Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Sárabindi á blæðandi sálir

Það er einhver doði í þjóðinni eftir að nýja ríkisstjórnin tók við. Fólk andaði léttar, sem var gott, en baráttunni er engan veginn lokið - hvað allir athugi. Það er óralangt í land - og mikil vinna og aðhald fram undan. Ef við stöndum ekki vaktina verður allur árangur sem náðst hefur unninn fyrir gýg og allt fer í sama spillingar-, sukk- og sjálftökufarið og áður. Enda atvinnustjórnmálamenn komnir í sínar ómálefnalegu skotgrafir og byrjaðir að reyna að tryggja sér áframhaldandi setu við kjötkatlana. VARÚÐ!

Borgarafundur á Akureyri 8.2.09 - Ljósm.: Rakel SigurgeirsdóttirNú er rúmur mánuður síðan síðasti borgarafundur var haldinn í Háskólabíói, en það var 12. janúar. Síðan hafa verið haldnir borgarafundir á Selfossi og  Akureyri. Mig dauðlangaði að fara á fundinn á Akureyri fyrir viku en komst ekki. Hann fjallaði nefnilega um landráð. Eðalbloggarinn Rakel Sigurgeirsdóttir skrifaði ítarlega um fundinn hér og ég hnuplaði myndinni frá henni.

Ég hef ekki lesið lögin um landráð en orðið sjálft er nokkuð augljóst og orðabókin mín segir "brot gegn öryggi eða sjálfstæði ríkis út á við eða inn á við; föðurlandssvik". Ansi er ég hrædd um að við gætum nefnt fjölda manns sem þetta á við um - sem eru þá landráðamenn. En lagabókstafurinn skilgreinir þetta líklega nánar.

Ég komst heldur ekki á síðasta fund í Háskólabíói vegna veikinda og var miður mín yfir því. Þessir fundir, og laugardagsfundirnir á Austurvelli, eru nefnilega svo hollir fyrir sálina. Mér líður ekki vel, vægast sagt. Ég er kvíðin, reið, sár, dofin og hrædd... eiginlega skelfingu lostin, svo einhverjar tilfinningar séu nefndar. Mótmælafundirnir á Austurvelli og borgarafundirnir virka svolítið eins og sárabindi á blæðandi sálina. Mér líður alltaf betur á eftir. Þótt ég sé í eðli mínu einfari og rekist illa í hópum er svo gott að finna nærveru alls þessa fólks sem er í svipuðum sporum og maður sjálfur og líður eins, samkenndina og samstöðuna sem ríkir á þessum fundum. Finna styrkinn sem samstaða fjöldans skapar. Það er einstök upplifun sem enginn má missa af. Og það er ekkert mál að koma einn á þessa fundi. Það þarf ekki að hafa einhvern með sér og láta mætingu ráðast af því. Bara mæta og finna, að við erum þarna öll saman.

En mótmæla- og borgarafundir eru hreint ekki aðeins sárabindi á okkar blæðandi sálir. Þeir eru líka farvegur fróðleiks, upplýsinga og þrýstings á yfirvöld. Í kvöld klukkan átta verður haldinn 10. borgarafundurinn í Háskólabíói. Yfirskrift fundarins er Staðan - Stefnan - Framtíðin. Frummælendur eru Haraldur Líndal Haraldsson, hagfræðingur, sem var í Silfri Egils í gær - sjá Vettvang dagsins hér. Andrés Magnússon, geðlæknir, sem var í Silfrinu - sem oftar - t.d. hér. (Ég hef oft minnst á Andrés. Hann einn og sér er sárabindi á sálina). Þriðji frummælandinn er svo Aðalheiður Ámundadóttir, laganemi. Ég kannast því miður ekki við að eiga efni um hana.

Vonandi verður sjónvarpað og/eða útvarpað frá fundinum svo hin þrjúhundruðogeitthvaðþúsundin sem komast ekki geti fylgst með. Að minnsta kosti verður að taka upp og útvarpa eða sjónvarpa eftirá. Það er  algjört lágmark því þessir fundir eru fyrir alla þjóðina, ekki bara þá sem rúmast í Háskólabíói.

Ef þið viljið rifja upp síðasta fund í Háskólabíói er hann allur hér. Sjáumst!

Borgarafundur 16. febrúar 2009


Silfur dagsins

Þáttur dagsins var áhugaverður að venju og í þetta sinn fannst mér óvenjumikið koma út úr Vettvangi dagsins.

Vettvangur dagsins - Björn Þorri, Haraldur Líndal, Álfheiður og Árni
Styttri útgáfa af grein Haraldar er hér, lengri hér og bréf Björns hér.

 

Bogi Örn Emilsson og Magnús Björn Ólafsson
Mér fannst Magnús Björn frábær, ég vona að Egill standi við að fá hann aftur í þáttinn.
Hér er ræðan sem hann flutti á Austurvelli um daginn.

 

Stefán Einar Stefánsson, viðskiptasiðfræðingur - magnað

 

Auður Styrkársdóttir, stjórnmálafræðingur, með punkta um prófkjör

 

Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor í LHÍ, um myndræn byltingartákn
Athyglisvert - en halaklippt. RÚV hlýtur að laga þetta.

 


Ísland - Nýtt fólk og ný stefna

Grein eftir Robert Wade í Mogganum í dag. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Robert Wade - Mbl. 15.2.09


Niðurskurður óþarfur

Er þetta ekki ágæt lausn á niðurskurði í heilbrigðiskerfinu?

 


Fór þetta fram hjá nokkrum?

Austurvöllur í dag klukkan 15!

Smugan Smugan - Austurvöllur 14.2.09

Vísir

Vísir - Austurvöllur 14.2.09

Mbl

Mbl - Austurvöllur 14.2.09

DV

DV - Austurvöllur 14.2.09


Blaðamannaverðlaunin 2008

Mikið svakalega fylgist ég illa með! Hef ekki séð eða heyrt nema smábrot af þessu. Enda DV ekki selt hjá kaupmanninum á horninu mínu - að frumkvæði DV, ekki kaupmannsins. Og ég kaupi aldrei nein tímarit - nema Söguna alla.

En sú umfjöllun sem ég þekki af þessu sem hér er talið - Sigrún Davíðs, Þóra Kristín og RAX og Önundur Páll - eru vel að tilnefningunum komin. Ég bara get ekki tjáð mig um hina því ég þekki það ekki. En samt... mér finnst eitthvað vanta í þetta... En ykkur?

__________________________________________

Tilnefningar dómnefndar til Blaðamannaverðlauna 2008

Dómnefnd Blaðamannaverðlaunanna hefur komið sér saman um þrjár tilnefningar í hverjum af hinum þremur flokkum verðlaunanna. Á laugardaginn eftir viku, þann 21. febrúar verður síðan tilkynnt um hverjir verðlaunahafarnir eru í hinum einstöku flokkum, en einn hinna tilnefndu í hverjum flokki fær verðlaunin.

Tilnefningar dómnefndar eru þessar:

Blaðamannaverðlaun ársins 2008
Jóhann Hauksson, DV, fyrir fréttaskrif og umfjöllun um mikilvæg þjóðfélagsmál sem báru vitni um mikil tengsl, reynslu og skilning, og voru iðulega fyrstu fréttum af málum. Dæmi um slíkt voru skrif Jóhanns um samkomulag íslenskra stjórnvalda og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Sigrún Davíðsdóttir, RÚV -Spegillinn, fyrir pistla þar sem nýjum hliðum á fjölmörgum málum - m.a. í tengslum við bankahrunið og áhrif þess erlendis - var velt upp og þau sett í nýtt og upplýsandi samhengi.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, mbl.is, fyrir vandaðar fréttir á mbl.is  þar sem hún nálgaðist frumlega málefni líðandi stundar og netmiðillinn var nýttur með nýjum hætti í íslenskri fjölmiðlun.

Rannsóknarblaðamennska ársins 2008
Atli Már Gylfason og Trausti Hafsteinsson, DV, fyrir ítarlega og afhjúpandi umfjöllun um kynþáttafordóma meðal ungs fólks á Suðurnesjum og margvísleg áhrif þeirra.

Brynjólfur Þór Guðmundsson og Erla Hlynsdóttir, DV, fyrir ítarleg og samfelld skrif og greiningu á eftirlaunum ráðamanna og áhrifum eftirlaunafrumvarpsins.

Sigurjón M. Egilsson, Mannlíf og Bylgjan, fyrir vandaðar og ítarlegar greinar um íslenskt efnahagsástand í Mannlífi, þar sem mál voru krufin með ítarlegri hætti en títt er í íslenskum fjölmiðlum. Samhliða stýrði Sigurjón útvarsþætti á Bylgjunni, þar sem íslensk þjóðmál voru í brennidepli.

Besta umfjöllun ársins 2008
Baldur Arnarson, Morgunblaðið, fyrir greinaflokkinn Ný staða í norðri, þar sem farið var yfir þær náttúrufarslegu, efnahagslegu, félagslegu og pólitísku breytingar, sem hlýnun andrúmslofts og breytt staða á norðurslóðum hefur í för með sér.

Brjánn Jónasson, Fréttablaðið, fyrir upplýsandi og vel fram sett skrif um framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þar sem fjallað var um málið og aðdraganda þess.

Ragnar Axelsson og Önundur Páll Ragnarsson, Morgunblaðið, fyrir umfjöllun um virkjunarkosti á Íslandi. Þar voru dregnir fram með öflugri samvinnu texta og mynda kostir og gallar hvers virkjunarkosts um sig og málið sett í skipulagt samhengi.


Niðurlæging á heimsmælikvarða

Ég veit ekki hvort ég get lýst því hvernig mér leið þegar ég horfði á Geir Haarde verða sjálfum sér og þjóðinni til háborinnar skammar í HARDtalk á BBC sem sýnt var á RÚV í gærkvöldi. Ég sökk alltaf neðar og neðar í sófanum, axlirnar voru komnar upp á hvirfil, ég greip um höfuðið, fékk hvern aulahrollinn á fætur öðrum, gnísti tönnum og reif kjaft við sjónvarpið - upphátt. Mikið ofboðslega skammaðist ég mín fyrir manninn.

Spyrillinn var greinilega mjög vel upplýstur og undirbúinn og reyndi að fá Geir til að svara af einhverju viti, sæmilegri skynsemi og ekki síst ærlega - en án árangurs. Allir sem fylgst hafa með atburðunum hér vita hve málflutningur Geirs var fáránlegur. Það vissi spyrjandinn greinilega líka en fékk ekki sannleikann upp úr honum hvað sem hann reyndi. Samt virkaði viðtalið eins og ærleg rassskelling.

Og ekki fannst Geir nein ástæða til að biðjast afsökunar á einu eða neinu og kenndi öllu öðru um en sér og sínum verkum sem fjármála- og forsætisráðherra. Þetta viðtal var hörmuleg upplifun og þótt ég sé búin að heyra þetta síðan í gærmorgun á ég erfitt með að trúa því: Geir Haarde, forsætisráðherra Íslendinga þar til fyrir hálfum mánuði, talaði aldrei við Brown eftir að Bretar beittu hryðjuverkalögunum! Hvernig er hægt að haga sér svona? Hvernig getur leiðtogi þjóðar leyft sér slíkt aðgerðarleysi á ögurstundu? Ég er kjaftstopp.

Hægt er að taka nánast allt sem Geir segir og rífa það í tætlur. Gjörið svo vel - í boði hússins:

Fyrir rúmum hálfum mánuði, eða 28. janúar, var Geir í öðru viðtali á BBC - hjá Jeremy Paxman í Newsnight. Það var því miður örstutt svo Paxman fékk ekki tækifæri til að þjarma almennilega að Geir. Paxman er nefnilega þekktur fyrir að sýna viðmælendum sínum enga miskunn enda er fyrsta spurning hans til Geirs: "What's it like to take a country to bankruptcy?". Í sama þætti ræddi Paxman líka við Stephen Timms og Joseph Stiglitz. Hér er allur þátturinn...

...og hér er útklippt viðtalið við Geir.


Ísland peningaþvottastöð Rússa?

Viðtal Jeffs Randall við Boris Berezovsky á Sky fréttastöðinni í kvöld var athyglisvert. Þar staðfestir auðjöfurinn og útlaginn Berezovsky þann þráláta orðróm að illa fengið fé frá Rússneskum ólígörkum hafi farið í gegnum Ísland í fjárbað áður en fjárfest var með því m.a. í Bretlandi. Þetta mun hafa verið "opinbert leyndarmál" í fjármálaheiminum víða í Evrópu árum saman. Ekki lagast orðspor Íslendinga.

Nú verða íslensk yfirvöld að bretta upp ermar, fjölga verulega í efnahagsbrotadeildinni og hvar sem þarf annars staðar og rannsaka málið ofan í kjölinn. Það getur ekki verið að þetta verði liðið. Og hvað gera íslenskir fjölmiðlar í málinu? Er einhver alvöru rannsóknarblaða/fréttamennska í gangi? Við bíðum spennt...

Hér er viðtalið við Berezovsky á Sky

 

Og umfjöllun Eyjunnar áðan

Rússar nota Ísland fyrir peningaþvætti - Eyjan 12.2.09


Man einhver eftir þessu?

Fyrst var það lauflétt æfing á unisex-klósettinu.

Síðan alvaran á barnum.


Fróðlegt innlit á þingpalla

Ég gerði mér ferð á þingpalla Alþingis í dag. Kom inn þar sem "umræða um störf þingsins" var nýhafin. Og þvílíkt bull og blaður. Þetta fólk sem þarna situr er aldeilis ekki að leysa vandamál þjóðarinnar þótt við séum að borga þeim laun fyrir það. Það er að karpa og kveina og kjafta um ekki neitt og eyða tíma bæði sínum og okkar í vitleysu. Meira um það seinna.

Hér er sýnishorn af ótrúlegri "ræðu" sem mér heyrðist helst einkennast af annars vegar fullkomnum skorti á málefnalegri rökhugsun og hins vegar af einhverjum innanhússhúmor sem ég botnaði ekkert í. En þingmenn hlógu dátt og skemmtu sér - á okkar kostnað, hvernig sem á það er litið.

Þetta var ræða dagsins að mínu mati. Hún var sú síðasta í "umræðu um störf þingsins" og sú eina sem ég heyrði í þeirri umræðu sem eitthvað vit var í. Ræðukonan er Ragnheiður Ólafsdóttir, sem kom inn á þing í gær fyrir Guðjón Arnar hinn Frjálslynda. Ég var svo innilega sammála Ragnheiði að ég klappaði í lok ræðunnar. Eftir að verða vitni að endalausum og fáránlegum frammíköllum þingmanna sem minntu helst á hegðun unglinga á gelgjuskeiði fannst mér undarleg augnatillitin sem mér voru send úr þingsal fyrir klappið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband