Íslenska þjóðin er skrýtin skepna

Þannig hóf Bergþóra pistil sinn sem ég hef oft vitnað í. Svo satt, svo sárt að játa. Sárt að líta í eigin barm og viðurkenna hvað við erum þýlynd og undirgefin. Látum allt yfir okkur ganga möglunarlítið. Við nöldrum, muldrum í barminn og snúum okkur því næst að einhverju skemmtilegra, vitandi mætavel að það verður níðst á okkur aftur og aftur og aftur - af því við segjum aldrei neitt, gerum aldrei neitt, beitum aldrei þrýstingi, mótmælum aldrei, refsum ekki einu sinni fyrir illa meðferð á okkur þegar við fáum tækifæri til.

Mótmæli í útlöndumSvo horfum við á fréttir í sjónvarpinu og göpum yfir myndum sem sýna fjöldamótmæli í útlöndum þar sem þau þykja sjálfsögð. Myndum sem sýna tugþúsundir borgara þramma um götur og torg með spjöld hrópandi skoðanir sínar og vilja til að beita yfirvöld lýðræðislegum þrýstingi. Við erum ýmist full aðdáunar eða fyrirlitningar en rumskum og rísum upp við dogg þegar í ljós kemur að mótmælin í útlöndum báru árangur. Spyrjum: Af hverju gerum við aldrei neitt svona? Já, af hverju? Af hverju eru Íslendingar svona frábitnir mótmælum en fagna samt þegar einhver gerir eitthvað eins og flutningabílstjórar fyrr á árinu? Ísland á að heita frjálst þjóðfélag þar sem við megum segja skoðun okkar og mótmæla ef á okkur er brotið - en við gerum það ekki. Við kunnum ekki að meta frelsið til að mótmæla en vorkennum þeim þjóðum sem hafa það ekki.

Það hefur verið mjög lærdómsríkt fyrir mig að hafa útlending á heimiÁrni - Davíð -Geirlinu í nokkur ár. Útlending frá þroskuðu lýðræðisríki þar sem fólk mótmælir hástöfum sé það órétti beitt; þar sem stjórnmálamenn og aðrir eru umsvifalaust látnir segja af sér embættum verði þeir uppvísir að vísvitandi lygum, bruðli með almannafé eða öðrum mistökum í starfi; þar sem kjósendur hika ekki við að refsa yfirvöldum í kosningum sem verður til þess að þingmenn og ráðherrar reyna að gæta sín, vinna vel og hlusta á þjóð sína vilji þeir vera áfram á þingi eða við stjórn.

Útlendingurinn minn fylgist vel með málum hér og hefur skoðanir. Hann skilur ekki sinnuleysi almennings. Hann trúði varla úrslitum kosninganna í fyrra þegar sá flokkur sem hefur níðst einna mest á almenningi og barist harðast fyrir misrétti fékk flest atkvæðin og heldur enn í stjórnartaumana. Hann skilur ekki af hverju það verður ekki allt vitlaust þegar stjórnvöld, hvort sem er ríki eða borg, verða hvað eftir annað uppvís að grófri spillingu og vítaverðu bruðli með almannafé. Alltaf er eitthvað að koma upp og alltaf er hann jafn undrandi á aðgerðarleysi landsmanna.

Nú er hann furðu lostinn yfir því, að haldið skuli hlífiskildi yfir þeim sem verst hafa farið með þjóðina. Yfir þeim sem vissu en gerðu ekkert. Þeim sem blekktu þjóðina. Þeim sem finnst ekkert athugavert við að menn, sem brutu gróflega af sér - jafnvel um langt árabil - skuli sitja óáreittir í sínum feitu embættum. Þeim sem vissu og flýttu sér að selja hlutabréfin sín til að þeir sjálfir myndu ekki tapa krónu en hirtu ekki um alla hina. Þeim sem hlustuðu ekki á viðvaranir og létu stinga skýrslum undir stól. Þeim sem láta hagsmuni stjórnmálaflokka ganga fyrir hagsmunum heillar þjóðar. Þeim sem voru tilbúnir til að fórna þjóð sinni fyrir einkaþotur og lúxussnekkjur. Þeim sem velja frekar skammtímahagsmuni en langtímasjónarmið. Þeim sem vilja fórna einstakri Hannes - Jón Ásgeir -Bjarnináttúru Íslands, sem er eina auðlindin sem þjóðin á eftir fyrir utan mannauðinn, á altari erlendra álrisa og olíufursta.

Útlendingurinn minn hefur þráspurt mig HVERS VEGNA? Þessir menn eru í vinnu hjá þjóðinni en láta hagsmuni vinnuveitandans lönd og leið og skara bara eld að eigin köku. Hvers vegna fyllast ekki götur og torg af fólki sem finnst á sér brotið? Fólki sem finnst starfsmenn þjóðarinnar, stjórnvöld og embættismenn, hafa svikið sig - sinnt starfinu með afbrigðum illa, vanrækt skyldur sínar og verðskulda brottrekstur. Hvers vegna það sé liðið að á meðan gjaldeyrir fæst ekki til að flytja inn mat fyrir börnin okkar geti útrásarbarónar, bankastjórar og aðrir auðmenn arðrænt þjóðina, siglt um á glæsisnekkjum og sötrað kokkteila fyrir þennan sama gjaldeyri sem þeir stálu frá þjóðinni? Ná engin lög yfir slíka glæpi? Mér vefst tunga um tönn. Hvernig er hægt að útskýra tregðu Íslendinga til að taka þátt í mótmælum? Tregðu þeirra til að krefjast þess á afgerandi hátt að hinir brotlegu beri ábyrgð á gjörðum sínum.

Ég er ekki sagnfræðingur og get ekki útskýrt tregðuna í sögulegu samhengi en ég get þó ályktað upp að vissu marki. Á Íslandi hefur umræðunni alltaf verið vandlega stýrt af hagsmunaöflum og réttlætisraddir kaffærðar í mykjuhaugum flokkspólitískra hagsmuna. Ef nokkrar hræður komu saman til að mótmæla valdníðslu voru þær umsvifalaust stimplaðar með því hræðilega orði - kommúnistar! - eða einhverju þaðan af verra. Múgur, skríll, hyski, pakk og meira að segja lýður, sem upprunalega þýddi í einfaldleika sínum aðeins þjóð eða fólk. Mótmælin á fundi borgarstjórnar í janúar voru kölluð skrílslæti af þeim sem þola ekki lýðræði og tjáningarfrelsi. Tungumálinu var lævíslega beitt til að sverta þá sem vildu umbætur eða mótmæla ranglæti. Hvaða sómakær borgari vildi láta hafa um sig slík orð eða vera hluti af einhverjum ruslaralýð sem var hæddur og fyrirlitinn? Þá var nú betra að hafa hægt um sig, þegja og vona það besta. Halda áfram að strita í sveita síns andlitis og þagga niður í mjóróma röddum hið innra sem kröfðust réttlætis öllum til handa, ekki bara sumum.

Áður óþekktar hamfarir ganga nú yfir heiminn en líklega einkum íslensku Helgi Hóseasson - mótmælandi Íslandsþjóðina. Hamfarir sem ekki sér fyrir endann á. Mikið er búið að óskapast og kalla á aðgerðir. Búið er að benda á mann og annan en stjórnvöld eru söm við sig. Við megum ekki "stunda nornaveiðar", eigum ekki að "leita sökudólga" - segja sjálfir sökudólgarnir og beita tungumálinu lymskulega. Auðvitað vill enginn bera ábyrgð frekar en venjulega og þar af leiðandi axlar enginn ábyrgð. Það myndi kannski þjóna hagsmunum almennings ef viti bornir sérfræðingar tækju við, en það þjónar örugglega ekki hagsmunum Flokksins. Hann ætlar að sitja áfram við völd en býðst til að axla ábyrgð í kosningunum eftir þrjú ár. Að mati ráðamanna hefur almenningur aðeins rétt til að segja skoðun sína á fjögurra ára fresti en á að steinhalda kjafti þess á milli og gefa þeim frítt spil. Við lútum höfði í þýlyndu þakklæti.

Á morgun, laugardag klukkan 15, er boðað til mótmæla á Austurvelli. Fólk er hvatt til að vera þátttakendur, ekki þolendur. Þetta eru ekki flokkspólitísk mótmæli, ekki skotgrafahernaður, ekki kommúnistar, múgur, skríll eða hyski heldur ofurvenjulegt fólk, almenningur á Íslandi að láta skoðun sína í ljós með því að mæta. Að krefjast þess að gert verði hreint í skúmaskotum rotinna innviða stjórnsýslunnar. Að krefjast þess að hagur þjóðarinnar verði tekinn fram yfir flokkshagsmuni og hagsmuni örfárra, útvalinna einstaklinga sem hafa plantað sér í dúnmjúk, vellaunuð hásæti og neita að standa upp. Að krefjast réttlætis í stað ranglætis.

Það er með ólíkindum að ferðast um netið og lesa ummæli um þennan mótmælafund. Þar eru ótrúlega margir á villigötum. Agli Helga finnst mótmælin helst til þröngt skilgreind því afsögn Davíðs Oddssonar er þar í forgrunni. Egill á að vita betur. Hann á að hafa meiri tilfinningu fyrir bæði stjórnkerfinu og þjóðarsálinni. Hann á að vita að Davíð er bara byMótmæli á Austurvellirjunin, samnefnarinn, sá sem fyrstur þarf að víkja til að hægt sé að byrja að ná tökum á ástandinu. Það er vita gagnslaust að skipta um bankastjóra, forsætisráðherra, fjármálaráðherra, forstjóra Fjármálaeftirlits eða hvern sem er í stjórnkerfinu ef Davíð Oddsson situr áfram sem Seðlabankastjóri, deilir og drottnar úr hásæti sínu og kippir í hvern flokkspólitíska spottann á fætur öðrum. Hér er ekki verið að hengja bakara fyrir smið, síður en svo. Egill veit þetta vel og þess vegna skil ég ekki þessa bloggfærslu hans. Ég skil heldur ekki hvaða hugsun býr að baki sumra athugasemda við færsluna en þegar ég las þær varð ég afskaplega döpur. Heldur fólk virkilega að aðstandendur mótmælanna séu svo þröngsýnir að telja Davíð einn sekan þótt þeir geri sér grein fyrir hvar þarf að byrja hreingerninguna? Af hverju þráast fólk við að skilja? Eða er það kannski ég sem misskil þetta allt saman?

Þegar leitað er að mótmælum á Íslandi er fátt um fína drætti. Í Wikipediu er minnst á ein mótmæli - mótmæli vörubílstjóra 2008. Þau eru líka flokkuðMótmæli í Ráðhúsi Reykjavíkur undir óeirðir á Íslandi, sem og óeirðirnar á Austurvelli 1949 þegar Ísland gekk í NATO og svo Gúttóslagurinn 1932. Hér er það sem sagt er um Gúttóslaginn: "Gúttóslagurinn var baráttutengdar götuóeirðir í miðbæ Reykjavíkur 9. nóvember 1932. Slagsmál brutust út milli lögreglumanna og verkamanna við Góðtemplarahús Reykjavíkur (Gúttó) en þar voru bæjarstjórnarfundir haldnir. Á fundi bæjarstjórnar þennan dag var tekin til afgreiðslu tillaga um að lækka kaupið í atvinnubótavinnu á vegum bæjarins en þá höfðu áhrif kreppunnar miklu orðið til þess að auka atvinnuleysi á landinu mikið. Mikill mannfjöldi safnaðist saman við Gúttó og mótmæli byrjuðu inni í húsinu og færðust út á götu. Slagsmálunum lauk með því að lögregla hörfaði og hætt var við tillöguna. Verkalýðurinn vann." Segið svo að samstaða borgi sig ekki þótt engin verði slagsmálin og sérsveit Björns Bjarnasonar fullkomlega óþörf!

Ég vona að fólk fjölmenni á fundinn á Austurvelli á morgun. Allir sem vilja breytt vinnubrögð stjórnvalda, betra siðferði, meira réttlæti, sannleika, hæfa stjórnendur í ábyrgðarstöðum og heiðarleika í stjórnkerfinu. Allir sem vilja að stjórnvöld taki hagsmuni þjóðarinnar fram yfir eigin- eða flokkshagsmuni. Allir sem hafa fengið nóg af spillingu og hagsmunatengslum. Allir sem vilja tjá hug sinn - til þess eru mótmæli. Mætum og sýnum samstöðu.

Þetta sagði Einar Már Guðmundsson m.a. um samstöðu í Mannamáli 9. desember 2007. Þótt Einar Már sé þarna að tala um samstöðu launamanna og minnist á Gúttóslaginn er samstaða nú sama eðlis og alveg jafn nauðsynleg:



Ekki lesa allir athugasemdir við bloggpistla og ég ætla því að birta hér mjög athyglisverða athugasemd sem komin er við pistilinn. Hún er frá Elfu, íslenskri konu sem búsett er erlendis og horfir á þjóðmálin frá þeim sjónarhóli. Elfa segir:

Heyr heyr !

Ég bý í Danmörku. Danir eru kjaftbit á Íslendingum. Fyrst fyrir að fokka málum svona rosalega upp ... marga grunaði að eitthvað gæti farið illa, en ekki að við myndum gera svona myndarlega uppá bak. Síðan líður og bíður og enginn axlar ábyrgð. Ekkert gerist. EKKERT. Danir góna bara yfir þessu. Hér eru menn vanir því að hirða pokann sinn ef þeir standa sig ekki ... og hika ekki við að láta fólk fara ef upp koma mistök. Anders Fogh forsætisráðherra er búinn að víkja nokkrum ráðherra sinna frá vegna vandamála sem þættu aldeilis smávægileg á Íslandi.

Vegna þess að enginn víkur, enginn er látinn axla ábyrgð, lítur alheimur svo á að allir Íslendingar kvitti uppá að þetta sé í góðu lagi og standi að baki fjárglæfrum og óstjórn ... þess vegna eru ekki bara íslensk yfirvöld rúin trausti ... heldur allir Íslendingar og íslensk fyrirtæki.

Undir venjulegum kringumstæðum myndi þetta vera lítið mál vegna þess að enginn hefur haft minnsta áhuga á Íslandi. En núna er allur heimurinn að horfa á okkur og fylgist grannt með hvernig við tökum á málum.

Og hvað gerum við ... við tökum EKKI á málum.

Af því það er svo ókúl að mótmæla, fólk gæti haldið að maður væri kommi eða lúser. Þessi aumingjaskapur og manndómsskortur er það sem ég á erfiðast með að líða. Það er mér þungbærara en að lífeyrissjóðurinn minn er farinn fjandans til.

Í fyrsta skipti á ævinni skammast ég mín fyrir að vera Íslendingur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er sannkölluð hugvekja hjá þér, Lára Hanna, og það góð hugvekja. Að venju kemurðu víða við.

Orð eru til alls fyrst og mikið skelfing eru þau stefnumótandi. Mér varð hreinlega flökurt þegar ég heyrði í biskupnum um síðustu helgi þrástagast á því í prédikun að við (lesist þjóðin) værum öll í sama bát. Drottinn minn, það eru margir hér í samfélaginu sem eru í allt annars konar bát en biskupinn. Mig grunar að meðan æði margir reyna að halda hripleku kari sínu á floti þá geti biskupinn hallað sér aftur í vel smiðuðum bátnum sem honum hefur verið úthlutaður.

Það er óskandi að ekki færri en 50.000 manns komi á Austurvöll á morgun. Hér eru núna staddir fjölmargir erlendir fréttamenn. Þeir eru ekki bara komnir hingað til að taka viðtöl við embættis- og stjórnmálamenn. Þeir eru líka hérna til að segja frá því hvernig venjulegu fólki hér líður. Það er óskandi að annað kvöld geti þeir skrifað og sagt frá því að íslenska þjóðin hafi loksins risið upp og sett ráðamönnum stólinn fyrir dyrnar. Íslendingar þurfa á því að halda að aðrar þjóðir fái aftur trú á þeim - að taka þátt í mótmælunum á morgun er ágætisleið til þess að sýna heiminum að það er dugur í okkur.

Helga (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 18:44

2 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

við Íslendingar erum lurður upp til hópaog ég þar ekki undan skilinn. líklega er Helgi Hós einn af fáum með viti hér.

Brjánn Guðjónsson, 17.10.2008 kl. 18:51

3 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Ég ætla að mæta á minn Austurvöll - og kannski þurfum við öll „okkar“ útlending á heimilið!

Ásgeir Kristinn Lárusson, 17.10.2008 kl. 19:43

4 identicon

Aldrei þessu vant er ég ekki sammála þér núna, Lára  Hanna.  Mér finnst  algjör lágkúra að stofna til mótmæla gegn einum manni mitt í þeim ólgusjó,sem við velkjumst í.  Sá  tími mun koma að hann svari fyrir sínar gjörðir.  Kraftarnir eiga að beinast gegn því sem einmitt þú berst svo harðlega gegn.  Að ekki sé valtað  yfir náttúru landsins á skítugum skóm í krafti þess að allt sé að fara til fjandans.  Heilsíðuauglýsing í blöðum í dag.  Sveitarstjórnarmenn skrifa undir. Við eigum að láta þessa menn vita að lög og reglur um umhverfisvernd muni halda gildi sínu.  Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Auður (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 20:26

5 identicon

Veraldlegir eða andlegir auðjöfrar?

Við sem þjóð höfum ekkert val annað en að fylgjast með stjórnvöldum okkar reyna
að leysa úr þeim stórkostlega vanda sem við erum
stödd í. Ekki gerum við byltingu. ekki enn, svo mikið er víst. við höfum engan
betri kost í stöðunni eins og hún er í dag.

Ráðamenn segja okkur að við séum öll í sama bátnum og nú þurfi
allir að leggjast á árar til að ná landi.
En traust til stjórnvalda er skaddað. Lyktin af spillingu berst víða.

Gott og vel, sú þjóð sem við þekkjum er þjóð sem vel getur tekið
höndum saman þegar vá er fyrir dyrum.
En til þess að fleyið sigli af samhentri einbeitingu til lands
þurfa stjórnvöld að vinna traust þjóðarinnar til baka.

við þurfum að vita að um borð séu ekki liðleskjur og
laumufarþegar, með falda björgunarbáta fyrir sig og sína.
Við þurfum að vita að þær systur, græðgi öfund og spilling séu
ekki með í för.

Því ef svo er munum við brátt heyra gamalkunnug hljóð.
Glasaglaum og hlátrasköll af svítunum að ofan.
Og uppgötva að við hin erum hlekkjuð við
árarnar á meðan sum plássin eru áberandi auð.


Stjórnvöld hafa möguleika á að vinna traust almennings.
En til þess þurfa þau að hvítþvo hendur sínar af gömlum og nýjum
ósómum.

Við vitum vel að þegar við náum landi á ný
bíður okkar lítið tré.
Úr því tré má bæði gera plóg eða gálga.

sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 20:34

6 identicon

Heyr heyr !

Ég bý í Danmörku.  Danir eru kjaftbit á Íslendingum.  Fyrst fyrir ad fokka málum svona rosalega upp ... marga grunadi ad eitthvad gæti farid illa, en ekki ad vid myndum gera svona myndarlega uppá bak.   Sídan lídur og bídur og enginn axlar ábyrgd.  Ekkert gerist.  EKKERT.  Danir góna bara yfir tessu.  Hér eru menn vanir tví ad hirda pokann sinn ef teir standa sig ekki ... og hika ekki vid ad láta fólk fara ef upp koma mistök.   Anders Fogh forsætisrádherra er búinn ad víkja nokkrum rádherra sinna frá vegna vandamála sem tættu aldeilis smávægileg á Íslandi. 

Vegna tess ad enginn víkur, enginn er látinn axla ábyrgd,  lítur alheimur svo á ad allir Íslendingar kvitti uppá ad tetta sé í gódu lagi og standi ad baki fjárglæfrum og óstjórn ... tess vegna eru ekki bara íslensk yfirvöld rúin trausti ... heldur allir Íslendingar og íslensk fyrirtæki.   

Undir venjulegum kringumstædum myndi tetta vera lítid mál vegna tess ad enginn hefur haft minnsta áhuga á Íslandi.  En núna er allur heimurinn ad horfa á okkur og fylgist grannt med hvernig vid tökum á málum. 

Og hvad gerum vid ... vid tökum EKKI á málum.  

Af tví tad er svo ókúl ad mótmæla, fólk gæti haldid ad madur væri kommi eda lúser.  Tessi aumingjaskapur og manndómsskortur er tad sem ég á erfidast med ad lída.  Tad er mér tungbærara en ad líferyissjódurinn minn er farinn fjandans til.

Í fyrsta skipti á ævinni skammast ég mín fyrir ad vera Íslendingur.

Elfa (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 20:42

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég má til að minna á mótmæli Mývetninga sem voru á móti virkjun Laxá. Þau náðu hámarki í því sem gjarnan hefur verið kallað fyrsta hryðjuverkið á Íslandi. Niðurstaða mótmælaaðgerðanna varð mótmælendum í hag.

Ég vona að það verði margir sem mæti á Austurvöll á morgun til að sýna hug sinn í verki. Ég vona líka að þín vönduðu skrif verði til þess að margur sem hefur fett fingur út í það hvernig mótmælin eru kynnt átti sig og skilji málið á sama hátt og þú.

Mér finnst spurningin vera þessi: Viljum við búa við óbreytt ástand eða viljum við freista þess að mark sé á okkur tekið? Ef nógu margir safnast niður á Austurvöll þá vona ég að stjórnmálamenn skilji að það er ástæða til að taka tillit til krafna okkar sem krefjumst þess að menn í ábyrgðarstöðum séu látnir sæta ábyrgð gjörða sinna.

Ég bið með Helgu, hér fyrir ofan, að það verði a.m.k. 50.000 manns sem mæti á Austurvöll á morgun!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.10.2008 kl. 20:50

8 identicon

Auðvitað mætum við á Austurvöll á morgun. Hættum að vera þrælar, höfum skoðun, sjáum og heyrum hvað hægt er að gera.

Sýnum samstöðu.

skuldari (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 20:55

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Varð að bæta því við hvað ég er sammála Elfu hér fyrir ofan. Mikið vona ég að sem flestir lesi athugasemd hennar. Það eru nefnilega svo margir að kvarta sáran yfir því hvernig Íslendingar eru dæmdir núna úti í hinum stóra heimi en átta sig ekki á því að þetta er einmitt málið. Ef við ætlum að sitja þegjand undir þessu án neinna sýnilegra aðgerða þá lítur auðvitað út fyrir að okkur sé sama og þá erum við dæms í samræmi við það.

Það ættu því allir að skunda niður á Austurvöll á morgun þó það væri ekki til annars en sýna alþjóðasamfélaginu að okkur er ekki sama. Ég vona heitt og innilega að hópurinn verði nógu stór til að eftir honum verði tekið!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.10.2008 kl. 20:57

10 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Heyr, heyr.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.10.2008 kl. 21:30

11 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka pistilinn, víst er kominn tími til að mótmæla því að hönnuðir hrunsins standi vörð um rústirnar og fari fram á samstöðu þjóðarinnar um að verja skaðann.

Magnús Sigurðsson, 17.10.2008 kl. 21:33

12 identicon

Ég lít svo á að mótmæla eigi SPILLINGU, hélt reyndar að allir litu svo á. Þessvegna er eðlilegt að mótmælin beynist gegn tákngerfingi spillingarinnar þó margir aðrir séu sekir, það kemur að þeim síðar.

