18.9.2009
Andstaðan og sinnuleysið
Það tilkynnist hér með að þetta er ekki "eiginlegt blogg" og ég ekki bloggari - samkvæmt ummælum merkra álitsgjafa. Ég datt inn á umræðu um bloggara hjá Jens Guð áðan og las þar skemmtilegar upplýsingar um sjálfa mig og bloggið mitt. Þar segir t.d. bloggarinn Matthías Ásgeirsson í athugasemd nr. 113: "Ég get tekið undir með þér að Lára Hanna er ágætur bloggari, ef bloggara má kalla. Hún er náttúrulega fyrst og fremst í því að afrita efni annarra. Ég myndi eiginlega frekar kalla hana (ágætis)vefbókasafn." Og íhaldsmaðurinn Emil Örn Kristjánsson tekur undir í athugasemd nr. 115 og segir: "Ég get svo tekið undir með Matthíasi að 'blogg' Láru Hönnu er ekki eiginlegt 'blogg'. Það er frekar, eins og hann segir, nk. vefbókasafn... þar sem allar bækurnar eru reyndar mjög á einn veg."
Þessi ummæli skutu mér skelk í bringu og fengu mig til að líta um öxl yfir farinn veg. Samkvæmt teljaranum í stjórnborðinu hef ég birt 647 færslur á tæpum tveimur árum. Ekki nenni ég nú að telja orðin sem skipta líklega hundruðum þúsunda. Engum sem þekkir skrif mín dylst að ég skrifa oftast langa pistla með miklu ítarefni. En nú er ég farin að efast... Hver skrifaði þetta allt saman fyrst það er ekki ég? Hver afritaði allan þennan texta og hvar? Er ég kannski sjálf afrit? Hvaða hugleiðingum og skoðunum hef ég verið að lýsa - ef ekki mínum eigin? Ég hef satt að segja svolitlar áhyggjur af þessu því varla fara örvitar og íhaldsmenn með fleipur, eða hvað?
En nú vita alltént lesendur þessarar síðu að þetta er ekki "eiginlegt blogg" - hvað svosem það er. Hér birtist bara "afrit af efni annarra" - ekki mín eigin orð, hugleiðingar eða skoðanir. Mér er hulin ráðgáta hvaðan allt það sem ég hef skrifað undanfarin tæp tvö ár er komið. Spurning um að kalla til miðil...
Ég hef ekki orku í að bæta við öllu sem ég þurfti að sleppa í pistlinum á Morgunvaktinni í morgun vegna tímatakmarkana. Sumt hef ég sagt áður, annað ekki. En nú er bara spurning hver samdi þetta og flutti og hvaðan þetta er allt saman afritað. Veit það einhver? Matthías kannski... eða Emil Örn...?
Ágætu hlustendur...
Ég veit ekki lengur mitt rjúkandi ráð. Hvernig er hægt að vekja mína ástkæru þjóð af Þyrnirósarsvefninum? Hvernig er hægt að beina athygli fólks að því, hvernig verið er að fara með landið okkar, auðlindirnar og okkur sjálf - fólkið sem byggir þetta harðbýla en yndislega land? Er fólki virkilega sama? Ég vil ekki trúa því.
Hve margir horfðu á myndina í sjónvarpinu í fyrrakvöld - Afsökunarbeiðni efnahagsböðuls? En hve margir horfðu á myndina Einkavæðing og afleiðingar hennar sem sýnd var á RÚV í lok maí? Innihald þessara mynda passar bara vel við það sem er að gerast á Íslandi.
Ég fæ orðið klígju þegar alls konar spekingar nefna sem lausn á vanda þjóðarinnar: "... að við eigum svo miklar auðlindir". Við þurfum bara að nýta þær og þá er allur okkar vandi leystur. Auðlindum sjávar sé svo vel stjórnað og orkuauðlindirnar endurnýjanlegar og tandurhreinar. Þetta er blekking og þeir sem vita betur hafa ítrekað reynt að koma því á framfæri.
Fiskurinn í sjónum er bókfærð eign kvótakónga og veðsettur upp í rjáfur í erlendum bönkum af því strákana langaði svo að leika sér og kaupa einkaþotur, þyrlur og annan lúxus. Afganginn geyma þeir á leynireikningum í útlöndum og við borgum skuldirnar þeirra. Þó að ákvæði sé í lögum eða stjórnarskrá um að þjóðin eigi auðlindir sjávar er nákvæmlega ekkert að marka það. Nú eru þær í eigu erlendra banka eða erlendra kröfuhafa bankanna. Merkilegt að strákarnir skuli samt fá að halda kvótanum.
Orkuauðlindirnar - sem eru hvorki endurnýjanlegar né tandurhreinar eins og reynt er að telja þjóðinni og útlendingum trú um - er verið að einkavæða og selja frá þjóðinni fyrir slikk. Engu að síður er vitað að verðmæti þeirra getur ekki annað en aukist næstu ár og áratugi. Arðurinn af þeim fer úr landi og almenningur ber æ þyngri byrðar fyrir vikið. Hér á líka við að eignarhald þjóðarinnar á pappírunum er einskis virði ef nýtingarréttur og yfirráð eru í höndum einkaaðila.
John Perkins, fyrrverandi efnahagsböðull og aðalpersóna myndarinnar í fyrrakvöld, varaði okkur við. Hann sagði að þetta snerist allt um auðlindir. Hann sagði líka þetta: "Andstaðan verður að koma frá fólkinu. Við getum ekki búist við að leiðtogarnir búi yfir kjarki eða getu til að koma á breytingum nema við, fólkið, krefjumst þess. Hér á Íslandi verðið þið Íslendingar að krefjast þess að þið eigið auðlindirnar. Þetta er landið ykkar. Þið búið í því. Forfeður ykkar hafa verið hér í mörg hundruð ár og hugsað um það. Þið megið ekki selja auðlindirnar til annarra og láta arðræna ykkur svona. En það verður að koma frá ykkur." Sagði John Perkins.
Á þriðjudaginn fór fram auðlindasala í Ráðhúsi Reykjavíkur í boði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Það var rækilega auglýst í fjölmiðlum og á Netinu. Þegar mest var voru á annað hundrað manns að mótmæla auðlindasölunni. Hvenær gerir fólk sér grein fyrir því, að verið er að selja Ísland, éta okkur með húð og hári - beint fyrir framan nefið á okkur?
Sinnuleysi Íslendinga er skelfilegt.
Hljóðskráin er hér fyrir neðan. Ég verð að leiðrétta Láru og Frey - þau kynna mig alltaf sem bloggara.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Spilling og siðferði, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:44 | Facebook
Athugasemdir
Farðu með þetta í Lífsaugað, ekki spurning
Höskuldur Búi Jónsson, 18.9.2009 kl. 15:00
Það er sorglegt að komast svona allt í einu að uppáhaldsbloggarinn er í raun ekki bloggari... Það er allt að bregðast nú til dags.
Offari, 18.9.2009 kl. 15:07
Þú ert langbest Lára :)
Óskar Þorkelsson, 18.9.2009 kl. 15:13
Godann daginn Lara Hanna og thakka mjog gott BLOGG, sem eg veit ad er blogg en ekki "eiginlega blogg" eins og thessir 2 aular sem thu nefnir her fyrir ofan, sennilega eru their svo fullir af ofund og thessvegna lata their thetta ut ur ser. Eg mundi ekki eyda tima i ad andmaela thessum aulum.
Islendingur (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 15:14
tek undir með Óskari
Hólmdís Hjartardóttir, 18.9.2009 kl. 15:18
Ómakleg ummæli um frábæran bloggara, sem auk þess hefur sýnt fádæma frumkvæði á bloggsíðu sinni, og ber þá hæst, gagnvirka samtalið við Michael Hudson að ótöldu gífurlegu magni af aðgengilegum upplýsingum, sem ekki er vanþörf á, í landi sem brigzlað hefur verið um gullfiskaminni.
"Bloggari" er eiginlega rangnefni þegar Lára Hanna er annars vegar, óháður og frjáls blaðamaður væri nærri lagi.
Baráttukveðjur til þín, góði bloggari.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 18.9.2009 kl. 15:22
Það er okkur mikið áhyggjuefni að einhverjir tveir telji þig ekki eiginlegan bloggara Lára Hanna, mikið áhyggjuefni, ég verð að segja það!
Haukur Nikulásson, 18.9.2009 kl. 15:22
Blogg Láru hönnu sker sig úr vegna þess að bitastæðum pistlum fylgir nær alltaf bitastætt efni.
Blogg er annars mest froða. Sama má segja um flest sem maður segir og hugsar og skrifar. En það er sannarlega mikilvægt og hefur ráðið úrslitum um að Íslendingar eiga nú færi á að losna undan aldagömlu og spilltu lénskerfi. Spurningin er hvort þeir nýti sér tækifærið eða lappi bara upp á gamla systemið.
Hitt er alveg rétt að blogg Láru Hönnu er dýrmætt vefbókasafn. Ómetanlegt.
Rómverji (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 15:33
Taktu ekki nærri þér blaður einhverra tveggja gapuxa. Þetta eru hreinlega hlægilegar fullyrðingar, sem engin leið er að taka alvarlega Lára. Blogg, sem leggur út af málefnum líðandi stundar og hvetur til umræðu og skoðanaskipta, kemst ekki hjá því að vitna í heimildir. Sérðu einhverja aðra leið? Upplýsingarnar og fljúga eins og hráviði um loftið og venjulegt fólk á varla séns í að henda reiður á þær, né setja í rökrænt samhengi. Þú hefur tekið þessar upplýsingar og sett þær í samhengi, bent á það lagt út af því og hvatt til umræðu, þar sem enn fleiri upplýsingar koma fram, sem flestum voru huldar. Vinna þín er í engu frábrugðin vinnu vandaðs rannsóknablaðamanns.
Í þig er svo aftur vitnað af fjölmiðlum og ábendingar þínar verða að heilum fréttaaukum.og engin er meira lesinn hér. Þú er bloggari, sem alþýðan stólar á og les. Ef þú hefðir ekkert fram að færa, þá væri það einfaldlega ekki tilfellið. Þetta ábyrgðalausa blaður ætti einna helst við Stebba Friðriks, því hans blogg er einmitt af þeirri sort sem lýst er. Innihaldslausar endurtekningar, jafnvel undir sömu fyrirsögn og vitnað er í.
Ekki taka svona bull hátíðlega. Það er fjandans nóg af því og það veistu. Skoðaðu heldur hólið, sem þú færð á umræddu bloggi. Það er satt og verðskuldað.
Jón Steinar Ragnarsson, 18.9.2009 kl. 15:40
Kannskivita þessir gúbbar ekki hvað blogg er. Hér er definasjón af Wikipedia:
A blog (a contraction of the term "weblog")[1] is a type of website, usually maintained by an individual with regular entries of commentary, descriptions of events, or other material such as graphics or video. Entries are commonly displayed in reverse-chronological order. "Blog" can also be used as a verb, meaning to maintain or add content to a blog.
Many blogs provide commentary or news on a particular subject; others function as more personal online diaries. A typical blog combines text, images, and links to other blogs, Web pages, and other media related to its topic. The ability for readers to leave comments in an interactive format is an important part of many blogs.Jón Steinar Ragnarsson, 18.9.2009 kl. 15:43
Emil Örn Kristjánsson, Hjörtur J. Guðmundsson og Rögnvaldur Hreiðarsson, þetta eru gætu verið einn og sami maðurinn.
Það tekur engin mark á þessum mönnum og ég held að þeir viti það.
Jón (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 15:59
Ég fæ ekki séð að þessar athugasemdir séu "eiginlegar athugasemdir" þótt (ágætar) séu. Líkast til eru þær afrit af athugasemdum annarra!
Lára Hanna Einarsdóttir, 18.9.2009 kl. 16:08
Krúttleg hún er Kópía,
og kynleg Múmín-Mía,
henni vil ég hlýja,
með hripum óráð sía.
Þorsteinn Briem, 18.9.2009 kl. 16:34
Kæra Lára Hanna.
Það er ekki fyrr enn þeir, sem stendur af þér stuggur, byrja að hnýta í þig að þú veist að þú ert að ná markmiðum þínum. Skrif þín skipta sem sagt máli, ekki aðeins fyrir þá sem eru þér sammála, heldur einnig þá sem eru það ekki.
Svanur Gísli Þorkelsson, 18.9.2009 kl. 17:58
Ég hugsa að sérhver sá sem þykist geta skilgreint hvað er blogg og hvað ekki, finni sig fljótt í þeirri stöðu að hafa sniðið bloggurum of þröngan stakk. Vissulega heldurðu efni til haga, afritar það og geymir. Það er ekki blogg í sjálfu sér heldur ... afritun og einskonar forvarsla. En.
En þú tjáir líka hugsanir þínar um það sem þú heldur til haga og leyfir umræðu um þær. Þar finnst mér þú gera það sem bloggarar hafa alltaf gert. Sem er að viðra hugmyndir, ræða um þær og leyfa þeim að þroskast. Ekki er ónýt vísunin í Wikipediu, þótt hún hafi varla síðasta orðið í fyrirbæri sem breytist óðfluga ...
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 18:28
Ég myndi taka þessum orðum þannig að það er verið að reyna að draga úr þér. Láttu það ekki gerast! Bloggið þitt er og verður vonandi áfram eitt það vandaðasta blogg sem um getur enda ertu sennilega víðlesnandi bloggari landsins. Það þarf ekki annað en líta á heimsóknirnar inn á síðuna þína til að fá það staðfest.
Láttu ekki deigan síga, Lára Hanna! Niðurrifið er öfundartal mælt fram í þeirri von að draga úr trúverðugleika þínum. Ástæðan fyrir því að einhver vill draga úr trúverðugleika þínum er sennilega ein besta sönnun þess að bloggið þitt hefur áhrif! Kannski hættulega mikil áhrif að sumra mati
Haltu þess vegna ótrauð áfram og vertu stolt af sjálfri þér! Þú hefur líka fullt tilefni til
Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.9.2009 kl. 18:49
Þið megið alls ekki halda að mér sé alvara með þessum skrifum um vitringana tvo - hvað þá að ég taki álit þeirra nærri mér. Látið heldur ekki háðið fram hjá ykkur fara. Í ljósi þess hve mikið ég hef skrifað hér, burtséð frá fréttaklippum ýmiss konar, fannst mér þetta drepfyndið og mátti til með að gera svolítið grín að þeim.
Ég veit sjálf út á hvað bloggið mitt gengur og þarf hvorki örvitann né íhaldsmanninn til að segja mér það. En líklega hafa þeir aldrei lesið bloggið mitt - bara skoðað ítarefnið.
Annars átti bara Morgunvaktarpistillinn að vera í þessari færslu - en ég stóðst ekki mátið að nefna þessa kumpána og leyfa öðrum að njóta visku þeirra.
Lára Hanna Einarsdóttir, 18.9.2009 kl. 19:41
Þetta er ekki sinnuleysi, fólk er að gefast upp fyrir áróðursöflunum. Framkvæmdastjóri SI var enn eina ferðina að væla yfir skorti á álverum og leyfum til að rústa landinu enn frekar. Hvers vegna fá fréttamenn aldrei neinn sem er á öndverðri skoðun?
Það mættu 15.000 manns í gönguna með Ómari um árið til að mótmæla "mikilmennskubrjálæði" Landsvirkjunar við Kárahnjúka. Fyrrum forsætisráðherra kaus að kalla þetta fólk öfgamenn. Verst að Ómar hefur slaknað í baráttunni eftir að hann fór yfir í hinn flokkinn.
Ég hélt að Framtíðarlandið væri réttur vettvangur en sá félagsskapur nær ekki til fjöldans. Það verður að gera eitthvað í málunum strax. Það sem þarf er að einhver taki upp símtólið, hringi í næsta mann og þeir safni saman fólki til mótmæla, háværra mótmæla þar sem ekkert verður gefið eftir. Hvað er Landsvirkjun að gera við landeigendur við Þjórsá? Hvað er Landsvirkjun búin að eyða miklum peningum í hönnun á næstu virkjunum? Sennilega svo miklum að vart verður aftur snúið. Það er þó hægt eins og dæmin sanna við Eyjabakka, verst að þeir fóru þá beint í ruglið við Kárahnjúka. Ég var þar fyrir nokkrum vikum og þvílík hörmung á allan hátt, burt séð frá efnahagslegum skaða virkjunarinnar.
Ég legg til að þú hafir nú samband með símtali við nokkra góða menn, veit að þú þekkir marga, og safnir liði. Það gerðu víkingarnir í gamla daga, á svipaðan hátt og útrásarvíkingarnir. Þessi flokkur gæti þá heitið innrásarvíkingarnir. Að öðrum kosti er þetta tapað stríð.
Björn H. Björnsson, 18.9.2009 kl. 20:04
Þetta eru merkileg viðbrögð við athugasemd minni þegar tekið er tillit að hún er frekar jákvæð í garð Láru Hönnu.
Ansi stór hluti af því sem hér birtist er afrit af annarra efni. Ekkert að því.
En að ég sé að þagga niður í einhverjum með þessari athugasemd er náttúrulega stórkostlegt bull :)
Matthías Ásgeirsson, 18.9.2009 kl. 21:37
Já og fyrst þú skrifar um sinnuleysið verð ég að vísa á pistil minn um upphafningu sinnuleysis.
Matthías Ásgeirsson, 18.9.2009 kl. 21:46
Ég er reyndar að einhverju leyti sammála Matthíasi því mér finnst þú ekki bara vera bloggari heldur finnst mér þú vera eina (eða í það minnsta besta) íslenska dæmið um borgaralega blaðamennsku (civil journalism) og í raun eitt af því merkilegasta sem bloggið og nýmiðlun hefur alið af sér hér á landi. En það er náttla kalt á toppnum ;)
Sóley Björk Stefánsdóttir, 18.9.2009 kl. 22:12
Skiptir einhverju máli hvað sagt er?
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 18.9.2009 kl. 22:25
Mér er nú ágætlega hlýtt, Sóley Björk, og ég gef lítið fyrir toppinn - en mér finnst afar mikilvægt að málefnin fái athygli. Ég hef aldrei litið á sjálfa mig sem blaðamann, enda er ég það ekki. Þegar ég byrjaði að taka upp útvarpsefni og síðar sjónvarpsefni gerði ég það í þeim eina tilgangi að geta dregið það fram til að fólk gleymdi ekki því sem á undan var gengið. Eiginlega ráð til að vinna gegn gullfiskaminninu sem hrjáir okkur svo ótalmörg. Nú á ég orðið gríðarlegt safn af útvarps- og sjónvarpsefni sem hægt er að birta og vitna í máli sínu til stuðnings. Til þess er leikurinn gerður.
Ég er alveg sammála þér með það, Matthías, að þú hafir ekki ætlað að þagga niður í einhverjum. Það hefur örugglega aldrei hvarflað að þér. En að segja að bloggið mitt sé "fyrst og fremst afrit af efni annarra" er bara kjánalegt. Nema þú sért með þeim orðum að einblína á ítarefnið og afskrifa allt sem ég hef skrifað sjálf - sem er gríðarlega mikið efni.
Annars kæri ég mig kollóta um hvað þér finnst um mig og bloggið mitt - ef blogg skal kalla...
Lára Hanna Einarsdóttir, 18.9.2009 kl. 22:28
Nei, Ben.Ax. - hárrétt athugað. Það skiptir nákvæmlega engu máli.
Lára Hanna Einarsdóttir, 18.9.2009 kl. 22:30
Mér fannst þetta skemmtilegur pistill hjá þér.
Viðurkenni fúslega hvað þarf til nákvæmlega til að vera viðurkenndur meðlimur heimsbloggsins. Mér finnst samt heimasíða þín með þeim betri á netinu og hef ég undanfarna mánuði skoðað hana nokkuð reglulega. Mér finnst þú nefnilega setja þínar skoðanir í gott samhengi og rökstyður þær vel með myndefni.
Erfitt að velta fyrir sér 'mótív' þeirra sem koma með þessa gagnrýni. Máski þarna séu á ferðinni rétttrúnaðarmenn sem reyna að ófrægja þig vegna þess að þú aðhyllist ekki hinn eina rétta sannleika? Eflaust líklegra að um sé að ræða sjálfhverfar smásálir sem eru fullir öfundsýki vegna vinsælda bloggsins þíns. Hvað sem það er, þarftu ekki að missa svefn yfir því.
Ég vona þó svo sannarlega að þú haldir ótrauð áfram í því sem þú ert að gera. Stundum er ég ósammála þér. Kemur fyrir að mér sé nokkuð sama um það sem þú skrifar. Oft er ég sammála hugrenningum þínum. Mikilvægast er þó að gleyma ekki því liðna.
kkv,
Guðgeir (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 22:30
Jón Steinar. Ég vil þakka sérstaklega fyrir vinsamlega orð í minn garð. Takk.
Matthías Ásgeirsson, 18.9.2009 kl. 22:31
* Þetta á að vera: ' Viðurkenni fúslega AÐ ÉG VEIT EKKI hvað þarf til ......
afsakið.
Guðgeir (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 22:32
Blogg eða ekki blogg, skiptir engu.
Það sem þú ert að gera Lár Hanna, er bara aðdáunarvert og stórkostlegt í alla staði.
Páll Blöndal, 18.9.2009 kl. 22:47
Sæl Lára
Mér sýnist skrif þín vera eigin hugrenningar og skoðanir um mál líðandi stundar, samanfléttað öllum þeim upplýsingum sem fundist hafa um þau málefni sem þú fjallar um hverju sinni,sem eru tímafrek og mikil vinna. Það hefur verið ómetanlegt að geta lesið um það sem er að gerast hér á Íslandi hverju sinni svona vel flokkað , bæði myndefni fréttaskýringar blaðagreinar ýmisa blaða .Þú hefur lagt á þig ómælda vinnu við að viða að þér allar mikilvægar upplýsingar úr hinum ýmsu áttum til að setja þær á einn stað fyrir okkur hin til að lesa og fræðast. Fyrir mér ert þú rödd alþýðunar,og vil ég þakka þér fyrir hugrekki þitt og elsku til landsins og fólksins sem ég veit er þakklátt fyrir það sem þú ert að gera ,í raun ættir þú að vera á fjárlögum fyrir alla þá vinnu sem þú leggur á þig svo óeigingjarnt. Þú hristir upp í hugum fólks sem er orðið í raun svo langþreytt, kveikir aftur á baráttuviljanum sem við þyrftum að sýna betur oftar og með meiri krafti en hingað til hefur verið gert. Það er svo erfitt að gera sér grein fyrir hvað hægt er gera til bjargar landinu ,ég hef það á tilfinningunni að við séum umkringd hrægömmum og vondum öflum , það er eins og ekki sé hægt að stoppa þau af.
Þegar náttúruhamfarir eiga sér stað þá höfum við sýnt að við verðum að standa saman sem einn maður,núna er framtíð okkar og komandi kynslóða í hættu og er það ekki minna en jarðskjálfti eða önnur vá. Við þurfum menn og konur sem eru óspillt og bera ást og umhyggju fyrir landi og þjóð,eru tilbúin hafa kunnáttu og menntum til að gera sem þarf .líka það sem er óvinsælt en nauðsynlegt,og þurfum við þá að standa við bakið á því fólk sem einn maður öðruvísi er þetta ekki hægt. Við þurfum að hafa þor ,ég get ekki séð að við höfum neinu að tapa en allt að vinna.
Gangi þér allt í haginn Lára mín og haltu ótrauð áfram ,því svona ert þú að leggja þitt að mörkum, við hin þurfum að spyrja okkur sjálf hvort ekki sé eitthvað sem við getum gert.
Jenný Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 22:48
Þú ert auðvitað ekki neinn skoðanamiðill eða ljósritunarstofa. Þú ert alveg einstök vaktstöð pólitískrar spillingar og kraftaverkakona á þessum vettvangi.
Við getum einfaldlega ekki án þín verið.
Árni Gunnarsson, 18.9.2009 kl. 23:23
Það sem mér finnst fara fyrir brjóstið á þessum mönnum, er líklega það hversu skipulögð þú ert , og linkar heimildirnar og staðreyndirnar með blogginu þínu. Og það finnst þeim ekki gott því þá er ekki hægt að segja þig ljúga. Og það finnst mörgum vont !
kona (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 23:53
Matthías Ásgeirsson, 18.9.2009 kl. 23:55
Lára Hanna.
Vil segja það einu sinni enn þú ert meðal bestu bloggara þessa lands !
Ég vill að þú fáir fálkaorðuna fyrir þessa vinnu þína hér á þessu bloggi !
Veit ekki hvort ég get orðað betur mínar skoðanir á þinni vinnu á þessu bloggi !
JR (IP-tala skráð) 19.9.2009 kl. 00:20
Ekki spurning í mínum huga ertu ekki bara bloggari heldur ertu besti og málefnalegasti bloggari landsins sem aðrir bloggarar mættu gjarnan taka sér til fyrirmyndar, því tek ég ofan fyrir þér
Hulda Haraldsdóttir, 19.9.2009 kl. 00:21
Hafðu engar áhyggjur af Matthíasi. Hann á það til að vera í fýlu út í ólíklegustu menn og málefni. Þar á meðal sjálfan Jesú Krist. Þú ert því ekki í amalegum félagsskap.
Theódór Norðkvist, 19.9.2009 kl. 01:04
Bloggari eða ekki bloggari, þá ertu frábær í að koma skoðunum þínum OG STAÐREYNDUM á framfæri. Það er auðvitað fólk eins og þú sem auðvaldssinnar vilja kæfa niður í. Guð hjálpi okkur ef fólk eins og þú þagnar. Ég er búinn að vinna að því að kynna mér ákveðna þætti einkavæðingarinnar (stjórfelldan auðlindaþjófnað) og ég verð að segja að ég sef mun verr en ég gerði fyrir ári síðan. Stundum vildi ég að ég gæti bara farið aftur til þess tíma þegar ég hélt að allt væri í lagi, að við lifðum í frábæru landi án spillingar. Mér liggur við að líkja þessu við myndina The Matrix. Ég er satt að segja ekki viss hvort ég myndi velja bláu eða rauðu pilluna ef það væri í boði líkt og í myndinni? Hugsanlega vill fólk einfaldlega frekar taka þá bláu og lifa áfram í fáfræði sinni í þeim ímyndaða draumaheimi sem það hefur verið í hingað til? Kannski er það ástæðan fyrir því að þjóðin vaknar ekki? En skrif þín eru svo sannarlega rauð pilla. (þeir sem ekki hafa séð The Matrix vita væntanlega ekkert um hvað ég er að tala: http://www.arrod.co.uk/essays/matrix.php)
Þórður Már Jónsson, 19.9.2009 kl. 01:07
Hvað eru þessir varðhundar spillingaraflanna að ibba gogg hérna. Ég kýs þig besta bloggara landsins hér og nú. Til hamingju með árangurinn, við erum betur uppfrædd sem lesum "bloggið þitt"
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 19.9.2009 kl. 02:57
Lára Hanna !
Núna er það bara tilnefnig til fálkuorðunar fyri þitt framlag til betri umræðu um gott þjóðfélag !
JR (IP-tala skráð) 19.9.2009 kl. 03:21
Ég seigi það með þér hvenær ætlar þessi þjóð að vakna af svefninum...... Og er það nóg , ég er t.d. glaðvakandi en veit samt ekki mitt rjúkandi ráð!? Horfi bara pólitíkusa snúast mátvana í hringi á meðan landinu er rænt undan okkur ,,, Sumt af þessu fólki kaus ég þó sjálf og var vongóð í upphafi um árangur, get ekki sagt að ég sé það núna :/
Takk fyrir gott blogg :)
Eva , 19.9.2009 kl. 03:54
Fyrir orðið "eiginlegt" ætti að standa "alvöru". Þvílíkt hallærisleg tilraun til þöggunar.
Meira er ekki svara vert.
Hildur Helga Sigurðardóttir, 19.9.2009 kl. 03:57
Allavega mundi ég ekki nenna að hafa fyrir þessu öllu ef ég meinti það ekki.
Þú ert frábær Lára Hanna mín
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 19.9.2009 kl. 09:07
Þetta er bara öfundsýki á háu stigi hjá M... eithvað man ekki hvað hann hét , þú ert besti bloggari landsins..
Svo þetta með auðlindirnar er hrikalega sorglegt, fólki virðist vera skít sama um að þær eru seldar til einkaaðila, en svo eru margir óðir og segja að innganga í ESB sé það sama og að ESB mundi taka auðlindirnar af þjóðini sem er algjör fjarstæða. Eru ekki kvótakóngarnir búnir að veðsetja alla kvótan í topp...
Jóhannes (IP-tala skráð) 19.9.2009 kl. 09:41
Sæl Lára Hanna
Ég tek undir með þér að mér stendur ekki á sama um þetta hrikalega sinnuleysi sem maður verður vitni að hjá Íslendingum. Það er eins og fólk ætli bara að fljóta, enn einu sinni, sofandi að feigðarósi . Mér er hreinlega illt af þessu öllu saman
Bestu kveðjur
Ásta B (IP-tala skráð) 19.9.2009 kl. 09:47
Maður má kannski ekki segja svona?
En ég elska þig
Þú stendur fyrir allt það sem að gott og siðlegt er í mannskepnunni.
Það vantar fleiri einstaklinga eins og þig til að gera samfélagið betra.
Haltu áfram því þú hefur heilmikil áhrif og margir sem að fylgjast með blogginu þínu og virða þig.
Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 19.9.2009 kl. 11:05
Ég vil bara taka undir orð Björns H. Björnssonar um að safna þurfi liði að nýju og mótmæla allri vitleysunni en um leið vil ég að við Íslendingar krefjumst þess að tekinn verði upp siður Svisslendinga um þjóðaratkvæðagreiðslu.
Birgitta Baldursdóttir, 19.9.2009 kl. 18:36
Matthías sagði ": "Ég get tekið undir með þér að Lára Hanna er ágætur bloggari, ef bloggara má kalla. Hún er náttúrulega fyrst og fremst í því að afrita efni annarra. Ég myndi eiginlega frekar kalla hana (ágætis)vefbókasafn."...
Ég verð að segja að ef þetta er hans einlæga meining má hann ekki sjálfur (..og ekki ég) vitna í "kirkjunar menn til dæmis" án þess að stimpla sig "vefbókasafn"...eða viltu kæri útskýra þig betur?
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 19.9.2009 kl. 23:56
Á meðan ég 'ezzga' þig & þinn málflutníng, þrátt fyrir að við höfum ekkert endilega verið zammála um margt frekar en zumt, þá ertu að gera góða hluti & þú gerir þá verulega vel.
Þú ~zúmmerar~ á mannamáli, ~jútjúbar~ líka meginatriðin í zagnfræðinni & þú átt allt það lof inni zem fólk hér mér á undan zkrifar. Einfalt mál, þú átt hrózið zkilið vinkona & ekki láta Matta litla fara undir zkinnið á þér, enda hanz höfuðzyndir faldar í hanz mali. Hann er í enda í zínu eðli & zínu zkinni, dáldið Vantrúaðari, greyið, en líklega líka ~beztazkinn~ við bein.
Steingrímur Helgason, 20.9.2009 kl. 01:03
Sumir eru bloggarar aðrir eru böggarar (nefnum engin nöfn), ég myndi flokka þig í fyrri hópinn.
Jóhanna Magnúsdóttir, 20.9.2009 kl. 10:52
Ég ætla að byrja á því að biðjast afsökunar á að koma svona seint inn í þessa umræðu, en það er það eina sem ég sé ástæðu til að biðjast asfsökunar á í þessu samhengi.
Ég get ekki neitað því að ég hef haft lúmskt gaman af því að vera svolítið milli tannanna á þessi hirð sem hér hefur látið í sér heyra. Ég hef t.d. verið kallaður gapuxi, auli og gúbbi auk þess sem á mig hefur verið borið að ég sé að reyna að þagga niður í einhverjum. Líklega Láru Hönnu.
Þessi umræða sem hér hefur farið fram skrifast að nokkru leyti á athugasemd sem ég gerði við veffærslu á vefriti JensGuðs. Til að öllu sé til haga haldið er rétt að geta þess að athugsemdir mínar voru tvær og hljóðaði sú fyrri svo: " Eins og fram hefur komið þá bráðvantar skilgreiningu á góðum "bloggara" og slæmum "bloggara". Ég er anzi hræddur um að margir, jafnvel flestir, detti í þá gryfju að kalla þá góða sem eru þeim sammála og slæma sem eru það ekki.
Reyndar fer því fjarri að ég sé yfirleitt nokkurn tíma sammála Láru Hönnu. Ég hef samt reynt að leggja hlutlaust mat á "bloggið" hennar og niðurstaða mín er sú að hún er arfaslakur "bloggari" hvers "blogg" einkennist iðulega þvílíkum fjölda myndbrota að minnir helzt á úrklippubók og textinn þar á milli óttalegt torf fullt af hnjóði og gýfuryrðum.
Hvað mig varðar þá segir þessi niðurstaða matsnefndar DV mér meira en margt annað um téða nefnd og gef ég því lítið fyrir þessa niðurstöðu.
Til þess að færa rök fyrir meintu hlutleysi mínu er mér ljúft að nefna að þó ég sé oft mjög ósammála Jennýu Önnu þá þykir mér hún meðal betri "bloggara".
Tek fram að mér er óljúft að rita orðin "blogg" og "bloggari". Vildi frekar sjá orðin vefrit og vefritari meira notuð. "
Í síðari athugasemd minni kom svo þessi málsgrein í lokin: "Ég get svo tekið undir með Matthíasi [Ásgeirssyni] að "blogg" Láru Hönnu er ekki eiginlegt "blogg". Það er frekar, eins og hann segir, nk. vefbókasafn.... þar sem allar bækurnar eru reyndar mjög á einn veg."
Ég er náttúrulega enginn vísindamaður á sviði vefrita og því tek ég kannske nokkuð stórt upp í mig með slíkum skigreiningum og virði eða misvirði það við mig hver sem vill eftir atvikum.
Það sem mér þykir áhugaverðast er í fyrsta lagi með hverskonar viðkvæmni landsfrægur vefritari, sem ekki hefur sparað mönnum (körlum og konum skammirnar) bregst við, að mínu mati meinleysislegri, athugasemd en ekki sízt hvernig viðbrögð hirðarinnar hafa verið. Lára Hanna er greinilega á stalli. Hún á sér hirð sem gætir þess að enginn hallmæli henni og er tilbúin að hugga hana og hughreysta þegar slíkt gerist. Og greinilega tilbúin að fordæma þá sem að henni "vega" án þess að kynna sér málið frekar. Að hafa skapað sér slíka persónudýrkun er einfaldlega aðdáunarvert, hversu jákvætt sem það kann að vera.
Ég endurtek þó að ég sé enga ástæðu til þess að biðjast afsökunar. Ég tel mig hafa fullan rétt á að taka þátt í umræðum sem þessum og tjá hug minn, jafnvel þótt ég tali ekki eins og pólitísk rétthugsun hirðarinnar býður.
Emil Örn Kristjánsson, 23.9.2009 kl. 16:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.