29.3.2009
Geir kyssir á bágtið
Það var einhver geðklofabragur á samkundu Sjálfstæðisflokksins í morgun þegar Geir Haarde sté í pontu og bar blak af Vilhjálmi, vini sínum. Geir mótmælti orðum foringjans frá í gær - án þess að nefna hann á nafn - og sama hjörðin og hyllti foringjann ógurlega undir og eftir ræðu hans í gær stóð nú upp og tók undir ávítur Geirs á þennan sama foringja. Ég botna ekkert í þessu fólki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
28.3.2009
Mín að telja afrek öll...
Oft hefur besti vinur Hannesar Hólmsteins lagst lágt - ótrúlega lágt - en aldrei sem nú. Ef til vill var þetta síðasta ræða hans á landsfundi flokksins sem ól hann við barm sér og kom honum til æðstu metorða. Hann hélt þeim sama flokki, og þjóðinni allri, í járnkrumlu sinni í tvo áratugi og neitaði að sleppa. Allt sem íslenska þjóðin á nú við að stríða er hans verk að einu eða öðru leyti. Samherjar jafnt sem andstæðingar óttuðust hann því hann skirrtist ekki við að misbeita valdi sínu ef hann taldi sér misboðið eða ef honum var mótmælt. Þeir óttuðust hárbeitta, háðslega eiturtungu hans sem hann beitti óspart til að upphefja sjálfan sig með því að niðurlægja aðra. Það var - og er - hans stíll og stjórnunaraðferð.
Ég hélt... nei, ég vonaði að þessi mögulega kveðjuræða hans yrði á vitrænum, skynsömum nótum - því maðurinn er langt frá því að vera illa gefinn - og ákvað því að hlusta í beinni í dag. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum og satt best að segja afskaplega döpur. Hann hafði þarna kjörið tækifæri til að kveðja með reisn en greip það ekki. Þess í stað kaus hann að skjóta eitruðum lygaörvum í allar áttir, ýja að og gefa í skyn eins og hans er reyndar siður, uppnefna fólk og hæðast að því. Hann gerði ekkert upp, horfði ekki til framtíðar, veitti enga von - ekki einu sinni flokksmönnum sínum. Þetta var sorglegt og jafnvel enn sorglegra að sjá hjörðina klappa og hlæja að skítnum og soranum sem vall upp úr þessum fyrrverandi leiðtoga hennar.
Miðað við nánast ævilangt álit mitt á manninum hefði mér átt að finnast þetta bara ágætt. Alveg í stíl við allt hitt. Hann sýndi enn og aftur sitt rétta andlit. En mér fannst þetta dapurleg endalok á löngum ferli manns, sem hefði getað orðið stórmenni en endaði sem lítill, bitur, reiður karl með Messíasarkomplex sem getur ekki með nokkru móti sætt sig við og horfst í augu við veruleikann, hvað þá sjálfan sig. Og þjóðin er rústir einar eftir valdatíð hans.
Þegar hann lauk máli sínu kom mér vísa í hug, sem er í gamalli bók sem ég á í fórum mínum, og fannst hún eiga glettilega vel við tilefnið. Hún mun hafa verið ort í orðastað hrokafulls valdsmanns fyrir um 100 árum.
ekki' er nokkur vegur!
ég er guðdómlegur.
Bloggar | Breytt 29.3.2009 kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
28.3.2009
Fleiri gullkorn af landsfundi
Það er svosem ekkert leyndarmál að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið auðlindum sjávar undanfarna áratugi í samvinnu við Framsóknarflokkinn - með skelfilegum afleiðingum. Þessir flokkar stóðu að einkavæðingu auðlindarinnar, heimiluðu síðan brask með hana og veðsetningar á henni. Kvótinn og óveiddur fiskur mun nú vera veðsettur mörg ár fram í tímann, skuldirnar taldar í hundruðum milljarða og sagt er að "tæknilega" sé kvótinn nú meira og minna í eigu erlendra lánadrottna bankanna. Þetta mun heita "skynsamleg nýting auðlinda" hjá sjálfstæðis- og framsóknarmönnum.
Eins og sjá má af myndbrotinu hér að neðan þykir eðlilegt og sjálfsagt innan Sjálfstæðisflokksins að hann hafi yfirráð yfir auðlindum sjávar. Enda er sagt að a.m.k. annar formannsframbjóðandinn sé tryggur fulltrúi og þjónn útgerðarmanna og kvótaeigenda. Þjóðareign - hvað?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
28.3.2009
Hógværð og lítillæti sjálfstæðismanna
Nú skilur maður betur hvernig Sjálfstæðisflokknum tókst að steypa þjóðinni í glötun. Var það kannski bæði stefnan OG fólkið eftir allt saman...? Hér er nú aldeilis ekki lítillæti eða hógværð fyrir að fara og eitthvað fleira virðist vanta upp á. Ætlar fólk að kjósa þetta?
Ræðubrot landsfundarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins
Minntist einhver á trúarbrögð og ofstæki?
Bloggar | Breytt 29.3.2009 kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
26.3.2009
Heimska eða vísvitandi misbeiting valds?
Við erum í djúpum skít, Íslendingar... það er óumdeilt. Fjárglæframenn hafa steypt þjóðinni í skuldafen með dyggri aðstoð sinnulausra eftirlitsaðila og rænulausra stjórnmálamanna. Frá upphafi hruns hefur verið hamrað á meintum björgunarhring okkar - auðlindunum - sem við eigum... eða hvað?
Nei, málið er ekki svo einfalt. Auðlindir hafsins voru gefnar frá okkur fyrir löngu. Þegar síðan leyft var að braska með þær voru þær endanlega glataðar og nú er svo komið að fiskurinn í sjónum er veðsettur mörg ár fram í tímann og skuldir sjávarútvegsins eru taldar hundruðir milljarða. Ekki beysinn björgunarhringur það.
Óspillt náttúra er auðlind sem vart verður metin til fjár. Engu að síður hefur verið einblínt á að eyðileggja hana með því að virkja fallvötnin og jarðgufuna til að selja rafmagn til stóriðju í hrávinnslu - og söluverðið er svo lágt að það má ekki segja frá því. Virkjanirnar eru reistar fyrir erlent lánsfé en arður álrisanna fluttur úr landi. Engin skynsemi, engin forsjálni. Væntanlega borgar almenningur brúsann með hækkuðu raforkuverði. Náttúrunni og andrúmsloftinu blæðir, hreina loftið okkar er mengað af útblæstri og eiturgufum og fólk er blekkt með loforðum um svo og svo mörg (hundruð eða þúsund) störf og blómlega byggð sem sannað hefur verið að gengur ekki eftir. Glæsilegur björgunarhringur, eða hitt þó heldur.
Svo er það vatnið sem nóg hefur verið af á Íslandi. Vatn er ein af verðmætustu auðlindum jarðar. Hin nýja olía, segja sumir. Mánudaginn 16. mars sl. hófst alþjóðleg vatnsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Istanbúl - sú fimmta í röðinni. Menn sjá ástæðu til að halda ráðstefnur um vatnsbúskap heimsins vegna þess að vatnið er forsenda lífs. Án vatns þrífst ekkert neins staðar, svo mikilvægt er að fara varlega og vel með það. Miðað við þá einföldu staðreynd eru Íslendingar auðjöfrar á heimsmælikvarða. Hér er frétt Borgþórs Arngrímssonar fréttamanns frá 16. mars og hlustið nú vel.
Tókuð þið eftir þessu: "Vatn verður sífellt verðmætara og eftirsóttara og ýmsir óttast að stór, alþjóðleg fyrirtæki reyni að læsa klónum í þessa auðlind."
Færa má rök fyrir því að stór, alþjóðleg fyrirtæki hafi klófest hluta af náttúruauðlindum Íslendinga með nýtingu á jarðvarma og fallvötnum fyrir álver. En hvað með vatnið? Hvernig ætlum við að stýra því? Ef ég skil rétt hefur gildistöku svokallaðra Vatnalaga - eða breytinga á þeim - verið frestað um óákveðinn tíma, og ég er ekki vel inni í efni þeirra. En eitt veit ég: Lítil sveitarfélög hafa hvorki burði né getu til að taka einhliða ákvarðanir um ráðstöfun verðmætra auðlinda, bera kostnað af viðamiklum rannsóknum og hafa eftirlit með framkvæmdum.
Ég skrifaði pistil í maí í fyrra sem fjallaði m.a. um hin umdeildu Skipulagslög frá 1997 og tilraunir til breytinga í átt að landsskipulagi. Þar kemur glögglega fram hve fáránlegt er að dvergvaxin sveitarfélög megi taka gríðarlega stórar og afdrifaríkar ákvarðanir sem hafa áhrif langt út fyrir þeirra svæði, jafnvel á allt landið og þjóðina í heild. Í pistlinum vitna ég í skipulagsstjóra ríkisins sem sagði í blaðagrein sem birt er í pistlinum: "Land er takmörkuð auðlind og nýting og notkun þess verður að hafa hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi."
Nú hefur DV vakið athygli á mjög vafasömum gjörningi í Snæfellsbæ, þar sem bæjarstjórnin, með nýjan oddvita Sjálfstæðisflokksins í NV kjördæmi í fararbroddi, hefur selt kanadískum fjárglæframanni vatnsréttindi til 95 ára - það er næstum heil öld! Fyrir 9 árum sögðust þeir ætla að vernda vatnsbólin, en nú er þessi maður kominn með klærnar í þau. Fyrsta fréttin sem ég fann um málið er hér, Skessuhorn 17. ágúst 2007. Þar er lofað störfum og rífandi gangi, eigi síðar en í mars 2008. Nú líður og bíður og í janúar sl. er þessi frétt í Mogganum. Enn er rætt við sama Íslendinginn, Sverri Pálmarsson, sem virðist vera frontur Kandamannsins Ottós Spork. Hér er mjög upplýsandi umfjöllun um bæði Ottó þennan og fleira er varðar vafasama umsýslu með þessa miklu auðlind, vatnið, og hættuna sem þjóðum stafar af gráðugum bröskurum.
Í viðbót við dæmin sem ég tók í áðurnefndum pistli er hér komið enn eitt dæmið um agnarsmátt sveitarfélag sem ráðskast með auðlind þjóðar og selur afnotin í tæpa öld. Ef við notum þá þumalputtareglu að 25 ár séu milli kynslóða eru þetta hvorki meira né minna en 4 kynslóðir afkomenda okkar.
Íbúafjöldi Snæfellsbæjar 1. des. 2008: 1.717.
Atkvæði á bak við meirihluta Sjálfstæðisflokks: 596.
Fjórir sjálfstæðismenn með 596 atkvæði á bak við sig taka í hæsta máta vafasama ákvörðun um að selja erlendum fjárglæframanni hluta af vatnsauðlind Íslendinga í heila öld. Þetta getur ekki með nokkru móti talist eðlilegt - hvað þá skynsamlegt.
Hér er fyrri grein DV sem birtist í fyrradag og hér fyrir neðan sú seinni sem birtist í blaðinu í dag. Eins og sjá má bíta sveitarstjórnarmenn Snæfellsbæjar höfuðið af skömminni með því að neita að gefa upp ákvæði samningsins. Slík leynd er alltaf vafasöm og býður heim grunsemdum um spillingu og mútur, sem er slæmt ef menn eru saklausir af slíku. Hvernig getur Ásbjörn Óttarsson ætlast til að vera kosinn á þing sem oddviti Sjálfstæðismanna í kjördæminu með svona mál í farteskinu?
Bloggar | Breytt 30.3.2009 kl. 02:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
25.3.2009
Hvað í andskotanum á þetta að þýða?!
Það fauk hressilega í mig þegar ég sá þessa frétt í gær. Undir venjulegum kringumstæðum myndi ég ekki verja þetta en... Hvað líður réttlætinu á Íslandi? Er þetta réttlætið í hnotskurn?
Hann var tekinn og dæmdur.
Þau (og fleiri) ganga laus og njóta lífsins á okkar kostnað
- hafa ekki einu sinni verið yfirheyrð!
Hvað í andskotanum á þetta að þýða?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
23.3.2009
Vítin eru til að varast þau
Eða svo segir máltækið. Það er aðeins mánuður til kosninga og margir hafa ekki ákveðið hvað kjósa skal. Stundum er auðveldara að átta sig á hvað maður vill ekki en hvað maður vill. Þá kemur útilokunaraðferðin að góðum notum.
Svona auglýsti Sjálfstæðisflokkurinn fyrir síðustu kosningar - Nýir tímar á traustum grunni:
Við vitum öll hvaða nýju tíma við fengum og á hve feysknum grunni var byggt. En "það var ekki stefnan sem brást, heldur fólkið" - segja sjálfstæðismenn. Þannig virðist sama stefnan eiga að vera rekin áfram - og meira að segja að mestu leyti framfylgt af sama fólkinu: Bjarna Ben., Kristjáni Þór, Illuga Gunnars, Guðlaugi Þór, Þorgerði Katrínu, Sigurði Kára, Birgi Ármanns og félögum þeirra. Vill fólk meira af því sama?
Sjálfur aðalfrjálshyggjupostulinn var í viðtali í Íslandi í dag í september 2007. Viðtalið hefur flogið víða um netheima undanfarnar vikur. Minna hefur borið á afneitun erfðaprinsins frá 3. mars sl. Ég klippti þá félaga saman og skaut inn nokkrum fréttaskotum héðan og þaðan - svona til að setja hlutina aðeins í samhengi.
Samviskuspurning: Viljið þið stefnuna OG fólkið aftur til valda?
Bloggar | Breytt 25.3.2009 kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (63)
22.3.2009
Silfur dagsins
Kannski er það bara ég sem er orðin svona lúin, en mér fannst gæta þreytu í Silfrinu í dag. Þetta er bara tilfinning, ekkert sem ég get bent á eða rökstutt. Ágætir gestir mestan part sem höfðu margt að segja en samt... ég veit það ekki. Þetta er bara ég, er það ekki?
Annars langar mig ofboðslega að fá eitt Silfur sem væri helgað kvótamálum eingöngu. Fiskurinn í sjónum er nú ein verðmætasta auðlind Íslendinga - eða var áður en hún var gefin. Afleiðingum þess að einkavæða fiskinn í sjónum og leyfa svo veðsetningu á kvótanum, kvótasvindlið, kvótasöluna og hvað seljendurnir gerðu við peningana, hve mikið af erlendum kvóta íslensk útgerðarfyrirtæki eru að veiða (og eiga?) o.s.frv., o.s.frv.
Steingrímur J. Sigfússon
Vettvangur dagsins - Þráinn, Sigríður I., Gunnar K. og Vésteinn G.
Gunnlaugur Jónsson til varnar frjálshyggjunni
Ragnar Aðalsteinsson um stjórnarskrá og stjórnlagaþing
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.3.2009
Sannleikurinn um formannsframboð Jóhönnu
Það sem gerðist á bak við tjöldin...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
21.3.2009
Skáldið skrifar um Sturlun
Stundum ættu sumir bara að þegja í stað þess að þenja sig og sýna innri auðn. Það á við um manninn sem skrifaði þessa makalausu grein og Skerjafjarðarskáldið Kristján Hreinsson tætir verðskuldað í sig í helgarblaði DV.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.3.2009
Mál dagsins
Mál dagsins 1 - 27.10.08
Mál dagsins 2 - 28.10.08
Mál dagsins 3 - 29.10.08
Mál dagsins 4 - 30.10.08
Mál dagsins 5 - 31.10.08
Mál dagsins 6 - 3.11.08
Mál dagsins 7 - 5.11.08
Mál dagsins 8 - 7.11.08
Mál dagsins 9 - 8.11.08
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.3.2009
Davíð og dularfulla minnisblaðið
Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að minnisblað Davíðs Oddssonar, sem hann minntist á í Kastljósi og á að innihalda viðvörun um bankakerfið, sé persónuleg eign Davíðs. Af því má draga þá ályktun að viðvörunin hafi verið sett fram í einkasamtali félaganna Davíðs og Geirs, ekki í samtali seðlabankastjóra og forsætisráðherra. Eða hvað? Fram kemur að minnisblaðið sé í vörslu Davíðs sjálfs, svo hann hefur tekið það með sér heim og neitar greinilega að láta það af hendi. Hvað fleira tók Davíð heim með sér úr Seðlabankanum? Maður spyr sig...
Hér er örstutt úrklippa úr Kastljósi 24. febrúar sl. og fréttum RÚV og Stöðvar 2 daginn eftir þar sem Geir Haarde er spurður um fullyrðingar og yfirlýsingar Davíðs. Athygli vekur að Geir svarar engu, heldur fer í kringum hlutina eins og köttur í kringum heitan graut og kemst upp með það. En hvers vegna talar Davíð um minnisblaðið í viðtali eins og um opinbert skjal sé að ræða en segir nú að það sé persónuleg eign og leynir því? Maður spyr sig...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.3.2009
Trúgjörn atkvæði fyrir kosningar
Nú er mikið ritað og rætt um framtíðina þótt það sé langt í frá búið að gera upp fortíðina og því óljóst á hverju framtíðin mun byggjast. Úrslit kosninganna í vor skipta miklu máli og mikið í húfi að Íslendingar geri sér grein fyrir því í hvernig landi þeir vilja búa - ekki aðeins hvað varðar efnahagsmál, siðferði og þvíumlíkt heldur einnig hvernig umgjörð þeir vilja utan um líf sitt og tilveru - og afkomenda sinna.
Hvenær áttar fólk sig á því hverskonar náttúruundur Ísland er? Hvenær skilur fólk að náttúran sjálf er auðlind sem ber að varðveita eins og kostur er og hlúa að af kostgæfni. Við verðum að viðurkenna að fleira er auðlind en það, sem hægt er að meta til fjár. Við eigum að skila af okkur landinu eins óspilltu og unnt er í hendur afkomenda okkar og gæta hófs í umgengni við það.
Hvenær rennur upp fyrir Íslendingum að álver eru ekki fyrirtæki sem skila miklum arði inn í landið eins og sýnt hefur verið fram á með pottþéttum rökum, t.d. af Indriða H. Þorlákssyni? Hvenær fattar fólk að álver skapa alls ekki þau mörg þúsund störf sem pólitískir rauparar halda fram um þessar mundir á sínum lágkúrulegu atkvæðaveiðum?
Grunsamlegur fjöldi starfa og ekki spurt um bakgrunninn
Hefur einhver blaða- eða fréttamaður grennslast fyrir um hvað er á bak við tölurnar sem nefndar eru þegar gortað er af þúsundum starfa við hvert álver - eða eru tölurnar kannski úr lausu lofti gripnar til þess eins að snapa atkvæði eða knýja á um framkvæmdir? Engum ber saman um þessar tölur og þær hækka stöðugt eftir því sem nær dregur kosningum. Finnst engum það grunsamlegt?
Og hefur fólk spáð í hverrar þjóðar þeir verða sem vinna við þessar framkvæmdir? Þegar Kárahnjúkavirkjun var í uppsiglingu var fullyrt að 80% starfsmanna yrðu Íslendingar og 20% útlendingar. Raunin varð þveröfug - þetta voru þrælabúðir erlends vinnuafls, um þær voru sífelldar deilur og arður af störfunum fór að mestu úr landi. Þessu megum við ekki gleyma því þótt hér sé atvinnuleysi núna er innlent vinnuafl einfaldlega of dýrt fyrir verktakana. Þeir vilja fá féð í sína vasa, ekki deila því með öðrum.
Rányrkja á ekkert skylt við skynsamlega nýtingu orkuauðlinda
Hefur fólk íhugað þá staðreynd að til að reka eitt álver þarf að reisa virkjanir - margar virkjanir? Þessum virkjunum fylgir gríðarleg, óafturkræf eyðilegging á náttúru Íslands - á landinu sem er sameign okkar allra og verðmætasta auðlind okkar. Og áttum okkur á því, að þegar talsmenn álvera og virkjana tala fjálglega um "skynsamlega" nýtingu orkuauðlinda úr ræðustól á Alþingi, í fjölmiðlum eða á fundum, þá er ekkert að marka það sem þeir segja. Því sú rányrkja sem fyrirhuguð er á sameiginlegum orkuauðlindum okkar er óralangt frá því að tengjast neinu sem kalla má skynsemi.
Sem dæmi um það má nefna að gufuaflsvirkjanir nýta einungis um 12-15% orkunnar - restin fer til spillis. Finnst fólki það viðunandi og skynsamleg nýting? Annað dæmi er eiturmengunin af völdum brennisteinsvetnis sem gufuaflsvirkjanir spúa út í andrúmsloftið í gríðarlega miklum mæli. Nú þegar hefur þurft að loka svæðum í kringum Hellisheiðarvirkjun vegna eituráhrifa frá virkjuninni og gróðurinn í kringum virkjunina, sem hefur tekið þúsund ár að myndast á úfnu hrauninu, er ýmist skemmdur eða dauður. Sama mun gerast fyrir norðan ef reisa á virkjanir til að knýja álver á Bakka. Varla felst mikil skynsemi í þessu, eða hvað?
Hvað kom fyrir Rúmenana á Hellisheiði?
Munið þið eftir Rúmenunum tveimur sem létust við störf sín við Hellisheiðarvirkjun í ágúst í fyrra? Ég minnist þess ekki að komið hafi fram hvert var banamein þeirra. Er ekki ráð að fjölmiðlar grafist fyrir um það og fái skýrslur frá lögreglu, sem og krufningarskýrslur?
Nú þegar eru fjórar virkjanir á suðvesturhorni landsins og aðrar fjórar á teikniborðinu, mislangt komnar. Suðvesturhornið er þéttbýlasta svæði landsins og þar búa um 2/3 hlutar þjóðarinnar. Nú þegar spúa virkjanirnar eiturefnum yfir okkur sem óvíst er hvaða áhrif hafa á heilsu okkar, velferð og lífsgæði. Viljum við meira af slíku þannig að hér verði orðið ólíft eftir nokkur ár - til þess eins að knýja álver í eigu erlendra auðhringa sem hirða arðinn og stinga í eigin vasa? Hrein orka? Nei.
Sérfræðingar telja að hraðinn á fyrirhugaðri orkuöflun, fjöldi virkjana og sú óheyrilega mikla og ágenga nýting auðlindarinnar sem áætluð er komi í veg fyrir endurnýjanleika og endurnýtanleika. Mögulega er hægt að keyra virkjanirnar í 3-5 áratugi og þá verði orkan upp urin. Ef til vill myndast hún aftur eftir hvíld í aðra 3-5 áratugi - ef til vill ekki. Það er einfaldlega ekki vitað. Endurnýjanleg orka? Nei.
Hvað eiga afkomendur okkar að gera að lokum
Hvað eiga afkomendur okkar að gera þegar við verðum búin að eyða allri framtíðarorku landsins í nokkur álver sem síðan pakka saman og fara þegar orkan hefur klárast og þau búin að gjörnýta auðlindirnar okkar? Er ekki rétt að spá aðeins í framtíðina hvað þetta varðar?
Álverum er hyglað af yfirvöldum á Íslandi og þau njóta ívilnana langt umfram það sem önnur fyrirtæki hafa möguleika á. Nýjasti skandallinn á því sviði er frumvarp til laga sem iðnaðarráðherra lagði fyrir yfirstandandi þing og vill keyra í gegn fyrir þinglok. Ríkisstjórn og orkufyrirtæki þurfa að taka risastór, erlend lán til að fjármagna byggingu og tækjakost virkjananna. Væntanlega eru íslenskir skattgreiðendur ábyrgðarmenn þessara lána ef eitthvað bregst og landið lagt að veði - eins og við séum ekki nógu skuldug fyrir. Vill einhver bæta á sig nokkrum milljörðum?
Krefjist skýringa og röksemdafærslu
Vaknið, kæru Íslendingar, og íhugið þessi mál í samhengi. Íhugið hvort þið séuð reiðubúin til að selja landið ykkar - eða það sem eftir er af því - í hendur erlendra auðhringa í gróðaskyni fyrir þá, ekki okkur. Þessi mál eru grafalvarleg og geta skorið úr um hve lífvænlegt Ísland verður í framtíðinni. Ekki taka trúanleg orð þeirra frambjóðenda sem segja orkuna okkar "hreina og endurnýjanlega" því miðað við hvernig staðið er að málum er það einfaldlega fjarri sanni. Ekki kokgleypa orð skrumara sem reyna að snapa atkvæði með því að nefna þúsundir starfa sem skapast við þetta eða hitt. Krefjist skýringa, krefjist röksemdarfærslu, krefjist þess að komið sé fram við ykkur sem skynsamar vitsmunaverur - ekki bara trúgjörn atkvæði fyrir kosningar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.3.2009
Íslands sjálftökumenn
Hvern hefði grunað fyrir nokkrum mánuðum að maður myndi leggjast yfir Tíund Ríkisskattstjóra og gleypa í sig hvert orð? Svona er lífið undarlegt. Nú var að koma út nýtt tölublað, en það síðasta kom út í desember. Ég klippti út nokkrar greinar úr nýjasta blaðinu, sem er stútfullt af áhugaverðu efni, og setti í albúm hér. Smellið þar til læsileg stærð fæst á hverri grein. En hér er leiðarinn og ég vísa í bloggfærslu Friðriks Þórs um leiðarann og mennina sem hann skrifa. Hengi .pdf útgáfu af blaðinu við færsluna ef fólk vill lesa það þannig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.3.2009
Réttlæti óskast - má kosta peninga
Þannig hljómaði umfjöllun Stöðvar 2 og Kastljóss 17. febrúar.
Svona var ástandið hjá sérstökum saksóknara 28. febrúar.
Svona er ástandið hjá honum 18. mars.
Er ekki rétt að fara að spýta í lófana og bretta upp ermar, gott fólk? Hvað þarf til? Hvað vantar upp á? Í fréttatímum, Kastljósi, Silfrinu, blöðunum, á netmiðlum og bloggsíðum undanfarinna mánaða má finna rökstuddan grun um óhæfuverk upp um alla veggi. Hvaða takka þarf að ýta á? Varla er sérstakur saksóknari að bíða eftir kosningunum.
Bloggar | Breytt 1.5.2009 kl. 02:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
18.3.2009
Saga Baugsveldisins
Þannig fór um sjóferð þá... Ísland í dag 18. mars 2009.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.3.2009
Stjórnmál og trúarbrögð
Egill Helgason birtir oft bréf á blogginu sínu frá öllu mögulegu fólki - ýmist nafnlaust eða undir nafni. Mörg eru frábær, upplýsandi og ótalmargt áhugavert hefur komið fram í þessum bréfum.
Rétt í þessu skaust ég til Egils og las nýjasta bréfið. Ég ákvað samstundis að hnupla því. Ekki bíða til morguns til að fá leyfi - og vona bara að mér verði fyrirgefið. Bréfið var frábært og minnti mig á úrklippu úr viðtali sem ég hef notað mikið í myndböndunum mínum og setningarnar úr því eru nú orðnar þjóðþekktar og fleygar sem dýrustu gullkorn. En hér er bréfið:
Eftir að hafa heimsótt vesturströnd USA í tvígang og upplifað þar mjög auðugt og opinskátt trúarlíf fór ég að hugsa. Í USA er ekki kurteist að spyrja fólk útí pólitískar skoðanir, það þykir ekki viðeigandi . Fólk er ekki mjög pólitískt en það er trúfólk á verulega opinskáan hátt. Hér heima aftur á móti eru allir til í að básúna sínum pólitísku hugsunum og skoðunum yfir landslýð en trúin er ekki rædd. Eitt sinn talaði ég við mann sem hafði farið nýlega í meðferð og hann kvartaði sáran yfir að ef hann trúði fólki fyrir sinni edrúmennsku væru allir til í að sympatísera og ræða það en ef hann minntist á að hann hefði fundið Jesú Krist í leiðinni urðu allir eins og kvikindi og losuðu sig úr umræðunni snimmhendis.
Síðan átti nýlega ég tal við sálfræðing sem fræddi mig um fimm stoðir mannlegs lífs. Ekki meira um það nema ein stoðin er einhvers konar andleg stoð. Þar leitar fólk af tilgangi sínum, veltir fyrir sér hvort til sé eitthvað stærra en það. Ein leið til að fullnægja þessari hvöt er að hjúfra sig inn í trúfélag þar sem eldgamalt og skipulagt stórveldi tekur við þér og af þér ábyrgðina á þessari leit. Þú ert komin/n heim til Guðs þar sem þú áttir alltaf að vera og einhverjir aðrir sjá um pappírsvinnuna. Þægilegir (og misvitrir) milliliðir milli þín og almættisins, þú ert örugg/ur og ert í réttum flokki. Og allir aðrir þá að sjálfsögðu í vitlausum flokki.
Og hér er mergurinn málsins. Getur verið að við íslendingar noti stjórnmálaflokka til að fullnægja þessari trúarþörf? Og í stað þess að vera hugsandi manneskjur með gagnrýninn hug, verður stuðningur við flokk spursmál um trú? Þú ákveður (...eða erfir ...eða velur af (efna)hagkvæmum ástæðum) að þínum hagsmunum sé best borgið inni í ákveðnum flokki einhvern tímann á æviskeiðinu. Þar er fólk sem er til í að vinna og ræða og hugsa og framkvæma það sem er því og þér fyrir bestu. Þú færð að vera með , þú tilheyrir og ert staðsett/ur á réttum stað". Án þess að þurfa að gera neitt sérstakt nema kjósa rétt" á fjögurra ára fresti. Og allir hinir eru að sjálfsögðu vitleysingar.
Það eru mýmörg dæmi um trúfélög, hér á landi sem annars staðar, sem hafa liðast í sundur vegna breyskleika mannsins. Þjóðkirkjan heldur samt alltaf velli. Eins liðast minni stjórnmálaflokkar sundur en þeir stóru halda alltaf velli. Vegna þess að fólk hefur varpað frá sér ábyrgðinni. Gert flokkinn að milliliði milli sín og umheimsins. Og í huga margra er það eins fjarstæðukennt að skipta um flokk og að skipta um trúfélag. Hrætt um álit annarra. Meðan við nennum ekki sjálf að hugsa halda flokkarnir velli og mala sér og sínum gull.
Þar sem mikilvægustu kosningar Íslandssögunnar standa fyrir dyrum finnst mér nauðsynlegt að fólk staldri við þetta. Gæti það gerst að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn myndi stjórn með vorinu?
Ég veit að það er í mannlegu eðli að sporna á móti breytingum og þekki fullt af fólki sem er frekar til í að koma sjálfu sér/hjónabandi sínu/ sambandi sínu við börnin sín/ þjóðinni sinni í algert þrot frekar enn að setjast niður og eiga heiðarlegt (og oftast verulega sársaukafullt) endurmat á sér og viðhorfum sínum. En hversu langt eigum við að ganga til að halda hlutunum í skorðum? Aldrei hafi verið gerð eins afdrifarík mistök og gerð voru af ráðamönnum síðustu ára. Samt heyrir maður merki þess að fólk ætli nú bara að kjósa sem fyrr og vona að það gangi betur næst.
Að mistakast 19 sinnum og ná árangri í 20. sinn er skilgreining á þrautseigju, en það hefur líka verið sagt að ef maður geri sama hlutinn aftur og búist við annarri niðurstöðu í seinna skiptið sé merki um geðveilu.
Við höfum ekki tíma eða efni á að vera hugsanalöt. Við verðum hvert og eitt að líta í eigin barm, hugsa um framtíðina og ákveða hvernig henni er best borgið. Heiðarlegt uppgjör við fyrri ákvarðanir er nauðsyn, henda út því sem er ónothæft og hugsa hlutina uppá nýtt.
Ég er í kastþröng (aftur), er enn pólitískt viðrini og er búin að finna alls einn pólitíkus sem ég gæti hugsað mér að starfaði áfram.
Ætlum við að gefa sama fólki annað tækifæri? Ætlum við taka þá áhættu að flokkarnir geti núna unnið sitt verk, þó að allt bendi til þess flokkakerfið sé mannskemmandi og er ekki hæft til að fara með völd?
Ragnheiður Erla Rósarsdóttir
______________________________________________
Þetta stórfína bréf Ragnheiðar Erlu minnti mig semsagt á Hannes Hólmstein Gissurarson og fleyg orð hans um hvað sjálfstæðismenn væru ópólitískir og vildu bara láta leiðtogann teyma sig áfram og hugsa fyrir sig. Þetta er nefnilega satt. Sumir nenna ekki að hugsa - hvað þá gagnrýnið og sjálfstætt!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
17.3.2009
Gestir í Kastljósi kvöldsins
Kannski er þetta oft svona - en sem ég var að klippa Kastljós kvöldsins skellti ég allt í einu upp úr og var smástund að fatta af hverju. Þetta er ástæðan. Kannski finnst engum þetta fyndið nema mér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.3.2009
Áfram Austurvöllur!
Ég hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar minnst á Hjálmar Sveinsson og þáttinn hans, Krossgötur, sem mér finnst með þeim albestu í útvarpi nú um stundir. Í Krossgötum fjallar Hjámar um alls konar samfélagsmál og gerir þeim ítarleg skil. Fyrr í vetur fékk Hjámar viðurkenningu frá Skipulagsfræðingafélagi Íslands fyrir sérlega vandaða umfjöllun um skipulagsmál í Krossgötuþáttum sínum og var hann svo sannarlega vel að henni kominn.
En Hjálmari er fleira til lista lagt en að gera frábæra útvarpsþætti. Á síðasta mótmælafundi á Austurvelli hélt hann ræðu ásamt Aðalheiði Ámundadóttur. Það mígrigndi, völlurinn var eitt forarsvað og fáir mættu - en ræður þeirra Aðalheiðar og Hjálmars voru fantagóðar og afleitt að fólk missi af þeim. Aðalheiður birtir sína ræðu á blogginu sínu hér, en ég fékk leyfi til að birta ræðu Hjálmars.
Í dag eru fjölmiðlar landsins uppfullir af myndum af fólki sem er að biðja okkur að styðja sig í prófkjörum helgarinnar. Helst í eitt af efstu sætunum. Nú er stóra prófkjörshelgin. Frambjóðendur segja að verkefnið sé risavaxið, þeir tala um endurreisn og jafnvel endurnýjun. Sumir þeirra eru meira að segja komnir í lopapeysu. Og það eru víst allir boðnir í kaffi í dag. Í dag vilja frambjóðendur alveg endilega ræða við okkur
Það er gott að fólk vilji bjóða sig fram - að það skuli vilja starfa í pólitískum flokkum og berjast fyrir pólitískum hugsjónum um gott og réttlátt samfélag. Við skulum ganga út frá því að það sé ástæðan fyrir framboði. Stjórnmál skipta máli, hlutverk þeirra í samfélaginu er mikilvægt. Hin leiðin, þar sem stjórnmál áttu ekki að hafa neitt annað hlutverk en að búa í haginn fyrir fjárfesta, hefur lent í miklu ógöngum. Og þar er kannski að finna ástæðuna fyrir því að samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup ber aðeins 13% þjóðarinnar mikið traust til Alþingis. Aðeins 13%, það er ótrúlega dapurlegt. 80% bera mikið traust til Háskóla Íslands og 79 % til lögreglunnar. En þetta litla traust getur ekki verið neinum öðrum að kenna en þingmönnum sjálfum.
Þess vegna vekur það athygli að 80% sitjandi þingmanna sækjast eftir endurkjöri: Þeir vilja vera áfram á þingi. Það er nokkuð há tala miðað við hið litla traust sem þingið nýtur. Reynslan sýnir að sitjandi þingmenn eiga mun meiri möguleika í prófkjörum en þeir sem koma nýir inn. Það er kannski ekkert skrýtið - en ef þetta verður raunin eftir prófkjörshelgina miklu, ef sáralítið endurnýjun mun hafa átt sér stað - hljóta margir að pæla í því í kosningunum í apríl hvort ekki sé rétt að skila auðu eða að kjósa nýja flokka, sem ætla að bjóða fram.
Gleymum því ekki að þingmennirnir sem við kjósum taka að sér að vera okkar rödd á þingi. Rödd og atkvæði er nánast sama orðið í mörgum evrópskum tungumálum. Það er mikilvægt að minna þingmenn á þetta reglulega og ekki bara þegar eru kosningar til þings. Það er nefnilega ekki þannig að við borgararnir höfum alfarið afsalað okkur rödd okkar með því að greiða atkvæði. Við höfum rödd til að tjá okkur - heima hjá okkur, út á götu, á internetinu, í fjölmiðlum - já, og hér á Austurvelli fyrir utan þinghúsið. Austurvöllur er ótrúlega mikilvægur staður.
Það er áríðandi að rifja þetta upp vegna þess að hér á landi hefur ríkt sterk tilhneiging til þöggunar. Á góðæristímanum mikla - eða ætti maður kannski að tala um blekkingartímann mikla - voru allar gagnrýnisraddir dregnar í dilk sem var merktur nöfnum eins og: "öfgamenn, hælbítar, kverúlantar og afturhaldskommatittir". Svo dæmi sé tekið var fréttaskýringarþátturinn Spegillinn á ríkisútvarpinu kallaður hæðnislega Hljóð-viljinn" og þáttarstjórnendur sakaðir um linnulausan áróður og vinstrislagsíðu í aðdraganda innrásar Bandaríkjamanna í Írak 2003. Þess var krafist að þeir yrðu settir undir strangari ritstjórn. Síðar kom í ljós að allt var rétt sem kom fram í þættinum, enda höfðu heimildirnar verið mjög áreiðanlegar og í raun öllum aðgengilegar. Engin gjöreyðingarvopn voru í Írak, ekkert úran var flutt frá Nígeríu til Íraks, það voru engin tengsl milli Íraksstjórnar og Al Kaída. Og svo kom líka fram, sem búið var að spá, að innrásin leiddi til glundroða og hræðilegrar borgarastyrjaldar þar sem tugir þúsunda saklausra borgara hafa fallið.
Nú er talað um að allir sem áttu að fylgjast með og gæta hagsmuna almennings hér á landi, hafi brugðist undanfarin ár. Það er alveg rétt. Fjölmiðlar hafa brugðist, á því er ekki nokkur vafi og í raun ætti að koma fram krafa um endurnýjun í heimi fjölmiðla alveg eins á Alþingi. En þegar litið er yfir sviðið má segja að sú endurnýjun sé furðulega lítil. Ritstjórar, fréttastjórar, ritstjórnafulltrúar og útvarpsstjórar eiga ekki að vera undanþegnir gagnrýni. Það er meðal annars þeirra hlutverk að styðja blaðamenn, fréttaskýrendur og dagskrárgerðarfólk sem er tilbúið að leggja á sig að fjalla á vandaðan, málefnalegan en gagnrýninn hátt um samfélagsmál. Tilhneigingin er hins vegar stundum sú, að vilja dempa gangrýna umfjöllun til að hafa gott veður.
Það er líka afar slæm þróun sem hefur aðeins örlað á síðustu misserin þegar blaðmenn og valdamikið fólk í samfélaginu, til að mynda bankamenn og aðstoðarmenn ráðherra, virðast komnir í sama liðið. Hér er dæmi. Svokölluð kúlulán hafa verið aðeins til umfjöllunar. Sérstakir útvaldir starfsmenn eða jafnvel aðstoðarmenn ráðherra fengu þau í bönkunum. Það gátu verið 60 milljónir eða 150 milljónir. Viðkomandi gátu notað þessa peninga og látið þá búa til meiri peninga, skilað þeim síðan en hirt ágóðann sem gat jafnvel skipt tugum milljóna. Ég heyrði um daginn í útvarpinu af útvöldum manni sem hafði fengið 150 milljóna kúlulán. Þegar hann varð þess var ekki alls fyrir löngu að stórt blað hér á landi, eins og hann orðaði það, hafi fengið áhuga á málinu, sagðist hann hafa hringt í viðkomandi blaðamann eða ritstjóra og menn hefðu orðið sammála um að þetta væri ekki fréttamál. En hvað er þá fréttamál? Vilhjálmur Bjarnason hefur sagt að mál af þessu tagi eigi sinn þátt í spillingu og hruni = siðlausir viðskiptahættir.
Eitt að lokum. Undanfarin ár var gagnrýni illa séð og að lokum var ástandið orðið þannig að ekki mátti tala um hlutina af ótta við að allt hryndi. Það minnir svolítið á leikritið fræga eftir Max Frisch - Biedermann og brennuvargana. Brennuvargarnir bera bensíntunnur upp á loft hjá Gottlieb Biedermann, en hann telur sér trú um að allt hljóti þetta að fara vel og það sé best að hafa alla góða og spyrja engra óþægilegra spurninga. Tímabilið í Íslandssögunni sem við höfum nú kvatt var í svipuðum dúr. Það var talin borgaraleg skylda að tala hlutina upp", þeir sem gerðu það ekki lentu í dilknum sem var nefndur áðan. Nú vitum við hvernig fer þegar ekki má tala um hlutina nema að tala þá upp. Verum því á varðbergi núna og alveg sérstaklega eftir kosningar í vor þegar forstjórar, bankastjórar og ráðherrar fara vara við neikvæðni" og niðurrifi" eins og það verður kallað. Slíkar raddir eru þegar farnar að heyrast. Við skulum ekki taka mark á þeim - en leitast alltaf við að vera málefnaleg. Þess vegna segi ég að lokum: ÁFRAM AUSTURVÖLLUR!
Að lokum hengi ég hér við þrjá síðustu Krossgötuþætti Hjálmars ef fólk vill kynna sér það sem hann fjallar um á þeim vettvangi. Enginn ætti að sjá eftir þeirri hlustun. Þættirnir eru á dagskrá Rásar 1 klukkan 13 á laugardögum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.3.2009
Silfuröld í Silfri dagsins
Í sögulegu samhengi þýðir orðið silfuröld tímabil sem tekur við af gullöld þegar nokkurrar hnignunar er tekið að gæta, og á þetta einkum við um skeið í sögu Grikkja og Rómverja. Í Silfri dagsins var 47 mínútna silfuröld - endurkoma stjórnmálamanna. Spurning hvað Egill hyggst gera í þáttunum fram á vor. Í fyrra var síðasti þáttur fyrir sumarleyfi 25. maí og ef miðað er við svipaða dagsetningu nú eru 10 þættir eftir.
Ekki þar fyrir... það má notfæra sér þætti með pólitíkusunum, þeir láta oft ýmiss konar gullkorn út úr sér. En ég hugsaði með mér í dag eftir um 20 mínútur af þeim: "Nú gefst einhver upp og hættir að horfa." Og viti menn - klukkutíma seinna hringdi vinkona mín sem hefur horft á alla þættina í vetur og sagðist ekki hafa nennt þessu blaðri og hávaða þar sem hver greip fram í fyrir öðrum, talað var í kross og engin leið að heyra hvað hver sagði. En hér er Silfrið í klappstýrubúningi að venju.
Vettvangur dagsins - Svanhildur Hólm, Pétur Gunnarsson og Páll Ásgeir
Draumalandið hans Andra Snæs verður frumsýnt 8. apríl og verður mögnuð mynd
Silfuröldin - Sigmundur Davíð, Guðfríður Lilja, Árni Páll og Bjarni Ben
Viðtalið í norska sjónvarpinu við Evu Joly - sjá það og einnig útvarpsviðtal í mynd hér
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)