Almenningur - fórnarlamb SPILLINGAR -sér fram á gífurlega skerðingu lífskjara, skuldaklafa og eignamissi, sjálfstæði þjóðarinnar er í hættu. Lætur hann þetta yfir sig ganga án þess svo mikið sem mótmæla? Það verður fróðlegt að sjá, trúi því ekki að óreyndu.

sigurvin (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 21:34

13 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Lára Hanna...mikið rosalega ertu vel skrifandi og hugsandi. Les oftast pistlana þína og dáist að því hversu skýr og vel hugsandi kona þú ert. Læt mig sko ekki vanta á morgun og hef oft tekið þátt í mótmælum en sjaldan eins mikilvægum og þeim sem við þurfum að gera á morgun. Vona að a.m.k 50.000 manns mæti.....heimurinn horfir og bíður eftir að það finnist lífsmark með hinum almenna íslendingi.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 17.10.2008 kl. 21:42

14 Smámynd: 365

Ef Fjölmiðlalögin hefðu verið samþykkt þá hefði það heft framgang þessa brjálæðis sem nú hefur dunið yfir þjóðina.  ÞAR var kjörið tækifæri sem við létum um greipar okkar fara.  Raddirnar voru svo mergjaðar sem voru á móti að það gleymdist að horfa á aðalatriðin.  Sannið til, að þegar uppbyggingin fer af stað aftur verða settar reglur sem kveða á um svipaðar áherslur og voru í Fjölmiðlafrumvarpinu.  Þýlinda og undirgefna þjóð.  

365, 17.10.2008 kl. 22:28

15 Smámynd: Villi Asgeirsson

Endilega öll skrá sig á www.NyjaIsland.is og safna kröftum. Því fleiri, því betri. Ef 1000 manns segja sína meiningu verður hlustað. Ef ekki, þá lesa 1000 manns pistillinn ykkar og þramma niður í bæ... kannski. Allavega, endilega kíkið á síðuna. Lára komst ekki inn í morgun, en það er eðlilegt með nýjar síður. Ef þetta gengur ekki, reynið aftur í fyrramálið.

Fyrirgefðu Lára, að stela svona síðunni þinni, en þú skilur af hverju, Við verðum að gera eitthvað. Við viljum sitja á rassinum. Allt í lagi, gerum það í nokkra daga, söfnum hugmyndum og kröftum og skipuleggjum mótmælin.

Takk annars fyrir frábært blogg.

Villi Asgeirsson, 17.10.2008 kl. 22:39

16 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Frábær og þarfur pistill og segir allt sem segja þarf og hana nú.  Ég er á kvöldvakt á morgun, en ætla að reyna að fá vinnufélaga til að hnika aðeins til fyrir mig svo ég geti mætt.

Sigrún Jónsdóttir, 17.10.2008 kl. 23:10

17 Smámynd: Steingrímur Helgason

Í mér býr öngvin 'úlpa' ...

Steingrímur Helgason, 17.10.2008 kl. 23:19

18 identicon

Djöfull skal maður mæta!

P. S.

Flottur pistillinn hjá Einari Má.  

Rómverji (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 23:42

19 identicon

Já, það er merkilegt með ábyrgð á Íslandi. Eina fólkið sem þarf að taka beina og opinbera ábyrgð á árangri sínum í starfi eru íþróttaþjálfarar! Eru þó hagsmunirnir þar ekki spurning um lífsafkomu og velferð heillar þjóðar!

Við erum svo alvarlega meðvirk að það er með ólíkindum. En þetta snýst líka um það að við komum okkur ekki saman um hverju skal mótmæla, eitt er of þröngt skilgreint, annað of vítt og óljóst þannig að tilraunir til að rísa upp renna út í sandinn. Það er jafn óraunhæft að skella skuldinni á einn mann og stjórnvöld öll.

Erla (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 23:52

20 Smámynd: Egill Jóhannsson

Það eru einmitt veruleg mistök hjá forkólfum mótmælanna að velja Davíð Oddsson sem skotspón ef á sama tíma er sagt, eins og þú skrifar, að mótmælin séu ekki flokkspólitísk. Það er einfaldlega ótrúverðugt gagnvart flestu hugsandi fólki.

Það er einnit ákaflega ótrúverðugt að það sé rétt taktík að byrja þurfi á því að velta Davíð úr sessi til þess að hægt sé að taka til við aðra sem ábyrgð bera á ástandinu og gera að því skóna að Davíð stjórni nánast öllu úr hásæti sínu eins og þú orðar það. Þetta er móðgun gagnvart hugsandi fólki.

Fólk er ekki að þráast við að skilja eitt né neitt. Það er sáraeinfalt að skilja fólk sem heldur því fram að einn maður geti stjórnað heilu þjóðfélagi úr meintu hásæti. Þetta er einfaldlega ótrúverðugt og gengur ekki upp.

Þessi fókus á Davíð Oddsson dregur athyglina frá kjarna málsins og kemur í veg fyrir að vandinn sé rétt greindur sem aftur leiðir til rangra lausna. Fjölmiðlar sem hafa sem mest hamast í Davíð hafa brotið á skjólstæðingum sínum, fólkinu í landinu, því þeir hafa eitt tíma sínum og fólksins í vitleysu i stað þess að kafa dýpra í málin.

Þetta er lýðskrum af versta tagi og er tilkomið vegna leti og vanmáttar fjölmiðlamanna til að grafa dýpra og horfa út fyrir eigin persónulegu og flokkpólítisku skoðanir. Þessi aðferð er eingöngu til þess fallin að fullnægja eineltis- og blórabögguls þörf múgsins en sem betur fer er sá hluti múgins sem móttækilegur er fyrir þessum áróðri ekki nægjanlega stór.

Að mínu mati ligggur ábyrgðni á klandri Íslandi hjá tveimur af meginstofnunum samfélagsins þ.e. stjórnmálunum og fjölmiðlunum. Frá því sjónarhorni þarf að byrja að byggja upp nýtt Ísland þ.e. breyta þessum meginstofnunm og þá fylgir hitt á eftir og ábyrgð einstakra manna lýkst upp. Ég hef ákveðnar hugmyndir um það hvernig á að vinna þetta áfram út frá þessu grundvallar sjónarmiði sem of langt mál er að skýra hér en liggur samt nokkuð ljóst fyrir ef menn taka af sér flokkspólitísku- og sérhagsmunagleraugun.

Egill Jóhannsson, 17.10.2008 kl. 23:53

21 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

GARG!

Elfa, svo hrikalega, hrikalega satt! Við erum ekki öll að skrifa upp á þetta! Erum bara ekki vön að þurfa að gera eitthvað sjálf í málunum. Ég var ein af þessum sem mættu á Arnarhól, 200 manns, var að vonast eftir svona 50.000, sem myndu jafnvel ráðast inn í Svörtuloft. En nei.

Því miður kemst ég sjálf ómögulega á morgun þótt ég meira en gjarnan vildi, er búin að gera mitt til að fólk mæti (skal setja inn aðra færslu í fyrramálið - og tala við fólk)

Það er fáránlegt, gersamlega fáránlegt að þessir menn séu ekki farnir frá með skít og skömm!!!

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 17.10.2008 kl. 23:55

22 identicon

þrælgóð samantekt hjá þér

þrátt fyrir að vera þjóð  sem er lúbarin, niðurlút og gegnsýrð af þrælsótta þá verðum við að taka af skarið og mæta á Austurvöll, getum ekki látið hann Jón Sigurðsson stara einn þarna á alþingishúsið hjálparvana.Er það ???

Það versta er að það eru alltof margir sem halda að hér verði bara allt í lagi í næstu viku kl. 4 !!! því miður það verður ekki svo. þannig að það á engin að skorast undan - oft hefur það nú verið þörf en nú er mikil nauðsyn

Alla (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 00:07

23 identicon

Afsakið, en eftirfarandi færsla fór á rangan stað og því endurtekin hérna:

Ég get ekki lengur setið á mér og verð að láta eftirfarandi flakka.

Davíð Oddson lagði niður Þjóðhagsstofnun meðan hann var að planleggja að Seðlabankastjórastöðu sína. DO hefur aldrei getað tekið gagnrýni og hatrammlega heggur til baka til andstæðinga sinna. Hefndin er það gróf að það jaðrar við einhvers konar geðveiki. Ég man vel hvernig Þorsteinn sonur hans lét í gamla daga, og á þeim tíma var yfirgangurinn manni mjög svo misbjóðandi.

Núverandi Seðlabankastjóri hefur ekki hugmynd um hvað starf hans snýst. Með skottlausan apakött sem fjármálaherra hafa þessar fígúrur náð að hryðja einhverjar mestu hamfarir yfir þjóðina sem um getur í sögu Íslands. Og núna útbýtir Seðlabankastjóri gjaldeyri til fyrirtækja eins og sá einvaldur sem DO stefndi að sem einvaldur Seðlabankastjóri (án Þjóðhagsstofnunar).

Mér er svo hrikalega misboðið, en það virðist enginn hafa áhuga né getu (og væntanlega engin lög til) til að takast á við svona þjóðþrifnaðarvandamál.

Ég held að fólk ætti að ýta á mikilsverðar lagabreytingar áður en ný stjórn tekur við. Nú er akkúrat tími fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur, eitthvað sem Alþingismenn eru skíthræddir við í augnablikinu.

Lára og Kata, ég hvet ykkur að láta heyra í ykkur!

nicejerk (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 00:47

24 identicon

Sá þetta á Fésbók:

"Fólk! Auðvitað eru fleiri sekir en Davíð Oddsson. Mætið með spjöld
beindum til þeirra líka.

Öll seðlabankastjórnin ber ábyrgð sem og bankaráðið. Ríkisstjórnin er
full af aumingjum sem horfa í aðra átt, taka pólitískan feril sinn framyfir
þjóðarhag og bíða eftir eftirlaununum sínum. Forseti Íslands er
hræsnari. Fjárglæfrabófar eiga að fara í fangelsi.

Þó við krefjumst þess að Davíð hætti hryðjuverkum á íslenskt
efnahagslíf þýðir það ekki að við séum í "liði" með öðrum sem
bera ábyrgð.

Ekki taka þátt í liðaleiknum og láta það stoppa ykkur að mótmælunum
sé beint gegn Davíð Oddssyni. Ekki láta það stoppa ykkur þó örfáir
nallamenn hafi mætt á mótmælin um daginn. Þar var reyndar gjallarhorn sem
ÖLLUM var frjálst að nota.

Verum þátttakendur, ekki þolendur!
Gerum þetta að alvöru mótmælum. FJÖLMENNUM!!!" 

Rómverji (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 00:48

25 Smámynd: Guðrún Ágústa Einarsdóttir

Sammála Agli Jóhanns...hér fyrir ofan.

Guðrún Ágústa Einarsdóttir, 18.10.2008 kl. 00:49

26 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Er búið að hafa samband við Helga Hós?

Sigurður Þórðarson, 18.10.2008 kl. 01:12

27 identicon

Til að bæta einni skrautfjöður í hauslausan höfuðbúnað, þá hefði Ingibjörg Sólrún átt að sýna ábyrgð og draga Ísland út úr kosningu til Öryggisráðsins. Þetta er allt við sömu fjölina fellt, hugsanaleysi og hroki upp til hópa.

Hvernig er þetta? Er það enginn sem kann sig lengur? 

Hvar er  hugsunin? Hvar eru heilbrigð viðbrögð?

?????

nicejerk (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 01:17

28 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég ætla að mæta á morgun, fyrst við alþingishúsið kl. 15.00 og svo í Laugardal kl. 17.00 mér er ofboðið.  Mótmælin á morgun verða vonandi almennileg.  Ég vona að tugþúsundir manna láti sjá sig á báðum stöðunum. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 18.10.2008 kl. 02:03

29 identicon

Sit hérna í Danmörku og fylgist með ástandinu. Er algerlega gáttaður-og danirnir vinir mínir líka. Hvers vegna er ekki búið að reka neinn? Er nema von að þeir spyrji? Þeir sem bera ábyrgð - bera ábyrgð. Er það ekki annars?

Svo skrifar fólk hér inn að ekki megi benda á Davíð Oddsson. Það má bara víst! Er ekki allt í lagi með fólk?  Nú er einmitt rétti tíminn til að benda á hina innvígðu og innmúruðu. Eins slæmt og ástandið er þá er þetta svona "once in a lifetime"- tækifæri sem þjóðinnni hefur áskotnast. Og BER að nýta!

Hvet alla til að mæta, þó ekki væri nema til að hrista slyðruorðið af Íslendingum.

Jóhann (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 08:14

30 Smámynd: Egill Jóhannsson

Ekki banna ég ykkur að benda á Davíð enda veit ég ekki hvaðan ég eða aðrir ættu að fá völd til þess. Ég bendi einfaldlega á að ávinningurinn af því að fókúsera á Davíð kallinn er enginn enda fullkomlega út í hött að halda því fram að einn einstakllingur, úr meintu hásæti seðlabankastjóra, geti stjórnað öllu stjórnkerfinu.

Þetta er galin hugmynd en auðvitað fullkomlega í takt við stjórnmálaumræðu hér á landi undanfarna áratugi enda plantað af fólki sem er í raun ekki tilbúið að koma með raunverulegar lausnir. Þetta er lýðskrum af versta tagi og er tilkomið vegna leti og vanmáttar fjölmiðlamanna og álitsgjafa til að grafa dýpra og horfa út fyrir eigin flokkspólitík og sérhagsmuni. Þessi aðferð er eingöngu til þess fallin að fullnægja eineltis- og blórabögguls þörf múgsins en vonandi er sá hluti múgsins sem móttækilegur er fyrir þessum áróðri ekki nægjanlega stór. Guð hjálpi okkur annars.

Nei, það verður að kafa dýpra og finna rót vandans. Röng greining vandamála kallar á rangar lausnir. Að mínu mati ligggur ábyrgðin á klandri Íslands hjá tveimur af meginstofnunum samfélagsins þ.e. stjórnmálunum og fjölmiðlunum. Frá því sjónarhorni þarf að byrja að byggja upp nýtt Ísland þ.e. breyta umhverfi þessara meginstofnana og þá fylgir hitt á eftir og ábyrgð einstakra manna lýkst upp.

Út frá þessu grundvallar sjónarmiði liggur nokkuð ljóst fyrir hvað gera þarf ef menn taka af sér flokkspólitísku- og sérhagsmunagleraugun.

Fyrstu skrefin eru þessi:

* Landið verði gert að einu kjördæmi í síðasta lagi fyrir næstu kosningar.

* Stefnt verði að algeru gagnsæi allra stofnana samfélagsins með uppbyggingu á viðmiklu gæðastjórnunarkerfi fyrir Ísland þar sem aðgangur fólksins í landinu að stofnunum þess sé vel skilgreindur og að markmið stofnana samfélagsins verði skilgreind út frá hagsmunum fólksins.

* Fjölmiðlar landsins skilgreini "fólkið í landinu" sem skjólstæðing sinn í stað "viðskiptablokka og stjórnmálaflokka" og eignarhaldi á fjölmiðlum verði gjörbylt.

Skipuleggjendur mótmælanna voru að tala um að það þyrfti skýr skilaboð frá mótmælendum. Og þau völdu "Rekum Davíð" en þá spyr ég "og hvað svo?". Ég legg frekar til að skilaboð mótmælendanna verði skrefin sem ég bendi á hér á undan. Þau uppfylla kröfuna um skýr skilaboð en um leið innihalda þau markmið til framtíðar. Ávísun á uppstokkun og árangur.

Egill Jóhannsson, 18.10.2008 kl. 09:38

31 identicon

Ein af kröfunum þyrfti að vera gagnsæi í fjárreiðum stjórnmálaflokka. Ef eitthvað veldur tortryggni þá er það spurningin um hagsmunaflækjur og ítök í valdakerfinu. Af hverju er ekki löngu búið að opna bókhald flokkanna? Hverju hafa þeir að leyna sem ekki vilja þetta?

Solveig (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 10:33

32 identicon

Ég er reyndar persónuleg ósammála tví ad benda bara á Davíd, ekki vegna tess ad hann eigi enga sök, hann hefur aldeilis margt ad svara fyrir tessa dagana.   Ég hefdi bara viljad sjá mótmæli á breidari grundvelli, líkt og Hnakkus bendir á í frábærum pistli http://hnakkus.blogspot.com/

En adalmálid er ad fólk rísi upp og sýni ad nú er aldeilis nóg komid.  

Ýmislegt sem Egill bendir á ad turfi ad gera eru fín mál.  En hverjir eiga ad framkvæma tetta og allt annad sem tarf ad gera.  Er mönnum virkilega alvara med ad sömu mennirnir sem komu landinu í tennan illa lyktandi skítahaug sem vid sitjum í, eigi sídan ad vinna ad uppbyggingunni.   Hver í veröldinni á ad taka mark á slíku?  Verdur tad til ad auka tiltrú okkar í heiminum.  Nú er ég ekki ad beina sjónum mínum ad einum flokki, margir ef ekki flestir hafa lagt sitt ad mörkum til ad skapa ástandid.   Ég hef persónulega kosid allt stafrófid á einhverjum tímapunkti og sé engan núna sem mér finnst geta borid höfudid sérlega hátt.

Og teir sömu klúdrarar ætla líka ad standa ad hvít(tvotta)bókinni ... Almáttugur minn ... sleppidid tví bara.  Tilgangslaust ad standa ad rannsókn á slíkum grunni og eyda dýrmætu fé í tad, tad vekur bara meiri adhlátur heima og heiman.   Ef ekki á ad draga algerlega hlutlausa adila ad bordinu tá er tad peningaeydsla. Og peningum eigum vid bara ekki nóg af lengur.  Íslensk rannsóknaryfirvold eiga ekkert erindi í tessa vinnu.   Tad tarf virta erlenda adila til ad einhver nenni ad hlusta á nidurstöduna.

Tad sem liggur fyrir núna ad valdhafar eru tegar byrjadir ad róa sínum árum ad enduúthluta bönkunum.  Ný einkavinavæding er í uppsiglingum.  Ætlidi ad láta tad vidgangast hljódalaust?

Tessir tæknilegu hnökrar sem Geir talar í sífelldu um i gjaldeyrisvidskiptum snúast bara um eitt.  Enginn treystir Íslendingum.  Peningum er ekki skilad inn í landid, né frá tví, af tví ad altjódabankaheimurinn er hræddur um ad peningar trodabúa bankanna verdi tæmdir.  Menn treysta ekki einu sinni ríkisstjórn eda Sedlabanka.  Tad er stadreynd málsnins.   Tetta hefur ekkert med einhverja swiftkóda ad gera, tad er fyrisláttur.

Tetta er afleiding af framgöngu rádamanna og viljaleysi teirra til ad setja ábyrgdina tar sem hún er í hverju samhengi. 

Hér í Danmörku voru allir greidslufrestir felldir nidur til allra Íslendinga ... tad gerdist reyndar fyrst í gær hjá kreditfyrirtækjunum.  Hvers vegna fyrst í gær, bankarnir voru jú löngu fallnir.  Jú, teir voru ad bída eftir adgerdum stjórnvalda, einhverju sem teir geta treyst.  En tegar ekkert hafdi gerst á viku eda svo, líta teir á ad tetta sé allt sama fjárglæfralidid og engum treystandi.   Ég glotti reyndar svolítid ad tví ad ekki einu sinni Fjármálaeftirlitid íslenska gat fengid krít á smávægilegum innkaupum. 

Til ad auka tiltrú heimsins, tarf ad setja Sedlabankastjórn og bankastjórn til hlidar.  Fá inn tímabundid hæfa erlenda sérfrædinga tar til ró er komin á markadinn og krónuna.   Sídar má svo ráda innlenda fagmenn til starfans.

Tad tarf ad frysta eignir audmannanna,  jafnvel tó ad ég sé viss um ad fæst af tví sé audvelt ad festa hönd á.  En tetta væri táknræn adgerd sem gæfi heiminum til kynna ad eitthvad væri verid ad gera. 

Ráda hæfa altjódalögfrædinga til ad fara fyrir (ásamt ríkisstjórn) samningum okkar vid Bretland, Holland og ödrum ríkjum.  Tad lýtur út fyrir ad hvorki IMF, Rússar eda Nordmenn vilji snerta á okkur fyrr en tessir hlutir eru á hreinu.  Vid eigum ekki eftir ad komast upp med ad bæta Íslendingum allt og útlendingum minna.  Ef vid veljum tá leid, tá fáum vid hvergi lán.  Tad er stadan. 

Ráda tarf erlenda rannsóknaradila til ad fara yfir söguna og gera hvítbókina.  Adkoman á ad vera bædi ad fjármálalegum og pólitískum tætti. Allt annad er fullkomlega  tilgangslaust.  

Flokkarnir turfa allir ad fara í alvarlega naflaskodun og vidurkenna hvar teir feiludu í adkomu málsins og hvernig teir ætla ad koma í veg fyrir slík mistök á ný.  Og eg gef lítid fyrir tá sem hrópa hæst núna "I told you so".   Einungis med heidarlegri og opinberri naflaskodun ávinna teir sér traust tjódar og alheims.

Ég er vissulega ekki ánægd med ad eignarhald fjölmidla sé allt á einni hendi.  EN málid er ad RÚV er enn sem komid er sterkasti fjölmidillinn ... og tar stýrir bláa höndin ... svo tar er nu ágætis jafnvægi á milli blokkanna.   En til lengri tíma tarf ad  skapa trúverdugt umhverfi í fjölmidlaumhverfinu.  Tad verdur reyndar minna og minna mikilvægt med auknu adgengi okkar ad erlendum fjölmidlum.

Lára Hanna, tú stendur tig eins og hetja med pistlana tína.  Haltu tví endilega áfram, tó stundum sé erfitt ad hrópa einn í eydimörkinni.  Og kærar takkir fyrir ad taka undir ord mín frá í gær. 

Elfa (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 11:04

33 Smámynd: Egill Jóhannsson

Solveig

Þessi krafa þín smellpassar sem undirkrafa undir lið 2. hér að ofan því stjórnmálaflokkarnir eru ein af stofnunum samfélagsins. Þetta fellur líka að skrefi 1. því eitt kjördæmi dregur úr pólitískri fyrirgreiðslu og sérhagsmunapoti sem kallar á minni leynd. Og þetta styður skref þrjú því fjölmiðlar hefðu þá greiðari aðgang að fjárhagslegum gögnum flokkanna.

Ergó: Það er einfaldlega nægjanlegt að fara af stað með fyrrgreind þrjú skref og í raun allt sem gera þarf fellur undir þessi skref.

Egill Jóhannsson, 18.10.2008 kl. 11:07

34 Smámynd: Egill Jóhannsson

Elfa

Þú misskilur þegar þú spyrð hverjir eigi að framkvæma þessar breytingar og hvort það eigi virkilega að vera sama fólkið. Öll skrefin sem ég nefni eru einmitt liður til að stokka upp og fá nýtt fólk.

Liður 1. mun stokka sjálfkrafa upp í stjórnmálunum og nýtt fólk kemst að. Núna, með samtryggingu núverandi stjórnmálaflokka, er ómögulegt að koma að nýju fólki. Leiðin sem þið eruð að benda á að byrja á að reka Davíð og svo koll af kolli er ólýðræðisleg og óvinnandi í framkvæmd. Mín leið er lýðræðisleg þ.e. kjósa upp á nýtt þar sem allir landsmenn hafa sama atkvæðavægi.

Liður 2. mun tryggja að þeir sem bjóða sig fram munu vitað að þeir komist ekki upp með leynd og pukur. Gagnsæi verður lögbundið.

Liður 3. gerir fjölmiðla sterkari og skýrt að þeir vinni fyrir fólkið en ekki valdablokkir. Og liðir 1. og 2. munu hjálpa fjölmiðlum að vinna sitt starf.

Enginn fjölmiðill er undanskilin að mínu viti og allra síst RÚV og að halda því fram að þar sé svífi blátt yfir vötnum er kómískt. Miklu frekar eldrautt.

Egill Jóhannsson, 18.10.2008 kl. 11:15

35 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

íslendingar eru orðnir svo góðu vanir að það þykri ekki fínt lengur að koma saman og mótmæla.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 18.10.2008 kl. 11:16

36 identicon

Held að það hafi verið mikil mistök að láta þetta snúast um DO. Mér varð eiginlega illt í hjartanu þegar ég sá auglýsinguna á nyirtimar.is enda nýbúin að taka á erfiðu eineltismáli á mínum vinnustað. Fyrir mér er þetta ekkert nema einelti. Ég hefði verið til í að mótmæla útrásarforkólfunum, makráðum bankastjórum og sinnulausu stjórnkerfi en að láta þetta kristallast í einum manni finnst mér sorglegt.

Ég get því miður ekki tekið þátt í þessu.

Soffía (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 11:53

37 identicon

Fyrirgefdu Egill, ef ég hef misskilid tig.   Mér finnst bara svo margir vera ad rada sér aftur á sömu gömlu flokksjötuna ... og var of fljót á mér ad skipa tér í tann hóp.  Tad var óréttmætt. 

Vardandi RÚV, tá hefur mér nú fundist bláleitur keimur af mörgu tadan. Og tad er bara allt í lagi, hinar blokkirnar eigi nóg adgengi annars stadar.   En sem útlendingur tá fylgist ég audvitad ekki nógu mikid med fjölmidlun heima til ad geta úttalad mig af fullkominni tekkingu.

Elfa (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 12:20

38 Smámynd: Egill Jóhannsson

Takk fyrir það, Elfa.

Varðandi fjölmiðlana þá finnst mér ekki nóg að einn styðji eina valdablokk og annar hina. Það einmitt skaðar umræðuna. Þannig var það í gamla daga þegar flokksblöðin voru við líði. Nú eru það bara viðskipta- og stjórnmálablokkir í staðinn.

Nei, allir fjölmiðlar verða að skilgreina skjólstæðing sinn upp á nýtt. Og hann skal vera "fólkið í landinu".

Egill Jóhannsson, 18.10.2008 kl. 12:36

39 Smámynd: Víðir Benediktsson

Þér mælist mel fyrir sem og fyrri daginn. Nú er búið að reka Einar Má úr Mannamáli.

Víðir Benediktsson, 18.10.2008 kl. 12:54

40 identicon

Fyrirgefðu Lára Hanna, enn fór skeytið á rangan stað. Hmmmm.

Hér fyrir neðan er úrdráttur af því sem ég punktað hjá mér: 

Það hefur vantað smáatriði í skrifrildi mín að undanförnu (eins og alltaf), en ég er að leggja til hugmyndir hvernig betur mætti fara í okkar íslenska samfélagi. Meðan við tölum/skrifum á þessum nótum gerist ekkert. Það vantar lög og hefðir til að framfarir geti átt sér stað. Ef ekkert verður gert (.....zzzzzz) verður þá illt verra?

Það er til að mynda er ljóst, að ef Davíð Oddsson segir ekki af sér af sjálfdáðum, þá þarf að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um setu hans. Sérstaklega séð í ljósi þess að hann er ekki menntaður til starfsins, heldur er hann (sjálf-)skipaður pólitískt í starfið. Það sér ekki fyrir endann á þeim skaða sem maðurinn er að valda Íslandi og Íslendingum. Hann gerði gott í öðru starfi en er óhæfur í núverandi. Það ætti að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort núverandi pólitískar stöðuveitingar eins og Seðlabankastjórastöðu og ráðherrastöður eigi að að veita samkvæmt hæfi umsækjenda eða verði áfram pólitískt. Stjórnmálamenn munu ekki breyta núverandi formi þó meirihluti landsmanna æski þess. Það eru óteljandi mörg atriði sem mættu fara í þjóðaratkvæðagreiðslu til að tryggja að Íslandi sé stjórnað á ábyrgan hátt í framtíðinni, og við vitum að stjórnmálamenn munu ekki vera leiðandi í þeim breytingum. Dæmi: Lög um birtingu á launagreiðslum til opinberra starfsmanna (bankastjóra t.d.), eignaraðild stjónmálamanna í fyrirtækjum yrði gerð gegnsæ, breytingu á lögum um framboð til Alþingis þar sem einstaklingar geti boðið sig fram án þess að vera flokksbundnir en hafa til dæmis a.m.k. 1.000-2.000 atkvæði á bak við sig. Þjóðaratkvæðagreiðslur ættu að fara fram a.m.k. einu sinni á miðju kjörtímabili hverrar sitjandi ríkisstjórnar o.s.frv. Það koma alltaf fram málefni sem eiga að fara undir þjóðaratkvæðagreiðslu, en því miður er engin hefð fyrir því á Íslandi og nú er kærkomið tækifæri til þess að breyta því og koma slíkri hefð á. Það hefur sýnt sig að það framkvæma hluti og tjá sig er alveg jafn mikilvægt og það sem ekki er framkvæmt sbr. DO.

Almenningur er þegar farinn að hallast að aðild að ESB. Ég tel stærstu ástæðuna fyrir því vera að lýðræðið virkar ekki á Íslandi (grasið grænna hinum megin). Almenningur hefur misst traust sitt á pólitíkusum (fyrir löngu síðan, reyndar) og telur hag sínum betur borgið undir alræði ESB. Þetta er hrikaleg falleinkun fyrir núverandi stjórnarherra. Innganga Íslands í ESB væri sjálfu sér skammtímalausn Með inngöngu Íslands í ESB verður endanlega gengið frá sjálfstæði þjóðarinnar og málin flækt ennþá meira með skriffinnskulegu ESB-bákni og -tilskipunum , sem mun kæfa einkennandi þrótt og kraft íslensku þjóðarinnar. ESB hefur ekki þann þrótt og ákafa sem Íslendingar hafa, og skilja hann þar af leiðandi ekki. Það mun valda enn meiri vandamálum í framtíðinni innan ESB.

Nú bregast örugglega margir við (að heyra sannleikann) og hlaupa DO til varnar, en það er engin vörn til. Það verður að horfast í augu við þær staðreyndir, að DO gerði kraftaverk sem pólitíkus á sínum tíma og gerði Íslandi mikið gagn sem ekki hefði getað gerst án einbeitni hans og klækinda, en tími hans sem Seðlabankastjóra kom aldrei.

nicejerk (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 13:39

41 identicon

Þetta með útlendinginn er nú lítið annað en blaður.  Íslendingar hér erlendis hafa gengið um með monti, róg og meinyrðum jafnvel gegn löndum sínum, til að sleikja sér upp við útlendinginn á kostnað annarra.  Allir eiga að þekkja alla, og allir eiga að vera skyldir öllum ... að halda að fólk hér, líki þetta eitthvað vel er bara hjákátlegt. Fólk hér á í daglegu stríði við að láta enda ná samann, og þetta á við mig sem alla aðra.  Á meðan ganga Íslendingar, stæra sig og monta og tala um sína stóru bíla, og stóru steinkauphallir, sem minna helst á konungahallir Lúðvíks 13.

Við hér (útlendingurinn), mótmælum og andmælum því sem gegn okkur er gert daglega, vegna þess að við megum ekki við því að tapa neinu. Við berjumst fyrir því að halda yfir okkur þakinu, halda vinnu okkar, og því littla sem við eigum. Barátta okkar er fyrir daglegu brauði, við búum ekki í steinhöllum og við eigum ekki stóra bíla upp á miljónir til að stæra okkur af. Hér eru enginn jarðhiti, til að hita húsin okkar, þaug þarf að hita með rafmagni eða olíu. Hér sitjum við ekki á hakanum, og ætlumst til þess að bretar eða bandaríkjamenn verndi okkur ... við göngum sjálfir í eigin her, og erum reiðubúnir að fórna lífi okkar fyrir fósturþjóðina. Því fylgja bæði kvaðir og skyldur.

Íslenskir ráðamenn hafa leift sér að leika sama leik og ráðamenn heimsveldis, eins og bandaríkja norður ameríku. Þarna á Íslandi, eiga bretar augljóslega hagsmuni að gæta, á sama hátt og Íslendingar eiga hagsmuni að gæta í bretlandi. Samstarf milli slíkra aðila er þörf, og ekki bara á formi þess að fynna einhvern blóraböggul að hengja og bera skammir á. Sýna þarf ábyrgð og vilja að standa við skuldbindingar, og vilja að krefjast hins sama af öðrum.  Þetta þýðir að Ísland þarf að vera viljugt til að láta eitthvað af hendi, ef eitthvað á að fást í staðinn, eins og er í öllum viðskiptum manna á milli.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 13:42

42 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Vel mælt.

Mér finnst einmitt hárrétt að láta þetta snúast um manninn sem búinn er enn einu sinni með klækjum að skipa sjálfan sig kóng yfir Íslandi.

Ef menn sjá ekki sóma sinn í að segja af sér eftir að hafa skandaliserar á ahlheimsvísu, þá verður að "afhausa" þá. Það væri synd að segja að íslenska þjóðin sé ekki búin að sýna umburðarlyndi - en nú er komið nóg!

Furðuleg eymingjagæskan í fólki sem finnst þetta æ svo sárt gagnvart einum manni - en er líklegt að hann hafi hugsað svo þegar hann sölsaði undir sig völdin?

Því miður get ég ekki tekið þátt í þessu, það er að segja að vorkenna Davíð.

Því miður treysti ég mér ekki af heilsufarsástæðum til að mæta á Austurvöll, en ég verð þar sannarlega í huganum!

Greta Björg Úlfsdóttir, 18.10.2008 kl. 13:48

43 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er ótrúlegt að lesa margar færslurnar hérna sem snúast um eineltistal og annað japl og jaml og fuður sem ég skil ekki að nokkur skuli finna sig knúinn til að blanda inn í þessa umræðu. Davíð Oddsson er opinber starfsmaður og ekki bara sá sem starfar á gólfinu heldur er hann yfir peningamálum á Íslandi. Honum urðu á mjög alvarleg mistök í því starfi sem dró alla þjóðina niður í mjög alvarlegt efnahagsástand.

Ég trúi ekki að nokkur geti horft fram hjá því að það er staðreynd. Getur einhver í fullri alvöru talað um einelti þegar þess er krafist að hann taki ábyrgð á því og segi af sér. Auðvitað ætti þjóðin ekki að þurfa að benda honum á hvað einstaklingur með heilbrigða siðferðiskennd gerir við þær aðstæður sem hann er í núna. Hann ætti auðvitað að vera búinn að átta sig á því sjálfur eða ríkisstjórnin að bendan honum á það.

Fyrir þá sem enn eru að klóra í bakkann eftir afsökunum fyrir Davíð hvet ég til að lesa m.a. það sem kemur fram í grein Richards Portes: „Skelfileg mistök í hruninu á Íslandi“. Greinin er á bls 19 í Fréttablaðinu frá í gær.

Svo minni ég líka á orð Láru Hönnu sjálfrar þar sem hún segir að allir sem eru að gagnrýna þessi mótmæli ættu að átta sig á: „[...] að Davíð er bara byrjunin, samnefnarinn, sá sem fyrstur þarf að víkja til að hægt sé að byrja að ná tökum á ástandinu. Það er vita gagnslaust að skipta um bankastjóra, forsætisráðherra, fjármálaráðherra, forstjóra Fjármálaeftirlits eða hvern sem er í stjórnkerfinu ef Davíð Oddsson situr áfram sem Seðlabankastjóri, deilir og drottnar úr hásæti sínu og kippir í hvern flokkspólitíska spottann á fætur öðrum. Hér er ekki verið að hengja bakara fyrir smið, síður en svo.“

Ég sit heima á Akureyri og hef þess vegna því miður ekki tök á því að vera með á Austurvelli í dag en ég vona að þangað sé nú þegar farið að streyma fólk sem ætlar að standa saman í því að sýna vandlætingu sína. Fólk sem ætlar sér að sýna óánægju sína í verki svo eftir verði tekið. Til þess þarf stóran hóp og það munar um hvern einstakling sem ákveður að nú sé aðalatriðið að koma saman til að sýna að þjóðin getur staðið saman. Kannski tekst þjóðinni í leiðinni að endurheimta virðingu sína en stjórnin situr uppi með skömmina sem hún leiddi yfir okkur öll.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.10.2008 kl. 14:21

44 Smámynd: Bó

Er þetta virkilega í fyrsta skipti sem þú skammast þín fyrir að vera Íslendingur? Ég hef skammast mín fyrir það síðan ég man eftir mér og er það einmitt út af fólki eins og þér færsluhöfundur.

Stærsti ávinningurinn sem fæst með því að mótmæla er að gera sjálfan sig að fífli. Að mótmæla er hreinlega það hallærislegasta sem ég veit. Þar að auki fullyrði ég að um 90% af fólki sem tekur þátt í mótmælum af einhverju tagi er einfaldlega of lítið inni í viðkomandi málum að það geti leyft sér að hafa á þeim skoðun.

Ég bendi fólki hér með á að það eru haldnar kosningar á minnst 4 ára fresti og að þá er rétti tíminn til að láta skoðun sína í ljós (ef fólk er óánægt með ríkisstjórnina, þá kýs það einfaldlega aðra flokka næst). Ríkisstjórnir eru myndaðar til að sjá um okkar mál og ef þið eruð óánægð með ríkisstjórn hvers tíma þá kjósið þið aðra flokka næst.

Það er alltaf auðvelt að vera vitur eftirá og eflaust voru einhver mistök gerð einhverstaðar.  Þegar fólk eins og þú heldur því fram að menn hafi hreinlega vitað að ástandið yrði eins slæmt og raun ber vitni og ekkert aðhafst, þá segir það meira um ykkur.

, 18.10.2008 kl. 15:55

45 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Hvar hefur Bó haldið sig síðustu daga og vikur? Í litlu sápukúlunni sinni, kannski?

Greta Björg Úlfsdóttir, 18.10.2008 kl. 16:10

46 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Bó minn, slepptu því bara að mótmæla ef þér finnst það svona voða voða hallærislegt.

Það var síðan margbúið að vara við að þessi sápukúla myndi springa og sæmilega viti borið fólk sem ekki var með peningaglýju í augum hafði auðvitað löngu séð það sem augljóst var; ríkidæmi verður ekki til úr engu, það þurfa alltaf að vera raunveruleg verðmæti að baki, ekki bara spekúlasjónir og leikir að tölum. Enda kom það í ljós, allt var þetta til láns.

Reyndar er þessi athugasemd þín svo fáránleg að þú ert væntanlega troll...

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 18.10.2008 kl. 18:19

47 Smámynd: Helgi Már Bjarnason

heheh...það mættu 500 hræður hehe.  :) kom on.  Þetta er næstum því eins hjákátlegt og mótmælatónleikarnir hans Bubba gegn genginu.  Málið er að heiftarherinn sem hefur ekki getað stundað málefnalega umræðu vegna haturs/öfundar á Davíð Oddsyni getur ekki hætt.   Þetta er svo miklu stærra mál en það en að kenna einhverjum einum manni um það sem gerðist.  Eitt stykki alheimskreppa er t.d. einn þáttur.   Frelsið var gefið og þeir sem það nýttu gættu ekki að sér. 

Davíð Oddson var sá maður sem líklega sá þetta fyrstur manna.  Var það ekki hann sem reyndi að setja lög á eignarhald fjölmiðla.  Nei þá steig "heiftarherinn" fram og barðist með kjafti og klóm gegn þessari meintu valdníðslu Davíðs gegn "heiðvirðum" athafnamönnum, stjórnendum Baugs.   Ekki nóg með það að múgæsingin og misnotkun fjölmiðlanna hafi náð áður óþekktum hæðum þá var Ólafur Ragnar góðvinur baugsmanna notaður til að koma í veg fyrir að frumvarpið yrði að veruleika.   Hvað segja menn í dag við þessu HA!.  :)  

Já og Davíð vildi berjast gegn ofurlaunum bankastjóranna þar sem hann taldi þá stjórnast um of af grægði og yrðu of áhættusæknir í athöfnum sínum.  Hann var aftur þaggaður niður sem pirraður stjórnmálamaður og útmálaður þegar hann tók 500 þúsund kr út af reikningi sínum til að sína mótmæli sín í verki.  :)

Ég bíð eftir málefnalegri umræðu um þessi mál.   Hvað gerði Seðlabankinn rangt síðustu mánuði og ef hann gerði eitthvað rangt... hvað átti hann að gera í staðinn.  Og í þessum misgjörðum ef einhver... hver var þáttur Davíðs þar.   :):):) 

Þetta er bara hallærislegt.  Leyfið mér að giska... mætti Mörður Árnason.. já og kannski Hallgrímur Helga líka.  hehehe.   

kveðja, Helgi Már

Helgi Már Bjarnason, 18.10.2008 kl. 22:00

48 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Bara fyrir það eitt að fjöldi óbreyttra borgara út í bæ sem fær ekki laun frá almenningi fyrir að vera á tánum í efnahagsmálum var búið að sjá fallið fyrir og vara við því á meðan seðlabankastjórarnir 3 sváfu illa á verðinum og töldu og töluðu um að allt væri bara í gúddí málum og engin þörf á að hlusta á raunsæisraddirnar. Stundum held ég að þessari vesalings þjóð sé ekki við bjargandi, það virðist vera hægt að ljúga nánast hverju sem er að henni, bara ef lygararnir eru í fínum jakkafötum með bindishnútinn fast bundinn eða titlaður ráðgjafar eða hagfræðingar.

Georg P Sveinbjörnsson, 18.10.2008 kl. 22:57

49 identicon

Ef að menn vilja fá íslendinga á mótmæli verða þeir að auglýsa útsölu eða opnun á nýrri verslunarmiðstöð.

Helgi Már, ef mig misminnir ekki þurfti Ernst Welteke bankastjóri þýska seðlabankans að segja af sér árið 2004 vegna þess að grunur lék á að einn af þýsku bönkunum hefði greitt hótelreikning fyrir fjölskyldu hans. Ef ekkert er tekið til nema hrapallegt klúður Davíðs í Kastljósviðtalinu fræga þá er hans tími kominn.

Það mættu fleiri þekkja sinn vitjunartíma en ef þú ætlar að færa fjall þá byrjar þú á einum stein...

Kolbrún (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 23:18

50 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Af því ég þekki örlítið til í fjölmiðla- og tónlistargeiranum fyrr og nú, þá þykist ég vita að ungi herran hann Helgi Már hérna sé eða hafi verið viðloðandi vissan útvarpsþátt!? Hann ætti eiginlega bara að halda sig þar finnst mér, hans innihalds- og TAKTLAUSI málflutningur er nefnilega ALVEG EINS og tónlistin sem hann spilar þar!

Magnús Geir Guðmundsson, 18.10.2008 kl. 23:54

51 identicon

Ég get nú ekki sagt að ég taki undir þennan annars metnaðarfulla pistil. þú vitnar mikið í "Útlending frá þroskuðu lýðræðisríki" og virðist lepja upp hugmyndir hans og skoðannir á íslensku þjóðinni sem virðast ekki vera háleitar.

"Það er vita gagnslaust að skipta um bankastjóra, forsætisráðherra, fjármálaráðherra, forstjóra Fjármálaeftirlits eða hvern sem er í stjórnkerfinu ef Davíð Oddsson situr áfram sem Seðlabankastjóri"

Hér ferðu bara út um víðan völl og tínir til alls kyns opinber embætti í bland við ráðningar hjá einkafyrirtækjum sem virðast samkvæmt hugmyndum þínum heyra undir Davíð Oddsson. Svo er ekki.

Einhver hér sagði "Ég bý í Danmörku.  Danir eru kjaftbit á Íslendingum."æjæj - það hlýtur að vera erfitt fyrir þig þarna úti að þurfa að vera íslendingur.

Og að síðustu Lára "Ég er ekki sagnfræðingur og get ekki útskýrt tregðuna í sögulegu samhengi en ég get þó ályktað upp að vissu marki. Á Íslandi hefur umræðunni alltaf verið vandlega stýrt af hagsmunaöflum og réttlætisraddir kaffærðar í mykjuhaugum flokkspólitískra hagsmuna."

Nei það er augljóst að sagnfræði er ekki þín sterka hlið. Umræðunni hefur ekki verið stýrt af neinum flokkshagsmunaöflum hér á landi til áratuga. Fjölmiðlarnir hafa verið í eigu auðmanna, nánar tiltekið þeirra útrásarauðmanna sem voru að enda við að koma feng sínum undan í massavís. Ekkert flokkspólitískt við það.

Varðandi Davíð Oddsson, þá er það barnaskapur að kenna honum um alla hluti sem fara hér miður. Hér hefur verið gerð markviss árás á íslenskt hagkerfi, og ef þú villt ekki taka mín orð fyrir því, þá hafa ýmsir mjög viðurkenndir menn fjallað um það. Ber þá að benda á Nóbelsverðlaunahafann Paul Robin Krugman sem hlaut verðlaunin á sviði Hagfræði 2008.

Einungis lágmarksþekkingu þarf á fjármálamarkaðinum til þess að sjá þegar að aðili hefur beinan hag af því að fella gjaldmiðil annars lands. Slíkt er gert utan frá (með alþjóðlegum aðgerðum) ekki innan frá. Svo einfalt er það.

Hver veit nema að slóðin liggi til Danmerkur.  

sandkassi (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 00:24

52 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Það er eins og margir haldi að það sé verið að biðja um að Davíð Oddsson verði tekinn af lífi.

Það er rangt.

Það er einfaldlega verið að tala um að hann segi af sér.

Sem er ekki ósanngjarnt, í ljósi þess hversu stór hlutur hans er í að klúðra fjármálalífi landsins.

En í hans eigin augum og stuðningsmanna hans er þetta tvennt kannski eitt og hið sama.

Hvað veit ég svo sem.

Ég veit alla vega að yfirstjórnendur hinna bankanna fengu reisupassann.

Því þá ekki Seðlabankastjóri/arnir?

Mér er spurn.

Greta Björg Úlfsdóttir, 19.10.2008 kl. 01:46

53 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Það hlýtur að vera undir styrkleika fjármálakerfisins komið hversu auðveldlega er hægt að fella það utanfrá.

Ég myndi halda að aðhald Seðlabanka hvers lands hefði töluvert með það að gera hversu veikt eða sterkt kerfið er.

Ég myndi líka halda að meiri líkur væru á að kerfið væri sterkt ef doktor í hagfræði héldi um stjórnvölinn heldur en lögfræðingur með embættispróf.

Eigum við ekki að láta á það reyna núna, eftir að hafa haft lögfræðinginn?

Þó doktorinn þyrfti náttúrlega að taka við ansi miklu klúðri.

Greta Björg Úlfsdóttir, 19.10.2008 kl. 01:55

54 identicon

Aðalatriðið er nú að Seðlabankastjóri sé mikilshæf persóna. Davíð Oddsson var einfaldlega skipaður í þetta embætti. Það er ríkisstjórnarinnar að velja í það embætti.

Ég er sammála þér Gréta að "aðhald Seðlabanka hvers lands hefði töluvert með það að gera hversu veikt eða sterkt kerfið er". En við skulum þá ekki gleyma ytra eftirliti sem framkvæmt er af hálfu Fjármálaeftirlits Ríkisins. Þar hefur skort heimildir til aðgerða gegn öllu sukkinu. Sömu sögu er að segja í Hollandi og Bretlandi þar sem komið hefur í ljós að heimildir hefur einnig skort. Sama sagan, hvað þýðir það? Að trendið í eftirlitsmálum með bankastarfssemi virðist vera módel sem virkar ekki.

Að Davíð Oddssyni. Hann hefur um árabil kallað eftir harðara regluverki utan um viðskiptalífið á Íslandi. Þá hefur hann verið vændur um öfund í garð athafnamanna yfir þeim völdum sem þeir búi yfir. Þetta hefur hann fengið yfir sig hægri vinstri frá ríkjandi stjórnarandstöðu hvers tíma ótæpilega.

En á alþingi láta svo sem munnstóru froskarnir að láta lítið fyrir sér fara þessa dagana.

Af hverju að gera lítið úr því að lögfræðingur fari með stjórn Seðlabankans? Ég sé ekkert athugavert við það. Ég sé aftur á móti heilmikið athugavert við að dýralæknir sé fjármálaráðherra og leisi síðan dómsmálaráðherra af í að skipa hæstafréttardómara.

Fyrir utan það hvað tappinn er hundleiðinlegur en það er annað mál. Ýmislegt er gagnrýnisvert, en að hrópa "út með Davíð" eða eitthvað álíka, þetta á þessi maður sem hefur starfað áratugi í okkar þágu ekki skilið frá okkur.

sandkassi (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 02:40

55 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Þarna fórstu á kostum og sannaðir að þú ert sennilega jafn mannleg og við hin, stáltröllin.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 19.10.2008 kl. 03:13

56 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég er ekki sammála því að Davíð Oddsson sé mikilhæf persóna. Ég fékk hálfgert áfall á sínum tíma þegar ég frétti að hann hefði verið skipaður bankastjóri Seðlabankans, maður með ENGAR forsendur til að gegna svo vandasömu embætti.

Æðsta yfirmanni fjármálaeftirlitsins á heldur ekki að hlífa. Störf hans skulu rannsökuð, vegin og metin af ÓHÁÐUM aðilum.

Ég get ekki séð að það sé neitt skárra að hafa lögfræðing sem seðlabankastjóra heldur en dýralækni sem fjármálaráðherra. Hagfræði og lögfræði eru tvær alls óskyldar greinar. Alveg eins og hagfræði og dýralækningar eru það.

Hins vegar kemur það ekki málinu við hvort mennirnir eru skemmtilegir eða ekki. Davíð gat í gamla daga verið ansi kómískur, en honum tókst samt sem áður að klúðra málunum rækilega. Þá hefði eflaust verið snjallara að fá staðgengil hans Örn Árnason til starfans, hann hefði örugglega ekki staðið sig verr en Davíð, auk þess sem hann er mun fyndnari.

Davíð hefði einfaldlega átt að þekkja sinn vitjunartíma og hafa vit á því að hætt á meðan borin var þokkaleg virðing fyrir honum vegna starfa hans sem forsætisráðherra. Það er ekki hægt að bera á móti því að hann á að baki glæstan feril í pólitík, þó hann hafi alla tíð verið umdeildur. Þeim mun sárara er að horfa upp á hann enda feril sinn svona.

Greta Björg Úlfsdóttir, 19.10.2008 kl. 03:30

57 identicon

Seðlabankinn gengur ekki alfarið út á Hagfræði frekar en Stærðfræði eða Heimspeki. Hann gengur alveg jafnt út á lögfræði eins og aðrar greinar. Starfssemi Seðlabankans þarf einnig að taka mið af stjórnmálum í heiminum. Þótt margir hafi viljað meina að verið sé að pota þarna inn manni sem í raun sé pólitísk ráðning, þá fæ ég ekki séð með hvaða öðrum hætti það gæti verið.

Seðlabankastjóri þarf að hafa víðtæka þekkingu og reynslu langt út fyrir hefðbundin starfs og þekkingarsvið. Staðreyndin er sú að ekki hefur en verið sýnt fram á að Davíð hafi gert þvílík axarsköft í starfi. Margir virðast halda að hann hafi gert það, en ég hef ekki séð bent um þau af neinum áræðanleika.

"ENGAR forsendur" Þetta er ekki rétt, en hann er augsýnilega ekki þín megin Gréta. En að segja að Davíð Oddson sé ekki mikilshæf persóna. Ég get bara ekki verið þér sammála.

Þú segir að "Davíð hefði einfaldlega átt að þekkja sinn vitjunartíma og hafa vit á því að hætt á meðan borin var þokkaleg virðing fyrir honum".

Þá held ég að fólk almennt beri heilmikla virðingu fyrir Davíð Oddsyni.

sandkassi (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 03:53

58 identicon

Sælir eru einfaldir....

Mikið er gott að geta séð þetta svona svart og hvítt eins og höfundur þessa bloggs.

Íris Kristmundsd (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 06:52

59 identicon

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að fólk neiti að horfast í augu vandans og vilji vernda núverandi stöðu mála Íslands. Það er afneitun á hæsta stigi. Það er hárrétt, að ekki er hægt að benda fingri á einhvern ákveðinn aðila sem er orsök á núverandi ástandi efnahagsmála heimsins. EN aðgerðarleysi, vanhæfi og rangar ákvarðanir SÍ ýttu undir vandamálin. Það er ekki flókið að sjá það, en afneitun hjálpar ekki til við vinnuna sem þarf til að vinna sig út úr stöðunni, heldur lengir einungis stöðnunartímann. Hræðilegur og staðnaður hugsunarháttur er ekki íslenskur, e.t.v. einungis pólitískur.

Það er í sjálfu sér ekker rangt við það að nýta sér dollaralán Greenspans á 1% vöxtum, en það er rangt að ljúga til um að að afleidd lán séu sömu gerðar, þ.e. með sömu tryggingu (hrikalega einfaldað). Þetta ódýra 1% lánsfé var væntanlega upphaf útrásar Íslands og endir með rándýrri aðgerð DO. Þetta ódýra lánsfjármagn hefur ekkert með DO að gera, en þegar þetta 1% fjármagn „klárast“ og panikk myndast á mörkuðum, þá þarf ábyrgar aðgerðir, en á Íslandi voru stoðirnar ekki fyrir hendi, hvað þá skynsemin. Ef snillingurinn DO væri svona mikill snillingur, af hverju brást hann ekki við aðstæðum meðan þær voru? Nei, hann þurfti endilega að sýna hvar „Davíð keypti ölið“ án þess að hafa hugmynd um stóru myndina (the big picture). Á hlægilegan hátt sýndi Davíð landsmönnum vald sitt með að taka út af reikningi sínum (Pútín-stælar). Davíð sjálfur lagði niður Þjóðhagsstofnun, svo það var ekkert eftirlit til, til að taka á málunum þegar þess þurfti.

Svo ætlar maðurinn að ná í lán til Rússlands. Allt er fallið á Klakanum og leynileg plön Davíðs kemur engum við, eins og Davíðs er venja. En hvað? Jafnvel rússneska Duman snýr íslensku sendinefndinni við, því hún veit ekki hvernig hún getur tryggt sína hagsmuni. Davíð heldur sínum „kemur þér ekki við“ leik áfram. Hvaða endalausa bull er í gangi. Þarf karlauminginn að auðmýkja hverja einustu persónu þjóðarinnar áður en hann fer frá? Hvað er að fela? ÚT MEÐ MANNINN HIÐ SNARASTA. DO er ekki hæfur í starfinu en það þarf víst alla þjóðina til að kjósa hann út.

Davíð gerði kraftaverk á sínum tíma, sem íslenska þjóðin má ekki vanmeta, en hann átti aldrei að leggja niður Þjóðhagsstofnun................. né tigna sig sem Seðlabankastjóra.

nicejerk (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 09:07

60 identicon

Já, nokkrum kann ad finnast undarlegt ad tetta sé í fyrsta skipti sem ég skammast mín fyrir ad vera Íslendingur.   Ég hef alltaf verid ósköp ánægd med tad, en aldrei verid tjódernissinni.  Blind tjódernishyggja finnst mér ákaflega barnalegt vidhorf.  Ég fæ kannski minni hroka og hædni frá teim Dönum sem ég tekki, vegna tess ad ég hef alla tíd talad af heidarlegri gagnrýni um Ísland og Íslendinga.  Bent á hluti sem vid gerdum vel og annad sem vid gerum illa. 

Tad er reyndar eitt sem ég hef aldrei verid stolt af ... og tad eru íslensk stjórnmál.   Eftir ad ég flutti hingad og fór ad fylgjast med málum á meira altjódlegum vettvangi, tá sé ég hversu afkáraleg og persónuleg okkar stjórnmál eru.  Og hrikalega spillt.  Ég hætti ad nýta kosningarétt minn heima ... gat ekki fundid neinn ad stydja. 

Ad tad skuli fyrirfinnast fólk sem annad hvort dáir Davíd eda hatar ... er bara of asnalegt til ad ég vilji turfa ad segja frá tví.  Segir ekkert um Davíd en mikid um tad hvílíkir kjánar Íslendingar eru.  Davíd er mikill leidtogi og mælskur í tokkabót ... slíkt hafa Íslendingar alltaf kunnad ad meta.  Íslendingar telja sig einstaklingshyggjumenn, en eru í raun hjörd.  Teir turfa foringja til ad flykkja sér á bak vid.   Í gegnum árin hefur Davíd unnid mörg gód verk sem vid getum takkad honum fyrir.  Hann dró okkur útúr moldarkofanum og inní nútímasamfélag.   En hann hefur líka stadid ad ýmsu sem er minna gæfulegt.  Teir sem hata Davíd ættu ad minnast hans gódu verka og hinir sem dá hann ættu ad turrka glýjuna úr augunum og opna augun fyrir mistökunum.  Af teim lærum vid.

Ástædan fyrir ad hann á ad fara frá núna er ekki vegna tess ad hann sé ótækur med öllu, tví fer fjarri.  En sem Sedlabankastjóri hefur honum ordid á og tad nokkud hressilega.   Um tad er einhugur hjá veröldinni utan Íslands. 

... og kæri Gunnar,  hvernig stód á tví ad Davíd setti ekki allar tessar reglur tegar hann var vid stjórnvölinn?    Tad eru nefnilega hans afdrifaríkustu mistök.  Afar ótrúverdugt ad koma núna og kenna ödrum um ad hafa ekki gert tad sem honum sjálfum ládist. Einkavædinging bankanna fór fram tegar hann var vid völd.  Tad var ekki bara hans vald ad setja naudsynlegar reglur á sama tíma ... tad var hans skylda. 

Elfa (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 10:46

61 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Takk fyrir að segja okkur frá því að þú hafir ekki nýtt kosningaréttinn þinn vegna þess að þér þóttu allir kostir slæmir - þá erum við tvær!

Því maður segir ekki bara úllendúllendoff, lokar augunum og krossar, - þá er betra að skila auðu. (Þó ég hafi reyndar ekki einu sinni nennt á kjörstað síðast).

Greta Björg Úlfsdóttir, 19.10.2008 kl. 12:24

62 Smámynd: Johann Trast Palmason

ég fór á austurvöll í gær og tók þátt og tók myndir sem ég setti á bloggið mitt til að halda þeim motmælum lifandi í myndum. það sem kemur mér á óvart er sáundarleigi áróður og fals á tölum sem hefur verið virkjaður á móti þessu eg er gjörsamlega orðlaus yfir þvi.

við meigum ekki gleima.

Takk fyrir frábærann pistil.

Johann Trast Palmason, 19.10.2008 kl. 12:32

63 identicon

Elfa, það er fullt af fólki búið að hafa tækifæri til þess að setja lög um tiltekin atriði á alþingi. Stjórnarandstöðumenn hafa haft næg tækifæri til þess að fara fram á það einnig.

Davíð Oddsyni verður ekkert kennt um allt sem ekki hefur verið gert hér. Hann er heldur ekki stjórnmálamaður i dag. Þetta hljómar svona eins og fólk um fimmtugt sem er ennþá að agnúast út í foreldra sína fyrir að hafa ekki staðið sig í uppeldinu.

Segðu mér ert þú áhugamaður um þessi mál fyrst núna eða ert þú búinn að vera að beita þér eitthvað fyrir auknum lagasetningum í gegnum tíðina? Hefurðu skrifað um það greinar í blöð eða stofnað til umræðna um þau mál á einhverjum vettvangi í gegnum tíðina þar sem þú hefðir getað stuðlað að einhverjum breytingum í þá veru?

Ég spyr; er einhver af þessum danasleikjum hérna á þessum korki sem hefur haft einhverjar skoðanir á þessum málum fram að þessu? Ekki sýnist mér það.

Sýniði einhver heilindi sem íslendingar og þið sem búið í Dannmörku, þá vil ég ráða ykkur heilt. Látið ekki tala niður til íslendinga, ef heiður ykkar er einhver þá látið þið ykkur blæða í götunni áður en þið hlustið á dylgjur eins og þær sem nefndar hafa verið hér.

sandkassi (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 12:52

64 identicon

Gunnar

Nú var tad Davíd sem sjálfur sagdi ad HINUM hefdi ládst ad setja reglur ... ekki HONUM ... Davíd sem gagnrýnir adra í stad tess ad líta í eigin barm.   Tad er audvitad svo fáranlegt sem mest má vera af valdamesta manni Íslands sídustu 20 ár.  En ef tú lest pistil minn tá er ég alls ekki ad lasta öll verk Davíds, eda manninn sjálfan.  Sídur en svo.  En Davíd er mistækur, eins og vid öll.

Ég játa tad fúslega ad ég hef ekki blandad mér beint í lagasetningar á Íslandi ... hef bara fylgst med úr fjarlægd ... tar til núna ad ég fæ reikninginn fyrir skorti á lagasetningum.   Ég er tví alveg jafn sek hinum í ad hafa flotid sofandi ad feigdarósi.   Hafa ekki tekid nægilega eftir teim gagnrýnisröddum sem uppi voru.  Verid kjáni og kærulaus. 

Týdir tad ad ég á bara ad halda kjafti og borga ... ónei.   Mér finnst ég eiga fullan rétt á ad hafa áhrif á tad hvernig mínu fé er varid.     

Vardandi útibúandi Íslendinga: Æra okkar og heidur verdur ekki meiri af ad bakka upp um heimsku.  Vid njótum mun meiri virdingar ef vid játum augljós mistök okkar, bendum á tad sem vid tó gerdum vel og gerum betur í framtídinni.

Elfa (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 14:43

65 identicon

jú eflaust njótið þið virðingar vina ykkar í Dannmörku, þið ógnið þeim allavega ekki. Ég ætla ráða þér heilt; Sýndu kjark til þess að fara niður með skipinu. 

sandkassi (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 14:59

66 identicon

það gerum við hin hér heima.

sandkassi (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 15:26

67 identicon

Ég segi vid mína dönsku vini ad fyrst Íslendingar lifdu af 400 ár med madkada mjölinu teirra ... komumst vid audveldlega yfir tetta lítilrædi :)

... og ég er farin nidur med skipinu, lífeyrissparnadurinn minn sídustu áratugi er farinn, núna tarf ég ad byrja uppá nýtt til ad svelta ekki í ellinni. 

Elfa (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 16:58

68 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Manni verður nú ansi skemmt þegar einhver "Trommuskólatralli" breiðir út visku sína hérna! Undarlegt að hann skuli ekki bara vinna í Seðlabankanum, nú eða bara ekki vera á alþingi!? Speki hans um löggjafarsamkunduna er auðvitað alveg hreint afbragð og hvernig mál hafa gengið þar!

Magnús Geir Guðmundsson, 19.10.2008 kl. 17:02

69 identicon

úúú,,,þetta var svo sætt Magnús-:)

sandkassi (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 19:12

70 Smámynd: Sævar Einarsson

Enn og aftur glæsilegur pistill ! takk kærlega :D ég er að vonast eftir að systa mín þýði fyrir mig það sem ég skrifaði í gærkvöldi(pikkaði inn í notepad þeas) og kannski er ég of róttækur en ég er búinn að fá nóg ! hérna er það sem ég skrifaði og ef hún þýðir þetta fyrir mig þá ætla ég að birta þetta á mikið lesinni erlendri síðu.

Ég er íslenskur ríkisborgari og stoltur af því, ég hugsa sjálfstætt, ég læt ekki aðra stjórna því hvort ég eigi að standa eða sitja eða læt neyða mig til að gera eitthvað sem mér er ekki að skapi, með öðrum orðum, ég er frjáls ! Ég er orðinn hundleiður á því að íslensk stjórnvöld láti svokallaðar "vinaþjóðir" okkar smána landið mitt og stjórnvöld gera lítið sem ekki neitt. Núna er kominn tími til að standa beinn í baki og segja þessum svokölluðum "vinaþjóðum" okkar sem bruðgðust okkur algerlega á ögurstund kaldar kveðjur og slíta öll tengsl við þessi ríki, og þá á ég við USA sem gaf okkur langt nef þegar þeir gerðu gjaldeyrisviðskiptasamning við norðurlöndin en vildu ekkert með ísland hafa og síðan en ekki síst UK sem smánaði ísland svo mikið með þessari hryðjuverkalagasetningu á Landsbankann sem hafi svo víðtæk áhrif á erlendri grundu að það tekur ára tugi að endurheimta þá virðingu sem við höfðum haft, viðskiptasambönd fyrirtækja til tuga ára við erlend fyrirtæki eru í uppnámi vegna þessarar aðgerðar þeirra og hefur skemmt miklu meira en nokkurn getur grunað, þetta hafði slík keðjuverkandi áhrif að Kaupþing banki riðaði til falls.

Núna vill ég að íslensk stjórnvöld sýni þor, dug, hörku og sýni að það sé smá vottur af þjóðarstollti og hætti að vera undir hælnum á þessum svokölluðu "vinaþjóðum" sem gera lítið annað en að smána okkur. Ég vill að ísland segi sig úr NATO og það strax, NATO brást okkur og það eru gríðarleg vonbrigði og það þýðir ekkert að vera að þrasa um hitt og þetta meðan eigur íslands fuðra upp erlendis, við eigum að óska eftir inngöngu í PFP (Partnership For Peace). NATO er stjórnað af 2 ríkjum, USA og UK og þessi ríki haga sér eins og alheimsvald og frekja þeirra og yfirgangur er til háborinnar skammar, við erum að ég tel mun betur sett í PFP, þar eigum við vini í raun að ég tel, meðal ríkja í PFP eru Finnland, Svíþjóð og Írland, sjá nánar hérna http://en.wikipedia.org/wiki/Partnership_for_Peace

Stjórnvöld Breta og Bandaríkjanna smánuðu íslendinga á ögurstund og það er með öllu óásættanlegt, hvað er Finnar eða Svíar hefðu lent í þessu erfiðleikum ? hefði Gordown Brown  beitt þessum lögum á þá ? nei það tel ég útilokað, PFP hefði strax gripið til aðgerða og hraunað yfir hann strax og kært landið fyrir efnahagsárásir. Gordon Brown réðist á herlaust land sem er í NATO og Bretar settu landið í mikla efnahagshættu til að vinna sér inn hylli meðal almennings til að auka við sig fylgið sem er vægast sagt lélegt, Bretar ráðast á smáríki og eru stoltir af því samkvæmt því sem maður les í fjölmiðlum á Bretlandi, þar fara þeir hamförum um landið og halda áfram að smána það.

Góðir íslendingar, fyrir mína parta er mælirinn fullur, ég heimta úrsögn úr NATO og Bretland verði lögsótt fyrir efnahagsárás á landið og þeir fái að svara til saka og borgi skaðabætur sem hlaupa á milljörðum punda. 

(smá fyrirvari, ég á eftir að lagfæra orðalag og stafsetningavillur áður en þetta fer þangað) 

Sævar Einarsson, 19.10.2008 kl. 19:37

71 Smámynd: Sævar Einarsson

Ef einhver kíkir á þennan lista http://en.wikipedia.org/wiki/Partnership_for_Peace þá er NATO að laða til sín lönd til að geta stjórnað þeim eins og þeim lystir, þeas USA og UK, ekki halda það að þetta sé vinveitt bandalag, amk sést það best undanfarnar vikur hvernig þeir fóru með Ísland

Sævar Einarsson, 19.10.2008 kl. 19:42

72 identicon

Efnahagsástandið er allt mér að kenna.

Ég sem þjóðfélagsþegn í þessu landi hef verið sofandi á verðinum gegn spillingu og sjálftöku úr ríkiskassa mínum.

En nú er komið nóg.

Ég hvet alla að hafa samband við alla til þess að sýna ráðamönnum þessarar þjóðar fyrir hverja þeir vinna.

Við getum ekki sofið lengur og hugsað þetta reddast, aðgerða er þörf núna.

Við öll erum þjóðin ,við öll berum ábyrgð á íslandi sínum ábyrgð og mætum öll á Austurvöll

Laugardaginn 25 Oktober KL15:00

Sýnum styrk okkar og samstöðu, komum út úr holunum og mótmælum öll

Æsir (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 22:38

73 Smámynd: Sævar Einarsson

Ég má til með að smella þessi inn hérna, ég var að pika þetta inn hjá mér í morgun.

Hlutskipting launa bankastjóra skal gerð eins og með sjómenn !

Las það hjá kermit að nú hafi einhver banki þar í landi (Þýskalandi) óskað eftir því að eitt skilyrðanna er að bankastjórar mega ekki fá meira en 75 milljónir í árslaun. En það eru enginn smá laun fyrir að bera ábyrgðina á öllu verð ég að segja. Bankastjórar bera sömu ábyrgð og sem dæmi skipstjórar, þeir eru ábyrgir fyrir afkomunni, ef skipstjóri fiskar vel fá allir vel borgað, bæði hann og hans undirmenn og þá meina ég allir, ef það fiskast illa þá fá þeir minna í sinn hlut og oftar en ekki er skipt um skipstjóra sem fiskar illa, þeir eru látnir taka pokann sinn. Ef bankinn græðir vel fá bankastjórar feita bónusa, kaupréttasamninga og millistjórnendur eitthvað minna, en Lalli húsvörður og Gunna gjaldkeri fá ekki neitt ef það "fiskast" vel hjá bankanum, þetta þarf að skoða betur að mínu mati og hætta að gera svona ofurlaunasamninga við bankastjóra. Svo hefur þetta líka jákvæð áhrif hjá undirmönnum þeirra, ef bankinn "fiskar" vel þá sjá allir í bankanum að þeim verði umbunað svo gulrótaráhrifin virka frá efstu stöðu í neðstu stöður og allir græða.

Sævar Einarsson, 20.10.2008 kl. 08:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband