Peningar um peninga frá peningum til hvers?

Ég birti þennan bloggpistil fyrir tæpu ári. Endurbirti hann að gefnu tilefni í júlí með örlítilli viðbót. Mér sýnist að pistillinn eigi betur við nú en nokkru sinni og hann hefur verið mér hugleikinn undanfarnar vikur. Allt er þegar þrennt er - þetta er útgáfan frá í júlí. Við þá birtingu fékk ég athugasemd sem ég svaraði með þessum pistli.
                _________________________________________

Þetta var yfirskrift pistils sem ég skrifaði 5. desember sl. og fjallaði m.a. um hina yfirgengilegu peningadýrkun í samfélaginu. Hún kemur fram alls staðar - það er varla til neinn þáttur í umhverfinu sem ekki er smitaður af peningadýrkun sem ég vil frekar kalla græðgisvæðingu.

Peningar Í framhaldi af myndbandinu í síðasta pistli varð mér hugsað til þess sem ég skrifaði fyrir tæpum 8 mánuðum - fyrir gengisfall, hrun á verð- og hlutabréfamarkaði, svokallaðan samdrátt og krepputal - en eftir a.m.k. eitt stjörnuhrap. Ég ákvað að endurbirta pistilinn og um leið vara við hugtakinu "fjárfestir" og tengdum orðum - hvort sem sá er innlendur eða erlendur. Fjárfestum fylgir alltaf krafan um hámarkshagnað af viðkomandi fjárfestingu og þar eru hagsmunir almennings aldrei hafðir í huga. Svokölluð samkeppni verður fyrr en varir að fákeppni, verð hækkar og þjónusta versnar. Slíkt virðist vera eðli einkavæðingar þrátt fyrir fögur fyrirheit einkavæðingarsinna um annað.

Í þessu sambandi bendi ég á athugasemdir nr. 1 og 11 við síðasta pistil eftir þá Sævar og Bjarna. Ef þetta er satt sem þeir segja voru óprúttnir menn ansi nálægt því að selja og einkavæða orkuauðlindir okkar. Hrollvekjandi tilhugsun. Verum á verði, vörumst spillta stjórnmálamenn og gráðuga, samviskulausa eiginhagsmunaseggi. Eins og Ásgeir segir í athugasemd nr. 8 við áðurnefndan pistil er það OKKAR að breyta ástandinu með aðhaldi, þrýstingi og atkvæðum okkar.
                 _________________________________________________

 Peningar um peninga frá peningum til hvers?

Ég hef lengi furðað mig á fréttamati fjölmiðla hvað varðar peninga og auðmenn. Allt annað í lífinu virðist vera hjóm eitt hjá því hver græðir hve mikið og á hverju, hver hlutabréfavísitalan er eða hvað þær nú heita þessar úrvalsauravísitölur, hvað hefur hækkað og hvað lækkað hverju sinni.

Sérstök innslög eða fréttatímaaukar eru um "markaðinn" eins og t.d. hjá Peningar Stöð 2 í kringum hádegið - kl. 12:15 í dag var Markaðurinn hádegi og kl. 12:31 var Hádegisviðtal markaðarins. Síðan var Markaðurinn kl. 18:20.

Bankar og aðrar fjármálastofnanir eru með fréttir oft á dag um hvernig peningamarkaðurinn er að gera sig þá stundina og fréttir af hve margar milljónir, milljónatugir eða milljarðar gengu kaupum og sölum þann daginn tröllríða öllum fréttatímum á öllum fjölmiðlum. Það þótti auk þess tilefni í sérstaka frétt þegar viðskiptaþátturinn Í lok dagsféll niður kl. 16:20 þann 3. des. sl. eins og sjá má hér.

Í gærkvöldi var fyrsta frétt í sjónvarpsfréttum Ríkissjónvarpsins mannaskipti auðmanna hjá FL Group. Það var þriðja frétt í kvöldfréttum Stöðvar 2 og fyrsta frétt í sexfréttum Ríkisútvarpsins.

FL Group Menn hverfa frá störfum með tugmilljóna starfslokasamninga, sagt er frá þeim nýjasta hér. Þó var maðurinn sagður með 4 milljónir á mánuði á meðan hann gegndi starfinu og hefði líkast til getað lagt aura til hliðar fyrir mögru árin eins og við hin þurfum að gera.

Á sama tíma les maður þetta... og þetta... og þetta... svo dæmi séu nefnd. Þessar sögur nísta í gegn um merg, bein og hjarta og maður spyr sig hvað þarf til að snerta við réttlætiskennd almennings og fjölmiðlafólks. Af hverju er svona mikið fjallað um auðmennina í fjölmiðlum en svona lítið um fátæktina... um þá sem minna mega sín og þjóðfélagið kemur illa fram við?

Ísland best í heimi... hvað?

Ég hef verið að reyna, ásamt mörgum öðrum, að benda á þá firring Borholur á Skarðsmýrarfjalli u sem á sér stað í virkjanafíkn og stóriðjuæði vissra aðila í þjóðfélaginu og afleiðingar þeirrar skammsýni. Afleiðingarnar snerta hvert einasta mannsbarn á Íslandi í formi loftmengunar, lyktmengunar, eyðileggingar á þeirri dásamlegu náttúru sem við höfum öll hlotið í arf frá forfeðrum okkar og -mæðrum ásamt þenslu, verðbólgu, hækkandi vöxtum, innflutningi tugþúsunda erlendra verkamanna og almennt versnandi lífskjörum. Fáir hlusta og fjölmiðlar sofa á verðinum. Enginn fjölmiðill virðist tilbúinn til að kryfja málið og fjalla um það á vitrænan hátt og í heildstæðu samhengi. Fréttablaðið hefur gert heiðarlegar tilraunir, en þær nægja ekki til að gera svo gríðarlega alvarlegu og yfirgripsmiklu máli nauðsynleg og verðskulduð skil.

Ég minni á að fyrir síðustu alþingiskosningar var eftir því tekið að upp spruttu umhverfisverndarsinnar í öllum flokkum sem mærðu náttúruvernd og lofuðu öllu fögru. Nauðsynlegt er að breyta lögum, að minnsta kosti tvennum, en hver er að sinna því? Enginn á þingi eftir því sem ég best veit.

Andræði Árið 2004 kom út merkileg ljóðabók eftir Sigfús Bjartmarsson sem hann kallaði Andræði. Bókin er leikur með orð og Sigfús leikur af mikilli snilld. Bókin skiptist í 11 kafla og hver kafli hefur inngangsljóð. Ég ætla að leyfa mér að birta hér tvö ljóð ásamt inngangsljóðum hvors kafla. Það var erfitt að velja því ljóðin eru hvert öðru betra og beinskeyttara.

 

5
Svo mælti
maður við annan mann
sem hjá hlutafjármarkaðarins hástökksmethafa
í flokki hörmangarafélaga vann:
Sá skal mæra samkeppnina
sem hana kaupir upp.

Og ljóðið sjálft er svona og ég tileinka það Hannesi Smárasyni og öðrum tugmilljóna-auðmönnum:

Vit er
veraldar
gengi.

Og
gott
er hátt
gengi en
hættar þó
en lágu við
að lækka
lengi.


vit er
vandmeðfarið
og valt.

Kúlið
getur óðara
orðið svo
kalt.

9
Svo mælti
maður við annan mann
sem hjá innsta aðstoðarkoppi æðstaráðsritara
landseigendaflokksins vann:
Fjórðungi bregður til flokks
en frekar bregður hinum
til hagsmuna
hans.

Ljóðið hljóðar svo - ég tileinka það Alþingi og ríkisstjórn, sem með réttu ættu að fara með stjórnartaumana - og sem lofa öllu fögru fyrir kosningar:

Í upphafi
skal efndirnar
skoða.


fagurt
galar formaður
sem fögnuðinn vill
fólki sínu
boða.

Og
ljúft er
að leggja svo
með lygasögnum
slag eftir
slag.


sjaldan
lifir kosningaloforð
kjördag.

Og
marga
mun sverja
eiðana sá
sem alla
svíkja
má.


enginn
tryggir atkvæðin
eftir á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elinóra Inga Sigurðardóttir

Heyr, heyr!

Elinóra Inga Sigurðardóttir, 23.10.2008 kl. 17:34

2 Smámynd: Heidi Strand

Hér eru horfurnar frá nettavisen.

http://www.nettavisen.no/okonomi/article2323710.ece

Heidi Strand, 23.10.2008 kl. 19:26

3 Smámynd: Steingrímur Helgason

Suddafín færzla þetta,,,

Steingrímur Helgason, 23.10.2008 kl. 20:54

4 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Sjaldan er góð vísa of oft kveðin:=)

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 23.10.2008 kl. 21:08

5 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Hólmdís Hjartardóttir, 23.10.2008 kl. 22:52

6 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Þú ert langflottust

Sigrún Jónsdóttir, 24.10.2008 kl. 00:06

7 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

sammála 3 ,,,takk fyrir mig Lára Hanna.báráttukveðjur

Eva Benjamínsdóttir, 24.10.2008 kl. 00:27

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er þyngra en tárum taki að burðast með hörmungarnar sem hljótast af óréttlætinu sem viðgengst í forgangsröðuninni hjá ráðamönnum þjóðarinnar. Sögurnar þrjár sem þú vísar í um fólkið sem ég sem skattborgari treysti að ég sé að sjá um með skattgreiðslum mínum er forsmáð á meðan ræningjunum er hampað

Í stuttu máli minnir þessi skrípaleikur óþægilega á Animal Farm! og það sem verra er þá er svipmót með sumum persónunum

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.10.2008 kl. 04:14

9 identicon

Mikið er gott að sjá að bloggið þitt, Lára Hanna er vinsælast. Þú hefur svo margt að segja og það víkkar sjóndeildarhringinn að lesa skoðanir þínar. Höldum þessu svona. Gangi þér vel. Og auk þess legg ég til að Framsóknarflokkurinn verði lagður niður.

Nína S (IP-tala skráð) 25.10.2008 kl. 15:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband