28.4.2008
Takið þátt í að velja um Gjábakkaveg!
Á blaðsíðu 6 í sunnudagsblaði Morgunblaðsins er sagt frá nýstárlegri netkosningu sem Landvernd gengst fyrir í samvinnu við Lýðræðissetrið, Morgunblaðið og mbl.is.
Hér er verið að fjalla um og ráðskast með helgasta stað þjóðarinnar, Þingvelli, svo það liggur beint við að allir taki þátt í netkosningunni. Látum rödd okkar heyrast fyrst okkur er veitt tækifæri til þess.
Kosningin hefst í dag, mánudaginn 28. apríl, og stendur yfir í eina viku. Hægt er að kjósa á sérstökum kosningavef Landverndar og verður tengill á hann settur inn á forsíðu mbl.is undir fyrirsögninni "Nýtt".
Kynnið ykkur málið vandlega. Morgunblaðsgreinin er hér fyrir neðan.
Gjábakkavegsskýrsla Landverndar er hér og greinargerðin hér.
Slóð á kosningavefinn sjálfan og nánari upplýsingar hér.
Slóð á frétt Landverndar er hér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
26.4.2008
Bréf til Láru - frá Hveragerði
Ég skrifaði um Hveragerði í síðasta pistli. Um að verið væri að stofna lífsgæðum og heilsu Hvergerðinga og annarra íbúa Suðvesturlands í hættu með því að dæla eiturefninu brennisteinsvetni út í andrúmsloftið í áður óþekktu magni í þágu virkjana og stóriðju. Eins og ég nefndi í pistlinum var minnst á fjölmargt annað á fundinum í Hveragerði - brennisteinsvetnismengun er aðeins eitt af mörgum atriðum sem spurt var um og gerðar athugasemdir við. Viðbrögðin við pistlinum hafa verið mikil og enn og aftur hef ég fengið tölvupóst og upphringingar frá óttaslegnu fólki sem líst ekki á blikuna.
Í dag fékk ég svo tölvupóst frá Hvergerðingi sem var á íbúafundinum á mánudagskvöldið. Hann sendi einnig fallegar myndir af fossum sem prýða útivistarsvæðið ofan Hveragerðis, hann kallar þá fossana okkar. Ég sá ástæðu til að biðja hann um leyfi til að birta skrifin og myndirnar því hér kemur svo glögglega í ljós hve almenningur er mótfallinn því að láta hrekja sig í burtu frá náttúrunni, þangað sem fólk hefur árum og áratugum saman leitað sér hvíldar og skjóls frá amstri hvunndagsins til að endurnæra sál og líkama.
En hér er bréfið:
Heil og sæl Lára Hanna, Ármann Ægir Magnússon heiti ég og hef átt heima í Hveragerði lengi.
Ég var á fundinum með OR í Grunnskóla Hveragerðis á dögunum. Á fundinum kom ég inn á vistkerfi Varmár. Hún er dragá sem getur orðið mjög lítil og heit en vaxið gífurlega í vorleysingum og rigningum.
Vármá mynda aðallega fjórar smærri ár, þ.e. Sauðá, Grændalsá, Reykjadalsá og sú lengsta, Hengladalaá. Þær tvær síðastnefndu eru líklega vatnsmestar. Í Hengladalaá fyrir ofan Svartagljúfursfoss er urriði og lífverur sem hann nærist á, á meðan lækur rennur.
Í Djúpagili er Reykjadalsáin á um tveggja kílómetra kafla en þar er urriði sem er þar á milli fossana Fossdalafoss og Djúpagilsfoss hann lifir oft í ótrúlega litlu vatni og heitu. Urriðinn í þessum ám gengur niður árnar en kemst ekki upp fossana.
Þetta varnakerfi er stór hluti af vatna- og lífkerfi Ölfusfora. Í öllum ánum fjórum hefur verið straumönd sem fer með unga sína niður árnar þegar líður á sumarið.

Ég hef gengið oft um þetta svæði og tel mig þekkja það afar vel. Ég er sannfærður um að klórslysið er bara brotabrot af því sem Bitruvirkjun getur valdið, eða hefur nú þegar valdið á þessu svæði. Varmáin er okkur Hvergerðingum afar kær og því höfum við varið hundruðum milljóna í að hreinsa hana og verja.
Ég veit ekki til að Sveitafélagið Ölfus hafi varið krónu til að verja þetta mikla vatnakerfi okkar heldur leyft byggðakjarna sem notast við venjulegar rotþrær, fremur en að tengjast og taka þátt í hreinsistöð og verndarstarfi okkar.

Ég er ekki menntaður líffræðingur eða vatnalíffræðingur. Ég held að það sé afar brýnt að kalla eftir raunverulegum rannsóknum fræðimanna á þessu sviði. Rannsóknir sem Ingólfur minntist á voru rannsóknir á grunnvatnsstraumum sem náðu frá þessu svæði allt til Esju og Reykjaness. Það sjá það allir sem vilja að þetta geta ekki talist nákvæmar rannsóknir á vatnafari eða vistkerfi umhverfis Bitruvirkjun, Varmá eða áhrif á Ölfusforir. Ég er undrandi á að ekki hafi komið fram slíkar rannsóknir sem hljóta að vera til í einhverjum mæli. Ef ekki, þá hefur orðið slys á svæðinu nú þegar.
Ég hef gengið oft eftir þessum ám og um virkjanasvæði Bitru. Það verður að segjast eins og er að vegna allra framkvæmdanna á Hellisheiði hefur varla verið vært á svæðinu alla daga vikunnar, því hefur ferðum mínum á svæðið fækkað.
Ég sendi þér nokkrar myndir af fossunum okkar. Þetta eru Reykjafoss, Fossdalafoss, Djúpagilsfoss, Djúpagilsfoss í þurrkatíð og foss neðarlega í Hengladalaá. Þar fyrir innan er Svartagljúfursfoss.
Með kærri þökk fyrir baráttu þína, Lára Hanna.
Nú þurfa allir að leggjast á árarnar.
Ármann Ægir Magnússon,
íbúi í Hveragerði
Já, nú þurfa svo sannarlega allir að leggjast á árarnar og hindra þann gjörning sem fyrirhugaður er með Bitruvirkjun. Í öðrum pósti sem Ármann Ægir sendi mér segist hann ekki vera á móti öllum virkjunum, en að þarna sé ekki verið að virkja rétt. Ég er heldur ekki á móti öllum virkjunum. Eins og ég sagði í þessum pistli er skynsamleg og hófstillt nýting auðlinda nauðsynleg.
En það er alls ekki sama hvar virkjað er, hvernig, til hvers og hverju er fórnað í þágu hverra.
Bloggar | Breytt 27.4.2008 kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
23.4.2008
Stundum er erfitt að halda ró sinni...
...og höggva ekki mann og annan. Stundum langar mig að hrista fólk, taka á því eins og óknyttastrákum eða -stelpum og lesa því pistilinn ómengaðan. Stundum langar mig að vera einræðisherra á Íslandi og taka til hendinni, henda rusli og sópa úr skúmaskotum. En það er draumsýn og eina leiðin sem virðist fær er að reyna að nota mátt orðanna. En mig þekkja fáir og enn færri hlusta á mig. Þótt ég þoli ekki athygli vildi ég stundum óska þess að vera fræg. Ef ég væri fræg myndu fjölmiðlar kannski hlaupa upp til handa og fóta þegar ég munda lyklaborðið, taka við mig djúpvitur viðtöl og allir myndu hlusta í mikilli andakt. Annað eins hefur nú gerst þegar fræga fólkið tjáir sig. En ég er ekki fræg og fáir hlusta. Því miður. Ég auglýsi hér með eftir frægu fólki til að tala máli mínu. Það er sama hvaðan gott kemur - en hér ætla ég að láta vaða og taka stórt upp í mig.
Ég fór á íbúafund í Hveragerði á mánudagskvöldið, þar var verið að fjalla um málefni sem ég hef mikinn áhuga á, fyrirhugaða Bitruvirkjun við Ölkelduháls og möguleg áhrif hennar á lífsgæði og heilsu Hvergerðinga. Reyndar á alla íbúa suðvesturhornsins, en Hvergerðingar eru næstir svæðinu. Salurinn var fullur út úr dyrum, um 100 manns mættu og það var spenna í loftinu. Augljóst að málið hvílir þungt á Hvergerðingum - skiljanlega. Það á nefnilega að eitra fyrir þeim og þeir geta enga björg sér veitt. Lesið pistil bæjarstjóra Hvergerðinga um fundinn hér.
Það væri allt of langt mál að tíunda allt sem gerðist á fundinum, en þarna voru þrír frummælendur - frá Orkuveitunni, Hveragerði og Landvernd. Fulltrúi Orkuveitunnar virtist hálfþreyttur, áhugalítill og var lítt sannfærandi, bæði í pistli sínum og þegar hann svaraði hinum fjölmörgu fyrirspurnum sem beint var til hans frá fundargestum. Mín tilfinning var sú að honum fyndist þetta óþarfa bögg og afskiptasemi. Okkur kæmi þetta ekkert við.
Um daginn var ég byrjuð að skrifa pistil um brennisteinsvetni, búin að afla mér heimilda um víðan völl og lesa mér til, en forgangsröðin breyttist stöðugt og alltaf frestuðust pistilskrifin. Nú er ég komin á þá skoðun að best sé að einfalda umfjöllunina og vera ekkert að flækja málið. En ég tek skýrt fram að þetta er miklu flóknara mál en hér kemur fram og langt í frá að ég viti eða skilji allt sem hægt er um efnið. En ég skil samt ýmislegt.
Í Wikipediu stendur þetta: "Brennisteinsvetni eða vetnissúlfíð (H2S) er litlaus, eitruð gastegund. Megn lykt er af brennisteinsvetni þó magn þess sé lítið í andrúmsloftinu, það er brennisteinsvetni sem veldur lykt af fúleggjum og jöklafýlu sem gjarnan fylgir hlaupum í jökulsám. Lyktin hverfur hins vegar þegar styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti eykst og það verður lífshættulegt. Það eykur einnig á hættu að brennisteinsvetni er þyngra en andrúmsloftið og getur því lagst í dældir eða safnast fyrir í botnum á geymum og tönkum..." Þar segir ennfremur: "Um 10% af losun á H2S í heiminum er af mannavöldum. Í iðnaði er það einkum í olíuhreinsunarstöðvum. H2S finnst þar sem brennisteinn kemst í samband við lífrænt efni, sérstaklega ef um er að ræða hátt hitastig." Læt þetta nægja í bili en slóðin á þennan og meiri fróðleik er hér.
Semsagt... prumpufýlan sem maður finnur þegar farið er fram hjá t.d. skíðaskálanum í Hveradölum og víðar er brennisteinsvetni að kenna. Líka sú sem við finnum þegar við skrúfum frá heita vatninu í krananum hjá okkur - eftir því hvar við búum. Við erum vön þessari lykt, höfum alist upp við hana og finnst hún bara frekar fyndin. Erlendir gestir hafa gjarnan orð á lyktinni því hún er þeim framandi. En þótt brennisteinsvetni sé eitur er það ekki alvont efni. Það gerir sitt gagn í náttúrunni og jafnvel fyrir mannslíkamann - í hóflegu, náttúrulegu magni.
Við erum nú með fjórar jarðhitavirkjanir (samheiti mitt yfir jarðgufu- og jarðvarmavirkjanir sem eru ólíks eðlis) á suðvesturhorni landsins. Svartsengi og Reykjanesvirkjun á Reykjanesi, Nesjavallavirkjun við Þingvallavatn og hina nýju Hellisheiðarvirkjun við rætur Hellisheiðar. Allar losa þær gríðarlegt magn af brennisteinsvetni út í andrúmsloftið, vitanlega umfram allt sem náttúrulegt getur talist. Reykvíkingar eru þegar farnir að finna fyrir útblæstrinum úr Nesjavalla- og Hellisheiðarvirkjunum. Fólk í eystri byggðum Reykjavíkur finnur fyrir áhrifum hans á augu, lungu og öndunarfæri. Bloggvinkona mín, Lilja Guðrún, skrifaði fínan pistil um barnabörnin sín og sjálfa sig í andnauð og kenndi um svifryki af völdum nagladekkja. Fleiri taka undir og lýsa sinni reynslu, sumir eflaust í austurhluta borgarinnar. Það er örugglega alveg rétt að svifryk eigi sinn þátt í andnauðinni, en gætu þessi áhrif á öndunarfærin verið í bland frá brennisteinsvetni? Spyr sú sem ekki veit.
Í tónlistarspilarann ofarlega vinstra megin á þessari síðu eru, auk fréttaumfjöllunar um fundinn í Hveragerði, tveir pistlar úr Speglinum frá í nóvember. Í öðrum er talað við Þorstein Jóhannsson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun og í hinum Sigurð Þór Sigurðarson, lækni og sérfræðing í lungna-, atvinnu og umhverfissjúkdómum. Báðir fjalla um hættuna sem getur skapast af of miklu brennisteinsvetni í andrúmsloftinu. Hlustið á þá.
Styrkur brennisteinsvetnis í Reykjavík er aðeins mældur á Grensás. Það er nú því sem næst í miðri Reykjavík. Engir mælar eru austar og nær Hellisheiðarvirkjun þar sem tugþúsundir búa. Enginn mælir er í Hveragerði. Eins og fram kemur í máli Þorsteins er styrkurinn ekki orðinn mikill ennþá, en langtímaáhrif af litlum styrk eru ekki þekkt, hvað þá af miklum styrk. Þorsteinn segir einnig að það sé alls ekki sjálfgefið að fólk stundi útivist nálægt blásandi borholum. Í máli Þorsteins kemur fram að hægt sé að hreinsa útblástur brennisteinsvetnis frá virkjununum. Upphaflega stóð ekki til hjá Orkuveitu Reykjavíkur að hreinsa hann, en nú hafa þeir vent kvæði sínu í kross og segjast ætla að hreinsa útblásturinn.
Á því loforði Orkuveitu Reykjavíkur eru þrír stórkostlegir gallar. Í fyrsta lagi sá, að þeir þurfa þess ekki og það er kostnaðarsamt. Engin lög ná yfir takmörkun á losun brennisteinsvetnis út í andrúmsloftið. Því verður að breyta. Í öðru lagi kom greinilega fram í máli fulltrúa OR á fundinum í Hveragerði að hreinsun brennisteinsvetnisins er á tilraunastigi. Þeir vita semsagt ekki ennþá hvort það tekst og hafa ekki prófað aðferðina sem þeir hyggjast nota. Samt á að virkja og treysta á guð og lukkuna. Í þriðja lagi kom líka fram að brennisteinsvetni verður ekki hreinsað úr útblæstri neinna borhola á framkvæmdatímanum - það eru mörg ár og fjölmargar holur. Aldrei verður heldur hreinsaður útblástur úr holum sem þarf stöðugt að bora og láta "blása", eins og þeir orða það (ég kann ekki tækniskýringu á því).
Á fundinum í Hveragerði kom fram að suð-austasta borholan á áætluðu virkjanasvæði Bitruvirkjunar er aðeins 4.560 metra frá efstu húsunum í Hveragerði. Bitruvirkjun yrði í um 4 ár í byggingu og allan þann tíma myndu borholur spúa eitri yfir Hvergerðinga og aðra íbúa suðvesturhornsins, því ekki verður hreinsað á framkvæmdatíma. Svo verða um 3 holur látnar blása í einu, óhreinsaðar, næstu áratugina - ef ég skil þetta rétt - og spúa meira brennisteinsvetni yfir okkur. Miðað við orð Þorsteins og Sigurðar í Spegilsviðtölunum og óvissuna um langtímaáhrif brennisteinsvetnis í andrúmloftinu, jafnvel í litlu magni, geta t.d. astma-, lungna- og öndunarfærasjúklingar - og barnafólk - ekki búið í Hveragerði og jafnvel ekki í austurhluta Reykjavíkur. Ekki væri æskilegt að beina ferðafólki nálægt svæðinu svo Reykjadalurinn fagri fyrir norðan Hveragerði legðist af sem útivistarsvæði, svo og allt svæðið í kringum náttúruperluna Ölkelduháls. Þetta er ófögur framtíð fyrir fallegan, lítinn bæ í fögru umhverfi og áhyggjur Hvergerðinga skiljanlegar.
En á fundinum var dreift tillögu til þingsályktunar um takmörkun á losun brennisteinsvetnis af mannavöldum í andrúmslofti. Fyrsti flutningsmaður er Álfheiður Ingadóttir og þetta er mjög þarft framtak, það verður að koma böndum á losunina. Vonandi bera þingmenn allra flokka gæfu til að samþykkja þingsályktunartillöguna hið snarasta.
Reykvíkingar fá þetta eitur líka yfir sig áfram, því auk Bitruvirkjunar er enn ein jarðhitavirkjunin áætluð í Hverahlíð, sunnan við þjóðveg nr. 1 sem liggur um Hellisheiðina. Þá væru virkjanir á svæðinu orðnar fjórar og tvær í viðbót á teikniborðinu, alls sex jarðhitavirkjanir á sama blettinum.
Fjölmargt fleira kom fram á fundinum í Hveragerði, ég hef eingöngu fjallað um einn þátt af mörgum sem þar var minnst á. Íbúar eru felmtri slegnir og alls ekki að ástæðulausu. Að sumu leyti eru þeir að berjast fyrir lífi sínu - en hafa engin vopn. Þeir eru algjörlega berskjaldaðir. Reykvíkingar líka.
Mig langar stundum að missa mig, hrista virkjanasinna duglega og lesa þeim pistilinn. Hvað á svona nokkuð að þýða? Hvernig dettur þeim í hug að fara svona með náungann... og sjálfa sig? Og hvernig voga þeir sér að sýna slíkt fyrirhyggjuleysi gagnvart afkomendum okkar og komandi kynslóðum? Hvernig stendur á því að óspillt náttúra er ekki metin að verðleikum? Af hverju á að göslast áfram og ana út í óvissu sem getur stofnað heilsu og jafnvel lífi samborgaranna í hættu og stela frá okkur náttúruperlum sem enginn hefur haft rænu á að meta til fjár?
Svarið er í raun einfalt: Til að framleiða raforku fyrir eiturspúandi, erlenda stóriðju og græða peninga.
Ég hef ekki lokið máli mínu, en pistillinn er orðinn ansi langur og kannski leiðinlegur. Ég segi bara: "Framhald í næsta pistli..." Þá verður fjallað um græðgi, valdníðslu, skipulagsafglöp, ólög og fleira uppbyggilegt og skemmtilegt sem allir geta hlakkað til að lesa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Raunveruleikinn er oft svo farsakenndur að það er einfaldlega ekki hægt að túlka hann nema slá honum upp í grín. Áramótaskaupið er eitt dæmið um slíkt, þótt misjafnt sé, og Spaugstofumenn hafa stundað slíka þjóðfélagsrýni í hátt á þriðja áratug og oftar en ekki tekist vel upp, síðast í gær með þættinum um Davkúla greifa. Fyrir viku voru þeir með óborganlegt atriði um það, hverja samdráttur í þjóðfélaginu - svokölluð kreppa - hittir verst fyrir og þá hvernig. Því miður fékk ég ekki leyfi til að klippa út og sýna atriði úr Spaugstofunni vegna flókins höfundaréttar, en ég má vitna í textann.
Munið þið eftir vel klædda manninum (Pálma) sem stóð á gangstétt í Ingólfsstræti (hjá Sólon) og þusaði þessi ósköp um ástandið í landinu og skort á viðbrögðum stjórnvalda við því? Enn má sjá þáttinn hér. Hann sagði:
"Það er bara hreinlega að verða deginum ljósara að það er ekki búandi í þessu þjóðfélagi. Það virðast ekki vera nein takmörk fyrir því hvernig hægt er að fara með okkur þegnana. Ég er til dæmis nýbúinn að kaupa mér 8 milljón króna jeppa og hjólhýsi á afborgunum. Og þegar þetta bætist við afborganirnar af nýja eldhúsinu mínu og heita pottinum og hérna... já, og lánið af sumarbústaðnum... og flatskjáinn og snjósleðann minn og fjórhjólið og frúarbílana... þá bara ræð ég ekkert við þetta lengur! Og svo hækka þeir vextina til að gera endanlega út af við mann. Og hvað gera stjórnvöld? Ekki neitt! Þetta á ekki að líðast í siðmenntuðu þjóðfélagi!"
Þetta er vissulega drepfyndið - og eflaust dagsatt líka. Það eru svona menn sem verið er að vernda og bjarga frá gjaldþroti þegar talað er um að "nú þurfi innspýtingu í efnahagslífið" sem helst virðist felast í því að reisa sem flest orkuver, álver og olíuhreinsistöðvar. Ekki ætla þeir nú samt að vinna í þeim verksmiðjum sjálfir, heldur flytja inn erlenda farandverkamenn, borga þeim lúsarlaun og græða á öllu saman. Óspilltri, dýrmætri náttúru skal fórnað fyrir jeppa, sumarbústaði, utanlandsferðir, munað, óhóf og einkaþotur auðmanna. Það er kjarni málsins þótt reynt sé að telja almenningi trú um annað og öllu illu hótað ef fólk spilar ekki með.
Ég hef rekið mig á ótalmargt í þessum dúr í þjóðfélagsumræðunni, eins og til dæmis talið um að nú verði ríkið (við skattborgarar) að koma eigendum bankanna til bjargar í "kreppunni" - mönnum sem ríkið (við aftur) gaf bankana fyrir nokkrum árum og þeir hafa siglt næstum í strand með óráðsíu og fíflagangi. Á sömu nótum er talað í þessari frétt hér. Þarna er fulltrúi eins bankans að kvarta yfir því að búið sé að byggja of mikið og íbúðirnar seljist ekki. Þetta hefði ég getað sagt honum fyrir löngu og spáð fyrir um afleiðingarnar. En auðvitað hlýtur hann að hafa vitað þetta - bankarnir hafa jú lánað fyrir þessu öllu saman og óttast nú að sitja uppi með heilu háhýsin þegar verktakarnir fara á hausinn vegna offjárfestinga. En tillaga eða lausn bankamannsins er að ríkið (við, munið þið?) kaupi óseldu íbúðirnar! Ég afþakka boðið, kæri mig ekki um fleiri íbúðir. Bjargið ykkur sjálfir upp úr kviksyndinu sem þið stukkuð út í af fúsum og frálsum vilja með græðgina að leiðarljósi.
En grín um alvarlega atburði getur verið tvíbent. Ég tjáði mig um dálæti mitt á Illuga Jökulssyni og skoðunum hans í gegnum tíðina í þessum pistli. Ég mundi eftir ávarpi sem Illugi flutti á Stöð 2 eftir eitt besta Áramótaskaup í manna minnum þar sem hann fjallar um hvernig áhrif það getur haft - og virðist hafa - þegar gert er grín að háalvarlegum þjóðfélagsmeinum og jafnvel glæpum. Ég fann pistilinn í fórum mínum og ætlaði að klippa úr honum stuttar tilvitnanir. En ég gat ekki valið úr án þess að slíta samhengið svo ég birti hann hér í heild sinni, með leyfi Illuga. Hér er fjallað um Áramótaskaupið 2001 og í mínum huga hefur ekkert breyst - pistillinn er sígildur og hljóðar svo:
Rétt er að taka fram strax að ég var og er í hópi þess stóra meirihluta sem hafði verulega gaman af áramótaskaupinu; satt að segja er það líklega það best heppnaða frá upphafi - ekki í því dauður púnktur og á stundum var það mun hvassara og beinskeyttara en menn eiga að venjast. Og þar liggur hundurinn grafinn. Það var gengið nær mönnum en tíðast er í áramótaskaupi, og þá er ég í rauninni alls ekki fyrst og fremst að tala um þátt Árna Johnsens, svo vel heppnað sem það grín var nú allt saman. Án þess ég ætli hér að fara að telja upp efni skaupsins, þá er morgunljóst að ýmsir aðrir áttu alls ekki síður en Árni Johnsen um sárt að binda eftir það.
Hélt ég, að minnsta kosti. Vonaði ég, að minnsta kosti. Án þess að ég vilji í rauninni nokkrum manni verulega illt, þá skal ég alveg játa að ég vonaði þegar skaupinu lauk að ýmsum sem þar fengu á baukinn væri alls ekki skemmt - það hefði sviðið verulega undan þessu á sumum bæjum.
En svo virðist nefnilega ekki hafa verið. Síðan áramótaskaupinu lauk hefur maður gengið undir manns hönd af þeim sem þar voru teknir í gegn að lýsa því yfir hversu ánægðir þeir væru, hversu skemmt þeim hefði verið og hversu alveg laust væri við að þeir hefðu tekið þetta nærri sér - í raun væru allir stoltir af því að hafa verið teknir fyrir í svo vel heppnuðu áramótaskaupi, enda væri þetta allt svo græskulaust og gúddí.
Og þá fór ég að hugsa, einsog stundum hendir jafnvel enn í dag. Áramótaskaupið var nefnilega alls ekki græskulaust - eða það gat ég ekki með nokkru móti séð. Það var - einsog ég sagði áðan - mun beittara og jafnvel dónalegra en lengi hefur sést, og kannski aldrei. Og manni fannst það líka vera ætlunin: að afhjúpa á hvassari og níðangurslegri hátt en títt er um íslenskan húmor, jafnvel íslenska þjóðfélagsgagnrýni yfirleitt. En eigi að síður hefur allt stefnt í þá átt síðan að sýna fram á að ALLIR hafi haft gaman af þessu, enginn verið særður, og jafnvel höfundar skaupsins hafa gengið fram fyrir skjöldu við að lýsa því - að því er virðist allshugar fegnir - að skotmörk þeirra hafi nú ekkert tekið þetta nærri sér. Haft bara gaman af þessu og gott ef ekki boðið höfundunum í glas.
Þetta er dálítið skrýtið. Nú eru það í sjálfu sér eðlileg viðbrögð hjá þeim sem hæðst er að, að bera sig vel og viðurkenna ekki að undan hafi sviðið. Það eru áreiðanlega líka eðlileg og mannleg viðbrögð að hafa í sjálfu sér gaman af því að um mann sé fjallað, jafnvel þótt í háðskum tón sé, frekar en að allir séu búnir að gleyma manni. Og auðvitað er áramótaskaup enginn endanleg samfélagskrítík - við vitum náttúrlega að þetta á fyrst og fremst að vera fyndið yfirlit yfir atburði ársins. En það er samt eitthvað skrýtið, fannst mér, hvað sumir þeirra sem mest og harðast var hæðst að í þessu skaupi áttu auðvelt með að blása á þá reglulega hvössu hæðni sem að þeim var beint. Og hvað Sjónvarpinu sjálfu og meirað segja höfundum skaupsins virtist mikið í mun að leiða sem allra flest skotmörkin fram í sviðsljósið og láta þau vitna um að þau væru bara hæstánægð og allt hefði þetta nú kossumer verið bara í gríni.
En sumt af þessu var ekkert grín. Svo ég taki dæmi af handahófi - Ísólfur Gylfi Pálmason og Guðni Ágústsson voru þar sakaðir um grófa spillingu í sambandi við sölu ríkisjarða. Þetta var fyndið en fyndnin hefði síst átt að breiða yfir þá staðreynd að þetta var þó umfram allt ásökun um grófa spillingu.
En er þá bara júst dandí að þeir sem sakaðir eru um spillingu séu leiddir fram í sjónvarpinu og fái að segja bara ha-ha-ha með okkur hinum, mikið var þetta gasalega sniðugt þó þetta hafi auðvitað verið alveg tóm þvæla, tra-la-la. Og þar með er málið afgreitt og í rauninni alveg endanlega fyrir bí. Verður varla tekið upp aftur nema sem saklaust háð og spé.
Háðsádeilan - samfélagskrítíkin sem í þessu fólst - hefur þannig í rauninni misst alveg marks og nánast snúist upp í andhverfu sína; þótt maður hafi talið hana verulega beitta og nánast meiðandi þá er með viðbrögðunum búið að draga úr henni allan mátt og hún er orðin einsog lokastimpill - þá er þessu máli lokið, búið að taka það fyrir í áramótaskaupinu og allir höfðu gaman af, líka þeir sem að var sótt, allt var þetta tómt grín og græskulaust spaug.
Ég skal fúslega viðurkenna að áhyggjur mínar útaf viðbrögðunum við áramótaskaupinu snerust að nokkru leyti um mig sjálfan. Þegar maður hefur tekið sér fyrir hendur árum saman að tala opinberlega um ýmislegt sem manni þykir aðfinnsluvert í samfélaginu, þá vill maður auðvitað hafa einhver áhrif - að einhver taki gagnrýnina til sín, velti henni fyrir sér og taki hana jafnvel nærri sér; aðeins þannig ímyndar maður sér að eitthvað kunni á endanum að breytast.
Þannig áhrif hélt ég líka að þetta hárbeitta áramótaskaup myndi kannski hafa. En virðist ætla að fara ansi mikið á annan veg; meirað segja þjóðin sjálf, sem búið er að svína á, hún virðist anda léttar og segja sem svo: Mikið var nú gott að blessaðir elsku valdhafarnir tóku þetta ekki nærri sér! Og þeir eru ekkert særðir heldur höfðu bara gaman af, þessi karlmenni!
Þegar maður sér semsagt að jafnvel eitilhart háð einsog í áramótaskaupinu er strax afgreitt af öllum viðkomandi - aðstandendum, valdhöfunum og meirað segja þjóðinni sjálfri - sem nánast innantómt grín og glens sem allir geti bara haft gaman að en enginn kippir sér upp við, þá hlýtur maður að spyrja: Hvað þarf eiginlega til að hrófla hér við hlutum? Hversu langt þarf að ganga?" (Leturbreyting er mín.)
Er nokkur furða að Illugi spyrji? Hefur nokkuð breyst síðan hann skrifaði þennan pistil í ársbyrjun 2002? Ég fæ ekki með nokkru móti séð að neitt hafi haggast í íslensku þjóðfélagi. Gerir það kannski aldrei en eins og venjulega heldur maður dauðahaldi í vonina.
Bloggar | Breytt 21.4.2008 kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Kompás á þriðjudagskvöldið var vægast sagt fróðlegur þáttur. Í honum var fjallað um ýmsar hliðar olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum og margt stendur upp úr eftir umfjöllunina. Þetta var ein allsherjar hrollvekja.
Gróflega skipti ég málinu í þrjá hluta miðað við umfjöllun Kompáss. Í fyrsta lagi það sem snýr að náttúrunni og afleiðingum framkvæmdarinnar á hana og þá væntanlega ferðaþjónustu í fjórðungnum og fleira sem þar er fyrir. Í öðru lagi það sem snýr að framkvæmdaraðilum, fjármögnun, tilgangi og slíku. Í þriðja lagi íslenskum sveitarstjórnarmönnum, alþingismönnum og ráðherrum.
Í Íslandi í dag á Stöð tvö í gærkvöldi kom greinilega fram að ráðherrar vita mest lítið um málið og ekkert um hverjir standa á bak við það. Í Kompásþættinum kom fram að sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum vita heldur ekki neitt. Hversu bláeygir geta menn verið? Á að fórna náttúru Íslands, fiskimiðunum, fuglabjörgum og ímynd landsins fyrir rússneska olíurisa sem þurfa að flikka upp á eigin ímynd á Vesturlöndum? Mér finnst þetta óhugnanlegt. Gríðarlega mikið er í húfi og stjórnvöld vita ekkert um málið!
En ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta í þessum pistli, nóg sagði ég í þeim síðasta og athugasemdakerfinu þar. Þetta er meira sett hér inn sem heimild þótt ég hafi engan veginn lokið máli mínu. Horfið, hlustið og takið afstöðu í þessu mikilvæga máli.
Ég ætla að vitna í orð Aðalbjargar Þorsteinsdóttur frá fyrirtækinu Villimey á Tálknafirði. Hún hefur haslað sér völl sem framleiðandi ýmissa jurtasmyrsla sem eru smám saman að komast á markað. Orð þessi lét hún falla á málþingi um nýsköpun og fleira sem fram fór í Hafnarfirði 28. apríl 2007. Aðalbjörg kvaðst ekki geta stillt sig um að benda fundinum á, að olíuhreinsistöð á Vestfjörðum myndi ekki laða Vestfirðinga til starfa, heldur byggja á farandverkamönnum. Það væri síðan deginum ljósara að fyrirtæki á borð við sitt myndi leggjast af.
Mig langar líka að biðja fólk að hugsa til þeirra hjóna, Maríu Bjarnadóttur og Víðis Hólm Guðbjartssonar, sem búa í Bakkadal, næsta dal í byggð fyrir utan Hvestu í Arnarfirði þar sem olíuhreinsunarstöðin yrði mögulega reist. Fyrir neðan myndböndin set ég inn viðtal við Víði sem birtist í Morgunblaðinu 2. febrúar sl. Reynið að ímynda ykkur hvernig þeim hjónum líður við að fá þennan óskapnað nánast í túnfótinn hjá sér. Ég vitnaði í Maríu í athugasemd við síðasta pistil. Orð sem hún skrifaði mér í tölvupósti og ég fékk gæsahúð þegar ég las. Þessi ungu hjón myndu hrekjast á brott, dalurinn þeirra fara í eyði og hvað kæmi í staðinn? Erlendir farandverkamenn sem staldra við í tvö eða þrjú ár?
Viðbót: Lesið þessa frétt á Eyjunni, þar kemur sitthvað fróðlegt fram.
Kompás, þriðjudaginn 15. apríl 2008

Bloggar | Breytt 20.4.2008 kl. 02:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Ég fjallaði um þá arfavitlausu hugmynd að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum í þremur pistlum í febrúar. Eitt af því sem vakið hefur mikla athygli er sú illskiljanlega leynd sem hvílir yfir því, hvaða aðilar standi á bak við framkvæmdina. Hilmar Foss og Ólafur Egilsson, hinir íslensku olíufurstar, hafa neitað að tjá sig um þann þátt málsins og hafa auk þess túlkað niðurstöður skoðanakannana um stuðning við olíuhreinsistöð afskaplega frjálslega, svo ekki sé meira sagt.
Fyrri pistla mína um olíuhreinsistöðina má sjá hér: Fyrsti, annar og þriðji.
Í kvöld ætlar Kompás að gera tilraun til að upplýsa málið, eða að minnsta kosti leiða getum að því hvaða aðilar standi á bak við framkvæmdina. Frétt um þáttinn á Vísi er svohljóðandi:
Kompás í kvöld: Rússar fara frjálslega með staðreyndir.Katamak, samstarfsaðilar Íslensks hátækniiðnaðar í undirbúningi olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum, fara frjálslega með niðurstöður skoðannakönnunar sem gerð var um áhuga Vestfirðinga og annarra á olíuhreinsistöð.
Á heimasíðu samstarfsaðila Íslensks hátækniiðnaðar (katamak.ru) er fullyrt að 80 prósent Vestfiðinga séu hlynnt olíuhreinsistöðinni og er vitnað til Gallup-könnunar. Þar er býsna frjálslega farið með því samkvæmt upplýsingum frá Capacent-Gallup eru 53 prósent íbúa í Norð-vesturkjördæmi hlynnt hugmyndinni. Afgangurinn tekur ekki afstöðu eða er andvígur. Og sveitarstjórnarmenn vestra finnast í þeim hópi.
Kompás sýnir þátt í kvöld þar sem leitt er getum að því hvaða aðilar standi að baki þessum áformum. Þessi þáttur er afrakstur margra mánaða rannsóknarvinnu m.a. í Moskvu, Washington, Houston og Dublin.
Á vef Kompáss kemur þetta fram um þáttinn:
Umdeild olíuhreinsistöð
Það er leyndarmál hver á að reisa olíuhreinsistöðina á Vestfjörðum. Böndin berast að rússnesku risaolíufyrirtæki í innsta hring Kremlar.
Vestfirðingar eru orðnir langþreyttir á atvinnuástandinu og kalla eftir úrbótum. Olíuhreinsunarstöð er talin geta skapað 500 ný störf. Þessi 300 milljarða risaframkvæmd er þó umdeild.
Tilhugsunin um nær daglegar siglingar risaolíuskipa vekur ugg en talið er að allt að 300 olíuflutningaskip muni eiga leið um vestfirska firði árlega.
Og svona hljómar stiklan um Kompásþáttinn í kvöld:
Ég hvet alla sem mögulega geta til að horfa á Kompás í kvöld klukkan 21:50 og mynda sér skoðun um málið.
Hér er viðtal við Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðing, um olíuhreinsistöð sem birtist í fréttum RÚV 22. febrúar sl.
Að lokum brot úr fréttum Stöðvar 2 frá 24. febrúar sl. þar sem Ólafur Egilsson lætur út úr sér gullkorn sem verða lengi í minnum höfð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)
14.4.2008
Ómar Ragnarsson og Andræði Sigfúsar
Ekki er nóg með að ég sé stundum lengi að hugsa, heldur er ég langt á eftir í fréttahlustun og -áhorfi þessa dagana. Ég var núna fyrst að horfa á rúmlega vikugamalt Kastljós þar sem Ómar Ragnarsson sat á spjalli með Bolla Kristinssyni. Það er reyndar rangt að kalla þetta spjall. Þeir höfðu svo stuttan tíma að varla gafst tækifæri til að klára setningar, hvað þá að kafa af einhverju viti í málin.
Það sem fyrst vakti athygli mína voru orð Ómars sem voru í fullkomnum stíl við sitthvað sem ég skrifaði í færslunni hér á undan og í athugasemdakerfinu. Ómar sagði meðal annars:
"Mér finnst mjög algengt að þingmenn láti eins og lög sem eru í gildi hafi dottið af himnum ofan frá Guði sjálfum. En það voru nú bara þeir sjálfir sem sömdu þessi lög og þeir sjálfir eru þarna í vinnu til þess að breyta þessum lögum. Það er að verða þingvetur liðinn og það hefur ekkert verið gert til að breyta þeim lögum sem var lofað að breyta. Breyta þeim lögum sem gera einstöku sveitarfélögum og hreppum kleift að fara með heimsverðmæti eins og ekkert sé."
Þarna er Ómar að vísa í lög sem meðal annars gera sveitarfélögum kleift að ráðskast með náttúruauðlindir ef þær eru innan landamerkja viðkomandi sveitarfélags (sjá athugasemd 18 við síðustu færslu mína). Sem dæmi má nefna er Sveitarfélagið Ölfus nú búið að auglýsa breytingu á aðalskipulagi þar sem til stendur að breyta Bitru/Ölkelduhálsi á Hengilssvæðinu - sem er á náttúruminjaskrá og einnig skilgreint sem grannsvæði vatnsverndar - í iðnaðarhverfi. Þetta er undurfagurt svæði þar sem sjá má sýnishorn af flestu því sem prýðir íslenska náttúru. Svæðið er vinsælt meðal ferðamanna og til dæmis segir Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Líffræðistofnun Háskóla Íslands, að Hengilssvæðið sé næstverðmætasta útivistarsvæðið á suðvesturhorni Íslands - næst á eftir Þingvöllum. Lesa má viðtal við Þóru Ellen um málið hér. Þetta svæði ætlar 2.000 manna sveitarfélag að eyðileggja fyrir 200.000 íbúum suðvesturhornsins með tilheyrandi brennisteinsvetnismengun - og framkvæmdaraðilinn borgar sveitarstjórninni fyrir greiðann. Nánar um það mál á baráttusíðu Hengilssvæðisins hér, kynnið ykkur endilega málið.
Bolli "athafnamaður" var aldeilis ekki á sama máli og Ómar, vill endilega láta reisa álver, en segir samt að það eigi að fara eftir Ómari Ragnarssyni og öllu því góða fólki sem vinnur með honum! Bolli sagði jafnframt: "En ég náttúrulega er alveg sammála Ómari af því það veit náttúrulega enginn meira en hann um okkar fallegu náttúru - að passa hana eins og hægt er..." Í málflutningi Bolla kemur svo greinilega fram þetta undarlega skilningsleysi þeirra sem reisa vilja stóriðju út um víðan völl - þeir sjá ekki hlutina í samhengi. Þeir fást ekki til að skilja, að álver þarf rafmagn, mjög mikið rafmagn, og til þess að framleiða orkuna þarf að leggja óspillta náttúru í rúst - í þessu tilfelli dásamlega perlu á náttúruminjaskrá í hlaðvarpa meirihluta íslensku þjóðarinnar. Við þurfum greinilega að bjóða Bolla og fleirum í skemmtilega gönguferð í sumar til að reyna að opna augu þeirra.
En hitt er auðvitað rétt hjá Bolla - vitanlega á að hlusta á Ómar Ragnarsson og fara að ráðum hans hvað varðar náttúruna. Ég efast ekkert um að hann sé sá Íslendingur sem þekkir landið einna best, bæði af láði og úr lofti. Hann hefur líklega séð og farið um hvern fermetra þess sem fær er - og jafnvel þá sem ófærir eru, það væri honum líkt. Og umfram allt þykir honum undurvænt um landið sitt og kann manna best að meta það og óviðjafnanlega náttúru þess.
Mig langar að tileinka stóriðjusinnum ljóð úr ljóðabókinni Andræði eftir Sigfús Bjartmarsson sem ég fjallaði um hér.
Virkjun
er verðugum
vinna og minnis-
varði.
Og
virkjun
er veisla
með vinum
og varla nema
von að margur
góðglaður við
veitingum
gapi.
Og
vatnsafls-
virkjun gefur
vistvænan gróða
og stórvirkjun gefur
þá stórvistvænan með
stórvistvænu tjóni
og tapi.
Jú
margur
verður af álverum
api.
Þetta ljóð úr sömu bók tileinka ég alþingismönnum okkar og ráðherrum með þeim varnaðarorðum að treysta ekki framar á gullfiskaminni kjósenda:
Með
lögum
skulu landsfeður
ólögum sínum
eyða.
Jú
alltaf
skal hætta
hverjum leik
þá hallar
undan
fæti.
Og
ranga
reglu má
rétta úr sínu
ráðherra-
sæti.
Jú
aldrei
er lýðurinn
lengi með
læti.
Bloggar | Breytt 15.4.2008 kl. 12:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
12.4.2008
Sorgarferli - "Fagra Ísland" kvatt
Við göngum öll í gegnum visst sorgarferli við ýmsar aðstæður. Til dæmis við andlát ástvina, hjónaskilnað og ýmsa atburði þar sem við segjum skilið við eitthvað sem er okkur kært en er að hverfa sjónum. Ég hef upplifað þetta sorgarferli nokkrum sinnum við ýmsar aðstæður og það er sama hverjar aðstæðurnar eru - það er sárt. Alveg hræðilega sárt.
Enn sárara er þegar hægt er að koma í veg fyrir missinn sem veldur þessu sorgarferli en þeir sem eru í aðstöðu til að hindra hann gera það ekki. Fyrir mig, sem náttúruunnanda frá barnæsku, eins og lesa má um hér og hér, og leiðsögumanns erlendra ferðamanna - sem hefur kennt mér enn betur að meta íslenska náttúru - eru þau skilaboð stjórnvalda að náttúra Íslands skipti minna máli en gróði erlendrar stóriðju alveg skelfileg.
Ég hef ótalmarga galla, en líka nokkra kosti - sem betur fer. Einn af þeim kostum - eða hæfileikum - er að geta séð hlutina í samhengi. Geta horft yfir sviðið og séð hvernig ólíkir hlutir vinna saman og mynda eina heild. Þess vegna skil ég fullkomlega afleiðingar þess ef álver verður reist í Helguvík. Þær afleiðingar eru afdrifaríkar fyrir alla íbúa suðvesturhorns Íslands, sem munu vera um 60 eða 70 prósent þjóðarinnar. Þær afleiðingar hafa í för með sér gríðarleg náttúruspjöll, brennisteinsvetnismengun, sjónmengun, hljóðmengun, lyktarmengun, þenslu, vaxtahækkanir, verðbólgu og guð má vita hvað. Það sem mér þykir einna verst er, að þessar framkvæmdir eru svo fullkomlega óþarfar. Það er ekkert atvinnuleysi á Suðurnesjum - síður en svo - þar er uppgangur einna mestur á öllu landinu og úr nógu að moða. Það er nákvæmlega engin þörf á stóriðju á Suðurnesjum - langt í frá.
Við höfum kosningar til Alþingis á fjögurra ára fresti. Hlustum á frambjóðendur í andakt og af því mannskepnan þrífst mikið til á því sem kallað er von tökum við mark á þeim. Trúum því sem þeir segja og lofa. Við kjósum þann flokk sem boðar þá framtíðarsýn sem kemst næst okkar lífsgildum og bíðum átekta. Síðan kemur að efndum - eða svikum. Við verðum ýmist kát eða leið eða reið.
Ég er leið og reið. Mjög sorgmædd og ævareið. Er að ganga í gegnum sorgarferlið áðurnefnda. Gjörsamlega miður mín og hyggst grípa til þess eina ráðs sem mér er fært í stöðunni eins og hún blasir við nú. Meira um það seinna... kannski.
Ég hef verið að berjast við veikindi undanfarið og ekki verið í ástandi eða aðstöðu til að bregðast við atburðum líðandi stundar umsvifalaust. En ég hef þó haft rænu á að safna upplýsingum og nú er mikið starf fram undan við að vinna úr þeim.
En hér læt ég öðrum um að dæma fyrir sig, ég hef þegar dæmt fyrir mig:
Hvað á maður að halda? Þetta heldur Sigmund og vitnar í Berg í Landvernd:
Svo kom þetta í Silfrinu:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (58)
Það er ekki ofsögum sagt að skipulagsmálin í Reykjavík séu mikið rædd þessa dagana og enn bætist við ítarefnið sem nauðsynlegt er að kynna sér. Eins og sjá má af athugasemdum við fyrri færslu mína eru ýmsar skoðanir á lofti og fólk ekki par ánægt með hvernig þróunin hefur verið undanfarin ár, einkum í miðborg Reykjavíkur. Einnig er stórmál komið upp á Akureyri sem lesa má um hér og djúpstæður ágreiningur er milli íbúa á Selfossi og bæjaryfirvalda þar - svo ekki sé minnst á ósköpin sem hafa gengið á í Kópavogi og Hafnarfirði. Þessi mál eru síst bundin við Reykjavík eingöngu þótt þessa dagana sé miðborg hennar í brennidepli.
Hagsmunatengsl eru fólki augljóslega ofarlega í huga og af fréttum og viðbrögðum manna má merkja að spilling er greinilega mjög algeng þegar um lóðabrask, húsabrask og aðra fjárplógsstarfssemi á því sviði er að ræða. Því hvað er það annað en spilling þegar verktaki borgar í kosningasjóð og fær að launum verðmætar lóðir sem hann getur skipulagt að eigin geðþótta og grætt tugmilljónir á? Hvað er það annað en spilling að formaður skipulagsnefndar bæjarfélags starfi fyrir einn verktakann í bænum eins og kemur fram í einni athugasemdinni við fyrri færslu? En hér á landi eru engin lög - hvað þá viðurlög - við spillingu. Hún er umborin eins og hvert annað hundsbit. Fólk tautar og skammast hvert í sínu horni eða á sinni kaffistofu en yfirvöld eru aldrei krafin skýringa og aldrei reyna fjölmiðlar að fletta ofan af slíkri spillingu og neyða ráðamenn til að afhjúpa siðleysið.
Ef brotið er á rétti almennings, yfir hann vaðið og lífsgæði hans skert, eru fáar leiðir færar og glíman við kerfið, embættismenn og peningavaldið virðist oftar en ekki fyrirfram töpuð. Þegar svo úrskurður berst frá æðstavaldinu er eina leið fólks að ráða sér rándýran lögfræðing og fara í einkamál við verktakann - eða hvern þann sem braut á því - og renna blint í sjóinn með útkomu málsins. Það er á fárra færi. Svona mál eru orku- og tímafrek og reikningar lögfræðinga stjarnfræðilega háir.
Einn er sá útvarpsmaður sem hefur um langa hríð fjallað mjög vel og skilmerkilega um skipulagsmál á Rás 1. Það er Hjálmar Sveinsson í þætti sínum, Krossgötum, sem nú er sendur út klukkan 13 á laugardögum. Í fyrravetur helgaði Hjálmar þáttinn skipulagsmálum mánuðum saman og mér telst til að ég eigi í það minnsta 14 þætti sem ég tók upp. Þessir Krossgötuþættir eru fjársjóður fyrir áhugafólk, því Hjálmar tók afar faglega og ítarlega á málinu og ræddi við fagfólk á ýmsum sviðum skipulags- og byggingamála, sem og við almenning. Í þáttunum kom ótalmargt fram sem á brýnt erindi við borgar- og skipulagsyfirvöld hvar sem er á landinu, ekki síður en málflutningur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem minnst var á í pistlinum hér á undan.
Í rúmlega ársgömlum tölvupósti til nágranna minna vegna mála í nánasta umhverfi okkar sagði ég: "Mikið hefur verið rætt um umhverfismál á landsvísu, mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, sagt að umhverfismálin verði mál málanna í komandi alþingiskosningum, jafnvel að nýr flokkur verði stofnaður utan um þau mál. Ég fagna þessari umræðu, ekki veitir af.
Þetta mál og fleiri af sama toga eru líka umhverfismál - á borgarvísu - og verðskulda einnig athygli og umfjöllun auk þess sem þau snerta lífsgæði tugþúsunda íbúa gamla Vesturbæjarins og nágrennis.
Talað er um stóriðjuæði og virkjanafíkn á landsvísu, en á borgarvísu mætti tala um byggingaræði og þéttingarfíkn. Auk þess er æðibunugangurinn slíkur að hroðvirkni hefur valdið miklu tjóni og enginn ber ábyrgð eins og fram kom hjá fréttastofu RÚV í umfjöllun um þau mál í janúar sl."
Í þessari umræðu er enginn stjórnmálaflokkur undanskilinn, a.m.k. ekki í Reykjavík. Þéttingaræðið hófst á valdatíma R-listans og ekki virðist ennþá hafa tekist að stöðva það - eða að minnsta kosti að hægja á ferðinni svo hægt sé að horfa heildstætt og skynsamlega á málin. Kannski er umræðan nú vísir að hemlun, eða það vona ég altént.
Á flakki mínu um blogg Egils Helgasonar sá ég athugasemd við eina færsluna hans frá 25. mars sl. sem mér finnst rétt að benda á sem dæmi um vinnubrögðin í skipulags- og byggingamálunum:
"Flestar íslenskar byggingar eru byggðar undir stjórn verktaka sem vilja umfram allt halda kostnaði niðri. Það er fegurðarskyn verkfræðinganna sem hefur ráðið mestu um byggingastíl á Íslandi.Það var tvennt sem kom eiginkonu minni, arkitektinum mest á óvart þegar hún fór að vinna á Íslandi. Fyrst áhrifa- og valdaleysi arkitekta yfir flestum verkefnum sem þeir vinna að. Þau eru kommisjónuð af verktökum sem hafna öllu sem mögulega gæti aukið kostnað. í öðru lagi sú súrrealíska staða sem hún lenti stundum í, að fara á byggingarstað og teikna það sem verktakinn hafði þegar byggt til að skila inn teikningum og fá þær samþykktar af yfirvöldum."
Finnst einhverjum þetta viðunandi vinnubrögð? Ég veit af fenginni reynslu að þetta er kallað "breytingar á byggingartíma" hjá skipulags- og byggingaryfirvöldum og er samþykkt, því það væri svo dýrt fyrir verktakann að breyta því sem búið er að gera. Ekki kemur til álita að meta tjónið sem t.d. nágranninn verður fyrir og enginn er ábyrgur.
Í dag, sunnudag, voru tveir þættir í sjónvarpinu sem komu inn á skipulagsmál, Silfur Egils og Sunnudagskvöld með Evu Maríu. Hjá Agli var Þórður Magnússon, einn stjórnarmanna endurreistra Torfusamtaka, og hjá Evu Maríu var Björn Ólafsson, arkitekt, búsettur í París.
Ég set bæði viðtölin inn hér að neðan. Viðtalið við Þórð er endasleppt, Egill fór mínútu eða svo yfir tímann og þá er klippt á útsendinguna á Netinu. Það verður væntanlega lagað og þá endurvinn ég upptökuna og set úrklippuna inn á ný.
Uppfærsla: Nýtt myndband komið inn með endinum.
Björn fór um víðan völl í löngum þætti og sagði mjög margt áhugavert, en ég klippti út það sem hann sagði um skipulagsmálin í Reykjavík sem hér eru til umræðu og þau skelfilegu mistök að láta gróðabrask ráða ferðinni.
Þórður Magnússon í Silfri Egils - 30. mars 2008
Björn Ólafsson í Sunnudagskvöldi með Evu Maríu - 30. mars 2008
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Þessa dagana fer fram öflug umræða um skipulagsmál - og ekki seinna vænna. Ýmis öfl í samfélaginu hafa unnið að því hörðum höndum undanfarin ár að eyðileggja miðborg Reykjavíkur og nágrenni hennar, elstu hluta borgarinnar, í þeim tilgangi einum að græða fé - og það mikið. Þeir hafa náð nokkrum árangri, en ef sú von mín rætist að nú sé að eiga sér stað hugarfarsbreyting bæði hjá almenningi og borgaryfirvöldum er þeim niðurlægingarkafla í sögu Reykjavíkur að ljúka.
Það hefur staðið til hjá mér um tíma að skrifa um þessi mál þar sem mér eru þau afskaplega hugleikin og ég hef staðið í baráttu, ásamt nágrönnum mínum, við skipulagsyfirvöld í Reykjavík og nokkra misvitra stjórnmálamenn sem mér er fyrirmunað að skilja.
En áður en lengra er haldið langar mig að biðja fólk sem hefur áhuga á þessum málum að hlusta á sterkan málflutning Kára Halldórs Þórssonar í Vikulokunum á Rás 1 á laugardagsmorgun. Margir hafa séð Kára Halldór í fréttum undanfarna daga þar sem hann hefur talað fyrir hönd íbúa við Bergstaðastræti og nágrenni um skipulagsklúðrið þar, búsetu útigangsfólks í gámi og yfirgang vertaka. Þátturinn er hér og það er um miðbik hans sem umræður hefjast um skipulagsmál. Ég bendi sérstaklega á umræðuna um verktaka, meint tengsl þeirra við stjórnmálamenn og greiðslur í kosningasjóði. Ef satt er myndi svona nokkuð kallast forkastanleg spilling í öllum siðuðum lýðræðisríkjum og viðkomandi stjórnmálamönnum væri ekki sætt í sínum mjúku stólum. Þættinum lýkur síðan með umræðu um málið sem ég skrifaði um í síðustu færslu.
Einnig er hér fyrir neðan kafli úr Silfri Egils frá 13. janúar sl. þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, skipulagshagfræðingur, greinir frá rannsóknum sínum og niðurstöðum á vel og illa heppnuðu skipulagi borga. Ég veit um fólk sem skipti algjörlega um skoðun á málunum eftir að hafa horft og hlýtt á áhrifaríkan málflutning Sigmundar Davíðs.
Ég heyrði fyrst í Sigmundi Davíð á fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í fyrra þar sem hann var með fyrirlestur og sýndi myndir máli sínu til stuðnings. Hann hefur einnig haldið fyrirlestra um skipulagsmál á Ísafirði, Akureyri og sjálfsagt víðar, því það sem hann hefur fram að færa kemur öllum við - jafnt smáum sem stórum samfélögum. Fagleg umfjöllun hans, dæmin sem hann tekur, myndirnar sem hann sýnir, rökin sem hann færir fyrir máli sínu... allt er þetta afskaplega vel fram sett og gríðarlega sannfærandi.
Við viljum öll að okkur líði vel og að umhverfi okkar sé notalegt og aðlaðandi. Sigmundur Davíð er með niðurstöður, hugmyndir og lausnir sem svo sannarlega er vert að taka mark á.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Allir vita hvað gengið hefur á með umdeilda stöðuveitingu á vegum Árna Mathiesen, sem var settur dómsmálaráðherra gagngert til að veita stöðuna "réttum" manni. Nýjasta útspil Árna er að sýna Umboðsmanni Alþingis yfirgengilegan hroka og draga fagmennsku hans í efa til að kasta rýrð á væntanlegt álit Umboðsmanns, sem Árni veit mætavel að verður sér í óhag.
Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, var í löngu og fróðlegu viðtali í Speglinum í gær um málið. Gunnar Helgi sagði meðal annars: "Það er náttúrulega hlutverk Umboðsmanns Alþingis að lenda í árekstrum við framkvæmdavaldið... og hann á að gera það. Og hann verður auðvitað að fá skilyrði til að sinna því starfi almennilega. Þannig að vandinn kemur kannski aðallega upp - eftir að Umboðsmaður hefur látið í ljós skoðun á einhverju - ef framkvæmdavaldið er ekki tilbúið til að hlíta því á einhvern hátt. Þá kemur upp sú staða að Umboðsmaður er auðvitað ekki dómari. Umboðsmaður er álitsgjafi og það eru á endanum engir aðrir en dómstólar sem geta kveðið upp dóma sem framkvæmdavaldinu ber að hlíta. Sú staða sem kemur upp ef framkvæmdavaldið hafnar túlkun Umboðsmanns... það er þá fyrst og fremst það, þá þarf kannski að reyna á þetta fyrir dómstólum ef það er mögulegt. En það er auðvitað ekki alltaf mögulegt. Til dæmis eru ráherrar í þannig stöðu að um lögsókn gegn þeim gilda alveg sérstakar reglur... um lögsókn gegn þeim samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð, það er að segja. Þá þarf þingið að kæra, meirihluti þingsins þarf að kæra. Þá er kallaður saman sérdómstóll, landsdómur, sem er skipaður á alveg sérstakan hátt. Það segir kannski vissa sögu um hversu effektíft það fyrirkomulag er, að landsdómur hefur aldrei verið kallaður saman á Íslandi."
Fréttamaður: "En það sem er kannski sérstakt við þetta mál, sem við erum að ræða er það, að áreksturinn kemur upp áður en Umboðsmaður kveður upp úrskurð."
Gunnar Helgi: "Já, þetta er mjög óvenjulegt að eitthvað af þessu tagi komi upp."
Fréttamaður: "Er það ekki bara fordæmislaust?"
Gunnar Helgi: "Ég held að þetta sé fordæmislaust, ég veit ekki betur. Hér gerist það að ráðherrann ýjar að því í innganginum að bréfi sínu að Umboðsmaður sé í raun og veru búinn að gera upp skoðun sína og að eiginlega hafi það þá engan tilgang að svara spurningum hans. Þetta er hins vegar ekki í sjálfu sér rökstutt neitt sérstaklega í bréfinu. Það er vísað svona til þess að það sé ákveðinn tónn í spurningunum og þess háttar. Þá leiðist maður til að halda að þetta sé pólitískt útspil hjá ráðherranum. Að hann sé í raun og veru búinn að reikna stöðuna þannig að það séu líkur á því að Umboðsmaðurinn muni gagnrýna hann í sínu áliti og er þá að undirbúa jarðveginn fyrir það, að í raun og veru hafi ekki verið hlustað á röksemdir ráðuneytisins eða ráðherrans"
Gunnar Helgi segir jafnframt: "Ráðherrann auðvitað, hann er að búa sig undir það, geri ég ráð fyrir, að fá hugsanlega gagnrýni frá Umboðsmanni. Auðvitað er það slæmt í jafnmiklu deilumáli og þetta mál er, auðvitað er það slæmt að fá á sig gagnrýni frá Umboðsmanni og það eru vissir hnekkir fyrir ráðherra. Hvernig hann spilar úr því er auðvitað eitthvað sem hann verður að sjá fram úr en virðist svona vera að undirbúa þá vörn einhvern veginn með þessum ummælum - eða ég get ekki séð annað."
Fréttamaður: "Umboðsmaður ber ábyrgð gagnvart Alþingi. Ætti svona mál einhvern veginn að koma til kasta Alþingis eða forsætisnefndar Alþingis. Er þetta eitthvað sem það eða hún ætti að fjalla um eða taka á?"
Gunnar Helgi: "Ja... í raun og veru hefur Umboðsmaður ekkert sérstakt vald til að knýja fram aðgerðir Alþingis. Alþingi er ekki bakhjarl hans í þeim skilningi. Það eru í raun og veru flokkarnir, og þá meirihlutaflokkarnir á hverjum tíma, sem ráða Alþingi. Ráðherra situr náttúrulega í skjóli þeirra. Þannig að... álit Umboðsmanns er miklu mikilvægara sem hluti af mótun almenningsálitsins heldur en að móta einhverjar stjórnvaldsaðgerðir áður en auðvitað dómstólar hafa kveðið upp sinn úrskurð."
Ég fæ ekki betur skilið af orðum Gunnars Helga en að ráðherrar séu ósnertanlegir. Til að koma lögum yfir þá og láta þá axla ábyrgð á gjörðum sínum í ráðherrastól þarf meirihluti Alþingis að kæra - meirihluti sem samanstendur meðal annars af flokksfélögum ráðherra sem veittu honum embættið. Getur einhver séð fyrir sér að slíkt gerist hér á landi? Ráðherrar geta því sýnt valdhroka og misnotað vald sitt að eigin geðþótta án þess að neinn fái rönd við reist. Stjórnmálamenn treysta því að almenningur verði búinn að steingleyma misgjörðum þeirra og valdníðslu fyrir næstu kosningar og auðvelt verði að sveigja og beygja atkvæðin og beina athygli þeirra annað.
Verður raunin sú eða mun hin opna umræða á blogginu breyta einhverju?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
Oft er talað um að fjölmiðlar séu fjórða valdið í þjóðfélaginu. Hinar þrjár valdastofnanirnar eru löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Af þessum fjórum eru fjölmiðlarnir einna mest áberandi, enda inni á gafli á hverju heimili í einni eða annarri mynd á hverjum einasta degi. Ábyrgð þeirra er mikil... mjög mikil.
Að sumu leyti er hlutverk fjölmiðla mikilvægara en hlutverk stjórnarandstöðunnar því fjölmiðlar ná betur til fjöldans og hafa svo gríðarleg áhrif ef þeir vilja beita sér. Fjölmiðlar eiga alltaf að vera í eins konar stjórnarandstöðu - veita stjórnvöldum aðhald, meðal annars með því að upplýsa misnotkun valds og vinna í þágu almennings án nokkurrar íhlutunar stjórnmála eða flokkapólitíkur. Þeir eiga að fylgjast með umræðunni í þjóðfélaginu, þjóðarsálinni, og fylgja þeim málum eftir sem brenna á alþýðu manna.
Margt er athugavert við fréttaflutning og eftirfylgni mála í fjölmiðlum, hverju svo sem um er að kenna. Gæti verið tímaskortur, mannfæð, tíð mannaskipti vegna álags, of margir of ungir og reynslulausir fréttamenn sem skortir þekkingu og yfirsýn... ég veit það ekki, ég þekki ekki til og verð því að giska. En við eigum marga góða, vandaða og klára blaða- og fréttamenn sem geta gert - og gera góða hluti, en innanum er fólk sem ætti að gera eitthvað allt annað og láta fagmenn um fréttamennsku.
En hlutverk blaða- og fréttamanna er heldur ekki alltaf öfundsvert, til dæmis þegar komið er fram við þá eins og sést í fréttabrotinu hér að neðan. Á þriðjudaginn í síðustu viku boðaði forsætisráherra til blaðamannafundar þar sem hann sat fyrir svörum um hrun krónunnar og fleira varðandi efnahag landsins. Eða hvað...? Svaraði Geir því sem hann var spurður að?
Þrátt fyrir alla pólitík hafði ég alltaf nokkuð álit á Geir Haarde. Taldi hann kurteisan séntilmann sem talaði gjarnan af þekkingu og yfirvegun. Þetta var á meðan hann var fjármálaráðherra. Mér finnst hann hafa breyst og vera farinn að draga dám af ónefndum forvera sínum.
Hér er Geir spurður afskaplega eðlilegrar spurningar - hvort honum finnist að Seðlabankinn eigi að bregðast við ástandinu sem skapast hafði í efnahagsmálum landsins. Sem Seðlabankinn gerði jú í morgun með hækkun stýrivaxta. Svona svaraði forsætisráðherra fréttamanni Stöðvar 2, þriðjudaginn 18. mars 2008:
Hvernig geta fjölmiðlar sinnt skyldu sinni gagnvart almenningi þegar þeim er svarað á þennan hátt? Mér finnst þetta vanvirðing - ekki bara við fréttamanninn heldur allan almenning sem sat skjálfandi og áhyggjufullur heima í stofu og beið eftir svörum stjórnvalda. Forsætisráherra sýnir þjóð sinni fyrirlitningu með þessari framkomu. Ráðamenn mega ekki komast upp með slíkt. Þeir stjórna í okkar umboði, sleikja á okkur tærnar fyrir kosningar en skella á okkur þess á milli. Þetta augnablik er eitt af þeim sem ég ætla ekki að vera búin að gleyma í næstu kosningum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
24.3.2008
Treystum við svona fólki?
Ég ætla ekki að hafa mörg orð um fréttina sem fylgir hér að neðan. Ég verð að viðurkenna að mér krossbrá. Samt kom fréttin mér ekki á óvart, ég var full tortryggni fyrir. Mútur, umhverfisspjöll og rausnarlegar þóknanir. Ekki fylgdi sögunni hverjar heimildir fréttastofunnar eru en gera verður ráð fyrir að þær séu traustar. Fréttin birtist á Stöð 2 laugardagskvöldið 22. mars 2008.
Þetta er fyrirtækið sem rekur álverið á Reyðarfirði og vill reisa álver á Bakka við Húsavík. Annað alþjóðlegt fyrirtæki vill reisa álver í Helguvík og aðstandendur hugmyndarinnar um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum segja rússneska og bandaríska aðila á bak við sig en neita að gefa upp hverjir þeir eru.
Eru Íslendingar tilbúnir til að treysta svona fólki og þeim sem makka með því fyrir landinu sínu, framtíð sinni, barnanna sinna og barnabarna - og ómetanlegri náttúru Íslands?
Ekki ég!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
21.3.2008
Bankar, vandræði, vextir og önnur óáran
Þann 24. febrúar sl. kom gestur í Silfur Egils sem vakti gríðarlega athygli og margt var rætt og ritað um málflutning hans, meðal annars mikið hér á Moggablogginu. Maður þessi heitir Andrés Magnússon og Egill kynnti hann sem lækni. Andrés hefur skrifað greinar í blöð um íslensku bankana, okurvexti þeirra og fleira því tengt - og það á mannamáli.
Ég hafði samband við Egil um daginn og hann veitti mér leyfi til að birta efni úr þáttunum sínum. Hafi hann þökk fyrir það. Upphaflega hafði ég ætlað að skrifa viðtalið niður, en það reyndist allt of viðamikið og tímafrekt verk, svo ég tek á það ráð að birta það hér sem myndband. Ég held að ekki veiti af að rifja svona viðtöl upp reglulega til að halda okkur öllum við efnið - einkum í því árferði sem nú ríkir en var ekki skollið á af þunga þegar Andrés var í Silfrinu.
Ýmsar spurningar vakna nú þegar allir keppast við að mála skrattann á vegginn og heimsendaspár birtast úti um víðan völl. Ég viðurkenni fúslega að ég get engan veginn hent reiður á því hvað er rétt og hvað rangt í umræðunni um efnahagsmálin núna - einn segir þetta, annar hitt og allir þykjast hafa rétt fyrir sér. Skilaboðin eru svo misvísandi að ég veit ekki mitt rjúkandi ráð. Mig grunar að ég sé ekki ein um það. Ég lýsi hér með eftir einhverjum sem veit hvað hann er að tala um eins og Andrés virðist gera í þessum þætti og getur útskýrt fyrir mér orsakir og afleiðingar - á mannamáli. Sá aðili verður að vera algjörlega óháður bönkum og öðrum lánastofnunum, stóriðju og gróðafyrirtækjum. Ég tek ekkert mark á slíkum hagsmunaaðilum sem hugsa ekki um annað en að bera af sjálfum sér sakir og haga seglum eftir sínum græðgisvindi.
En eitt veit ég: Staða bankanna nú er ekki almenningi á Íslandi að kenna. Hann hefur goldið keisaranum það sem keisarans er - og gott betur. Ekki líður á löngu þar til bankarnir geta endurskoðað lágu húsnæðisvextina sem buðust í upphafi húsnæðislánabólunnar og þá verða ennþá fleiri í enn verri málum en nú. Ríkisstjórnin, stjórnvaldið sem almenningur á að geta treyst, þegir þunnu hljóði og neitar að gera nokkurn skapaðan hlut. Hvað er þá til ráða?
Viðbót: Ég má til með að benda á þessa grein sem ég rakst á í gærkvöldi.
Bloggar | Breytt 22.3.2008 kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
18.3.2008
Hugsum okkur ráðherra eða þingmann...
Eins og sjá má í fyrri færslum mínum hef ég fjallað svolítið um þá skelfilegu hugmynd að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum - eða hvar sem er annars staðar á okkar fagra landi - með tilheyrandi sjón-, loft- og hljóðmengun, svo ekki sé minnst á hættuna af alvarlegum slysum sem gætu haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar á láði og legi.
Fyrsta færslan um það mál er hér, og í kjölfar hennar kom færsla með myndum hér. Því næst benti ég á í þessari færslu að lögmál Murphys ætti við í þessu samhengi sem öðrum og slys væri óhjákvæmilegt - fyrr eða síðar.
Í dag fékk ég tölvupóst frá vini mínum sem benti mér á myndbandið hér að neðan, væntanlega í því skyni að róa mig og slá á áhyggjur mínar af slysahættunni í tengslum við olíuhreinsistöðvar í landi og olíuflutningaskip á sjó. Þetta er gamalt sjónvarpsviðtal við ástralskan þingmann eftir að stafn olíuflutningaskipsins Kirki brotnaði af skrokknum í júlí 1991 vestur af Ástralíu og 20.000 tonn af hráolíu láku í sjóinn.
Ég sé alveg fyrir mér álíka umræðu og svipuð svör ef þetta myndi gerast við Íslandsstrendur og íslenskur þingmaður eða ráðherra sæti fyrir svörum í Kastljósi, Silfrinu eða Mannamáli... eða jafnvel Spaugstofunni. Annað eins bull veltur næstum daglega upp úr ýmsum af ráðamönnum þjóðarinnar í fúlustu alvöru og þeir ætlast til að við tökum þá alvarlega og trúum hverju orði.
Sjálf hef ég vissan ráðherra í huga sem mér finnst koma sterklega til greina í hlutverkið og nokkra þingmenn, en dæmi nú hver fyrir sig og velji sinn mann eða konu. Hver finnst ykkur nú líklegastur/líklegust?
Eins og heyra má er ekkert að óttast! Við getum verið alveg róleg... eða hvað?
Bloggar | Breytt 25.3.2008 kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
15.3.2008
Sjónarspil eða svikamylla - breytir engu

Ég sé mig knúna til að taka aftur til máls í tilefni af sumum athugasemdunum við færsluna hér á undan, jafnvel þótt ég þurfi að endurtaka bæði það sem ég skrifaði í færslunni, sem og eigin svörum í athugasemdunum þar. Sumir virðast bara ekki lesa það sem á undan er komið, eða skauta svo hratt yfir að kjarninn fer fram hjá þeim og þeir misskilja allt - viljandi eða óviljandi. Þetta málefni er einfaldlega of mikilvægt til að hægt sé að leiða slíkt hjá sér.Ég var búin að skrifa þetta mestallt í athugasemdakerfið en minnug orða bloggvinar míns, Sæmundar Bjarnasonar, sem segir að maður eigi ekki að sólunda löngu máli í athugasemdir heldur nota það frekar í nýja færslu, ætla ég að gera það. Þeir sem lesa þessa færslu þurfa því að lesa þessa fyrst - og allar athugasemdirnar við hana - til að skilja hvað ég er að fara.
Það gladdi mig mjög að sjá og heyra Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, tjá sig um gjörninginn í Helguvík í fréttum aðeins nokkrum klukkustundum eftir að ég setti inn síðustu færslu. Hún kallaði þetta sjónarspil og vafasama stjórnvaldsákvörðun og var varkárari í orðum en ég, en meining okkar var nákvæmlega sú sama. Enn er því von.
Ég finn ekki til með þeim sem vilja virkja og nýta orkuauðlindir, Örvar Þór. Þeim er engin vorkunn nema kannski að því leytinu til að þeir virðast hafa misst af þeirri upplifun sem að mínu mati er nauðsynleg og ómetanleg - að kunna að meta ósnortna náttúru landsins síns, sérstöðu hennar og mikilvægi þess fyrir efnahag, framtíðina og komandi kynslóðir að ganga hægt um gleðinnar stóriðjudyr og gá að sér. Auðvitað þarf alltaf að virkja eitthvað, skynsamleg og hófstillt nýting auðlinda er nauðsynleg. En það sem hefur einkennt virkjanaæði og stóriðjufíkn undanfarinna ára er hve menn einblína á stundarhagsmuni og skyndigróða, sýna fullkomið fyrirhyggjuleysi í framkvæmdum og vanvirðingu við afkomendur okkar. Það á ekki að skilja neitt eftir handa þeim. Því get ég ekki með nokkru móti verið sammála. Þetta er kallað rányrkja þegar auðlindir hafsins eru annars vegar og fordæmt harðlega. Nákvæmlega sama máli gegnir um orkuauðlindirnar.
Stóriðja er ekki, getur ekki verið og má ekki vera eina lausn Íslendinga á byggðavanda. Margt annað kemur til sem þarf að skoða betur áður en stokkið er til og plantað álverum eða olíuhreinsistöðvum í firði og flóa þessa fallega lands. Sjáið bara hvað Hornfirðingar eru að gera! Þeir eru frábærir og hugmyndaríkir.
Í einhverjum athugasemdum er ég kölluð, að því er virðist mér til hnjóðs, "menntakona", "vel lærð á bókina" (eins og það skipti einhverju máli hér) og sögð sýna "menntahroka". Í því sambandi er vert að geta þess að ég er algjörlega ómenntuð. Ekki einu sinni með stúdentspróf. Eina prófgráðan sem ég get státað mig af er próf úr Leiðsöguskóla Íslands þar sem sú ást og aðdáun á náttúru Íslands sem ég hlaut í uppeldi mínu fékk aukinn byr undir báða vængi og gott ef ekki stél líka. Að öðru leyti hefur lífið verið minn skóli og ég endurtek það sem ég sagði í athugasemd minni (nr. 12) við síðustu færslu: "...ég hef enga fordóma gagnvart starfsfólki í neinni atvinnugrein. Ég var alin þannig upp að það sé sama hvað fólk gerir - ef það er heiðarlegt og sinnir sínu af alúð og samviskusemi." Ég hef haft þann boðskap foreldra minna í heiðri hingað til og hyggst gera hér eftir." Ég endurtek líka, að ég sagði að ég þekkti engan sem langaði að vinna í álveri. Það þýðir síður en svo að enginn vilji gera það - aðeins að ég væri ókunnug þeim sem hefðu þær hugmyndir um framtíðina. Sjálf hef ég aldrei verið hálaunakona. Útgjöldin sem fylgja aukinni þenslu, vaxtaokri og verðbólgu, m.a. vegna stóriðjuframkvæmda, eru að sliga mig. En ég hafna því algjörlega að fórna náttúrunni til að ég geti fengið nokkrum krónum meira í budduna, keypt mér nýrri bíl eða farið í fleiri utanlandsferðir. Mér finnst það einfaldlega ekki þess virði og ég vil skila landinu eins ósnortnu og gjöfulu og frekast er unnt til komandi kynslóða.
Þorsteinn Valur talar um "sovét hugsun" um stofnun og rekstur fyrirtækja og að Norðurál starfi samkvæmt lögum og sé frjálst að hefja framkvæmdir og eitthvað fleira sem ég fæ ekki almennilegt samhengi í. Þorsteinn Valur virðist ekki átta sig á því frekar en Árni Árnason, að álver í Helguvík er alls ekki einkamál Reyknesinga, Suðunesjamanna eða erlendra auðhringa sem vilja græða meiri peninga. Síður en svo. Því til stuðnings vísa ég í færsluna sjálfa og svör mín í athugasemdakerfinu - og reyndar athugasemdir annarra s.s. Eggerts Vébjörnssonar og Gunnars Jónssonar - þar sem bent er á að tengdar framkvæmdir og neikvæðar afleiðingar þeirra snerta hvorki meira né minna en 2/3 landsmanna, íbúa alls suðvesturlands. Meðal annars þess vegna er svo mikilvægt að fram fari umhverfismat á öllum tengdum framkvæmdum sem einni heild eins og ég minnist á í færslunni. Þess vegna lagði Landvernd fram kæru sem á eftir að úrskurða um og þess vegna átti Árni Sigfússon að bíða þess úrskurðar en ekki að einblína á eigin pólitíska framtíð. Þess í stað kjósa álverssinnar á Suðurnesjum að ana út í óvissuna, sannfærðir um að þrýstingurinn sem þeir skapa með því nægi til að þagga niður í þeim sem átta sig á óhæfuverkinu.
Það virðist vera einhver lenska um þessar mundir að stóriðjusinnar á landsbyggðinni segi að okkur hér í Reykjavík komi ekkert við það sem þeir eru að bralla í sínum landshlutum. Þeir geti bara gert það sem þeim sýnist og "liðið í 101" eigi ekkert með að hafa skoðanir á því, hvað þá að skipta sér af. Engu að síður fá Reykvíkingar reglulega skilaboð eins og nú síðast frá bæjarráði Fljótsdalshéraðs, þar sem þess er krafist að borgarstjórn heimili uppbyggingu á aðstöðu við Reykjavíkurflugvöll því Reykjavík sé fyrir landsmenn alla. Ég efast reyndar um að landsbyggðarfólk átti sig á álaginu sem fylgir því að hafa flugvélagný yfir höfðinu daga og nætur inni í miðri íbúðabyggð, en það er önnur saga.
Ég er alin upp við mikla ást og aðdáun á Íslandi og móðir mín þreyttist aldrei á að tala um hve heppin við værum að vera Íslendingar, eiga þetta dásamlega land með hreinu lofti, tæru vatni og óviðjafnanlegri náttúru. Aldrei vottaði fyrir þeirri hugsun hjá henni að einn landshluti væri betri eða fallegri en annar, þótt sterkustu taugarnar væru til Vestfjarða þar sem hún fæddist og ólst upp. Þangað var farið á hverju ári og auk þess í a.m.k. eina eða tvær hálendisferðir á sumri með Ferðafélagi Íslands. Þessa hugsun hlaut ég í arf og er mjög þakklát fyrir. Ég hrekk í kút og mér sárnar þegar því er slengt framan í mig að mér komi ekki við þegar Austfirðingar, Vestfirðingar, Norðlendingar eða Reyknesingar ætla að leggja dásamlega náttúru Íslands í rúst til að reisa eiturspúandi verksmiðjur í fallegum fjörðum í þágu erlendrar stóriðju. Í mínum huga er Ísland okkar allra, rétt eins og Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna eins og bæjarráð Fljótsdalshéraðs bendir réttilega á. Við höfum öll ástæðu og leyfi til að hafa skoðanir á því hvað gert er við landið og náttúru þess, við eigum þar öll hagsmuna að gæta.
Misvitrir stjórnmálamenn hafa í gegnum tíðina att landshlutunum hverjum gegn öðrum með eigin hagsmuni í huga, meðal annars í krafti misvægis atkvæða í kosningum. Nýjasta dæmi um slíkt er t.d. sú ákvörðun að í kjölfar Héðinsfjarðarganga skuli byrjað á Vaðlaheiðargöngum. Með fullri virðingu fyrir Norðlendingum hefði ég heldur kosið að þeim peningum væri varið í uppbyggingu samgangna á sunnanverðum Vestfjörðum og íbúum þar gert kleift að ferðast á milli norður- og suðurhluta kjálkans svo þeir geti orðið eitt atvinnusvæði. En mönnum virðist svo tamt að hugsa bara um naflann á sjálfum sér og telja hann miðju alheimsins en gleyma því að aðgerðir þeirra hafa áhrif á ótalmarga utan þeirrar miðju - oftar en ekki alla landsmenn á einn eða annan hátt.
Bloggar | Breytt 16.3.2008 kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
12.3.2008
Svikamyllan á Suðurnesjum
Það er hreint með ólíkindum að hlusta á málflutning Árna Sigfússonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, þessa dagana og vikurnar. Hann slær um sig með stórkarlalegum yfirlýsingum um fyrirhugað álver í Helguvík, framkvæmdaleyfi, útboð og fleira án þess að nokkur innistæða sé fyrir kokhreystinni. Það vantar bara upp á að sjá hann með skóflu í hönd að taka fyrstu stunguna með glott á vör.
Staðreyndin er nefnilega sú að lausir endar eru enn svo margir og svo gríðarlega mikilvægir, að það er fullkomið ábyrgðarleysi og sóun á skattpeningum íbúa Reykjanesbæjar og Garðs að stinga skóflu í svörð eins og staðan er. Þótt Árni segi þeim ekkert að vanbúnaði að hefja framkvæmdir er sannleikurinn engu að síður sá, að enn sem komið er hlýtur framkvæmdin að teljast fullkomlega óraunhæf. Stundum er sagt að hlutirnir séu "talaðir niður" en í þessu tilfelli er verið að "tala upp", þ.e. láta líta út eins og allt sé í lagi þótt álversmenn á Suðurnesjum séu með allt niðrum sig.
Lítum nánar á málið.
Í fréttum í gær kom fram að búið væri að samþykkja nauðsynlegt deiliskipulag, bæði í Garði og Reykjanesbæ, til að framkvæmdir gætu hafist við að reisa álverið í Helguvík. Gott og vel. En varla er nú skynsamlegt að reisa álver án þess að hafa tryggt sér tilskylda orku. Til að hægt sé að reka skepnuna þarf gríðarlega mikla orku og hana þarf að flytja frá viðkomandi virkjunum. Ekki nema lítið brot af nauðsynlegri orku fæst úr virkjunum á Reykjanesi. Af þeim 260 MW sem talin eru upp í töflu Skipulagsstofnunar um "líklegustu virkjunarkosti Hitaveitu Suðurnesja" eru líklega að minnsta kosti um 115 MW óraunhæf sökum umdeildra orkuflutninga og/eða andstöðu við markmið Suðurlinda, sem er að nýta orkuna heima í héraði. Raunhæf orkuöflun í héraði er því í besta falli 145 MW - en til að keyra skrímslið þarf 435 MW. Eftir er þá að afla 290 MW - sem er nákvæmlega tvöfalt það magn sem Reyknesingar geta sjálfir skenkt sér í álverið.
Álversfíklar Suðurnesja hyggjast þá leita á náðir Reykvíkinga með orkuöflun og þiggja orku frá Orkuveitu Reykjavíkur, einkum úr virkjunum sem hvorki er búið að veita leyfi fyrir né byrjað að reisa. Þar er fyrst að nefna Bitruvirkjun sem rísa myndi á Ölkelduhálsi, skammt fyrir norðan Hellisheiði. Gríðarleg andstaða er gegn þeirri virkjun, bæði meðal almennings, fjölmargra borgarfulltrúa í Reykjavík og þingmanna. Ölkelduháls og umhverfi hans er náttúruperla sem væri glæpur að hrófla við.Í því sambandi er vert að nefna, að í viðtali í 24 stundum 16. febrúar sl. sagði Ásta Þorleifsdóttir, varaformaður stjórnar OR: "Ég mun ekki styðja neitt sem ógnar Ölkelduhálsi og Klambragili og þessum mjög svo mikilvægu útivistar- og fræðslusvæðum." Á forsíðu Fréttablaðsins 22. febrúar sl. sagði forstjóri OR að fyrirtækið selji ansi mikla orku til álvera og ekki sé heppilegt að hafa öll eggin í sömu körfu. Í áformum Norðuráls er gengið út frá því, að 175 MW fáist frá OR en aðeins hefur verið samið um 100 MW. Ef marka má orð forstjóra OR verður ekki samið um meira á þeim bænum.
Gríðarlega umdeildir orkuflutningar í gegnum mörg sveitarfélög gera alla orku á Hengilssvæðinu að óraunhæfum valkosti fyrir álver í Helguvík. Mörg þessara sveitarfélaga hafa þegar lýst því yfir að engar háspennulínur verði lagðar í þeirra landi.
Ég hef áður skrifað um þann reginmisskilning sem sífellt er hamrað á, að jarðgufu- eða jarðvarmavirkjanir séu hrein og mengunarlaus orkuöflun. Nú þegar hefur brennisteinsvetnismengun frá Hellisheiðarvirkjun einni farið yfir hættumörk á höfuðborgarsvæðinu. Verði af fleiri virkjunum á Hengilssvæðinu og Hellisheiði eykst sú mengun til mikilla muna. Fram hefur komið, m.a. í Speglinum á Rás 1 þann 7. nóvember sl. að ef Bitru- og Hverahlíðarvirkjanir bætist við verði losun brennisteinsvetnis frá þessum þremur virkjunum orðin ríflega FIMMFALT meiri en öll náttúruleg losun brennisteinsvetnis frá jarðvarmasvæðum landsins. Langtímaáhrif á heilsu fólks eru ekki þekkt svo þarna væri rennt staurblint í sjóinn og jafnvel tekin óviðunandi áhætta með líf og heilsu íbúa á suðvesturhorni landsins.
Í þessum sama Spegli, þar sem rætt er við Þorstein Jóhannsson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun, kemur einnig fram að óæskilegt sé að beina ferðafólki inn á þessi svæði ef virkjanirnar verða að veruleika. Þorsteinn segir að þessi mikla losun brennisteinsvetnis fari ekki saman við ferðamennsku með tilliti til mögulegra áhrifa á heilsufar fólks. Og sama er sagt gilda um náttúruna og fólkið - langtímaáhrif mengunarinnar eru ekki kunn. Þetta ættu að vera fullkomlega nægjanleg rök gegn þeirri fullyrðingu virkjana- og álversfíkla að allt sé þetta nú gert í fullri sátt við umhverfið, því hvað er umhverfi annað en náttúran og fólkið sem vill njóta hennar?
Sem sagt - Árni Sigfússon og félagar ætla samt að byrja að reisa álver og æða áfram með frekju og yfirgangi, enda þótt þeir séu langt í frá búnir að tryggja sér þá orku sem til þarf til að reka það. Væntanlega er þeim líka slétt sama um þótt þeir stefni mögulega heilsu ríflega helmings landsmanna í hættu með brennisteinsvetnismengun og leggi ósnortnar náttúruperlur í rúst. Í mínum huga heitir þetta glæpsamlegt athæfi óforsjálla manna, sem eins og sannir fíklar hugsa ekki um neitt nema fix dagsins í dag og skyndigróðann á kostnað bæði okkar og komandi kynslóða.
Árni Sigfússon hefur oft lýst því yfir í fjölmiðlum að álver í Helguvík sé lífsspursmál fyrir Suðurnesjamenn því það vanti svo sárlega störf eftir að herinn fór. Þetta er bull sem mjög auðvelt er að hrekja. Atvinnuleysi á Suðurnesjum er í lágmarki og þar, eins og á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið flutt inn erlent vinnuafl í stórum stíl því heimamenn anna ekki þeim störfum sem í boði eru. Fram kom í frétt 4. mars sl. að samkvæmt samantekt Hagstofunnar hafi íbúum fjölgað mest á Suðurnesjum af öllum landshlutum í fyrra. Ekki bendir það beinlínis til að erfitt sé að fá vinnu við hæfi á svæðinu.Það er nóg annað um að vera á Suðurnesjum. Eins og fram kom í grein eftir Berg Sigurðsson, framkvæmdastjóra Landverndar, í Morgunblaðinu 23. febrúar sl. drýpur smjör af hverju strái á Suðurnesjum. Hann nefnir t.d. 200 störf tengd nýju hóteli við Bláa lónið, 90 störf við fyrirhugaða kísilverksmiðju, nokkur hundruð störf til að þjónusta hið nýja háskólasamfélag á flugvallarsvæðinu, 150 störf við netþjónabú auk 60-70 nýrra starfa á ári í tengslum við aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli. Bergur telur að fjöldi þessara starfa samsvari starfsmannafjölda u.þ.b. þriggja ávera.
Árni hefur nú gert sér grein fyrir því að hjalið um skort á störfum og atvinnuleysi er ósannfærandi þvættingur. Hann veit sem er að ekki þýðir að ljúga þessu lengur og er nýlega búinn að skipta um plötu á fóninum. Nú heitir þetta "að skapa vel launuð störf", eins og hann sagði í viðtali í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær. Aldrei hef ég heyrt minnst á að almennt starfsfólk álvera sé hátekjufólk. Það er að minnsta kosti ekki talið upp með skattakóngum og -drottningum landsins. Ja... kannski forstjórarnir. Aukið menntunarstig íslensku þjóðarinnar hefur aukinheldur leitt til þess að fæstir geta hugsað sér að eyða vinnuævinni í álveri, hvað þá að þar sé framtíð barna okkar og barnabarna.
Hverjir halda menn að starfi við að reisa álverin og virkjanirnar? Eru það vel launuðu störfin handa Suðurnesjamönnum og öðrum Íslendingum? Ef marka má framkvæmdir undanfarinna ára verða fluttir inn erlendir farandverkamenn í þúsundatali til að vinna við byggingarframkvæmdirnar við misjafnar undirtektir heimamanna. Þessir verkamenn búa við óviðunandi aðbúnað eins og margoft hefur komið fram, þar sem þeim er hrúgað saman í hesthús eða iðnaðarhúsnæði eins og sauðfé og ekki hirt um annað en að kreista út úr þeim sem mesta vinnu fyrir ómannsæmandi laun. Þetta er ekkert annað en nútíma þrælahald sem við ættum að skammast okkar fyrir.
Ég gæti haldið endalaust áfram að tína til alls konar atriði sem hanga í lausu lofti og eru ókláruð en VERÐA að vera í lagi áður en hafist er handa við að reisa álver í Helguvík. Umhverfisráðherra á til dæmis eftir að úrskurða um kæru Landverndar þar sem farið er fram á heildstætt umhverfismat á áhrifum álvers í Helguvík. Þetta þýðir einfaldlega að Landvernd fer fram á að öll framkvæmdin verði metin í einu lagi - allar tengdar framkvæmdir metnar sem ein heild - virkjanir, raflínur og álver. Slíkt heildarmat ætti vitaskuld að vera sjálfsagt og eðlilegt, því allt hangir þetta saman og myndar órjúfanlega heild.
Norðurál hefur ekki fengið úthlutað mengunarkvóta eða losunarheimild fyrir álver í Helguvík, við eigum hann ekki aflögu. Nóg mengum við samt og erum næstum búin með kvótann sem okkur er heimilaður. Getur "hreina, græna Ísland" vera þekkt fyrir að menga andrúmsloftið svo gríðarlega að það þurfi að kaupa mengunarkvóta til viðbótar við þann sem við höfum? Hvaða áhrif ætli það hefði á sívaxandi ferðaþjónustu sem dælir peningum inn í þjóðarbúið?
Annan álíka pistil mætti skrifa um efnahagsleg áhrif framkvæmdarinnar. Um þann þátt berast mjög misvísandi skilaboð þar sem ljóst er að stóriðjusinnar ætla að tala yfir okkur kreppu - ef ekki verði reist nokkur álver og helst olíuhreinsistöð líka. Sú hlið á málinu er rannsóknarefni út af fyrir sig sem ég fer ekki út í hér.
Niðurstaða:
Starfsleyfi fyrir álver í Helguvík liggur ekki fyrir. Breytt skipulag allra þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli liggur ekki fyrir. Leyfi þeirra til orkuflutnings og lagningar háspennulína liggur ekki fyrir. Losunarheimild liggur ekki fyrir. Starfa við álver er ekki þörf, hvorki við byggingu né rekstur. Úrskurður um umhverfismat virkjana og heildarmat álversframkvæmda liggur ekki fyrir.Æðibunugangur Árna Sigfússonar og Norðuráls er óskiljanlegur í ljósi þess að nánast ekkert af því sem til þarf er í höfn. Menn eru með allt niðrum sig, næstum allt er óklárt. Hver er þá tilgangurinn með þessu háværa gaspri? Af hverju láta fréttamenn Árna komast upp með bullið án þess að upplýsa sannleikann um á hve miklum brauðfótum yfirlýsingagleðin stendur? Hér er verið að blekkja almenning á svívirðilegan hátt, láta fólk halda að allt sé klárt, ekkert til fyrirstöðu, bara kýla á þetta þótt engin nauðsynleg leyfi eða heimildir séu fyrir hendi. Svo þegar byrjað er að framkvæma verður sagt: "Það er of seint að snúa við!" Þá verður beitt óbærilegum þrýstingi til að fá hlutina í gegn og helst á hraða ljóssins sem gerir öðrum hagsmunaaðilum ókleift að láta rödd sína heyrast í öllum gauraganginum. Ef orðið "stjórnsýsluofbeldi" er til á það prýðilega við hér.
Er það þetta sem kallað er "klækjastjórnmál"? Ég veit það ekki, en hitt veit ég að það er óbærileg skítalykt af þessu máli. Það er blekkingarleikur og svikamylla í gangi á Suðurnesjum.
Bloggar | Breytt 15.3.2008 kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (49)
2.3.2008
John Cleese ávarpar Bandaríkjamenn

In view of your failure to elect a competent President and thus to govern yourselves, we hereby give notice of the revocation of your independence, effective immediately.
Her Sovereign Majesty, Queen Elizabeth II, will resume monarchical duties over all states, commonwealths and other territories (except Kansas, which she does not fancy), as from Monday next.
Your new prime minister, Gordon Brown, will appoint a governor for America without the need for further elections. Congress and the Senate will be disbanded. A questionnaire may be circulated next year to determine whether any of you noticed.
To aid in the transition to a British Crown Dependency, the following rules are introduced with immediate effect:
1. You should look up revocation in the Oxford English Dictionary. Then look up aluminium, and check the pronunciation guide. You will be amazed at just how wrongly you have been pronouncing it.
2. The letter U will be reinstated in words such as colour, favour and neighbour. Likewise, you will learn to spell doughnut without skipping half the letters, and the suffix ize will be replaced by the suffix ise.
3. You will learn that the suffix burgh is pronounced burra; you may elect to spell Pittsburgh as Pittsberg if you find you simply cant cope with correct pronunciation.
4. Generally, you will be expected to raise your vocabulary to acceptable levels (look up vocabulary). Using the same twenty-seven words interspersed with filler noises such as like and you know is an unacceptable and inefficient form of communication.
5. There is no such thing as US English. We will let Microsoft know on your behalf. The Microsoft spell-checker will be adjusted to take account of the reinstated letter u and the elimination of -ize.
6. You will relearn your original national anthem, God Save The Queen,but only after fully carrying out Task #1 (see above).
7. July 4th will no longer be celebrated as a holiday. November 2nd willbe a new national holiday, but to be celebrated only in England. It will be called Come-Uppance Day.
8. You will learn to resolve personal issues without using guns, lawyers or therapists. The fact that you need so many lawyers and therapists shows that youre not adult enough to be independent. Guns should only be handled by adults. If youre not adult enough to sort things out without suing someone or speaking to a therapist then youre not grown up enough to handle a gun.
9. Therefore, you will no longer be allowed to own or carry anything more dangerous than a vegetable peeler. A permit will be required if you wish to carry a vegetable peeler in public.
10. All American cars are hereby banned. They are crap and this is for your own good. When we show you German cars, you will understand what we mean.
11. All intersections will be replaced with roundabouts, and you will start driving on the left with immediate effect. At the same time, you will go metric immediately and without the benefit of conversion tables Both roundabouts and metrification will help you understand the British sense of humour.
12. The Former USA will adopt UK prices on petrol (which you have been calling gasoline) - roughly $8/US per gallon. Get used to it.
13. You will learn to make real chips. Those things you call french fries are not real chips, and those things you insist on calling potato chips are properly called crisps. Real chips are thick cut, fried in animal fat, and dressed not with catsup but with malt vinegar.
14. Waiters and waitresses will be trained to be more aggressive with customers.
15. The cold tasteless stuff you insist on calling beer is not actually beer at all. Henceforth, only proper British Bitter will be referred to as beer, and European brews of known and accepted provenance will be referred to as Lager. American brands will be referred to as Near-Frozen Gnats Urine, so that all can be sold without risk of further confusion.
16. Hollywood will be required occasionally to cast English actors as good guys. Hollywood will also be required to cast English actors as English characters. Watching Andie MacDowell attempt English dialogue in Four Weddings and a Funeral was an experience akin to having ones ear removed with a cheese grater.
17. You will cease playing American football. There is only one kind of proper football; you call it soccer. Those of you brave enough, in time, will be allowed to play rugby (which has some similarities to American football, but does not involve stopping for a rest every twenty seconds or wearing full kevlar body armour like a bunch of Jessies - English slang for Big Girls Blouse).
18. Further, you will stop playing baseball. It is not reasonable to host an event called the World Series for a game which is not played outside of America. Since only 2.1% of you are aware that there is a world beyond your borders, your error is understandable and forgiven.
19. You must tell us who killed JFK. Its been driving us mad.
20. An internal revenue agent (i.e. tax collector) from Her Majestys Government will be with you shortly to ensure the acquisition of all monies due, backdated to 1776.
Thank you for your co-operation.
John Cleese
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
23.2.2008
Falsaður kjörkassi Fréttablaðsins
Eins og flestir vita sem lesa Vísi á netinu og Fréttablaðið er daglega skoðanakönnun á Vísi sem kölluð er Kjörkassinn. Þar er varpað fram spurningu og lesendum gefinn kostur á að svara Já eða Nei. Fréttablaðið birtir svo niðurstöðuna daginn eftir. Ég hef oft tekið þátt í þessum leik en nú er ég steinhætt því vegna þess að ég varð áþreifanlega vitni að fölsun úrslita í tvígang nýverið.
Ég spurði því þrjá tölvufræðinga sömu spurningarinnar sem hljóðaði svo:
"Mig langar að spyrja þig hvernig getur staðið á því að könnunin sem nú er á vefsíðunni www.visir.is getur breyst eins hratt og raun ber vitni - ég trúi ekki mínum eigin augum.Spurt er: Á Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson að segja af sér í kjölfar skýrslu stýrihópsins um REI? Svarmöguleikar Já eða Nei að venju.
Fyrir um það bil 2-3 tímum var svarhlutfallið þannig að um 72% höfðu sagt Já.
Nú hef ég setið fyrir framan tölvuskjáinn og horft á þessa tölu hrapa svo hratt að það er hreint með ólíkindum. Ég geri ráð fyrir að einhver hundruð eða einhver þúsund manns hafi tekið þátt í könnuninni svo prósentutalan hreyfist ekki hratt við hvert atkvæði. Á hálftíma hafa tölurnar hins vegar breyst úr því að vera um 70% Já - 30% Nei í að vera um 49% Já - 51% Nei.
Hvernig er þetta hægt? Nú á hver og einn ekki að geta kosið nema einu sinni og þótt allur Sjálfstæðisflokkurinn hafi greitt atkvæði síðasta hálftímann hefðu tölurnar ekki getað breyst svona hratt, svo mikið veit ég. Ekki heldur þótt einhver hægrisinnaður tölvunörd hafi setið við tölvuna sína, eytt smákökunum, "refreshað" og kosið aftur.
Eru þeir hjá Vísi að falsa niðurstöðurnar eða geta kerfisstjórar úti í bæ greitt 100 atkvæði í einu eða eitthvað slíkt? Það verður augljóslega ekkert að marka niðurstöðu þessa Kjörkassa Vísis, svo mikið er augljóst."
Aftur horfði ég á þetta gerast nokkrum dögum seinna og þá var spurt: Vilt þú að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson verði borgarstjóri? Þá var munurinn öllu meiri, eða um 85% Nei - 15% Já. Enn breyttist niðurstaðan fyrir framan nefið á mér eins og hendi væri veifað.
Svör tölvufræðinganna sem ég hafði spurt voru á þessa leið:
Steingrímur:
Auðvelt er fyrir þá sem að kunna að skrifa lítinn JAVAscript bút sem að kýs í sífellu frá sömu IP tölunni & eyðir sjálfkrafa þeirri 'köku' sem að liggur á vafra kjósandans sem að á að koma í veg fyrir að sami aðilinn geti kosið oftar en 2svar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
21.2.2008
Áskorun til umhverfisráðherra
Eftirfarandi var sent umhverfisráðherra og fjölmiðlum í morgun:
Ágæti umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir,
Í ljósi umræðna sem fram hafa farið undanfarna daga um hugsanlegt álver í Helguvík og yfirlýsinga sveitarstjórans í Garði, bæjarstjóra Reykjanesbæjar og talsmanna Norðuráls viljum við koma á framfæri yfirlýsingu og áskorun til umhverfisráðherra.
Stofnað var til vefsíðunnar http://www.hengill.nu/ í lok október 2007 til að vekja athygli almennings á fyrirhugaðri Bitruvirkjun á Ölkelduhálsi og afleiðingum fyrir ómetanlega náttúruperlu í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Það heppnaðist svo vel að aldrei í Íslandssögunni hafa borist eins margar athugasemdir við neinni framkvæmd, eða tæplega 700.
Málinu er ekki lokið, erfiðar ákvarðanir eru fram undan og við viljum leggja okkar lóð á vogarskálar skynsemi og náttúruverndar. Náttúran á alltaf að njóta vafans.
Með von, vinsemd og virðingu,
Petra Mazetti,
Lára Hanna Einarsdóttir,
Katarina Wiklund
-----------------------------------------------------------------------------------
Ölkelduháls ber að vernda sem útivistarsvæði en ekki spilla með virkjun fyrir hugsanlegt álver Norðuráls í Helguvík
Samkvæmt áliti Skipulagsstofnunar vegna álvers í Helguvík er Ölkelduháls eitt þeirra háhitasvæða sem fórnað yrði ef áform um álverið ná fram að ganga. Sú fórn væri með öllu óréttlætanleg.
Ölkelduháls og umhverfi hans er dýrgripur á náttúruminjaskrá og það ber að virða.
Því skorum við á umhverfisráðherra, Þórunni Sveinbjarnardóttur, að sjá til þess að framkvæmt verði heildstætt umhverfismat fyrir álver í Helguvík og allar tengdar framkvæmdir að Bitruvirkjun meðtaldri og vísum þar í kæru Landverndar.
Þrátt fyrir að mjög mikil óvissa ríki bæði um orkuöflun og orkuflutninga fyrir álver í Helguvík er að skilja á yfirlýsingum Garðs og Reykjanesbæjar að til standi að hefjast handa við byggingu álversins fljótlega. Sú fyrirætlan er beinlínis til þess fallin að setja ómaklegan þrýsting á önnur sveitarfélög sem hlut eiga að máli.
Slíku verklagi ber að afstýra með öllum tiltækum ráðum.
Aðeins lítill hluti orkunnar sem til þarf, eða u.þ.b. 20%, er í landi Reykjanesbæjar en enga orku er að finna í Garði. Ásælni sveitarfélaganna tveggja í auðlindir annarra tekur út yfir allan þjófabálk og við slíkan framgang er ekki hægt að una. Ítrekaðar ábendingar Skipulagsstofnunar um að eyða þurfi óvissu um orkuöflun og orkuflutninga áður en framkvæmdir hefjast eru að engu hafðar með yfirlýsingum sveitarfélaganna tveggja og talsmanna Norðuráls undanfarna daga.
Aðstandendur síðunnar www.hengill.nu sem sett var upp til bjargar Ölkelduhálsi og nágrenni
Petra Mazetti, Lára Hanna Einarsdóttir, Katarina Wiklund
Bloggar | Breytt 22.2.2008 kl. 01:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Kári:
Ég er sammála Steingrími. Það er mjög sennilegt að það sé "kaka" í browser sem á að sjá til þess að sami aðili kjósi ekki oft. Ef kökunni er hent út getur sami aðili kosið aftur.
Elías Halldór:
Það er hægt að keyra svona lagað í skriptu sem gefur nokkur atkvæði á sekúndu. Það er ekki nauðsynlegt að nota heilan vafra í svona lagað, til eru ýmis smáforrit sem geta gert allt sem vafrar gera nema sýna úttakið á grafískan hátt.
Einmitt núna er ég að horfa á núverandi könnun fara úr 7% já upp fyrir 20% á undraverðum hraða á meðan ég keyri eftirfarandi skipun héðan úr tölvunni minni: while true ; do echo "ID=899&req1=1&polltype=5&max=1&q1=1" | POST "http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/poll?Category=FRETTIR&Mini=1&W=100&H=60" ; done
Hlutfallið breyttist úr 7-93 í 40-60 á um það bil þremur mínútum. Engar kökur voru sendar.
Niðurstaðan er sú að það er afskaplega auðvelt að falsa niðurstöður Kjörkassans hjá Vísi/Fréttablaðinu. Engu að síður birti Fréttablaðið niðurstöður þessara kannana athugasemdalaust 9. og 16. febrúar, daginn eftir "kjörið" eins og sjá má á úrklippunum hér að ofan.
Fleiri virtust hafa rekið augun í þetta, bæði fyrirspurnir mínar til tölvufræðinganna og hina óeðlilega hröðu breytingu niðurstaðna Kjörkassans eins og sjá má í athugasemdum í þessari bloggfærslu Hafrúnar Kristjánsdóttur á Eyjunni - sem er reyndar að öðru leyti mjög fróðlegt spjall um niðurstöður skoðanakannana.
Eftir þessa uppákomu er deginum ljósara að það er ekkert að marka Kjörkassa Vísis/Fréttablaðsins, jafnvel enn minna en ég hélt fyrir. Í ljósi nýjustu frétta um að Vilhjálmur ætli að hanga á sæti sínu í borgarstjórn og verða næsti borgarstjóri vara ég við að benda á þessar niðurstöður sem vilja kjósenda - þær eru falsaðar og endurspegla þann vilja ekki á nokkurn hátt.
Vonandi reka ábyrgir aðilar hjá Vísi/Fréttablaðinu augun í þessa færslu og sjá til þess að koma í veg fyrir að þetta sé mögulegt ef þeir vilja láta taka mark á Kjörkassanum sínum.