Náttúran og rányrkjan - Ísland til sölu

Mér hefur fundist æði fróðlegt og á köflum hrollvekjandi að fylgjast með umræðunni sem hefur átt sér stað í fjölmiðlum undanfarna viku um úrskurð umhverfisráðherra um að heildstætt mat á umhverfisáhrifum fari fram vegna fyrirhugaðs álvers á Bakka og tengdra framkvæmda. Þar hefur hver á fætur öðrum komið fram með ótrúleg gífuryrði, ýmist krítað hressilega eða farið með pólitískar möntrur og hagrætt sannleikanum til að réttlæta sinn málstað. Mér er spurn: Trúir almenningur þessu fólki?

Guðni ÁgústssonEinkum hefur mér fundist málflutningur framsóknarforkólfanna Guðna og Valgerðar furðulegur - en þó svosem ekki búist við bitastæðari "rökum" úr þeirri átt. Ef ég hefði tíma til þess gæti ég líklega tekið ummæli þeirra og fleiri sem hafa tjáð sig um málið og tætt í mig nánast hverja setningu - en því miður hef ég minni en engan tíma. Þó verð ég að játa að ég er ekki sérfróð um framkvæmdirnar fyrir norðan og ég hef aldrei séð t.d. Gjástykki með eigin augum, bara á myndum. Vildi óska þess að fá einhvern tíma að skoða svæðið með Ómari Ragnarssyni og skemmtilegum jarðfræðingum. Kannski verður mér að þeirri ósk minni þótt síðar verði.

Ég hef áður minnst á móður mína í pistlum á þessu bloggi - þá vitneskju sem hún ól okkur systur upp í um hve heppnar við værum að hafa fæðst á þessu yndislega fallega landi með sína undursamlegu náttúru, hreina lofti og tæra vatni. Því betur sem ég hef kynnst hinum stóra heimi, af eigin raun eða í gegnum fjölmiðla, því betur hef ég áttað mig á hvað hún var Ljósm.: Kjartan Pétur Sigurðssonmeina. Mér er enda fyrirmunað að skilja það fólk sem er tilbúið til að fórna landinu, fegurð þess, hreinleika, gæðum, auðlindum, ásýnd, orðspori og efnahag á altari Mammons. Á altari græðgi og stundargróða. Þegar upp er staðið er þetta nefnilega spurning um siðferði eins og lesa má um hér.

Mamma dáði Ómar Ragnarsson mjög. Ekki fyrir að vera fyndinn skemmtikraftur eða snjall laga- og textasmiður heldur fyrir að sýna henni - og okkur öllum - náttúru Íslands frá ótalmörgum hliðum í sjónvarpinu. Hún missti aldrei af Stikluþætti eða hvaða þætti sem var þar sem Ómar sýndi náttúru Íslands og gjarnan staði sem enginn hafði tök á að komast á og sjá með eigin augum - nema hann. Mömmu langaði alltaf að fara í flugferð með Ómari og þess iðrast ég mest að hafa aldrei haft samband við Ómar og beðið hann að fara með þessa elsku í flugferð yfir hennar heittelskaða land. Ég hefði borgað honum stórfé fyrir. Nú er það of seint.

En aftur að Bakka, álverum og virkjunum. Ég botna ekkert í því, hvað sem ég reyni, hvernig fólk getur mögulega haft á móti því að vanda vinnubrögð og gera allt sem í þess valdi stendur til að raska sem minnst okkar einstæðu náttúru - því einstæð er hún. Heildstætt mat á umhverfisáhrifum ætti að vera sjálfsagt, alltaf, alls staðar, því allt er þetta jú samhangandi. Ég reyndi ítrekað að benda á þetta í pistlum um Helguvík og Bitruvirkjun. Það er ekkert við því að segja að reist sé hús og það kallað álver - þ.e. byggingin sem slík - ef fólk vill hafa hana í bakgarðinum og dást að þeim kumbalda. En álver þarf orku og orkuflutningsleiðir. Og í tilfelli Helguvíkur til dæmis er seilst inn á svæði annarra sveitarfélaga og heimtað að þar verði virkjað, náttúran eyðilögð og háspennulínur lagðar um víðan völl og ekki eru þær neitt augnayndi. Það verður að skoða hlutina í samhengi, annað er einfaldlega fáránlegt.

Jóhann Ísak PéturssonÉg minnist þess að mér fannst jarðfræðin ekkert spennandi þegar ég var í skóla í den. Enda bækur fátæklegar, engar eða fáar skýringarmyndir og aldrei farið í vettvangsferðir. Maður botnaði ekkert í þessum fræðum og kennarar oft illa til þess fallnir að kenna þau. Svo fór ég í Leiðsöguskóla Íslands. Eina námsefnið sem kennt var báðar annirnar var jarðfræði - og ekki að ástæðulausu. Kennarinn, Jóhann Ísak Pétursson, skipti sköpum. Hann var sjálfur svo áhugasamur og fullur aðdáunar á námsefninu að það skilaði sér rækilega til nemendanna. Jóhanni Ísak tókst á einum vetri að gera okkur öll, um 30 manns, að einlægu jarðfræðiáhugafólki og það voru áhöld um það hvor aðilinn skemmti sér betur í tímum, kennarinn eða nemendurnir. Fyrirlestrarnir og framsetning Jóhanns Ísaks var með eindæmum skemmtileg og fróðleg. Þennan jarðfræðivetur hjá honum lærði ég enn betur að meta sérstöðu Íslands og hafi hann ævinlega þökk fyrir. 

Mér varð hugsað til hans þegar ég hlustaði á viðtal við Ómar Ragnarsson í Ómar RagnarssonMorgunútvarpi Rásar 1 á föstudagsmorgunn (sjá tónspilara). Þar talar Ómar um Gjástykki og hve einstakt það er í veröldinni. Ómar segir m.a. eftir að hafa útskýrt sérstöðu svæðisins á heimsvísu: "Fyrir Gjástykki eru menn að vonast til að fá 30 MW. Það mun útvega 20 störf í álverinu á Bakka. Þessi 20 störf hafa góðir menn reiknað út að gefi virðisauka á við 7 störf í sjávarútvegi." Og Ómar spyr hvort við séum tilbúin til þess að fórna þessum heimsverðmætum fyrir 20 störf í álveri á Bakka. Ekki ég.

Hvernig stendur á því að Íslendingar eru á fjórum fótum, skríðandi fyrir amerískum auðhringum, tilbúnir til að fórna fyrir þá einstæðri náttúru Íslands þegar þessir sömu Ameríkanar geta hæglega virkjað sín eigin háhitasvæði og fallvötn, til dæmis í Yellowstone, og reist álverin sín heima hjá sér? Þeir eiga feikinóg af orku bæði í jarðhita og fallvötnum. En þeir vilja það ekki. Af hverju ekki? Af því þeir gera sér grein fyrir því hvaða verðmæti eru fólgin í háhitasvæðunum og fallvötnum og þeir vilja ekki menga meira heima hjá sér. Þess vegna veifa þeir dollurum framan í fávísa Íslendinga sem kunna ekki að meta landið sitt og einblína á skyndigróða. Og selja þeim auk þess orkuna á útsöluverði. Þeir eru klókir, Kanarnir, og vita sem er að alltaf er nóg af fólki með dollaramerki í augum, djúpa vasa og jafnvel drauma um pólitíska framtíð sem er tilbúið til að loka augum og eyrum og láta slag standa. Selja landið... og ekki hæstbjóðanda, heldur lægstbjóðanda, alþjóðlegum auðhringum sem svífast einskis og bera ekki virðingu fyrir nokkrum hlut nema peningum.

Ég minni á að Norðmenn hættu við að reisa álver á Reyðarfirði af umhverfisástæðum.

Annað sem opnaði augu mín fyrir því hve jarðfræði Íslands er stórmerkileg var þegar ég byrjaði að keyra og leiðseigja erlendum ferðamönnum. Á hverju ári koma hingLjósm. Kjartan Pétur Sigurðssonað jarðfræðikennarar, jarðfræðinemar, jarðfræðingar og aðrir vísindamenn í þeim fræðum til að virða fyrir sér fræðin með eigin augum. Hér er allt sem þeir hafa verið að kenna, læra og rannsaka uppi á yfirborðinu, sýnilegt með berum augum. Ísland er draumaland þessa fólks og ég skil ekki af hverju við gerum ekki meira út á einmitt það. Mér er t.d. minnisstæður portúgalskur jarðfræðikennari í framhaldsskóla sem ég sótti á flugvöllinn og keyrði á hótel í Reykjavík. Hann hafði dreymt um í 30 ár að koma til Íslands og loksins var draumurinn að rætast. Hann ætlaði að leigja bíl og var búinn að kortleggja þriggja vikna ferð af mikilli kostgæfni. Konan hans, sem var með honum, sagði að hann hefði varla sofið dúr af spenningi í fleiri vikur fyrir brottför. Þau voru vopnuð góðum myndavélum og hann ætlaði að nota afraksturinn við kennsluna. Þessi maður átti ekki nógu sterk lýsingarorð yfir það, hve Ísland væri mikið draumaland allra sem fengjust við jarðvísindi því hér væri hægt að sjá ALLT. Sköpunarsögu jarðarinnar frá A til Ö. Þessu eru sumir Íslendingar tilbúnir til að fórna fyrir fáein störf og nokkrar krónur í vasann.

Málflutningur stjórnmálamanna í þessum málum finnst mér vægast sagt brjóstumkennanlegur og einkennast af hreppapólitík og/eða atkvæðaveiðum. Verið er að slá sjálfum/sjálfri sér upp með klisjukenndum ummælum en rök og málefnaleg umræða látin lönd og leið. Hér er samantekt úr fréttum RÚV og Stöðvar 2 frá 31. júlí til 6. ágúst. Þetta er langt myndband, rúmar 18 mínútur, en ég bið fólk að hlusta með gagnrýnum huga. Útvarpsfréttir um málið eru samanklipptar  eftir dagsetningu í tónspilaranum merkt - Heildarmat Bakki 1, 2, 3 og 4.

 

Hér er stutt úrklippa úr Kastljósþætti fyrir kosningar með ummælum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar. Bara til upprifjunar. Hún minnist reyndar ekki á Bakka en hún minnist á Helguvík og rammaáætlun áður en haldið er áfram með virkjanir og álver. Og hún talar um ábyrgð stjórnvalda en nú fela allir ráðherrar sig á bak við ákvörðunarrétt sveitarfélaga. Svikin kosningaloforð?

  

Mér fannst þessi umræða í Kastljósi 5. ágúst sl. furðuleg - af beggja hálfu. Guðni fullur af innihaldslausum frösum og Katrín kom út eins og argasti stóriðju- og virkjanasinni. Kannski er hún það. Hún var í bullandi vörn í stað þess að vera stolt af sínum ráðherra, og hún tekur ansi stórt upp í sig þegar hún fullyrðir að það sé mikill stuðningur við álver á Bakka í Samfylkingunni! Össur segir það reyndar líka. Er þetta virkilega rétt? Hvað segja félagar í Samfylkingunni? Hvað segja kjósendur Samfylkingarinnar? Hvenær ætlar fólk að átta sig á því að stuðningur við álver þýðir líka stuðningur við virkjanir og þá eyðileggingu og mengun sem af þeim hlýst? 

 

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, stóð sig með eindæmum vel í Kastljósi kvöldið eftir, þann 6. ágúst. Henni tókst að skýra mál sitt vel og skilmerkilega - en það sem eftir stóð engu að síður var hve ferlið er skelfilega flókið. Jóhanna reyndi hvað eftir annað að hanka Þórunni sem svaraði fimlega og útskýrði eins vel og hægt var auk þess að þurfa hvað eftir annað að leiðrétta Jóhönnu. Þótt Jóhanna hafi greinilega reynt að undirbúa sig, og enginn frýr henni vits, var augljóst að hún skildi ekki þetta ferli og ég lái henni það ekki. En Þórunn vissi nákvæmlega hvað hún var að segja og gera og ég tek ofan fyrir henni fyrir það.

 

Að lokum vara ég fólk eindregið við að trúa hinum endalausa áróðri um "hreina og endurnýjanlega" jarðhitaorku. Þessu er slengt framan í okkur í tíma og ótíma þegar réttlæta á virkjanaæðið. En þessi vinsæli, ofnotaði frasi stenst ekki nánari skoðun. Ekki ef virkja á eins ágengt og fyrirhugað er - ég vil kalla það rányrkju - bæði á Norðurlandi og fyrir sunnan. Það er nefnilega ekki sama hvernig og hve mikið er virkjað í þessu sambandi. Ég kom lauslega inn á þetta mál í þessum pistli og enn og aftur vísa ég í Spegilsviðtal í tónspilaranum við Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði. Hlustið á Stefán og vonandi hef ég tök á að fjalla nánar um þetta síðar.

Stefán segir nefnilega "...að tvö sjónarmið séu ríkjandi um nýtingu jarðvarma. Annað er að nýta hann með hámarkságóða í huga yfir ákveðið tímabil og þá er gjarnan miðað við afskriftatíma mannvirkja sem nýta orkuna. Hitt er að nýta hann með sem næst sjálfbærum hætti þótt full sjálfbærni náist aldrei. Full sjálfbærni þýðir að nýting hefur engin umhverfisáhrif og þannig er ekki hægt að nýta auðlindir í jörðu. Það er hins vegar hægt að hafa það að leiðarljósi, að auðlindirnar nýtist sem lengst - ekki aðeins núlifandi kynslóðum, heldur komandi kynslóðum einnig. Þegar upp er staðið er það siðferðileg spurning hvort sjónarmiðið er haft að leiðarljósi." Það er kjarni málsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Víðir Benediktsson

Lára, ég er sammála þér að það þarf að vanda til þessara vinnubragða og það er einmitt það sem gert hefur verið þarna fyrir norðan. Að því leiti til var þessi úrskurður óþarfur, bara til að flækja málin. Trúlega hefur aldrei í Íslandssögunni farið fram jafn vandaður undirbúningur.

Svo er hitt. Af hverju á að spyrða orkufyrirtækin við álver. Ef t.d. Þeistareykir e.h.f sem var stofnað til þess eins að framleiða orku fyrir Norðurland vill selja einhverjum öðrum sína orku, í hvaða stöðu eru þeir þá? Það á að meta hvern þátt fyrir sig og það þarf alls ekki að vera neitt verra en hitt nema síður sé. Hef grun um að þessi gjörningur ráðherra sé aðeins gerður til þess að bara andliti "FAGRA ÍSLANDS" gengisins sem misst hefur allan trúverðugleika og það ekki að ósekju eins og heyra má hér 

En það verður nefna það að þetta var sagt rétt fyrir kosningar eins og margt annað.

Víðir Benediktsson, 9.8.2008 kl. 07:15

2 Smámynd: Óðinn Þórisson

Ég var ánægður með formann iðnaðarnefnar sem fullyrti að þessi ákvörðun umhverfisráðherra myndi ekki seinka þessu verkefni um einn einasta dag en það hefur iðnaðarráðerra einnig sagt.
Hroðaleg ákvörðun Þórunnar virðist ekki ætla að koma að sök enda ef hún ætlar að halda í stólinn er eins gott fyrir hana að láta þetta ganga hratt og fljótt fyrir sig.
Hún hefur fengið mikla gagnrýni frá Jóni Gunnarssyni, Kristjáni Þór og verkstjóri ríkisstjórnarinnar hefur sagt að þessi ákvörðun hafi verið óþörf er ég honum sammála.
Tími framfara og framkvæmda enga stoppstefnu hér.

Ekkert er betra en íhaldið.

Óðinn Þórisson, 9.8.2008 kl. 09:01

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Tek undir felst sem þú segir Lára Hanna, en vil kommentere á Yellowstone.. þar má ekki virkja frekar en á þingvöllum því þetta er þjóðgarður :)  Yellowstone er að ég held örugglega elsti þjóðgarður í heimi.. ef ekki heimi þá í USA.  Ef hann væri ekki þjóðgarður þá væri búið að virkja hann.. hirða allt gullið og kolin sem eru þar í jörðu ásamt urani eflaust líka..  já kaninn er stundum forsjáll.

Óskar Þorkelsson, 9.8.2008 kl. 11:15

4 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ég velti því fyrir mér Kristinn...... ef fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar er í hættu.... hvort ekki sé ráð að byrja að spara í ríkiskassanum ?

Við eyðum milljörðum í vitleysu;  Baugsmálið, sendiráð út um allar koppagrundir, veisluhöld og fríðindi eins og himinhá eftirlaun fyrrverandi ráðamanna.

Lára Hanna sér lengra inn í framtíðina en við flest.  Hún hefur það framyfir marga að skilja orsök og afleiðingu.   Hlustum á hana.   

Verndum Ísland - látum ekki gróðafíknina leiða okkur til glötunar.

Anna Einarsdóttir, 9.8.2008 kl. 12:07

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Lára Hanna: Hvar hefurðu verið allt mitt líf?

Takk kærlega fyrir þennan frábæra pistil.

Mér líður eins og ég sé stödd í miðri Fellini bíómynd þegar ég hlusta á ISG FYRIR kosningar.

Jenný Anna Baldursdóttir, 9.8.2008 kl. 12:49

6 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Kristinn.  Ef heimilistekjurnar minnka, þarf þá ekki að draga saman í útgjöldum ?

Við rjúkum ekki til og seljum hæstbjóðanda garðinn okkar.  Án gríns.

Anna Einarsdóttir, 9.8.2008 kl. 13:27

7 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Þú bregst ekki fremur en fyrri daginn

Hólmdís Hjartardóttir, 9.8.2008 kl. 14:34

8 Smámynd: Víðir Benediktsson

Sko. Mér skilst á öllum að álverið sé að koma, umhverfisráherra, iðnaðarráðherra , forsætisráðherra og flestum sem hafa talað um þessi mál og deilan snúist ekki lengur um það. Heldur sé hér verið að karpa um undirbúningvinnunna. Mér finnst ekki verjandi að setja orkufyrirtækin og álver í sama pakkann. Hver veit nema komi meira aðlaðandi iðnaður sem vill kaupa orku og hvað gerist þá? Þarf að byrja upp á nýtt?

Víðir Benediktsson, 9.8.2008 kl. 16:02

9 identicon

MAGNUS FINNUR HAUKSSON (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 16:40

10 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Frábær pistill Lára Hanna, frábær!

Eva Benjamínsdóttir, 9.8.2008 kl. 17:50

11 identicon

Mér hefur fundist æði fróðlegt og á köflum hrollvekjandi að fylgjast með umræðunni sem hefur átt sér stað í fjölmiðlum undanfarna viku um <viðbrögð heimamanna við> úrskurð umhverfisráðherra um að heildstætt mat á umhverfisáhrifum fari fram vegna fyrirhugaðs álvers á Bakka og tengdra framkvæmda. Þar hefur hver á fætur öðrum komið fram með ótrúleg gífuryrði, ýmist krítað hressilega eða farið með pólitískar möntrur og hagrætt sannleikanum til að réttlæta sinn málstað. Mér er spurn: Trúir almenningur þessu fólki?

Með því að skjóta inn þessum þremur orðum innan klofana sný ég merkingu upphafsmálsgreinar þinnar við Lára Hanna og þar með mætti halda að hún væri skrifuð af einhverjum heitum fylgismanni framkvæmdanna.

Ergo:  Enginn eðlismunur er á baráttuanda beggja fylkinga.  Önnur er sem sagt ekki hjartahreinni, betur innrætt, réttsýnni né sannleiksfúsari en hin.  Báðar eru að vinna af eljusemi og heitustu sannfæringu að framgangi málstaðar sem þær trúa á í einlægni.  Milli andstæðra einstaklinga innan fylkinganna krossast örugglega einhversstaðar ættartengsl og samskonar genamengi, áralöng vinskapsbönd eða sömu uppeldisfaktorar.

Svona er þetta bara og það er í hæsta máta eðlilegt.  Og í góðu lagi er að vara fólk viða að trúa því sem hinn segir, því þar sé um tómar blekkingar og lygar að ræða, því hinn aðilinn svarar bara örugglega í sömu mynt aftur eða hrekur ásakanirnar með &#132;staðreyndum&#147;.

Svona deilur færa okkur heim sannin um það að hér eru ekki skúrkar annarsvegar og heilagir hinsvegar að kljást, hvorir í sinni fylkingunni heldur eru það skúrkurinn og heilagleikinn í hverjum og einum um sig, sem eru að fá útrás, svona sitt á hvað.

Og, þetta er bara gaman.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 17:57

12 Smámynd: Brattur

Samfylkingin er náttúrulega í bullandi vandræðum í virkjana- og stóriðjumálum. Það er ljóst að  Kristján Möller og Einar Már Sigurðarson, þingmenn Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi eru báðir hlynntir álveri á Bakka við Húsavík. Ég hélt í einfeldni minni að Samfylkingin myndi stoppa öll álver og virkjanir þegar þeir kæmust í stjórn. En annað hefur komið á daginn... því miður.

Sjálfsstæðismenn virðast seint ætla að átta sig á því að hamingjan geti falist í einhverju öðru en peningum.

Brattur, 9.8.2008 kl. 18:04

13 identicon

Sit hér heima sem gestur, bý i Noregi og hef skammast mín fyrir aðfarir norðmanna á Íslandi g ákafa islendinganna eftir að leggja sin langa og lata fyrir nær sagt hverju sem er til skams tima ágóða án þess virða afleðingarnar.  Bræður mínir búa í Kjós, og útsýnið er blátt ferlíki handan fjarðar.  Eitthvað liggur mönnum á.  Hefur nokkur hugsað til þess að geti orðið að skömmum vermi fyrir íslendinga, eða svona nokkurnveginn eins og að pissa í buksurnar til að halda hita.   Og fúkyrðin sem fljóta um í blöðum landsins um fólk  Ha - kurteisi kostar nú lítið. 

þakka þér innilega fyrir skrif þín,´þó ég hafi ekki hugmynd um hver þú ert.

mj

Maagnus Jonsson (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 22:27

14 identicon

Lára Hanna .... þú ert bara frábær 

Edda (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 22:48

15 Smámynd: Steingrímur Helgason

Þú átt í mér helldíng af nýuppvöknuðum græníngja alla vega fyrir þessa stórgóðu & vel unnu pistla þína Lára Hanna.

En ég horfi líka á það sem vel er gert að hálfu Landsvirkjunar & sjálfur þekki ég að fara með útlendínga á virkjanastaði & sjá þá hrífast yfir því hvað óneitanlega við gerum betur í framleiðslu á orkunni en þeir þekkja heiman frá sér.

Rétt núna finnst mér þörf umræða um virkjanakosti vera að &#39;villigatazt&#39; eitthvað, er ekki búinn að niðursjóða mér einhverja rithæfa skoðun, en innlegg þín hafa verið mótandi gagnrök fyrir virkjanasinnanum mér.

Þakka þér fyrir það.

Steingrímur Helgason, 9.8.2008 kl. 22:58

16 Smámynd: Óðinn Þórisson

Vegna Bakka og Helguvík

Þessar tvær fabrikkur verða ekki stöðvaðar nema með lögum og þessi ríkisstjórn mun ekki setja lög á þær"
Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar

"Stefna ríkisstjórnarinnar að bæði álverin rísi"
Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins

Stefna ríkisstjórnarinnar er skýr hér verður engin stoppstefna.

Óðinn Þórisson, 10.8.2008 kl. 10:47

17 Smámynd: Árni Gunnarsson

Auðveldasta og einfaldasta lausnin hugnast þeim best sem skortir getuna til að hugsa lengra en til morgundagsins. Gildir þá einu hverju fórnað er því "hestaflið í almættinu er verðlaust hjá Orkustofnun," svo vitnað sé til Nóbelsskáldsins okkar. Enda leika nú ákveðnum stjórnmálamönnum landmunir til að sanna pólitíska heimsku þess manns og þarf til þess ekki minna en þrjár bækur þungar.

En fleiri eru þeir andans menn íslenskir sem vitna má til þegar verð á þjóðlegum gildum er skoðað. Sumar ályktanir viturra manna eru lausar við tíma og eiga sér alltaf stoð í skynsemi:

"-hvern mun smáþjóð kost úr skiptum bera,

ef aflsmun þóknast þrælseigandi að vera?"

Þessar ljóðlínur eru úr kvæði Stephans G. Stephanssonar sem hann nefnir "Ávarp til Norðmanna," og er dagsett 4. júlí 1905. Og tilurð kvæðisins er stjórnardeila Norðmanna og Svía er þá stóð yfir.

Okkur Íslendingum virðist hugnast vel að gera auðlindir okkar og víðerni að þrælagóssi erlendra auðhringa sem greiða þrælsgjöldin eftir eigin verðlista. Lítilla sæva og sanda er það fólk sem á hnjánum bíður eftir kaupverðinu; vanmáttugt til eigin bjargar í þessu landi.

Árni Gunnarsson, 10.8.2008 kl. 17:36

18 identicon

Trúir virkilega einhver því að álverksmiðjur sem fara í gang eftir fjögur eða fimm ár séu leiðin til að leysa efnahagsvanda þjóðarinnar og atvinnumál byggðarlaga? Trúir virkilega einhver því að álverksmiðjur séu leiðin til að halda ungu fólki í heimabyggð á landsbyggðinni? Trúir virkilega einhver því að álverksmiðjur séu viturleg leið til að fá verðmæti í þjóðarbúið út úr orkugjöfunum okkar?

Af hverju er hún svona lífseig trúgirni fólks í byggðarlögum landsins gagnvart sveitastjórna- og landsmálapólitíkusum sem láta álfyrirtæki og olíuhreinsunarfyrirtæki úti í heimi selja sér vondar hugmyndir? Ég hef í raun enga trú á dómgreind íslenskra stjórnmálamanna lengur. Mér finnst þá skorta alla sjálfsvirðingu fyrir hönd þjóðarinnar. Mér finnst þessi skortur á sjálfsvirðingu birtist hvað átakanlegast í því hversu innilega þakklátir þeir virðast þessum álrisum úti í heimi fyrir það að þeir skuli  vilja reisa álver á Íslandi. Og svo fer fólkið í byggðalögunum á hnén og þakkar pólitíkusunum fyrir að vilja gera bara eitthvað til að bjarga þeim. Þessi bjargarleysistilfinning og þjónkun við stóriðjufyrirtæki úti í heimi er að verða eins og krabbamein sem sáir sér með meinvörpum út um allt land.

Og svo verður fólkið í viðkomandi byggðarlögum óskaplega reitt út í okkur, "umhverfisfasistana" af því að við neitum að vera meðvirk, neitum að gangast inn á þennan þankagang, viljum koma umræðunni um atvinnuuppbyggingu upp úr þessum hjólförum og reyna með því að koma í veg fyrir að svona miklu verði fórnað af náttúrunni fyrir þessa orkufreku, mengandi starfsemi.

Af hverju gefa pólitíkusarí sveitarstjórnum og á þingi sjálfum sér endalaust skotveiðileyfi á íslenska náttúru og samþykkja að valda óafturkræfum náttúrspjöllum í dýrmætri náttúru landsins til að þjóna hagsmunum fyrirtækja í áliðnaði? Af hverju eru þeir sem búa í byggðarlögum sem eiga undir högg að sækja í atvinnumálum tilbúnir að fórna svona miklu fyrir stóriðjufyrirtæki sem vitað er að eiga í vandræðum núorðið að finna lönd fyrir starfsemina vegna þess að þau reka starfsemi sem kallar á virkjanir með tilheyrandi náttúruspjöllum og veldur gróðurhúsaáhrifum?

Ég veit ekki um ykkur en mér finnst ekki vitglóra í þessum þankagangi.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 10.8.2008 kl. 22:46

19 Smámynd: Bumba

Elsku bezta Lára Hanna mín. Innilegar þakkir fyrir að hafa vakið mig enn og aftur til hugsunar um hversu mikil andskotas fífl þessir ráðamenn og frýr er hér á þessu guðsvolaða skeri. Ég ski ekki lengur þessa gróðrahyggju, skammgróðrahyggju, i formi þessarar tegundar stóriðju. Þegar flestar vel viti bornar þjóðir eru að kasta þessum spúandi eimyrjum út úr sínum löndum þá skulum við, mörlandinn vitlausi taka við endalaust þessum þá líka "Íslandsvinum". Svei attan.

Á dögunum kom vinur eins leigjanda míns hingað i heimsókn. Þeir fóru hringinn með unnustum sínum. Báðir eru raunvísindamenn og miklir hugsuðir. Annar þeirra er bóndasonur og hefur unnið mikið við  landbúnað allskonar. Tilbaka kom þau öll, mikið til orðlaus af hrifningu af landinu og hinni stórbrotnu fegurð þess. Eitt áttu þau þó sameiginlegt. Og spurðu, bóndasonurinn hafði orð fyrir þeim, og spurninginn var svona: Afhverju eru Íslendingar að drepa landið sitt, sérstaklega hið ræktaða land? Ég hváði og skildi ekki almennilega hvað þau voru að fara. Afhverju er landið ekki nýtt undir landbúnað? var aftur spurt. Þau komu við á Ólafsfirði þar sem ekki er búið á einni einustu jörð af þeim 24 sem voru í byggð þegar ég var að alast upp. Túnin eru að deyja, þetta feita gras sem hvergi sést lengur í Evrópu er látið algerlega ó nýtt. Bara á Ólafsfirði væri hægt að hafa 3 til 4 hundruð kúa fjós. Og svona mátti lengi telja. Það er aumt það land sem gæti brauðfætt sig en gerir ekki sögðu þau.

Ég dauðhrökk við. Mér er búið að líða illa síðan. Það eru til svo mikilir möguleikar en enginn virðist sjá þá nema þetta unga fólk. Íslendingarnir segja bara flutingsgjöldin til og frá landinu eru svo dýr. Ég spyr: HEFUR NOKKUR REIKNAÐ ÚT FLUTNINGSKOSTNAÐINN TIL OG FRÁ LANDINU HVAÐ ÞETTA ÁLBOXÍT OG JÁRNBOXIT SNERTIR?????????????????  þAÐ EFST ÉG UM . Það væri gaman að sjá hve sú tala væri há. Með beztu kveðju. Lára Hanna, þú ert æðisleg.

Bumba, 11.8.2008 kl. 02:12

20 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk fyrir innilit og athugasemdir, öllsömul.

Víðir... Þórunn segir í viðtalinu að umhverfismat fyrir einstaka framkvæmdir liggi fyrir. Ég skil það svo að hver framkvæmd er metin sjálfstætt, en síðan er bætt við heildarmati sem að mínu viti er eina skynsamlega leiðin. Þetta átti líka að gera við Helguvík en af einhverjum lagatæknilegum ástæðum var það ekki hægt. Eins og þú manst kannski var ég afar ósátt við það, en því máli er ekki lokið enn. Spyrjum að leikslokum.

Og aftur, Víðir... Þú spyrð: "Hver veit nema komi meira aðlaðandi iðnaður sem vill kaupa orku og hvað gerist þá?" Þegar við verðum búin að verja allri okkar orku í að knýja álver verður einfaldlega ekkert eftir fyrir meira aðlaðandi iðnað og þýðingarlaust að ræða það neitt frekar. Og miðað við hve ágeng orkunýting er fyrirhuguð verður heldur ekkert eftir af orkunni þegar búið verður að afskrifa álverin.

Auðvitað er Óðinn ánægður með allt sem flýtir fyrir eyðileggingu landsins, mengun þess, rándýrum störfum, útsölu auðlinda okkar og þjónkun við erlenda auðhringa. Það hefur löngu komið fram í athugasemdum hans á þessu bloggi mínu - og kannski víðar. Ég gef ekkert fyrir gagnrýni Jóns Gunnarssonar og Kristjáns Þórs. Þeir eru litlir frasakarlar í atkvæðasnapi.

Kristinn... Var ég að mæla með því að taka lán til að viðhalda taprekstri? Nei. Ég var heldur ekki að tala um að skuldsetja íslensku þjóðina til að fremja megi skemmdarverk á íslenskri náttúru eins og gert var þegar Kárahnjúkavirkjun var reist. Ég er heldur ekki að tala um að "sjá til" og selja orkuna síðar. Ég er að tala um að ganga hægt um gleðinnar dyr og gá að sér. Ekki þurrausa allan jarðhitann okkar á einu bretti eins og til stendur - og selja afurðina á útsöluprís lægstbjóðanda. Og ég aftek með öllu að fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar sé tryggt með því að selja hana í hendur amerískum auðhringum - eða hvaðan sem þeir auðhringar væru. ÞAÐ er þröngsýni - ekki að vilja líta í fleiri áttir.

Óskar... ég veit að Yellowstone er þjóðgarður. En það hefur nú aldeilis ekki vafist fyrir íslenskum stjórnvöldum að aflétta friðun eða eyðileggja náttúruminjar ef því er að skipta. Og skoðaðu landamörk t.d. tveggja íslenskra þjóðgarða - Vatnajökulsþjóðgarðs og Jökulsárgljúfurs. Smelltu svo á eitthvert myndbandanna vinstra megin á bloggsíðunni minni - undir "Eldri færslur". Þá kemur listi yfir myndbönd sem ég hef sett inn. Ég hef ekki notað nema brot af þeim í pistlum en geymi þarna til betri tíma og upplýsingar. Þar er myndband sem heitir "Landsvirkjun og Jökulsárgljúfur". Það er ljóst þeim sem hafa skoðað landamörk þjóðgarðanna að þau eru vandlega teiknuð þannig, að virkjanleg fljót eru höfð utan þjóðgarða og í myndbandinu kemur m.a. fram að Landsvirkjun hafi þegar hafið athugun á að virkja Jökulsá á Fjöllum. Og þrátt fyrir að vera stórmerkilegt á heimsvísu er Gjástykki haft rétt utan þjóðgarðs. Hvað segir þetta okkur?

Sigurjón Pálsson... Ég get ekki tekið undir orð þín frekar en venjulega. Þú snýrð einmitt ekki við merkingu með þessum innskotsorðum af því heimamenn eru einmitt hluti af þeim sem ég vísa í. Ég hef heldur aldrei haldið því fram að hér séu skúrkar og heilagir að kljást - við erum öll breyskar manneskjur. Munurinn er sá að við höfum ólík lífsgildi og gjörólíka framtíðarsýn.

Mér finnst innlegg Magnúsar Jónssonar mjög athyglisvert. Hann er búsettur í Noregi og skammast sín fyrir að Íslendingar skuli leggjast flatir fyrir stóriðjunni. Og hann gerir sér grein fyrir því hvað virkjanafíknin og stóriðjuæðið er skammgóður vermir. Ég er innilega sammála honum.

Steingrímur... Mér þykir vænt um ef ég hef haft áhrif á virkjanasinnan í þér og vonandi kemurðu með rithæfa skoðun sem fyrst og leggur þitt til málanna. Eins og þú hefur væntanlega séð er ég alls ekki á móti öllum virkjunum, alltaf, alls staðar. Ég vil hins vegar fara hægar og gætilegar en fyrirhugað er í þessu fáránlega gullæði og hugsa um framtíð barnanna okkar og annarra afkomenda. Ef virkjanaáætlanir núverandi stjórnar, framsóknarmanna og frjálslyndra ganga eftir verður öll orkuauðlind okkar upp urin eftir nokkra áratugi - og hvað gerist þá?

Já, Árni... mæltu manna heilastur. Undirlægjuháttur sá sem ráðið hefur ríkjum hjá stjórnvöldum undanfarin ár er beinlínis til þess fallin að binda okkur á klafa þrælslundar við erlenda auðhringa sem svífast einskis og meta allt í peningum. Sjálfstæði örþjóðar og mannslífin þar eru einskis virði á vogarskálum auðs og valda á heimsvísu. Ég er hrædd um að sjálfstæðisforkólfar fyrri alda snúi sér nú við í gröfinni og séu æfir þeim sem vilja selja árangur baráttu þeirra og fórna þjóðinni á altari Mammons.

Anna... ég þarf að taka athugasemdirnar þínar við pistlunum mínum saman og birta þær sérstaklega. Þú hefur einstakt lag á að komast að kjarna málsins og tjá þig tæpitungulaust. Takk.

Bumba mín... ef pistlarnir mínir hreyfa við þótt ekki sé nema einni manneskju - þá er tilganginum náð. Viti bornar þjóðir sem meta lífið og landið sitt í öðru en beinhörðum skammtímagróða vilja ekki sjá þessar verksmiðjur í bakgarðinum sínum. En runnið hefur gullæði á hluta íslensku þjóðarinnar og sá hluti hefur gleymt öllum gildum öðrum en gróðanum. Það er þyngra en tárum taki.

Lára Hanna Einarsdóttir, 11.8.2008 kl. 11:31

21 Smámynd: Einar Indriðason

Ég segi kannski ekki að þú hafir snúið mér.... En þú hefur svo sannarlega hreyft við mér!  Ég held að svo sé um fleiri, þú hafir hreyft við þeim.  Þetta byrjar með einu litlu skrefi, svo stækka þau, og þeim fjölgar......

Hvort það sé nógu snemma, og nógu mikið.... vonandi!

(annars er þetta bara innlitskvitt frá mér, sko)

Einar Indriðason, 11.8.2008 kl. 17:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband