Flokkur í vanda og óheyrilegt bruðl

Fyrir aðeins tveimur árum gengu Sjálfstæðismenn glaðbeittir til landsfundar, hylltu foringja sína og sjálfa sig, klöppuðu hver öðrum á bakið og hrósuðu sér fyrir velgengni Íslands. Þá þegar voru blikur á lofti í efnahag bankanna og landsins en þeir létu varnaðarorð sem vind um eyru þjóta og héldu sinni stefnu og striki. Hér er sýnishorn af ræðu formannsins á landsfundinum - fengin héðan.

Og hér er frægt kynningarmyndband Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar 2007 sem hefur farið víða um netheima undanfarna mánuði. Ég man ekki hvar ég sá það fyrst.

Um helgina hefur mikið verið rætt og ritað um drög að skýrslu Endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins og niðurstaðan víða dregin saman þannig, að það hafi verið fólkið en ekki stefnan sem brást. Engu að síður erum við nú að gjalda dýru verði einmitt þessa stefnu sem troðið var ofan í kok á okkur - sumum nauðugum, öðrum viljugum. En formaðurinn gerir lítið úr skýrsludrögunum og fólkinu sem vann þau og viðurkennir engin mistök fremur en endranær.

Nú á að ganga aftur til kosninga og víðast hvar á landinu verða prófkjör hjá flestum flokkum. Sitjandi ríkisstjórn lofaði að breyta kosningalögum þannig að unnt verði að kjósa fólk - að koma á persónukjöri. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins berst gegn því þótt heyrst hafi um einhverja flokksmenn með jákvætt viðhorf gagnvart því. Ég vona að ríkisstjórninni takist að koma slíkri breytingu í gegn, það væri fyrsta skrefið í rétta átt.

Prófkjörin eru gríðarlega kostnaðarsöm - eða hafa verið gerð það af þeim sem hafa aðgang að nægu fjármagni til að "kaupa" þingsæti. Nú ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að sýna aðhald og hefur beint þeim tilmælum til frambjóðenda að eyða "aðeins" 2,5 milljónum á mann í prófkjörsbaráttuna - hámark. Gefum okkur að sumir eyði minna, aðrir meira, en að þetta verði meðalupphæð sem hver frambjóðandi eyðir í sókn sinni eftir öruggu þingsæti.

Ef við lítum á þá upphæð sem mánaðarlaun í eitt ár eru það 208.000 á mánuði.
Ef við tökum aðeins frambjóðendur í Reykjavík, sem eru 29, þá eru þetta samtals 72 milljónir.
Það gera 6 milljónir á mánuði í eitt ár, 3 milljónir á mánuði í 2 ár, 1,5 milljón á mánuði í 3 ár...
Bara prófkjörsbarátta frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík einni.
Flokkurinn er nú með 9 þingmenn í Reykjavík (norður+suður). Hvert þingsæti kostar þá 8 milljónir ef deilt er með samanlögðum kostnaði.

Dögg PálsdóttirHvað kallar maður svona nokkuð í árferði eins og nú er þar sem tala atvinnulausra er komin yfir 15.000 og fólk að missa aleiguna? Taktleysi? Siðleysi? Forstokkun? Hroka? Ég veit það ekki, en mér blöskrar. Ég hef aðeins séð eina sjálfstæðiskonu gagnrýna þetta, Dögg Pálsdóttur í bloggi sínu hér og á hún mikið hrós skilið fyrir það. Reyndar er ég ekki fastagestur á öðrum bloggum Sjálfstæðismanna, en kem þó víða við og líkast til myndi slík gagnrýni, ef einhver væri, spyrjast út.

Og ekki hef ég heyrt að frambjóðendum verði gert að upplýsa hvaðan þeir fá það fé sem þeir verja í kosningabaráttuna. Ekki eiga þetta allir handbært í rassvasanum. Guðbjörg Hildur Kolbeins ýjar að því að einn alþingismaður hafi verið í boði Baugs í síðustu kosningum. Það er með ólíkindum að ekki séu til almennar reglur um gagnsæjar fjárreiður til að svona aðdróttanir séu ekki að þvælast fyrir - ef ósannar eru. Hver vill kjósa fólk í boði Jóns Ásgeirs, Pálma Haraldssonar, Finns Ingólfssonar, Ólafs Ólafssonar, Björgólfsfeðga - eða bara hvers sem er? Við vitum mætavel að ætlast er til að fjárstuðningur við frambjóðendur og flokka sé endurgoldinn. Allar fjárreiður, bæði einstakra frambjóðenda sem og flokka, verða að vera opin bók. Það er einfaldlega óaðskiljanlegur hluti af því, að endurvekja traust kjósenda/almennings.

En aftur að 72 milljónunum sem gera má ráð fyrir að prófkjörsbarátta sjálfstæðismanna í Reykjavík einni saman muni kosta. Og eins og ég nefni hér að ofan má gera ráð fyrir að sumir hunsi tilmælin og eyði hærri fjárhæðum, aðrir lægri, einhverjir kannski sáralitlu eins og Dögg hyggst gera. En gefum okkur að prófkjörsbarátta sjálfstæðismanna í Reykjavík kosti þetta - og hugsum til hans Nóna Sæs litla, sem fjallað var um í Kastljósi um daginn, og baráttu foreldra hans fyrir sanngjörnum bótum sem þau hafa þurft að heyja ofan á þá ómanneskjulegu sorg sem slysinu fylgdi.  Svo ekki sé minnst á vægan dóm ökuníðingsins sem því olli. Berið upphæðirnar í umfjöllun Kastljóss saman við kostnað prófkjörsbaráttu sjálfstæðismanna í Reykjavík og ímyndið ykkur kostnaðinn hjá öllum flokkum á landsvísu.

Ég legg til að allir frambjóðendur í öllum flokkum leggi sömu upphæð og þeir verja til prófkjörsbaráttunnar í sjóð til styrktar Nóna Sæ til að tryggja örugga framtíð þessa litla drengs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Lára Hanna.

Sjálfstæðisflokkurinn er enn sem komið er fyrsti flokkurinn til að kynna svona hámark og þó talað sé um 2,5 milljónir króna er það langt í frá krafa um að eyða nákvæmlega þeirri upphæð. Ég reikna með að flestir verði nokkuð undir þeirri tölu, en á móti kemur að það er ekki óeðlilegt að frambjóðendur fái tækifæri til að kynna sig og koma sér á framfæri - það er þáttur í að tryggja nýliðun og endurnýjun innan flokkanna.

Kostnaður í svona baráttu tínist fljótt til, t.d. hjá þeim sem eru búsettir á landsbyggðinni og þurfa að dekka svæði sem nær allt frá Akranesi upp í Skagafjörð í Norðvesturkjördæmi, eða frá Reykjanesbæ út á Höfn í Hornafirði í Suðurkjördæmi svo dæmi sé tekið. Ferðakostnaðurinn einn á þessu flakki er fljótur að telja og ef við bætist að menn vilji kynna sig í bæjarblöðunum og t.d. halda úti kosningaskrifstofu þá eru hundraðþúsundkallarnir fljótir að hrannast upp. 

Það er auðvitað ekki náttúrulögmál að þetta þurfi að vera svona. Sums staðar í Evrópu er t.d. mikil hefð fyrir því að ríkið bjóði flokkum og stjórnmálamönnum upp á vettvang í fjölmiðlum til að kynna sig. Það er á móti umdeilanlegt líka - spurning hvort skattgreiðendur eigi að bera kostnaðinn af því að frambjóðendur komi sér á framfæri - fyrir utan hversu óáhugavert efni fyrir fjölmiðla það væri að þurfa að standa fyrir kynningu á nokkur hundruð frambjóðendum flokkanna í hvert skipti sem kosningar væru að nálgast. Sumir vildu örugglega fegnir vera lausir við slíkt.

Þú heldur því fram í færslunni að það séu engin lög til um þessi atriði en það er ekki rétt. Árið 2006 voru sett lög um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda og upplýsingaskyldu þeirra líka. Samkvæmt þeim lögum er hámarkskostnaður í stærstu prófkjörum um 8 milljónir króna fyrir hvern frambjóðenda.  Og það sem meira er, þá eru bæði frambjóðendur og flokkar skyldugir að upplýsa um hvaða fyrirtæki hafa styrkt þau. 

Svo má auðvitað endalaust leika sér fram og til baka með tölur og peninga í svona sambandi og tengja við hitt og þetta. Í forvali Vinstri grænna munu 103 frambjóðendur taka þátt skv. frétt á vef flokksins. Ef við gefum okkur að  meðaleyðslan verði ein milljón króna, þá eru það alls rúmlega 100 milljónir. Ef hver og einn eyðir hálfri milljón þá verða það alls 50 milljónir króna. Það er hægt að setja þetta í alls konar samhengi og hneykslast á tölunum en það má líka líta svo á að þetta sé ákveðinn kostnaður sem frambjóðendur flokkanna ráðast í til að kynna sig og koma sér á framfæri og færir okkur ný andlit á þingi.

Árni Helgason (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 03:14

2 identicon

Ef að það var fólkið en ekki stefnan sem brást, þarf þá ekki eitthvað af fólki að bera ábyrgð?

Annars er trúverðugleiki flokksins fyrir neðan núllið.

nn (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 05:52

3 identicon

Frábær úttekt hjá þér sem fyrr, Lára Hanna. Það sjá það allir nema blindir Sjálfstæðismenn að þetta hagvaxtarblaður Geirs H. Haarde og Íhaldsins er ekkert annað nema orðin tóm.

Jóhann Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 07:24

4 Smámynd: Einar Indriðason

Hmm.... það mun seint gerast að trúboðar (ný-)frjálshyggjunnar muni leggja sinn skerf til mannúðarmála, eins og að púkka upp á einhvern sjúkan dreng út í bæ.  Ég sé það ekki gerast í fljótubragði.  En, þessum trúboðum er að sjálfsögðu alveg velkomið að sanna að ég hafi haft rangt fyrir mér.

Það að púkka upp á einhvern sjúkan dreng út í bæ skilar nefnilega ekki nægilega miklu til baka - ekki nægilega mikill gróði.

Einar Indriðason, 3.3.2009 kl. 07:55

5 identicon

Sv skemmtileg auglýsingin frá þeim.  Það sem mér finnst nú skemmtilegast og fannst alveg bestu rökin fyrir að kjósa xD var þessi aukning í háskólum.  Þau tóku náttúrulega ekki eftir því að það hafði verið fólksfjölgun á þessu landi á þessum árum líka.  Kannski var það þeim að þakka líka? 

Hver man ekki eftir auglýsingaherferðum xD um að fólk ætti nú að drífa sig í að búa til börn, þau voru líka alltaf að tala um það á alþingi! :p

Núna eru enn fleirri í háskólum en fyrir 2árum, líka xD að þakka.  Ættum að reyna að verða gjaldþrota oftar, þá fara svo margir í skóla, er þetta kannski eitt af þeirra stefnumálum?  Þá hefur stefna þeirra a.m.k ekki brugðist og þau geta verið ofsalega stolt af sér!

Hver vill ekki fyrirgefa xD ég meina þau ætla líklegast að kjósa sér alveg glænýjann formann, sem auðvitað er alveg laus við alla spillingu og hefur unnið vel fyrir land og þjóð í N-EINUM, á meðan hann einnig var í fullri vinnu á alþingi.  Það var auðvitað svo lítið að gera á þingi, allt gekk svo vel, mikilvægara að sinna stóoru Olíu fyrirtæki, ég er alveg viss um að hann hafi gætt hgsamuna þjóðarinnar og hugsað um fyrirtækið svo. Góður drengur og algjörlega laus við allan hroka. 

Áfram xD, þau eru stóorkosleg!

Unnsteinn Jóhannsson (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 08:09

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Heyr, heyr.

Jenný Anna Baldursdóttir, 3.3.2009 kl. 09:02

7 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Frábær færsla, sem endranær.

Sigrún Jónsdóttir, 3.3.2009 kl. 10:43

8 identicon

Nú er bara að dreifa þessum myndbrotum sem víðast til að fá þessi 25%+ ofan af því að kjósa D. Er hægt að embedda þessu héðan inn á t.d. facebook?

Ívar Örn (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 11:24

9 Smámynd: Sigurbjörg

Takk fyrir góða færslu :)

Sigurbjörg, 3.3.2009 kl. 11:38

10 identicon

LYGATÍMABILIÐ 1991-2008

Lygin um "mesta hagvaxtartímabilið í sögu þjóðarinnar" hefur verið afhjúpuð:

"Hagvöxtur á Íslandi var mun meiri á sjöunda og áttunda áratugnum en á hinu svokallaða frjálshyggjutímabili sem hófst 1995. Það er því afar villandi að kenna hagþróun síðustu ára við efnahagsundur." Já, að ekki sé minnst á efnahagshrun í boði Sjálfstæðisflokksins.

http://eyjan.is/blog/2009/01/06/villandi-ad-kenna-hagthroun-sidustu-ara-vid-efnahagsundur-meiri-hagvoxtur-var-a-sjounda-og-attunda-aratugnum/

Lygin um skattalækkanir Sjálfstæðisflokksins líka. Sjálfstæðiflokkurinn létti ekki skattbyrði af neinum nema þeim 10% sem mestar höfðu tekjurnar - og þyngdi byrðarnar sérstaklega á þeim tekjulægstu.

“Indriði H Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattsstjóri segir óumdeilt að skattar einstaklinga hafa hækkað á síðustu tveimur áratugum og skattbyrði aukist.”

http://www.visir.is/article/20070510/FRETTIR01/70510097

Aukin skattbyrði var einnig staðfest af OECD:

“Skattbyrði hefur aukist mest á Íslandi af öllum ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, undanfarinn áratug.”

http://www.visir.is/article/20081019/VIDSKIPTI06/191765484/-1

Nú hefur fjármálaráðuneytið gefið út skýrslu sem stafestir þetta. Staðfestir að ráðuneytið fór áður með tómar lygar. Lygar sem Alþingi var látið gera sér að góðu.

Hver skyldi skattbyrði í boði Sjálfstæðisflokksins vera að teknu tillitið til efnahagshrunsins, lokaniðurstöðu 18 ára efnahagsstjórnar Davíðs Oddssonar & Geirs H. Haarde?

1991-2008 er rétt nefnt LYGATÍMABILIIÐ í íslenskum stjórnmálum.

Ætla kjósendur að gera afkomendum sínum það að setja x við D? Kjósa lygina áfram og hafna heiðarleika og réttsýni?

Rómverji (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 11:49

11 identicon

 Geir Haarde=jeff skilling

Ari (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 11:51

12 identicon

Sæl Lára

 Það merkilegt hjá þér af öllum að hylla Dögg Pálsdóttir þar sem saga gengur um bæinn að hún hafi fengið 600 hundruð milljón króna kúlu lán til þess að kaupa í SPRON á sínum tíma en er það ekki sama vitleysan og allir "hinir" eru gagnrýndir fyrir.....http://visir.is/article/20080109/VIDSKIPTI06/80109096&SearchID=73305955303361 er einhver munur á þessu og það sem Björn Ingi Hrafnsson gerði?

NB (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 13:22

13 identicon

Það er semsagt allt Sjálfstæðisflokknum að ÞAKKA þegar vel gengur en þegar spilaborgin hrinur er það alls ekki Sjálfstæðisflokknum að KENNA.

Mig langar hreinlega að leggjast í hýði og gráta, en á tvö smábörn og verð að reyna að skapa þeim almennilegri og betri framtíð en nú blasir við.

Erna Kristín (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 14:46

14 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Style Definitions */ p.MsoNormal, li.MsoNormal, div.MsoNormal {mso-style-parent:""; margin:0cm; margin-bottom:.0001pt; mso-pagination:widow-orphan; font-size:12.0pt; font-family:Arial; mso-fareast-font-family:"Times New Roman"; mso-bidi-font-family:"Times New Roman";} a:link, span.MsoHyperlink {color:blue; text-decoration:underline; text-underline:single;} a:visited, span.MsoHyperlinkFollowed {color:purple; text-decoration:underline; text-underline:single;} p {margin-right:0cm; mso-margin-top-alt:auto; mso-margin-bottom-alt:auto; margin-left:0cm; mso-pagination:widow-orphan; font-size:12.0pt; font-family:"Times New Roman"; mso-fareast-font-family:"Times New Roman";} @page Section1 {size:595.3pt 841.9pt; margin:42.55pt 42.55pt 42.55pt 2.0cm; mso-header-margin:35.45pt; mso-footer-margin:35.45pt; mso-paper-source:0;} div.Section1 {page:Section1;} -->Sæll, Árni Helgason og takk fyrir innlitið. Ég reikna fastlega með því að þú sért sá Árni Helgason sem gegnir starfi framkvæmdastjóra þingflokks sjálfstæðismanna og hér er nefndur. Mér þykir mikið til koma árvekni þinnar fyrir hönd flokks þíns að vaka á nóttunni og lesa blogg.

Mig skiptir engu þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé fyrstur til að kynna svona hámark - sem eru reyndar tilmæli, ekki fyrirmæli. Upphæðin er engu að síður gríðarleg og eins og ég tek tvisvar fram í færslunni verður örugglega misjafnt hvernig frambjóðendur fara eftir þeim tilmælum. Ég notaðist við töluna sem ímyndað meðaltal eins og sjá má af orðum mínum.

Ég tek undir með þér að auðvitað verða frambjóðendur að kynna sig og sín hjartans mál, þó það nú væri. En á öld Internetsins, bloggsins, Fésbókar og annarra slíkra miðla - auk hinna hefðbundnu - ætti að vera lítið mál að halda kostnaðinum í algjöru lágmarki og nota tiltæk ráð. Það gafst Obama mjög vel í kosningabaráttunni og almenningur studdi hann rækilega í gegnum Netið. Við vitum hvernig það skilaði sér í kosningunum. Slík kosningabarátta ætti að vera margfalt auðveldari á litla, netvædda Íslandi og enginn ætti að þurfa að halda úti kosningaskrifstofu eða eyða í rándýrar auglýsingar.

Skattborgarar á Íslandi borga nokkur hundruð milljónir á ári til að reka stjórnmálaflokkana. Með aðhaldssemi og sparnaði ættu allir flokkar að geta kostað ferðalög frambjóðenda sinna fyrir kosningar svo hver einstaklingur þyrfti ekki að punga út nema í mesta lagi matnum ofan í sig. Og ef sömu skattborgarar vilja styðja "sína" frambjóðendur geta þeir gert það, t.d. með því að skjóta yfir þá skjólshúsi á kosningaferðalögum og ná þannig betra sambandi við frambjóðendurnar. Bara hugmynd.

Ekkert er heldur því til fyrirstöðu að flokkarnir standi fyrir kynningu á frambjóðendum sínum t.d. á svæðisútvarpsstöðvum eða netsjónvarpsstöðvum eins og ÍNN. Það er allt hægt, það veistu, Árni og margir möguleikar fyrir hendi.

Þú segir að kynning á frambjóðendum flokkanna í prófkjörum sé óáhugaverð fyrir fjölmiðla en ég reikna með að þú meinir fyrir áhorfendur/hlustendur/lesendur fjölmiðla, þ.e. fólkið - kjósendurna. Ef svo er hljóta það að vera frambjóðendurnir sem eru óáhugaverðir og þá er illt í efni.

Þú segir lög hafa verið sett um m.a. upplýsingaskyldu frambjóðenda og flokka árið 2006. Gott og vel, en hvernig stendur þá á því að kjósendur hafa ekki fengið að vita t.d. hver styrkti Guðlaug Þór í síðasta prófkjöri? Eða Illuga, Bjarna Ben, Hönnu Birnu, Óskar Bergsson og Björn Inga? Og alla hina. Ég hef ekki orðið vör við að frambjóðendur hafi almennt gefið slíkt upp - að frátöldum kannski Vinstri grænum og Frjálslyndum. Annars væri ekki orðrómur um alla mögulega bakhjarla sem flokkarnir nota síðan til að koma höggi hver á annan. Og það nægir aldeilis ekki að upplýsa um heimilisbókhaldið eins og ein flokkssystir þín gerði nýverið. Get ég farið fram á að sjá bókhaldið hjá frambjóðendum eða þarf það að vera fjölmiðill eða opinber aðili sem biður um slíkt?

Fram hefur komið í fjölmiðlum, tímaritum og á bloggsíðum að frambjóðendur feli fjársöfnun sína og styrki fyrir prófkjör á bak við félög eða mannúðarsamtök. Hver er tilgangurinn með því? Er það til að komast hjá því að borga skatta? Hve margir í þínum flokki hafa gert slíkt og hyggjast gera það núna, Árni? Skoðum aðeins nokkur dæmi:

471106-0380   ÞKG stuðningsmannafélag  (Þorgerður Katrín)
610906-0950   Félag stuðningsmanna IG  (Illugi Gunnarsson)
561006-0240   Stuðningsmannafélag BB  (Bjarni Benediktsson)
691002-2410   Stuðningsmenn Birgis Ármannsonar
451102-2060   Guðlaugur á Alþingi, félag  (Guðlaugur Þór)

Þessi aðferð einskorðast alls ekki við sjálfstæðismenn, vitað er að frambjóðendur a.m.k. Samfylkingar og Framsóknarflokks gerðu þetta líka, s.s. Bjarni Harðarson, Guðni Ágústsson, Helgi Hjörvar, Árni Páll Árnason, Björgvin G. Sigurðsson og eflaust fleiri. Hver er tilgangurinn með svona vinnubrögðum, Árni? Ertu til í að upplýsa það? Hafa þessi stuðningsmannafélög greitt skatta af öllum milljónunum sem þau hafa velt?

Auðvitað má endalaust leika sér með peninga í svona sambandi og tengja við allt mögulegt. Ég kaus að takmarka mig við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eingöngu og tengja við örlög Nóna Sæs þar sem frásögn föður hans í Kastljósi snart mig inn að hjartarótum og særði réttlætiskennd mína illilega. Og ég fór að hugsa um hvað hægt væri að gera fyrir alla þá fjármuni sem metnaðargjarnir einstaklingar eyða í að reyna að tryggja sér sæti á handónýtu Alþingi Íslendinga. Til að fá að sitja þar og rétta upp hönd eftir flokkslínum, því þannig er nú komið fyrir svokallaðri löggjafarsamkundu okkar. Þeir fjármunir færu ansi langt með að tryggja Nóna Sæ öryggi til æviloka og gerðu foreldrum hans kleift að sjá eins vel um hann og mögulegt er.

Vonandi sérðu þér fært að svara þótt ekki sé nema nokkrum spurningum mínum, Árni án þess að fara í flokkspólitíska skotgröf og segja að hinir flokkarnir séu ekkert skárri. Svara bara fyrir þig og þína, það nægir alveg. Aðrir geta svarað fyrir sig og sína.

Lára Hanna Einarsdóttir, 3.3.2009 kl. 14:52

15 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ekki veit ég hvaða rugl þetta er þarna efst í síðustu athugasemd - en hún kemst engu að síður öll til skila.

NB...  þessi pistill fjallar um stefnu Sjálfstæðisflokksins og kostnað við prófkjör, ekkert annað. Ef ég ætti að fjalla um allar sögur sem ganga um alla frambjóðendur þá gerði ég nú lítið annað næstu vikurnar. Ég hrósa Dögg Pálsdóttur fyrir það sem mér finnst vera hróssins vert - að gagnrýna þennan kostnað sem samflokksmenn hennar verja mögulega í prófkjörsbaráttu.

Um það snýst þessi pistill.

Lára Hanna Einarsdóttir, 3.3.2009 kl. 14:58

16 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ívar Örn...  ég kann ekkert á Facebook þótt ég sé reyndar skráð þar. Kannt þú að gera slíkt?

Lára Hanna Einarsdóttir, 3.3.2009 kl. 15:00

17 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

skýrslan, sem hagfræðingurinn hótandi skrifaði ásamt fleirum, þykir mér vera hörð ádeila á Sjálfstæðisflokk Davíðstímans.

svo hörð að einhver hefur viljað að hún hyrfi. lénið endurreisn.is er ekki lengur virkt. þó hafa fyrirhyggjusamir menn afritað hana í tæka tíð.

 

Brjánn Guðjónsson, 3.3.2009 kl. 15:15

18 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

eitthvað skilaðist þetta til.

skýrsluna má finna hér: http://www.baldurmcqueen.com/attachments/1855_uppgjor_sjalfstaedisflokks.pdf

Brjánn Guðjónsson, 3.3.2009 kl. 15:16

19 identicon

Ja, þú ert svoddan tæknigúru með þessar klippur að ég gerði ráð fyrir því að þú kynnir það. Ég er reyndar búinn að setja link af síðunni þinni á facebookið mitt, veit reyndar ekki hvort það megi því þá er facebook líklegast búið að eignast höfundarrétt á færslunni þinni. (Er ekki viss um þessa skilmála facebook reyndar). Á t.d. Ustream og youtube eru embedding möguleikar sem maður smellir bara á til að setja klippur inn á ákveðna miðla. En það er ekki hægt hérna - sumsé klippurnar beint.

Takk annars fyrir frábæra síðu.

Ívar Örn (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 16:31

20 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þeim er nú vorkunn þessum bjálfum sem eru svo litlir af sjálfum sér að þeir þurfa að fara í litgreiningu svo einhver taki eftir þeim. Og svo eru margir okkar guðs voluðu kjósenda svo uppteknir af frambjóðendum og verðandi alþingismönnum að þeim finnst að bundin hafi verið ævarandi vináttubönd þegar einhver áberandi persóna veitir þeim athygli.

Þess vegna verða allir frambjóðendur að vera í blóðspreng við að hrista hendur og kyssa gamalt fólk.

Árni Gunnarsson, 3.3.2009 kl. 18:07

21 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

There is nothing that is a free lunch, stendur einhvers staðar og geri ég ráð fyrir að þeir sem styrkja prófkjörskandídata vilji fá eitthvað fyrir sinn snúð. Annars var verið að ávíta Sigmund Erni fyrir óþarfa spandans í prófkjörsslag sínum fyrir Samfylkinguna og verður honum jafnvel vikið frá prófkjörinu ef hann verður aftur uppvís að slíkri óráðsíu.

Helga Magnúsdóttir, 3.3.2009 kl. 19:56

22 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Átakanlegt að heyra ræðu Formannsins fyrir 2 árum. 

Veit ekki, eiginlega sjokkerandi.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 3.3.2009 kl. 21:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband