Súrrealískur og sögulegur fundur

Fundurinn í Ráðhúsinu í dag var súrrealískur. Fjölmenni var á pöllunum og fólk lét í sér heyra svo um munaði. Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðingur, kallaði slíkt óhefðbundna stjórnmálaþátttöku eða borgarlega óhlýðni. Ég þurfti að fara til læknis svo ég varð ekki vitni að kosningunni og mótmælunum þeim tengdum. En átti í staðinn skemmtilegar samræður við lækninn.

Sá góði maður sagði að í dag hafi sú örlitla von um að eftir væru skynsamir, heiðarlegir stjórnmálamenn (í Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki) sem hægt væri að treysta, endanlega dáið. Hann sagðist alltaf hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn þótt stundum hafi hann þurft að halda fyrir nefið og loka augunum á meðan hann exaði við Déið. En hann hefur heitið sjálfum sér að kjósa þá aldrei, aldrei framar. Ef ég þekki hann rétt stendur hann við það. Framferði sjálfstæðismanna í borgarstjórn í dag gerði útslagið.

Ég tók upp hljóðútsendingu fundarins. Upptakan rúllaði í tölvunni á meðan ég var í burtu. Svo klippti ég brot úr fréttatímum sjónvarpsstöðvanna og Mbl.is við kaflann með kosningunni og mótmælunum. Hljóð og mynd passa semsagt ekki saman nema að mjög litlu leyti. Skaut líka inn nokkrum myndum sem ég tók á fundinum. Hljóðskrá með allri umræðunni um OR-Magma málið er viðfest neðst í færslunni ef fólk vill hlusta á öll ósköpin.

Þessi borgarstjórnarfundur er sögulegur og verður svo sannarlega rifjaður upp frá ýmsum hliðum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor, það efast ég ekki um eitt augnablik. Nú eru kjósendur í þeirri aðstöðu að geta rifjað allt upp, engu verður gleymt.

Óskar Bergsson er framsóknarmaður eins og þeir gerast einna sannastir. Nú fagnar hann niðurstöðu dagsins með félögum sínum sem munu græða á gjörningnum á einn eða annan hátt. Skömmu eftir að hann hóf mál sitt á fundinum stóð fullorðinn maður meðal áheyrenda upp og gekk fram. Konan hans hvíslaði að mér: "Maðurinn minn getur ekki hlustað á Óskar Bergsson. Hann fullyrðir að Óskar hafi aldrei á ævinni sagt satt orð." Ég vissi nákvæmlega hvað bóndi hennar var að tala um. Óskar Bergsson og Þorleifur Gunnlaugsson voru í Kastljósi. Þar kom fram að Óskari finnst bara í góðu lagi að dularfullt skúffufyrirtæki, sem stofnað er til að komast í kringum íslensk lög, eignist nýtingarrétt á orkuauðlindum okkar. Siðferðið í góðu lagi á þeim bænum. Munið þið eftir þessu, til dæmis?

Kastljós 15. september 2009


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eru um 35 einstaklingar fjölmenni?

Guðmundur Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 00:04

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Guðmundur Ingi... Á meðan ég var þarna, fyrstu tvo tímana eða svo, voru á annað hundrað manns á pöllunum. Setið í hverju einasta sæti og staðið alls staðar þar sem stætt var. Það er fjölmenni, já. Eðlilega er fólk á hreyfingu - kemur og fer.

Lára Hanna Einarsdóttir, 16.9.2009 kl. 00:13

3 identicon

Ég hef lengi ekki skilið þá sem styðja Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn.  Nú eru þeir að halda áfram þeirri stefnu sem þeir hófu þegar þeir voru í ríkisstjórn.  Einkavæða og selja.  Núna þegar krónan hefur fallið svona mikið, þá eru allar eignir á Íslandi á útsölu ef greitt er í erlendri mynt.  Borgarstjórinn sagði í viðtali að kúlulán væru eðlilegur viðskiptamáti.  Hvar hefur hún verið síðasta árið?  Það er ekkert eðlilegt við söluna eða hvernig að henni hefur verið staðið.  Verst að ekkert verður hægt að gera í þessu. 

Það skiptir ekki máli hversu margir mótmæla.  Hvað er rétt og hvað er rangt, það er málið.  Þetta er rangt.

Það er verst að ríkið gat ekki komið í veg fyrir þessi viðskipti.  Það hefði sent alveg hræðileg skilaboð til umheimsins.  Það átti bara ekki að selja þetta til að byrja með.  Þetta er bara framhald af Rei-málinu. 

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 01:30

4 Smámynd: Steingrímur Helgason

Rétt hjá Stefáni, þetta er alveg handgerð hörmúng, landráðazwik & vantar refziaðgerð til gjörenda.

Steingrímur Helgason, 16.9.2009 kl. 01:54

5 identicon

Hæ Lára Hanna og takk fyrir allt og allt eins og var skrifað í jólakortin einu sinni. Er ekki kominn tími á uppistandsmyndband á youtbe með bjarna ármanns svona eins og hannes hope gissurasyni ??  Manstu þegar hann ( bjarni ) mætti Villa V. þegar rey málið var fyrir 2 árum ? bjarni sagðist ekki hafa fengið þannig uppeldi að hann lygi ?? Svo er auðvitað gaman að rifja upp þegar hann söng með Stuðmönnum svona singalong á árshátíð íslandsbanka, Ó !!  duldir hæfileikar hjá þessum snillingi, eða þegar hann munstraði sig í flest maraþonhlaup sem framfóru í heiminum eins og td í NY, og það kom í flestum fjölmiðlum landsins, hann er með PR menn á fullum launum það er eitt sem víst er, og allt rétt tímasett líka. OK þetta kemur kanski ekki þessu við en....

eyjaskeggi (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 04:10

6 identicon

Og ef einhver er flínkur í photoshop : http://images.google.com/imgres?imgurl=http://www.currentfilm.com/images5/bubbleboydvdcover.jpg&imgrefurl=http://www.currentfilm.com/dvdreviews4/bubbleboydvd.html&usg=__2Sh0GW22bK5Mp9DFwtnFGPMTuas=&h=475&w=335&sz=45&hl=en&start=1&um=1&tbnid=KLnxjg9F7LI7wM:&tbnh=129&tbnw=91&prev=/images%3Fq%3Dbubbleboy%26hl%3Den%26rlz%3D1B3GGGL_en___IS231%26sa%3DN%26um%3D1

eyjaskeggi (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 04:31

7 Smámynd: Einar Þór Strand

Lára Hanna hvernig stendur á því að ríkisstjórnin (Samfylking og VG) neyddi OR til að selja?  Og hvers vegna er Sf í Hafnarfirði stikkfrí?

Einar Þór Strand, 16.9.2009 kl. 07:34

8 Smámynd: Rauða Ljónið

page { margin: 2cm } P { margin-bottom: 0.21cm } -->

 Einar það er munur á hvar heldur og hver veldur.

Vinstrimenn í  Hafnarfirði mega selja orkufyrirtækin sín engin segir neitt engir mótmæla, hægrimenn í Rvk mega það ekki  og þá er öskra gargað kalla það föðurlandssvik, hvar liggur þá heiðarleikinn hver svíkur og hver ekki,  flokkast þá föðurlandssvik og heiðarleikinn undir hver á heldur og hvar veldur.

Þetta á við gærdaginn á ráðhúspalli.

Heimskingjarnir hópast saman,

hefur þar hver af öðrum gaman.

Eftir því sem þeir eru fleiri

eftir því verður heimskan meiri.”



Rauða Ljónið, 16.9.2009 kl. 10:09

9 identicon

 Eg held thvi midur ad thetta mal med HS orku se bara byrjunin a halfgerdu stridi um audlindirnar... Nu hafa Kinverjar ahuga a theystarreykjum, vid vitum ad Landsvirkjun er mjög skuldsett. Nu tharf i raun ad fara strax i thad ad breyta thessari löggjöf og hafa skýr og klár lög um það að nýtingarréttur auðlindanna sé í almanna eigu! Ef það verður ekki gert verður þetta endalaus barátta, barátta sem Íslendingar mega hreinlega ekki við því að tapa! Við skuldum framtíðar kynslóðum það að selja ekki auðlindirnar til útlendinga, það á engin að hafa rétt til þess. 

Spurningin er hvernig best er að beyta sér í þessu máli, það þarf greinilega að upplýsa þjóðina um langtíma verðmæti þessa auðlinda. Þetta mál þarf líka að vinna þverpólítiskt, flokkapólitík má ekki eyðileggja þetta mál,  þetta er ekki eitthvað sem bara vinstri menn ættu að hugsa um, þetta er hagsmunamál fyrir alla þjóðina. 

Thorhildur Fjola (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 12:28

10 identicon

Nú hefur ein helsta réttlæting Borgarstjórnar á gerningnum verið sú að frestur sem Samkeppnisstofnun gaf til að selja hlutinn hafi verið um það bil að renna út og því ekki hægt að bíða eftir því að önnur tilboð litu dagsins ljós. Ég hef enn ekki rekist á hina augljósu spurningu: Var eitthvað samband haft við Samkeppniseftirlitið um frekari framlengingu á frestinum í ljósi þess að hlutabréfamarkaður á Íslandi er svo gott sem dauður og efnahagskerfið í rúst og að ekki sér enn fyrir endann á því ástandi? - Veit einhver svarið við því?

Andrés Björgvin Böðvarsson / bakemono (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 13:45

11 identicon

,, Óskar Bergsson er Framsóknarmaður eins og þeir gerast einna " VERSTIR - ALLRA VERSTIR. Og Lára, mikið held ég að það sé satt sem þessi kona hvíslaði að þér um Óskar. 

Stefán (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 13:54

12 identicon

Sæl

Vildi bara óska þér til hamingju með titillinn "Besti bloggarinn" þó að mér segist svo hugur um að þér gæti nú varla verið meira sama.  Það er nauðsynlegt að einhver haldi okkur hinum á tánum með umfjöllun um málefni líðandi stundar.

P.s mér finnst þessi gjörningur borgarstjórnar vera til marks um það að við höfum öllu gleymt og ekkert lært.

Sigríður (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 14:11

13 Smámynd: 365

Á pöllunum var samansafn af aðgerðarsinnum svokölluðum sem voru frekar óhrjálegir í alla staði hrópandi út í eitt og er harla viss um það að ef fólk hefði verið spurt um hvað mótmælin snérust hefði það ekki haft hugmynd um málefnið.  Þetta var grátlegt á að horfa.

365, 16.9.2009 kl. 15:56

14 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Á pöllunum var alls konar fólk á öllum aldri, 365. Allt frá ungum háskólanemum upp í eldri ömmur eða langömmur. Þetta sérðu vel ef þú horfir á upptökur af fundinum. Það voru aftur á móti ungir menn sem lögreglan handtók - en ég veit ekki hvort þeir eru sérstakir aðgerðarsinnar því ég þekki þá ekki.

Lára Hanna Einarsdóttir, 16.9.2009 kl. 18:45

15 Smámynd: Einar Þór Strand

Lára þú svarar ekki spurningunni hversvegna þú þegir yfir þætti Samfylkingarinnar og VG?

Einar Þór Strand, 16.9.2009 kl. 18:54

16 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Fyrirgefðu, Einar Þór. Innlegg þitt fór fram hjá mér.

Ég átta mig ekki alveg á rökum þínum fyrir því að ríkisstjórn Sf og Vg hafi neytt OR til að selja. Það var ríkisstjórn D og B sem setti lögin um árið og Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi iðnaðarráðherra hirti ekki um að nýta undanþágu sem hefði fengist vegna smæðar samfélagsins. Samkeppnisstofnun úrskurðaði um að OR mætti ekki eiga svona stóran hlut - þar er Framsóknarmaður í forsvari.

Og hvað ertu að meina með Hafnarfjörð? Þar hefur mér t.d. ekki hugnast sala á vatnsauðlindum og leyfi fyrir raflínum. Engu skiptir hvort þar er um að ræða Sf eða aðrir. Rangt er rangt, hver sem gjörninginn fremur.

Lára Hanna Einarsdóttir, 16.9.2009 kl. 19:00

17 Smámynd: Einar Þór Strand

Lára það var ríkisstjórninni í lófa lagið að fella þessi lög úr gildi eða gefa undanþáu frá þeim og það hefur verið beðið um það í einkasamtölum veit ég.

Einar Þór Strand, 16.9.2009 kl. 21:09

18 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Já framsóknarmanninum Óskari Bergssyni fannst bara allt í lagi að Magma hefði stofnað skúffufyrirtæki í Svíþjóð svo það gæti keypt hér auðlindir þjóðarinnar, en Óskari fannst það ekkert mál því að þetta væri ekki eign okkar Reykvíkinga og því væri þetta allt í lagi!!!!   Það er eins og hann aðgreini Reykjavík frá örðum stöðum á landinu.   Djöfull er hann eitthvað óspennandi þessi maður og veruleikafirrtur.  Að svona lið skuli fá að koma að stjórn hér á einhvern hátt er mér algjörlega óskiljanlegt.

Hvernig væri að henda þessum gömlu flokkum á haugana og stefnuskrám þeirra með.  Þetta fólk er alveg blint eða bara forheimskt.   Afsakið............en ég er pirruð yfir þessu öllu og hef áhyggjur af því hvað verður um land og þjóð...........eins og margir aðrir.

Hvernig væri að gera almennilega byltingu?

Margrét St Hafsteinsdóttir, 17.9.2009 kl. 00:18

19 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Ég er alvarlega farin að hallast að því að bylting fólksins í landinu sé okkar eina von.

kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 17.9.2009 kl. 02:56

20 identicon

Hvað með það sem Óskar sagði um að stjórnvöldum hefði verið veitt tækifæri til að útvega kaupendur um hlutinn en ekki nýtt sér það tækifæri?

Þeir báðu um frest sem þeir fengu en ekkert gerðist af hálfu stjórnvalda.  Af hverju er enginn að grilla fjármálaráðherra vegna þessa?
Áhugi ríkisstjórnarinnar á málinu kom ekki fram fyrr en undir lokin þegar tilboðið frá Magma var komið fram.  Enginn íslenskur fjárfestir fannst þótt leitað hafi verið eftir því.  

Samkeppniseftirlitið var búið að úrskurða um að það yrði að selja hlutinn.   Hvað áttu menn að gera í stöðunni?  

Hefði Magma sett upp "skúffufyrirtæki" á Íslandi í stað Svíþjóðar, hefðu menn þá verið sáttari?  Hefðu þetta verið Svíar sem keyptu hlutinn en ekki Kanadamenn, hefðu menn þá orðið sáttari?

Ég bara spyr.  

Hrafna (IP-tala skráð) 19.9.2009 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband