til að láta bálin sín brenna bjartar og stærra en annarra.  Gildis og verðmætamat einskorðast við næsta skref en ekki veginn allann.

Mér finnst þessi stúlka svo seiðandi og góður penni að mér fyndist hún eiga að virkja þessa gáfu. Það er í raun það sem er mikilvægara í öllu samhengi; að virkja eiginleika okkar. Það er virkjun sem skilur allann arð eftir og er varanlegri til framtíðar.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.8.2008 kl. 03:20

2 Smámynd: Birna Eik Benediktsdóttir

Þetta er frábær pistill hjá stelpunni og holl lesning. Maður tárast bara í eigin algleymingi yfir myndskreytingum hugans af gömlum öfum sem þekkja alla stokka og steina og reyna að kenna komandi kynslóðum það sem máli skiptir.

Heill sé öfum og ömmum þessa lands, og vonum nú að stóru strákarnir í ráðuneytum landsins minnist þeirra og þúfnanna þeirra með virðingu.

Birna Eik Benediktsdóttir, 11.8.2008 kl. 07:45

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Það fór um mig hrollur við lesturinn.  Þetta er nákvæmlega það sem máli skiptir.

Takk.

Jenný Anna Baldursdóttir, 11.8.2008 kl. 08:20

4 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Dagnýju ber nánast skilda til að halda áfram að skrifa um þessi mál. Hún hefur hæfileika til þess að gefa skilning og það er eiginlega synd að sóa honum!!!!

Takk fyrir mig

Heiða B. Heiðars, 11.8.2008 kl. 09:27

5 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Frábær pistill. Fær meira að segja mig til að hugsa.

Jóna Á. Gísladóttir, 11.8.2008 kl. 10:23

6 identicon

Pistill Dagnýjar er algjörlega frábær, eins og Dagný sjálf (ég var svo heppin að hafa hana í barnapíustarfi hér í den ). Ég ætla að leyfa mér að vona að kynslóðin hennar Dagnýjar verði kynslóðin sem segi: Stopp! Hingað og ekki lengra! Einmitt á þeim forsendum sem Dagný lýsir í pistlinum og kommentinu. Það verður að hætta að fórna landinu fyrir störf. Það þarf ekki að fórna landinu fyrir störf. Það sem vantar er ný hugsun, ný nálgun.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 10:45

7 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja - svo einfalt er það. Takk fyrir þessa lesningu.

Ásgeir Kristinn Lárusson, 11.8.2008 kl. 11:45

8 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Frábært! takk.

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 11.8.2008 kl. 13:08

9 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Vel gert, þétt hugsun en hógvær. Hjartans þakkir og megi Dagnýju ganga allt í haginn.

Eva Benjamínsdóttir, 11.8.2008 kl. 15:19

10 Smámynd: Geir Guðjónsson

Hér var vel að orði komist og gaman að sjá hvaða viðbrögð vakna hjá lesendum. "Hættum að fórna landi fyrir störf" , "Virkjum eiginleika okkar" ,  "Það sem vantar er ný hugsun,  ný nálgun".  En þarf ekki að fara aðeins lengra með þessar pælingar? Virkjana- og álverssinnar eru með sínar áætlanir og plön á hreinu,  réttlætt með því að það sé verið að tryggja viðgang þeirra lífsgæða sem við viljum halda, á viðsjálverðum tímum kvótaniðurskurðar, fallandi gengis krónu, sem og á fleiri sviðum. Og síðan upphefst, frá þeirra hendi málflutningur sem er eitthvað á þessa leið: Ok, ef þið viljið ekki þessa virkjun og/eða hitt álverið þá hvað ??? ´'A hverju á að lifa, ósnortinni náttúru ? og hvernig verður þá afrakstur þess í  askana látinn? (Þessi rökin hafa að líkindum verið höfð uppi í ríkisstjórninni þegar Samfylkingin kúventi, öllum að óvörum, hvað varðaði hið "fagra ´Island" , einu helsta stefnumáli þess flokks fyrir seinustu kosningar og var veifað borginmannlega framan í kjósendur.) Og þá er eins og  andmælendur virkjana og stóriðju, reki í vörðurnar,  það er erfitt að benda á hugsanlegan arð af ósnortinni náttúru og tefla fram gegn viljayfirlýsingum frá stórfyrirtækjum, langtíma orkusölusamningum og tölum um síhækkandi útflutningsverðmæti stóriðjuafurða.  Umræðan fer síðan ekki lengra, umhverfissinnar stimplaðir sem draumóramenn með óljósar hugmyndir og óraunhæfar væntingar, það er virkjað, verksmiðjast o.s.frv. , næsta svæði valið og svo upphefst sami leikurinn og sú rökræða fer alveg eins og allar hinar, verndunarsinnar tapa í öllum skilningi. Nú er ég ekki með neina patent lausn á þessum vanda, sé ekki hvernig við höfum efni á að láta alla þessa "Umhverfisvænu orku" (sem er nú ekki alls kostar rétt) renna óbeislaða til sjávar/fólgna óhreyfða í jörðu. Ekki höfðu aðstandendur tónleikanna umtöluðu neinar lausnir fram að færa heldur, eins og Dagný saknaði, er hún hlýddi á. Þau fluttu sína áhlíðilegu tónlist, borin uppi af ál-stillönsum. Það var að vísu mælst til að tónleikagestir kæmu ekki á einkabílnum til tónleikanna, ÞURFTI AÐ TAKA ÞAÐ FRAM !!!!!! 

 Nei, til að ná árangri í baráttu við virkjanir og stóriðju virkar ekki tvískinnungur. Það er nauðsinlegt, með einhverju móti að komast yfir þennan vendipunkt sem byrjar á  'Ahverjuætlaruþáaðlifa-röksemdinni. Að öðrum kosti verður það líka alltaf endapunkturinn, við höfum séð það gerast áður. Til að komast yfir þennan örlagapunkt höfum við jú fólk eins og þá sem pósta hér á þessari síðu, og öðrum tengdum síðum sem ég hef verið að glugga á undanfarið. (er ný-fallinn í þessa blogg-grifju), Fólk eins og Dagnýju, Láru og marga aðra sem láta sig þessi mál varða, þykir vænt um landið sitt og eru ekki tilbúin að selja það vegna forgengilegra líðsgæða sem ekki duga nema einni kynslóð á kosnað þeirrar næstu.

Með kveðju,     Geir Guðjónsson.

Með

Geir Guðjónsson, 11.8.2008 kl. 21:53

11 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Takk fyrir að benda á þessa grein. Hún er vel skrifuð og vekur trú á að unga fólkið sjái betur fjársjóðinn sem við eigum í landinu okkar. Það flaug í kollinn á mér lag sem Pálmi Gunnarsson söng um árið. Gullfallegt lag sem heitir fylgd. Ljóðið er eftir Guðmund Böðvarsson og ég ætla að leyfa mér að birta það hér. Hvet alla til að reyna heyra útgáfuna með Pálma. Hún er frábær.

FYLGD

Komdu litli ljúfur,
labbi, pabba stúfur,
látum draumsins dúfur
dvelja inni' um sinn,
- heiður er himininn.
Blærinn faðmar bæinn,
býður út í daginn.
Komdu, Kalli minn.

Göngum upp með ánni,
inn hjá mosaflánni,
fram með gljúfragjánni,
gegnum móans lyng,
- heyrirðu hvað ég syng,-
líkt og lambamóðir
leiti' á fornar slóðir
innst í hlíðahring.

Héðan sérðu hafið,
hvítum ljóma vafið,
það á geymt og grafið
gull og perluskel,
ef þú veiðir vel.
En frammi á fjöllum háum,
fjarri sævi bláum,
sefur gamalt sel.

Glitrar grund og vangur,
glóir sund og drangur.
Litli ferðalangur
láttu vakna nú
þína tryggð og trú.
- Lind í lautu streymir,
lyng á heiði dreymir,
þetta land átt þú.

Hér bjó afi' og amma
eins og pabbi' og mamma.
Eina ævi skamma
eignast hver um sig,
- stundum þröngan stig.
En þú átt að muna
alla tilveruna
að þetta land á þig.

Ef að illar vættir
inn um myrkragættir
bjóða svika sættir,
svo sem löngum ber
við í heimi hér,
þá er ei þörf að velja:
Þú mátt aldrei selja
það úr hendi þér.

Göngum langar leiðir,
landið faðminn breiðir.
Allar götur greiðir
gamla landið mitt,
sýnir hjarta sitt.
Mundu, mömmu ljúfur,
mundu, pabba stúfur,
að þetta er landið þitt

Texti: Guðmundur Böðvarsson

Kristján Kristjánsson, 12.8.2008 kl. 00:28

12 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Vel hugsandi ung kona, Dagný.

Takk fyrir að vekja athygli á þessu Lára Hanna (og bestu þakkir fyrir greinargóðar símaleiðbeiningar um afslitrun tölvunnar fyrr í kvöld).

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 12.8.2008 kl. 00:35

13 identicon

Lára Hanna og Kristján: Ég setti lagið Fylgd í tónlistarspilarann minn. Mér finnst vel við hæfi hjá þér Kristján að nefna þetta ljóð Guðmundar Böðvarssonar í þessu samhengi. Boðskapurinn á ekki síður við í dag en hér á árum áður. Og Lára Hanna: ég get útvegað þér lagið ef þú vilt setja það í spilarann á síðunni þinni.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 12.8.2008 kl. 02:11

14 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk fyrir innlit og athugasemdir.

Ég vona, eins og fleiri, að Dagný skrifi meira í þessum dúr. Hún gerir þetta svo vel og er af kynslóð sem er að missa sjónar á rótunum og uppbyggingu forfeðra okkar og -mæðra. Dagný gæti eflaust náð eyrum sinnar kynslóðar betur en við sem eldri erum.

Velkominn á bloggið, Geir Guðjóns, og gaman að þú skulir leggja orð í belg. Athugasemdin þín er réttmæt en í stað þess að svara þér hér er ég með pistil í bígerð sem gæti komið inn á eitthvað af því sem þú segir - vona ég.

Það var mikill fengur að textanum við Fylgd, Kristján... kærar þakkir.

Og Anna... ég átti þetta lag eins og svo mörg önnur með uppáhaldssöngvaranum mínum og var ekki lengi að skella því í tónspilarann þegar Kristján setti textann inn - í trausti þess að höfundum sé sama... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 12.8.2008 kl. 13:02

15 Smámynd: Árni Gunnarsson

Yndislegt að lesa þennan pistil og sjá nýjan fjársjóð í nýrri kynslóð. Það er engin ástæða til að óttast framtíðina ef hægt er að mynda sterkan kór´með svona röddum. Það er nefnilega rétt hjá Geir Guðjónssyni að þessi "á hverju eigum við þá að lifa?" kór er þungraddaður þó nakin heimskan haldi á tónsprotanum. Þjóðin hefst ekki að, en bíður eftir að stjórnvöld vísi öllum veginn í atvinnusköpun líkt og í Sovétríkjunum sálugu. Og stjórnvöld eru svo vanburðug þegar á reynir að þá er alltaf gripið til "ódýrra" lausna.

Og allt of fáir virðast sjá að ódýrustu lausnirnar eru þær dýrustu þegar upp er staðið.

Engan virðist svo varða um vannýtta auðlind um hundruð milljarða á ársgrundvelli sem er syndandi á miðunum allt í kringum landið og inni á hverjum firði og flóa. En í því máli eigum við örfáa hrópendur í eyðimörkinni sem ná ekki eyrum nokkurs manns. Kannski vegna þess að "áhverjueigumviðþáaðlifa" kórinn er svo hávær.  

Árni Gunnarsson, 12.8.2008 kl. 21:35

16 Smámynd: Villi Asgeirsson

Frábær pistill. Ég kíkti á bloggið hennar og sá að það er mikið spunnið í hana. Sá líka að hún er óþarflega heiðarleg. Það er gaman að vita af henni. Ég mun fylgjast með skrifum hennar héðan í frá.

Villi Asgeirsson, 18.8.2008 kl. 20:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband