3.8.2009
Auglýst eftir samverkafólki
Í nýlegri athugasemd (nr. 49) við þennan pistil auglýsir Ævar Rafn Kjartansson eftir samverkafólki til að kortleggja ættar-, flokks-, vina- og klíkutengsl samfélagsins og gefa út. Ég vil skora á þá sem vilja og geta lagt sitt af mörkum að hafa samband við Ævar Rafn og drífa í þessu. Getið þið ímyndað ykkur hvað það væri þægilegt að hafa svona rit við hendina þegar atburðir gerast til að fletta upp í? Sjálf er ég ekki mjög fróð um svona tengsl og lítið pælt í þeim - en hef þó verið á námskeiði í vetur eins og aðrir landsmenn.
Í þessu sambandi minni ég á orð Jóns Baldvins í Silfrinu 19. október þar sem hann sagði þetta:
Við vitum að þetta er satt og rétt hjá Jóni Baldvin og það myndi auðvelda mjög að greina alls kyns spillingu ef svona rit væri til. Ég hef sent Ævari Rafni skilaboð og beðið um netfangið hans og set það hér inn um leið og það berst mér.
Netfangið er komið - sendið póst á hrun2008@gmail.com! Hugmyndin er frábær, samtaka nú!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
2.8.2009
DV og kúlulán Kaupþings
Ég má til með að halda því til haga að DV hefur talsvert fjallað um lánabók Kaupþings - án þess að fá á sig lögbann - og þá einkum kúlulán til starfsmanna. Þetta er mögnuð lesning. Hér fyrir neðan eru fjögur dæmi um umfjöllun DV. Þarna koma ýmsir við sögu sem vert er að skoða nánar. Smellið þar til læsileg stærð fæst.
DV 4. nóvember 2008
DV 30. júní 2009
DV 1. júlí 2009
DV 3. júlí 2009
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.8.2009
Mergjað kjaftæði
Við fengum staðfest áðan að hér ríkir ekki upplýsinga-, mál- eða tjáningarfrelsi og fjölmiðlar eru múlbundnir af hagsmunaaðilum ef þeim þykir ástæða til. Yfirlýsing Kaupþings er með ólíkindum. Þar segir m.a.: "Nýja Kaupþing og skilanefnd Kaupþings leggja áherslu á að með þessum aðgerðum séu bankarnir að bregðast við skyldum sínum til að tryggja trúnað við viðskiptavini sína og koma í veg fyrir að óviðkomandi hafi aðgang að upplýsingum um viðskipti þeirra..."
Trúnað við viðskiptavini, jamm. Trúnaður þeirra við Ólaf Ólafsson, Bakkabræður, Jón Ásgeir, Robert Tchenguiz og fleiri slíka er semsagt meiri og mikilsmetnari en trúnaður við íslenskan almenning. Og mér finnst ekki úr vegi að spyrja hvaða peninga var verið að höndla með og útbýta til valinna viðskiptavina og eigenda bankans. Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld kom fram að tíu hæstu lánin voru tæplega þreföld fjárlög ríkissjóðs, hvorki meira né minna.
En hvaða peningar voru þetta? Hvaðan komu þeir og ekki síst - hvert fóru þeir? Og hve stór hluti af gjaldþroti gamla Kaupþings eru þessi lán? Hver þarf að borga brúsann? Hvaða eignir íslensku þjóðarinnar þarf að leggja að veði til að friða kröfuhafa í þrotabú bankans? Hvað þarf íslenskur almenningur að þola t.d. í formi niðurskurðar og skattahækkana vegna græðgi, sukks og spillingar þessara eðalviðskiptavina og eigenda Kaupþings? Í yfirlýsingu Kaupþings frá í gær segir: "Nýja Kaupþing og skilanefnd Kaupþings telja að upplýsingar um viðskiptavini Kaupþings eigi ekki erindi til almennings..." Þetta er mergjað kjaftæði. Auðvitað eiga þessar upplýsingar erindi til almennings! Er það ekki sá sami almenningur sem situr uppi með efnahagslegt hrun landsins sem einmitt þessir viðskiptavinir ollu - ásamt ýmsrum öðrum? Það hefði ég haldið.
Ég vil ítreka áskorun mína til netmiðla og bloggara frá síðasta pistli um að allir sem tök hafa á birti sem mest af þessu á netinu - á bloggsíðum, netmiðlum, Facebook, Twitter og hvað þetta heitir allt saman. Eða slóðir að umfjöllun ef ekki vill betur til. Allir saman nú! Látum Kaupþing hafa fyrir því að krefjast lögbanns á alla netverja ef því er að skipta. Með því móti leggjum við okkar af mörkum til að mótmæla þeirri þöggun sem nú hefur verið samþykkt af embætti Sýslumanns. Ég hengi eintak af lánabókinni aftur neðst í þessa færslu og ítreka slóðina að WikiLeaks.
Fréttir RÚV - 1. ágúst 2009
Fréttir Stöðvar 2 - 1. ágúst 2009
Viðbót: Kannski kemur þetta málinu ekkert við, en er ekki beint traustvekjandi og vægast sagt umhugsunarvert. Ég var að fá upplýsingar - og kannaði þær nánar - að tengsl eru milli Sýslumannsins í Reykjavík og Kaupþings. Sýslumaður er Rúnar Guðjónsson (f. 1940). Rúnar var sýslumaður í Borgarnesi og rótarýfélagi Ólafs, föður Ólafs Ólafssonar. Sonur Rúnars er Frosti Reyr Rúnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar Kaupþings. Eins og sjá má t.d. hér og hér var Frosti Reyr einn af kúlulánþegum Kaupþings.
Annar sonur Rúnars er Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja. Búið er að loka vef samtakanna, að því er virðist, og ég finn þau ekki í símaskránni. En lauflétt gúgl leiðir ýmislegt í ljós, m.a. að þessi samtök virðast hafa gengið einna lengst í að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef eins og sjá má t.d. hér og hér. Gúglið leiðir ýmislegt fleira í ljós um samtökin, eins og t.d. þetta.
Ég fékk upplýsingar á fésinu rétt í þessu um að samtökin heiti nú Samtök fjármálafyrirtækja. Guðjón er ennþá framkvæmdastjóri - og kíkið á hverjir eru í stjórninni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (51)
31.7.2009
Rökstuddur grunur um glæpi?
Kompássmaðurinn Kristinn Hrafnsson byrjaði sumarafleysinguna með trukki á RÚV í kvöld. Hann fjallaði um myrkraverkin sem framin voru hjá Kaupþingi dagana áður en bankinn var yfirtekinn - og þau eru vægast sagt svakaleg. Kristinn boðaði framhald næstu kvöld og vísaði í síðuna WikiLeaks.
Fjallað var um lán Landsbankans til fyrirtækja sem tengd eru eigendum hans hér og hér. Nú var það Kaupþing - og sukkið... maður minn! Þetta er það sem við erum að borga fyrir - og þetta líka. Og fleira og fleira.
Fréttir RÚV - Kristinn Hrafnsson - 31. júlí 2009
Kristinn segir í fréttinni að lán Kaupþings til 11 fyrirtækja í Existu-hópnum, að Skiptum meðtöldum, séu upp á rúmlega 300 milljarða króna að núvirði. Bara þau lán eru tæpur helmingur af Icesave-skuldinni. Sjáið þetta bara. Upphæðir eru í milljónum evra og gengið er rétt um 180 krónur.
Í glæruskjalinu sem fjallað er um og kallað er "Meeting of the Board of Directors - Annual Large Exposure Reporting" er bara fjallað um lán frá 45 milljónum evra, sem mér reiknast til að séu 8,1 milljarður króna. Þetta er ótrúlegt skjal og þar kennir ýmissa grasa. Ég hengi það hér neðst í færsluna ef fólk vill taka þátt í að rjúfa þá vernd sem bankaleynd veitir þessum mönnum. Ég skora á alla bloggara og netmiðla að birta þetta - þá hafa þeir nóg að gera í lögsóknunum, blessaðir.
Skoðið þetta vandlega með reiknivél við hönd til að fá íslensku upphæðirnar. Hvað varð um alla þessa peninga? Hvernig stendur á að ekki er búið að frysta, kyrrsetja, haldleggja... hvað sem við köllum þann gjörning að hirða af þeim það sem þeir stálu og ætla að láta okkur borga. Í lögum nr. 88/2008 - gr. 68 og 88 - er fjallað um slíkt og þar er vísað í lög nr. 31/1990 sem beinlínis fjalla um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Hér er tilvitnun í gr. 68 og 88 í fyrrnefndu lögunum:
Hrunstjórnin gerði ekkert í þessum málum í haust - EKKERT. Hugsið ykkur ef sú stjórn hefði haft döngun í sér til að frysta allt strax og hindra öll stór viðskipti. Værum við í annarri stöðu í dag? Hefði þessu fólki tekist að mjólka bankana og fjárhirslur þjóðarinnar eins og raun virðist bera vitni? Munið þið eftir þegar Seðlabanki Íslands lánaði Kaupþingi 500 milljónir evra "til nokkurra daga" rétt áður en bankinn féll? Það eru 90 milljarðar íslenskra króna á núvirði. Einn sjöundi hluti Icesave. Hvað varð um þá peninga í ljósi þessara Kaupþingslána og meintra undanskota stærstu eigenda í skattaskúmaskot?
Er ekki kominn tími á gjalddaga?
Stöð 2 og RÚV 28. júlí 2009
Bloggar | Breytt 1.8.2009 kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (42)
Anna vinkona benti á þessa grein á fésbókinni. Greinin er frá 2006 og smellpassar við umræðuna þessa dagana um siðleysi, siðblindu og almennt andlegt heilbrigði vissra hópa í samfélaginu og fleira í þá veru. Þessum pælingum Kristjáns, Hare og Babiak til áhrifsauka og staðfæringar bendi ég á nýjustu bloggfærslu Egils Helga og sýkópatapistil Stefáns Snævarr. Hér er svo einnig fróðleg grein um þá kenningu að testosteróneitrun hafi lagt efnahag heimsins í rúst. Í því sambandi er vert að geta þess að testosterón er aðalkarlhormónið sem myndast einkum í eistum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.7.2009
Dagar Kompáss taldir?
Fyrir nokkrum dögum skrifaði ég pistil um ábyrgð fjölmiðla á umbrotatímum og birti auk þess pistil um sama efni af Morgunvakt Rásar 2. Í honum fór ég fram á við mennta- og fjármálaráðherra að veitt yrði fé til að stofna og reka sjálfstæðan og óháðan rannsóknar- og upplýsingahóp fjölmiðla. Þetta ætti að vera auðsótt mál og oft var þörf en nú er nauðsyn. Ríkisstjórnin hefur ekkert að fela, er það? Þótt fréttastofur og hefðbundnir fjölmiðlar séu góðra gjalda verðir svo langt sem þeir ná, er ekki nóg að fá aðeins 2 mínútna frétt eða þriggja dálka grein af stórmálum og síðan ekki söguna meir. Fréttirnar þarf að setja í samhengi, grafa og grufla, tengja og skýra, finna orsakir og afleiðingar, komast að niðurstöðu og fylgja fréttunum eftir.
Ég, eins og svo ótalmargir aðrir, hef beðið eftir að Kompás kæmi aftur á skjáinn en ekkert hefur bólað á honum. Silfur Egils hætti í maí, kemur væntanlega ekki aftur fyrr en í september og Kastljósið fór skyndilega í sumarfrí. Um þessar mundir er því engar fréttaskýringar að fá í sjónvarpi og þótt Spegillinn standi sannarlega fyrir sínu vantar myndrænu útfærsluna. Þetta er fáránleg staða sem almenningi er boðið upp á af fjölmiðlunum. Við þurfum á miklu öflugri fjölmiðlun að halda en hægt er að sinna nú miðað við samdrátt og niðurskurð. Eða er kannski eitthvað galið við forganginn hjá miðlunum? Það skyldi þó aldrei vera.
Í Mogganum í dag er sagt að dagar Kompáss séu taldir. Ég neita að trúa því. Skortur á gagnrýnni fjölmiðlun á gróðærisárunum og í aðdraganda hruns hefur orðið okkur dýrkeyptur. Við verðum að læra af þeirri reynslu og efla fjölmiðlunina ef eitthvað er. Hlustið á Aidan White, framkvæmdastjóra alþjóðasamtaka blaðamanna, í myndböndunum neðst í þessum pistli. Við getum ekki haft miklar væntingar til einkarekinna fjölmiðla í eigu sjálfra útrásarauðmannanna sem eiga risastóran þátt í stöðu okkar í dag og því sem rannsaka þarf. En við getum gert miklar kröfur til Ríkisfjölmiðilsins sem við eigum og kostum sjálf. Og til ríkisstjórnarinnar sem fer með fjárveitingarvaldið.
Hér fyrir neðan er greinin úr Mogganum í dag (smellið þar til læsileg stærð fæst) og valin sýnishorn af umfjöllun Kompáss um mikilvæg mál í íslensku samfélagi. Ég vil fá meira af slíku - ekki er vanþörf á um þessar mundir! Set líka inn umfjöllun um Kompás og viðtöl úr Kastljósi og Spjalli Sölva.
Morgunblaðið 29. júlí 2009
Kompás 20. nóvember 2007 - um Seðlabankann, vexti og verðbólgu
Kompás 13. október 2008 - um efnahagskreppuna
Kompás 20. október 2008 - um útrásina
Kompás 15. apríl 2008 - um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum
Kompás 29. apríl 2008 - um olíuslys
Kompásmál í Kastljósi 27. janúar 2009
Sölvi Tryggva spjallar við Kompássmenn - Skjár 1 - 3. apríl 2009
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.7.2009
Kannski hefði ég átt að gera það
Flestir kannast við þegar eitthvað hverfur ekki úr huga manns klukkustundum, dögum og jafnvel vikum saman. Maður fær eitthvað á heilann. Það getur verið lag, setning, hugmynd eða hvað sem er. Þetta myndbrot hefur varla vikið úr huga mér upp á síðkastið. Setningin syngur í huganum endalaust og ég get ekki bægt frá mér spurningunni: "What if he had...?" Ef hann hefði gert það... Hvað þá? Væri staðan eitthvað öðruvísi í dag? Verst er, að það er ómögulegt að segja. Spurningunni verður aldrei svarað.
BBC 2 - Hard Talk - Geir Haarde
Allt viðtalið - 12. febrúar 2009
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.7.2009
Hvað sögðu auðmennirnir þá?
Í ljósi nýjustu frétta um glæpina í bönkunum fyrir og eftir yfirtöku þeirra er ekki úr vegi að rifja upp orð og viðbrögð eigenda þeirra og yfirmanna í kringum hrunið og eftir það. Fjölmargir sögðu margt fleira á ýmsum vettvangi en ætli þetta nægi ekki í bili.
En fyrst - fréttir kvöldsins og samviskuspurningar: Útrásardólgar og bankamenn sáu pening í orkunni okkar, keyptu sig inn í REI og stofnuðu Geysi Green Energy. REI-málið var stöðvað en GGE keypti þriðjung í Hitaveitu Suðurnesja og var nú að kaupa meira í samvinnu við kanadíska fyrirtækið Magma Energy. Eins og sjá má af nýjustu fréttum skutu dólgarnir undan gríðarlegum fjármunum. Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að þeir standi ekki á bak við kaupin á afnotunum af orkuauðlindunum? Hvers vegna er Bjarni Ármannsson að koma heim? Hann var einn stofnenda GGE sem bankastjóri Glitnis, stjórnarformaður og stór eigandi í REI og reyndi að sameina fyrirtækin. Hvernig stendur á því að aðeins einn einasti þingmaður, Atli Gíslason, og enginn ráðherra hefur tjáð sig um þessa nýjustu gjörninga. Hugsið málið.
RÚV - 27. júlí 2009 - meira hér
Stöð 2 og RÚV - 27. júlí 2009
Og hefst þá upprifjunin:
Lárus Welding - Glitnir - Silfur Egils 21. september 2008
Jón Ásgeir Jóhannesson - Glitnir - Stöð 2 - 30. september 2008
Þorsteinn Már Baldvinsson - Glitnir - Kastljós 30. september 2008
Sigurður Einarsson - Kaupþing - Kastljós 6. október 2008
Sigurjón Þ. Árnason - Landsbankinn - Kastljós 8. október 2008
Jón Ásgeir Jóhannesson - Glitnir - Silfur Egils 12. október 2008
Sigurjón Þ. Árnason - Landsbankinn - Ísland í dag 13. október 2008
Jón Ásgeir Jóhannesson - Glitnir - Hrafnaþing 20. október 2008
Björgólfur Thor Björgólfsson - Landsbankinn - Kompás 27. október 2008
Sigurður Einarsson - Kaupþing - Markaðurinn með BI 8. nóvember 2008
Björgólfur Guðmundsson - Landsbankinn - Kastljós 13. nóvember 2008
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
26.7.2009
Glæpur og refsing?
Ríkissjónvarpið var með stórfrétt í kvöld um lán Landsbankans til fyrirtækja Björgólfsfeðga. Samkvæmt henni var framinn stórfelldur glæpur þegar Landsbankinn lánaði fyrirtækjum tengdum eigendum sínum langt umfram það sem lög leyfa og tjónið er metið í hundruðum milljarða.
Hér kemur fram að samkvæmt 30. grein laga um fjármálafyrirtæki (lög nr. 161/2002) megi lán til eins eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptamanna ekki fara fram úr 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis. Eiginfjárgrunnurinn er síðan skilgreindur frekar í gr. 84 og 85. Samkvæmt ársfjórðungsuppgjöri Landsbankans 2008 (í þessu tilfelli hálfsársuppgjör eða sex mánaða uppgjör frá 30. júní 2008) er eiginfjárgrunnur Landsbankans 319,6 milljarðar (neðst á bls. 34), sem þýðir að bankinn má ekki lána "innbyrðis tengdum viðskiptamönnum" meira en tæpa 80 milljarða (79,65). En lítum á hve mikið fé bankinn átti þátt í að lána fyrirtækjum Björgólfsfeðga (og Magnúsar) samkvæmt frétt RÚV:
Þarna eru ótalin þau fyrirtæki sem minnst var á fyrr í fréttinni, Grettir með 60 milljarða og Novator Pharma 43 milljarða. En á þessum lista eru lánin komin upp í 365 milljarða og þó vantar upphæð á eitt fyrirtækið. Gerum ráð fyrir að Landsbankinn hafi lánað þetta allt (fram kemur í fréttinni að hann hafi átt hlut í einhverjum lánanna). Og gerum ráð fyrir að lánin til Grettis og NP (103 milljarðar) jafni upphæðir á móti. Þar sem eiginfjárgrunnurinn var aðeins 319,6 milljarðar er þarna búið að lána langt umfram 100% af honum, eða um 114%. Munum að bannað er samkvæmt lögum að lána meira en 25% af grunninum, eða 80 milljarða. Þetta slagar í að vera fimmföld leyfileg upphæð. Undir lok fréttarinnar tók ég sérstaklega eftir þessu:
Eva Joly sagði í viðtali við Stöð 2 þann 16. júní að réttarkerfi heimsins væru sniðin til að halda hlífiskildi yfir hinum ríku og valdamiklu. Þeir sleppi við refsingu eftir að dómar hafi verið kveðnir upp. Engu sé líkara en að hluti samfélagsins sé hafinn yfir lög. Ætlum við að láta það viðgangast í stærsta fjársvikamáli sem vitað er um þar sem heil þjóð er sett á hausinn? Eða verður yfirskrift íslenska efnahagshrunsins: Efnahagsglæpir og refsileysi?
Stöð 2 - 16. júní 2009
Verður refsað fyrir þennan glæp - og þá hverjum? Verður framhald á fréttinni á RÚV? Verður rýnt á svipaðan hátt í lánabækur hinna bankanna? Við bíðum spennt.
Bloggar | Breytt 27.7.2009 kl. 01:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
25.7.2009
Ábyrgð fjölmiðla á umbrotatímum
Mér eru fjölmiðlarnir hugleiknir og finnst ansi mikið vanta upp á að þeir sinni því sem má kalla skyldu þeirra - upplýsingagjöf, rannsóknarfréttamennsku og skýringum á atburðum fyrir almenning. Blaða- og fréttamenn komust sjálfir að þeirri niðurstöðu að þeir hafi brugðist í aðdraganda hrunsins, ef ég man rétt. Ekki verið nógu vakandi og of trúgjarnir - eins og við hin.
Mér hættir til að verja þá, því ég veit við hvaða aðstæður þeir búa - gríðarlegan tímaskort, ómanneskjulegt vinnuálag og í mörgum tilfellum skítalaun. Viðmælendur svara ekki spurningum þeirra og stundum gátu (geta?) ágengar, beittar spurningar jafngilt uppsögn viðkomandi blaða/fréttamanns. Hátt settir stjórnmálamenn töluðu ekki við gagnrýna blaða/fréttamenn og vildu sjálfir ráða spurningunum. Allt mögulegt hefur viðgengist. En sumir voru líka nátengdir persónum og leikendum í atburðum gróðærisins - og eru enn.
Kannski er ekki við blaða- eða fréttamennina sjálfa að sakast að öllu leyti, heldur vinnuveitendur þeirra, sjálfa fjölmiðlana. Einkum fyrir að skapa þeim ekki þær aðstæður sem nauðsynlegar eru til að geta sinnt starfinu almennilega, sérhæfa sig í málaflokkum og gefa þeim pláss eða tíma til að koma upplýsingunum á framfæri. Vissulega er þó ýmislegt mjög vel gert og bæði vilji og geta fyrir hendi bæði í stéttinni og utan hennar.
Mér finnst að í vetur, á þessum gríðarlegu umbrotatímum í íslensku samfélagi, hafi mestu upplýsingarnar, málefnalegasta umræðan og bestu fréttaskýringarnar verið á netinu - þar af mikið á blogginu. Og um þessar mundir er eiginlega einn helsti rannsóknarblaðamaðurinn okkar hún Sigrún Davíðsdóttir í Speglinum á RÚV og á Eyjunni. Sigrún hefur verið óþreytandi við að segja frá ýmsum vafasömum viðskiptum og fleiru sem viðkemur hruninu. Lesið og hlustið t.d. á pistla hennar í vikunni um Endurreista og efalausa banka og Bruðl og sjónhverfingar.
Ég sakna Kompáss mjög. Hef sagt það áður og segi enn. Okkur bráðvantar svona þátt og ég skil ekki af hverju RÚV hefur ekki tekið þáttinn upp á arma sína en mig grunar að um fjárskort sé að ræða. Eins og ég kem inn á í pistlinum hér að neðan vil ég að ríkisstjórnin veiti ríflegri upphæð til að koma saman sjálfstæðum, óháðum rannsóknarhópi fjölmiðlafólks sem hefði það hlutverk að rannsaka, afhjúpa, upplýsa og útskýra. Frá upphafi hruns hafa fjölmargir sérfræðingar, reynsluboltar og leikmenn hamrað á því, að upplýsingar séu grundvallaratriði til að almenningur geti skilið og tekið þátt í þeirri hugarfarsbreytingu og uppbyggingu sem verður að eiga sér stað á Íslandi. Slík fjárveiting ætti að vera jafnsjálfsögð og fjárveiting til annars konar rannsókna á hruninu. Upplýsingar eru nefnilega nátengdar réttlætinu.
En hér er pistillinn minn á Morgunvakt Rásar 2 í gær - hljóðskrá hengd við neðst.
Ágætu hlustendur...
Í tæpt ár hefur mér fundist ég vera stödd í hræðilegri martröð. Stundum hef ég verið þess fullviss, að einn daginn ranki ég við mér og komist að raun um, að þetta hafi bara verið vondur draumur. En martröðin heldur áfram og verður sífellt skelfilegri eftir því sem fleiri spillingarmál koma upp á yfirborðið. Þeim virðist ekki ætla að linna og botninum er greinilega ekki náð ennþá.
Ég er orðin kúguppgefin á martröðinni og þrái heilbrigt samfélag, lausnir, heiðarleika, réttlæti og von. En það eina sem blasir við er meiri spilling, hræðileg vanhæfni, undarleg leynd og endalausar deilur um allt. Stundum finn ég varla heila brú í þjóðfélagsumræðunni, alveg sama hvernig ég leita. Sérfræðingar karpa, einn segir þetta og sá næsti eitthvað allt annað. Þeim virðist jafn fyrirmunað að finna sameiginlega lausn á vandamálum þjóðarinnar og alþingismönnum. Það er sárt að horfa upp á þetta og enginn fjölmiðill hefur ennþá tekið að sér að skýra út ólík viðhorf, fólkið á bak við þau, bera saman skoðanir, orsakir og afleiðingar - og reyna að komast að niðurstöðu. Er það kannski ekki hægt? Maður spyr sig...
Ég hef komist rækilega að raun um, að það er miklu meira en full vinna að reyna að fylgjast með öllu sem hefur gerst síðan hrunið varð, halda því til haga og reyna að tengja saman menn og málefni. Hvað þá að fylgja málum eftir og halda þeim lifandi í umræðunni. Ef vel ætti að vera þyrfti einhver fjölmiðill að hafa hóp fólks í vinnu sem gerir ekkert annað en einmitt þetta. En sú er aldeilis ekki raunin.
Í mestu hamförum af mannavöldum sem íslenska þjóðin hefur upplifað hafa fjölmiðlar einmitt neyðst til að bregðast þveröfugt við. Skera niður og segja upp fólki þegar þjóðin þarf á öflugum fjölmiðlum að halda sem aldrei fyrr. Eini fréttaskýringaþátturinn í sjónvarpi, Kastljós, fór meira að segja í frí í júlí á meðan fjallað er um tvö umdeildustu málin um þessar mundir á Alþingi, ESB og Icesave. Væntanlega er fríið til komið vegna niðurskurðar og sparnaðar í rekstri RÚV.
Ekki hefur fjarvera Kastljóss náð að fylla Stöð 2 innblæstri og hvatt til dáða á þeim bænum. Frá áramótum hefur Ísland í dag verið undirlagt af yfirborðskenndu léttmetishjali - með örfáum undantekningum. Léttmetið er fínt í bland - en er það svo miklu ódýrara í vinnslu en alvörumálin? Því fylgir ábyrgð að reka fjölmiðla og eigendur þeirra ættu að sjá sóma sinn í, að huga að upplýsingagildi efnisins ekki síður en skemmtanagildi þess.
Mig langar að beina máli mínu til ríkisstjórnarinnar, einkum mennta- og fjármálaráðherra, og fara fram á að veitt verði rausnarlegri upphæð til reksturs rannsóknarhóps fjölmiðla sem hefði það hlutverk að rannsaka og upplýsa þjóðina um öll helstu mál hrunsins. Í hópnum gætu verið valdir fulltrúar frá öllum fjölmiðlum - og alls ekki má gleyma netmiðlum og bloggi. Oftar en ekki hafa langbestu upplýsingarnar komið fram á netinu og málefnalegustu umræðurnar farið fram þar. En netfjölmiðlun nær bara ekki til nema takmarkaðs fjölda landsmanna.
Fyrir utan fræðslu- og upplýsingagildi þessa fjölmiðlahóps fyrir almenning, gæti vinna hans örugglega gagnast rannsóknaraðilum hrunsins. Vinna hópsins væri líka aðhald við embættin, því upplýsingar hans um alvarleg mál hljóta óhjákvæmilega að koma inn á borð hjá þeim.
Upplýsingar og réttlæti kostar peninga - en er þjóðinni lífsnauðsynlegt.
Í tengslum við þessar pælingar minni ég á viðtöl við Aidan White, framkvæmdastjóra alþjóðasamtaka blaðamanna, sem var hér á ferð í lok maí. Hann lýsir m.a. hvernig útrásardólgar höfðu áhrif á skrif blaðamanna í Bretlandi þegar verið var að markaðssetja Icesave og fleira. Og fyrst þeir gátu blekkt breska blaðamenn gátu þeir vitaskuld blekkt þá íslensku líka - enda voru (og eru) þeir í mörgum tilfellum vinnuveitendur þeirra. Sorglegt en satt. Takið sérstaklega eftir þessum orðum Aidans White: "Ein aðallexían sem á að koma út úr öllu þessu hræðilega ferli er sú, að fjölmiðlar eiga að tala máli þjóðfélagsins í heild. Þeir eiga að gegna þjóðfélagslegu hlutverki, vernda hagsmuni fólksins."
Aidan White í Kastljósi 28. maí 2009
Aidan White í fréttum Stöðvar 2 - 28. maí 2009
Bloggar | Breytt 17.8.2009 kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Icesave er mál málanna þessa dagana, vikurnar og mánuðina. Það væri að æra óstöðugan að bæta á umfjöllun um það volaða mál sem er í öllum fjölmiðlum og allir hafa einhverja skoðun á. En það eru helst skoðanir alþingismanna og sérfræðinga sem komast að í fjölmiðlunum. Við hin látum okkur nægja netið og bloggið. Stuðningur við Icesave-samninginn á þingi er óljós í meira lagi þessa dagana og sífellt eru nýir fletir á málinu afhjúpaðir - enginn góður.
Afstaða stjórnarþingmanna er óskýr - en afstaða stjórnarandstöðu alveg klár. Stjórnarandstöðuflokkarnir vilja ekki samþykkja samninginn. En hvað vilja þeir gera? Hver er þeirra lausn?
Hinn nýi formaður Sjálfstæðisflokksins er sterkur og ákveðinn leiðtogi sem hlýtur að vera dáður af flokksmönnum sínum eins og hefð er fyrir í flokknum - með nokkrum undantekningum þó. Í fréttum RÚV í kvöld var hann spurður hvað hann og flokkurinn hans vildi gera í Icesave-málinu. Svar formannsins var afdráttarlaust, ákveðið og afgerandi eins og hans er von og vísa. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi beðið hugmyndafræðilegt gjaldþrot með falli frjálshyggjunnar er nýi leiðtoginn greinilega sá, sem mun hífa flokkinn úr öldudalnum með vasklegri framgöngu sinni, ákveðni, hugmyndauðgi, málefnalegum svörum og frábærum lausnum.
Það sem mér finnst eiginlega verst við þetta viðtal, er að fréttakonan lét hann komast upp með þetta svar - ef svar skal kalla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (66)
22.7.2009
Geðveiki gróðærisins
Ég sá aldrei þessa þætti en frétti af nokkrum, meðal annars þessum. Þessi talsmáti, hugsunarháttur og lífsstíll virðist hafa verið ríkjandi meðal hóps fólks í gróðærinu. Mér finnst þetta jaðra við geðveiki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)
20.7.2009
Orsök og lausn kreppunnar
Það virðist sama hver vandinn er - þetta er alltaf meint lausn, ef lausn skal kalla. Sama hverjir eru við völd hverju sinni. Sama hvort um er að ræða endurreisn bankakerfisins, rándýrar virkjanir fyrir erlenda auðhringa eða hvað annað sem stjórnvöldum og þrýstihópum samfélagsins hugnast að bjóða þjóðinni upp á í það skiptið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.7.2009
Lífsgildi þjóðar
Algengara er að tala um lífsgildi einstaklinga en lífsgildi þjóða. En Páll Skúlason flutti erindi með þessu heiti á jóladag í fyrra auk þess að tala við Evu Maríu Jónsdóttur þremur dögum síðar í sjónvarpinu. Ég lagði svolítið út frá viðtali þeirra Páls og Evu Maríu í pistlinum mínum á Morgunvakt Rásar 2 í morgun. Í þetta sinn tók ég pistilinn upp hér heima þar sem ég hef aðstöðu og tæki til þess - nema hljóðeinangrun. Slökkti á símum og vonaði að engin flugvél þyrfti að lenda eða fara í loftið rétt á meðan og var heppin. Hljóðskrá hangir neðst í færslunni auk nokkurra þátta þar sem Páll Skúlason kemur við sögu og deilir með okkur hugmyndum sínum. Og hér er mjög gott viðtal við Pál sem birtist í Mogganum rétt eftir hrun, 10. október.
Ég held að það sé tímabært að vinda ofan af þeirri gengdarlausu græðgis- og einstaklingshyggju sem nýfrjálshyggjustefna hrunflokkanna hefur hamrað á undanfarin 20 ár eða svo. Kannski skjátlast mér - en ég hef á tilfinningunni að sú vonda hyggja sé andstæð mannlegu eðli, geri ekki annað en ýta undir firringu, einangra fólk og gera það vansælt og einmana. Mér dettur þessi frábæri pistill Írisar Erlingsdóttur í hug í því sambandi. Við eigum að hlusta vandlega á fólk eins og Pál Skúlason og sameinast um að byggja upp manneskjulegt samfélag.
Ágætu hlustendur...
Ég hef verið að velta fyrir mér hugtökunum siðferði, réttlæti, samkennd og fleiru, sem frjálshyggja og einstaklingshyggja hafa rutt úr vegi í íslensku samfélagi undanfarin ár - jafnvel áratugi. Af því tilefni dró ég fram sjónvarpsviðtal Evu Maríu Jónsdóttur við hugsuðinn og heimspekinginn Pál Skúlason. Eflaust muna margir eftir viðtalinu, sem sýnt var milli jóla og nýárs. Ég birti það á bloggsíðunni minni seinna í dag ef einhver vill rifja það upp.
Þetta er stórmerkilegt viðtal þar sem Páll veltir meðal annars fyrir sér mögulegum orsökum og afleiðingum hrunsins, skoðar málið frá ýmsum hliðum og spáir í framtíðina. Í viðtalinu kemur fram að eitt af því sem olli efnahagshruninu, var að við höfðum frjálsan markað, en hvorki lög né reglur sem dugðu. Páll hefur sérstaklega gagnrýnt stjórnmálamenn fyrir að hafa ekki veitt viðnám og spilað bara með. Það sýni að eitthvað mikið sé að í íslenskum stjórnmálum. Hann vill hafa þar fólk með heilbrigða skynsemi sem þekkir þjóðlífið. Fólk, sem áttar sig á því hvernig almenningur hugsar... skilur hvernig fólk hugsar til dæmis í atvinnulífinu og menningarheiminum. Páll segir atvinnustjórnmálamenn einangrast frá þessum veruleika og líta svo á, að þeir eigi að hugsa fyrir fólk.
En hugsum við ekki sjálf? Þarf að hugsa fyrir okkur? Hvernig myndum við okkur skoðun? Jú... við lesum, horfum, hlustum, fylgjumst með - og fáum heildarmynd. Síðan drögum við ályktanir út frá öllu mögulegu, eins og reynslu, þroska, tilfinningum og skynjun okkar á því, hvernig samfélagi við viljum búa í.
Það er reyndar staðreynd, að sumir vilja láta hugsa fyrir sig. Þeir fylgja leiðtoga lífs síns, hvort sem hann er af þessum heimi eða öðrum, gapa upp í hann gagnrýnislaust, trúa hverju orði sem af vörum hans hrýtur - hversu fáránleg sem þau eru - og gera skoðanir leiðtogans að sínum - hversu heimskulegar sem þær eru. Það er sorglegt að horfa upp á þetta og ég vildi óska þess að allir sem byggja okkar litla land gætu fylgt þeirri ágætu reglu að ástunda ævinlega gagnrýna hugsun, leggja saman tvo og tvo upp á eigin spýtur og gæta þess að láta ekki ljúga sig fulla.
Er ekki rétt að við spyrjum okkur öll hvernig samfélag við viljum byggja upp á rústum þess sem hrundi. Viljum við endurtaka leikinn og hafa græðgina að leiðarljósi? Græðgina, sem viðheldur stöðugri löngun, sem aftur veldur því að við upplifum aldrei ánægju - því græðgin vill alltaf meira. Hún fær aldrei nóg og í sinni verstu mynd, sem við kynntumst rækilega hér á Íslandi, svífst hún einskis í eilífri ásókn eftir meiru. Græðgin ýtir síðan undir ójöfnuð og óeðlilega samkeppni á kostnað samvinnu.
Eða viljum við annars konar samfélag? Samfélag sem byggist á samkennd, virðingu, samvinnu, jöfnuði og samhjálp. Samfélag, þar sem allir geta notið heilsugæslu og menntunar, þar sem annast er vel um börn og eldri borgara og þar sem traust ríkir manna á milli. Viljum við samfélag þar sem fólk fær mannsæmandi laun, þar sem lög og reglur ná yfir alla, ekki bara suma - og þar sem sumir eru ekki jafnari en aðrir? Viljum við samfélag þar sem grunngildi samfélagssáttmálans, réttlætið, er í hávegum haft?
Er ekki kominn tími til að draga fram það sem sameinar okkur, í stað þess að einblína á það sem sundrar okkur? Að stjórnmálamenn og við, fólkið í landinu, stígum upp úr skotgröfunum og förum að vinna saman.
Hugsum málið.
Spjall þeirra Páls Skúlasonar og Evu Maríu vakti mikla athygli eftir útsendingu þáttarins 28. desember. Ekki síst orð Páls um landráð af gáleysi - sem hann viðhafði reyndar líka í erindi sínu, Lífsgildi þjóðar, á jóladag (viðfest hér að neðan). Miðað við alvarleika málsins vil ég gjarnan taka dýpra í árinni og kalla gjörningana landráð af vítaverðu gáleysi - og dæma samkvæmt því. Svo finnst mér rétt að rifja upp þetta frábæra viðtal Evu Maríu við Pál. Ég fékk leyfi þeirra beggja til birtingar strax daginn eftir útsendingu, en þetta hefur dregist dálítið hjá mér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
16.7.2009
Málefnið er...
Ja, um hvað snerist Málefnið? Icesave eða Davíð? Þátturinn á Skjá einum vakti gríðarlega athygli, svo mikla að Morgunblaðið sagði að Davíð Oddsson hefði sett skjáinn á hliðina. Ég náði a.m.k. engu sambandi við Skjáinn á meðan sýningu stóð og sá ekki þáttinn fyrr en daginn eftir.
En ætla mætti að þátturinn hafi snúist um Davíð Oddsson en ekki Icesave... sem ég held að hafi nú reyndar verið ætlun Sölva og félaga. Mikið hefur verið fjallað um persónu Davíðs eftir sýningu þáttarins, en minna um það sem þar kom fram um Icesave-samninginn. Vissulega kom Davíð inn á Icesave, en virtist búinn að gleyma ýmsu, þar á meðal eigin ábyrgð sem forsætisráðherra og síðan seðlabankastjóra. Sumum reynist erfiðara en öðrum að líta í spegil og enn aðrir virðast ekki eiga neinn spegil. Er ekki rétt að horfa aftur á þáttinn.
Fréttaskýringin um Icesave-málið
Davíð Oddsson
Árni Páll, Bjarni Ben, Sigmundur Davíð og Steingrímur Joð
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
15.7.2009
Íslenska sumarið
Ég fór í tjaldútilegu fyrir tveimur árum. Langa yfirreið um Vestfirði í björtu og fallegu veðri, en fremur svölu. Myndin hér að neðan er grátlega lýsandi fyrir ástandið á tjaldstæðum á Íslandi. Ég upplifði þetta reyndar ekki eina einustu nótt því ég hrökklaðist í burtu frá hverju tjaldstæðinu á fætur öðru af þessum sökum. Kærði mig ekki um að kúldrast milli dekkja sem voru miklu stærri en litla tjaldið mitt og fann mér betri staði. Um daginn var ég aftur á ferðinni - þó ekki á tjaldstæðum - og sá enn fleiri, stærri og breiðari einbýlishús á hjólum en nokkru sinni fyrr. Þakkaði mínum sæla fyrir að mæta þeim ekki á rétt rúmlega einbreiðum malarvegum með þverhnípi á aðra hönd. Eins og sjá má er það Halldór Baldursson sem hittir naglann á höfuðið eins og venjulega.
Þessi fannst mér líka góð lýsing á þróun íslenskrar karlmennsku síðasta rúma árþúsundið. Mér varð hugsað til þessa pistils, Páskahugvekju í Íslendingasagnastíl með goðafræðiívafi, þar sem þróuninni er lýst örlítið nánar. Hvað er það sem dregur karlmenn að útigrillinu, helst með bjór í hönd, þótt þeir komi jafnvel aldrei að matseld annars? Ég játa fullkominn skilningsskort á fyrirbærinu, enda á ég ekki útigrill.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
14.7.2009
Draumsýn einfeldningsins
Eftir að bankarnir hrundu og ríkið tók þá yfir (munið að við erum ríkið) hélt ég að auðvelt yrði að virða vilja og ákvarðanir ríkisstjórnar og ráðherra. Ég hélt að loforð þeirra og fögur orð um að hjálpa skuldsettum almenningi og heimilunum í landinu yrðu efnd. Meðal annars í þeim tilgangi að fólk yrði ekki gjaldþrota í hrönnum og til að hindra landflótta.
Ég hélt líka að tekið yrði hart á útrásardólgum og fyrirtækjum, þar sem óbeisluð græðgi hafði verið í fyrirrúmi. Þar sem tekin höfðu verið alls konar lán, eignir veðsettar upp í rjáfur og peningunum, afrakstri græðginnar, jafnvel í einhverjum tilfellum stungið í vasa stjórnenda eða eigenda fyrirtækjanna og komið fyrir í skattaskúmaskotum.
Þetta virðist hafa verið draumsýn einfeldningsins.
Allir vita um kröfu eða ósk Björgólfsfeðga um að fella niður helming af útistandandi skuld þeirra vegna kaupa á Landsbankanum áramótin 2002-2003. Og allir vita líka að krafa þeirra er enn óafgreidd í höndum m.a. Huldu Styrmisdóttur stjórnarformanns Nýja Kaupþings, dóttur Styrmis Gunnarssonar vinar Björgólfs eldri (vandi Íslands í hnotskurn). En Morgunblaðið, DV og fleiri fjölmiðlar hafa sagt frá tveimur fyrirtækjum sem hafa flúið skuldir sínar og skilið þær eftir í gömlu bönkunum (les.: hjá okkur skattgreiðendum), en flutt eignir og verðmæti yfir á nýjar kennitölur með vitund og vilja bankanna. Semsagt - kennitöluflakk og byrjað með hreint borð, skuldlaus. Þetta eru bara tvö dæmi af... hve mörgum? Maður spyr sig...
Hér er umfjöllun Agnesar um hið dularfulla fyrirtæki Stím.
(Smellið þar til læsileg stærð fæst.)
Hér segir svo DV frá kennitöluflakki eigenda Stíms, sem neita þó að Stím komi málinu við.
(Smellið þar til læsileg stærð fæst.)
Hér segir Agnes frá fyrirtækinu Soffaníasi Cecilssyni á Grundarfirði og gríðarlegri skuldsetningu þess.
(Smellið þar til læsileg stærð fæst.)
Og hér segir frá kennitöluflakki Soffaníasar Cecilssonar og hvernig þeir komu sér undan skuldum.
(Smellið þar til læsileg stærð fæst.)
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar, spurði viðskiptaráðherra á Alþingi í gær um kennitöluflakk með vitund og vilja bankanna. Ráðherra sagði engar reglur til um slíkt flakk, en að kennitöluskipti væri oft eðlileg leið til að bjarga verðmætum og tryggja áframhaldandi rekstur.
Þetta er athyglisvert svar - bjarga verðmætum - í ljósi fréttar sem birtist í Morgunblaðinu í morgun og sagði frá hjónum í fjárhagsvanda sem fengu enga fyrirgreiðslu hjá bankanum sínum. Þeirra saga er ekki frábrugðin allmörgum sögum sem ég hef heyrt og er gjarnan ástæða þess að fólk hefur flúið land.
Ég má til með að spyrja í þessu samhengi hvernig við metum verðmæti. Hvað eru verðmæti? Ég hefði haldið að gríðarleg verðmæti fælust í fólkinu sjálfu og því mikilvægt að koma málum þannig fyrir að það geti lifað hörmungarnar af. En svo virðist ekki vera. Verðmætin felast í fyrirtækjunum og eigendum þeirra, ekki almenningi. Hann má éta það sem úti frýs og borga síðan skuldir fyrirtækjanna.
Vissulega er mikilvægt að fyrirtæki geti lifað af til að veita fólki atvinnu. En það er gagnslaust að bjarga fyrirtækjunum ef fólkið sem á að vinna hjá þeim hefur flúið land. Er ekki rétt að ríkisstjórnin - eða þeir fulltrúar hennar sem stjórna bönkunum - fari að taka hlutverk sitt gagnvart skuldsettum almenningi alvarlega? Að farið verði að huga að réttlætinu og grundvelli samfélagssáttmálans sem getur ekki falist í viðlíka hrópandi óréttlæti. Er ekki tímabært að endurskoða verðmætamatið?
Morgunblaðið í dag - Hjón fá enga lausn í bankanum.
(Smellið þar til læsileg stærð fæst.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
13.7.2009
Svikamyllan á Suðurnesjum
Í mars 2008 skrifaði ég pistil með þessari sömu fyrirsögn, Svikamyllan á Suðurnesjum. Í pistlinum fór ég yfir svikamyllu Árna Sigfússonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, forkastanleg vinnubrögð hans og endalausar blekkingar. Næsti pistill, Sjónarspil eða svikamylla - breytir engu, var beint framhald af hinum fyrri.
Enn er Árni Sigfússon í blekkingarleik, en nú snýst málið um að redda rassinum á sjálfum sér, pólitískri framtíð sinni og þar með öllum launuðu bitlingunum. Og væntanlega buddu nokkurra vina í hópi útrásardólga - á kostnað Reyknesinga og annarra Íslendinga. Árni er búinn að fara illa með fjárhag Reykjanesbæjar og bæjarfélagið mun vera ansi illa statt. Hann seldi t.d. húseignir bæjarins inn í Eignarhaldsfélagið Fasteign, þar sem hann situr sjálfur sem stjórnarformaður. Nú þarf Reykjanesbær að borga stórfé í leigu mánaðarlega til Fasteignar sem, þrátt fyrir fögur fyrirheit, mun vera í miklum fjárhagskröggum og hefur ekki staðið við skuldbindingar sínar eins og sjá má t.d. hér og hér.
Fasteign ehf. var, eins og sjá má í tilvísuðum fréttum, í samkrulli við gamla Glitni banka, sem lánaði Fasteign 100 milljónir af peningum Reykvíkinga án leyfis borgarstjórnar. Sjóður í vörslu Glitnis var líka annar af stærstu hluthöfunum í hugarfóstri útrásardólganna í Geysi Green Energy, sem er á brauðfótum en ætlar samt í milljarðaviðskipti við Árna fyrir hönd Reykjanesbæjar. DV fjallaði um tengsl manna og völdin í Geysi Green hér. Það er ekki bara mér sem finnst skítalykt af málinu - og það stæk. Ég hélt satt að segja að REI-málið hefði verið mönnum víti til varnaðar. Sjálfri finnst mér þetta lykta af spillingu þar sem nokkrir félagar ætla að maka krókinn. Annað eins hefur nú gerst undanfarin ár.
Nokkuð hefur verið skrifað um þessar sjónhverfingar bæjarstjórans og vina hans í blöð og netmiðla. Ég tók saman nokkur sýnishorn hér og birti samanklipptar sjónvarpsfréttir um málið hér og vísaði í vefsíður og skrif annarra um málið.
Nýjasti farsinn í svikamyllunni á Suðurnesjum er, að bæjarstjórinn boðar til íbúafundar eða borgarafundar í Reykjanesbæ. Fundurinn er boðaður í gærmorgun - á sunnudagsmorgni og er strax í kvöld, mánudagskvöld. Fyrirvarinn er enginn. Þá á að "kynna" fyrir íbúum Reykjanesbæjar eina stærstu og mikilvægustu ákvörðun sem tekin hefur verið fyrir þeirra hönd - framsal orkuauðlindarinnar á Reykjanesi, sem ætti að vera þjóðareign, til a.m.k. 65 ára með mögulegri framlengingu um önnur 65, eða til 130 ára. Það er heil öld og 30 ár að auki! Fimm kynslóðir! Hinir heppnu, sem eiga að fá að græða á auðlindinni, eru Geysir Green Energy og kanadíska fyrirtækið Magma Energy. Útrásardólgar og erlendir fjárfestar (eða leppar innlendra?). Var frekari einkavæðing auðlindanna inni í hugmyndum Íslendinga um Nýja Ísland? Ekki minnist ég þess.
Og bæjarstjórinn er ekkert að spá í jafnvægið í málflutningnum. Framsögumenn eru 5, þar af Árni og fjórir félagar hans og skoðanabræður - en aðeins einn maður sem er andsnúinn gjörningnum. Meðmælendurnir, auk Árna, eru Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green, Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku og Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs og aðstoðarmaður Árna Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra. Andmælandi einkavæðingarinnar og framsals orkuauðlindanna á fundi bæjarstjórans er aðeins einn, Guðbrandur Einarsson. Er þetta lýðræðishallinn í Reykjanesbæ í hnotskurn?
Íbúar Reykjanesbæjar eru engir kjánar. Þeir hljóta að vera farnir að sjá í gegnum grímu og fagurgala bæjarstjórans og taglhnýtinga hans. Þessir menn eru ennþá fastir í frjálshyggju-einkavæðingarbrjálinu og sjást ekki fyrir. Það verður að stöðva þá áður en þeim auðnast að glata auðlindum Reykjaness og ofurselja íbúa þess óþekktum, gráðugum fjárfestum. Er ekki komið nóg af slíku á Íslandi? Ég skora á alla Reyknesinga - og aðra Íslendinga - að fjölmenna á íbúafund bæjarstjórans og stöðva þessa fásinnu.
Ég fékk leyfi Guðbrands Einarssonar til að birta grein eftir hann úr prentútgáfu Víkurfrétta 2. júlí sl. Lesið það sem Guðbrandur hefur fram að færa:
Skemmdarverk
-fyrir hverja vinna sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ
Í fréttatilkynningu sem komin er fram segir að Reykjanesbær og Geysir Green Energy eigi nú í viðræðum um kaup bæjarins á landareignum og auðlindum HS Orku til að tryggja að auðlindin verði í opinberri eigu eins og segir í svo fallegum orðum í þessari fréttatilkynningu. Ef að þetta væri nú eini tilgangur viðræðnanna milli þessara aðila væri manni rótt, en á bak við þennan fagurgala á að ráðast í milljarða viðskipti með eignarhluti sem munu hafa afdrifaríkar afleiðingar marga áratugi fram í tímann eða á maður kannski að segja um aldir.
Auðlindir í okkar eigu?
Reykjanesbær ætlar að kaupa landið sem hefur að geyma þær auðlindir sem Hitaveitan hefur verið að nýta og hefur verið í hennar eigu. Fyrir það ætlar Reykjanesbær að borga tólfhundruð milljónir króna. Til þess að þetta nái fram að ganga ætla þessir snillingar sem þessu stjórna að gefa út skuldabréf til 10 ára með 5% vöxtum. Greiðslur af slíku skuldabréfi myndu, í 5 % verðbólgu, verða frá 150 milljónum upp í 230 milljónir á ári.
Mikil ánægja virðist ríkja meðal sjálfstæðismanna með að við skulum geta haft 50 milljónir upp í þetta með leigutekjum af auðlindunum, en hvar ætla sjálfstæðismenn að taka mismuninn svo að hægt verði að standa í skilum? Ætla þeir kannski að hækka leikskólagjöld?
Kaup á landi er feluleikur
Að minni hyggju er sala á þessu landi til Reykjanesbæjar ekkert nema feluleikur. Það stendur til að gera samning við GGE um að þeir hafi nýtingarréttinn á auðlindunum í 65 ár og því til viðbótar hafa þeir (eða þeir sem eiga allt dótið á þeim tíma) rétt til þess að framlengja í 65 ár í viðbót. Við Suðurnesjamenn ætlum því að afsala okkur nýtingarrétti á auðlindum okkar til einkaaðila í a.m.k 130 ár. Var það nokkuð til umræðu á þeim íbúafundum sem bæjarstjóri stóð fyrir nýverið?
Hvernig á svo að borga fyrir herlegheitin?
Skv. framkomnum upplýsingum er meiningin að borga fyrir allt þetta með eftirfarandi hætti. Þrír milljarðar eiga að koma í peningum. Skv. upplýsingum sem ég hef undir höndum, er gert ráð fyrir að sú greiðsla geti verið að berast fram á næsta ár. Svo ætlum við Reyknesingar að kaupa meira í HS veitum fyrir u.þ.b 4 milljarða af GGE.
En ég verð að spyrja að því hvers vegna í ósköpunum ættum við að greiða 4 milljarða til þess að eignast meira í HS veitum sem er fyrirtæki sem sér um dreifingu á orku og vatni til margra byggðarlaga. Nægir ekki að eiga þriðjung í því fyrirtæki eins og við eigum nú? Eða er að koma í ljós það sem ég hef áður sagt að verið sé að koma því þannig fyrir að við munum að endingu eiga bara rörin?
Skuldabréf fyrir restinni
Meiningin er síðan að gefa út skuldabréf fyrir restinni. Það skuldabréf á samt ekki að vera á sömu vöxtum og við verðum að greiða vegna landakaupanna heldur mun GGE njóta betri kjara í viðskiptum sínum við okkur heldur en RNB við þá. Það má síðan spyrja að því hverjum Reykjanesbær ætlar að lána 6 milljarða til 7 ára.
Er um stöndugt fyrirtæki að ræða sem líklegt er að muni vaxa og dafna í framtíðinni? Eftir því sem ég best veit stendur GGE á brauðfótunum einum. Þeir aðilar sem stóðu að fyrirtækinu eru annað hvort orðnir gjaldþrota eða komir í greiðslustöðvun. Eru einhverjar líkur á því að staðið verði við þessar skuldbindingar nema því aðeins að erlendir aðilar eignist GGE að stórum hluta eða öllu leyti og þá um leið nýtingarréttinn til orkuöflunar á Suðurnesjum til næstu 130 ára. Ég vissi ekki betur en að þeir Geysismenn hefðu viljað eignast lítinn hlut í Hitaveitunni svona til þess að geta sýnt hana í útrásinni sem þeir ætluðu sér að leggjast í. En nú virðist ekkert annað eftir hjá þeim en að leggja undir sig orkuhluta Hitaveitu Suðurnesja með dyggri aðstoð Árna Sigfússonar bæjarstjóra í Reykjanesbæ.
Eignir Reykjanesbæjar að klárast
Það eru margir til að spyrja hvort ekki sé réttlætanlegt að selja við þessar aðstæður sem nú eru í efnahagslífi þjóðarinnar. Það er auðvitað gild spurning, en ég vil leyfa mér að spyrja á móti hvort það sé ásættanlegt að núverandi meirihluti sem ráðið hefur ríkjum í Reykjanesbæ frá árinu 2003, skuli leyfa sér að ganga svona á eigur bæjarins. Þess er skammt að bíða að eigið fé sveitarfélagsins, sem orðið hefur til með sparnaði undangengna áratugi verði uppurið, vegna algjörs getuleysis þessara aðila til þess að hafa heimil á útgjaldafýsn sinni.
Hvaða leyfi hafa þeir gagnvart komandi kynslóðum til þess setja sveitarfélagið í þessa stöðu?
Nýtt REI-mál í uppsiglingu
Þessir aðilar sem nú höndla með eignir Reykjanesbæjar höfðu aðkomu að REI málinu svokallaða á sínum tíma. Bæði bæjarstjórinn í Reykjanesbæ og forstjóri GGE sátu við hringborðið og véluðu um að Hitaveita Suðurnesja færi inn í REI. Sem betur fer stöðvuðu Reykvíkingar það. Nú er hins vegar annað REI-mál í uppsiglingu komið af stað með hluta leikenda úr því leikriti. Verður þetta keyrt í gegn án þess að íbúar hafi eitthvað um þetta að segja?
Var það þetta sem sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ buðu uppá í síðustu kosningum?
Guðbrandur Einarsson
oddviti A-listans í Reykjanesbæ
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
11.7.2009
VARÚÐ - Nýtt REI-mál í uppsiglingu!
Öðrum pistlinum mínum var útvarpað í gærmorgun á Morgunvaktinni á Rás 2. Sá fyrsti er hér. Aftur kom athugasemd frá tæknimanni eftir prufurennsli: "Þú ert ekki að flytja þetta í fyrsta sinn, er það?" Nei, ég hafði rennt yfir þetta heima með vinkonu mína í símanum og skeiðklukku til að tímamæla. Var innan tímamarka í fyrstu tilraun og ánægð með það. Tæknimanninum fannst flutningurinn leikrænn, kannski af því mér er mikið niðri fyrir.
Kjarni pistilsins er einkavæðing og útsala orkuauðlindanna okkar. Spilltir stjórnmálamenn að reyna að redda eigin klúðri og þeir halda áfram að hygla sér og sínum. Útrásarauðjöfrar eru enn á ferðinni - í dulargervi að því er virðist. Ég er búin að skrifa nokkra pistla undanfarið um auðlindamálin, virkjanirnar og náttúruna, auk fjölmargra pistla 2007 og 2008. Við verðum að vera vel vakandi og standa vörð um aleigu okkar, náttúruna og auðlindir hennar. En hér er pistillinn - hljóðskrána hengi ég neðst í færsluna fyrir þá sem vilja hlusta líka:
Ágætu hlustendur...
Ég ætla ekki að tala um hin stórfelldu, meðvituðu og skipulögðu bankarán sem framin voru á Íslandi. Bankaránin, sem framin voru innan frá af eigendum og stjórnendum bankanna með vitund, vilja og jafnvel aðstoð handónýtra embættismanna og spilltra stjórnmálamanna. Bankarán, sem við - almenningur og skattgreiðendur á Íslandi - þurfum nú að bera skaðann af, meðal annars í formi hærri skatta, verðhækkana og skertrar þjónustu.
Bankaránin, sem ég ætla ekki að tala um, eru líkast til einu bankarán mannkynssögunnar þar sem vitað er hverjir bankaræningjarnir eru, en þeim leyft að lifa í friði og vellystingum praktuglega fyrir ránsfenginn, án þess að hróflað sé við þeim eða reynt að gera téðan ránsfeng upptækan. Enda líklega löngu búið að koma honum í öruggt skjól. Til þess hafa ræningjarnir haft nægan tíma.
Ég ætla heldur ekki að tala um öll hin ránin sem framin hafa verið undanfarin ár. Til dæmis rán, þar sem gráðugir fjárhættuspilarar keyptu gamalgróin fyrirtæki - sum með digrum sjóðum. Fjárhættuspilararnir ryksuguðu úr þeim hvern eyri til að leika sér með á alþjóðlegum testosterón-mörkuðum þar sem keppnin um hver átti dýrustu einkaþotuna, snekkjuna eða glæsihöllina hljóp með menn í gönur. Og enn borgum við brúsann, íslenskur almenningur.
Ég ætla ekki að minnast á minni ránin, sem eru þó ekki síður alvarleg. Ránin, þar sem fólk svindlar á náunganum - til dæmis með því að svíkja undan skatti eða þiggja atvinnuleysisbætur þrátt fyrir að vera í fullri vinnu... á svörtu. Á Íslandi hefur alltaf þótt svolítið flott að svíkja undan skatti eða spila á kerfið - sjálfum sér til framdráttar. Sá sem dáist að slíkum svikum áttar sig líklega sjaldnast á því, að svikarinn er um leið að leggja þyngri byrðar á hann, náungann. Heiðarlega manninn sem er kannski svo heppinn - eða óheppinn, það fer eftir hugarfari og siðferði - að geta ekki svikið undan skatti eða spilað á kerfið sjálfur. Fólk verður að átta sig á, að við erum ríkið. Sá sem stelur af ríkinu stelur af okkur.
Nei, ég ætla að tala um annars konar rán og engu skárra. Rán á ómetanlegri náttúru okkar og auðlindum, hvort sem er í formi jarðhita, fallvatna eða hreina og tæra vatnsins okkar. Auðlindirnar eru aleiga okkar Íslendinga og við verðum að standa vörð um þær. Okkur ber skylda til að varðveita aleiguna fyrir komandi kynslóðir.
Á Suðurnesjum stendur nú bæjarstjóri nokkur fyrir einkavæðingu auðlinda og sölu á þeim til innlendra og erlendra gróðapunga. Hann er búinn að klúðra fjármálum sveitarfélagsins, vantar pening og þarf að redda sér fyrir kosningarnar á næsta ári. Það hvarflar ekki að mér að kanadíski jarðfræðingurinn, sem auðgaðist gríðarlega á silfurnámum, meðal annars í Suður-Ameríku, ætli að fjárfesta í jarðorkufyrirtæki á Íslandi sér til ánægju og yndisauka. Ó, nei, maðurinn ætlar að græða á auðlindinni okkar og stinga gróðanum í eigin vasa. Og hinir kaupendurnir líka.
Nýtt REI-mál virðist vera í uppsiglingu á Suðurnesjum. Spilltir stjórnmálamenn og aðrir gráðugir siðleysingjar ætla að selja auðlindina okkar í hendur manna, sem hugsa um það eitt að græða peninga - og við borgum brúsann. Erum við til í það - enn og aftur?
Íslendingar verða að ákveða sig. Viljum við eiga, nýta og njóta arðsins af auðlindum okkar sjálf - eða viljum við láta innlenda eða erlenda gróðapunga og fjárglæframenn arðræna okkur?
Okkar er valið.
Hér er svo að lokum úrklippa úr 24 stundum frá 12. október 2007 - til umhugsunar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)