Trúgjörn atkvæði fyrir kosningar

Nú er mikið ritað og rætt um framtíðina þótt það sé langt í frá búið að gera upp fortíðina og því óljóst á hverju framtíðin mun byggjast. Úrslit kosninganna í vor skipta miklu máli og mikið í húfi að Íslendingar geri sér grein fyrir því í hverArnarfjörðurnig landi þeir vilja búa - ekki aðeins hvað varðar efnahagsmál, siðferði og þvíumlíkt heldur einnig hvernig umgjörð þeir vilja utan um líf sitt og tilveru - og afkomenda sinna.

Hvenær áttar fólk sig á því hverskonar náttúruundur Ísland er? Hvenær skilur fólk að náttúran sjálf er auðlind sem ber að varðveita eins og kostur er og hlúa að af kostgæfni. Við verðum að viðurkenna að fleira er auðlind en það, sem hægt er að meta til fjár. Við eigum að skila af okkur landinu eins óspilltu og unnt er í hendur afkomenda okkar og gæta hófs í umgengni við það.

Hvenær rennur upp fyrir Íslendingum að álver eru ekki fyrirtæki sem skila miklum arði inn í landið eins og sýnt hefur verið fram á með pottþéttum rökum, t.d. af Indriða H. Þorlákssyni? Hvenær fattar fólk að álver skapa alls ekki þau mörg þúsund störf sem pólitískir rauparar halda fram um þessar mundir á sínum lágkúrulegu atkvæðaveiðum?

Grunsamlegur fjöldi starfa og ekki spurt um bakgrunninn

Hefur einhver blaða- eða fréttamaður grennslast fyrir um hvað er á bak við Ölkelduhálstölurnar sem nefndar eru þegar gortað er af þúsundum starfa við hvert álver - eða eru tölurnar kannski úr lausu lofti gripnar til þess eins að snapa atkvæði eða knýja á um framkvæmdir? Engum ber saman um þessar tölur og þær hækka stöðugt eftir því sem nær dregur kosningum. Finnst engum það grunsamlegt?

Og hefur fólk spáð í hverrar þjóðar þeir verða sem vinna við þessar framkvæmdir? Þegar Kárahnjúkavirkjun var í uppsiglingu var fullyrt að 80% starfsmanna yrðu Íslendingar og 20% útlendingar. Raunin varð þveröfug - þetta voru þrælabúðir erlends vinnuafls, um þær voru sífelldar deilur og arður af störfunum fór að mestu úr landi. Þessu megum við ekki gleyma því þótt hér sé atvinnuleysi núna er innlent vinnuafl einfaldlega of dýrt fyrir verktakana. Þeir vilja fá féð í sína vasa, ekki deila því með öðrum.

Rányrkja á ekkert skylt við  skynsamlega nýtingu orkuauðlinda

Hefur fólk íhugað þá staðreynd að til að reka eitt álver þarf að reisa virkjanir - margar virkjanir? Þessum virkjunum fylgir gríðarleg, óafturkræf eyðilegging á náttúru Íslands - á landinu sem er sameign okkar allra og Blásandi borholaverðmætasta auðlind okkar. Og áttum okkur á því, að þegar talsmenn álvera og virkjana tala fjálglega um "skynsamlega" nýtingu orkuauðlinda úr ræðustól á Alþingi, í fjölmiðlum eða á fundum, þá er ekkert að marka það sem þeir segja. Því sú rányrkja sem fyrirhuguð er á sameiginlegum orkuauðlindum okkar er óralangt frá því að tengjast neinu sem kalla má skynsemi.

Sem dæmi um það má nefna að gufuaflsvirkjanir nýta einungis um 12-15% orkunnar - restin fer til spillis. Finnst fólki það viðunandi og skynsamleg nýting? Annað dæmi er eiturmengunin af völdum brennisteinsvetnis sem gufuaflsvirkjanir spúa út í andrúmsloftið í gríðarlega miklum mæli. Nú þegar hefur þurft að loka svæðum í kringum Hellisheiðarvirkjun vegna eituráhrifa frá virkjuninni og gróðurinn í kringum virkjunina, sem hefur tekið þúsund ár að myndast á úfnu hrauninu, er ýmist skemmdur eða dauður. Sama mun gerast fyrir norðan ef reisa á virkjanir til að knýja álver á Bakka. Varla felst mikil skynsemi í þessu, eða hvað?

Hvað kom fyrir Rúmenana á Hellisheiði?

Munið þið eftir Rúmenunum tveimur sem létust við störf sín við Hellisheiðarvirkjun í ágúst í fyrra? Ég minnist þess ekki að komið hafi fram hvert var banamein þeirra. Er ekki ráð að fjölmiðlar grafist fyrir um það og fái skýrslur frá lögreglu, sem og krufningarskýrslur?

Nú þegar eru fjórar virkjanir á suðvesturhorni landsins og aðrar fjórar á
Hellisheiðarvirkjunteikniborðinu, mislangt komnar. Suðvesturhornið er þéttbýlasta svæði landsins og þar búa um 2/3 hlutar þjóðarinnar. Nú þegar spúa virkjanirnar eiturefnum yfir okkur sem óvíst er hvaða áhrif hafa á heilsu okkar, velferð og lífsgæði. Viljum við meira af slíku þannig að hér verði orðið ólíft eftir nokkur ár - til þess eins að knýja álver í eigu erlendra auðhringa sem hirða arðinn og stinga í eigin vasa? Hrein orka? Nei.

Sérfræðingar telja að hraðinn á fyrirhugaðri orkuöflun, fjöldi virkjana og sú óheyrilega mikla og ágenga nýting auðlindarinnar sem áætluð er komi í veg fyrir endurnýjanleika og endurnýtanleika. Mögulega er hægt að keyra virkjanirnar í 3-5 áratugi og þá verði orkan upp urin. Ef til vill myndast hún aftur eftir hvíld í aðra 3-5 áratugi - ef til vill ekki. Það er einfaldlega ekki vitað. Endurnýjanleg orka? Nei.

Hvað eiga afkomendur okkar að gera að lokum

Hvað eiga afkomendur okkar að gera þegar við verðum búin að eyða allri framtíðarorku landsins í nokkur álver sem síðan pakka saman og fara þegar orkan hefur klárast og þau búin að gjörnýta auðlindirnar okkar? Er ekki rétt að spá aðeins í framtíðina hvað þetta varðar?

Álverum er hyglað af yfirvöldum á Íslandi og þau njóta ívilnana langt umfram það sem önnur fyrirtæki hafa möguleika á. Nýjasti skandallinn á því sviði er frumvarp til laga sem iðnaðarráðherra lagði fyrir yfirstandandi þing og vill keyra í gegn fyrir þinglok. Ríkisstjórn og orkufyrirtæki þurfa að taka risastór, erlend lán til að fjármagna byggingu og tækjakost virkjananna. Væntanlega eru íslenskir skattgreiðendur ábyrgðarmenn þessara lána ef eitthvað bregst og landið lagt að veði - eins og við séum ekki nógu skuldug fyrir. Vill einhver bæta á sig nokkrum milljörðum?

Krefjist skýringa og röksemdafærslu

Vaknið, kæru Íslendingar, og íhugið þessi mál í samhengi. Íhugið hvort þið séuð reiðubúin til að selja landið ykkar - eða það sem eftir er af því - í hendur erlendra auðhringa í gróðaskyni fyrir þá, ekki okkur. Þessi mál eru grafalvarleg og geta skorið úr um hve lífvænlegt Ísland verður í framtíðinni. Ekki taka trúanleg orð þeirra frambjóðenda sem segja orkuna okkar "hreina og endurnýjanlega" því miðað við hvernig staðið er að málum er það einfaldlega fjarri sanni. Ekki kokgleypa orð skrumara sem reyna að snapa atkvæði með því að nefna þúsundir starfa sem skapast við þetta eða hitt. Krefjist skýringa, krefjist röksemdarfærslu, krefjist þess að komið sé fram við ykkur sem skynsamar vitsmunaverur - ekki bara trúgjörn atkvæði fyrir kosningar.



Þessi pistill birtist fyrst í Smugunni 18. mars 2009.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Álverksmiðjan í Helguvík á að verða 360.000 tonn.  Sú á Reyðarfirði er 346.  Mér skilst að hún sé næststærst í Evrópu.  Kannski kemst þessi nefnd að þeirri niðurstöðu að jarðhitinn á Suðvesturlandi geti séð verksmiðjunni fyrir rafmagni endalaust.

Pétur Þorleifsson , 20.3.2009 kl. 06:59

2 Smámynd: Einar Indriðason

Heyr, heyr, Lára Hanna!

Einar Indriðason, 20.3.2009 kl. 08:45

3 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Ég fær hnút í maga að lesa þetta af því að ég veit að þú hefur rétt fyrir þér, Lára Hanna. Eftir stóra skellinn sem við erum nýbúin að fá hér á landi ættum við að vera vöknuð betur og gera allt til að stoppa þessa stóriðjuvitleysu.

Úrsúla Jünemann, 20.3.2009 kl. 11:23

4 identicon

Gott hjá þér Lára Hanna!

Guðbjörg Bragadóttir (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 11:32

5 Smámynd: Sveinbjörn Eysteinsson

sorglegt en satt

Sveinbjörn Eysteinsson, 20.3.2009 kl. 13:41

6 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Jafnvel "atvinnumótmælendurnir" í AGS eru búnir að kenna Kárhnjúkaharmleiknum um stóran hluta íslenska efnahagshrunsins.

Samt er ekki hlustað.   Enn látið eins og stóriðja og hvalveiðar(!) eigi að bjarga Íslandi.

Hvað í ósköpunum eiga afkomendur okkar eftir að segja um heimsku, skammsýni og græðgi þeirra sem undanfarin ár hafa farið með ráðin yfir þessu frábæra landi okkar ?

Hildur Helga Sigurðardóttir, 20.3.2009 kl. 15:11

7 identicon

Hvernig væri að gera könnun á því hvað mörg störf hafa tapast í öðrum atvinnugreinum, til dæmis landbúnaði, vegna hækkandi rafmagnsverðs? Á sama tíma og stóriðjufyrirtækjum er boðið sífellt lægra verð á orku (niðurgreiðslur til stóriðju) og líka vegna skattafríðinda til stóriðju, sem þíðir að meira þarf að leggja í staðinn á aðra? Eða hvað mengun hefur aukist vegna þess að sumir bændur hafa þurft að skipta yfir í olíukyndingu vegna þess að rafmagn er orðið of dýrt?

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 17:39

8 identicon

Hárrétt. Og þetta er sú framtíð sem Sjálfgræðisflokkurinn vill fyrir þjóðina. Og greinilega 30% þjóðarinnar; þ.e. sá fjöldi sem hagnaðist á hruninu og þeir sem eru með Stokkhólms syndróm.

íris (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 17:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband