Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Bretarnir rannsaka málin

Kastljósið er komið úr fríinu og var fullt af allskonar efni. Ég hjó sérstaklega eftir þessum búti úr viðtalinu við Rowenu Mason, blaðakonu hjá Daily Telegraph.

Svo birtist þetta á vef blaðsins fyrr í kvöld. Efnahagsbrotadeild Breta, Serious Fraud Office (SFO) er að rannsaka íslensku bankana og Kaupþingslekinn veldur því að deildin ætlar að gefa í.

SFO investigation - Daily Telegraph 4.8.09

Efnahagsbrot eru litin alvarlegri augum í Bretlandi en á Íslandi eins og hefur komið margoft fram í pistlum Sigrúnar Davíðsdóttur - t.d. þessum. Svo er ekki úr vegi að lesa (og hlusta á) þennan pistil Sigrúnar þar sem hún fjallar einmitt um SFO og segir frá fjársvikum Allen Stanford. Í lánabók Kaupþings er annar Stanford, Kevin, stór þánþegi Kaupþings í Lúx. Kevin þessi Stanford er annar stofnenda Karen Millen verslanakeðjunnar og tengist því Baugi og Jóni Ásgeiri a.m.k. í þeim bransa.

Stórlánabók Kaupþings - Kevin Stanford


Að ræna banka og rýja þjóð

"Bankaránið" í Kaupþingi er orðið eitt þekktasta mál hrunsins, þökk sé lögbannskröfu Nýja Kaupþings og skilanefndar þess gamla á fréttaflutning RÚV. Vonandi láta aðrir bankar - og útrásarauðmenn - þetta mál sér að kenningu verða. Hin svæsna lánabók Kaupþings er líklega orðin ein mest lesna bók ársins, a.m.k. sú víðlesnasta, enda á alþjóðlegu tungumáli.

Ég minnist þess ekki að hafa orðið vör við eins mikla samstöðu meðal almennings út af neinu máli - ef frá er talin gríðarleg ánægja með grein Evu Joly sem birtist í íslenskum og erlendum blöðum. Allir lögðust á eitt við að birta slóðir og upplýsingar á bloggi, Facebook, Twitter og víðar. Og senda slóðirnar til erlendra fjölmiðla og skrifa um málið á ýmsum tungum. Enda hefur fiskisagan flogið hraðar og víðar en aðrar sögur, sem betur fer. Svona á að gera þetta, gott fólk! Sameinuð sigrum við. Og Kaupþing dró í land, enda ekki stætt á öðru.

Þegar ég sá forsíðu þýsku útgáfu Financial Times með fyrirsögninni "Eigendur rændu Kaupþing" varð mér hugsað til Williams Black, sem heimsótti Ísland í maí sl. Ég birti viðtal við hann úr bandarískum fjölmiðli hér sem eins konar inngang að viðtali Egils við hann í Silfrinu. William Black skrifaði nefnilega bók sem heitir "Besta leiðin til að ræna banka er að eiga hann". Við vitum nú að það er hverju orði sannara.

Mér finnst ekki úr vegi að minna á viðtalið við William Black eftir hremmingar og uppljóstranir síðustu daga og vikur. Hér er hann hjá Agli í Silfrinu 10. maí sl. Nú ættu allir að geta tengt það sem Black segir við Kaupþingsatburðina undanfarna daga og verið viðbúnir birtingu lánabóka hinna bankanna.

 

Hér er stutt frétt RÚV sama kvöld um viðtalið í Silfrinu.

 

Black hélt síðan fyrirlestur í Háskóla Íslands daginn eftir. Ég fékk upptöku af honum hjá Viðskiptadeild HÍ - en hef ekki birt hana áður. Yfirskrift fyrirlestrarins var "Why economists must embrace the "F" word" og vísar F-ið í orðið Fraud, eða (fjár)svik. Sökum lengdar skipti ég upptökunni í tvennt.

William Black - fyrirlestur á vegum Viðskiptadeildar HÍ - 11. maí 2009
Fyrri hluti

Seinni hluti


Auglýst eftir samverkafólki

Í nýlegri athugasemd (nr. 49) við þennan pistil auglýsir Ævar Rafn Kjartansson eftir samverkafólki til að kortleggja ættar-, flokks-, vina- og klíkutengsl samfélagsins og gefa út. Ég vil skora á þá sem vilja og geta lagt sitt af mörkum að hafa samband við Ævar Rafn og drífa í þessu. Getið þið ímyndað ykkur hvað það væri þægilegt að hafa svona rit við hendina þegar atburðir gerast til að fletta upp í? Sjálf er ég ekki mjög fróð um svona tengsl og lítið pælt í þeim - en hef þó verið á námskeiði í vetur eins og aðrir landsmenn.

Í þessu sambandi minni ég á orð Jóns Baldvins í Silfrinu 19. október þar sem hann sagði þetta:


Við vitum að þetta er satt og rétt hjá Jóni Baldvin og það myndi auðvelda mjög að greina alls kyns spillingu ef svona rit væri til. Ég hef sent Ævari Rafni skilaboð og beðið um netfangið hans og set það hér inn um leið og það berst mér.

Netfangið er komið - sendið póst á hrun2008@gmail.com! Hugmyndin er frábær, samtaka nú!


DV og kúlulán Kaupþings

Ég má til með að halda því til haga að DV hefur talsvert fjallað um lánabók Kaupþings - án þess að fá á sig lögbann - og þá einkum kúlulán til starfsmanna. Þetta er mögnuð lesning. Hér fyrir neðan eru fjögur dæmi um umfjöllun DV. Þarna koma ýmsir við sögu sem vert er að skoða nánar. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

DV 4. nóvember 2008

DV 4. nóvember 2008 - Við eigum þó allavega húsið

DV 30. júní 2009

DV 30. júní 2009 - Kúlulán Kristjáns 893 milljónir

DV 1. júlí 2009

DV 1. júlí 2009 - Stjórarnir tóku fimm milljarða án ábyrgðar

DV 3. júlí 2009

DV 3. júlí 2009 - Fókið í lánabók Kaupþings - Listinn allur


Mergjað kjaftæði

Við fengum staðfest áðan að hér ríkir ekki upplýsinga-, mál- eða tjáningarfrelsi og fjölmiðlar eru múlbundnir af hagsmunaaðilum ef þeim þykir ástæða til. Yfirlýsing Kaupþings er með ólíkindum. Þar segir m.a.: "Nýja Kaupþing og skilanefnd Kaupþings leggja áherslu á að með þessum aðgerðum séu bankarnir að bregðast við skyldum sínum til að tryggja trúnað við viðskiptavini sína og koma í veg fyrir að óviðkomandi hafi aðgang að upplýsingum um viðskipti þeirra..."

Trúnað við viðskiptavini, jamm. Trúnaður þeirra við Ólaf Ólafsson, Bakkabræður, Jón Ásgeir, Robert Tchenguiz og fleiri slíka er semsagt meiri og mikilsmetnari en trúnaður við íslenskan almenning. Og mér finnst ekki úr vegi að spyrja hvaða peninga var verið að höndla með og útbýta til valinna viðskiptavina og eigenda bankans. Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld kom fram að tíu hæstu lánin voru tæplega þreföld fjárlög ríkissjóðs, hvorki meira né minna.

En hvaða peningar voru þetta? Hvaðan komu þeir og ekki síst - hvert fóru þeir? Og hve stór hluti af gjaldþroti gamla Kaupþings eru þessi lán? Hver þarf að borga brúsann? Hvaða eignir íslensku þjóðarinnar þarf að leggja að veði til að friða kröfuhafa í þrotabú bankans? Hvað þarf íslenskur almenningur að þola t.d. í formi niðurskurðar og skattahækkana vegna græðgi, sukks og spillingar þessara eðalviðskiptavina og eigenda Kaupþings? Í yfirlýsingu Kaupþings frá í gær segir: "Nýja Kaupþing og skilanefnd Kaupþings telja að upplýsingar um viðskiptavini Kaupþings eigi ekki erindi til almennings..." Þetta er mergjað kjaftæði. Auðvitað eiga þessar upplýsingar erindi til almennings! Er það ekki sá sami almenningur sem situr uppi með efnahagslegt hrun landsins sem einmitt þessir viðskiptavinir ollu - ásamt ýmsrum öðrum? Það hefði ég haldið.

Ég vil ítreka áskorun mína til netmiðla og bloggara frá síðasta pistli um að allir sem tök hafa á birti sem mest af þessu á netinu - á bloggsíðum, netmiðlum, Facebook, Twitter og hvað þetta heitir allt saman. Eða slóðir að umfjöllun ef ekki vill betur til. Allir saman nú! Látum Kaupþing hafa fyrir því að krefjast lögbanns á alla netverja ef því er að skipta. Með því móti leggjum við okkar af mörkum til að mótmæla þeirri þöggun sem nú hefur verið samþykkt af embætti Sýslumanns. Ég hengi eintak af lánabókinni aftur neðst í þessa færslu og ítreka slóðina að WikiLeaks.

Fréttir RÚV - 1. ágúst 2009

 

Fréttir Stöðvar 2 - 1. ágúst 2009

 

Viðbót:  Kannski kemur þetta málinu ekkert við, en er ekki beint traustvekjandi og vægast sagt umhugsunarvert. Ég var að fá upplýsingar - og kannaði þær nánar - að tengsl eru milli Sýslumannsins í Reykjavík og Kaupþings. Sýslumaður er Rúnar Guðjónsson (f. 1940). Rúnar var sýslumaður í Borgarnesi og rótarýfélagi Ólafs, föður Ólafs Ólafssonar. Sonur Rúnars er Frosti Reyr Rúnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar Kaupþings. Eins og sjá má t.d. hér og hér var Frosti Reyr einn af kúlulánþegum Kaupþings.

Annar sonur Rúnars er Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja. Búið er að loka vef samtakanna, að því er virðist, og ég finn þau ekki í símaskránni. En lauflétt gúgl leiðir ýmislegt í ljós, m.a. að þessi samtök virðast hafa gengið einna lengst í að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef eins og sjá má t.d. hér og hér. Gúglið leiðir ýmislegt fleira í ljós um samtökin, eins og t.d. þetta.

Ég fékk upplýsingar á fésinu rétt í þessu um að samtökin heiti nú Samtök fjármálafyrirtækja. Guðjón er ennþá framkvæmdastjóri - og kíkið á hverjir eru í stjórninni.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband