Rödd og raddleysi almennings

Hvað veldur því að almenningur á Íslandi hefur ekki hafið upp raust sína að neinu marki fyrr en nú? Ekki veitt stjórnvöldum hverju sinni nauðsynlegt aðhald, látið sér nægja að kjósa á fjögurra ára fresti, yppt öxlum þegar stjórnmálamenn svíkja kosningaloforð og ganga á bak orða sinna og sagt: "Þetta er bara svona" eða "þetta kusum við yfir okkur". Fólk Mótmæli á Austurvelli 24. janúar 2009hefur látið sukk með almannafé og spillingu yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust svo áratugum skiptir og ekki einu sinni refsað stjórnmálamönnum og -flokkum þegar það hafði þó tækifæri til.

Vantaði þennan vettvang fyrir fólk til að tjá sig sem undanfarið ár hefur blómstrað á netinu? Ég held að það sé nú ekki eina skýringin þótt hún vegi talsvert þungt. Velmegun hefur gert okkur löt og gagnrýnislaus, auk þess sem yfirvöld hafa alltaf verið dugleg við að kveða niður gagnrýnisraddir, haft til þess tækifæri og vettvang og sagt fólki að mótmæla eða samþykkja gjörninga þeirra með atkvæðinu eftir X mörg ár - fullviss um gullfiskaminni kjósenda. Þannig hafa yfirvöld getað farið sínu fram án teljandi fyrirstöðu.

Fjölmiðlar hafa líka spilað stórt hlutverk í gagnrýnisleysinu með því að krefjast ekki skýrari svara ráðamanna eða ganga á eftir málum og krefjast rökstuðnings og sannana. Hve oft hefur maður ekki séð blaða- eða fréttamenn taka viðtöl við ráðherra eða alþingismenn um mál sem augljóst er að fréttamaðurinn veit ekkert um og hefur ekki hundsvit á. Þar er jafnvel kornungt fólk á ferðinni, reynslulaust sem hefur hvorki þekkingu né burði til að ræða við þaulreynda stjórnmálamenn sem eru vanir að geta stungið upp í fólk með einföldum frösum. Enda er veruleiki íslenskra blaða- og fréttamanna sá, að þeir fá hvorki tíma né tækifæri til að kafa ofan í mál og gera þeim almennileg skil. Hvað þá að fylgja þeim eftir.

Þó er vert að geta þáttar Egils Helgasonar í að veita almenningi rödd í Silfrinu sínu á RÚV eftir hrun. Hann er einn af allt of fáum fjölmiðlamönnum sem hefur lagt sig fram við að bjóða hinum almenna borgara að tjá sig í ljósvakamiðlum sem eru því miður allt of einokaðir af stjórnmálamönnum og þeirra skotgrafahernaði. Svo er ég líka með pistla á Morgunvakt Rásar 2 - ef einhver skyldi hafa misst af því.  Wink

Það er líka athyglisvert að skoða viðbrögð fólks við því þegar "maðurinn af götunni" tekur sig til og gerir eitthvað - segir eitthvað - mótmælir - eða hefur frumkvæði að einhverju sem hingað til hefur talist til verkefna Borgarafundur í Háskólabíói 24. nóvember 2008sérstakra hópa í þjóðfélaginu. Það eru kannski stjórnmálamenn, fjölmiðlafólk eða einhverjir aðrir sem "eiga" sviðið og fólk er því ekki vant að almennir borgarar láti sig nokkru skipta hvað þar fer fram. Og mér virðist eins og fólki finnist að manni komi þetta bara ekki við - jafnvel þótt málefnin snerti líf okkar og framtíð afkomenda okkar. Undarlegt.

Gott dæmi um slíkt er bréfið sem nokkrir borgarar sendu til framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ég fjallaði um hér. Sagt var frá því samdægurs í nokkrum netmiðlum en síðan ekki söguna meir. Hvorki Fréttablaðið né Morgunblaðið minntust á þetta framtak í dag, hvorug sjónvarpsstöðin flutti fréttir af málinu og ég hef ekki orðið vör við að fjallað hafi verið um framtakið á útvarpsstöðvunum. Af hverju skil ég ekki. Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið gert í öðrum löndum þar sem AGS hefur haft viðkomu með sín umdeildu vinnubrögð svo mögulega er þetta í fyrsta sinn í sögunni sem hópur almennra borgara hefur beðið um fund með framkvæmdastjóra AGS.

Svo eru það viðbrögð hins almenna borgara við bréfinu. Sjá má sýnishorn við færsluna mína hér. "Það heimskulegasta sem ég hef lesið lengi" segir einn og líkir þessu við för framsóknarmanna til Noregs. Gerir ekki greinarmun á alþingismönnum og almenningi. Einn lesandi hefði heldur viljað að hópurinn skrifaði útrásardólgunum. Annar spyr hvort þetta sé "einhvers konar sjálfskipuð, ný ríkisstjórn". Enn annar virðist ekki hafa hugmynd um hvers konar fyrirbæri AGS er og heldur að sjóðurinn sé eins og notalegur tilsjónarmaður sem vilji okkur allt hið besta. Athyglisverð viðbrögð við frumkvæði almennra borgara sem láta sér ekki nægja þær skýringar sem þeim eru gefnar af valdhöfum. Í umfjöllun Eyjunnar má líka sjá viðbrögð fólks og athugasemdir. Mjög fróðleg lesning.

Þetta er orðinn ansi langur formáli að erindinu, sem er að vekja athygli á frumkvæði Gunnars Sigurðssonar, Lilju Skaftadóttur, Herberts Sveinbjörnssonar, Heiðu B. Heiðarsdóttur og fleiri sem vinna að athyglisverðri heimildamynd um efnahagsundrið á Íslandi og hrun þess. Myndin er gott dæmi um hverju venjulegt fólk - almenningur - getur áorkað með hugviti, dugnaði, samvinnu og hugsjón. Framtakið ætti að vera öðrum fyrirmynd og hvatning til að láta til sín taka á einhvern hátt. Taka þátt í að kryfja orsakir ástandsins og afleiðingar þess, sem og að móta framtíð okkar sjálfra og afkomenda okkar. Það er tími til kominn að hinn almenni borgari á Íslandi geri sér grein fyrir því hvers hann er megnugur - og að sameinuð sigrum við, hvað sem við er að etja.

Kastljós 3. nóvember 2009

Ég skrifaði pistil í byrjun ágúst um gerð myndarinnar og birti þar úrklippur úr viðtali Gunnars Sigurðssonar við þingmann breska Verkamannaflokksins, Austin Mitchell. Set það hér með til upprifjunar en tek fram að ég hef ekki hugmynd um hvað úr viðtalinu verður notað í myndinni - ef eitthvað.

Viðtalsbrot - Austin Mithcell, þingmaður breska Verkamannaflokksins

 

Að lokum er hér stikla fyrir myndina fyrir fólk sem vill dreifa henni

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Frábært framtak hjá þeim. Viðbrögð sumra landa okkar einkennast af minnimáttarkennd, beiskju og pínu hroka. Samt skiljanleg í ljósi þeirrar þöggunar og yfirdrepsskap sem viðgengs hefur í samfélaginu í áratugi. Stjórnmál voru og eru einkamál flokkana að þeirra mati. Þeir sem reyndu, eða höfðu aðra skoðun voru úthrópaðir af flokkunum sem undarlegir sérvitringar og jafnvel geðveikir. Ekki hleypt að enda fjölmiðlar gamla tímans í eigu flokkana. Barið var inn í þjóðarsálina að stjórnmálamenn og flokkar þeirra væru hinir einu og sönnu handhafar valdsins og vitsins. Annað væri fáránlegt. Óbreyttur alþýðumaður sem hafði skoðun og efasemdir var álitin vanviti, óhreinn, holdsveikur eða bilaður á geði.

Íslensk stjórnmál hafa ekki breyst. Þau einkennast af alvarlegum og langvinnum vitsmunabresti meðal stjórnmálamanna. Ekki þarf annað en skoða úrslit síðustu kosninga til að átta sig á því. Gunnar Sigurðsson orðaði þetta vel í kvöld þegar hann sagði að við íslendingar þyrftum að læra þá list að ræða saman, skiptast á skoðunum án þess að niðurlægja hvern annan um leið.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 4.11.2009 kl. 03:16

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég tek undir hvert orð hjá þér Lára Hanna. Fjölmiðlar hafa staðið sig hreint út sagt ömurlega, bæði í aðdraganda hrunsins og eins nú á þeim stórfurðulegu tímum þegar hatrömm barátta stendur yfir um þrotabúið Ísland, auðlindir þess og yfirráð. Alls konar uppdiktaður þvættingur er gagnrýnislaust borinn á borð, blaðamenn spyrja ekki óþægilegra spurninga og rannsóknarblaðamennsku skortir. Ég undanskil þó DV sem er eina dagblaðið sem mark er á takandi og þig sjálfa sem því miður nærð ekki til nægilega margra lesenda þó svo að síðan þín sé nokkuð vinsæl. Vonandi hlusta fleiri á pistlana þína á Morgunvaktinni.

Svo langar mig að benda þér og lesendum síðunnar á að Borgarahreyfingin er að ganga í endurnýjun lífdaga án alþingismanna og hefur tekið á leigu rúmgott húsnæði við Höfðatún 12. Þar er ætlunin að bjóða fram aðstöðu fyrir umbótasinnaða hópa, aðgerðarsinna og hvers konar andófsstarfsemi í anda stefnuskrár BH. Á fimmtudagskvöldið kl. 20 verður opinn félagsfundur í þessu óinnréttaða húsnæði til að velta upp hugmyndum og ræða mögulegar leiðir til að láta raddir okkar heyrast. Allir eru velkomnir, sjá nánar hér.

Sigurður Hrellir, 4.11.2009 kl. 11:18

3 identicon

Einsog konan sagði í þættinum um Rauðsokkur í gær - breytingarnar koma í öldum stundum litlum en það koma alltaf nýjar öldur

Annars var þessi þáttur í gær skólabókardæmi um þau vandmál sem  grasrótarhreyfingar þurfa við að glíma. t.d. hvor hafa ætti kennisetningar Maós eða Marx að leiðarljósi

Grímur (IP-tala skráð) 4.11.2009 kl. 12:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband